Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 219. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 453  —  219. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvars um skatttekjur ríkissjóðs árið 2004.

     1.      Hverjar hefðu tekjur ríkissjóðs orðið af tekjuskatti einstaklinga vegna tekjuársins 2004 ef skatturinn hefði numið 18% af öllum launatekjum að undanteknum atvinnuleysisbótum, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar en vaxta- og barnabætur hefðu verið óbreyttar frá því sem var?
    Samanlagður tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga vegna tekjuársins 2004 nam 527 milljörðum kr. samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Ef atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur frá Tryggingastofnun eru ekki taldar með lækkar tekjuskatts- og útsvarsstofninn í 492 milljarða kr. Tekjur ríkissjóðs af 18% tekjuskatti miðað við framangreindan tekjuskattsstofn hefðu numið um 89 milljörðum kr. og er þá ekki gert ráð fyrir persónuafslætti. Ef frádreginn persónuafsláttur væri sá sami og í álagningu 2005 hefðu tekjur ríkissjóðs numið um 20 milljörðum kr. Vaxta- og barnabætur koma ekki inn í þennan útreikning.

     2.      Hverjar voru tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga af tekjuskatti einstaklinga vegna tekjuársins 2004?

    Samkvæmt álagningu skattstjóra árið 2005 vegna tekjuársins 2004 voru opinber gjöld einstaklinga vegna almenna tekjuskattsins 67.125 millj. kr. og sérstaka tekjuskattsins 1.411 millj. kr. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2004 námu tekjur ríkissjóðs af staðgreiðslu ársins 61.704 millj. kr. og af sérstökum tekjuskatti 1.161 millj. kr. Tekjur af eftirstöðvum tekjuskatts frá fyrri árum námu 2.141 millj. kr.

     3.      Hve miklu skilaði núverandi virðisaukaskattskerfi vegna ársins 2004?

    Heildartekjur af virðisaukaskatti árið 2004 námu 96.433 millj. kr. samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2004. Tekjurnar skiptust þannig að tekjur af innfluttum vörum námu 60.197 millj. kr., tekjur af sölu vöru og þjónustu námu 43.859 millj. kr. og endurgreiðslur námu 7.623 millj. kr.

     4.      Hverju hefði virðisaukaskattur skilað hefði hann verið í einu þrepi og numið 21,95%, þ.e.18% af útsöluverði, þó með þeim undanþágum sem nú eru í gildi?

    Virðisaukaskattur af sölu vöru og þjónustu hefði skilað um 43 milljörðum kr. árið 2004 ef skatturinn hefði numið 21,95%. Virðisaukaskattur af innfluttum vörum hefði skilað um 56 milljörðum kr. Samtals hefði því 21,95% virðisaukaskattur skilað ríkissjóði um 99 milljörðum kr. Ekki eru forsendur til að meta breytingu á endurgreiðslum og eru þær ekki taldar með í þessum samanburði.

     5.      Hve miklu skilaði núverandi fjármagnstekjuskattur árið 2004 og hve miklu hefði 18% fjármagnstekjuskattur skilað að óbreyttum skattstofni?
    Tekjur af fjármagnstekjuskatti námu 13.544 millj. kr. árið 2004 samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2004. Væri fjármagnstekjuskatturinn 18% hefðu tekjurnar orðið 24.397 millj. kr.

     6.      Hve miklu hefði 18% skattur af dagpeningum og bifreiðastyrkjum skilað?

    Stofn til álagningar tekjuskatts af dagpeningum og bifreiðastyrkjum nam 2.464 millj. kr., sem skiptast þannig að dagpeningar og bifreiðastyrkir námu samtals 11.616 millj. kr. en frádráttur á móti þessum tekjum nam 9.152 millj. kr. 18% skattur hefði skilað ríkissjóði 444 millj. kr. í tekjur.

     7.      Hve hárri fjárhæð námu vörugjöld af öðrum vörum en áfengi, eldsneyti, bifreiðum og tóbaki árið 2004?

    Vörugjöld af öðrum vörum en áfengi, eldsneyti, bifreiðum og tóbaki námu 6.256 millj. kr. samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2004.

     8.      Hve miklu hefði 10% sérstakur tekjuskattur á tekjur yfir 500 þús. kr. á mánuði skilað?

    Ef gert er ráð fyrir að sömu reglur gildi og í núverandi skattkerfi varðandi sérstakan tekjuskatt en miðað við að sérstakur tekjuskattsstofn einhleypings sé yfir 6 millj. kr. og 12 millj. kr. hjá hjónum, hefðu tekjur af þessum sérstaka tekjuskatti numið um 1,2 milljörðum kr.