Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 491  —  351. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingvar Sverrisson frá Alþýðusambandi Íslands, Sesselju Árnadóttur frá félagsmálaráðuneyti og Álfheiði M. Sívertsen frá Samtökum atvinnulífsins.
    Í gildandi lögum er miðað við þrjú stjórnsýslustig en í 16. gr. laganna er gert ráð fyrir málskoti til stjórnar sjóðsins áður en heimilt er að kæra til ráðherra. Stjórn sjóðsins hefur gert þjónustusamning við Vinnumálastofnun um daglega umsýslu og annast hún afgreiðslu umsókna í umboði stjórnar sjóðsins. Litið er svo á að ákvörðun hafi verið tekin af stjórnvaldinu Ábyrgðasjóður launa hvort sem starfsmenn Vinnumálastofnunar eða stjórn sjóðsins hefur fjallað um málið. Ákvarðanir teknar í umboði stjórnar sjóðsins eru kæranlegar til félagsmálaráðherra. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er verið að treysta þessa framkvæmd. Stjórnsýslustigin eru þá tvö en heimild aðila til að höfða mál fyrir dómstólum er ekki skert.
    Í frumvarpinu er auk þess lagt til að ábyrgðargjald hækki úr 0,04% í 0,1%. Þetta er óhjákvæmileg hækkun en eigið fé sjóðsins var uppurið í lok árs 2003. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að halla sjóðsins verði náð niður á sex árum ásamt því að sjóðurinn standi undir útgjöldum sínum. Ef ekkert verður að gert mun skuld sjóðsins við ríkissjóð nema um 2 milljörðum kr. að þessum sex árum liðnum.
    Nefndin telur mikilvægt að unnið verði til samræmis við tillögur sem koma fram í úttekt sem Ábyrgðasjóður launa lét gera undir lok ársins 2004. Hún telur jafnframt nauðsynlegt að koma í veg fyrir óeðlilegt fjárstreymi úr sjóðnum og tryggja fjárhagsstöðu hans.
    Rætt var í nefndinni um þörf á að gera breytingu á lögum um Ábyrgðarsjóð launa til samræmis við frumvarp fjármálaráðherra sem nú liggur fyrir þinginu um breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði og tengist samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um hækkun iðgjaldagreiðslna til lífeyrissjóða. Á þessari stundu er ekki ljóst hvenær framangreint frumvarp nær fram að ganga og er því ekki gerð tillaga um breytingu á lögunum að svo stöddu.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    

    Alþingi, 5. des. 2005.



Siv Friðleifsdóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Bjarni Benediktsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Pétur H. Blöndal.



Magnús Þór Hafsteinsson.


Birkir J. Jónsson.


Valdimar L. Friðriksson.