Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.

Þskj. 504  —  398. mál.



Skýrsla

iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Hér með leggur iðnaðarráðherra fram á Alþingi skýrslu um framvindu stefnumótandi áætlunar ríkisstjórnarinnar í byggðamálum fyrir árin 2002–2005 í samræmi við 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 347/2000. Í skýrslunni er gerð grein fyrir meginþáttum byggðaáætlunarinnar, helstu aðgerðum sem stjórnvöld hafa staðið fyrir í því skyni að ná markmiðum hennar og lagt mat á hvernig til hafi tekist. Ráðherra hefur tvívegis lagt fram samsvarandi framvinduskýrslur á Alþingi vegna gildandi byggðaáætlunar: á 130. löggjafarþingi 2003–2004, þskj. 842 í 563. máli, og á 131. löggjafarþingi 2004–2005, þskj. 218 í 216. máli.

Meginþættir byggðaáætlunar.

    Alþingi samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 3. maí 2002:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi:
     a.      Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.
     b.      Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.
     c.      Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.
     d.      Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.
     e.      Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.“
    Lagt var til að þær aðgerðir sem beitt yrði til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar byggðust á eftirtöldum meginstoðum: Traustu og fjölbreyttu atvinnulífi, öflugum byggðarlögum, aukinni þekkingu og hæfni, bættum samgöngum og áherslu á sjálfbæra þróun.
    Byggðaáætlunin hefur 12 stefnumarkandi áherslusvið:
     1.      Nýting sóknarfæra í atvinnulífi.
     2.      Markvisst þróunarstarf í öllum landshlutum.
     3.      Skilvirkt stuðningskerfi atvinnulífs.
     4.      Stefnumótun innan atvinnugreina með framleiðslustýringu.
     5.      Efling sveitarfélaga.
     6.      Búsetuskilyrði.
     7.      Starfsskilyrði atvinnuveganna.
     8.      Mikilvægi menningar.
     9.      Efling Akureyrar sem byggðakjarna fyrir Norður- og Austurland.
     10.      Bættar samgöngur.
     11.      Greiður aðgangur að fjarskipta- og upplýsingatækni.
     12.      Aukið alþjóðlegt samstarf.
    Samþykkt Alþingis fylgdu tillögur um aðgerðir í 22 liðum til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar. Aðgerðirnar eru ekki tæmandi og taka ekki til allra þeirra viðfangsefna sem fjallað er um í framangreindum stefnumarkandi áherslusviðum. Tiltekin ráðuneyti eða Byggðastofnun bera ábyrgð á framkvæmd hverrar hinna 22 aðgerða. Til þess að tryggja sem best framgang áætlunarinnar var skipuð sérstök verkefnastjórn til að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni. Hana skipa fulltrúar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Hlutverk verkefnastjórnarinnar er nánar tilgreint að fylgjast með framgangi verkefna samkvæmt tillögunum 22 um beinar aðgerðir, upplýsa viðkomandi ráðuneyti um framgang byggðaáætlunar eins og þurfa þykir og beita sér eftir þörfum fyrir því að unnið sé að framgangi áætlunarinnar. Verkefnastjórnin skal gera iðnaðarráðherra grein fyrir framkvæmd og framvindu byggðaáætlunarinnar árlega.

Öflun efniviðar.

    Iðnaðarráðherra óskaði með bréfi, dags. 31. maí 2005, eftir því að Byggðastofnun legði heildarmat á hvernig til hefði tekist við framkvæmd gildandi byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Tekið var fram að æskilegt væri að Byggðastofnun leitaði í þessu efni álits atvinnuþróunarfélaga og sveitarfélaga. Svar stofnunarinnar, dags. 30. ágúst 2005, er birt í heild sinni í næsta kafla skýrslunnar. Þá aflaði iðnaðarráðherra upplýsinga frá þeim ráðuneytum sem fulltrúa eiga í verkefnisstjórn um framvindu byggðaáætlunarinnar, auk forsætisráðuneytis og Byggðastofnunar, um framvindu þeirra aðgerða sem þeim var falin ábyrgð á í byggðaáætluninni og/eða upplýsinga um aðrar aðgerðir sem unnið kynni að hafa verið að á þeirra vegum og tengdust meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar. Einungis var óskað eftir viðbótarupplýsingum við það sem þegar hefur verið gerð grein fyrir í skýrslum iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Þá var óskað eftir því að Impra nýsköpunarmiðstöð á Akureyri gæfi yfirlit yfir helstu verkefni sín. Upplýsingar bárust frá öllum framangreindum aðilum.

Heildarmat Byggðastofnunar á framvindu byggðaáætlunarinnar.

    Bréf Byggðastofnunar til iðnaðarráðherra, dags. 30. ágúst 2005, fer orðrétt hér á eftir:
Inngangur.
    Með bréfi dagsettu 31. maí 2005 fól iðnaðarráðuneytið Byggðastofnun að leggja heildarmat á hvernig til hefði tekist við framkvæmd gildandi byggðaáætlunar.
    Byggðaáætlun 2002–2005 hljóðar svo:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi:
     a.      Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.
     b.      Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.
     c.      Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.
     d.      Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.
     e.      Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.“
    Í greinargerð með áætluninni kemur fram að þær aðgerðir sem beitt verði til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar byggist á fimm meginstoðum og að áætlunin hafi 12 stefnumarkandi áherslusvið. Á grundvelli þeirra er svo gerð grein fyrir aðgerðaráætlun með 22 verkefnum til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar
    Hin fimm meginmarkmið byggðaáætlunar eru almennt orðuð eins og bent var á í umsögn Byggðastofnunar um framkvæmd áætlunarinnar í nóvember 2003.

Álit umsagnaraðila.
    Tekið var fram í bréfi iðnaðarráðuneytisins að æskilegt væri að Byggðastofnun leitaði við vinnu sína álits atvinnuþróunarfélaga og sveitarfélaga á framvindu byggðaáætlunarinnar.
    Öllum sveitarfélögum, landshlutasamtökum sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélögum var sent bréf þann 15. júní með ósk um umsögn. Hér á eftir eru tilgreind nokkur atriði sem fram koma í svörum umsagnaraðila.
    Í nokkrum umsögnum aðila sem Byggðastofnun leitaði til, kom fram að meginmarkmið byggðaáætlunar hafi verið skýrari en í fyrri áætlunum og að hún hafi í raun verið fyrsta langtímastefnumótun í byggðamálum þar sem skilgreind eru markmið, áherslusvið og verkefni. Hins vegar kemur einnig fram það sjónarmið að þrátt fyrir að markmið byggðaáætlunar séu góð, hafi nokkuð skort á að þeim hafi verið fylgt eftir með framkvæmdum. Af einstökum markmiðum virðist að áhersla á að efla þau byggðarlög sem hafa mest aðdráttarafl sé umdeildast og ljóst af svörum nokkurra sveitarfélaga að þau telja sig afskipt í byggðaaðgerðum.
    Bent var á að ekki eru settir fram í byggðaáætluninni mælikvarðar sem hægt sé að bera árangur við. Sömuleiðis kemur fram sú skoðun að byggðaáætlun sé til of skamms tíma og þyrfti að vera t.d. til 12 ára líkt og t.d. samgönguáætlun. Stofnunin tekur undir bæði þessi sjónarmið.
    Í svörum af Vesturlandi kemur fram það sjónarmið að hlutur Vesturlands í byggðaáætlun hafi verið rýr nema sem þátttakandi í almennum byggðaaðgerðum. Í svari Borgarbyggðar er bent á möguleika svæðisins til að taka við verkefnum á vegum opinberra aðila og þar tilgreind Náttúrufræðistofnun Íslands og starfsemi tengd landbúnaði.
    Í svörum Vestfirðinga kemur m.a. fram að byggðaaðgerðir hafi ekki náð að stöðva fækkun íbúa og starfa og árangur að því leyti ekki viðunandi. Vonir eru hins vegar bundnar við þau verkefni sem skilgreind eru í Vaxtarsamningi Vestfjarða. Fjórðungssamband Vestfirðinga nefnir Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri sem dæmi um vel heppnaða byggðaaðgerð og telur að setja eigi upp nýsköpunarmiðstöðvar á fleiri stöðum til þess að efla atvinnulíf.
    Á Norðurlandi vestra kemur fram það almenna sjónarmið að landshlutinn hafi verið afskiptur í aðgerðum stjórnvalda í byggðamálum. Í greinargerð SSNV kemur fram að markmið byggðaáætlunar séu raunhæf og mikilvæg, en að skort hafi á aðgerðir.
    Jákvæðar væntingar koma fram til Vaxtarsamnings Eyjafjarðar á Norðurlandi eystra, en stjórnvöld eru þó gagnrýnd fyrir að hafa ekki staðið sig sem skyldi við flutning starfa í opinberri þjónustu til svæðisins. Í umsögn sveitarfélags á Eyjafjarðarsvæði kemur einnig fram sú gagnrýni að Vaxtarsamningur Eyjafjarðar nái fyrst og fremst til Akureyrar. Í Þingeyjarsýslu kemur fram sambærileg gagnrýni um að lítið fari fyrir hagsmunum Þingeyinga í framkvæmd samningsins.
    Í svari bæjarráðs Hornafjarðar kemur fram að tæknibreytingar í grunnatvinnugreinum hafi leitt til fólksfækkunar. Á ýmsum sviðum er þróunin þó jákvæð og fram kemur að mikið þróunarstarf er unnið í sveitarfélaginu á ýmsum sviðum. Nýlega voru opnuð jarðgöng undir Almannaskarð, en áhersla er lögð á frekari samgöngubætur, svo sem nýja brú yfir Hornafjarðarfljót, fækkun einbreiðra brúa, endurbætur á innsiglingu til Hornafjarðar og öruggar flugsamgöngur.
    Í svörum af Suðurlandi er einnig lögð áhersla á samgöngu- og fjarskiptamál. Í svari Vestmannaeyjarbæjar kemur fram að möguleikar á að flytja störf á vegum hins opinbera út á landsbyggðina hafi ekki verið nýttir sem skyldi. Þar er sérstaklega tilgreind Vaktstöð siglinga, en niðurstaðan var að setja hana niður í Reykjavík. Samband sunnlenskra sveitarfélaga telur meðal annars að móta þurfi byggðastefnu sem sé sérhæfð fyrir hvern landshluta að teknu tilliti til atvinnuhátta, samfélagshátta og menningarlífs.
    Mat sveitarfélaga á Reykjanesi er að heldur lítið hafi farið fyrir áhrifum eða framkvæmdum sem rekja megi til byggðaáætlunar. Framkvæmd sem hefur jákvæð áhrif á búsetuskilyrði er tvöföldun Reykjanesbrautar.
    Í svari Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að markmið byggðaáætlunar séu almenn og opin og því ekki einfalt að leggja mælikvarða sem segi hvort markmiðssetningin hafi gengið eftir eða ekki. Bent er á að það tímabil sem valið er til að leita svara sé óheppilegt þar sem fjöldi sveitarstjórna sé í reglubundnu sumarleyfi á þessum tíma. Sambandið vísar einnig í eigin stefnumörkun í byggðamálum frá árinu 2002.

Breytingar á áætlunartímabilinu.
    Breytingar á búsetu og flutningar fólks úr dreifbýli í þéttbýli eru ekki séríslenskt fyrirbæri heldur hluti af þróun sem á sér stað um allan heim. Fólk kýs sér í vaxandi mæli búsetu í stærra þéttbýli og metur það svo að þar sé að finna fjölbreyttari möguleika á ýmsum sviðum. Aðgerðir stjórnvalda í byggðamálum verða að taka mið af þessum staðreyndum, sem og þeir mælikvarðar sem notaðir eru til að meta árangur byggðaaðgerða.
    Ef hugað er að þróun byggðamála á áætlunartímanum, þ.e. frá ársbyrjun 2002 til dagsins í dag, þá er hægt að fullyrða að víða hefur mikið áunnist þótt þróunin hafi orðið mismunandi eftir svæðum. Við slíku er að búast. Eðlilegt er einnig að horfa til þróunar á stærri landsvæðum fremur en einstökum sveitarfélögum.
    Þegar tölur um íbúaþróun á landinu á tímabilinu 1996–2000 og svo aftur 2000–2004 eru skoðaðar kemur í ljós að á fyrra tímabilinu fækkaði íbúum landsbyggðar um rúmlega 2000 en fjölgaði um tæplega 1500 á síðara tímabilinu. 1996–2000 fækkaði í öllum gömlu kjördæmunum utan höfuðborgarsvæðisins, nema á Reykjanesi og Suðurlandi. Á tímabilinu 2000–2004 hefur þróunin breyst á þann veg að nú er einungis fækkun í tveim gömlu kjördæmanna, þ.e. Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Á það er líka vert að benda að í þeim kjördæmum þar sem fækkar hefur hægt á fækkuninni.
    Fram hjá því verður ekki horft að sé kafað dýpra blasir við að innan gömlu kjördæmanna hefur íbúaþróunin verið afar mismunandi. Sé horft til þjónustusvæða þá styrkjast þau svæði sem næst Reykjavík eru, bæði á Vesturlandi, Suðurlandi og Reykjanesi. Einnig Akureyri og þau sveitarfélög sem næst Akureyri eru. Þá hefur orðið alger viðsnúningur á Miðausturlandi og þar er nú mikil fjölgun þar sem áður hafði verið mikil fólksfækkun um langt árabil. Það er áhyggjuefni hversu mjög íbúum hefur fækkað á svæðinu frá Dalabyggð norður og austur um til Vopnafjarðar að Eyjafjarðarsvæðinu undanskildu, á sunnanverðum Austfjörðum, í Skaftafellssýslum og Vestmannaeyjum.
    Sé skoðað hvernig atvinnuleysi hefur þróast á undanförnum árum þá var atvinnuleysi meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu árið 2001. Árin síðan og það sem af er árinu 2005 hefur atvinnuleysi verið meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Rétt er þó að hafa í huga að atvinnuleysi er mjög lítið um þessar mundir.
    Hvað meðalatvinnutekjur varðar þá hefur þróunin verið sú á milli áranna 2001 og 2004 að á höfuðborgarsvæðinu hafa meðaltekjurnar hækkað um rúm 16% en utan höfuðborgarsvæðisins um rúm 12%. Árið 2001 voru meðallaun utan höfuðborgarsvæðisins rúmlega 13% lægri en meðallaun á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2004 er þetta hlutfall komið í 16%. Athyglisvert er að eina svæðið á landsbyggðinni sem er með meiri hækkun meðalatvinnutekna en höfuðborgarsvæðið er Austurland en þar hækkuðu meðalatvinnutekjur um nær 19% á milli áranna 2001 og 2004. Vissulega er myndin önnur ef horft er til minni svæða en gömlu kjördæmanna en þetta er hin stóra mynd sem við blasir.
    Íbúaþróunin hefur verið hagstæðari fyrir landsbyggðina en áður. Atvinnuleysið er minna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar hafa atvinnutekjur verið og eru lægri á landsbyggðinni og dregur raunar heldur í sundur.

Aðgerðir utan byggðaáætlunar.
    Fyrir utan þær 22 tillögur sem kynntar voru í greinargerð með þingsályktun til byggðaáætlunar 2002–2005, sem langflestum hefur verið hrint í framkvæmd, þá hefur á tímabili núgildandi byggðaáætlunar verið gripið til ýmissa aðgerða af hálfu stjórnvalda til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar 2002–2005.
    Fyrst ber að nefna byggingu raforkuvers við Kárahnjúka og álvers á Reyðarfirði og þau áhrif sem þessar framkvæmdir hafa haft og munu hafa á íbúaþróun og launatekjur á Austurlandi. Áhrif framkvæmdanna ná þó til landsins alls. Þá er og vert að benda á framkvæmdir við stækkun álvers Norðuráls við Grundartanga og virkjanaframkvæmdir því fylgjandi. Þó svo að vissulega sé það svæði í jaðri höfuðborgarsvæðisins þá er ljóst að framkvæmdirnar þar hafa þegar haft jákvæð áhrif á byggðaþróun á sunnanverðu Vesturlandi og munu þau áhrif eiga eftir að verða meiri.
    Hér er og rétt að benda á ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 11. febrúar 2003 um sérstakt 700 millj. kr. framlag til þess annars vegar að leggja fram hlutafé í sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í skýrum vexti og hins vegar styðja rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna til að styðja grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar. Þetta hefur nú þegar skilað markverðum árangri.
    Gerður hefur verið vaxtarsamningur um Eyjafjarðarsvæðið og er framkvæmd þeirra verkefna sem þar er kveðið á um vel á veg komin. Sömuleiðis hefur verið gerður vaxtarsamningur fyrir Vestfirði og er vinna hafin samkvæmt honum. Loks er vinna hafin við undirbúning vaxtarsamnings fyrir Suðurland með áherslu á Vestmannaeyjar og Vestur-Skaftafellssýslu.
    Uppbygging háskólanna á Akureyri, Bifröst, Hólum og Hvanneyri hefur haft, og mun hafa, mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun bæði í næsta nágrenni en einnig vítt um byggðir. Hið sama mun gerast í tengslum við háskólanám á Vestfjörðum og Austurlandi. Þá er og sérstök ástæða til að geta aukinna og bættra möguleika til fjarnáms á framhaldsskóla- og háskólastigi um land allt.
    Bygging menningarhúsa er verkefni sem sömuleiðis styrkir grundvöll búsetu og stuðlar að jákvæðari byggðaþróun en ella hefði orðið. Þetta samstarfsverkefni ríkis og heimamanna er nú komið á góðan rekspöl. Hið sama á við um menningarsamninga sem gerðir hafa verið á Austurlandi og víðar.
    Vert er einnig að benda á stuðning ríkisvaldsins við væntanlega kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal og vörubrettaverksmiðju í Mývatnssveit en báðar framkvæmdirnar munu skipta mjög miklu máli í atvinnulegu tilliti á viðkomandi stöðum ef af verður. Þá er og rík ástæða til að nefna ákvörðun landbúnaðarráðuneytis um staðsetningu hinnar nýju Landbúnaðarstofnunar á Selfossi og ákvörðun sjávarútvegsráðuneytis um fjölgun starfa á vegum Fiskistofu víðs vegar um land en þessar aðgerðir hafa mjög góð áhrif á viðkomandi stöðum.
    Vakin er athygli á mikilvægi samgöngubóta fyrir afkomu og lífskjör íbúa landsbyggðarinnar. Þær stórstígu framfarir sem orðið hafa á vegakerfinu á undanförnum árum, bæði með gerð jarðganga, lagningu bundins slitlags, tvöföldun fjölfarinna vega og gerð nýrra vega sem stytta akstursleiðir á milli byggðarlaga, draga úr mismun á lífskjörum íbúanna og bæta rekstrarskilyrði fyrirtækjanna.

Niðurstaða.
    Það er mat Byggðastofnunar að árangur þeirra aðgerða sem ríkisvaldið hefur ráðist í á gildistíma byggðaáætlunar 2002–2005 sé verulegur og sums staðar mjög mikill. Aðgerðir hafa þó ekki skilað nægum árangri á nokkrum landsvæðum, svo sem Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, norðausturhorninu, sunnanverðum Austfjörðum, Skaftafellssýslum og Vestmannaeyjum. Við því þarf að bregðast og hefur þegar verið gert að nokkru leyti, svo sem með gerð vaxtarsamnings fyrir Vestfirði, vinnu sem nú er í gangi við gerð vaxtarsamnings fyrir hluta Suðurlands og Vestmannaeyjar og skipun nefndar um stefnumörkun í byggðamálum á Austurlandi. Á það verður að leggja áherslu að frumkvæði og kraftur heimamanna skiptir ætíð mestu máli þegar kemur að því að takast á við breytingar í atvinnuháttum og samfélagsþróun. Skorti þar á verða aðgerðir af hálfu opinberra aðila gagnslitlar.“


Framvinda aðgerða sem lagðar voru til í byggðaáætlun.


1. Endurskipulagning atvinnuþróunar á landsbyggðinni – nýsköpunarmiðstöð á Akureyri.
Meginhugmynd Að ríkisvaldið hafi forustu um að sameina krafta þeirra opinberu aðila og félaga sem vinna að nýsköpun og eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um sameiningu atvinnuþróunarstarfs á vegum iðnaðarráðuneytisins. Lagt er til að nýsköpunarmiðstöð, sbr. frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, verði falið að samræma þessa starfsemi á landsvísu og að veita henni faglegan stuðning. Gert er ráð fyrir að starfsemi nýsköpunarmiðstöðvar verði komið fyrir í fyrirhuguðu Rannsóknar- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri.
Markmið Að efla nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni og hafa frumkvæði að þróun viðskiptahugmynda. Nýsköpunarmiðstöðinni verði tryggt fjármagn til að þróa verkefni í samvinnu við einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög, háskóla og/eða aðra. Þannig verði meginmarkmið starfseminnar að auka fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni. Sérstök áhersla verði lögð á að þróa ný atvinnutækifæri í minni byggðarlögum þar sem atvinnulíf er einhæft. Áherslur í starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar taki mið af byggðaáætlun og áherslum Vísinda- og tækniráðs Íslands. Með þessu fyrirkomulagi verður atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni fært að nýskipan vísinda- og tæknimála.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðarráðuneyti.
Framvinda Impra nýsköpunarmiðstöð hefur starfað á Akureyri frá því í desember 2002 og hefur verið staðsett í Rannsókna- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri frá opnun þess haustið 2004. Vikið er að helstu verkefnum nýsköpunarmiðstöðvarinnar síðar í þessari framvinduskýrslu. Atvinnuþróunarfélögin gegna nú sem fyrr veigamiklu hlutverki á starfssvæðum sínum. Byggðastofnun gerði nýja samninga við atvinnuþróunarfélögin á árinu 2003 sem enn er unnið eftir. Með samningunum var nánar kveðið á um verkefni félaganna, greiðslur og greiðslufyrirkomulag en áður hafði verið gert. Greiðslur til atvinnuþróunarfélaganna voru hækkaðar samhliða samningagerðinni. Samstarf þeirra aðila sem starfa að atvinnuþróun á landsbyggðinni er enn í mótun og er lagt til í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 að stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni verði samhæft og starfið gert markvissara. Jafnframt er lagt til að Nýsköpunarmiðstöðinni á Akureyri og atvinnuþróunarfélögunum verði áfram skapaður öruggur starfsgrundvöllur.
2. Aukin samvinna opinberra sjóða sem vinna að eflingu atvinnulífs.
Meginhugmynd Að auka samvinnu þeirra opinberu sjóða sem veita lán eða fjárhagslegan stuðning til nýsköpunar og uppbyggingar atvinnulífs, þ.e. Ferðamálasjóðs, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs landbúnaðarins, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, lánastarfsemi Byggðastofnunar og átaks til atvinnusköpunar.
Markmið Að samþætta krafta opinberra sjóða sem þjóna fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum, með höfuðáherslu á landsbyggðina, hvað varðar alhliða lánastarfsemi, hlutafjárþátttöku, stofnstyrki, áhættulán og verkefnafjármögnun.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Framvinda Haldnir hafa verið reglulegir fundir fulltrúa Ferðamálasjóðs, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs landbúnaðarins, Orkusjóðs, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Byggðastofnunar þar sem aðilar hafa skipst á upplýsingum. Tilgangurinn með því að halda slíka fundi reglulega er að mynda virkan samráðsvettvang til að miðla upplýsingum milli aðila og skilgreina sameiginlega aðkomu að verkefnum í þeim tilvikum sem um slíkt er að ræða. Það er álit Byggðastofnunar að fenginni reynslu að samstarf sem þetta þurfi að vera formlegt á reglulegum samráðsvettvangi. Ekki er nægilegt að einungis forstjórar og stjórnarformenn viðkomandi sjóða hittist, heldur þarf að vera virkt samstarf á milli almennra starfsmanna einnig. Þar verði miðlað upplýsingum um verkefni hinna ýmsu sjóða og stofnana, og teknar ákvarðanir um frekara samstarf eftir því sem tilefni eru til, en vænta má að óformlegt samstarf og upplýsingamiðlun sé mun tíðari. Með þeim hætti gefst færi á greiðara upplýsingaflæði um verkefni og áherslur auk almenns ávinnings af bættum tengslum. Á það ber hins vegar að líta að á gildistíma núgildandi byggðaáætlunar hafa orðið verulegar breytingar á sjóðaumhverfinu. Þannig hefur Ferðamálasjóður verið lagður niður og Lánasjóður landbúnaðarins hættir starfsemi um áramótin 2005/2006. Þetta hefur haft áhrif virkni þessa samstarfs.
3. Stækkun og efling sveitarfélaga.
Meginhugmynd Að ríkisvaldið hafi samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um að vinna markvisst að því að stækka sveitarfélögin í landinu á næstu árum. Þetta verði m.a. gert með hækkun á lágmarksíbúatölu samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Jafnhliða verði reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga breytt til að þær stuðli markvisst að þessari þróun. Má þar nefna að tekjuhá sveitarfélög greiði til sjóðsins, einnig að framlög úr sjóðnum verði byggð á almennum reglum en í minna mæli á því hvernig sveitar félögin leysa verkefnin af hendi. Samhliða þessu verði undir forustu félagsmálaráðuneytisins unnið áfram að því að gera verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga mark vissari og breyta tekjustofnum sveitarfélaga til samræmis við breytt verkefni.
Markmið Að efla sveitarstjórnarstigið, treysta sjálfsforræði og sjálfsmynd byggðarlaga, gera stjórnsýslu þeirra markvissa, tryggja gæði þjónustu og efla staðbundið lýðræði. Stækkun sveitarfélaga og efling sveitarstjórnarstigsins er mikilvægur þáttur í að styrkja stöðu byggðarlaga hvar sem er á landinu.
Ábyrgð á framkvæmd Félagsmálaráðuneyti.
Framvinda Félagsmálaráðherra skipaði í ágúst 2003 verkefnisstjórn vegna átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem hefur þegar tekið til starfa. Jafnframt skipaði ráðherra nefnd til að gera tillögur um nýja sveitarfélagaskipan og nefnd um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga að breyttum verkefnum og sveitarfélagaskipan. Verkefnisstjórn hefur yfirumsjón með átakinu og tryggir nauðsynlegt upplýsingastreymi milli verkefna.
    Störfum nefndanna var þannig hagað að atkvæðagreiðslur um sameiningartillögur gætu farið fram á árinu. Þar sem sameiningarviðræður voru þegar komnar af stað var sveitarstjórnum þó heimilað að ákveða að kosning færi fram fyrr. Á grundvelli þessa fóru fram atkvæðagreiðslur í nóvember 2004 og í apríl 2005 sem munu leiða til fækkunar sveitarfélaga um níu, eða úr 101 í 92. Þær sameiningar taka gildi á árinu 2006.
    Verkefnisstjórnin hefur lagt fram tillögur til félagsmálaráðherra um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að treysta sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsforræði byggðarlaganna. Haft var að leiðarljósi að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýr, þannig að ábyrgð á fjármögnun og stefnumótun sé á sömu hendi. Í tillögum sínum leggur verkefnisstjórnin mesta áherslu á að nærþjónustuverkefni á sviði velferðarmála verði flutt frá ríki til sveitarfélaga. Í þeim efnum er áhersla lögð á málefni fatlaðra og aldraðra, grunnheilbrigðisþjónustu og vinnumiðlun og ráðgjöf. Auk þess leggur verkefnisstjórnin til að framkvæmd opinbers eftirlits fari í auknum mæli fram á vegum sveitarfélaga og atvinnuþróun og byggðamál taki í ríkara mæli mið af nýjum og öflugum sveitarfélögum.
    Í mars 2005 lagði sameiningarnefnd fram sínar lokatillögur um sameiningu sveitarfélaga. Við tillögugerðina lagði nefndin áherslu á að sveitarfélögin í landinu myndi heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði og verði nægilega öflug til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Þann 8. október fóru fram atkvæðagreiðslur um 16 sameiningartillögur í 61 sveitarfélagi vítt og breitt um landið. Íbúar 20 sveitarfélaga samþykktu sameiningu en íbúar í 41 sveitarfélagi höfnuðu sameiningu. Í aðeins einu tilviki samþykktu íbúar allra sveitarfélaganna sem tillaga nefndarinnar varðaði, þ.e. á miðsvæði Austfjarða. Áður höfðu tillögur um sameiningu sveitarfélaga við Hvalfjörð, í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar og í Austur-Húnavatnssýslu verið samþykktar og taka þær sameiningar gildi árið 2006 og verður því kosið til nýrra sveitarstjórna í 89 sveitarfélögum þann 27. maí 2006, að því gefnu að fleiri sameiningar verði ekki samþykktar fyrir þann tíma.
    Þann 17. mars 2005 skilaði tekjustofnanefnd tillögum sínum. Nefndin hafði það verkefni að vinna tillögur um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga í samræmi við tillögur um hugsanlegar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Vinna nefndarinnar tók hins vegar fljótlega að snúast um mögulegar leiðir til að efla núverandi tekjustofna sveitarfélaga, óháð hugsanlegum breytingum á verkaskiptingu hins opinbera. Aðaláhersla var lögð á að styðja við sveitarfélög sem standa höllum fæti fjárhagslega. Nefndin lagði fram ýmsar tillögur sem koma til framkvæmda á næstu árum, og eru þessar helstar:
     *      Á árunum 2006–2008 komi árlegt 700 millj. kr. viðbótarframlag frá ríkissjóði í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
     *      Undanþágur frá greiðslu fasteignaskatts, sbr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, verði afnumdar frá og með 1. janúar 2006 í samræmi við tillögur nefndar frá desember 2001. Álagning fasteignaskatts komi til framkvæmda í áföngum á árunum 2006–2008.
     *      Varasjóði húsnæðismála verði heimilað að auka rekstrar- og söluframlög vegna félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga og aðstoða við úreldingu þeirra. Framlögin koma til greiðslu á árunum 2005, 2006 og 2007, allt að 280 millj. kr. á ári.
     *      Gildandi lög um fjárhagslegan stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði framlengd til ársins 2008. Sameiginlega verði farið gagnrýnið yfir kröfur um fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og kannaðar leiðir til að draga úr kostnaði.
     *      Lögum um skráningu og mat fasteigna og tekjustofna sveitarfélaga verði breytt þannig að greiðsla fasteignaskatts hefjist frá næstu mánaðamótum eftir að eign er fyrst metin fasteignamati. Jafnframt verði unnið að endurskoðun á fasteignamati landa og jarða og lagaákvæðum er það varðar.
    Þegar horft er til tillagna tekjustofnanefndar og allra breytinga á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem ákveðnar hafa verið er ljóst að áhrif tillagnanna eru mjög mikil. Varanleg áhrif, frá og með árinu 2009, eru rúmlega 1,5 milljarða kr. árleg tekjuaukning hjá sveitarfélögum. Tímabundin áhrif eru hins vegar um 9,5 milljarðar kr. á tímabilinu 2005–2008.
    Ekki er í öllum tilfellum um fjármuni úr ríkissjóði að ræða heldur er einnig um að ræða heimildir til ráðstöfunar eigin fjár sjóða í eigu sveitarfélaganna og tilfærslu fjármuna milli verkefna. Framlag úr ríkissjóði til sveitarfélaga á árunum 2005–2008 nemur 5,0 milljörðum kr. en varanleg tilfærsla fjármuna frá ríki til sveitarfélaga, sem kemur til vegna fækkunar undanþágna frá greiðslu fasteignaskatts, nemur 600 millj. kr. á ári.
    Félagsmálaráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Nefndinni er ætlað að meta kosti og galla núverandi jöfnunarkerfis og hugsanlega þörf fyrir endurskoðun á kerfinu í heild sinni eða einstökum þáttum þess. Sérstaklega skal horft til þess hvort breytingar á sveitarfélagaskipan, tekjustofnum og verkefnum sveitarfélaga í tengslum við átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins og önnur þróun hafi að einhverju leyti breytt forsendum fyrir núverandi kerfi þegar horft er til framtíðar. Í því sambandi skal nefndin meðal annars hafa hliðsjón af hugmyndum tekjustofnanefndar um áherslur við endurskoðun sjóðsins.
    Í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er lagt til að áfram verði unnið að sameiningu sveitarfélaga í heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði. Samhliða verði unnið að hugsanlegum breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga.
4. Efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni.
Meginhugmynd Að gerð verði áætlun um að auka verkefni og fjölga störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. með því að efla þær stofnanir sem fyrir eru, í tengslum við endurskipulagningu opinberra stofnana, með fjarvinnslu, með flutningi verkefna frá opinberum aðilum til fyrirtækja, þegar nýjar opinberar stofnanir eru settar á fót og hugsanlega með flutningi stofnana.
Markmið Að efla stærstu byggðarlögin á landsbyggðinni jafnframt því sem opinber verkefni og þjónusta eru endurskipulögð og starfsemin gerð árangursríkari. Að opinberar stofnanir á landsbyggðinni hafi ekki aðeins svæðisbundið þjónustuhlutverk með höndum heldur verði stofnanir sem þjóna öllu landinu einnig staðsettar á landsbyggðinni.
Ábyrgð á framkvæmd Forsætisráðuneyti.
Framvinda Forsætisráðherra fór þess á leit við alþingismennina Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson að vera með sér í ráðum við framkvæmd þessarar aðgerðar. Á fundum þeirra með ráðherrum kom fram almennur vilji til að styrkja opinbera þjónustu á landsbyggðinni með því að flytja þangað verkefni og störf eftir því sem tækifæri gefast. Því eru ýmsar skorður settar hversu hratt og í hve ríkum mæli slíkur flutningur á verkefnum og störfum getur orðið.
    Hjá dómsmálaráðuneyti er unnið að tillögum um stækkun lögregluumdæma, m.a. á grundvelli skýrslu sem unnin var um það efni fyrir dómsmálaráðherra. Talið er að stækkun umdæmanna muni auka öryggi þeirra sem búa á landsbyggðinni og þar með stuðla að því að festa búsetu þar í sessi. Lögð er áhersla á að stækkun lögregluembætta leiði ekki til fækkunar sýslumanna. Þeir fari áfram með framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Hins vegar mætti fela sýslumönnum fleiri verkefni í samræmi við að þeir fara með framkvæmdarvald ríkisins í héraði og hafa fleiri skyldum að gegna en falla undir verksvið dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Dómsmálaráðuneytið hefur enn fremur hugað að því að flytja eftirfarandi verkefni úr ráðuneytinu til sýslumanna á landsbyggðinni: Útgáfa vegabréfa; leyfi útlendinga til að kaupa fasteign; ættleiðingarleyfi; staðfesting skipulagsskráa og eftirlit með sjóðum; löggilding fasteignasala og eftirlit með þeim; útgáfa leyfa og eftirlit með útfaraþjónustum; skjalaþýðendur.
    Á vegum félagsmálaráðuneytis, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, er unnið að uppbyggingu gagnabanka um ýmiss konar fjárhagslegar upplýsingar úr rekstri sveitarfélaga. Meginmarkmið slíkrar upplýsingaveitu er að efla hvers kyns fjárhagslegan samanburð milli sveitarfélaga er stuðlað gæti að hagkvæmari rekstri þeirra. Slík veita nýttist einnig öðrum opinberum aðilum og íbúum sveitarfélaga. Gerður hefur verið samningur til þriggja ára við fjarvinnslufyrirtæki á Hvammstanga um byggingu og rekstur gagnagrunns sem heldur utan um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga.
    Fjármálaráðherra ákvað árið 2004 að færa skatteftirlit fyrir landsbyggðina sem framkvæmt hefur verið hjá embætti ríkisskattstjóra til skattstofanna á Akranesi og Akureyri. Við þetta fluttust sjö störf frá Reykjavík út á landsbyggðina, þrjú á skattstofuna á Akranesi og fjögur á skattstofuna á Akureyri. Þessi aðgerð er gerð til að auka sérhæfingu skattstofa á landsbyggðinni. Fjármálaráðuneytið hefur umsjón með samstarfsverkefni nokkurra ráðuneyta og stofnana um innleiðingu rafrænna skilríkja fyrir ríkið. Með innleiðingu rafrænna skilríkja skapast grundvöllur fyrir örugg samskipti á rafrænu formi sem er ein meginforsenda flutnings verkefna, sem unnin eru með rafrænum hætti, út á landsbyggðina. Nú liggja fyrir drög að viljayfirlýsingu milli fjármálaráðherra og stjórnar Sambands banka og verðbréfafyrirtækja um að leggja í sameiningu grundvöll að samstarfi um rafræn skilríki í tengslum við greiðslukort viðskiptabankanna og um að vinna að gerð samninga og áætlana um innleiðingu þessara skilríkja á þeim grundvelli.
    Umfangsmiklar breytingar hafa staðið yfir á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni undanfarin ár. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar hafa verið sameinuð undir einni stjórn sem heilbrigðisstofnanir og eru nú starfræktar 15 slíkar. Með þessu er verið að styrkja rekstur heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og auka rekstrarhagkvæmni. Unnið er að því að byggja upp Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) sem hátæknisjúkrahús landsbyggðarinnar. Mikið og vaxandi samstarf er milli FSA og Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) á fjölmörgum sviðum. Innréttingum á 890 m2 húsnæði í suðurálmu FSA er nýlokið en þær voru boðnar út í júlí 2004 og hófust framkvæmdir í september sama ár. Hæðin verður nýtt fyrir barna- og unglingageðlækningar, meinafræðideild, iðju- og sjúkraþjálfun og kennslustofu. Nýtt og fullkomið segulómtæki var tekið í notkun við sjúkrahúsið í lok árs 2004. Áður þurfti að senda sjúklinga til Reykjavíkur í segulómun. Framkvæmdir við byggingu nýs 60 rýma hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á Akureyri hófust í sumar og eru verklok áætluð haustið 2006. Til verksins var veitt stærsta framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem veitt hefur verið hingað til í einstakt verkefni. Á Kirkjubæjarklaustri var lokið við fyrsta áfanga viðbyggingar við dvalar- og hjúkrunarheimilið Klausturhóla, tæpra 1000 m2 byggingu, vorið 2004. Vinna við að innrétta húsnæðið stendur yfir og eru verklok áætluð í maí 2006. Framkvæmdir standa yfir við endurbætur og viðbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Neskaupstað enda verkefnið brýnt vegna fyrirsjáanlegrar fólksfjölgunar á svæðinu. Innréttuð verður hjúkrunardeild fyrir 16–18 aldraða og er gert ráð fyrir 6–8 starfsmönnum. Einnig verður komið á fót nútímalegri endurhæfingardeild með starfsaðstöðu fyrir 2–3 sjúkraþjálfara.
    Boðin hefur verið út bygging nýrrar heilsugæslustöðvar á Skagaströnd en núverandi aðstaða stenst ekki kröfur til slíkra stofnana. Gagngerar endurbætur eru fram undan á húsnæði Heilbrigðisstofnunarinnar Siglufirði ásamt viðbyggingu með aðstöðu fyrir heilsugæslustöð og þrjú til fjögur vistrými. Reiknað er með verklokum árið 2008. Verulegar breytingar og endurbætur hafa verið gerðar á 1. og 2. hæð norðurálmu Sjúkrahússins á Akranesi. Meðal annars hefur fæðingar- og kvennadeild verið stækkuð og aðstaðan bætt. Mikil aðstöðubreyting er fyrirsjáanleg við Heilbrigðisstofnun Suðurlands þegar reist verður þriggja hæða nýbygging við sjúkrahúsið á Selfossi. Þar verður m.a. aðstaða fyrir nýja heilsugæslustöð og 26 rýma hjúkrunardeild fyrir aldraða.
    Á undanförnum missirum hefur verið unnið markvisst að því að efla sérhæfingu sjúkrahúsa úti á landi, m.a. með því að nýta í auknum mæli aðstöðu sjúkrastofnana á landsbyggðinni til smærri aðgerða. Gerðir hafa verið samningar við sjúkrahúsin á Akureyri, Akranesi og Stykkishólmi um auknar bæklunarlækningar í samvinnu við Landspítala – háskólasjúkrahús (LSH). Einnig hefur nýting sjúkrahússins á Sauðárkróki til skurðlækninga aukist í samvinnu við lækna á FSA og LSH. Þá hafa samningar við barnalækna á LSH um þjónustu á Vestfjörðum, Austurlandi og víðar gefist vel.
    Við Heilsustofnun Þingeyjarsýslu hefur veri unnið að þróun rafrænna lyfseðla og framhaldssamningur um sendingu rafrænna heilbrigðisupplýsinga var síðan gerður við Eyþing. Verkefnið hefur gengið vel og má t.d. geta þess að árið 2004 sendi Heilsugæslan á Akureyri um 130 rafræna lyfseðla í apótek á hverjum degi. Innleiðing rafrænna lyfseðla er hafin á landsvísu og mun þetta fyrirkomulag skapa hagræði á öllum stigum jafnframt því að auka öryggi samskipta innan heilbrigðiskerfisins.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur komið að fjölmörgum verkefnum á grunni byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005, sem stuðlað hafa að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Sem dæmi má nefna að Impra nýsköpunarmiðstöð hefur verið starfrækt á Akureyri frá því í desember 2002, en þar eru nú fjórir starfsmenn. Impra hefur jafnframt umsjón með rekstri Frumkvöðlaseturs Norðurlands. Ráðuneytið hefur einnig átt þátt í rekstri Frumkvöðlaseturs Austurlands ehf. Af öðrum verkefnum má nefna samkomulag við félagsmálaráðuneyti um sameiginlegt þróunarverkefni er tengist upplýsingakerfi í þjónustu fatlaðra, en það verkefni er rekið á Hvammstanga, samkomulag iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og Háskólans á Akureyri um samstarf í líftækni, samkomulag menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni og samkomulag iðnaðarráðherra og samgönguráðherra um uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
    Gerðir hafa verið vaxtarsamningar fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Vestfirði og hafinn er undirbúningur vaxtarsamninga á Suðurlandi með áherslu á Vestmannaeyjar, á Austurlandi með áherslu á Höfn, Norð-Vesturlandi og Vesturlandi.
    Störfum á landsbyggðinni hjá Byggðastofnun hefur fjölgað um þrjú sl. þrjú ár. Á sama tíma hafa fjárveitingar til atvinnuráðgjafar hækkað úr 105,8 millj. kr. í 125,2 millj. kr. sem hefur stuðlað að fjölgun starfa á vegum atvinnuþróunarfélaganna. Byggðarannsóknastofnun var komið á fót við Háskólann á Akureyri árið 2001 í samstarfi við iðnaðarráðuneyti og Byggðastofnun. Þá hófst í upphafi árs 2003 starfsemi á vegum Orkumálasviðs Orkustofnunar á Akureyri. Tveir starfsmenn eru í útibúinu.
    Á vegum landbúnaðarráðuneytis tók til starfa í ársbyrjun 2005 ný mennta- og rannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, sem stofnaður er með samruna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins. Höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar eru á Hvanneyri. Á liðnu þingi voru samþykkt ný lög um Landbúnaðarstofnun. Með þeim lögum var ákveðið að fella saman í eina stofnun starfsemi nokkurra undirstofnana landbúnaðarráðuneytisins sem varðar stjórnsýslu og eftirlit. Um er að ræða embætti yfirdýralæknis, aðfangaeftirlitið, embætti veiðimálastjóra, embætti kjötmatsformanns og starfsemi plöntueftirlits. Auk þess tekur hin nýja stofnun við ýmsum stjórnsýsluverkefnum sem Bændasamtökin hafa unnið fyrir ráðuneytið. Aðsetur hinnar nýju stofnunar verður á Selfossi og er ljóst að mörg störf munu flytjast frá höfuðborginni til Selfoss.
    Af verkefnum sem eru á vegum menntamálaráðuneytisins vegur uppbygging Háskólans á Akureyri þyngst til eflingar atvinnustarfsemi úti á landi. Þar verða flest störfin til. Verið er að kanna möguleika á að efla rannsóknir við skólann. Til greina kemur að rannsóknir á lesröskun fari fram við skólann. Í tengslum við Háskólann á Akureyri hefur verið reist og tekið í notkun rannsóknahús þar sem ýmsar stofnanir ríkisins hafa aðstöðu. Nám með fjarkennslu hefur aukist gríðarlega á síðustu þremur árum. Á framhaldsskólastigi stunduðu 337 nemendur fjarnám árið 1999 en árið 2004 hafði þeim fjölgað í um 2.300. Á háskólastigi stunduðu 496 nemendur fjarnám árið 1999 en árið 2004 hafði þeim fjölgað í 2.450. Stofnaðar hafa verið níu símenntunarmiðstöðvar úti á landi með stuðningi ríkisins. Um er að ræða sameiginlegt átak í byggðamálum og menntamálum. Miðstöðvarnar auka verulega sveigjanleika til náms með fjarkennslu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á starfsmenntun og kennslu fyrir nýbúa. Haustið 2004 hóf göngu sína framhaldsskóli á Snæfellsnesi sem nýta mun sér kosti fjarkennslunnar. Gengið hefur verið frá samningum við Akureyrarbæ, Ísafjarðarkaupstað og Vestmannaeyjabæ um framkvæmdir við menningarhús. Áætlað er að heildarkostnaður ríkisins vegna þessara þriggja menningarhúsa verði um 1.250 millj. kr. Þá hefur menntamálaráðherra gert menningarsamning við Akureyrarbæ þar sem tiltekin menningarstarfsemi er styrkt, fyrst og fremst starfsemi Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Listasafns Akureyrar. Enn fremur hefur ráðherra undirritað menningarsamning við sveitarfélög á Austurlandi. Einnig leggur ríkið Menningarráði Austurlands til fé sem síðar er úthlutað til að styrkja menningarverkefni. Árlegt framlag ríkisins til þessara verkefna er rúmlega 100 millj. kr. og hefur aukist allhratt á síðustu árum.
    Á vegum samgönguráðuneytis var 92 störfum komið fyrir úti á landi á kjörtímabilinu 1999–2003. Samgönguráðherra setti árið 2003 á fót þriggja manna starfshóp til að gera nýja áætlun um flutning verkefna út á landsbyggðina á yfirstandandi kjörtímabili. Vegagerðin hefur unnið áfram að eflingu starfsemi sinnar á landsbyggðinni. Er þar bæði um að ræða flutning verkefna frá Reykjavík út á land og staðsetningu nýrra starfa á landsbyggðinni. Störfin, sem um er að ræða, eru á sviði upplýsingaþjónustu, eftirlits af ýmsu tagi, gagnasöfnunar, gagnavinnslu, símsvörunar, umferðar og umferðaröryggis, umsjónar með ferjurekstri og veghönnunar. Á árinu 2004 var skoðun skipa flutt frá Siglingastofnun til einkarekinna skoðunarstofa. Þessi breyting hefur orðið til að styrkja starfsemi skoðanastofa á landsbyggðinni. Á vegum Íslandspósts hf. hefur aðalskiptiborð og þjónustuver fyrirtækisins fyrir einstaklinga verið flutt til Akureyrar, pökkun fyrstadagsumslaga til Ísafjarðar, frímerkjavarsla í Borgarnes og vinna við ársmöppur í Búðardal auk þess sem smávörulager fyrirtækisins hefur verið fluttur til Blönduóss. Þessar ákvarðanir þýða að um það bil átta til tíu ársverk hafa verið flutt út á land.
    Sjávarútvegsráðherra kynnti í apríl 2005 í Vestmannaeyjum breytingar sem verða gerðar á Veiðieftirliti Fiskistofu. Þær felast í að stofnuð verða fjögur ný útibú Fiskistofu, í Vestmannaeyjum, á Höfn, í Stykkishólmi og Grindavík auk þess sem eftirlitsmönnum verður fjölgað á Akureyri. Starfsmenn veiðieftirlitsins eru nú 35 og búa á höfuðborgarsvæðinu. Bætt verður við fjórum nýjum stöðugildum þannig að árið 2009 verða starfsmenn veiðieftirlitsins 39 talsins, þar af um 30 utan Reykjavíkur. Sjávarútvegsráðuneytið í samvinnu við atvinnuvegaráðuneytin er að kanna hvernig unnt er að nýta fyrirhugað rannsóknahús á Akureyri til að efla starfsemi á vegum RF og Hafró. Helst er staðnæmst við hugmyndir um líftæknirannsóknir. RF kemur nú að starfsemi Matvælasetursins á Akureyri. Hugmyndir eru uppi um að koma á fót þorskeldismiðstöð, þ.e. fyrir framhaldseldi, á Ísafirði sem mundi tengjast þróunarsetrinu þar. Hafró og RF kæmu að þeirri starfsemi.
    Á vegum umhverfisráðuneytis hafa útibú Umhverfisstofnunar á landsbyggðinni verið efld. Sömu sögu er að segja um starfsemi þjóðgarðanna. Þá hefur framlag til náttúrustofa á landsbyggðinni verið aukið á undanförnum árum og starfa nú um 30 manns í náttúrustofum víða um land sem eru að stórum hluta fjármagnaðar af umhverfisráðuneytinu. Framlag ráðuneytisins til Náttúrustofa á landsbyggðinni árið 2005 var um 90 millj. kr. Á vegum Veðurstofunnar hefur verið stofnuð Rannsóknarmiðstöð snjóflóða á Ísafirði. Nú árið 2005 eru alls um 340 stöðugildi hjá stofnunum ráðuneytisins en þar af eru 73 stöðugildi á landsbyggðinni. Á tímabilinu hefur heildarfjöldi stöðugilda stofnana ráðuneytisins fækkað um 20 en stöðugildum á landsbyggðinni hefur hlutfallslega fjölgað þar sem fjöldi stöðugilda þar hefur staðið í stað á sama tíma.
5. Athugun á búsetuskilyrðum fólks.
Meginhugmynd Að ríkisstjórnin láti fara fram heildarathugun á mismunandi búsetuskilyrðum fólks í landinu. Jafnframt verði lagt mat á áhrif þeirra opinberu aðgerða sem hafa það að markmiði að jafna búsetuskilyrði í landinu og lagðar fram tillögur um breytingar ef þurfa þykir. Í því sambandi verði m.a. horft til reynslu nágrannaþjóða.
Markmið Að fá fram vandaða rannsókn á því hver raunverulegur mismunur sé á búsetuskilyrðum á landinu. Jafnframt er mikilvægt að rannsökuð verði áhrif þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt, m.a. til niðurgreiðslu á húshitun, námskostnaði, jöfnun raforkuverðs og framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þá er mikilvægt að kanna möguleika á skattalegum aðgerðum, svo sem að kostnaður við atvinnusókn um lengri veg, t.d. meira en 20 km, verði frádráttarbær frá skatti.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðarráðuneyti.
Framvinda Iðnaðarráðherra fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnun við Háskólann á Akureyri að gera heildarathugun á búsetuskilyrðum fólks og fyrirtækja í landinu. Rannsókn var unnin á tímabilinu júní 2002 til janúar 2003 og birtust niðurstöður hennar í skýrslunni „Fólk og fyrirtæki: Um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni,“ sem kom út í mars 2003.
6. Athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna.
Meginhugmynd Að ríkisstjórnin láti fara fram heildarathugun á mismunandi starfsskilyrðum atvinnuveganna eftir landshlutum og á áhrifum þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt til jöfnunar starfsskilyrða. Skoðaðar verði sérstaklega skattalegar aðgerðir og í því sambandi horft til reynslu nágrannaþjóða. Á grundvelli rannsóknar verði lagðar fram tillögur um aðgerðir.
Markmið Að fá niðurstöðu um það hver sé raunverulegur mismunur á starfsskilyrðum fyrirtækja og sjálfstætt starfandi atvinnurekenda eftir landshlutum, svo sem um áhrif flutningskostnaðar og reglna um þungaskatt og áhrif tryggingagjalds og virðisaukaskatts. Jafnframt verði rannsökuð áhrif þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt í þessu skyni.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðarráðuneyti.
Framvinda Iðnaðarráðherra fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnun við Háskólann á Akureyri að gera heildarathugun á búsetuskilyrðum fólks og fyrirtækja í landinu. Rannsókn var unnin á tímabilinu júní 2002 til janúar 2003 og birtust niðurstöður hennar í skýrslunni Fólk og fyrirtæki: Um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni, sem kom út í mars 2003.
    Á vegum iðnaðarráðuneytisins voru kannaðir möguleikar á að taka upp endurgreiðslur til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni á hluta flutningskostnaðar. Vinnan byggðist á tillögum starfshóps sem samgönguráðherra skipaði í kjölfar umfjöllunar ríkisstjórnarinnar um flutningskostnað haustið 2001 og greinargerð Byggðastofnunar sem unnin var í framhaldinu. Á fundi ríkisstjórnar í júlí 2004 varð að samkomulagi að embættismenn iðnaðarráðuneytis, samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis tækju málið til nánari umfjöllunar. Ekki náðist samstaða um framgang þess milli ráðuneytanna þriggja.
7. Byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð.
Meginhugmynd Að ríkið og sveitarfélögin vinni saman að gerð byggðaáætlunar um það hvernig megi styrkja byggð við Eyjafjörð svo fólki fjölgi þar á næstu árum um a.m.k. 2–3% á ári og að atvinnulíf og menningarlíf eflist. Unnið verði að eflingu Akureyrar sem skólabæjar og menningarmiðstöðvar, svo og að eflingu ferðaþjónustu, fiskeldis og fleiri atvinnugreina á svæðinu. Einnig verði unnið að flutningi starfa og verkefna í opinberri þjónustu til svæðisins, t.d. á sviði sjávarútvegs í tengslum við uppbyggingu rannsókna- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri. Þá felast margvísleg sóknarfæri í að efla starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.
Markmið Að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sem öflugasta þéttbýlissvæðið utan höfuðborgarsvæðisins og styrkja þannig jafnframt byggð á Miðnorðurlandi. Mikilvægt er í því sambandi að horfa ekki eingöngu til uppbyggingar atvinnulífs heldur stefna líka að því að efla hvers kyns þjónustu, afþreyingu, menningarstarfsemi og annað það sem bætir mannlíf á staðnum og dregur fólk að.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðarráðuneyti.
Framvinda Í júlí 2004 var gerður svokallaður Vaxtarsamningur Eyjafjarðar, sem er samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs við Eyjafjörð. Unnið er samkvæmt kenningum um fyrirtækjaklasa þar sem fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög taka höndum saman um eflingu atvinnulífs. Lögð er áhersla á þær atvinnugreinar sem nú þegar eru sterkar í Eyjafirði og á að styrkja þær enn frekar til þess að takast á við alþjóðlega samkeppni. Vaxtarsamningur Eyjafjarðar mun standa út árið 2007 og til hans munu samningsaðilar verja samtals 177,5 millj. kr., ýmist í formi beinna fjárframlaga eða vinnuframlags. Fjárframlag iðnaðarráðuneytis nemur 90 millj. kr. á samningstímanum. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um samninginn og fylgjast með framvindu hans á heimasíðu Vaxtarsamnings Eyjafjarðar: www.klasar.is.
    Rannsókna- og nýsköpunarhús er risið í tengslum við Háskólann á Akureyri og var tekið í notkun í lok árs 2004. Fyrirhugað er að ýmsar stofnanir ríkisins hafi aðstöðu í rannsóknahúsinu. Eftirtaldar stofnanir á vegum opinberra aðila eru nú í húsinu:
     1.      Auðlindadeild HA.
     2.      Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.
     3.      Upplýsingatæknideild HA.
     4.      Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
     5.      Háskólinn á Akureyri, aðalskrifstofur.
     6.      Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar.
     7.      Jafnréttisstofa.
     8.      Matvælasetur HA.
     9.      Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
     10.      Orkustofnun, Akureyrarútibú (AKROS).
     11.      Impra nýsköpunarmiðstöð á Akureyri.
     12.      Hafrannsóknastofnun.
     13.      PAME International Secretariat.
     14.      CAFF International Secretariat.
     15.      Rannsóknastofnun HA.
     16.      Ferðamálasetur Íslands.
     17.      Byggðarannsóknastofnun Íslands.
     18.      Veðurstofa Íslands.
     19.      Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar.
8. Efling núverandi landbúnaðarskóla sem fræðslu-, rannsóknar- og þróunarseturs.
Meginhugmynd Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri var stofnaður árið 1999. Skólinn er vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar sem veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun í búfræði er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræðistörf fyrir íslenskan landbúnað og unnið að rannsóknum í þágu hans. Nauðsynlegt er að treysta forustuhlutverk skólans á sviði fræðslu og rannsókna í þágu landbúnaðarins í samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. Með markvissu samstarfi öðlast þessar stofnanir meiri burði til þess að sinna hlutverki sínu á sviði rannsókna og fræðslu og keppa um innlent og erlent rannsóknafé og hæfustu starfskrafta en nú er. Nauðsynlegt getur verið að huga að breytingum á rekstrarformi skólanna sem geri þeim kleift að afla sértekna með sölu þjónustu og samstarfi við fyrirtæki, samtök o.fl. aðila.
Markmið Að sameina krafta rannsókna- og fræðslustofnana landbúnaðarins í öflugu átaki til eflingar landbúnaði og atvinnulífi í sveitum almennt.
Ábyrgð á framkvæmd Landbúnaðarráðuneyti.
Framvinda Á vegum landbúnaðarráðuneytis tók til starfa í ársbyrjun 2005 ný mennta- og rannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, sem stofnaður er með samruna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins. Höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar eru á Hvanneyri. Landbúnaðarháskóli Íslands er vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi. Stofnunin starfar á sviði landbúnaðar og veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun í búfræði, sem miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræðistörf fyrir íslenskan landbúnað og unnið að rannsóknum í þágu hans. Landbúnaðarháskólanum er heimilt að veita framhaldsgráðu (masters- og doktorspróf) og endurmenntun í þeim fræðum sem kennd eru við skólann og skal miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar.
9. Efling fiskeldis.
Meginhugmynd Að ríkisvaldið geri sérstaka áætlun um uppbyggingu fiskeldis í landinu þar sem lögð verði áhersla á rannsókna- og þróunarstarf, fræðslu og meiri fjárhagslegan stuðning við þróunar- og markaðsstarf í greininni. Áhersla verði lögð á að byggja upp seiðaeldi á þorski.
Markmið Að tryggja áfram sterka stöðu Íslendinga á alþjóðlegum mörkuðum fyrir sjávarafurðir þar sem samkeppni við eldisafurðir fer vaxandi. Að nýta þau sóknarfæri sem eru í uppbyggingu þessarar atvinnugreinar á Íslandi, m.a. með nýtingu jarðhita og aðgangi að sjó og fersku vatni. Að efla atvinnugrein sem hentar vel til uppbyggingar í dreifbýli, en mun byggjast mjög hægt upp ef ekki kemur til öflugur stuðningur hins opinbera við rannsóknir og markaðsþróun.
Ábyrgð á framkvæmd Sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti.
Framvinda Fiskeldi fellur undir tvö ráðuneyti, eldi sjávardýra undir sjávarútvegsráðuneyti og eldi ferskvatnsfiska undir landbúnaðarráðuneyti. Á vegum þessara ráðuneyta er starfandi sérstök sameiginleg nefnd, fiskeldisnefnd, sem er til ráðgjafar og stefnumótunar um eldi vatnafiska og nytjastofna bæði á landi og í sjó. Fiskeldisnefnd skilaði viðamikilli skýrslu um stöðu og framtíðaráform í íslensku fiskeldi haustið 2004, þar sem er m.a. lögð áhersla á eflingu fiskeldisrannsókna.
    Sjávarútvegsráðherra hefur stofnað sérstakan sjóð, AVS-sjóð, sem ætlað er að standa á bak við átak til að auka virði íslenskra sjávarafurða. Á vegum sjóðsstjórnar er starfandi sérstakur fiskeldishópur sem m.a. fer með söfnun upplýsinga, samhæfingu, kynningu og stefnumótun varðandi eldi sjávardýra. Á undaförnum árum hefur sjávarútvegsráðherra árlega veitt sérstaka styrki til fiskeldisrannsókna.
    Iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið hafa gert með sér samkomulag um verkefni á sviði sjávarútvegs vegna framkvæmdar byggðaáætlunar 2002–2005. Samningurinn felur í sér að ráðuneytin munu sameiginlega vinna að því að efla rannsóknar- og þróunarstarfsemi á sviði sjávarútvegs. Samtals leggja ráðuneytin 20 millj. kr. til tveggja verkefna á grundvelli þessa samkomulags, þar af 10 millj. kr. af fjárveitingu iðnaðarráðuneytis til framkvæmdar byggðaáætlunar. Annað þeirra verkefna sem samið var um er verkefni útibús Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á Ísafirði og fyrirtækja á Vestfjörðum um þorskeldi í sjókvíum. Þorskeldi á Íslandi er ný atvinnugrein. Þegar hefur víðtækt samstarf hafist á milli opinberra rannsóknastofnana, háskóla og fyrirtækja. Rannsóknir í fiskeldi og fiskalífeðlisfræði í tengslum við þorskeldi er samstarfsverkefni útibús Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á Ísafirði og fyrirtækja á Vestfjörðum. Markmið verkefnisins er annars vegar að efla rannsóknir sem skila sér beint út í iðnaðinn og styðja við bakið á þeim mörgu fyrirtækjum á landsbyggðinni sem taka þátt í að efla þorskeldi og hins vegar að auka verðmætasköpun fyrirtækja og koma til móts við þau með aðgangi að sjókvíum fyrir tilraunir með áframeldi og aleldi á þorski. Til að hefja verkefnið voru á árinu 2005 keyptar átta sjókvíar og þeim komið fyrir í Ísafjarðardjúpi. Af fé byggðaáætlunar voru veittar 4 millj. kr. til þessa verkefnis.
10. Fjarskiptamál í dreifbýli.
Meginhugmynd Skipaður verði starfshópur á árinu 2002 er fjalli um fjarskiptamál í dreifbýli. Skal starfshópurinn kanna möguleika á að leggja ljósleiðara til allra lögheimila í dreifbýli. Telji hann slíka framkvæmd fýsilega skal hann setja fram áætlun um hvernig þetta skuli gert, hvenær og hve mikið framkvæmdin kosti. Skal starfshópurinn skila af sér fyrir lok ársins 2002.
Markmið Að kanna hvort fýsilegt sé að leggja ljósleiðara um sveitir landsins og leysa þannig þarfir dreifbýlisins fyrir góðar tengingar. Með slíkum ljósleiðara er hægt að bjóða alla fjarskiptaþjónustu, þar á meðal stafrænt sjónvarp og útvarp. Með ljósleiðaravæðingu fæst góð lausn fyrir fjarskiptatengingar bæði heimila og fyrirtækja. Ljósleiðarar geta borið nærri ótakmarkaðan gagnaflaum, takmörkin eru einungis í búnaðinum sem tengdur er við ljósleiðara. Ljósleiðarar eru ódýrir en endabúnaðurinn er dýr og dýrt er að leggja ljósleiðara langar vegalengdir. Tækniframfarir í ljósleiðaratækni eru stórstígar nú og búnaður lækkar óðum í verði.
Ábyrgð á framkvæmd Samgönguráðuneyti.
Framvinda Umtalsverður kostnaður er við að leggja ljósleiðara til allra lögbýla í dreifbýli og fjarskiptafyrirtæki telja það ekki arðbæra fjárfestingu miðað við núverandi tækni og markaðsaðstæður. Innan Símans er verið að kanna möguleika á háhraðasambandi í dreifbýli eftir hagkvæmari leiðum. Landbúnaðarráðuneyti og samgönguráðuneyti hafa undanfarin missiri unnið saman að verkefninu Upplýsingatækni í dreifbýli (UD) þar sem leitað er leiða til að auka og bæta gagnaflutningsmöguleika í dreifðari byggðum landsins. Í október 2003 var undirritaður samningur milli Símans og UD um útbreiðslu ISDN-tenginga í dreifbýli. Undanfarin missiri hefur flutningsgeta grunnnetsins verið stórbætt. Nú er svo komið að einungis um 50 býli á landinu öllu hafa ekki möguleika á ISDN. Síminn vinnur að áætlun með því markmiði að bjóða öllum lögbýlum ISDN samband með nýrri og endurbættri tækni.
    Í ársbyrjun 2004 skipaði samgönguráðherra stýrihóp til að vinna að gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010. Með henni er stefnt að því að móta heildarstefnu í fjarskiptamálum á Íslandi til þess m.a. að kortleggja með hvaða hætti stjórnvöld geta komið að frekari uppbyggingu í fjarskiptamálum þar sem fjarskiptafyrirtækin telja að ekki séu markaðsforsendur fyrir uppbyggingu.
    Stýrihópurinn skilaði tillögum að stefnu stjórnvalda vorið 2005, sem samgönguráðherra lagði fram sem þingsályktun fyrir Alþingi þar sem hún var samþykkt 11. maí 2005. Með fjarskiptaáætlun er skilgreind nánar aðkoma og markmið stjórnvalda á sviði fjarskipta til næstu ára. Með henni er stefnt að því að auka samkeppnishæfni Íslands, stuðla að framþróun atvinnulífsins og að vinna að bættu aðgengi almennings að fjarskiptum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið forgangsröðun á þessu sviði. Hún miðar að stóraukinni uppbyggingu GSM-senda á hringveginum, helstu stofnvegum og á fjölförnum ferðamannastöðum. Með dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött, með stórbætta þjónustu fyrir sjófarendur að leiðarljósi, og með öflugri uppbyggingu á háhraðatengingum á svæðum sem fjarskiptafyrirtækin þjóna ekki á markaðslegum forsendum. Í þessu skyni verður m.a. komið á fót sérstökum sjóði, fjarskiptasjóði, sem ætlað er að vinna að uppbyggingunni. Farin verður útboðsleið til að ná þessum markmiðum. Fjarskiptasjóður mun bjóða út skýrt skilgreind verkefni á afmörkuðum svæðum með það fyrir augum að efla fjarskipti á landinu öllu. 2,5 milljörðum kr. af söluandvirði Símans verður varið til Fjarskiptasjóðs.
    Í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er sérstök áhersla lögð á bætt fjarskipti og m.a. lagt til að unnið verði áfram að því að tryggja fjarskipti og bæta gagnaflutningsmöguleika á landsbyggðinni í samræmi við fjarskiptaáætlun.
11. Jöfnun verðs á gagnaflutningi.
Meginhugmynd Notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu.
Markmið Að mishár fjarskiptakostnaður skekki ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja og stofnana eftir staðsetningu þeirra. Að þessi munur verði jafnaður með jöfnunargreiðslum úr ríkissjóði. Þessu má líkja við jöfnun á raforkukostnaði sem hefur tíðkast á Íslandi um árabil. Nú er svo komið að aðgengi að góðum fjarskiptum fer að vega álíka mikið við rekstur fyrirtækja og aðgengi að raforkunetinu. Jöfnun fjarskiptakostnaðar lýtur því sömu rökum og jöfnun raforkukostnaðar.
Ábyrgð á framkvæmd Samgönguráðuneyti.
Framvinda Í leyfisbréfi Landssímans og samkomulagi fyrirtækisins við samgönguráðherra frá 16. mars 2001 er tryggð stórfelld uppbygging ATM-gagnaflutningsneta og ADSL- þjónustu, auk þess sem framtíð NMT, langdræga farsímakerfisins, er tryggð. Í kjölfar samkomulagsins kynnti Landssími Íslands hf. aðgerðir til að mæta þörfum landsbyggðarinnar á gagnaflutningsþjónustu og til að ná fram markmiðum um aukna gagnaflutningsþjónustu við almenning og atvinnulíf í landinu. Í áætlunum fyrirtækisins felst stórfelld verðlækkun og aukin þjónusta um allt land. Landssíminn skuldbatt sig til fimm ára til að tryggja viðskiptavinum á öllum þéttbýlisstöðum með fleiri en 150 íbúa aðgang að tveggja megabita samböndum yfir ATM- netið eða sambærilegri þjónustu á verði sem sé það sama innan hvers svæðis en aukakostnaður við tengingar út fyrir svæði verði ekki umfram 17.000 kr. á mánuði.
    Landssíminn hefur þegar uppfyllt ákvæði ATM-samningsins og gengið lengra í sumum tilvikum. Nú býðst 2 Mb/s ATM-samband á öllum þéttbýlisstöðum með 150 íbúa eða fleiri, alls í 69 þéttbýliskjörnum. Auk þess hefur 2 Mb/s sambandi eða stærra verið komið upp á þeim skólasetrum sem samningurinn tiltók og víðar. Einnig er verðskrá fyrir ATM 2 Mb/s innan ákvæða samningsins. Þessu til viðbótar gildir sama verð innan og milli 20 þéttbýliskjarna, þ.e. ekki er tekið millisvæðagjald. Á 40 stöðum þar sem ADSL-þjónustu hefur verið komið á býðst einnig svokölluð IP-tengileið sem kalla má jafngilda ATM-tengileið. Innan og milli þessara 40 staða er ekkert millisvæðagjald.
    Í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er lagt til að stuðlað verði að því að jafnaður verði mismunur á kostnaði við gagnaflutninga.
12. Efling náms með fjarskipta- og upplýsingatækni.
Meginhugmynd Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið markvisst að stefnumörkun á sviði „rafrænnar“ menntunar, auk þess sem margt hefur áunnist í þessum málaflokki. Lagt er til að haldið verði markvisst áfram á þeirri braut sem ráðuneytið hefur markað. Í því sambandi er lögð áhersla á að starfsemi símenntunarstöðva verði efld með auknum fjárveitingum, að meira verði fjárfest í fjarfundabúnaði, að starfsnám verði gert aðgengilegt með fjarnámi og að stofnað verði til „rafrænna“ nemendahópa við kennslu á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Einnig að fólki hvar sem er á landinu verði gert kleift að stunda háskólanám í fjarnámi.
Markmið Að styrkja byggð á landsbyggðinni með bættu aðgengi að menntun á öllum stigum, þ.e. grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Þetta á einnig við um starfsnám þar sem nemendur geta sinnt bóklegu námi í fjarnámi en verklegu námi í heimabyggð. Þá hefur mikilvægi símenntunar aukist á undanförnum árum og þarf hún að standa almenningi til boða óháð búsetu.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti.
Framvinda Menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti gerðu árið 2003 með sér samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Samkomulagið er til þriggja ára og ráðuneytin skuldbinda sig til þess að leggja hvort um sig fram að lágmarki 50 millj. kr. á ári til verkefna á grundvelli þess. Í samkomulaginu er m.a. lögð áhersla á eflingu náms með fjarskipta- og upplýsingatækni. Á grundvelli samningsins hafa verið stofnuð Háskólasetur Vestfjarða, Þekkingarsetur Þingeyinga á Húsavík og Háskólanámssetur fyrir Austurland á Egilsstöðum. Til uppbyggingar þekkingarseturs á Egilsstöðum hefur verið varið 48 millj. kr., rúmlega 15 millj. kr. er varið til þekkingarseturs á Húsavík, 56 millj. kr. til eflingar þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar og stofnunar Háskólaseturs Vestfjarða. Um 110 millj. kr. hefur verið varið til styrkingar starfsmenntunar á landsbyggðinni, eflingar fjarskipta og dreifmenntunarverkefna á grunn-, framhalds- og háskólastigi. Í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á gildi menntunar. Þar er m.a. lagt til að áfram verði unnið að uppbyggingu þekkingarsetra/ háskólasetra á landsbyggðinni. Jafnframt er lagt til að unnið verði að eflingu dreifmenntunar á öllum skólastigum.
13. Efling fjarvinnslu hjá hinu opinbera.
Meginhugmynd Hið opinbera geri fjarvinnsluáætlun fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir þar sem fram komi hvernig opinberum starfsmönnum verði gert kleift að vinna störf sín að hluta eða öllu leyti í fjarvinnslu. Einnig hvernig hið opinbera geti í auknum mæli keypt fjarvinnsluverkefni í verktöku af fyrirtækjum og sjálfstætt starfandi verktökum.
Markmið Að skapa tækifæri fyrir fólk til að búa fjarri vinnustað ríkisstofnana og eiga þannig kost á störfum við hæfi óháð búsetu. Fjölmörg störf í þekkingarsamfélagi nútímans eru þess eðlis að í stað þess að starfsmaður mæti daglega á vinnustað nægir að hann mæti til dæmis 1–3 daga í viku. Þetta gerir að verkum að fólk getur ferðast mun lengri vegalengd á vinnustað sinn en ef því væri skylt að mæta þangað daglega. Fjarvinnsla eykur jafnframt möguleika fólks til „tvöfaldrar búsetu“, en hún hefur aukist á undanförnum árum. Einnig eykur fjarvinnsla möguleika á sveigjanlegum vinnutíma sem er kostur fyrir fjölskyldufólk. Ef kostir fjarvinnslu verða hagnýttir fyrir umtalsverðan hluta vinnumarkaðarins er líklegt að það dragi úr umferð vegna færri ferða fólks til og frá vinnu og bjóði jafnframt upp á nýjar og hagkvæmar lausnir í skipulagsmálum. Loks má nefna að fjarvinnsla getur sparað ríkinu húsnæðiskostnað.
Ábyrgð á framkvæmd Fjármálaráðuneyti.
Framvinda Verkefni sem varðar fjarvinnslu í tengslum við byggðaáætlun hefur verið tekið upp á víðtækari grundvelli í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið: Auðlindir í allra þágu. Áframhaldandi vinna sem því tengist hefur því farið fram á þeim vettvangi. Frá því síðast var gefin skýrsla stöðu mála, fyrir einu ári, hefur fjármálaráðuneytið unnið að því með ýmsum öðrum ráðuneytum að bæta tengingar helstu ríkisstofnana við háhraðanetið. Þetta eykur möguleika á því að starfsmenn ríkisins vinni störf sín fjarri starfsstöð vinnuveitanda og að verkefni séu unnin í fjarvinnslu. Mörg upplýsingakerfi ríkisins eru aðgengileg öllum sem hafa nettengda tölvu og viðeigandi aðgangsheimildir. Þannig hefur meðal annars Fjársýsla ríkisins tekið í notkun nýtt fjárhags- og mannauðskerfi fyrir allar ríkisstofnanir í A-hluta á tímabilinu sem um ræðir. Einnig hefur verið unnið að því að fylgja eftir innkaupastefnu ríkisins og í því sambandi meðal annars verið hvatt til þess að einkaaðilum verði falið að annast verkefni fyrir ríkisstofnanir, þar á meðal verkefni sem hentar að leysa í fjarvinnslu. Handbók fjármálaráðuneytisins um þjónustusamninga sem kom út í byrjun yfirstandandi árs auðveldar gerð slíkra samninga.
14. Verkefnið „rafrænt samfélag“.
Meginhugmynd Stofnað verði til verkefnisins „rafrænt samfélag“, sem felur í sér að bjóða tveimur til þremur framsæknum byggðarlögum framlag úr ríkissjóði á móti eigin framlagi til að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum aðgerðum sem hafa að markmiði að auka nýsköpun í atvinnulífi og bæta afkomu íbúanna, auka menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og félagslegar aðstæður og efla lýðræði.
Markmið Þróun búsetu og atvinnulífs á landsbyggðinni mun m.a. byggjast á því hvernig einstaklingum og fyrirtækjum tekst að tileinka sér upplýsinga- og fjarskiptatæknina og hagnýta sér hina margvíslegu notkunarmöguleika hennar. Netnotkun á Íslandi er með því mesta sem gerist í heiminum, enda er markviss notkun netsins einn mikilvægasti þátturinn í því að bæta alþjóðlega samkeppnisstöðu okkar. Til þess að landsbyggðin verði virkur þátttakandi í þessari þróun þarf að treysta stöðu upplýsingasamfélagsins úti um landið. Í þeim tilgangi er lögð fram þessi tillaga að framsæknu reynsluverkefni sem getur orðið fyrirmynd að uppbyggingu upplýsingasamfélagsins víðs vegar um landið.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Framvinda Efnt var til samkeppni um rafrænt samfélag í upphafi árs 2003. Þrettán byggðarlög af landsbyggðinni tóku þátt í forvali samkeppninnar og haustið 2003 voru tvö þeirra valin til þátttöku í þróunarverkefni um rafrænt samfélag: Árborg, Hveragerði og Ölfus, með verkefnið Sunnan3, og Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjarsveit, með verkefnið Virkjum alla – rafrænt samfélag. Framlag ríkissjóðs til verkefnisins um rafrænt samfélag nemur samtals 120 millj. kr. og dreifist á þrjú ár. Framlag byggðarlaganna er nokkuð hærra, enda var skilyrði að framlag þeirra yrði a.m.k. jafnt framlagi ríkissjóðs. Nánari upplýsingar um verkefnin er að finna á heimasíðum þeirra: www.sunnan3.is og www.skjalfandi.is.
    Í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er lagt til að unnið verði að því að gera afrakstur tilraunaverkefnisins um rafrænt samfélag aðgengilegan fyrir önnur byggðarlög á landsbyggðinni.
15. Alþjóðlegt samstarf í byggðamálum.
Meginhugmynd Alþjóðlegt samstarf í byggðamálum verði aukið verulega frá því sem nú er. Í því sambandi er lagt til að stuðlað verði að þátttöku sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélaga og fyrirtækja í alþjóðlegum verkefnum og að Ísland taki þátt í Northern Periphery verkefninu.
Markmið Að auka þátttöku landsbyggðarfyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga í alþjóðlegu samstarfi, en hún hefur verið fremur lítil. Þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi hefur aukist verulega á undanförnum árum, ekki síst í kjölfar EES-samningsins. Íslendingar hafa náð mjög góðum árangri á sumum sviðum alþjóðlegs samstarfs, einkum með þátttöku í rammaáætlunum Evrópusambandsins. Þá þurfa Íslendingar að fylgjast vel með stefnu annarra þjóða í byggða- og atvinnumálum og nýta sér þær hugmyndir sem líklegar eru til að geta gagnast í þeim málaflokkum hér á landi. Mikilvægt er að samþætta ólíkar aðgerðir stjórnvalda í byggðamálum, svo sem í samgöngumálum, menntamálum, heilbrigðismálum, atvinnumálum, félagsmálum og umhverfismálum. Í því sambandi er gagnlegt að draga lærdóm af reynslu annarra þjóða af samræmdri byggðastefnu.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðarráðuneyti.
Framvinda Vorið 2002 gerðust Íslendingar aðilar að Northern Periphery Programme eða Norðurslóðaáætlun ESB, skammstöfuð NPP. Áætlunin nær til norðlægra svæða í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Skotlandi, en einnig til Grænlands, Færeyja og Íslands. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að eflingu atvinnu- og efnahagslífs svæða og byggða með svipaðar aðstæður, með samstarfsverkefnum yfir landamæri á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana í þessum landshlutum. Reynt er að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja sé hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs með það að markmiði að tækifæri og styrkleikar svæðanna fái notið sín sem best. Áætlunin er rekin þannig að innsendar umsóknir keppa í gæðum um það fjármagn sem til ráðstöfunar er og er stuðningur háður mótframlagi umsækjenda. Framlag íslenskra stjórnvalda til áætlunarinnar var upphaflega ákveðið 25 millj. kr. á ári til ársins 2006 en var í ár aukið um 8 millj. kr. vegna verkefnaþátttöku á árinu 2005. Nú þegar eru um 60 íslenskir aðilar þátttakendur í 27 verkefnum áætlunarinnar, sem sýnir glöggt þau tækifæri sem með henni bjóðast. Áherslur áætlunarinnar eru á sviði samgangna, flutninga og innviða samgöngukerfa, aðgengis að upplýsingasamfélaginu, sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og náttúruauðlinda, nýsköpunar í atvinnulífi og eflingar mannauðs, samfélagsþjónustu og almennrar stjórnsýslu og skipulagsmála. Frekari upplýsingar um þátttöku Íslands í áætluninni og um einstök verkefni er að finna á heimasíðu Byggðastofnunar www.byggdastofnun.is og á heimasíðu áætlunarinnar www.northernperiphery.net.
    Af öðru alþjóðlegu samstarfi á sviði byggðamála má nefna að Ísland tekur virkan þátt í Norrænu Atlantsnefndinni – NORA verkefninu. Nefndin heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og telst vera hluti af norrænu samstarfi á sviði byggðamála og svæðasamvinnu, en starfssvæði NORA er Ísland, Færeyjar, Grænland og Norður- og Vestur-Noregur. NORA veitir styrki til samstarfsverkefna er tengjast þróun atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknasamstarfi. Íslendingar eru þátttakendur í stórum hluta verkefna NORA. Nánari upplýsingar um NORA er að finna á vefsíðu Byggðastofnunar og www.nora.fo.
    Í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er lagt til að Ísland verði áfram virkur þátttakandi í NPP. Jafnframt er lagt til að Ísland vinni áfram að því að útvíkka starfsemi NORA og beiti sér fyrir því að samstarfslöndin fjármagni starf nefndarinnar.
16. Aukið verðmæti sjávarfangs – líftækni.
Meginhugmynd Að ríkisvaldið láti gera áætlun um hvernig hægt sé að auka verðmæti sjávarfangs og fiskeldis með sérstakri áherslu á nýtingu aukaafurða. Gert verði yfirlit yfir allar þær aukaafurðir sem ekki eru nýttar og sett fram áætlun um hvernig hægt verði að nýta þær í framtíðinni. Stuðlað verði að samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja, háskóla, sjóða og rannsóknastofnana um rannsóknir og frumkvöðlastarf á þessu sviði með sérstakri áherslu á líftækni og nýjar vinnsluleiðir.
Markmið Að auka verðmætasköpun og fjölbreytni í sjávarútvegi og fiskeldi og stuðla þannig að sterkari stöðu til sjávar og sveita.
Ábyrgð á framkvæmd Sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
Framvinda Í framhaldi af skýrslu nefndar sjávarútvegsráðherra um það hvernig auka mætti verðmæti sjávarfangs var stofnaður AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi. Sjóðurinn, sem rekinn er til fimm ára í fyrsta áfanga, starfar á vegum sjávarútvegsráðuneytisins og veitir styrki til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Honum er ætlað að stuðla að auknu virði íslenskra sjávarafurða og efla nýsköpun í greininni. Framlag af fjárlögum til sjóðsins nam 100 millj. kr. árið 2004 og 200 millj. kr. árið 2005.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og Háskólinn á Akureyri gerðu í júlí 2004 með sér samning um samstarf um líftækni. Markmið samstarfsins er að efla rannsóknir og tækniþróun á sviði líftækni í þágu íslensks atvinnulífs. Um er að ræða þróunarverkefni sem stendur út árið 2007 og gengur út á að koma á netsamstarfi milli þeirra sem vinna á þessum vettvangi. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknarverkefni, tengja saman þá sem stunda rannsóknir og þróunarstörf, vinna umsóknir, annast gerð samninga og stýra verkefnum. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti greiðir laun verkefnisstjóra árin 2004, 2005 og 2006 og leggur fram 20 millj. kr. í verkefnafé árin 2004 og 2005 og 10 millj. kr. árin 2006 og 2007. Menntamálaráðuneyti og Háskólinn á Akureyri leggja til húsnæði og búnað fyrir verkefnisstjórann innan ramma fjárveitinga til Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsráðuneyti leggur til starfskrafta fagráðs AVS-rannsóknasjóðs um líftækni.
17. Stefnumörkun þjóðmenningarstofnana um starfsemi á landsvísu.
Meginhugmynd Að landsstefna verði mótuð fyrir þjóðmenningarstofnanir til að bæta þjónustu þeirra við landsbyggðina. Þetta er nauðsynlegt skref í kjölfar lagasetningar, t.d. á sviði minjavörslu, samninga ríkis og sveitarfélaga, nýrra leiða í rekstri og fjármögnun menningarmála, samninga um árangursstjórnun við stofnanir og átaks í upplýsingatækni. Nýleg lög, samningar og reglugerðir gera ráð fyrir miklum skipulagsbreytingum, m.a. með tilkomu nýrra stofnana. Verkefni á sviði rannsókna, varðveislu og miðlunar menningar eru orðin mjög aðkallandi. Því er brýnt að stofnanir og einstaklingar sem starfa á þessu sviði stilli saman strengi við nýjar aðstæður.
Markmið Að þjóðmenningarstofnanir bæti og efli samstarf og þjónustu við landið allt með því að taka faglega forustu um stefnumótun í menningarmálum sem geti orðið grundvöllur frekari samninga- og áætlanagerðar stofnana, sveitarfélaga og einkaaðila sem starfa að menningarmálum á landsbyggðinni.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti.
Framvinda Menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti gerðu árið 2003 með sér samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Samkomulagið er til þriggja ára og ráðuneytin skuldbinda sig til þess að leggja hvort um sig fram að lágmarki 50 millj. kr. á ári til verkefna á grundvelli þess. Á grundvelli samningsins hefur verið unnið að skráningu í menningarstofnunum og miðlun menningarefnis. Til þessa verkefnis er varið samtals 33 millj. kr. Í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á gildi menningar og m.a. lagt til að unnið verði að eflingu menningarstarfsemi á landsbyggðinni.
18. Efling símenntunarmiðstöðva á Ísafirði og Egilsstöðum.
Meginhugmynd Að stofnað verði til skipulegs samstarfs við háskólastofnanir undir forsjá miðstöðvanna og á grundvelli óska þeirra.
Markmið Að bæta möguleika fólks á Vestfjörðum og Austurlandi til að afla sér háskólamenntunar og skapa þar um leið forsendur fyrir fjölbreytilegra atvinnulífi og sérhæfðari störfum. Að efla fræðslu- og rannsóknasamstarf háskólastofnana og heimamanna í þessum landshlutum og vera nemendum og kennurum þeirra hvatning til að efna til og efla samstarf við fyrirtæki og stofnanir í landshlutunum.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti.
Framvinda Símenntunarmiðstöðvar eru starfræktar í öllum landshlutum. Hlutverk þeirra er að efla símenntun með því að miðla námskeiðum og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni byggðarlaga. Símenntunarmiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki í að veita stoðþjónustu við nemendur og aðstöðu fyrir kennslu. Þannig hefur skapast grundvöllur fyrir frekari þjónustu vegna háskólanáms. Á grundvelli samkomulags menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni hefur verið unnið að eflingu símenntunar um land allt. Til þess hefur verið ráðstafað 30 millj. kr. Að auki hefur verið unnið sérstaklega að eflingu símenntunarmiðstöðva á Ísafirði og Egilsstöðum. Á Ísafirði og Egilsstöðum hafa símenntunarmiðstöðvar gengið til samstarfs við háskólasetur, sem þar hafa verið stofnuð, um eflingu símenntunar og háskólanáms.
    Í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er m.a. lagt til að áfram verði unnið að eflingu símenntunar á landsbyggðinni.
19. Uppbygging ferðaþjónustu í dreifbýli.
Meginhugmynd Að ríkisvaldið geri sérstaka áætlun um uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli þar sem lögð verði áhersla á rannsókna- og þróunarstarf, tengsl við skipulagsvinnu sveitarfélaga og markaðssetningu ferðaþjónustu í dreifbýli. Jafnframt verði stóraukin fræðsla og starfsmenntun í greininni. Þetta verði gert með fjárhagslegum stuðningi við þróunar- og markaðsstarf. Lögð sé áhersla á að uppbygging sé háð getu hvers svæðis til að þróa ferðaþjónustu án þess að það komi niður á umhverfislegum, félagslegum eða menningarlegum þáttum svæðisins.
Markmið Að tryggja markvissa uppbyggingu og sjálfbæra þróun greinarinnar, bæta arðsemi fjárfestinga hins opinbera og einkaaðila og auka samkeppnishæfi einstakra svæða á landsbyggðinni og efla þar með íslenska ferðaþjónustu almennt.
Ábyrgð á framkvæmd Samgönguráðuneyti.
Framvinda Iðnaðarráðherra og samgönguráðherra gerðu árið 2003 með sér samkomulag til þriggja ára um sameiginleg verkefni í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Á grundvelli samkomulagsins hafa ráðuneytin sameiginlega unnið að verkefnum er lúta að eflingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni í samræmi við áherslur byggðaáætlunar. Samtals 100 millj. kr. hafa verið til ráðstöfunar til samstarfsverkefnanna á árunum 2003, 2004 og 2005, þar af 60 millj. kr. af fjárveitingu til framkvæmdar byggðaáætlunar. Sex verkefni voru styrkt á grundvelli samkomulags iðnaðar- og samgönguráðherra á árinu 2003.
    Á árinu 2004 voru verkefnin alls tíu talsins og átta á árinu 2005. Samgönguráðuneytið hefur yfirumsjón með framvindu verkefnanna sem styrkt eru á grunni samkomulagsins og leggur í mars ár hvert fram skýrslu þar sem mat er lagt á árangurinn. Í lokaskýrslu, sem samgönguráðuneyti vinnur og leggur fram í mars 2006, verður lagt mat á heildarárangur samkomulagsins. Á árinu 2000 skilaði nefnd skipuð af samgönguráðherra skýrslunni „Heilsutengd ferðaþjónusta“. Í skýrslunni voru settar fram tillögur varðandi framtíð heilsutengdrar ferðaþjónustu hér á landi og hvernig best væri að standa að uppbyggingu hennar. Einnig skipaði samgönguráðherra nefnd sem skilaði af sér skýrslunni „Menningartengd ferðaþjónusta“ sem kom út síðla árs 2001. Þá vann Ferðamálaráð Íslands skýrsluna „Auðlindin Ísland“ að frumkvæði samgönguráðherra, en hún kom út árið 2002. Í skýrslunni er lögð áhersla á að kanna styrk einstakra svæða með tilliti til markhópa ferðamanna. Á grundvelli þessarar vinnu lét samgönguráðherra gera ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006–2015 og var þingsályktunartillaga um ferðamál fyrir tímabilið 2006–2015 samþykkt á síðasta þingi.
    Í tillögu til þingsályktunar um byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er lagt til að áfram verði unnið að öflugri uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Áhersla verði lögð á sérkenni hvers landshluta og skipulagningu vaxtarsvæða. Þá er lagt til að unnið verði að því að bæta aðstöðu ferðamanna í þjóðgörðum og tryggja öruggt aðgengi þeirra.
20. Endurgreiðsla námslána.
Meginhugmynd Að bjóða ungu fólki sem sest að á svæðum þar sem skortur er á fólki með háskólamenntun tímabundinn afslátt af endurgreiðslu námslána.
Markmið Að hvetja ungt fólk með menntun á háskólastigi til að setjast að og starfa úti á landi, og taka þannig þátt í uppbyggingu byggðarlaga þar sem menntað fólk vantar til starfa, og til að byggja upp ný fyrirtæki.
Ábyrgð á framkvæmd Fjármálaráðuneyti.
Framvinda Alþingi samþykkti ný lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna í lok síðasta árs sem fela meðal annars í sér lækkun á árlegri endurgreiðslu námslána úr 4,75% af tekjum í 3,75% hjá öllum lánþegum. Hugmynd um að bjóða ungu fólki sem sest að á svæðum þar sem skortur er á fólki með háskólamenntun tímabundinn afslátt af endurgreiðslu námslána var rædd í nefnd menntamálaráðherra sem samdi drög að lagafrumvarpinu þótt nefndin hafi ekki gert tillögu þar að lútandi í drögunum.
21. Efling umhverfisstarfsemi sveitarfélaga.
Meginhugmynd Að efla umhverfisstarfsemi sveitarfélaga með áherslu á framkvæmd Staðardagskrár 21, jafnframt því að mynda stuðningsnet fyrir umhverfisnefndir og þá sem vinna að umhverfismálum hjá sveitarfélögum.
Markmið Að efla sveitarstjórnir og starfsmenn þeirra og að fylgja eftir hugmyndum um sjálfbæra þróun.
Ábyrgð á framkvæmd Umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
Framvinda Umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra gerðu á árinu 2003 með sér samkomulag um sameiginleg verkefni er tengjast innleiðingu Staðardagskrár 21 og sjálfbærri byggðaþróun í fámennum sveitarfélögum. Öflugt starf fer fram undir merkjum Staðardagskrár í fjölmörgum sveitarfélögum, en þörf er á að styðja við framkvæmd hennar í smærri sveitarfélögunum, m.a. með ráðgjöf og þekkingarmiðlun. Ávinningur sveitarfélaganna er margþættur, þ.e. beinn efnahagslegur ávinningur, samfélagslegur og menningarlegur ávinningur og betri nýting auðlinda. Til samstarfsverkefna á grundvelli samkomulagsins hafa verið til ráðstöfunar samtals 8 millj. kr. á ári á þriggja ára tímabili, þar af 7 millj. kr. á ári af fjárveitingu iðnaðarráðuneytis til framkvæmdar byggðaáætlunar. Af þessu fé hafa 2 millj. kr. á ári runnið til sérstaks þróunarverkefnis um sjálfbært samfélag í Hrísey. Umhverfisráðuneytið hefur yfirumsjón með framvindu verkefnanna. Í lokaskýrslu, sem umhverfisráðuneyti vinnur og lögð verður fram í mars 2006, verður lagt mat á heildarárangur samkomulagsins.
22. Landupplýsingakerfi og sveitarfélög.
Meginhugmynd Að sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins verði gert kleift að nýta sér í vaxandi mæli landupplýsingakerfi í stjórnsýslu. Jafnframt geti þau nýtt sér kosti landupplýsingakerfa við ákvarðanatöku, samþættingu á skráðum upplýsingum og við að auðvelda aðkomu almennings að athöfnum stjórnsýslunnar.
Markmið Að bæta grundvöll ákvarðanatöku sveitarfélaga og auka aðgengi almennings að upplýsingum.
Ábyrgð á framkvæmd Umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
Framvinda Iðnaðarráðherra og félagsmálaráðherra gerðu árið 2003 með sér samkomulag til þriggja ára um sameiginleg verkefni sem tengjast uppbyggingu landupplýsingakerfa sveitarfélaga. Á grundvelli þess hafa ráðuneytin unnið saman og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að verkefnum er lúta að uppbyggingu gagnabanka um fjárhagslegar upplýsingar er snerta rekstur sveitarfélaga. Meginmarkmiðið er að efla hvers kyns samanburð á fjárhagslegum upplýsingum milli sveitarfélaga sem geti nýst þeim sem öflugt tæki við stjórnun og rekstur og leitt til aukinnar hagkvæmni í rekstri sveitarfélaganna. Einnig er gert ráð fyrir að gagnagrunnurinn muni gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í störfum annarra opinberra aðila, svo sem fjármálaráðuneytis við gerð efnahagsspár, Hagstofu Íslands við upplýsingaöflun um búskap hins opinbera, félagsmálaráðuneytis við eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og samtaka sveitarfélaga í hagsmunagæslu þeirra. Enn fremur er gert ráð fyrir að íbúar sveitarfélaga geti haft aðgang að hinum samræmdu upplýsingum. Samkomulagið gerir ráð fyrir að iðnaðarráðherra og félagsmálaráðherra beiti sér fyrir því að samtals verði ráðstafað til verkefna á grunni þess 24 millj. kr. á árunum 2003–2005, þar af 12 millj. kr. af fjárveitingu til framkvæmdar byggðaáætlunar. Félagsmálaráðuneytið gerir iðnaðarráðuneyti grein fyrir framvindu verkefna á grunni samkomulagsins í lok hvers hinna þriggja ára og gerir grein fyrir heildarárangri eigi síðar en í mars árið 2006.
    Félagsmálaráðuneytið samdi í maí 2003 við fyrirtækið Forsvar ehf. á Hvammstanga um smíði upplýsingakerfis sem halda á utan um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga á Íslandi í framtíðinni. Þróun kerfisins tók lengri tíma en áætlað var, en á haustdögum 2005 mun félagsmálaráðuneytið opna fyrir vefsíðu sem veitir gjaldfrjálsan aðgang að upplýsingaveitu um fjármál sveitarfélaga. Upplýsingaveitan hýsir upplýsingar úr ársreikningum, fjárhagsáætlunum og þriggja ára áætlunum sveitarfélaga, ýmsar lykiltölur úr reikningum þeirra, útsvars- og fasteignaskattsprósentur ásamt ýmsum öðrum upplýsingum er varða fjármál sveitarfélaga. Á vefsíðunni má á einfaldan hátt kalla fram upplýsingar úr ársreikningum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, gera samanburð á reikningum valinna sveitarfélaga, skoða þróun í fjármálum einstakra sveitarfélaga o.s.frv. Samkvæmt samkomulagi félagsmálaráðuneytisins, Hagstofu Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga mun sambandið annast söfnun upplýsinga á rafrænu formi úr ársreikningum, fjárhagsáætlunum og þriggja ára áætlunum fyrir upplýsingaveituna.
    Samráðsnefnd umhverfisráðuneytis um þróun landupplýsingakerfa sem sett var á laggirnar árið 2001 til þriggja ára, skilaði bráðabirgðaskýrslu til ráðherra í maí 2003 með tillögum um aðgerðir stjórnvalda. Starfstíma nefndarinnar lauk í apríl 2004 og verið er að leggja drög að frekara samstarfi á þessum vettvangi í umhverfisráðuneytinu.
    Landmælingar Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um gagnkvæma notkun á stafrænum landfræðilegum kortagögnum og um fjarkönnun.


Aðrir samningar á grundvelli byggðaáætlunar.

Samkomulag um verkefni á sviði sjávarútvegs – veiðarfærarannsóknir.
    Eins og fram hefur komið hafa iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið gert með sér samkomulag um verkefni á sviði sjávarútvegs vegna framkvæmdar byggðaáætlunar 2002 – 2005. Um er að ræða tvö verkefni: Annars vegar verkefni er tengist veiðarfærarannsóknum í útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði og hins vegar verkefni í útibúi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á Ísafirði um þorskeldi í sjókvíum, sem nánar er greint frá í tengslum við framvindu aðgerðar nr. 9 hér að framan. Samtals var ráðstafað 10 millj. kr. til þessara verkefna af fjárveitingu til framkvæmda á byggðaáætlun gegn jöfnu framlagi sjávarútvegsráðuneytis.
    Á árinu 2005 hóf Hafrannsóknastofnunin vinnu við fyrsta áfanga í eflingu veiðafærarannsókna í útibúi stofnunarinnar á Ísafirði. Af fé byggðaáætlunar voru veittar 6 millj. kr. til þessa verkefnis. Styrknum var m.a. varið til kaupa á myndvinnslubúnaði til að vinna á stafrænt form gamalt myndefni úr eldri veiðarfæraverkefnum sem liggur undir skemmdum. Þá var hluti styrksins, um 2,5 millj. kr., notaður til að kaupa viðbótarbúnað við nýja fullkomna neðansjávarmyndavél sem keypt hefur verið og nýtist vel við veiðarfærarannsóknir. Neðansjávarmyndavélin nýtist einkum við rannsóknir á veiðarfærum og vistkerfi sjávar. Veiðarfærarannsóknir beinast ekki eingöngu að því að hanna veiðarfæri sem skila meiri afla heldur einnig að áhrifum veiðarfæranna á umhverfið, t.d. á lífríki botnsins og meðafla. Þá er veiðarfærarannsóknunum einnig beint að kostnaði við veiðarnar þar sem veiðar á fiski með ýmiss konar vörpum eru afar orkufrekar og dýrar. Útibúið á Ísafirði er þátttakandi í verkefni ásamt Iðntæknistofnun, Netagerð Vestfjarða hf. og HG hf. sem snýr að þeim þætti og er þar leitað nýrra og hagkvæmra leiða við þróun veiðarfæra. Búnaður sá sem hér er nefndur að framan mun nýtast vel til þeirra rannsókna. Ráðinn hefur verið veiðarfærasérfræðingur til starfa á útibúinu á Ísafirði og eru uppi hugmyndir um að ráða þangað fleiri sérfræðinga.

Samkomulag um átak í menntun og menningu á landsbyggðinni.
    Eins og fram hefur komið gerðu menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti árið 2003 með sér samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Samkomulagið er til þriggja ára og ráðuneytin skuldbinda sig til þess að leggja hvort um sig fram að lágmarki 50 millj. kr. á ári til verkefna á grundvelli þess. Til viðbótar við þau verkefni sem greint hefur verið frá í tengslum við framvindu aðgerða nr. 12, 17 og 18 hefur á grundvelli samkomulagsins 10 millj. kr. verið ráðstafað til undirbúnings ungmenna- og tómstundabúða á Laugum í Sælingsdal.

Samkomulag um sameiginlegt þróunarverkefni er tengist upplýsingakerfi í þjónustu við fatlaða.
    Iðnaðarráðuneyti og félagsmálaráðuneyti gerðu í maí 2005 með sér samkomulag um sameiginlegt þróunarverkefni er tengist upplýsingakerfi í þjónustu við fatlaða. Verkefnið er rekið á Hvammstanga og felst í þróun og uppbyggingu upplýsingakerfis sem heldur utan um alla félagsþjónustu í landinu. Ráðuneytin leggja sameiginlega fram 8 millj. kr. til þessa verkefnis á árinu 2005, þar af 4 millj. kr. af fjárveitingum iðnaðaðarráðuneytis vegna framkvæmdar byggðaáætlunar.

Samkomulag um undirbúning framhaldsnáms í byggðaþróunarfræðum.
    Iðnaðarráðuneyti og Háskólinn á Akureyri gerðu í desember 2003 með sér samkomulag um undirbúning framhaldsnáms í byggðaþróunarfræðum. Samið var um að til þessa verkefnis yrði varið allt að 3 millj. kr. sem skiptust jafnt á samningsaðilana.

Samkomulag um stuðning við markaðsátak erlendis fyrir íslenskar ullarafurðir.
    Iðnaðarráðuneytið og Útflutningsráð Íslands gerðu í maí 2003 með sér samkomulag um stuðning við markaðsátak erlendis fyrir íslenskar ullarafurðir. Eitt af sóknarfærum í landbúnaði tengist útflutningi á íslenskum ullarafurðum. Sérkenni íslenskrar ullar eru mikil og má vænta þess að með endurskipulagningu á markaðssetningu ullarafurða megi ná fram umtalsverðum ávinningi. Á grundvelli þessa ákváðu iðnaðarráðuneyti og Útflutningsráð Íslands að vinna með Fagráði textíliðnaðarins að eflingu markaðsstarfs erlendis á íslenskum ullarafurðum. Iðnaðarráðuneyti leggur 8,5 millj. kr. til þessa átaks.

Vaxtarsamningar.

Vaxtarsamningur Vestfjarða.
    Í maí 2005 var undirritaður Vaxtarsamningur Vestfjarða. Samningurinn er til áranna 2005–2008 og eru markmið hans að efla Vestfirði sem eftirsóttan valkost til búsetu, stuðla að fjölgun íbúa á Vestfjörðum um a.m.k. 150 á samningstímabilinu, auka samkeppnishæfni svæðisins og efla hagvöxt, þróa og styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu, fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vöru og þjónustu, nýta möguleika sem skapast með aðild að alþjóðlegum verkefnum og laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu. Samningsaðilar verja samtals kr. 140,05 millj. kr. til samningsins, ýmist í formi beinna fjárframlaga eða vinnuframlags. Fjárframlag iðnaðarráðuneytis nemur 75 millj. kr. á samningstímanum.

Aðrir vaxtarsamningar í undirbúningi.
    Hafinn er undirbúningur vaxtarsamninga fyrir Suðurland með áherslu á Vestmannaeyjar, Austurland með áherslu á Höfn, Vesturland og Norðvesturland.

Impra nýsköpunarmiðstöð.

    Hér á eftir fer yfirlit yfir helstu verkefni Impru nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri.
     Handleiðsla og fyrirspurnir: Árlega veitir Impra um 4000 handleiðsluviðtöl þar sem frumkvöðlum og stofnendum lítilla fyrirtækja er veitt leiðsögn við þróun viðskiptahugmynda og stofnun og rekstur fyrirtækja. Einnig svara starfsmenn Impru u.þ.b. 4.500 fyrirspurnum á hverju ári frá fyrirtækjum og einstaklingum.
     Heimasíða: Ný heimasíða var opnuð í desember 2003 eftir algjöra endurskipulagningu á markmiðum og uppbyggingu vefþjónustu Impru. Markhópar þjónustunnar eru frumkvöðlar og einstaklingar, fyrirtæki í rekstri og atvinnuþróunarfélög. Ný vefsíða færði þjónustuna nær viðskiptavinum og kemur betur til móts við þarfir hvers markhóps. Heimasíðunni er ætlað að jafna aðgengi að þjónustu óháð búsetu. Mikilvægur þáttur heimasíðunnar er gagnvirk handleiðsla þar sem viðskiptavinum er boðið upp á leiðsögn við þróun viðskiptahugmynda í gegnum netið.
     Útgáfa fræðslu- og kynningarefnis: Gefin hafa verið út fimm rit í röð hagnýtra leiðbeiningarrita þar sem tekið er á ákveðnum þáttum í stofnun og rekstri fyrirtækja. Ritin sem gefin hafa verið út fjalla um vöruþróun, gæðastjórnun í vöruþróun, markaðsáætlanir, verkefnisstjórnun og klasasamstarf. Í undirbúningi er rit um þjónustugæði, gerð viðskiptaáætlana og „aðgerðaáætlun fyrir frumkvöðla“. Þá er ný útgáfa bókarinnar Stofnun og rekstur í útgáfu. Auk þessa hefur ýmist annað kynningarefni verið gefið út.
     Brautargengi: Námskeiðið Brautargengi hefur verið rekið á Akureyri, Egilstöðum, Ísafirði, Sauðárkróki, Selfossi og Vestmannaeyjum. Alls hafa 170 landsbyggðakonur tekið þátt í námskeiðinu en símakönnun framkvæmd sumarið 2005 sýnir að 46% landsbyggðarkvenna sem þá höfðu tekið þátt í verkefninu voru með fyrirtæki í rekstri.
     Frumkvöðlaskólinn: Frumkvöðlaskóli hefur verið starfræktur á Akureyri frá árinu 2003. Alls hafa níu frumkvöðlar lokið námi. Fyrirhugaðar eru breytingar á Frumkvöðlaskólanum í því skyni að höfða til breiðari markhóps. Hugmyndafræðin að baki námskeiðunum byggist á því að tengja saman nám og framkvæmd raunverulegra verkefna. Nemendur vinna að verkefnum sem tengjast öðru námi þeirra eða starfi. Námið byggist á fyrirlestrum, þjálfun, viðtölum og verkefnum sem tengjast þeirri hugmynd sem hver einstaklingur vinnur að hverju sinni.
     Frumkvöðlastuðningur: Markmið Frumkvöðlastuðnings Impru er að styðja nýsköpunarhugmyndir einstaklinga og fyrirtækja. Styrkir eru veittir til verkefna sem stuðla að framþróun viðskiptahugmynda og hugmyndasmiðirnir aðstoðaðir við að hrinda þeim í framkvæmd. Alls hafa 37 fyrirtæki á landsbyggðinni tekið þátt í Frumkvöðlastuðningi frá árinu 2003.
     Skrefi framar: Alls hafa 42 fyrirtæki á landsbyggðinni tekið þátt í verkefninu frá árinu 2003. Þátttakendur í verkefninu vinna náið með ráðgjafa að greiningu á stöðu og umbótum á afmörkuðum þáttum í rekstri fyrirtækjanna. Ráðgjöfin skilur eftir þekkingu meðal starfsmanna sem er mikilvæg til frekari breytinga og umbóta sem tryggja samkeppnishæfni.
     Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum: Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er verkefni sem unnið er í samstarfi stjórnenda og reyndra ráðgjafa. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu endurhugsa stjórnun og innleiða aðferðir nýsköpunar í ferla fyrirtækisins. Fyrirtækin eru styrkt til kaupa á ráðgjöf, en ráðgjafi vinnur með fyrirtækinu í 8–12 mánuði meðan breytingum er hrundið í framkvæmd. Verkefnið hófst árið 2003 og hafa 20 fyrirtæki tekið þátt í því. Almennt eru stjórnendur þeirra fyrirtækja sem taka þátt í verkefninu ánægðir með árangurinn sem gjarnan felst í verulegri stefnubreytingu og nýjum áherslum og ekki síst auknu samstarfi við önnur fyrirtæki.
     Vöruþróun: Líftími vöru og þjónustu verður stöðugt skemmri hvort sem um innlendar eða innfluttar afurðir er að ræða. Fyrirtæki þurfa stöðugt að þróa og endurbæta núverandi vörur og þróa nýjar til þess að viðhalda og auka samkeppnishæfni. Impra nýsköpunarmiðstöð kemur á móts við þessa þörf hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum með verkefninu „vöruþróun“. Fyrirtækin fá fjárhagslegan styrk til að standa straum af hluta kostnaðarins og einnig faglegar leiðbeiningar og stuðning þar sem áhersla er lögð á vönduð vinnubrögð og hraða í þróunarvinnunni. Markmið verkefnisins er að veita fyrirtækjum aðstoð við að þróa samkeppnishæfa vöru á innanlandsmarkað, eða til útflutnings, innan 18 mánaða frá upphafi verkefnisins. Frá árinu 2003 hafa 36 fyrirtæki á landsbyggðinni tekið þátt í verkefninu. Um 20 vörur sem þróaðar hafa verið í verkefninu eru nú þegar komnar á markað og tíu til viðbótar verða markaðssettar á næstu mánuðum.
     Micro Business og Benchmarking: Meginmarkmið verkefnanna Micro Business og Benchmarking er að gefa stjórnendum fyrirtækja kost á að bera rekstur sinn saman við fyrirtæki víða í Evrópu og greina hvar þeir standa sig vel og hvar þeir geta gert betur. Samanburður samkvæmt Micro Businenss hefur verið gerður í um 20 fyrirtækjum og hefur verið undanfari ráðgjafarverkefna eins og t.d. Skrefi framar. Með þessum undanfara verður ráðgjöfin markvissari og vinna ráðgjafans nýtist betur. Í haust mun ljúka verkefni með 50 framleiðslufyrirtækjum sem öll fara í gegnum aðferðafræði Benchmarking með það að markmiði að greina tækifæri sem þau hafa til úrbóta í rekstri.
     Klasaverkefni: Unnið hefur verið að uppbyggingu þekkingar á „klasasamstarfi“ fyrirtækja með það fyrir augum að hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki til samstarfs og sóknar. Kynningar- og fræðslufundir hafa verið haldnir víðs vegar um landið, og samstarfsverkefnum hleypt af stokkunum í samvinnu við atvinnuþróunarfélög. Samstarf er í gangi við aðila vaxtarsamninga í Eyjafirði og á Ísafirði.
     Ráðstefnur og námskeið: Impra hefur staðið fyrir ýmsum ráðstefnum og málþingum bæði ein og með öðrum stuðningsaðilum atvinnulífsins. Meðal þeirra má telja frumkvöðlaþing, sprotaþing, alþjóðlega ráðstefnu frumkvöðlasetra „Building Bridges“ o.fl.
     Stuðningur við atvinnuþróunarfélög: Eitt af verkefnum Impru hefur verið að efla starf atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni. Í því skyni hefur verið efnt til fjölda samstarfsverkefna með atvinnuþróunarfélögum víðs vegar um landið. Meðal verkefna eru:
     *      „Fiskur undir steini“ – reiknilíkan og leiðbeiningarefni um rekstur smábáta og minni fiskvinnsla.
     *      Gagnagrunnur um fjármögnunarleiðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
     *      Áætlanagerðarlíkan fyrir ferðaþjónustu.
     *      Áætlanargerðarlíkan fyrir smáiðnað.
     *      Gæðalíkan fyrir ferðaþjónustu.
     *      Skrefi framar – ráðgjafarverkefni á Vesturlandi.
     *      Upplýsingakerfi atvinnuþróunarfélaganna – verkbókhald og tímaskráning.
     *      Nýsköpunarnámsleiðir fyrir grunnskóla – innleiðing námsefnis um nýsköpun í litla landsbyggðarskóla.
     *      Ungir frumkvöðlar – efling frumkvöðlakrafts ungs fólks í dreifðum byggðum.
     *      Haldin hafa verið ýmis námskeið fyrir atvinnuráðgjafa sem starfa á vegum atvinnuþróunarfélaganna.
     *      Gagna- og verkfæragrunnur hefur verið þróaður í tengslum við heimasíðu Impru til notkunar fyrir atvinnuráðgjafa atvinnuþróunarfélaganna.

Aðrar aðgerðir stjórnvalda.

Iðnaðarráðuneyti.
Sérstök fjárveiting til atvinnuþróunarverkefna.
    Í fyrri framvinduskýrslum hefur iðnaðarráðuneyti greint frá sérstakri 700 millj. kr. fjárveitingu ríkisstjórnarinnar til atvinnuþróunarverkefna, sem samþykkt var í febrúar 2003. Þar af var Byggðastofnun falið að verja allt að 350 millj. kr. til kaupa á hlutafé í álitlegum félögum sem væru til þess fallin að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Skilyrði fyrir hlutafjárkaupum Byggðastofnunar voru margvísleg, m.a. kröfur um ríkt nýsköpunargildi og fjölgun starfa, fjárhagslegan styrk til að ljúka verkefninu, hæfa stjórnendur og raunhæfar áætlanir, heilbrigðan rekstur og efnahag, ásamt skýrt afmarkaðri framkvæmdaáætlun með upplýsingum um fjárþörf og fjárfestingu. Umsóknir voru 98 talsins, samtals að fjárhæð 1.750 millj. kr., og þar af voru 23 samþykktar. Alls var ráðstafað tæpum 348 millj. kr. Skipting á atvinnugreinar var þannig:

Flokkur Hlutafjárkaup
Sjávarútvegur og tengdar greinar 90.000.000
Iðnaður, landbúnaður, líftækni,
    upplýsingatækni og tengdar greinar

232.800.000
Ferðaþjónusta og tengdar greinar 25.000.000

    Meðal einstakra verkefna má nefna ORF líftækni hf., Möðruvöllum, Baðfélag Mývatnssveitar ehf., Reykjahlíð, Íslenskan kúfisk ehf., Þórshöfn, Primex ehf. Siglufirði, Skagann hf., Akranesi, og Feygingu ehf., Þorlákshöfn.
    Byggðastofnun var jafnframt falið að hafa frumkvæði um rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna sem væru til þess fallin að efla grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar á landsbyggðinni og heimilað að verja allt að 150 millj. kr. af fjárveitingu ríkisstjórnarinnar til slíkra verkefna. Styrkveitingum er nú lokið en samþykkt voru 45 verkefni sem var um helmingur þeirra verkefnaumsókna sem bárust og skiptust þær nokkuð jafnt á landshluta. Eftirfarandi er gróf flokkun styrkveitinga.

Flokkur Hlutfall styrkveitinga Fjöldi verkefna
Menning 17,9 5
Menntun 23,2 12
Rannsóknir og þróun 26,9 14
Upplýsingatækni 3,6 2
Ferðaþjónusta 10,4 5
Markaðsmál 18,0 7

    Sem dæmi um verkefni sem styrkt hafa verið eru verkefnið „Máttur kvenna“ á vegum Viðskiptaháskólans á Bifröst, rannsókn Byggðarannsóknastofnunar á nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni með skýrslu sem nefndist „Samfélagsandi og nýsköpunarstarf“, verkefnið „Klasar á Íslandi“ á vegum Impru – nýsköpunarmiðstöðvar, verkefni um eflingu frumkvöðlafræðslu á vegum Frumkvöðlafræðslunnar SES á Höfn í Hornafirði, bygging sjókvía til rannsókna í þorskeldi á Vestfjörðum, á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, og rannsókn á högum og viðhorfum innflytjenda á Austurlandi og Vestfjörðum á vegum Fjölmenningarseturs. Mörg ferðaþjónustuverkefnanna eru Norðurslóðaverkefni (NPP). Sem dæmi má nefna verkefni á vegum Háskóla Íslands, háskólaseturs á Höfn í Hornafirði, um þau tækifæri sem felast í búsetu nálægt þjóðgörðum, verkefni um eflingu ferðaþjónustu í strandhéruðum og tekur til svæða á Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi og verkefnið Snow Magic sem snýst um vetrarferðaþjónustu í Mývatnssveit. Mörg verkefnanna taka til landsins alls eða nokkurra svæða á landinu, eða þá að hægt er að nota þau til fyrirmyndar víðar.

Frumkvöðlasetur á Höfn í Hornafirði.
    Iðnaðarráðuneytið hefur komið að rekstri Frumkvöðlaseturs Austurlands á Höfn í Hornafirði sem komið var á fót vorið 2003.

Útibú Orkustofnunar á Akureyri.
    Orkumálasvið Orkustofnunar hefur rekið útibú á Akureyri frá því í upphafi árs 2003. Útibúið hefur nú verið flutt í rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri og starfsmönnum fjölgað í tvo.

Vöktun á samfélagsáhrifum vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi.
    Iðnaðarráðuneytið ráðstafar samtals 10 millj. kr. á árunum 2004 og 2005 til vöktunar á samfélagsáhrifum vegna stóriðju á Austurlandi.

Vísindagarðar við Háskólann á Akureyri.
    Iðnaðarráðuneytið ráðstafar á árinu 2005 1 millj. kr. til Vísindagarða við Háskólann á Akureyri.

Félagsmálaráðuneyti.
Samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis og Byggðastofnunar
um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa.

    Þriggja ára tilraunaverkefni um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa á Norðurlandi vestra var hrint af stað af hálfu félagsmálaráðuneytisins þann 26. mars 1998. Meginverkefni ráðgjafans var að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Enn fremur átti hann að vinna í samvinnu við atvinnuráðgjafa að fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur í kjördæminu. Verkefnið þótti gefa góða raun og var með samningi milli félagsmálaráðuneytisins og Byggðastofnunar ákveðið að halda verkefninu áfram fram til ársins 2005. Var meðal annars samþykkt að atvinnu- og jafnréttisráðgjafar væru jafnframt staðsettir á fleiri landsvæðum en á Norðurlandi vestra.
    Um er að ræða samstarfsverkefni þessara aðila um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa á landsbyggðinni. Auk ráðgjafans á Norðurlandi vestra var ákveðið að ráðgjafar yrðu jafnframt staðsettir í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Við framhald verkefnisins var byggt á starfi jafnréttisráðgjafa Norðurlands vestra enda mikilvægt að nýta þá reynslu til sóknar fyrir konur í dreifbýli á vinnumarkaðinn. Verkefnið var sérstaklega brýnt því atvinnuleysistölur sýndu að staða kvenna á landsbyggðinni hafði versnað hlutfallslega gagnvart körlum á vinnumarkaði. Samkvæmt samkomulaginu var gert ráð fyrir:
          að frá og með 1. ágúst 2002 til ársloka 2004 yrði ráðinn atvinnu- og jafnréttisráðgjafi fyrir Norðausturkjördæmi,
          að frá og með 1. ágúst 2003 til ársloka 2005 yrði ráðinn atvinnu- og jafnréttisráðgjafi fyrir Suðurkjördæmi.
    Meginverkefni atvinnu- og jafnréttisráðgjafanna var að vinna í samvinnu við atvinnuráðgjafa í viðkomandi kjördæmi að átaki í fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur, vinna að eflingu þeirra sem sjálfstæðra atvinnurekenda og við uppbyggingu fyrirtækja þeirra (sbr. samning félagsmálaráðuneytis og Byggðastofnunar, 2001).
    Í verkefninu fólst að ráðinn var einn ráðgjafi til starfa í Norðvesturkjördæmi og starfaði hann þar til ársloka 2003. Annar ráðgjafi hóf störf í Norðausturkjördæmi um mitt ár 2002 og starfaði þar til 1. mars 2005. Um mitt ár 2003 var ráðinn ráðgjafi í Suðurkjördæmið og mun hann starfa til ársloka 2005. Á fjórum árum, frá 2001 til ársloka 2004, hafa hátt í átta hundruð konur leitað aðstoðar hjá ráðgjöfunum og/eða tekið þátt í námskeiðum sem atvinnu- og jafnréttisráðgjafarnir hafa staðið fyrir á tímabilinu. Auk þess stóðu ráðgjafarnir að sýninga- og ráðstefnuröðinni „Athafnakonur“ sem fram fór á fjórum stöðum á landsbyggðinni, þ.e. Seyðisfirði, Þorlákshöfn, Borgarnesi og á Akureyri, og voru sýnendur um fimmtíu.
    Meðal annarra verkefna má nefna Evrópuverkefni sem taka á atvinnumálum kvenna, þátttöku í umræðu um atvinnumál á ýmsum vettvangi og seta í úthlutunarnefndum sjóða sem veita fjármagn til atvinnumála.

Stofnun Varasjóðs húsnæðismála.
    Varasjóður húsnæðismála var stofnaður með lögum nr. 86/2002, um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Lagabreytingin byggðist á samkomulagi milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 4. apríl 2002. Sjóðurinn veitir framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennan markað og rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Jafnframt hefur sjóðurinn umsýslu með varasjóði viðbótarlána. Ráðgjöf og leiðbeiningar um rekstrarform félagslegra leiguíbúða ásamt upplýsingavinnslu er í verkahring sjóðsins. Varasjóðurinn er staðsettur á Sauðárkróki og hefur hann einn starfsmann í fullu starfi.
    Tekjustofnanefnd hefur lagt til að Varasjóði húsnæðismála verði heimilað að auka rekstrar- og söluframlög vegna félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga og aðstoða við úreldingu þeirra. Framlögin koma til greiðslu á árunum 2005, 2006 og 2007. Framlög þessi munu einkum nýtast þéttbýlissveitarfélögum á landsbyggðinni sem standa höllum fæti fjárhagslega.

Rannsóknarsetur í húsnæðismálum á Bifröst.
    Í ágúst 2003 var undirritaður samningur milli félagsmálaráðuneytisins, Íbúðalánasjóðs og Viðskiptaháskólans á Bifröst um stofnun rannsóknarseturs í húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir því að rannsóknarsetrið muni í fyrstu einbeita sér að hagrænum og efnahagslegum rannsóknum á sviði húsnæðismála, jafnframt því að vinna að víðtækri upplýsingaöflun um húsnæðismál. Mun rannsóknarsetrið sjá um gagnaöflun og úrvinnslu upplýsinga fyrir Íbúðalánasjóð og félagsmálaráðuneytið samkvæmt samningi við þessa aðila. Við stofnun rannsóknarseturs í húsnæðismálum var sett á fót sérstök rannsóknarstaða og var ráðið í hana frá hausti 2003. Innifalin í starfsskyldum forstöðumanns rannsóknarseturs er kennsla við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem svarar til 20% kennslu. Gert er ráð fyrir að nemendur Viðskiptaháskólans muni koma að starfi rannsóknarseturs samkvæmt ákvörðun forstöðumanns og skólayfirvalda.

Rannsóknarsetur vinnuréttar og jafnréttismála.
    Félagsmálaráðuneytið og Viðskiptaháskólinn á Bifröst gerðu með sér samning um stofnun rannsóknarseturs vinnuréttar og jafnréttismála við skólann í maí 2004. Markmið samningsins er að efla kennslu, rannsóknir og ráðgjöf á sviði vinnuréttar og jafnréttismála á vinnumarkaði og styrkja þannig stefnumótun á þeim sviðum. Rannsóknarsetrinu er meðal annars ætlað að vera miðstöð fræðilegra rannsókna á framangreindum sviðum ásamt því að taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi rannsakenda á sviði vinnuréttar. Enn fremur er setrinu ætlað að veita fræðilega ráðgjöf og standa fyrir útgáfu efnis á sviðum vinnuréttar og jafnréttismála á vinnumarkaði. Forstöðumaður, sem er starfsmaður Viðskiptaháskólans á Bifröst, fer fyrir setrinu en honum er jafnframt falin kennsla við lagadeild skólans sem svarar til 20% af ársstarfi.

Heilbrigðisráðuneyti.
Fjarlækningar og bráðarannsóknir.
    Undanfarin missiri hefur verið unnið að prófunum á búnaði og fyrirkomulagi vegna fjarlækninga með þátttöku Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (HÞ), Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) og Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH). Markmið verkefnisins er að styrkja tengsl milli heilbrigðisstarfsfólks á norðausturhorni landsins, efla heilbrigðisþjónustu á svæðinu og draga úr sjúkraflutningum, ásamt því að styrkja samstarf stofnana á svæðinu við FSA.
    Ætlunin er að nýta fjarlækningar vegna ýmiss konar samskipta milli heilbrigðisþjónustuaðila og hafa verið gerðar tilraunir með sendingar á röntgenmyndum til greiningar hjá sérfræðingi, hjartaritum, stafrænum myndum og prófanir gerðar á stafrænni hlustunarpípu. Gert er ráð fyrir að lokaskýrsla verkefnisins liggi fyrir snemma á næsta ári og í framhaldi af því verði skilgreind frekari þróunarverkefni ásamt því að innleiðing á skilgreindum þáttum hefjist.

Fjarlækningar fyrir sjómenn.
    Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar stóðu, ásamt aðilum í Norður-Noregi og með stuðningi frá NORA, að fjarlækningaverkefni er varðar heilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur á Norður-Atlantshafi. Á lokafundi verkefnisins sem haldinn var í Færeyjum sumarið 2004 var lagt til að áfram verði unnið að þróun fjarlækninga á þessu sviði, með áherslu á skipulag nauðsynlegrar þjónustu í landi og fræðslu fyrir sjómenn. Stefnt er að því að framhaldsverkefni verði skilgreind sem muni nýta reynslu þessa verkefnis.

Lyfseðlar.
    Frá sumrinu 2003 hafa rafrænir lyfseðlar verið í prófun á Akureyri, en rafræn sending lyfseðla bæði eykur öryggi í meðhöndlun lyfseðla og hefur í för með sér vinnusparnað á öllum stigum. Gert er ráð fyrir að innleiðing rafrænna lyfseðla á landsvísu fari fram á árinu 2006.

Umhverfisráðuneyti.
Þjóðgarðar.
    Á grundvelli laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, eru starfræktir þrír þjóðgarðar hér á landi auk þjóðgarðsins á Þingvöllum, sem starfar samkvæmt lögum nr. 59/1928 og heyrir undir forsætisráðuneytið. Þjóðgarðarnir þrír eru þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, þjóðgarðurinn Skaftafelli og þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum. Árið 2003 var heilsársstarfsmönnum í þeim fjölgað þannig að nú starfar einn starfsmaður allt árið í hverjum þjóðgarði auk þjóðgarðsvarðar og landvarða yfir sumartímann. Unnið hefur verið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á vegum Umhverfisstofnunar og nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins hefur skilað tillögum um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls, sem verði hluti af einum þjóðgarði, sem taki til Vatnajökuls og jaðarsvæða austan, sunnan og vestan jökuls, og hafi sérstöðu sem tengist beint náttúrufari Vatnajökuls. Í janúar sl. samþykkti ríkisstjórnin, að tillögu umhverfisráðherra, að vinna áfram að undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á grundvelli tillagna nefndarinnar í samráði við heimamenn og aðra hagsmunaaðila og vinna jafnframt heildstæðar tillögur fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sem taki til jökulhettunnar og aðliggjandi jaðarsvæða, bæði norðan og sunnan Vatnajökuls. Gera tillögurnar ráð fyrir að svæði þjóðgarðs norðan Vatnajökuls nái frá vatnaskilum á Vatnajökli í suðri til Tungnársvæðis vestan jökuls og nái yfir Vonarskarð, Tungnafellsjökul, meginhluta Ódáðahrauns, Jökulsá á Fjöllum ásamt helstu þverám, eins og Kreppu, Kverká, Svartá og vatnasviði öllu eins og við verður komið, Vesturöræfi, Snæfell og Eyjabakkasvæðið. Heildarstærð svæðisins er um 10.600 km 2 og það fellur undir stjórnsýslu sjö sveitarfélaga, þ.e. Ásahrepps, Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps, Norður-Héraðs og Fljótsdalshrepps. Skaftafellsþjóðgarður hefur þegar verið stækkaður og nær nú til suðurhluta Vatnajökls sem fellur innan marka Skaftárhrepps og Sveitarfélagsins Hornafjarðar, um 60% af jöklinum, ásamt friðlýstu svæði í Lakagígum. Föstum starfsmönnum þjóðgarðsins var fjölgað úr tveimur í fjóra árið 2005 og hafa hinir nýju starfsmenn þjóðgarðsins starfsstöðvar á Höfn í Hornafirði og á Kirkjubæjarklaustri.

Fráveitumál.
    Unnið er samkvæmt lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Ríkið tekur þátt í kostnaði við framkvæmdir sveitarfélaga samkvæmt nánari reglum þar um. Heildarframlag ríkisins til fráveitumála á árunum 1995–2005, þ.e. á gildistíma laganna er áætlað 2,2 milljarðar kr. Samkomulag er milli ríkisins og sveitarfélaganna um að framlengja gildistíma laganna næstu þrjú árin enda töluvert óunnið á þessu stigi.

Ofanflóðamál.
    Samkvæmt lögum nr. 47/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, skal vinna að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla í þeim sveitarfélögum sem búa við hættu vegna ofanflóða. Til þess að fjármagna þessar aðgerðir er innheimt sérstakt gjald af fasteignaeigendum sem nemur 700–800 millj. kr. á ári. Unnið er samkvæmt framkvæmdaáætlun um uppbyggingu varna á landsvísu og er við það miðað að brýnustu aðgerðum verði lokið árið 2010. Fyrirsjáanlegt er að sú tímasetning færist aftar og er nú unnið að endurskoðun áætlunarinnar í samráði við viðkomandi sveitarfélög. Jafnhliða uppbyggingu varna hefur verið unnið að hættumati fyrir þéttbýlisstaði og er þeirri vinnu nú að mestu lokið. Heildarkostnaður vegna þessara aðgerða er áætlaður um 10 milljarðar kr.