Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 248. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 505  —  248. mál.
Leiðréttur texti.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um svæði sem hafa lotið forræði varnarliðsins.

     1.      Hve mörg svæði á Íslandi lúta nú forræði bandaríska varnarliðsins, hversu stór eru þau, hvar á landinu og hvaða breytingar hafa orðið á þessum svæðum frá árinu 1960?
    Í Varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 segir í 2. gr.: „Ísland mun afla heimildar á landsvæðum og gera aðrar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenskum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir það.“ Varnarsamningurinn hefur lagagildi samkvæmt lögum nr. 110/1951.
    Varnarsvæði eru skilgreind svo í 1. gr. 1. kafla reglugerðar nr. 293/2002, um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum: „Landsvæði það sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til varna landsins og lýst hefur verið samningssvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins og utanríkisráðherra fer með yfirstjórn á, sbr. ákvæði laga nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl. og ákvæði 10. tölul. 14. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004.“
    Núverandi varnarsvæði eru eftirfarandi:
Varnarstöð, Keflvíkurflugvelli á Reykjanesi 8.487 ha
Fjarskiptamiðstöð í Grindavík á Reykjanesi 420 ha
Olíubirgðastöð í Hvalfirði 48 ha
Ratsjárstöð á Bolafjalli við Djúp 7 ha
Ratsjárstöð á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi* 8,5 ha
Ratsjárstöð á Stokksnesi við Hornafjörð 132 ha
*Jörðin Gunnólfsvík I og II öll er 2.529 ha og er í eigu ríkisins.

    Breytingar á þessum svæðum frá 1960 hafa verið eftirfarandi:
Land varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli minnkað um 638 ha
Spildur við Seltjörn í Innri-Njarðvík 247 ha skilað
Spilda í Vatnsleysustrandarhreppi 44,9 ha skilað
Spilda úr Hraunslandi við Grindavík 102 ha skilað
Spilda úr landi Gufuskála á Snæfellsnesi 51 ha skilað
Spilda á Straumnesfjalli við Aðalvík 407 ha skilað
Spildur úr landi Eiðis og Heiðar á Langanesi 140,8 ha skilað
Spilda við Höfn í Hornafirði 0,5 ha skilað

     2.      Hverjir hafa tekið við forræði svæða sem færst hafa frá varnarliðinu og hafa þeir haft af því einhvern kostnað? Ef svo er, hver hefur kostnaðurinn verið?

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sem framkvæmdaraðili varnarsamningsins, sbr. lög nr. 110/1951, hefur utanríkisráðuneytið það hlutverk að taka formlega við þeim landsvæðum sem varnarliðið telur sig ekki lengur hafa not fyrir og óskar eftir að afhenda íslenska ríkinu til umráða á ný. Land sem hefur verið skilað hefur í sumum tilfellum þurft að hreinsa og hefur varnarliðið tekið þátt í þeirri hreinsun.

     3.      Hefur landi sem fallið hefur til ríkisins á þennan hátt verið ráðstafað til þriðja aðila? Ef svo er, hvaða svæði eru það og hvaða tekjur hefur ríkið haft af einstökum svæðum?
    Slíku landi hefur í ákveðnum tilfellum verið ráðstafað til þriðja aðila. Eftirfarandi spildur hafa verið leigðar Reykjanesbæ (og bæjarfélögum sem síðar sameinuðust í Reykjanesbæ):
Land í Ytri-Njarðvík 15,91 ha frá 1987
Land í Ytri-Njarðvík 2,2 ha frá 1992
Land í Ytri-Njarðvík 3,56 ha frá 1992
Land ofan byggðar í Keflavík 55,64 ha frá 1992
Land við Seltjörn (Broadstreet) 247 ha frá 1992

    Leigutekjur af viðkomandi svæðum hafa numið 1,2% af fasteignamati þeirra hverju sinni. Á árinu 2005 eru ætlaðar leigutekjur því eftirfarandi:
Land í Ytri-Njarðvík 15,91 ha 1.942.032 kr.
Land í Ytri-Njarðvík 2,2 ha 188.820 kr.
Land í Ytri-Njarðvík 3,56 ha (lóðum ekki úthlutað)
Land ofan byggðar í Keflavík 55,64 ha (lóðum ekki úthlutað)
Land við Seltjörn (Broadstreet) 247 ha 22.188 kr.

    Auk þess var Reykjanesbæ leigð 9 ha spilda við Grænás árið 1996 sem bærinn framseldi Landeigendafélagi Ytri-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi árið 2002 og nema áætlaðar leigutekjur af henni árið 2005 12.620 kr.
    Spildur úr landi Leiru við Reykjanesbæ (365 ha) og ofan við Reykjanesbæ (66 ha) voru seldar. Sú fyrri var seld fyrir 3.650.000 kr. en sú síðari fyrir 150.000.000 kr. og annaðist fjármálaráðuneytið/Ríkiskaup söluna.
    Þar að auki hefur eftirfarandi spildum verið skilað til fyrri eigenda:
Land við Keflavík 7 ha
Spilda á Straumnesfjalli við Aðalvík 407 ha
Spildur úr landi Eiðis og Heiðar á Langanesi 140,8 ha

     4.      Gilda samræmdar reglur um meðferð lands sem áður hefur heyrt undir varnarliðið?
    Tekin hefur verið upp sú stefna hjá ráðuneytinu að land sem varnarliðið hefur ekki lengur not fyrir og skilað hefur verið til utanríkisráðuneytis verði fært fjármálaráðuneyti til ráðstöfunar. Unnið er nú að því í samvinnu við fjármálaráðuneytið.