Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 18. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 526  —  18. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Snorradóttur og Guðmund Thorlacius frá fjármálaráðuneyti, Skúla Eggert Þórðarson og Bryndísi Kristjánsdóttur frá skattrannsóknarstjóra ríkisins, Benedikt Bogason frá Dómarafélagi Íslands, Jóhann G. Bergþórsson og Pál Hreinsson. Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Kauphöll Íslands hf., Fjármálaeftirlitinu, Viðskiptaráði Íslands, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Dómarafélagi Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum atvinnulífsins, Lögmannafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands, efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, fjármálaráðuneytinu, Félagi löggiltra endurskoðenda, talsmanni neytenda og refsiréttarnefnd.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukakatt þess efnis að lágmarksfésekt við tilteknum skattalagabrotum eigi einungis við um þann hluta skattfjárhæðar sem er í vanskilum en ekki upphaflega skattfjárhæð.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 130. og 131. löggjafarþingi en varð ekki afgreitt sem lög. Málið er nú lagt fram að nýju nokkuð breytt og í greinargerð með frumvarpinu kemur fram í hverju breytingarnar eru fólgnar.
    Í umsögnum skattrannsóknarstjóra og fjármálaráðuneytisins komu fram athugasemdir um að ósamræmi væri milli frumvarpstexta og greinargerðar, þ.e. að orðalag frumvarpstextans væri rýmra en til stæði. Við umfjöllun málsins var einnig bent á að ákvæði laganna væru of ósveigjanleg og gæfu dómara ekki færi á að taka tillit til ýmissa aðstæðna, svo sem greiðslu á hluta vanskila og reglulegum skilum á gögnum. Þá kom fram að heimild virðist skorta fyrir þeirri framkvæmd skattrannsóknarstjóra að fella niður mál áður en þeim er vísað til yfirskattanefndar eða til opinberrar rannsóknar.
    Með hliðsjón af framanrituðu leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þannig að tekið verði fram að fésektarlágmark, þ.e. tvöföldun upphaflegrar skuldar, eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á viðkomandi sköttum, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Dómara er því veitt aukið svigrúm til að ákvarða sekt í þessum málum.
    Enn fremur leggur nefndin til að skattrannsóknarstjóra verði heimilað að gefa aðila kost á að ljúka refsimeðferð með því að greiða sekt enda sé málið upplýst og um minni háttar brot er að ræða, t.d. ýmiss konar athafnaleysisbrot, svo sem að skila ekki tilteknum upplýsingum eða gögnum til skattyfirvalda, vanskilamál svo og þegar brotlegir aðilar hafa leitast við að firra skattkröfueiganda, ríkissjóð og sveitarfélög tjóni með því að greiða áfallnar kröfur meðan á meðferð málsins stendur. Þótt brotið sé unnið með saknæmum hætti er alvarleiki þess talsvert annar en þegar um hefðbundin skattsvik er að ræða enda hafa málsatvik verið upplýst eins og áður hefur komið fram. Oft eiga brotlegir sér málsbætur umfram fremjendur annarra skattalagabrota, einkum þær að brotið hafi ekki verið drýgt til persónulegs ábata né heldur í hagnaðarskyni.
    Nefndin telur að með sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra sé þess að vænta að meðferð skattsvikamála fyrir dómstólum og yfirskattanefnd fækki og ætti því öll meðferð mála af því tagi að verða bæði hraðari og skilvirkari. Hugmyndir sem hér eru settar fram um afgreiðslu mála með sektum eiga sér hliðstæðu í lögreglumálum, sbr. 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og hefur gefist vel.
    Með breytingunni er réttarstaða sökunautar bætt með því að auka möguleika hans á að ljúka refsimeðferð skjótar en verið hefur og án þess að brot verði opinbert. Það er einnig ótvírætt aukinn réttur að sökunautur veit við sektarboð hvaða fjárhæð honum er ætlað að greiða í sekt. Sætti sökunautur sig ekki við sektarboðið, hann telur það of hátt eða vill ekki sæta slíkri meðferð getur hann ætíð hafnað sektarboði og fer þá um málið samkvæmt almennum reglum með venjulegri dómsmeðferð eða sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd.
    Sett er það skilyrði að málsmeðferðinni ljúki innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk. Telur nefndin þann frest hæfilegan. Ljúki málsmeðferð ekki innan sex mánaða fer um málið samkvæmt almennum reglum með venjulegri dómsmeðferð eða sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Nefndin telur ekki rétt að gera ráð fyrir að vararefsing fylgi ákvörðun skattrannsóknarstjóra heldur fari um innheimtu sekta samkvæmt reglum sem gilda um innheimtu sekta fyrir yfirskattanefnd.
    Til þess að ná markmiði breytingartillagnanna er nauðsynlegt að gera sambærilegar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og þarf fyrirsögn frumvarpsins að breytast í samræmi við það.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jóhanna Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. des. 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Ásta Möller.


Ögmundur Jónasson.


Siv Friðleifsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson.