Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 528  —  313. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson, formann fráveitunefndar, Sigurð Óla Kolbeinsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Nefndinni barst skrifleg umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Frumvarpið miðar að því að ríkissjóður haldi áfram að styrkja sveitarfélög til framkvæmda við fráveitur. Auk þess er ítrekað með frumvarpinu að styrkupphæð til einkaframkvæmda verði ekki hærri en sem nemur virðisaukaskatti vegna framkvæmdanna. Þá verði heimilt að verja allt að 10 millj. kr. ár hvert á gildistíma laganna til rannsókna á viðtökum.
    Þess má geta að samkomulag hefur verið gert milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar ríkis og sveitarfélaga um að framlengja gildistíma laganna. Gildistíminn framlengist um þrjú ár, eða til og með 2008, með óbreyttri fjárhæð, þ.e. 200 millj. kr. á ári.
    Ríkissjóður hefur frá setningu laganna veitt sveitarfélögunum um 1,6 milljarða kr. í styrki á þessu sviði. Verði þetta frumvarp að lögum er gert ráð fyrir 600 millj. kr. framlagi næstu þrjú árin, eða 200 millj. kr. á ári.
    Verulegur árangur hefur náðst í fráveitumálum, einkum í þéttbýlinu suðvestanlands, og munu 70–80% Íslendinga búa við viðundandi ástand í fráveitumálum, og standa nú betur að vígi en flestar þjóðir Evrópu hvað þennan málaflokk varðar. Mikilvægt er að ljúka verkefninu og beinir nefndin því til hlutaðeigandi aðila að gera tímasetta áætlun um framkvæmdalok.
    Kolbrún Halldórsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.


Alþingi, 6. des. 2005.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.



Ásta Möller.


Mörður Árnason.


Kjartan Ólafsson.



Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.