Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 536  —  288. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.    Á 131. löggjafarþingi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Átti það lagafrumvarp að koma í stað laga nr. 57 1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en einnig að taka til rannsókna á vatnsaflsvirkjunum sem þau lög gera ekki nú. Eftir nokkra umfjöllun um málið komst nefndin að þeirri niðurstöðu að frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum væri ekki hæft til lagasetningar að svo komnu. Fjölmargar athugasemdir höfðu þá borist nefndinni þar sem margvísleg gagnrýni kom fram á frumvarpið en líka á frumvarp til vatnalaga sem einnig var til umfjöllunar í nefndinni. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni höfði ítrekað lagt til að hvorugt frumvarpið yrði lögfest vegna fjölmargra galla, en einnig vegna þess að frumvörpunum var ætlað að leysa af hólmi vatnalögin frá 1923 en ekki hafði þá komið fram boðað frumvarp til laga um vatnsvernd sem unnið var að í umhverfisráðuneyti. Það frumvarp hefur ekki enn borist Alþingi.
    Endurskoðun hins mikla og mikilvæga lagabálks vatnalaganna frá 1923 er að mati minni hlutans verkefni sem Alþingi verður að vanda til. Til þess að svo megi verða verður glögg heildaryfirsýn að fást á alla þá lagabálka sem eiga að taka við hlutverki vatnalaganna. Til að freista þess að skapa Alþingi tíma til að vinna að málum í þessum anda stóð minni hluti nefndarinnar að því að flytja með meiri hlutanum frumvarp sem ekki náðist að ljúka umfjöllun um á síðasta þingi en er að mestu samhljóða því frumvarpi sem iðnaðarráðherra hefur nú lagt fram. Þessu frumvarpi er ætlað að skapa svigrúm til þess að vinna áfram að undirbúningi fyrirhugaðrar lagasetningar um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Áður en það mál getur komið til umfjöllunar á Alþingi þurfa að liggja fyrir niðurstöður í afar mikilvægu máli, þ.e. með hvaða hætti velja eigi milli þeirra sem sækjast eftir nýtingarrétti á auðlindum. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á frumvarpinu að skipa skuli þverpólitíska nefnd til að vinna að þeirri stefnumótun. Þessi tillaga var í því frumvarpi sem nefndin flutti á liðnu vori. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum hefur ráðherra fellt tillöguna úr því frumvarpi sem nú liggur fyrir en það er þó að öðru leyti samhljóða frumvarpi nefndarinnar eins og áður sagði. Þessi tillaga var mikilvægur hluti málsins að mati minni hlutans og því ber að þakka meiri hlutanum fyrir að taka tillöguna upp aftur. Það er afar lýsandi fyrir vinnubrögð stjórnarmeirihlutans við endurskoðun þeirra lagabálka sem eiga að taka við af vatnalögunum frá 1923 að öll nefndin skuli sammála um að í þessu frumvarpi þurfi að vera ákvæði um endurskoðun á mjög mikilvægum grundvallarþætti málsins, þ.e. hvaða reglur eigi að gilda í framtíðinni um það hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir því að fá nýtingarrétt á auðlindum. Það að minni hlutinn tók þátt í að flytja frumvarp samhljóða þessu frumvarpi verður að skoða í því ljósi að það virtist eina færa leiðin til að koma í veg fyrir að ófullburða frumvarp um jarðrænar auðlindir yrði gert að lögum á síðasta vorþingi. Minni hlutinn harmar að ekki hefur verið fallist á þau sjónarmið hans að allir lagabálkarnir sem koma eiga í stað vatnalaga verði unnir í samhengi svo nauðsynleg yfirsýn fáist. Þetta sést á því að frumvarp til vatnalaga er nú endurflutt nánast óbreytt og því ætluð lögfesting á þessu þingi. Enn er ekki fram komið boðað frumvarp um vatnsvernd.
    Sá galli er á því frumvarpi sem hér liggur fyrir að við lögfestingu þess tekur ákvæði 2. gr. frumvarpsins (5. gr. laganna) sem veitir ráðherra heimild til að veita vilyrði fyrir nýtingarleyfum í tengslum við útgáfu rannsóknarleyfa einnig til nýtingarleyfa hvað vatnsafl varðar. Í því samkeppnisumhverfi sem nú er að skapast í raforkuframleiðslu er nú þegar ljóst að kapphlaup er hafið hjá orkuframleiðslufyrirtækjum um auðlindir landsins. Kapphlaupið er að mati minni hlutans háð vegna þess að stjórnendur fyrirtækjanna telja að reglur sem settar verði um val á milli þeirra sem sækjast eftir nýtingarrétti á auðlindum verði íþyngjandi. Þetta kann að vera rétt en ef svo er munu þeir sem hljóta náð fyrir augum iðnaðarráðherra í því millibilsástandi sem mun ríkja þar til fyrirhuguð lög taka gildi hafa forskot í samkeppninni við hina sem á eftir koma.
    Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld að það eru einmitt nýju aðilarnir, væntanlega aðallega einkafyrirtæki á markaðnum, sem eiga að tryggja þá samkeppni sem stjórnvöld segjast vilja skapa. Minni hlutanum hefur orðið þessi staða enn betur ljós á þeim tíma sem liðinn er frá því að málið var til umfjöllunar á síðasta þingi og nefndin fékk skýra staðfestingu á því sem hér hefur komið fram í viðræðum við forsvarsmenn orkufyrirtækja og embættismenn iðnaðarráðuneytisins við umfjöllun málsins. Af þessum ástæðum lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram þá breytingartillögu á fundi nefndarinnar að heimildarákvæðið sem ráðherra hefur skv. 5. gr. laganna verði numið úr gildi. Með þeirri ákvörðun kæmi ekki til kapphlaups á þeim forsendum sem fyrr er lýst vegna þess að allir sættu þá í framtíðinni sömu reglum eftir að ný lög um jarðrænar auðlindir öðlast gildi. Þessi breyting mundi ekki hamla í neinu veitingu leyfa til rannsókna og ekki heldur veitingu nýtingarleyfa á þeim tíma sem líður þar til endurskoðun laganna verður lokið. Það vakti þess vegna mikla undrun minni hlutans að meiri hlutinn hafnaði tillögunni og því telur hann sig knúinn til að flytja breytingartillögur við frumvarpið sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Steingrímur J. Sigfússon áheyrnarfulltrúi er í aðalatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem fram koma í þessu áliti minni hlutans og telur þá breytingartillögu sem þar er boðuð til bóta. Hann telur þó réttast að fresta afgreiðslu málsins með öllu og mun gera nánar grein fyrir ástæðum þess við umræðu um málið.

Alþingi, 3. des. 2005.
Jóhann Ársælsson,


frsm.


Helgi Hjörvar.


Sigurjón Þórðarson.Katrín Júlíusdóttir.