Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 326. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 544  —  326. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Snorradóttur og Guðmund Thorlacius frá fjármálaráðuneyti og Indriða H. Þorláksson og Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra. Umsagnir bárust nefndinni frá ríkisskattsstjóra, Sjómannasambandi Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Landssambandi smábátaeigenda.
    Í frumvarpinu er lagt til að grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verði hækkuð í samræmi við þá hækkun persónuafsláttar sem samþykkt var í þremur þrepum haustið 2004, nánar tiltekið 2. hækkun. Þá eru lagðar til breytingar sem lúta að skattframkvæmd. Nefndin gerir ekki athugasemdir við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Hins vegar kom fram við meðferð málsins að nauðsynlegt væri að gera aðrar breytingar á lögunum, þ.e. varðandi álagningu eignarskatts á félög sem hafa annað reikningsár en almanaksárið.
    Samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, skal miða skatta við næsta almanaksár á undan skattákvörðun, nema annað sé venjulegt rekstrarár í atvinnugrein aðila eða hann sýnir, þegar hann telur fram, að hann hafi annað reikningsár. Getur skattstjóri þá veitt honum heimild til að hafa það reikningsár í stað almanaksársins. Skattskil skulu þó að jafnaði miðast við 12 mánaða tímabil. Ef breytt er um reikningsár þarf að gera sérstaklega upp fyrir þá mánuði ársins sem falla utan reikningsársins, hvort heldur við upphaf breytinga eða afturhvarf til almanaksársins. Regla sem þessi hefur verið í skattalögum allt frá árinu 1921. Jafnframt segir í 78. gr. laganna að eignarskatt skuli miða við eignarskattsstofn skattaðila í árslok. Þó mega þeir er með leyfi skattstjóra nota annað reikningsár en almanaksár telja fram eignir sínar í lok þess reikningsárs síns sem er næst á undan skattálagningu.
    Með lögum nr. 129/2004 var kveðið á um afnám eignarskatts og skal síðasta álagning hans fara fram á árinu 2005 vegna eigna eins og þær voru í árslok 2004. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003 ákveður fjármálaráðherra hvenær álagningu skuli vera lokið. Samkvæmt auglýsingu nr. 29 frá 3. janúar 2005 var ákveðið að álagningu á lögaðila sem hafa almanaksárið sem reikningsár skuli vera lokið eigi síðar en 31. október 2005. Einnig var kveðið á um að álagningu á lögaðila sem fengið hafa heimild til að hafa annað reikningsár til skattskila en almanaksárið skuli lokið eigi síðar en sex mánuðum eftir að því reikningsári lýkur.
    Félög með annað reikningsár en almanaksárið geta lokið reikningsári sínu á tímabilinu frá 31. janúar til 30. nóvember 2005. Þar sem skattstjórar hafa sex mánuði til að ljúka álagningu fer hún eðli máls samkvæmt fram í einhverjum tilvikum á fyrri hluta ársins 2006 vegna lögaðila sem ljúka reikningsárinu 31. júlí til 30. nóvember 2005. Ákvæði um heimild til álagningar eignarskatts falla niður 31. desember 2005. Þar með getur skattstjóra mögulega skort álagningarheimild vegna eignarskatts þegar um er að ræða lögaðila með annað reikningsár en almanaksárið. Úr þessu á að bæta með bráðabirgðaákvæði því sem fram kemur hér á eftir.
    Tekið er fram í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 129/2004 að brottfelld ákvæði haldi gildi sínu bæði hvað varðar álagningu á félög sem hafa heimild til að miða skattuppgjör við reikningsár sitt og endurákvörðun vegna fyrri ára. Þykir þó rétt til áréttingar að taka sérstaklega fram í bráðabirgðaákvæði að skattstjórar hafi ótvíræða heimild til álagningar eignarskatts fram yfir almennt afnám eignarskatts í þeim tilvikum þegar um annað reikningsár en almanaksárið er að ræða.
    Bráðabirgðaákvæðinu er einnig ætlað að bæta úr öðru atriði. 30. mars 2004 gaf embætti ríkisskattstjóra út verklagsreglur, m.a. um hvernig haga skuli skattskilum félaga á því ári sem þau fá heimild skattstjóra fyrir öðru reikningsári en almanaksárinu. Við þær aðstæður getur sú staða komið upp að reikningsár sé einungis nokkrir mánuðir, þ.e. að um skert reikningsár sé að ræða vegna tímabilsins frá áramótum að upphafi hins breytta reikningsárs. Sama getur komið upp sé breytt til baka, þ.e. frá afbrigðilegu reikningsári til almanaksárs. Í verklagsreglunum segir almennt um álagningu eignarskatts að í þeim tilvikum þegar reikningsári er breytt skuli leggja á eignarskatt fyrir framtalstímabil sem nær yfir 31. desember eða ef það er níu mánuðir eða lengra. Getur því sú staða komið upp að félög við umbreytingu í annað reikningsár sitji í einstaka tilfellum uppi með eina eignarskattsálagningu umfram félög sem hafa almanaksárið sem reikningsár.
    Þá leggur nefndin til smávægilega breytingu á 3. gr. frumvarpsins er varðar gildistöku.
    Með hliðsjón af framanrituðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Vegna félaga sem hafa annað reikningsár en almanaksárið skal álagningu hagað samkvæmt eftirfarandi reglum vegna reikningsárs sem lýkur á árinu 2005. Álagningu skal haga samkvæmt þeim eignarskattsstofni sem ákvarðast í lok reikningsárs á grundvelli ákvæða laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þau lög voru 30. desember 2005. Hafi félag fengið samþykki skattstjóra fyrir öðru reikningsári en almanaksári og við þá breytingu haft skert reikningsár fyrir tímabilið frá lokum fyrra tímabils til upphafs næsta reikningsárs og jafnframt greitt eignarskatt við lok hins skerta reikningstímabils skal félagið undanþegið álagningu eignarskatts vegna reikningsárs sem lýkur á árinu 2005.
     2.      2. málsl. 3. gr. orðist svo: Ákvæði 2. gr. öðlast gildi 1. janúar 2006.

    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. des. 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Jóhanna Sigurðardóttir.


Ásta Möller.


Ögmundur Jónasson.Siv Friðleifsdóttir.