Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 547  —  345. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum (fylgiréttargjald).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



     Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti, Knút Bruun frá Myndstefi, Tryggva P. Friðriksson frá Gallerí Fold og Emil B. Karlsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Nefndinni bárust umsagnir frá Gallerí Fold, Myndstefi, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Markmiðið með frumvarpinu er að innleiða listmunauppboðsákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001, um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt). Meginþýðing tilskipunarinnar hér á landi er sú að fylgiréttargjald mun lækka. Í 1. málsl. 6. mgr. 23. gr. gildandi laga kemur fram að á málverk, myndir og listmuni sem seldir eru á listmunauppboðum skuli leggja 10% gjald er renni til listamannanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að gjaldið verði ákveðið í sex þrepum frá 0,25% upp í 10%.
    Við umfjöllun málsins kom fram það sjónarmið að óeðlilegt væri að ríkið innheimti sem skatt fjármuni sem renna eiga til einkaaðila. Jafnframt var því velt upp hvort umfang innheimtunnar væri svo lítið að kostnaður vegna hennar stæði ekki undir tekjunum.
    Í 6. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins kemur fram að ráðherra geti sett nánari reglur um fylgiréttargjald að höfðu samráði við Myndlistarsjóð Íslands – Myndstef. Nefndin leggur til að tilgreining á umræddum hagsmunasamtökum verði felld brott en leggur á það áherslu að komi til reglugerðarsetningar, skuli ráðherra leita samráðs beggja hagsmunaaðila, þ.e. myndlistarmanna og fulltrúa uppboðshaldara. Þá leggur nefndin til tvær smávægilegar breytingar er varða lagatæknileg atriði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingsskjali.
    

Alþingi, 7. des. 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Birgir Ármannsson.


Kristján L. Möller.


Ásta Möller.



Ögmundur Jónasson.


Siv Friðleifsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.