Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 306. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 553  —  306. mál.
Svarlandbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um útivist í þjóðskógum.

     1.      Hver er áætlaður fjöldi ferðafólks í þjóðskógum árlega?
    Þjóðskógarnir, sem svo eru kallaðir, eru 40 skógar og skógræktarsvæði um land allt sem Skógrækt ríkisins hefur umsjón með fyrir hönd þjóðarinnar. Þeir eru afar misjafnir; allt frá friðuðum náttúruskógum, þar sem upprunalegt birkiskóglendi fær að njóta sín, til hreinna ræktaðra nytjaskóga sem eru nauðsynlegar fyrirmyndir þeirrar skógræktar sem nú fer fram á vegum bænda landsins og ætlað er að skapa nýja auðlind. Flestir eru þó fjölnytjaskógar, þar sem saman fara náttúruvernd, útivist og framleiðsla. Meðal þeirra eru einhverjar helstu náttúruperlur landsins – Hallormsstaðaskógur, Vaglaskógur, Þórsmörk og Ásbyrgi – útivistarsvæði landsmanna frá fornu fari. Einnig eru þar á meðal skógar sem sérstaklega hafa verið opnaðir almenningi á seinni tímum – Ásólfsstaðir og Skriðufell í Þjórsárdal, Haukadalsskógur, Jafnaskarð við Hreðavatn og Reykjarhóll í Skagafirði.
    Fjöldi ferðamanna sem kemur í þjóðskógana árlega er ekki þekktur með vissu, en skógarverðirnir áætla að hann sé samanlagt vel yfir 200.000. Þess má geta að Skógrækt ríkisins tekur nú þátt í fjölþjóðlegu þróunarverkefni, styrktu af Evrópusambandinu, sem mun m.a. leiða betur í ljós hversu margir leggja leið sína í skógana til að njóta þar útivistar.

     2.      Hver var fjöldi gistinátta á tjaldsvæðum í þjóðskógunum undanfarin fimm ár?

    Yfir gistinætur í þjóðskógunum eru til nokkuð ábyggilegar tölur. Á árunum 2000 til og með 2004 voru samtals 266.432 gistinætur á tjaldsvæðum í þjóðskógunum, eða að jafnaði rúmlega 53.000 á ári. Þar við bætist gisting á hjólhýsasvæðum sem áætluð er um 24.000 nætur á ári og nálgast heildartalan þá 390.000 eða 78.000 á ári. Fjöldinn er nokkuð jafn ár frá ári í heildina. Langflestar eru gistinætur í júlímánuði og má ætla að fjöldinn takmarkist af framboði á tjaldsvæðarými í þeim mánuði.

     3.      Hvernig er rekstri tjaldsvæða Skógræktar ríkisins háttað?

    Rekstur tjaldsvæða í þjóðskógunum er í höndum ferðaþjónustuaðila í Þórsmörk og í höndum einkaaðila sem leigja aðstöðu af Skógrækt ríkisins í Þjórsárdal, Selskógi í Skorradal og Vaglaskógi. Skógrækt ríkisins rekur sjálf tjaldsvæðin í Hallormsstaðaskógi.

     4.      Hver var kostnaður Skógræktar ríkisins vegna útivistar í þjóðskógunum 2004 og hverjar voru tekjurnar?

    Kostnaður Skógræktar ríkisins vegna útivistarmála 2004 var alls 18,5 millj. kr. og tekjur á móti 15,3 millj. kr. Af ríkisframlaginu til stofnunarinnar fóru því um 3,2 millj. kr. til útivistarmála.

     5.      Hver er áætluð fjárþörf næstu fimm árin vegna nauðsynlegs viðhalds, endurbóta og úrbóta sem tengjast útivist í þjóðskógunum?

    Að mati Skógræktar ríkisins er áætlað að fjárþörf vegna nauðsynlegra úrbóta í útivistarmálum næstu fimm árin sé u.þ.b. 144 millj. kr. eða um 67,5 millj. kr. umfram tekjur verði þær svipaðar áfram og þær voru 2004.