Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 575  —  345. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum (fylgiréttargjald).

(Eftir 2. umr., 8. des.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      6. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „6. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 23. gr. a.

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 23. gr. a, sem orðast svo:
    Á málverk, myndir og listmuni, sem seldir eru á listmunauppboðum, skal leggja gjald er renni til listamanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum.
    Gjaldið skal vera í íslenskum krónum og reiknast þannig:
     1.      10% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar að hámarki 3.000 evrum;
     2.      5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 3.000,01 evru upp í 50.000 evrur;
     3.      3% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 50.000,01 evru upp í 200.000 evrur;
     4.      1% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 200.000,01 evru upp í 350.000 evrur;
     5.      0,5% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar 350.000,01 evru upp í 500.000 evrur;
     6.      0,25% af þeim hluta söluverðs sem samsvarar fjárhæð umfram 500.000 evrur.
    Gjaldið skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem samsvarar 12.500 evrum.
    Gengið skal miðað við sölugengi á söludegi.
    Sé höfundaréttur fallinn niður eða fénu verður ekki ráðstafað rennur það til styrkja eða starfslauna handa myndlistarmönnum.
    Menntamálaráðherra getur sett nánari reglur um fylgiréttargjald og kveðið þar á um viðurlög við brotum á reglunum, sbr. 24. gr. Um undanþágu frá virðisaukaskatti vegna sölu á listmunauppboði vísast til 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

3. gr.

    Lög þessi innleiða listmunauppboðsákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001 um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt).

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.