Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 90. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 581  —  90. mál.
Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um fæðingarorlof.

     1.      Hve miklar heildargreiðslur vegna fæðingarorlofs hafa sparast fyrstu 9 mánuði yfirstandandi árs, sundurliðaðar eftir ákvæðum nýrra fæðingarorlofslaga sem leiða áttu til sparnaðar, t.d. ákvæðum um þak á fæðingarorlofsgreiðslur og breytt viðmiðunartímabil tekna sem fæðingarorlofsgreiðslur miðast við?
    
Tilgangur laga nr. 129/2004, um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, var meðal annars að renna styrkari stoðum undir það fæðingarorlofskerfi sem sett var á laggirnar á árinu 2000 með því að treysta betur stöðu þess og koma böndum á útgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Eitt markmið laganna var að samstilla fæðingarorlofskerfið við skattkerfið þar sem grunur lék á því að hluti foreldra hefði leitast við að hafa áhrif á tekjur sínar til hækkunar á viðmiðunartímabilinu. Enn fremur var með lengingu á viðmiðunartímabili talið að meðaltal heildarlauna foreldra endurspeglaði betur rauntekjur þeirra. Með þessu var meðal annars lögð áhersla á að sjóðurinn er fjármagnaður í gegnum skattkerfið og er honum ætlað að bæta foreldrum raunverulegt tekjutap í samræmi við upplýsingar skattyfirvalda. Þá var lagt til að hámark yrði sett á fjárhæð greiðslna sem foreldrar eiga rétt á úr Fæðingarorlofssjóði en ljóst var að sú ráðstöfun væri til þess fallin að draga úr fjárútstreymi hans án þess þó að stefna markmiðum laganna í hættu.
    Samkvæmt upplýsingum Fæðingarorlofssjóðs hefur 81 foreldri verið með hærri tekjur en nemur hámarkstekjum sem gert er ráð fyrir að Fæðingarorlofssjóðurinn bæti foreldrum á fyrstu níu mánuðum ársins. Útgjöld sjóðsins vegna þeirra foreldra hafa samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði dregist saman um 25 millj. kr.
    Frekari sundurgreining á því hver áhrif þeirra breytinga, sem gerðar voru með lögum nr. 129/2004, eru á útgjöld Fæðingarorlofssjóðs liggja ekki fyrir og verður þeirra ekki aflað án verulegs tilkostnaðar. Að því er varðar breytt viðmiðunartímabil sem lagt er til grundvallar útreikningum á greiðslum í fæðingarorlofi þá eru einungis fyrir hendi hjá Fæðingarorlofssjóði upplýsingar um tekjur foreldra sem eignuðust börn 1. janúar 2005 eða síðar samkvæmt gildandi viðmiðunartímabili en ekki samkvæmt eldra tímabili hvað þá foreldra varðar. Þar af leiðandi er ekki unnt að finna út hvaða fjárhæðir þessir foreldrar hefðu fengið samkvæmt eldra viðmiðunartímabili. Jafnframt er til þess að líta að efasemdir eru um réttmæti þeirrar upplýsingaöflunar er til þyrfti að koma til að svara spurningunni í ljósi þess að sjóðurinn þarfnast þeirra í raun ekki við framkvæmd laganna gagnvart foreldrum.
    Ráðuneytið áætlar að útgjöld Fæðingarorlofssjóðs árið 2005 verði mjög nálægt útgjöldum sjóðsins árið 2004, eða um 6,2 milljarðar kr. Það liggur aftur á móti fyrir að áhrif framangreindra breytinga munu ekki koma fram í útgjöldum sjóðsins að fullu fyrr en á árinu 2006.

     2.      Hve mikið hafa breyttar viðmiðunarreglur um tekjur vegna greiðslu fæðingarorlofs lækkað fæðingarorlofsgreiðslur sem hlutfall af launum að meðaltali, miðað við að raungildi þeirra væri 80% af meðaltali heildarlauna og miðað við sömu viðmiðunarreglu um tekjur og gilti fyrir gildistöku nýrra laga um fæðingarorlof?
    Með vísun til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar verður þessu ekki svarað með einföldum hætti. Gera má ráð fyrir að breytt viðmiðunartímabil lækki útgjöld Fæðingarorlofssjóðs um 3–4,5%. Á það skal þó bent að markmið laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, var m.a. að stuðla að því að röskun á tekjuinnkomu heimilanna yrði sem minnst þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingarorlofi. Tilgangur laganna er því fyrst og fremst að tryggja foreldrum ákveðið hlutfall þeirra tekna sem þeir hafa haft yfir tiltekið tímabil til að gera þeim kleift að annast börn sín. Þegar reiknað er út hvaða rétt foreldri á til greiðslu er miðað við verðgildi launa á þeim tíma sem til þeirra var unnið. Út frá þeim forsendum eru greiðslur til foreldra almennt 80% af tekjum þeirra á viðmiðunartímabili, hvort sem horft er til fyrra viðmiðunartímabils eða núverandi. Það hefur aldrei verið markmið laganna að bæta foreldrum þær tekjur sem þeir hugsanlega hefðu getað aflað hefðu þeir ekki eignast barn og því haldið áfram á vinnumarkaði.
    Það liggur í hlutarins eðli að jafnstórt kerfi og fæðingarorlofskerfið er, þar sem miðað er við tekjuupplýsingar einstaklinga yfir tiltekið tímabil, þarf að fylgja ákveðnum reglum. Það er ljóst að tekjur einstaklinga eru misjafnar sem og að þær geta tekið breytingum yfir tímabilið. Kerfið er því nokkuð flókið í framkvæmd. Þegar lögin voru samþykkt á Alþingi var ákveðið að miða við tiltekinn fjölda mánaða fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku þess í varanlegt fóstur. Í ljósi reynslunnar þótti hins vegar nauðsynlegt að samstilla kerfið betur við skattkerfið þannig að Fæðingarorlofssjóður miði við sama tímabil og skattyfirvöld gera. Var jafnframt talið að viðmiðunartímabil sem tæki til tveggja ára gæfi betri mynd af rauntekjum foreldra þannig að einstakar sveiflur í tekjum þeirra hefðu ekki afgerandi áhrif á endanlegt tekjuviðmið.
    Þrátt fyrir framangreinda meginreglu var tekið tillit til þess að ekki hafa allir foreldrar starfað á innlendum vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að miðað sé við meðaltal heildarlauna foreldris yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið á innlendum vinnumarkaði. Þó verður aldrei miðað við færri en fjóra mánuði til að fá fram ákveðið meðaltal tekna foreldra. Jafnframt var tekið tillit til þeirra sem hafa ekki starfað á viðmiðunartímabili og þeim tryggðar lágmarksgreiðslur samkvæmt lögunum í samræmi við starfshlutfall sitt.
    Í ljósi framangreinds er það áfram markmið Fæðingarorlofssjóðs að tryggja foreldrum 80% af þeim tekjum sem þeir höfðu á tilteknu tímabili, sem er skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Það er hins vegar annmörkum háð að svara því hversu hátt hlutfall það er af þeim tekjum er foreldri hugsanlega gat aflað sér hefði það ekki ákveðið að eignast barn og haldið áfram á vinnumarkaði. Því er heldur ekki að neita að margs konar breytingar geta orðið á högum fólks, og þá sérstaklega hjá ungu fólki sem er að hasla sér völl á vinnumarkaði. Einstaklingum bjóðast ný störf, stöðuhækkun eða launahækkun vegna góðrar frammistöðu. Því má heldur ekki gleyma að breytingar geta jafnframt haft í för með sér lækkun á tekjuinnkomu fólks vegna atvinnuleysis, veikinda eða annarra ófyrirséðra ástæðna. Þess vegna var talið að tímabilið sem lögin taka mið af gæfi ágæta mynd af tekjuinnkomu verðandi foreldra sem ætti að gera þeim kleift að leggja niður störf til að annast börn sín.

     3.      Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að fjárhæðir fæðingarorlofsgreiðslna haldi raungildi sínu miðað við að foreldrar í fæðingarorlofi fái 80% heildartekna sem taki breytingum í samræmi við launavísitölu á hverjum tíma og að útreikningar á meðaltali heildarlauna taki tillit til breytinga á launavísitölu á viðmiðunartímabilinu?
    Vísað er til svars við 2. lið.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagabreytingu á þessu þingi sem tryggi að fæðingarorlofsgreiðslur skerði ekki rétt til umönnunar- og lífeyrisgreiðslna?
    Ákvæði 33. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu að undanförnu. Mál þetta er ekki einhlítt og þarfnast frekari yfirlegu. Að svo stöddu liggja ekki fyrir drög að frumvarpi til breytinga á lögunum að því er þetta efni varðar. Ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun af hálfu ráðherra um hvort slíkt frumvarp verður lagt fram á yfirstandandi þingi.

     5.      Telur ráðherra rétt að gera breytingar á fæðingarorlofslögum til að tryggja betur rétt einstæðra foreldra og rétt ófeðraðra barna?

    Markmiðið með þeirri lögbundnu skiptingu sem er milli foreldra á töku fæðingarorlofs er meðal annars að stuðla að jafnri fjölskylduábyrgð, sem og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þá var tilgangur þessa fyrirkomulags ekki síður að tryggja barni eins og kostur er samvistir bæði við föður og móður, sbr. 2. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
    Í því skyni að tryggja framangreind markmið laganna var jafnframt talið mikilvægt að réttur til fæðingarorlofs væri ekki alfarið bundinn því skilyrði að foreldri færi með forsjá barnsins. Af inntaki forsjár skv. 28. gr. barnalaga, nr. 76/2003, leiðir þó að samþykki þess foreldris sem fer með forsjána á því að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir þarf að liggja fyrir. Engu síður felur inntak forsjár jafnframt í sér að foreldri sem fer eitt með forsjá barns er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema það sé andstætt hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds. Þá er það réttur barns að þekkja báða foreldra sína og af þeim rétti barnsins leiðir skylda móður að feðra barn sitt sem ekki er feðrað samkvæmt beinum fyrirmælum barnalaga, sbr. 1. gr. þeirra laga.
    Þykja því ekki efni standa til að leggja til breytingar á fæðingarorlofslögum um þessi atriði að svo stöddu.