Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.

Þskj. 634  —  417. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 skal falla úr gildi frá og með 1. febrúar 2006. Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.
    Þrátt fyrir ákvæði 5. og 10. gr. skulu úrskurðir Kjaradóms og kjaranefndar, frá og með gildistöku laga þessara og til loka árs 2006, taka mið af samningsbundnum hækkunum kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Telji Kjaradómur eða kjaranefnd að á þessu tímabili sé sérstök ástæða til breytinga á kjörum einstakra embættismanna eða hópa, vegna breytinga á umfangi starfa eða á verkefnum og verksviði þeirra, skal þess gætt að það valdi ekki röskun á vinnumarkaði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með úrskurði Kjaradóms 19. desember 2005 endurákvarðaði dómurinn laun þeirra aðila sem undir Kjaradóm falla samkvæmt lögum nr. 120/1992. Úrskurðurinn fól í sér að 1. janúar 2006 skyldu laun forseta hækka um 6,15%, en laun annarra sem undir dóminn heyra að jafnaði um 8,16%. Frá sama tíma hækkuðu laun á vinnumarkaði almennt um 2,5%. Úrskurðurinn vakti harkaleg viðbrögð aðila vinnumarkaðarins sem töldu nýgerðu samkomulagi um kjaramál stefnt í hættu. Hinn 27. desember 2005 ritaði forsætisráðherra Kjaradómi bréf þar sem farið var fram á það að úrskurðurinn yrði endurskoðaður. Kjaradómur hafnaði þessu með bréfi dags. 28. desember 2005.
    Í ljósi þeirra áhrifa sem úrskurður Kjaradóms gæti haft á stöðu vinnumarkaðsmála, þar á meðal nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kjaramál, og þeirra ófyrirsjáanlegu áhrifa sem slíkt hefði á stöðugleikann í efnahagsmálum, er nauðsynlegt að bregðast við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005. Hefur ríkisstjórnin ákveðið annars vegar að beita sér fyrir því að úrskurði Kjaradóms verði breytt með lagasetningu, þannig að í stað þeirra hækkana sem þar voru ákveðnar komi 2,5% hækkun frá 1. febrúar 2006, eins og gert er með frumvarpi þessu. Hins vegar mun ríkisstjórnin skipa nefnd til að fara yfir núgildandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Meðal þess sem nefndinni er ætlað að skoða er hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi launaákvarðana Kjaradóms og kjaranefndar þannig að betra samræmis sé gætt í starfskjörum þeim sem þær ná til, bæði innbyrðis og gagnvart almennum vinnumarkaði. Enn fremur er nefndinni ætlað að huga að þeim viðmiðunum og fyrirmælum sem einstökum aðilum eru sett í lögum um launaákvarðanir sínar. Er nefndinni ætlað að skila tillögum svo fljótt sem auðið er. Rétt þykir að launabreytingum hjá þeim sem Kjaradómur og kjaranefnd ákvarða laun fyrir verði haldið í lágmarki meðan farið verður yfir lögin. Af þessum sökum er í frumvarpi þessu jafnframt lagt til að Kjaradómi og kjaranefnd verði tímabundið settar viðbótartakmarkanir varðandi launabreytingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í fyrstu efnismálsgrein er lagt til að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember sl. verði felldur úr gildi frá og með 1. febrúar 2006. Í stað þeirrar launahækkunar sem þar er ákveðin hækki laun þeirra sem undir Kjaradóm heyra frá 1. febrúar 2006 um 2,5% frá því sem þau voru í árslok 2005. Til athugunar kom hvort ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur til forseta kjörtímabil hans, kynni að takmarka möguleika á að breyta úrskurði Kjaradóms að því er varðar laun forseta Íslands. Tilvitnað stjórnarskrárákvæði var nýmæli í stjórnarskránni 1944. Í skýringum við ákvæðið er það rakið að það miði að því að hindra að fjárhagslegum þvingunarúrræðum verði beitt gegn forseta. Sérstaklega er tekið fram að með ákvæðinu sé einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann hefði í upphafi haft, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.
    Ljóst er að með frumvarpi þessu er ekki farið gegn tilgangi stjórnarskrárákvæðisins. Nefna má að Kjaradómi var, með bráðabirgðalögum 3. júlí 1992 um breytingu á lögum um Kjaradóm, nr. 92/1986, falið að kveða upp nýjan úrskurð í stað úrskurðar síns frá 26. júní 1992. Kjaradómur kvað upp nýjan úrskurð 12. júlí 1992 í samræmi við efni bráðabirgðalaganna sem fól í sér lækkun launa frá því sem ákveðið var með fyrri úrskurði og tók hinn nýi úrskurður jafnt til forseta sem annarra sem undir fyrri úrskurð Kjaradóms féllu.
    Í fyrri málslið annarrar efnismálsgreinar er gert ráð fyrir að breytingar á launum þeirra sem undir Kjaradóm og kjaranefnd heyra verði takmarkaðar við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði á árinu 2006. Í þeim kjarasamningum er ekki gert ráð fyrir öðrum launahækkunum en þeirri 2,5% hækkun launataxta sem kom til framkvæmda um nýliðin áramót nema til komi breytingar sem leiði af niðurstöðum endurskoðunarnefndar samningsaðila á hinum almenna vinnumarkaði. Í þessu felst m.a. að Kjaradómi og kjaranefnd er á umræddu tímabili ætlað að horfa fram hjá hugsanlegum umframhækkunum launataxta afmarkaðra hópa og launaskriði.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan er við það miðað að sú nefnd sem fara á yfir lögin skili tillögum sínum svo fljótt sem verða má. Af þeim sökum er ekki talin ástæða til að takmarka lengur en til næstu áramóta þær forsendur sem Kjaradómi og kjaranefnd er ætlað að starfa eftir. Má ætla að fyrir þann tíma hafi annað tveggja gerst: þeim viðmiðunum sem Kjaradómur og kjaranefnd sé ætlað að fylgja í launaákvörðunum sínum hafi verið breytt eða ákveðið hafi verið að láta þær haldast óbreyttar.
    Í seinni málslið annarrar efnismálsgreinar er Kjaradómi og kjaranefnd gert kleift að bregðast við breytingum sem kunna að verða á umfangi starfa eða verksviði einstakra embættismanna eða hópa embættismanna. Sem dæmi má nefna ef ákveðið er að sameina stofnanir eða fjölga eða fækka marktækt þeim verkefnum sem stofnun er ætlað að sinna. Þess skal þó gætt að slíkar breytingar valdi ekki röskun á vinnumarkaði.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 120/1992,
um Kjaradóm og kjaranefnd.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að úrskurður Kjardóms frá 19. desember 2005 falli úr gildi í því skyni að viðhalda stöðugleika á vinnumarki og í efnahagsmálum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að í þess stað hækki laun þeirra embættismanna sem undir Kjaradóm heyra um 2,5% frá 1. febrúar eða um sömu prósentu og í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Einnig er í frumvarpinu kveðið á um að úrskurðir Kjaradóms og kjaranefndar á þessu ári skuli taka mið af samningsbundnum hækkunum á almennum vinnumarkaði og að þess verði gætt í úrskurðum um kjör einstakra embættismanna eða hópa að valda ekki röskun á vinnumarkaði. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár var ekki hægt að segja fyrir um hugsanlegar hækkanir á launakjörum vegna úrskurða Kjaradóms og kjaranefndar. Eins og tíðkast hefur var því gert ráð fyrir að launabreytingar hjá þeim embættismönnum yrðu svipaðar og í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og við opinbera starfsmenn en í þeim samningum er almennt um að ræða 2,5% hækkun á launatöxtum frá 1. janúar 2006. Í fjárlögum yfirstandandi árs hefur því þegar verið reiknað með launahækkuninni sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Lögfesting frumvarpsins ætti því ekki að leiða til útgjalda umfram forsendur fjárlaga.