Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 411. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 648  —  411. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um flutning aflaheimilda milli skipa.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað reglur hafa verið settar um framkvæmd á flutningi aflahlutadeildar og aflamarks milli skipa til þess að tryggja að veiðiheimildir skips verði ekki bersýnilega umfram veiðigetu þess, sbr. ákvæði 11. og 12. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990?
     2.      Hvaða atriði eru tekin til athugunar við mat á veiðigetu skips og hvernig er hámarksveiðigeta skips fundin?
     3.      Hve oft og hvenær hefur verið synjað um flutning á aflaheimildum milli skipa af þeim ástæðum að eftir flutning væru veiðiheimildir skips bersýnilega umfram veiðigetu þess og hverjar voru helstu ástæður hverju sinni?


    Ráðuneytið sendi fyrirspurnina til Fiskistofu og fylgir hér svar hennar. Fyrirspurnin er í þremur tölusettum liðum og eru svör Fiskistofu við þeim eftirfarandi:

    1. Ekki er við neinar skráðar reglur að styðjast við túlkun þessara ákvæða, hvorki í lögum, reglugerð né öðrum reglum. Fiskistofa hefur því leitast við að túlka ákvæðin með hliðsjón af orðalagi þeirra og tilgangi og með hliðsjón af greinargerð með ákvæðum 11. og 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.

    2. Við mat á veiðigetu skips og mat á hámarksveiðigetu þess eru eftirfarandi atriði tekin til athugunar: Fiskistofa synjar um flutning á aflahlutdeild og aflamarki til krókaaflamarksbáta og smárra aflamarksbáta þegar um er að ræða aflahlutdeild eða aflamark í fisktegundum sem slíkir bátar stunda almennt ekki veiðar á, svo sem aflahlutdeild og aflamark í loðnu, síld, rækju og úthafsrækju, þó ekki rækju á Flæmingjagrunni þar sem heildarafli í henni er ákveðinn á grundvelli 6. gr. laga nr. 151/1996 en í það ákvæði skortir tilvísun um að ákvæði laga um stjórn fiskveiða gildi eftir því sem við á.
    Þá synjar Fiskistofa um flutning á aflahlutdeild eða aflamarki til skipa ef það magn aflahlutdeildar eða aflamarks sem flytja á til skips leiðir til þess að veiðiheimildir þess eftir flutninginn yrðu bersýnilega umfram veiðigetu þess að teknu tilliti til m.a. stærðar skipsins og veiða sambærilegra skipa á viðkomandi fisktegundum á umliðnum árum. Orðalag ákvæðisins, þ.e. bersýnilega umfram veiðigetu, leiðir þó til þess að túlka ber vafa um veiðigetu skips umsækjandanum í hag, þ.e. magn veiðiheimildanna verður augljóslega að vera umfram veiðigetu skipsins sem flytja á til, annars er flutningurinn heimill.
    Í þessum tilvikum kemur einnig til greina að líta til þess hvenær á viðkomandi fiskveiðiári flutningur aflamarks á sér stað með tilliti til þess hvort unnt verði að veiða þær veiðiheimildir sem flytja á til skips á því fiskveiðiári. Hafa verður í huga að hér er um vandasama framkvæmd að ræða því horfa verður einnig til þess að reglur laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, heimila í ákveðnum tilvikum flutning á tilteknum hluta óveidds aflamarks skips yfir á næsta fiskveiðiár.
    Varðandi það atriði hvort hafna beri flutningi aflamarks eða aflahlutdeilda til skips á þeim grundvelli að það hafi ekki búnað til að stunda veiðarnar hefur Fiskistofa litið til þess hvort hægt sé að búa viðkomandi skip þeim veiðarfærum sem þarf til að stunda veiðarnar en ekki til þess hvort skipið sé búið þessum veiðarfærum þegar óskað er eftir staðfestingu Fiskistofu á flutningi veiðiheimildanna. Þessi afstaða er í samræmi við svar sjávarútvegsráðuneytisins frá árinu 1994 þegar Fiskistofa innti ráðuneytið eftir því hvernig túlka bæri þáverandi ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða varðandi flutning aflahlutdeilda, en það ákvæði var efnislega sambærilegt við áður tilvitnuð ákvæði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
    Í þeim tilvikum þar sem útgerð stendur í þeirri framkvæmd að breyta skipakosti sínum, t.d. með því að kaupa eða láta smíða nýtt skip í stað annars skips er útgerðin hefur átt, þá hefur Fiskistofa fallist á að aflaheimildir skipsins sem þannig er verið að endurnýja séu um tíma geymdar á minna skipi viðkomandi útgerðar. Í þessum tilvikum er um það að ræða að viðkomandi útgerð hefur þurft að selja eldra skip sitt til að fjármagna kaup eða nýsmíði þess skips sem koma á í staðinn og hefur einungis átt mun minna skip til að geyma aflaheimildir fyrirtækisins þar til nýja skipið er komið í umráð útgerðarinnar. Í þessum sérstöku tilvikum hefur Fiskistofa bundið slíkan flutning því skilyrði að veiðiheimildirnar verði án tafar fluttar til hins nýja skips, sem veiðigetu hefur á þeim. Jafnframt er viðkomandi útgerð gerð grein fyrir því að ekki verði úthlutað aflamarki til geymsluskipsins ef afhending hins nýja skips dregst yfir fiskveiðiáramót, heldur verði gengið frá úthlutuninni þegar heimildirnar hafa verið fluttar til hins nýja skips sem veiðigetu hefur fyrir heimildunum.

    3.     Hingað til hefur afar sjaldan komið til þess að Fiskistofa þurfi að hafna flutningi aflahlutdeilda eða aflamarks með formlegum úrskurði á grundvelli nefndra greina laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Kemur það til af því að útgerðir og þeir aðilar sem milligöngu hafa um flutning aflaheimilda milli skipa kynna sér yfirleitt afstöðu Fiskistofu til þess hvort fyrirhugaður flutningur aflaheimilda sé umfram veiðigetu áður en þeir óska eftir staðfestingu Fiskistofu á flutningi heimildanna og falla frá fyrirhuguðum flutningi þegar hin almenna afstaða Fiskistofu liggur fyrir. Fiskistofa afgreiðir sérhvert mál af þessu tagi með hliðsjón af þeim fordæmum sem skapast við fyrri ákvarðanir um sama efni. Aðeins einu sinni hefur komið til þess að flutningi aflamarks hafi verið hafnað formlega af Fiskistofu á þeim grundvelli að flutningurinn leiddi til þess að aflamark skipsins, sem flytja átti til, yrði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Um var að ræða flutning á aflamarki í úthafsrækju til lítils aflamarksbáts sem Fiskistofa taldi vera umfram veiðigetu hans. Í stjórnsýsluúrskurði sjávarútvegsráðuneytis var þeirri ákvörðun Fiskistofu snúið við á þeim grundvelli að það magn sem um ræddi væri ekki bersýnilega umfram veiðigetu bátsins og bátinn væri hægt að búa til veiðanna. Í einu tilviki hefur Fiskistofa hafnað flutningi á aflahlutdeild í hörpudiski til báts sem var það lítill að mati Fiskistofu að ólíklegt var að hann gæti stundað slíkar veiðar eða verið búinn þeim veiðarfærum sem til þyrfti, kæmi til úthlutunar aflamarks á grundvelli aflahlutdeildarinnar. Sú ákvörðun var ekki kærð.