Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 652  —  417. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 um hækkun launa æðstu embættismanna ríkisins endurspeglar þá launaþróun sem orðið hefur í landinu. Sú þróun hefur aukið launamuninn milli þeirra sem sterkast og veikast standa á íslenskum vinnumarkaði. Af þessum sökum kallaði úrskurðurinn fram sterk viðbrögð í samfélaginu. Stjórnarandstaðan krafðist þess þegar í stað að Alþingi yrði kallað saman til að fjalla um úrskurðinn áður en hann kæmi til framkvæmda. Við því var ekki orðið og kom úrskurðurinn því til framkvæmda 1. janúar sl. sem gerir málið allt mun erfiðara viðfangs. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í upphafi voru mjög fálmkennd sem m.a. birtist í undarlegu bréfi forsætisráðherra til Kjaradóms. Minni hlutinn vísar því allri ábyrgð á stöðu málsins og málsmeðferð á hendur ríkisstjórninni og meiri hluta hennar á Alþingi.
    Lögfræðingar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd vöruðu allir sem einn eindregið við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara. Þeir töldu víst að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, auk þess sem orðalag 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili. Í ljósi þess mikla vafa sem leikur á því hvort frumvarp ríkisstjórnarinnar standist stjórnarskrá getur minni hlutinn ekki staðið að afgreiðslu þess.
    Minni hlutinn telur að bregðast verði við úrskurði Kjaradóms en getur ekki fellt sig við þá leið sem ríkisstjórnin leggur til. Minni hlutinn leggur því fram breytingartillögu í þá veru að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember sl. komi ekki til framkvæmda frá 1. febrúar til 1. júní.
    Lagt er til að fjármálaráðherra skipi nefnd sem í eigi sæti m.a. fulltrúar allra þingflokka. Ekki er kveðið á um fjölda nefndarmanna að öðru leyti. Nefndin skal endurskoða núgildandi fyrirkomulag á launakjörum þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurðum Kjaradóms og kjaranefndar. Nefndin skal leggja fram tillögur í formi frumvarps fyrir 15. mars nk. Kveða skal upp nýjan úrskurð um launakjör þeirra sem tillagan tekur til fyrir 1. júní nk. samkvæmt nýjum lögum. Skal úrskurðurinn gilda frá og með 1. febrúar 2006.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 20. jan. 2006.Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Jón Gunnarsson.Ögmundur Jónasson.