Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.

Þskj. 671  —  447. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    1.     málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn á aldrinum 6 til 16 ára sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu eftir því sem nánar segir í lögum þessum.

2. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi skólaaksturs. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um tilhögun skólaaksturs í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Verði misbrestur á skólasókn barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda.
     b.      2. og 3. mgr. orðast svo:
                  Takist það ekki vísar skólastjóri málinu til úrlausnar skólanefndar sem leitar lausna á því og tekur ákvörðun, eftir atvikum að fenginni umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.
                  Ákvörðun skv. 2. mgr. er kæranleg til menntamálaráðuneytisins. Fer um kæru og meðferð hennar að ákvæðum stjórnsýslulaga.

4. gr.

    Í stað orðanna „viðurkennda einkaskóla“ í a-lið 7. gr. laganna kemur: sjálfstætt rekna grunnskóla.

5. gr.

    1.     málsl. 8. gr. laganna orðast svo: Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samráði við umsjónarkennara telji hann til þess gildar ástæður.

6. gr.

    Á eftir orðinu „sveitarfélög“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: og sjálfstætt reknir grunnskólar.

7. gr.

    Lokamálsliður 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Jafnframt skal skólanefnd stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.

8. gr.

    Við 3. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Foreldraráð skal jafnframt fá til umsagnar fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær liggur fyrir.

9. gr.

    1. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
    Við hvern grunnskóla skal starfa nemendaráð og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Í nemendaráði situr a.m.k. einn fulltrúi úr hverjum árgangi í 6.–10. bekk sem nemendur úr þessum bekkjardeildum velja sjálfir. Nemendaráð vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að ráðið fái aðstoð eftir þörfum. Nemendaráð skal fá skólanámskrá til kynningar og aðrar áætlanir er varða skólahaldið. Nemendaráð skal jafnframt fá til kynningar fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær liggur fyrir.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: og foreldraráð.
     b.      Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Grunnskólinn er vinnustaður nemenda. Við hönnun og byggingu skólahúsnæðis skal taka mið af þörfum nemenda og líðan og leggja áherslu á öruggt náms- og starfsumhverfi.

11. gr.

    Við 1. mgr. 20. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal ráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja sérstaka reglugerð um slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum.

12. gr.

    2.     mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Ef ekki er starfandi aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skal skólastjóri í upphafi skólaárs ákveða í samráði við skólanefnd hver úr hópi ótímabundið ráðinna kennara skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      Orðin „(30 kennslustundir)“, „(35 kennslustundir)“ og „(37 kennslustundir)“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      2. málsl. 4. mgr. fellur brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      2. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir orðinu „kyns“ í 4. mgr. kemur: kynhneigðar.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „kjarnagreinar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: skyldunámsgreinar.
     b.      D-liður 2. mgr. orðast svo: list- og verkgreinar.
     c.      Í stað orðanna „umhverfis- og tæknimennt“ í e-lið 2. mgr. kemur: og umhverfismennt.
     d.      G-liður 2. mgr. orðast svo: íþróttir, líkams- og heilsurækt.
     e.      Við bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
              j.      lífsleikni,
              k.      upplýsinga- og tæknimennt.

16. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Í hverjum skóla skal árlega gefa út skólanámskrá og er skólastjóri ábyrgur fyrir gerð hennar. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla og tekur mið af sérstöðu skólans og aðstæðum. Í skólanámskrá skal m.a. gerð grein fyrir starfsáætlun skólans, skólatíma, skóladagatali, kennsluskipan, markmiðum og inntaki náms, námsmati, skólaheilsugæslu og slysavörnum, félagslífi í skólanum og öðru því sem varðar starfsemi skólans, svo sem mati og úttektum á skólastarfi. Skólanámskrá skal kynnt nemendaráði og lögð fyrir foreldraráð til umsagnar ár hvert. Að loknu umsagnarferli skal skólanámskráin lögð fyrir skólanefnd sem skal staðfesta gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá grunnskóla, kjarasamninga og almennar ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds.

17. gr.

    1. mgr. 32. gr. laganna orðast svo:
    Í 8., 9. og 10. bekk mega námsgreinar vera að hluta frjálst val nemenda. Verja má allt að þriðjungi námstímans í valgreinar. Heimilt er að meta tímabundna þátttöku t.d. í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám, enda sé það skipulagt í samráði við skóla. Einnig er heimilt að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla til valgreina, t.d. við tónlistarskóla og málaskóla. Stundi nemandi slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þrátt fyrir að námið njóti viðurkenningar í stað skyldunámsgreina.

18. gr.

    Við 1. mgr. 33. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óheimilt er að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Skólaakstur skv. 4. gr. skal vera nemendum að kostnaðarlausu.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein er verður 1. mgr. og orðast svo:
                  Allir nemendur grunnskólans eiga rétt á hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Grunnskólinn skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna.
     b.      Í stað orðsins „Menntamálaráðherra“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: Skólastjóra.
     c.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: skólastjóra.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar sérfróðra ráðgjafa skólans og skólastjóra sem leitar leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda.
     b.      3. og 4. mgr. orðast svo:
                  Meðan mál skv. 2. mgr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir, enda tilkynni hann forráðamönnum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Óheimilt er að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði. Takist ekki að leysa málið innan skólans vísar skólastjóri málinu til skólanefndar sem leitar lausna á því og tekur ákvörðun, eftir atvikum að fenginni umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.
                  Ákvörðun skólanefndar skv. 3. mgr. er kæranleg til menntamálaráðuneytisins. Fer um kæru og meðferð hennar að ákvæðum stjórnsýslulaga.

21. gr.

    Í stað orðsins „kjarnagreinum“ í 1. mgr. 46. gr. laganna kemur: skyldunámsgreinum.

22. gr.

    Í stað orðsins „einkaskólum“ í 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laganna kemur: sjálfstætt reknum grunnskólum.

23. gr.

    56. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 3. gr., sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. Heimilt er að binda samþykki sveitarfélags við ákveðinn hámarksfjölda nemenda. Um slíka grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr. eftir því sem við á.
    Grunnskólar sem hljóta viðurkenningu skv. 1. mgr. eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda. Útreikningur Hagstofu Íslands á kostnaði samkvæmt þessari málsgrein skal taka mið af verðlagsbreytingum.
    Menntamálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands.

24. gr.

    Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Sjálfstætt reknir grunnskólar.

25. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Grunnskólar sem þegar eru starfandi á grundvelli 56. gr. eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði skv. 23. gr. laga þessara án sérstakrar viðurkenningar menntamálaráðuneytisins skv. 1. mgr. sömu greinar. Sveitarfélagi eru þó heimilt að takmarka framlag úr sveitarsjóði við hámarksfjölda nemenda.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með grunnskólalögum, nr. 66/1995, var ábyrgð á rekstri grunnskólans flutt frá ríki til sveitarfélaga. Þegar litið er til reynslunnar af þessari grundvallarbreytingu sem varð á starfsemi grunnskólans má sjá að sveitarfélögin í landinu hafa af miklum metnaði tekist á við þetta verkefni og er óhætt að segja að með þessari skipulagsbreytingu hafi verið stigið gæfuspor í skólamálum á Íslandi.
    Gildandi grunnskólalög hafa staðið nær óbreytt frá setningu þeirra þrátt fyrir veigamiklar breytingar á grunnskólastiginu með tilkomu aðalnámskrár grunnskóla á árinu 1999 þar sem sett voru fram markmið fyrir nemendur í hverri námsgrein á mismunandi aldursstigum.
    Á undanförnum missirum hefur af hálfu menntamálaráðuneytisins verið í skoðun þörf á breytingum á grunnskólalögum með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er eftir að rekstur grunnskólans fluttist frá ríkinu til sveitarfélaga. Við þá skoðun hefur verið litið almennt til framkvæmdarinnar og þeirra álitamála sem upp hafa komið og tengjast m.a. úrskurðum ráðuneytisins á grunnskólastiginu. Auk þess hafa sérstaklega verið til skoðunar heimildir til stofnunar og reksturs einkarekinna grunnskóla, viðurkenning þeirra og réttur til opinberra fjárframlaga.
    Við vinnslu frumvarps þessa hefur verið höfð hliðsjón af tillögum fræðsluráðs Reykjavíkur sem birtust í skýrslu starfshóps á þess vegum í maí 2004, ýmsum ábendingum frá umboðsmanni barna og niðurstöðum grunnskólaþings sem haldið var í Reykjavík 26. mars 2004 á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga undir yfirskriftinni „Er grunnskólinn kominn til sveitarfélaganna?“ auk skýrslu menntamálaráðuneytisins frá ágúst 2004, „Breytt námsskipan til stúdentsprófs, aukin samfella í skólastarfi“.
    Meginbreytingarnar sem frumvarp þetta felur í sér frá núgildandi grunnskólalögum eru eftirfarandi:
     1.      Ákvæði gildandi laga um stofnun grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum eru gerð skýrari, auk þess sem lagt er til að lögbundið verði lágmarksfjárframlag sveitarfélaga til reksturs þeirra, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að tryggja frekar en nú rekstrargrundvöll þeirra.
     2.      Ákvæði gildandi laga um ráðningu aðstoðarskólastjóra er breytt og horfið frá því að lögbinda að skylt sé að ráða aðstoðarskólastjóra. Á móti verði kveðið á um í greininni að ef ekki er starfandi aðstoðarskólastjóri við grunnskóla ákveði skólastjóri í upphafi skólaárs, í samráði við skólanefnd, hver úr hópi ótímabundið ráðinna kennara skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans. Þá er gert ráð fyrir að skólanefnd staðfesti gildistöku skólanámskrár og að skólanefnd hafi það hlutverk að stuðla að samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla, auk samstarfs leikskóla og grunnskóla eins og er í gildandi lögum.
     3.      Aukið er á sveigjanleika við framkvæmd kennslu með því að fella niður ákvæði um lágmarkskennslustundafjölda á viku og að meðallengd kennslustunda skuli vera 40 mínútur. Lagðar eru til víðtækari heimildir til mats á námi utan grunnskóla til valgreina og jafnframt veitt aukið svigrúm til undanþágu frá skólasókn nemenda vegna reglubundins náms eða íþróttaiðkunar utan skóla eða af öðrum gildum ástæðum.
     4.      Skerpt er á lögbundnum umsagnarrétti foreldraráða þannig að hann nái til fyrirhugaðra meiri háttar breytinga á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær liggur fyrir, auk samráðs sveitarstjórna við foreldraráð vegna undirbúnings við gerð skólamannvirkja.
     5.      Sérstök áhersla er lögð á aukinn þátt nemenda í skólastarfinu með því að lögbundið verði á sama hátt og um foreldraráð að við hvern grunnskóla skuli starfa nemendaráð og er þeim ætlað aukið hlutverk frá því sem er í gildandi lögum. Jafnframt er lagt til að lögfest verði ákvæði sem snúa að námsumhverfi nemenda og vellíðan þeirra í skólastarfinu, auk þess sem menntamálaráðherra er falið, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að setja reglugerðir um skólaakstur og um slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum.
     6.      Lögð er til breyting á málsmeðferðarreglum gildandi laga, auk þess sem orðlagi í nokkrum greinum er breytt eða það gert skýrara.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lögð er til sú breyting á 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. gildandi laga að kveðið verði skýrt á um að miðað sé við að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir börn á aldrinum 6 til 16 ára sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu. Í framkvæmd hafa komið upp ágreiningsmál þar sem foreldrar barna hafa vistað sig og börn sín í sveitarfélagi án þess að unnt hafi verið að skrá lögheimili þeirra í því, en með ákvæði þessu er tekinn af allur vafi um að miðað er við að skylda sveitarfélaga samkvæmt ákvæðinu nái til barna sem þar eiga lögheimili.

Um 2. gr.


    Lagt er til að við 1. mgr. 4. gr. bætist tveir nýir málsliðir. Fyrri málsliðurinn kveði skýrt á um að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi skólaaksturs, en síðari málsliðurinn kveði á um að menntamálaráðherra setji nánari reglur um tilhögun skólaaksturs í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Á það hefur verið bent, m.a. af umboðsmanni barna, að á skorti að afdráttarlaust sé kveðið á um ábyrgð og skyldur sveitarfélaga varðandi skólaakstur. Sú breyting sem hér er lögð til á gildandi lögum kveður skýrt á um hvar ábyrgðin á skipulagi skólaaksturs liggur, en jafnframt er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra setji nánari reglur um tilhögun skólaakstursins. Miðað er við að reglurnar fjalli um tímalengd skólaaksturs og fjarlægðir til og frá ákvörðunarstöðum, auk almennra öryggisreglna sem ekki er að finna í öðrum lögum eða reglugerðum um fólksflutninga.

Um 3. gr.


    Hér er lögð til breyting á málsmeðferðarreglu 6. gr. gildandi laga er varðar þau tilvik ef misbrestur verður á skólasókn skólaskylds barns án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að skólastjóri leiti úrbóta, en takist honum það ekki vísar hann málinu til úrlausnar skólanefndar sem einnig leitar lausna að fenginni umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga. Finnist enn ekki úrlausn getur hvor aðili, forráðamaður eða skólanefnd, vísað málinu til menntmálaráðuneytisins sem leitar úrlausnar og getur úrskurðað með hvaða hætti úr skuli bætt.
    Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á greininni til að gera hana skýrari en nú er. Í fyrsta lagi er lagt til að í greininni sé kveðið á um að skólastjóri þurfi að taka tillit til hlutverks barnaverndaryfirvalda vegna fjarveru barns frá skóla, með hliðsjón af tilkynningarskyldu til þeirra skv. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Vænta má að slík tilkynningarskylda sé fyrir hendi við þær aðstæður að fjarvist barns frá skóla á rætur að rekja til vanrækslu, vanhæfni eða framferðis forráðamanna þess, barn mætir ekki í skóla vegna áreitni eða ofbeldis af hálfu annarra eða að barn mætir ekki í skóla af ástæðum sem rekja má til eigin hegðunar barns og lífernis. Í öðru lagi er lagt til að þegar málið kemur til úrlausnar skólanefndar verði það lagt í mat skólanefndar sjálfrar hvort umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga verði fengin eða ekki, en núgildandi ákvæði gerir afdráttarlaust ráð fyrir slíkri umsögn. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að skólanefnd leiti lausna á málinu eins og er samkvæmt gildandi lögum, en jafnframt að skýrt komi fram í ákvæðinu að nefndin taki ákvörðun. Sú ákvörðun er síðan kæranleg til menntamálaráðuneytisins og fer um kæru og meðferð hennar að ákvæðum stjórnsýslulaga. Tekið skal fram að kæruheimildin miðast við það að ákvörðun skólanefndar feli í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en nánar um það vísast til athugasemda við 20. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu er lögð til breyting á heiti XIII. kafla gildandi laga úr Einkaskólar í Sjálfstætt reknir grunnskólar. Í samræmi við það er hér lögð til sama orðalagsbreyting á a-lið 7. gr. gildandi laga.

Um 5. gr.


    Lögð er til sú efnisbreyting á 8. gr. gildandi laga að tímabundin undanþága frá skólasókn geti hvort heldur sem er náð til einstakra námsgreina eða að öllu leyti til náms í tiltekinn tíma. Skólastjórar geta því beitt þessu lagaákvæði til að auka sveigjanleika einstakra nemenda í skólasókn, m.a. með hliðsjón af reglubundinni íþrótta- eða tónlistariðkun þeirra, fjarkennslu eða af öðrum ástæðum sem skólastjóri metur gildar.

Um 6. gr.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á orðalagi 56. gr. gildandi laga sem fjallar um einkaskóla, en frumvarpið gerir ráð fyrir að í stað þess að heita einkaskólar verði þessir skóla nefndir sjálfstætt reknir grunnskólar. Í stað núverandi orðalags 56. gr. um að þessir skóla hlíti sama eftirliti og reglum og aðrir grunnskólar er lagt til að í ákvæðinu segi að um þessa skóla gildi sömu lög og reglur og um grunnskóla sem alfarið eru reknir eru af sveitarfélögunum, eftir því sem við á. Því er hér lagt til að í 9. gr. gildandi laga komi skýrt fram að eftirlit ráðuneytisins með því að sveitarfélög uppfylli skyldur sem grunnskólalögin, reglugerðir samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um nái einnig til sjálfstætt rekinna grunnskóla.

Um 7. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum hefur skólanefnd það hlutverk að stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla, en breyting sú sem hér er lögð til kveður á um að með sama hætti skuli skólanefnd stuðla að tengslum og samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla. Samstarf milli síðarnefndu skólastiganna er sívaxandi og í skýrslu menntamálaráðuneytisins um breytta námsskipan til stúdentsprófs er lagt til að kannaðir verði möguleikar þess að allir grunnskólar eigi sér samstarfsskóla á framhaldsskólastigi.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að við 16. gr. gildandi laga, sem fjallar um hlutverk foreldraráða í grunnskólum, verði bætt að foreldraráð skuli fá til umsagnar fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær liggur fyrir. Með meiri háttar breytingum á skólahaldi og starfsemi skóla er t.d. átt við niðurlagningu eða sameiningu grunnskóla. Er þetta lagt til með það að markmiði að auka vægi foreldraráða í öllu skólastarfi. Eitt af meginmarkmiðum gildandi aðalnámskrár er að efla samstarf skólans og foreldra og er aukið vægi og hlutverk foreldraráða því í samræmi við þá markmiðssetningu. Þrátt fyrir aukið vægi foreldraráða með þessari breytingu ber sveitarstjórn ábyrgð á rekstri grunnskólans og tekur endanlega ákvörðun um skólahaldið í hverju sveitarfélagi.

Um 9. gr.


    Samkvæmt 17. gr. gildandi laga er nemendum grunnskóla heimilað að stofna nemendaráð sem vinni m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum þeirra. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er á því byggt að við hvern grunnskóla skuli starfa nemendaráð, valið af nemendum sjálfum, og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Þar með verði lögfest sambærilegt ákvæði og er að finna í 16. gr. gildandi laga þess efnis að við hvern grunnskóla skuli starfa foreldraráð. Á sama hátt og lögð er áhersla á aðkomu foreldra að starfsemi grunnskólans er mikilvægt að nemendalýðræði sé virkt og að nemendum sé tryggður vettvangur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við skólayfirvöld. Eins og áður er nemendaráði ætlað að vinna m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að ráðið fái aðstoð eftir þörfum, en ekki er talið rétt að lögbinda eins og nú er gert, hvaðan sú aðstoð er fengin. Jafnframt er gert ráð fyrir auknu hlutverki nemendaráðanna frá því sem er í gildandi lögum á þann veg að þau skulu fá til kynningar skólanámskrá og aðrar áætlanir er varða skólahaldið. Nemendaráð skulu jafnframt fá til kynningar fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær liggur fyrir. Í ljósi þess að vægi og umfang starfa nemendaráða verður með þessu móti mun meira en áður og þar sem grunnskólinn er fyrir börn á aldursbilinu 6 til 16 ára þykir rétt að miða við að ákveðin aldursmörk verði sett til setu í ráðinu og miðist við börn í 6.–10. bekk. Skv. 2. mgr. 17. gr. gildandi laga setur nemendaráð hvers skóla sér starfsreglur.

Um 10. gr.


    Lagt er til að við gerð skólamannvirkja skuli sveitarstjórn eiga samráð við foreldraráð, auk skólanefndar eins og kveðið er á um í 1. mgr. 18. gr. gildandi laga, í samræmi við áherslu á aukna ábyrgð og áhrif foreldra á skólastarf.
    Þá er lagt til að áréttað verði í þessari lagagrein að grunnskólinn sé vinnustaður nemenda og sérstaklega tekið fram að við hönnun og byggingu skólahúsnæðis skuli taka mið af þörfum nemenda og líðan og leggja áherslu á öruggt náms- og starfsumhverfi. Þessu ákvæði til stuðnings er lögð til sú breyting á 20. gr. laganna í 11. gr. frumvarpsins að menntamálaráðherra setji í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sérstaka reglugerð um slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum. Að auki er lagt til í 19. frumvarpsins að í 1. mgr. 35. gr. laganna, sem markar upphaf VII. kafla þeirra og fjallar um réttindi og skyldur nemenda, verði enn frekar hnykkt á rétti nemenda til viðunandi námsumhverfis. Umboðsmaður barna hefur nýverið beint þeim tilmælum til menntamálaráðherra að brýnt sé að lögbinda með skýrum hætti rétt nemenda til góðs og öruggs vinnu- og námsumhverfis í skólum landsins. Það verði best gert í grunnskólalögum og er framangreindum ákvæðum frumvarpsins ætlað að mæta þeim mikilvægu ábendinum.

Um 11. gr.


    Lagt er til að í 1. mgr. 20. gr. gildandi laga verði lögfest að menntamálaráðherra skuli í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja sérstaka reglugerð um slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum. Er það í samræmi við stefnumið þessa frumvarps að lögbinda ákvæði sem eru til þess fallin að auk á öryggi nemenda og tryggja þeim gott og öruggt námsumhverfi.

Um 12. gr.


    Lagt er til að í 2. mgr. 23. gr. gildandi laga verði horfið frá því að lögbinda að skylt sé að ráða aðstoðarskólastjóra. Á móti verði kveðið á um í greininni að ef ekki er starfandi aðstoðarskólastjóri við grunnskóla ákveði skólastjóri í upphafi skólaárs, í samráði við skólanefnd, hver úr hópi ótímabundið ráðinna kennara skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans. Rétt er að árétta að í 1. mgr. 7. gr. laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, er lögbundið að aðstoðarskólastjóri hafi kennsluréttindi og kennslureynslu á grunnskólastigi. Með þessari breytingu er ekki við það miðað að núverandi stöður aðstoðarskólastjóra verði lagðar niður, heldur er einungis verið að auka svigrúm sveitarfélaga til að haga rekstri og innra skipulagi grunnskólans eins og þau telja best henta. Um ráðningu aðstoðarskólastjóra gildi það sama og segir um ráðningu kennara og annarra starfsmanna í 3. mgr. 23. gr. gildandi laga, þ.e. að um þær fari eftir ákvæðum í samþykktum um stjórn sveitarfélags.

Um 13. gr.


    Gerðar eru þær breytingar á 2. mgr. 27. gr. gildandi laga að einungis er kveðið á um lágmarks vikulegan kennslutíma í mínútum, en ekki einnig í kennslustundum. Í samræmi við það er lagt til að 2. málsl. 4. mgr. 27. gr. falli brott, en þar segir að meðallengd kennslustunda í grunnskóla skuli vera 40 mínútur. Breyting þessi eykur sveigjanleika skóla til að skipuleggja skólatímann með öðrum hætti en út frá meðallengd kennslustunda.

Um 14. gr.


    Lagt er til að 2. mgr. 29. gr. gildandi laga falli brott, en ákvæðið lögbindur þær áherslur sem leggja á í starfi skóla. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er hluverk grunnskólans skilgreint og því er 2. gr. 29. gr. einungis nánari útfærsla á þeirri grein. Í 1. mgr. 29. gr. laganna segir hins vegar að í aðalnámskrá grunnskóla skuli nánar kveðið á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans skv. 2. gr. Raunin er sú að aðalnámskrá grunnskóla kveður á um þær áherslur sem lagðar eru í starfi grunnskóla, bæði í almenna hlutanum og í aðalnámskrám einstakra námsgreina og námssviða, og því verður ekki séð að sérstök þörf sé á því að binda áherslur í skólastarfi með þeim hætti sem gert er í 2. mgr. 29. gr. laganna.
    Þá er lagt til að við 4. mgr. 29. gr. gildandi laga, þar sem segir að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunum vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar, verði bætt hugtakinu kynhneigð. Í skýrslu nefndar sem forsætisráðherra skipaði til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks, sem gefin var út í ágúst 2004, er að finna umfjöllun um gildandi lög sem veita vernd fyrir mismunun vegna samkynhneigðar. Þótt í tillögum nefndarinnar sé lögð áhersla á að sett verði í lög sérstök verndarákvæði til að sporna við mismunun samkynhneigðra á vinnumarkaði þykir rétt og eðlilegt að við þessa endurskoðun á ákvæðum grunnskólalaga nú verði lögfest að sú mismunun sem um er fjallað í 4. mgr. 29. gr. gildandi laga nái jafnt til kynhneigðar og annarra þeirra þátta sem þar eru taldir upp.

Um 15. gr.


    Hér eru lagðar til orðalagsbreytingar á 30. gr. gildandi laga í samræmi við heiti námsgreina samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Sérstaklega skal bent á að hugtakið kjarnagrein er ekki notað í aðalnámskrá, heldur eru þar skilgreindar skyldunámsgreinar á ákveðnum námssviðum.

Um 16. gr.


    Lögð er til orðalagsbreyting á 31. gr. gildandi laga sem fjallar um skólanámskrá. Gerð er sú breyting að ekki er tekið fram sérstaklega að skólanámskrá sé unnin af kennurum skólans þar sem slík lögbinding er ekki nauðsynleg, ekki síst þar sem annað starfslið skólans en kennarar getur komið að gerð einstakra þátta skólanámskrárinnar ásamt kennurum. Ákvæði um innihald skólanámskrárinnar er gert skýrara og bætt við að fjalla þurfi um skólaheilsugæslu og gera grein fyrir mati og úttektum á skólastarfinu ef um slíkt er að ræða. Bætt er við ákvæði um að skólanámskráin skuli kynnt nemendaráði ár hvert, en í gildandi lögum er gert ráð fyrir umsögn foreldraráðs. Loks er nýtt ákvæði um að skólanámskráin skuli síðan lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem m.a. skal tryggja að fylgt hafi verið lögbundnu umsagnarferli og að hún sé unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá grunnskóla, kjarasamninga og almennar ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds. Eðlilegt er að skólanámskráin sé staðfest með þessum hætti af skólanefnd þar sem allur rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga.

Um 17. gr.


    Greinin felur í sér auknar heimildir frá því sem er í gildandi ákvæði 1. mgr. 32. gr. laganna til mats á námi utan grunnskóla til valgreina. Gildandi ákvæði nær til nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla, en hér er lagt til að heimildin nái einnig til nemenda í 8. bekk. Er það í samræmi við aukinn sveigjanleika náms nemenda í efri bekkjum grunnskóla, en sem dæmi má nefna að nemendur í 8. bekk grunnskóla hafa nú heimild til að taka samræmd lokapróf í grunnskóla sem hingað til hefur einungis verið heimilt nemendum í 9. og 10. bekk. Sérstaklega er tekið fram að stundi nemandi slíkt nám sé viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þrátt fyrir að námið njóti viðurkenningar í stað skyldunámsgreina.

Um 18. gr.


    Lagt er til að við 1. mgr. 33. gr. gildandi laga, sem kveður á um að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu, bætist tveir nýir málsliðir. Annars vegar verði sérstaklega kveðið á um að óheimilt sé að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Hins vegar verði lögbundið að skólaakstur skuli vera nemendum að kostnaðarlausu. Þykir rétt að taka af öll tvímæli um þessa kostnaðarliði.

Um 19. gr.


    Hér er lögð til sú breyting á 35. gr. gildandi laga að við greinina bætist ný málsgrein er verði 1. mgr. Þar verði kveðið á um að allir nemendur grunnskólans eigi rétt á hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem taki mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Jafnframt verði lögfest að grunnskólinn skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins er að finna röksemdir fyrir þessari breytingartillögu.
    Þá er lögð til breyting á 5. mgr. greinarinnar þar sem menntamálaráðherra er heimilað að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein og að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi náms í skyldunámsgrein. Hér er gert ráð fyrir að skólastjórum verði heimilað að veita þessar undanþágur í stað ráðherra nú. Með þessari breytingu er dregið úr afskiptum ráðuneytisins af málefnum einstakra grunnskólanemenda hvað varðar nám og skólastjórum fært það vald að meta gildar ástæður fyrir undanþágur.

Um 20. gr.


    Hér er lögð til breyting á málsmeðferðarreglu 41. gr. laganna með það að markmiði að gera hana skýrari en nú er.
    Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr. 41. gr. í samræmi við þá breytingu sem lögð er til á 6. gr. laganna í 3. gr. frumvarpsins, þ.e. að skólastjóri leiti úrbóta vegna hegðunarvandmála nemanda, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Um röksemdir fyrir hlutverki barnaverndaryfirvalda vísast til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi er lagt til að orðalag 3. og 4. mgr. 41. gr. verði sameinað í 3. mgr. greinarinnar þannig að þar segi að meðan mál skv. 2. mgr. sé óútkljáð geti skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir, enda tilkynni hann forráðamönnum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Óheimilt sé að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði. Takist ekki að leysa málið innan skólans vísi skólastjóri málinu til úrlausnar skólanefndar sem leitar lausna á því og tekur ákvörðun, eftir atvikum að fenginni umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.
    Í þriðja lagi verði 4. mgr. 41. gr. orðuð þannig að ákvörðun skólanefndar skv. 3. mgr. sé kæranleg til menntamálaráðuneytisins. Fer um kæru og meðferð hennar að ákvæðum stjórnsýslulaga. Rétt er hér að árétta að kæruheimildin nær einungis til þess að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða í skilningi stjórnsýslulaga. Í því sambandi skal bent á álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 761/1993 þar sem fram kemur að ákvarðanir um agaviðurlög og skyld úrræði geti fallið undir stjórnsýslulögin, en væntanlega verði að telja að hin vægari úrræði, sem notuð séu til að halda uppi aga og almennum umgengnisvenjum, teljist ekki almennt stjórnvaldsákvarðanir. Þannig verði ávítur og áminningar, svo og brottvísun nemanda úr ákveðinni kennslustund, almennt ekki taldar stjórnvaldsákvarðanir. Væntanlega gildi það sama um brottvísun úr skóla það sem eftir er skóladags. Sú ákvörðun að meina nemanda að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi um nokkurt skeið eða víkja honum úr skóla í fleiri en einn skóladag teldist aftur á móti stjórnvaldsákvörðun sem félli undir stjórnsýslulög.

Um 21. gr.


    Eins og fram kemur í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins er hugtakið kjarnagrein ekki notað í aðalnámskrá, heldur eru þar skilgreindar skyldunámsgreinar á ákveðnum námssviðum. Því er þessi breyting á 1. mgr. 46. gr. lögð til.

Um 22. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu er lögð til breyting á heiti XIII. kafla gildandi laga úr Einkaskólar í Sjálfstætt starfandi grunnskólar. Í samræmi við það er hér lögð til sama orðalagsbreyting í 1. mgr. 53. gr. laganna.

Um 23. gr.


    Ákvæði um einkaskóla í grunnskólalögum hefur verið óbreytt allt frá gildistöku grunnskólalaganna 1974. Þá var tekið fram í lögunum að einkaskólar ættu ekki kröfu til styrks af almannafé. Í gildandi lögum eru ákvæði um einkaskóla í 56. gr. nánast samhljóða lögunum frá 1974.
    Nokkrir einkaskólar eða sjálfstætt reknir grunnskólar hafa verið reknir hér á landi um langan tíma, t.d. Ísaksskóli, Landakotsskóli, Suðurhlíðarskóli og Tjarnarskóli. Einnig eru starfandi tveir Waldorf-skólar og nýjasti sjálfstætt rekni skólinn er Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ. Flestir þessara skóla hafa átt í fjárhagserfiðleikum þar sem framlag sveitarfélaganna til þeirra hefur ekki nægt til að reka skólana með viðunandi hætti. Þar sem engin ákvæði hafa verið í lögum um rétt þessara skóla á framlögum hefur það alfarið verið ákvörðunaratriði sveitarfélaga á hvern hátt starfsemi þeirra hefur verið styrkt.
    Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er að finna ákvæði um sjálfstætt rekna skóla í skólalöggjöfinni og rétt þeirra til rekstrarframlaga frá opinberum aðilum. Í Danmörku er almennur rekstrarstyrkur á hvern ársnemanda í sjálfstætt reknum skólum samsvarandi meðalútgjöldum vegna hvers ársnemanda í almennum grunnskólum. Í Svíþjóð skal sjálfstætt rekinn grunnskóli sem hlotið hefur viðurkenningu menntamálayfirvalda eiga rétt á sambærilegum fjárstuðningi og almennir grunnskólar. Ef nemandi stundar nám í sjálfstætt reknum grunnskóla skal lögheimilissveitarfélag viðkomandi nemanda greiða til skólans samsvarandi upphæð og nám hans kostar í almennum grunnskóla. Í Noregi skulu sjálfstætt reknir skólar fá ríkisstyrk sem svarar 85% af almennum rekstrarkostnaði við kennslu meðalnemanda í almennum grunn- og framhaldsskólum. Ef opinber fjárstuðningur dugar ekki til að reka skólann er skólunum heimilt að innheimta skólagjöld.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til á 56. gr. gildandi grunnskólalaga miðast við að gera stöðu sjálfstætt rekinna grunnskóla hér á landi sterkari en nú og lögbinda lágmarksfjárframlag með hverjum nemenda.
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að menntamálaráðherra sé heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 3. gr., sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans.
    Í gildandi lögum segir að ráðherra sé heimilt að löggilda grunnskóla eða hluta grunnskóla, en hér er lagt til að ráðherra veiti grunnskólum viðurkenningu til að starfa sem slíkir, í stað löggildingar áður. Þessi orðalagsbreyting felur ekki í sér neina efnisbreytingu frá gildandi lögum, enda er viðkomandi skóla í báðum tilvikum heimilað að starfa sem grunnskóli og starfar sem slíkur á grundvelli grunnskólalaga. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir að grunnskólar geti verið reknir með mismunandi rekstrarformi og ekki gert ráð fyrir því að ráðherra þurfi sérstaklega að staðfesta viðkomandi rekstrarform eins og núverandi ákvæði gerir ráð fyrir.
    Ákvæði 1. mgr. byggir á því að samþykki sveitarfélags um stofnun grunnskóla liggi fyrir. Þá er sveitarfélögum heimilt að binda samþykki sitt við ákveðinn hámarksfjölda nemenda auk þess sem tekið er fram að um slíka grunnskóla gildi sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr. eftir því sem við á. Rétt þykir að binda viðurkenningu grunnskóla við að samþykki sveitarfélags um stofnun skólans liggi fyrir áður, þar sem viðkomandi skóli á þar með lögvarinn rétt til lágmarksframlags úr sveitarsjóði á hvern nemanda sem hefur lögheimili í því sveitarfélagi þar sem skólinn starfar skv. 2. mgr. Jafnframt verði sveitarfélaginu af sömu ástæðu heimilt að binda samþykki sitt við ákveðinn hámarksfjölda nemenda. Vegna tilvísunar til þess að um þessa skóla gildi sömu lög og reglur og um grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögunum, eftir því sem við á, ber að taka fram að framangreindur fyrirvari vísar til þess að ákvæði laga og reglna sem sérstaklega varða sveitarfélögin ein og sér ná ekki til skóla sem reknir eru af öðrum.
    Í 2. mgr. er lagt til að grunnskólar sem hljóta viðurkenningu skv. 1. mgr. sömu greinar eigi rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar. Skal framlagið ákvarðað á grundvelli nemendafjölda og nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar sveitarfélaga við hvern nemanda á ári samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands, í skólum með allt að 200 nemendur, en að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda. Með heildarrekstrarkostnaði er átt við allan almennan rekstrarkostnað grunnskólans, þ.m.t. rekstrarkostnað húsnæðis og afskriftir. Með því að miða við vegið meðaltal er tekið tillit til stærðar skólanna þannig að stórir skólar fá meira vægi en litlir.
    Gert er ráð fyrir að viðmiðunartölur þær sem Hagstofan Íslands gefur út árlega og lagðar verða til grundvallar útreikningi á framlagi sveitarfélags til sjálfstætt rekinna grunnskóla liggi fyrir í september ár hvert og séu þá byggðar á ársreikningum rekstrarárs sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.
    Á árinu 2004 var meðaltal heildarrekstrarkostnaðar á landsvísu á hvern nemanda 666.985 kr. og 75% af þeirri fjárhæð eru 500.239 kr. en 70% eru þá 466.890 kr. Sé til samanburðar litið til rekstrar grunnskóla Reykjavíkur á árinu 2004 nam heildarrekstrarkostnaður hagkvæmasta grunnskólans í því sveitarfélagi 443.480 kr.
    Við ákvörðun á hlutfallslegu framlagi sveitarfélaga til rekstrar þessara skóla er leitast við að skapa þeim raunhæfan rekstrargrundvöll, um leið og litið er til þess að jafna stöðu ólíkra rekstrarforma. Um leið er þess þó gætt að ekki verði skapaðir beinir fjárhagslegir hvatar til stofnunar og reksturs grunnskóla. Miðað við fyrirliggjandi tölur og gögn frá sveitarfélögum um rekstur við kostnað grunnskóla á árinu 2004 munu þau hlutföll, sem hér eru lögð til grundvallar, þ.e. 75% og 70%, þýða að raunframlög á nemanda til sjálfstætt starfandi grunnskólanna verða lægri en reiknaður meðalkostnaður við nemanda í flestum grunnskólum í landinu. Svo dæmi sé tekið mundi sjálfstætt starfandi grunnskóli með 500 nemendur fá framlag sem næmi að meðaltali 480.230 kr. á hvern nemanda.
    Hér er einnig rétt að vísa til þess að ekki er gert ráð fyrir að sveitarfélögum beri nein skylda til að taka þátt í beinum stofnkostnaði vegna sjálfstætt starfandi grunnskóla. Að samanlögðu er ljóst að sú fjárhæð sem sveitarfélög greiða að lágmarki með hverjum nemanda samkvæmt frumvarpi þessu er verulega mikið lægri en meðaltal á landsvísu á hvern nemanda. Gert er ráð fyrir tvískiptingu hlutfallsins í annars vegar 75% og hins vegar 70%. Er þar litið til þess að ætla verður að nokkurt hagræði sé af því að reka stærri skóla en smærri.
    Réttur til fjárframlaga skv. 2. mgr. er einungis bundinn við lögheimili í því sveitarfélagi sem viðkomandi skóli starfar í. Vera má að foreldri barns sem á lögheimili í öðru sveitarfélagi en því sem skólinn starfar í óski eftir námsvist fyrir barn sitt. Skulu greiðslur fyrir námsvist þess þá koma frá því sveitarfélagi þar sem barnið á lögheimili, á grundvelli samkomulags milli skólans og viðkomandi sveitarfélags.
    Samkvæmt 3. mgr. er menntamálaráðherra heimilað að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Er þá bæði átt við reglugerðarheimild um löggildingu grunnskóla skv. 1. mgr. og um reglugerðarsetningu vegna framkvæmdar á 2. mgr.

Um 24. gr.


    Hér er lagt til að heiti XIII. kafla laganna verði breytt úr Einkaskólar í Sjálfstætt reknir grunnskólar. Þykir síðarnefnda heitið lýsa betur stöðu þessara skóla gagnvart þeim grunnskólum sem reknir eru af sveitarfélögunum, auk þess sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að lögbundið verði lágmarksframlag úr sveitarsjóði til þessara skóla. Þá er ekki er útilokað að í einhverjum tilvikum fjármagni sveitarfélög að fullu rekstur þessara skóla í framtíðinni þótt aðrir en sveitarfélögin sjálf annist reksturinn.

Um 25. gr.


    Rétt þykir að miða gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum, við 1. júní 2006 og er þá gert ráð fyrir að lögin komi fyrst til framkvæmda fyrir skólaárið 2006–2007.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Lagt er til að lögfest verði í ákvæði til bráðabirgða að grunnskólar sem þegar eru starfandi á grundvelli 56. gr. gildandi laga eigi rétt á styrk skv. 2. efnismgr. 23. gr. laga þessara og þurfi því ekki að leita eftir viðurkenningu skv. 1. mgr. sömu greinar til að njóta þess réttar. Rétt þykir þó að heimila sveitarfélagi að takmarka framlag úr sveitarsjóði við hámarksfjölda nemenda í þessum skólum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á grunnskólalögum,
nr. 66/1995, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða m.a. stofnun grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og lágmarksfjárframlög sveitarfélaga til þeirra, ráðningu aðstoðarskólastjóra og staðgengils skólastjóra, aukinn sveigjanleika við framkvæmd kennslu, mat á námi og veitingu undanþágu frá námi, umsagnarrétt foreldraráða og skyldu til að stofna nemendaráð við hvern skóla.
    Sveitarfélög sjá að mestu um framkvæmd grunnskólalaga. Breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða ríkið því að óverulegu leyti og hafa að mati fjármálaráðuneytis ekki áhrif á útgjöld ríkisins. Menntamálaráðuneytið er á sömu skoðun.
    Menntamálaráðuneytið hefur metið áhrif frumvarpsins á útgjöld sveitarfélaga og telur kostnaðaráhrifin óveruleg. Ráðuneytið telur einkum að ákvæði um að sveitarfélögum sé skylt að greiða lágmarksframlag með nemendum í sjálfstætt reknum grunnskólum geti í einhverjum tilvikum leitt til aukins kostnaðar, en miðað við framlög sem sveitarfélögin greiða með þessum nemendum nú þegar er kostnaðaraukningin óveruleg. Lágmarksframlag sem miðað er við í frumvarpinu að sveitarfélögin greiði með hverjum nemanda í sjálfstætt reknum grunnskólum er almennt lægra en raunkostnaður á hvern nemanda í skólum sem sveitarfélögin reka. Ákvæði um ábyrgð og skyldur sveitarfélaga varðandi skólaakstur verður útfært nánar í reglugerð og því ekki forsendur til að meta ákvæðið fyrr en reglugerðin liggur fyrir. Þá telur menntamálaráðuneytið að ýmsar tillögur í frumvarpinu, svo sem ákvæði um ráðningu aðstoðarskólastjóra, aukinn sveigjanleika við framkvæmd kennslu, mat á námi og veitingu undanþágu frá námi, veiti skólastjórnendum aukið svigrúm og geti leitt til hagræðingar.