Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 448. máls.

Þskj. 672  —  448. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum
um stjórn fiskveiða ,
nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. a laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 6% af þorski og 9% af ýsu miðað við heildarkrókaaflahlutdeild í hvorri tegund.
     b.      Við fyrri málslið 2. mgr. bætist: eða meira en 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.

3. gr.

    Við 3. mgr. 12. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Heimilt er Fiskistofu að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa og skal greiða 12.000 kr. til Fiskistofu fyrir slíka samninga fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir gerð þjónustusamninga og víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. að því leyti sem þau lúta að framkvæmd flutnings aflamarks og greiðslu gjalds vegna hans.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en ákvæði 1. gr. koma til framkvæmda 1. september 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. málsl. 5. mgr. 12. gr. skal úthlutað aflamark í úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008 ekki leiða til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum.
    Þrátt fyrir lokamálslið 1. mgr. 23. gr. skal endurgreiða útgerð gjald vegna úthlutaðs aflamarks í úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2005/2006. Veiðigjald skv. V. kafla laganna vegna úthafsrækju fiskveiðiárin 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008 skal innheimt í lok hvers fiskveiðiárs miðað við landaðan úthafsrækjuafla fiskiskips á því fiskveiðiári.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi þarf að fella brott 6. gr. laganna en hún lýtur að dagakerfi fyrir krókabáta sem fellur niður í lok þessa fiskveiðiárs. Í öðru lagi er lagt til að sett verði hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Í þriðja lagi er lagt til að unnt verði að flytja aflamark milli fiskiskipa með einfaldari hætti en nú tíðkast. Loks er lagt til að gerðar verði tvær tímabundnar lagabreytingar vegna þeirra erfiðleika sem upp hafa komið í veiðum og vinnslu á úthafsrækju.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 6. gr. gildandi laga eru ákvæði um sóknardagakerfi fyrir krókabáta sem fellur niður í lok þessa árs en tveir bátar eru á yfirstandandi fiskveiðiári í því kerfi. Þarf því að fella þessa grein brott.

Um 2. gr.

    Samkvæmt gildandi ákvæði 1. mgr. 11. gr. a eru settar takmarkanir á samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila í fimm helstu tegundum botnfisks, auk síldar, loðnu og úthafsrækju, og miðast hámarkið við 12% í þorski og 35% í karfa en 20% í öðrum tegundum. Þá segir í 2. mgr. 11. gr. a að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa megi aldrei nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um heildarafla. Fyrrgreind takmörkun tekur einnig til krókaaflahlutdeildar, sbr. 5. mgr. 7. gr., en hér er lagt til að auk þessa verði sett sérstakt hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Er lagt til að hún verði 6% í þorski, 9% í ýsu og 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirra tegunda sem krókaaflahlutdeild er úthlutað í. Ljóst er að mikil sameining krókaaflahlutdeildar hefur orðið og ástæða þykir til þess að setja þær takmarkanir sem hér er lagt til þannig að krókaaflahlutdeildir dreifist á fleiri fyrirtæki og þar með sjávarbyggðir.

Um 3. gr.

    Í 1.–3. mgr. 12. gr. eru ákvæði um hvernig staðið skuli að flutningi aflamarks milli skipa. Fiskistofa hefur haft til athugunar hvernig auðvelda megi flutning á aflamarki milli fiskiskipa með rafrænum tilkynningum frá flutningsbeiðanda. Við flutning aflamarks milli skipa þarf ýmsum skilyrðum að vera fullnægt sem er á ábyrgð Fiskistofu að fylgt sé. Til þess að tryggja öryggi þessa kerfis þarf Fiskistofa að gera sérstakan þjónustusamning við þá sem aðgang fá að kerfinu þar sem þeir fá m.a. lykilorð sem veitir þeim heimild til flutnings aflamarks milli báta. Í upphafi er gert ráð fyrir að aðgangur veiti útgerðarmönnum aðeins heimild til að flytja milli eigin báta en þegar kerfið þróast þá geti heimild til flutnings aflamarks orðið víðtækari. Í stað greiðslu fyrir hverja tilkynningu um flutning aflamarks er lagt til að greiddar verði 12.000 kr. árlega fyrir þjónustusamninginn. Gjald fyrir hverja færslu Fiskistofu á aflamarki er 2.000 kr. og hefur Fiskistofa innheimt um 20 millj. kr. árlega vegna þessarar þjónustu við útgerðina.

Um 4. gr.

    1. gr. tekur gildi 1. september 2006 þegar sóknardagakerfið fellur niður. Aðrar greinar taka þegar gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Veiðar og vinnsla á úthafsrækju hafa gengið mjög illa að undanförnu. Ástand úthafsrækjustofnsins hefur verið lélegt og hefur Hafrannsóknastofnunin aðeins lagt til að veiddar verði 10 þús. lestir af úthafsrækju á yfirstandandi fiskveiðiári. Mikil óvissa er um veiðimöguleika á næstu árum. Léleg veiði og markaðsaðstæður hafa leitt til þess að leyfilegur afli í úthafsrækju hefur ekki verið nýttur síðustu ár og ljóst er að á þessu ári dregur enn úr veiði. Til að létta undir með veiðum og vinnslu á úthafsrækju er hér lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögunum, sem gildi fyrir yfirstandandi og tvö næstu fiskveiðiár:
     1.      Sú breyting verði gerð á 12. gr. laganna að vannýting á úthlutuðum aflaheimildum í úthafsrækju leiði ekki til þess að skip missi aflahlutdeild sína í úthafsrækju eða öðrum tegundum. Hins vegar nýtist rækjuveiðar til að fullnægja veiðiskyldu gagnvart öðrum tegundum.
     2.      Veiðigjald fyrir úthafsrækju verði greitt eftir á miðað við landaðan úthafsrækjuafla í lok fiskveiðiárs næstu þrjú árin, en ekki innheimt í upphafi fiskveiðiárs miðað við úthlutað aflamark. Þar sem 10 þús. tonnum af úthafsrækju hefur verið úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári hefur álagning veiðigjalds fyrir þær aflaheimildir þegar farið fram. Er gert ráð fyrir að sú álagning sem nemur um 10 millj. kr. verði felld niður og endurgreidd og síðan greiði útgerðir í lok fiskveiðiárs veiðigjald miðað við úthafsrækjuafla hvers skip í lok þess.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til fjórar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Í fyrsta lagi að felld verði niður 6. gr. laganna er lýtur að dagakerfi fyrir krókabáta sem fellur niður í lok yfirstandandi fiskveiðiárs samkvæmt gildandi lögum. Þessi breyting hefur ekki áhrif á kostnað ríkisins. Í öðru lagi að sett verði hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila. Breytingin er talin hafa óveruleg áhrif á útgjöld Fiskistofu vegna hugbúnaðargerðar. Í þriðja lagi er lagt til að Fiskistofu verði heimilt að gera samninga við útgerðir sem óska eftir að senda inn rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa gegn föstu árgjaldi. Stofnunin hefur til þessa tekið gjald fyrir hverja færslu sem áætlað er að skili 21 m.kr. ríkistekjum samkvæmt fjárlögum 2006 og renna þær til fjármögnunar gjaldahliðar. Gera má ráð fyrir að tekjur dragist saman vegna breytingarinnar en útgjöld stofnunarinnar ættu að minnka að sama skapi vegna minni vinnu. Í fjórða lagi eru lagðar til tvær tímabundnar breytingar í tilefni af erfiðleikum í veiðum og vinnslu úthafsrækju, fiskveiðiárin 2005/2006 til 2007/2008. Annars vegar er um það að ræða að vannýting á heimildum til að veiða úthafsrækju leiði ekki til þess að skip missi aflahlutdeildir. Hins vegar að veiðigjald verði ekki lagt á við úthlutun á úthafsrækjukvóta við upphaf fiskveiðiárs heldur verði tekið gjald að loknu fiskveiðiári miðað við landaðan úthafsrækjuafla. Fyrri tillagan hefur ekki áhrif á kostnað ríkisins en sú síðari felur í sér að ríkið felli niður þær 10 m.kr. sem voru lagðar á útgerðir rækjuveiðiskipa síðastliðið haust og síðan ræðst það af aflabrögðum hversu mikið verður innheimt að fiskveiðiárinu liðnu. Ekki eru forsendur til að meta áhrif á tekjur komandi fiskveiðiára. Framangreint mat er samhljóða mati sjávarútvegsráðuneytisins á frumvarpinu.
    Að öllu samanlögðu er talið að frumvarpið leiði til að hámarki 10 m.kr. tekjumissis ríkissjóðs ef engin úthafsrækja veiðist auk óvissrar tekjuskerðingar Fiskistofu en á móti kemur að miðað er við að stofnunin dragi samsvarandi úr kostnaði.