Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
Þskj. 689  —  462. mál.
Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög,
með síðari breytingum (upplýsingaákvæði).

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)1. gr.

    Við 7. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein skal einnig gefa á heimasíðu einkahlutafélaga og útibúa þeirra.

2. gr.

    2. málsl. 2. tölul. 127. gr. laganna orðast svo: Sama gildir um brot á reglum um hlutafé í erlendum gjaldmiðli skv. 3. mgr. 1. gr. og upplýsingagjöf skv. 7. mgr. 1. gr.

3. gr.

    Lög þessi byggjast á upplýsingaákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/ 58/EB frá 15. júlí 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 68/151/EBE að því er varðar birtingarskyldu félaga af tiltekinni gerð.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í viðskiptaráðuneytinu, er byggt á ákvæðum um skyldu til upplýsingagjafar í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB frá 15. júlí 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 68/151/EBE að því er varðar birtingarskyldu félaga af tiltekinni gerð. Nánar tiltekið er um það að ræða að ríkið skuli kveða á um að tilteknar lágmarksupplýsingar skuli birta á vefsíðu hlutafélaga, þar á meðal samlagshlutafélaga, og einkahlutafélaga. Að mestu leyti byggist framangreind tilskipun, sem varðar breytingar á 1. félagaréttartilskipuninni frá 1968, á rafrænni skráningu upplýsinga í hlutafélagaskrá. Fjármálaráðherra ber ábyrgð á skráningarákvæðum laga um hlutafélög og einkahlutafélög og er gert ráð fyrir að hann leggi fram sérstakt frumvarp um það efni.
    Framangreind tilskipun var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2004 frá 23. apríl 2004 og lögð fyrir Alþingi í tillögu til þingsályktunar á 131. löggjafarþingi 2004–2005 (þskj. 642, 436. mál).
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nýr málsliður bætist á grundvelli tilskipunarinnar við 7. mgr. 1. gr. laga um einkahlutafélög þannig að tilteknar upplýsingar um einkahlutafélög og útibú þeirra, þ.e. heiti, kennitölu, heimilisfang, skráningarnúmer og jafnvel hlutafé, skuli ekki aðeins greina á bréfsefni, pöntunareyðublöðum og svipuðum skjölum heldur einnig á heimasíðu félags. Jafnframt er gert ráð fyrir að sama gildi um upplýsingar skv. 7. mgr. 1. gr. um gjaldþrotaskipti eða félagsslitameðferð ef um slíkt er að ræða. Þá eru gerðar nauðsynlegar breytingar á refsiákvæðum.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 138/1994,
um einkahlutafélög, með síðari breytingum (upplýsingaákvæði).

    Frumvarpið er byggt á ákvæðum um skyldu til upplýsingagjafar í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB og 68/151/EBE. Meðal annars er kveðið á um tilteknar lágmarksupplýsingar sem skal birta á vefsíðum hlutafélaga.
    Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið ekki áhrif á útgjöld ríkisins verði það óbreytt að lögum.