Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 736  —  341. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um Landsvirkjun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er áætluð þróun eigin fjár Landsvirkjunar næsta áratug, bæði í fjárhæð eigin fjár og sem hlutfall af eignum, miðað við þær ákvarðanir um framkvæmdir og sölu raforku sem þegar liggja fyrir?
     2.      Hver er áætluð þróun skulda fyrirtækisins næsta áratug og hvaða áhrif hefur hún á lánshæfismat þess?
     3.      Þarf að auka eigið fé fyrirtækisins á þessu tímabili og ef svo er, hve mikið?
     4.      Hvaða framkvæmdir eru fyrirhugaðar næsta áratug til viðbótar þeim sem þegar hafa verið ákveðnar og hver er áætlaður kostnaður við þær?
     5.      Hvert verður svarið við 1.–3. lið ef ráðist verður í þær framkvæmdir sem um er spurt í 4. lið fyrirspurnarinnar?


    Leitað var til Landsvirkjunar um svör við fyrirspurninni og er að mestu stuðst við svör fyrirtækisins hér á eftir.
    Vert er að geta þess að í eftirfarandi er ekki gert ráð fyrir stjóriðjutengdum virkjanaframkvæmdum umfram það sem þegar hefur verið samið um. Þá ber einnig að hafa í huga að nefndar fjárhæðir eru mjög viðkvæmar fyrir breyttum forsendum um gengi gjaldmiðla, vexti og álverð.

1. Áætluð þróun eigin fjár Landsvirkjunar næsta áratug.
    Gert er ráð fyrir að eigið fé Landsvirkjunar, sem er ríflega 57 milljarðar kr. núna, lækki í um 40 milljarða kr. í árslok 2009 en hækki síðan á nýjan leik og verði um 63 milljarðar kr. í árslok 2015. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er nú um 34%. Búist er við því að það verði lægst um 20% í árslok 2009 en hækki og verði komið í 36% í árslok 2015.

2. Áætluð þróun skulda fyrirtækisins
    Landsvirkjun er með sama lánshæfismat og íslenska ríkið á erlendar skulbindingar, þ.e. Aaa frá Moody's Investor Service og AA- frá Standard & Poor's. Lánshæfismat Landsvirkjunar byggist einkum á tveimur þáttum, sem eru óbeinar ábyrgðir eigenda annars vegar og mikilvægi fyrirtæksins í íslensku efnahagslífi hins vegar. Þessir þættir vega upp á móti fjárhagslegum veikleika fyrirtækisins en fjárhagsstaða Landsvirkjunar er veikari en þeirra erlendu fyrirtækja sem matsfyrirtækin nota til samanburðar.
    Gert er ráð fyrir að skuldir Landsvirkjunar hækki úr um 110 milljörðum kr. í um 155 milljarða kr. í árslok 2008 en þá munu þær ná hámarki. Búist er við því að skuldir lækki jafnt og þétt á árunum þar á eftir og verði um 103 milljarðar kr. í árslok 2015.
    Ekki er talið að sú þróun eigna og skulda sem hér er lýst verði til að lækka lánshæfismat Landsvirkjunar að því gefnu að ekki verði breyting á fyrirkomulagi ábyrgða eigenda á lánum fyrirtæksins.
3. Eigið fé fyrirtækisins á tímabilinu.
    Sem fyrr segir er gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi ábyrgða á nýjum lánum Landsvirkjunar um sinn og er að öðru óbreyttu ekki talið að nauðsynlegt sé að auka eigið fé fyrirtækisins á meðan svo er. Segja má að umrædd ábyrgð komi í staðinn fyrir aukið eigið fé enda kemur skýrt fram í ritum matsfyrirtækja að lánshæfismat Landsvirkjunar mundi versna verulega ef ábyrgðarinnar nyti ekki við. Eiginfjárhlutfall raforkuframleiðslufyrirtækja í Evrópu er almennt nokkru hærra en hjá Landsvirkjun. Það má því gera ráð fyrir að auka þyrfti eigið fé fyrirtæksins svo að eiginfjárhlutfallið næði a.m.k. 35% ef ábyrgðir væru afnumdar og fyrirtækið stæði í nýjum lántökum. Ef slík breyting ætti sér stað árið 2009 þegar eiginfjárhlutfall fyrirtæksins verður sem lægst þyrfti væntanlega að auka eigið fé fyrirtækisins um 30 milljarða kr.

4.–5. Framkvæmdir til viðbótar þeim sem þegar hafa verið ákveðnar og áhrif þeirra.
    Þar sem ekki hefur verið samið um orkusölu til nýrrar stóriðju, sem mundi hefja rekstur eftir byggingu Fjarðaáls og stækkunar Norðuráls, er ekki unnt að tilgreina neinar fyrirhugaðar framkvæmdir á næsta áratug. Af þessu leiðir að ekki er unnt að svara 5. lið fyrirspurnarinnar.