Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 514. máls.

Þskj. 751  —  514. mál.



Frumvarp til laga

um Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Starfrækja skal stofnun, Heyrnar-, tal- og sjónstöð, til að annast þjónustu við blinda, sjónskerta, daufblinda, heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með heyrnarmein og talmein.

2. gr.

    Hlutverk stofnunarinnar er:
     1.      Að veita þjónustu þeim hópum sem taldir eru í 1. gr. og eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Stofnuninni er heimilt að veita þeim sem ekki eru sjúkratryggðir sömu þjónustu.
     2.      Að sjá um mælingar, sjúkdómsgreiningu, meðferð, hæfingu og endurhæfingu þeirra sem tilgreindir eru í 1. gr.
     3.      Að sjá um útvegun sérhæfðra hjálpartækja og kennslu í notkun þeirra. Stofnunin skal enn fremur sjá um viðhald og uppsetningu hjálpartækjanna.
     4.      Að stunda rannsóknir, þróunarstarf og sinna forvörnum og fræðslu á starfssviði sínu í samvinnu við aðra eftir því sem við á.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

3. gr.

    Ráðherra skipar forstöðumann til fimm ára. Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar.
    Faglegir yfirmenn skipa framkvæmdastjórn stofnunarinnar undir stjórn forstöðumanns, samkvæmt nánari ákvæðum í skipuriti. Framkvæmdastjórn er forstöðumanni til ráðgjafar og hefur hann samráð við hana um allar mikilvægar ákvarðanir varðandi faglega starfsemi stofnunarinnar.
    Framkvæmdastjórn boðar til samráðsfunda með fulltrúum samtaka notenda eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

4. gr.

    Ráðherra setur reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við hjálpartæki að höfðu samráði við forstöðumann.

5. gr.

    Sjúkratryggður einstaklingur, sbr. 1. tölul. 2. gr., skal greiða gjald fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, og samkvæmt reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Ósjúkratryggður einstaklingur skal greiða gjald samkvæmt reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustu.
    Einstaklingur, sbr. 1. tölul. 2. gr., skal greiða gjald fyrir greiningu á talmeinum og aðrar komur til talmeinafræðings.
    Einstaklingur, sbr. 1. tölul. 2. gr., skal greiða gjald vegna viðgerða á hjálpartækjum.
    Fyrir þjónustu sem veitt er stofnunum og fyrirtækjum skal greiða gjald sem standa skal undir kostnaði stofnunarinnar við þjónustuna.
    Ráðherra setur gjaldskrá vegna 2., 3. og 4. mgr. að höfðu samráði við forstöðumann. Skal gjaldskráin taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Stofnunin innheimtir gjöld þessi.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Endurskoða skal lög þessi innan þriggja ára frá gildistöku þeirra.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 18/1984, um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, með síðari breytingum. Jafnframt falla brott ákvæði 37. gr. a og 37. gr. b laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var samið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í samvinnu við forstöðumenn Heyrnar- og talmeinastöðvar og Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra og annað fagfólk stöðvanna.
    Í vinnuferlinu voru haldnir samráðsfundir með fulltrúum notenda frá Félagi heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra, Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, Félaginu Heyrnarhjálp, Daufblindrafélagi Íslands og Landssambandi eldri borgara. Var tekið tillit til athugasemda sem fram komu á þeim fundum eftir því sem við átti. Helstu athugasemdirnar sneru að réttarstöðu barna, þjónustustigi, hjálpartækjum, endurhæfingu og gjaldtöku.
    Við samningu frumvarps þessa voru núgildandi ákvæði um Heyrnar- og talmeinastöð í lögum um heilbrigðisþjónustu höfð til hliðsjónar. Ákvæðunum er breytt og þau samræmd þannig að þau nái einnig til blindra, sjónskertra og daufblindra auk þeirra sem eru heyrnarlausir, heyrnarskertir eða eru með heyrnarmein og talmein. Það er nýmæli að tilgreina sérstaklega rétt daufblindra til þjónustu nýrrar stofnunar. Þeirra er ekki sérstaklega getið í núgildandi lögum þó að reyndin sé sú að þeir hafi notið þjónustu á báðum stofnununum. Talmeina er sérstaklega getið án beinnar tengingar við heyrnarmein. Þannig er talmeinum nú ætlað meira rými í nýrri stofnun. Þá er lagt til að felld verði brott ákvæði um rekstrarleyfi til að annast þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta, enda er talið óþarft að sérákvæði séu um leyfi til að reka slíka starfsemi.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að sameina Heyrnar- og talmeinastöð og Sjónstöð í eina stofnun undir stjórn eins forstöðumanns. Rekstrarleg stjórnun stofnananna verður sameinuð, en fagleg starfsemi og þjónusta við skjólstæðinga verður á hendi fagfólks eins og verið hefur. Rökin fyrir sameiningunni eru einkum þau að með henni náist hagræðing sem styrki bæði faglega og rekstrarlega starfsemi beggja stofnana til lengri tíma litið. Báðar rekstrareiningarnar eru fremur litlar og óhagkvæmar, sérstaklega þó Sjónstöðin, en illa hefur gengið að halda rekstri hennar innan ramma fjárlaga síðustu árin.
    Með lögum nr. 143/2001 var lagaramminn um Heyrnar- og talmeinastöðina endurskoðaður, sérlög um hana voru felld brott og ný ákvæði sett inn í lög um heilbrigðisþjónustu. Fram til þess tíma höfðu verið erfiðleikar í rekstri Heyrnar- og talmeinastöðvar, en síðustu árin hefur reksturinn gengið vel.
    Hagræðið sem sameiningin felur í sér næst með sameiginlegri yfirstjórn, sameiningu stoðdeilda og samnýtingu húsnæðis. Með því verður mögulegt að nýta fé, sem nú fer til rekstrar, til að efla þjónustu við skjólstæðinga. Þá auðveldar sameiningin aðgengi að þjónustunni, einkum fyrir þá sem þurfa á þjónustu beggja stofnana að halda. Þar er um að ræða daufblinda og aldraða, en aldraðir eru stærsti einstaki hópurinn sem sækir þjónustu á báða staði, u.þ.b. 65%–75%.
    Að mati þeirra sem að sameiningunni koma er nauðsynlegt að finna nýtt húsnæði, sem felur í sér aukna möguleika á nýsköpun í starfsemi fyrir hina sameinuðu stofnun, enda er núverandi húsnæði óhentugt.
    Þó að rökin fyrir sameiningunni séu einkum þau að með henni náist rekstrarleg hagræðing sem styrkja á faglega starfsemi sameinaðrar stofnunar til lengri tíma litið er óhjákvæmilegt að reikna með einhverjum stofnkostnaði vegna flutnings í nýtt húsnæði. Þá kann húsnæðiskostnaður nýrrar stofnunar að verða meiri.
    Helstu breytingar frá gildandi lögum eru þær að í frumvarpinu eru felld brott ákvæði um fagráð hjá Heyrnar- og talmeinastöð og stjórn Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra en í staðinn er lagt til að faglegir yfirmenn skipi framkvæmdastjórn stofnunarinnar ásamt forstöðumanni. Er það í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (og lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins). Lagt er til að reglur um gjaldtöku af skjólstæðingum sameinaðrar stofnunar verði óbreyttar.
    Stofnunin lýtur yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, en henni verður að öðru leyti stjórnað af forstöðumanni.
    Lagt er til að núgildandi lög um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra og 37. gr. a og b laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, um Heyrnar- og talmeinastöð verði felld úr gildi við gildistöku nýrra laga um starfsemi hinnar sameinuðu stofnunar.
    Starfsmönnum sem nú starfa hjá Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra verður boðið starf hjá nýrri stofnun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra verði sameinaðar í eina stofnun. Í greininni eru skilgreindir þeir hópar sem ný stofnun á að veita þjónustu. Réttur daufblindra hefur ekki áður verið sérstaklega tilgreindur í lögum, en daufblindir hafa þrátt fyrir það notið þjónustu beggja stofnana.

Um 2. gr.

    Í 1.–4. tölul. 1. mgr. er kveðið á um hlutverk nýrrar stofnunar. Sameinuð eru ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu um Heyrnar- og talmeinastöð og ákvæði laga um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra og þau gerð skýrari. Í 1. tölul. er vísað til 1. gr. þar sem þeir hópar sem stofnuninni er ætlað að veita þjónustu eru tilgreindir. Í 2. tölul. er kveðið á um einstaka þjónustuþætti stofnunarinnar og lýst í hverju þjónustan er fólgin. Í 3. tölul. er kveðið á um að stofnunin skuli sjá um að útvega sérhæfð hjálpartæki vegna heyrnar- og sjónskerðingar og sjá um viðeigandi fræðslu og þjálfun í notkun þeirra ásamt viðhaldi og uppsetningu. Í 4. tölul. er kveðið á um að stofnunin skuli stunda rannsóknir og þróunarstarf ásamt því að sinna fræðsluskyldu og forvörnum á starfssviði sínu í samvinnu við aðra eftir því sem við á.
    Í 2. mgr. er heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að ráðherra skuli skipa forstöðumann til 5 ára og að forstöðumaður ráði aðra starfsmenn. Er þetta í samræmi við núgildandi ákvæði starfsmannalaga og laga um heilbrigðisþjónustu. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarp þetta.
    Í 2. mgr. er það nýmæli að faglegir yfirmenn skuli vera forstöðumanni til ráðgjafar og að hann skuli hafa samráð við þá um mikilvægar ákvarðanir sem snerta faglega starfsemi stofnunarinnar. Faglegir yfirmenn og forstöðumaður mynda framkvæmdastjórn og kemur hún í stað núgildandi ákvæðis laga um Heyrnar- og talmeinastöð um fagráð og ákvæða um stjórn Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra.
    Að öðru leyti er ekki mælt nánar fyrir um stjórnskipulag stofnunarinnar heldur er gert ráð fyrir því að það verði mótað af forstöðumanni og framkvæmdastjórn stofnunarinnar og staðfest af ráðherra.
    Í 3. mgr. er það nýmæli að framkvæmdastjórn skuli boða til samráðsfunda með fulltrúum samtaka notenda eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Hér er um að ræða lágmarksskyldu til samráðs en aðilar geta að sjálfsögðu haft frekara samráð, hvort sem er að frumkvæði stofnunar eða fulltrúa samtaka notenda. Er þetta gert til að tryggja aðkomu samtaka notenda að stofnuninni þar sem ákvæði um fagráð Heyrnar- og talmeinastöðvar og stjórn Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra eru felld brott, en þar áttu sæti fulltrúar notenda. Fulltrúar notenda eru m.a.: Félag heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, Félagið Heyrnarhjálp, Daufblindrafélag Íslands og Landssamband eldri borgara.

Um 4. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá ákvæðum núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu um Heyrnar- og talmeinastöðina og þarfnast ekki skýringa. Reglur um gjaldtöku af skjólstæðingum sameinaðrar stofnunar eru óbreyttar frá gildandi lögum.

Um 5. gr.

    Í greininni eru ákvæði um gjaldtöku Heyrnar- og talmeinastöðvar í núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu og laga um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra tekin upp í frumvarpið, en samræmd með tilliti til sameiningar stofnananna.
    Ekki er um efnislegar breytingar að ræða.

Um 6. gr.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnanirnar verði formlega sameinaðar frá og með 1. júlí 2006. Kveðið er á um endurskoðun laganna innan þriggja ára frá gildistöku þeirra. Ákvæðið þykir nauðsynlegt þar sem um nýja stofnun er að ræða. Í greininni er nánar tilgreint hvaða ákvæði laga og lög falla úr gildi. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda með frumvarpi þessu.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sameina Heyrnar- og talmeinastöð og Sjónstöð í eina stofnun frá og með 1. júlí 2006 undir stjórn eins forstöðumanns. Hlutverk hinnar nýju stofnunar verður að veita sömu þjónustu og þegar er veitt. Frumvarpið gerir því hvorki ráð fyrir breytingum á þjónustu né breytingu á greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Áform heilbrigðisráðuneytis eru hins vegar að nýta hagræðið sem næst með sameiningunni til að styrkja rekstrargrunn hinnar nýju stofnunar og efla þjónustu hennar. Í 6. gr. fjárlaga þessa árs liggur fyrir heimild til að kaupa eða leigja húsnæði fyrir sameinaða stofnun Heyrnar- og talmeinastöðvar og Sjónstöðvar.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það að lögum.