Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 527. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 770  —  527. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Örlygsson, Birgir Ármannsson,


Pétur H. Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson,
Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson.


1. gr.

    Við 2. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Launagreiðanda er skylt að aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðli launamanns.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.


Greinargerð.


         Með frumvarpinu er lagt til að launagreiðendum verði skylt að aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðli launamanns. Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu er samanlagt hlutfall tekjuskatts samkvæmt lögum um tekjuskatt og hlutfall útsvars, sem skal vera það sama á öllu landinu og ákveðið í samræmi við ákvarðanir sveitarstjórna, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Innheimtuhlutfall við staðgreiðslu á árinu 2005, og við álagningu tekjuskatts á árinu 2006 vegna tekna ársins 2005, er 37,73%, þar af reiknast 24,75% af tekjuskattsstofni. Í 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga kemur fram að útsvar skuli vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum hvers almanaksárs, en megi þó eigi vera hærra en 13,03% og eigi lægra en 11,24% af útsvarsstofni og skal sami hundraðshluti lagður á tekjur allra manna í hverju sveitarfélagi. Við staðgreiðslu á útsvari er notast við vegið meðaltalsútsvar sveitarfélaga, sem er 12,98% við staðgreiðslu á árinu 2005, vegna áskilnaðar í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda um að hlutfall útsvars skuli vera það sama. Útsvarsprósenta er þó misjöfn á milli sveitarfélaga og mikilvægt er að almenningur sé ávallt vel upplýstur um álagningu skatta og opinberra gjalda. Flutningsmenn telja að með aðgreiningu á útsvari og tekjuskatti á launaseðli sjái launamaður hvernig staðgreiðsla skatta skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga.