Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 543. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 790  —  543. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf Vestur-Norðurlanda í alþjóðlegri baráttu fyrir sjálfbærri nýtingu náttúruauðæfa, umhverfisvernd og notkun umhverfisvænna orkulinda.

Flm.: Halldór Blöndal, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Árnason,
Sigurrós Þorgrímsdóttir, Anna Kristín Gunnardóttir, Sigurjón Þórðarson.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2005, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að hefja samstarf um að Vestur-Norðurlönd standi saman í fararbroddi í alþjóðlegri baráttu fyrir sjálfbærri nýtingu náttúruauðæfa, umhverfisvernd og notkun umhverfisvænna orkulinda.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2005, sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22.–24. ágúst 2005. Ályktun ráðsins var efnislega á þessa leið:
    Vestnorræna ráðið hvetur stjórnvöld á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi til að hefja samstarf um að Vestur-Norðurlönd verði saman í fararbroddi í alþjóðlegri baráttu fyrir sjálfbærri nýtingu náttúruauðæfa, umhverfisvernd og notkun umhverfisvænna orkulinda.
    Vestnorrænar þjóðir bera ábyrgð á einum mestu náttúruauðæfum heimsins. Vestur-Norðurlönd eru einstakt svæði í heiminum sem getur haft forustuhlutverki að gegna í sjálfbærrri auðlindanýtingu, verndun hafsvæða og nýtingu umhverfisvænna orkulinda. Þetta er vafalaust eitt af mikilvægustu verkefnum sem heimurinn stendur frammi fyrir og hefur mikinn pólitískan forgang í öllum löndum heims og alþjóðlegum samtökum á 21. öld.
    Vestnorrænu löndin hafa hvert fyrir sig kerfi um stjórn á nýtingu fisks og sjávarspendýra sem nýtur alþjóðlegrar virðingar. Vestnorrænu löndin hafa hvert fyrir sig átt virkan þátt í verndun hafsins. Vestnorrænu löndin vinna einnig hvert fyrir sig að verkefnum og áætlunum um að nýta endurnýjanlegar og mengunarlausar orkulindir.
    Sameiginlegt framlag Vestur-Norðurlanda sem frumkvöðlasvæðis í þessum málaflokkum getur fært vestnorrænum löndum sterka stöðu og hlutverk á alþjóðasviði og aflað þeim gífurlegra ávinninga í alþjóðlegum markaðsmálum.