Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.

Þskj. 822  —  567. mál.Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um tilkynningar aðsetursskipta,
nr. 73/1952, með síðari breytingum.

1.      gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða með auglýsingu að um flutning manns á lögheimili sínu hingað til lands frá einhverju Norðurlandanna eða flutning manns á lögheimili sínu héðan til einhvers Norðurlandanna skuli gilda Norðurlandasamningur um almannaskráningu eins og hann er á hverjum tíma.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Orðin „þ.e. bæði fyrir fjölskylduföður og heimafólk“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      5. mgr. fellur brott.

3. gr.

    1. málsl. 10. gr. laganna orðast svo: Tilkynningar þær um aðsetur, sem lög þessi mæla fyrir um, skulu vera á prentuðum eða rafrænum eyðublöðum, sem Þjóðskrá lætur gera.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. kemur: Þjóðskrá.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Þjóðskrá ákveður tilhögun á sendingu aðseturstilkynninga og hvaða tímafrestir skulu gilda í því sambandi.

5. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: Þjóðskrá.
     b.      Í stað orðsins „Hagstofan“ í 3. mgr. kemur: Þjóðskrá.
     c.      Í stað orðsins „allsherjarspjaldskránni“ í 4. mgr. kemur: þjóðskrá.
     d.      Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 5. mgr. kemur: Þjóðskrár.

7. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglustjórar skulu, hver í sínu umdæmi, hafa eftirlit með framkvæmd á fyrirmælum laga þessara og aðstoða Þjóðskrá og hlutaðeigandi sveitarstjórnir eftir föngum við hana.

II. KAFLI
Breyting á lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina,
nr. 25/1965, með síðari breytingum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofa Íslands fyrir hönd þjóðskrárinnar“ í 1. mgr. kemur: Þjóðskrá.
     b.      Í stað orðsins „Hagstofunni“ í 6. mgr. kemur: Þjóðskrá.

9. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Í stað orðsins „Hagstofan“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

III. KAFLI
Breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu,
nr. 36/1993, með síðari breytingum.

11. gr.

    Í stað orðanna „þjóðskrárdeild Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. 27. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti,
nr. 80/1993, með síðari breytingum.

12. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

V. KAFLI
Breyting á lögum um mannanöfn,
nr. 45/1996, með síðari breytingu.

13. gr.

    Orðin „Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

14. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að breyta ritun nafns í þjóðskrá án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Slík breyting á nafnritun skal fara fram eftir reglum sem dómsmálaráðherra setur að höfðu samráði við mannanafnanefnd. Hver maður getur aðeins fengið slíka breytingu gerða einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

15. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofunni, dómsmálaráðherra“ í 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofa Íslands, Þjóðskrá“ í 1. málsl. kemur: Þjóðskrá.
     b.      Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 2. málsl. kemur: dómsmálaráðherra.

17. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til sveitarstjórna,
nr. 5/1998, með síðari breytingum.

18. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofa Íslands (þjóðskrá)“ í 4. og 6. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til Alþingis,
nr. 24/2000, með síðari breytingu.

19. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. málsl., „Hagstofan“ í 3. og 5. málsl. og „Hagstofunni“ í 4. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

20. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofa Íslands (þjóðskrá)“ í 22. gr. og 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

21. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofu Íslands (þjóðskrá)“ og „Hagstofunni“ í 3. mgr. 27. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga,
nr. 46/2000, með síðari breytingu.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skrá Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. kemur: bannskrá Þjóðskrár.
     b.      Í stað orðanna „skrár Hagstofu Íslands“ í 3. mgr. kemur: bannskrár Þjóðskrár.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga,
nr. 77/2000, með síðari breytingum.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Þjóðskrá skal halda skrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Dómsmálaráðherra setur, í samráði við Persónuvernd, nánari reglur um gerð og notkun slíkrar skrár og hvaða upplýsingar skuli koma þar fram.
     b.      Í stað orðsins „Hagstofunnar“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Þjóðskrár.
     c.      Í stað orðsins „Hagstofuna“ í 4. tölul. 5. mgr. kemur: Þjóðskrá.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Um andmælarétt hins skráða og um bannskrá Þjóðskrár.

X. KAFLI
Breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna,
nr. 6/2001, með síðari breytingu.

24. gr.

    Í stað orðanna „Hagstofu Íslands, þjóðskrár“ í 2. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: Þjóðskrár.

XI. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingu.
25. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: Dómsmálaráðherra.

26. gr.

    2. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
    Dómari skal senda Þjóðskrá upplýsingar um feðrun barns á eyðublaði sem hún leggur til.

27. gr.

    6. mgr. 34. gr. laganna orðast svo:
    Dómari skal senda Þjóðskrá upplýsingar um niðurstöðu máls um forsjá barns á eyðublaði sem hún leggur til.

XII. KAFLI
Breyting á ábúðarlögum, nr. 80/2004.
28. gr.

    Í stað orðanna „hjá Hagstofu Íslands“ í 27. gr. laganna kemur: í þjóðskrá.

XIII. KAFLI
Breyting á jarðalögum, nr. 81/2004, með síðari breytingu.
29. gr.

    Orðin „Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. 11. gr. laganna falla brott.


XIV. KAFLI
Gildistaka.
30. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu en þar er lagt til að þessi málaflokkur verði fluttur frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis. Það frumvarp, sem hér liggur fyrir, hefur að geyma tillögur um að breyta ákvæðum ýmissa laga sem nefna Hagstofuna sem ábyrga fyrir þjóðskrá eða þar sem vísað er til Þjóðskrár sem hluta af Hagstofunni. Er lagt til að í stað þessa vísi hlutaðeigandi lagaákvæði til Þjóðskrár þegar beinlínis er fjallað um skyldur hennar, en í fimm greinum til dómsmálaráðherra þegar um er að ræða útgáfu reglugerðar, reglna, auglýsingar eða annarra fyrirmæla, svo og ákvæðis vegna dagsekta. Auk þess er í 1. gr. frumvarpsins óskyld tillaga um breytingu á lögum um tilkynningu aðsetursskipta. Þessi tillaga leiðir af nýjum norrænum samningi um almannaskráningu frá 1. nóvember 2004 þar sem Norðurlöndin urðu ásátt um að í stað þess að skráning á flutningum fólks milli Norðurlandanna byggðist á samnorrænum flutningsvottorðum yrðu teknar upp rafrænar flutningstilkynningar milli þjóðskráa ríkjanna. Norðurlöndin, utan Íslands, hafa nú fullgilt samninginn og breytt löggjöf eða tekið samninginn í heild upp í löggjöf sína. Hér er lagt til að lögum um tilkynningar aðsetursskipta verði breytt svo hægt verði að fullgilda samninginn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að 6. gr. laganna verði breytt vegna nýs Norðurlandasamnings um almannaskráningu sem ráðgert er að taki gildi á árinu 2006. Núverandi samningur var gerður 8. maí 1989 og tók gildi 1. október 1990, sbr. auglýsingu nr. 13/1990 í C-deild Stjórnartíðinda. Megininntak þess samnings er að flutningur manna milli Norðurlandanna verður ekki skráður nema á grundvelli samnorræns flutningsvottorðs. Með nýja samningnum verður samnorræna flutningsvottorðið lagt niður en í stað þess verða við flutninga fólks tekin upp rafræn samskipti og tilkynningar milli höfuðstöðva skráningaryfirvalda í hverju Norðurlandanna. Áfram munu Norðurlöndin skiptast á sömu grunnupplýsingum og verið hefur og áfram verður sá skilningur hafður í heiðri að Norðurlöndin séu, hvað varðar almannaskráningu, eitt skráningarsvæði. Þannig verður áfram tryggt að enginn geti átt lögheimili samtímis í tveimur Norðurlandanna. Áfram mun hvert landanna um sig taka ákvörðun um skráningu lögheimilis hjá sér á grundvelli eigin löggjafar. Höfuðtilgangur nýja samningsins er að einfalda allt ferli við flutninga fólks milli landanna svo menn fái notið fyrr réttinda og borið skyldur í nýja búsetulandinu. Eitt meginvandamál í almannaskráningu milli landanna hingað til hefur verið seinagangur við útgáfu kennitölu og er nýja samningnum ætlað að bæta þar úr. Þess má geta að útgáfa kennitölu hér á landi hefur ekki tafið skráningu fólks við komu hingað. Við komu til nýs búsetulands, samkvæmt nýja samningnum, mun skráningaryfirvald gera kröfu til viðkomandi um að hann framvísi skilríkjum til að staðreyna hver hann sé (vegabréfi eða öðru opinberu skjali) svo ákvæðum samningsins verði beitt við flutning lögheimilis milli landanna. Samkvæmt samningnum eru skráningaryfirvöldin fimm sem munu hafa bein rafræn samskipti sín í millum: Á Íslandi Þjóðskrá, í Danmörku Indenrigs- og Sundhedsministeriets CPR-kontor, í Finnlandi Befolkningsregistercentralen, í Noregi Skattedirektoratet og í Svíþjóð Skatteverket. Í tengslum við samninginn sammæltust Norðurlöndin um að koma á fót nefnd með fulltrúum landanna sem ætlað er að hittast eigi sjaldnar en einu sinni á ári til þess að leysa ágreining sem upp gæti komið við beitingu samningsins. Nýi Norðurlandasamningurinn um almannaskráningu var undirritaður á Norðurlandaþingi í Stokkhólmi 1. nóvember 2004. Hann hefur nú fyrir skömmu verið fullgiltur af hálfu allra Norðurlandanna nema Íslands. Ef íslensk stjórnvöld fullgilda samninginn fyrir 1. apríl 2006 tæki hann gildi 1. júlí 2006, sbr. 6. gr. hans. Öll löndin vinna nú að samstarfi við lausn tæknilegra mála svo rafræn samskipti um almannaskráningu geti hafist milli Norðurlandanna við gildistöku samningsins.

Um 2. gr.

    Í a-lið er lagt til að fellt verði niður gamaldags og úrelt ákvæði 2. mgr. 9. gr.
    Tillaga b-liðar er svipaðs eðlis en hún gerir ráð fyrir að niður falli ákvæði um að þess megi krefjast að tilkynningar séu látnar í té í tvíriti.

Um 3.–6. gr.

    Tillögur í greinunum lúta að því að í stað tilvísana til Hagstofu Íslands sé vísað til Þjóðskrár.
    Í c-lið 6. gr. er lagt til að orðið allsherjarspjaldskrá, eins og þjóðskráin var stundum nefnd fyrstu árin eftir að hún var mynduð, verði leyst af hólmi með núverandi heiti hennar.

Um 7. gr.

    Í greininni er tillaga um breytingu á 1. mgr. 14. gr. Þar segir nú að lögreglustjórar skuli hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með framkvæmd á fyrirmælum laganna og aðstoða hlutaðeigandi bæjarstjórnir og hreppsnefndir eftir föngum við hana. Hér er lagt til að þessi aðstoð gildi enn fremur um Þjóðskrá, eins og verið hefur í reynd til margra ára, þ.e. að lögreglustjórar skuli aðstoða Þjóðskrá og hlutaðeigandi sveitarstjórnir, eins og það er orðað í tillögunni, við framkvæmdina.

Um 8.–10. gr.

    Hér eru gerðar tillögur um breytingar á lögum um nafnskírteini og eru þær allar á þá leið að í stað þess að vísað sé til Hagstofunnar verði vísað til Þjóðskrár. Jafnframt er lagt til að fella niður ákvæði um meðferð dánarvottorða þar sem það á ekki við lengur.

Um 11. gr.

    Í 2. mgr. 27. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu er gert ráð fyrir að senda skuli afrit af legstaðaskrá til ýmissa stofnana, þeirra á meðal til „þjóðskrárdeild(ar) Hagstofu Íslands“ eins og það er orðað. Hér er lagt til að í stað þessa sé vísað til Þjóðskrár.

Um 12. gr.

    Í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti er í 3. gr. kveðið á um að krefjast megi af viðskiptamanni að hann sanni á sér deili samkvæmt vottorði útgefnu af Hagstofu Íslands. Hér er um verkefni Þjóðskrár að ræða og er lagt til að greinin orðist samkvæmt því.

Um 13.–17. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn. Þau lög leggja Þjóðskrá ýmsar skyldur á herðar en í lögunum segir á nokkrum stöðum Hagstofan fremur en Þjóðskrá. Allar breytingar í þessum greinum gera ráð fyrir að í stað tilvísunar til Hagstofunnar verði vísað til Þjóðskrár. Í tveimur tilvikum er vísað til dómsmálaráðherra þar sem það á við. Þá er lagt til að bráðabirgðaákvæði III verði fellt niður því það hefur þegar þjónað tilgangi sínum.

Um 18. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að í stað þess að í núverandi lögum um kosningar til sveitarstjórna sé rætt um kjörskrárstofna sem Hagstofa Íslands (þjóðskrá) lætur í té verði rætt um kjörskrárstofna sem Þjóðskrá lætur í té.

Um 19.–21. gr.

    Allar breytingar samkvæmt þessari grein eru á þá leið að í lögum um kosningar til Alþingis verði kveðið á um skyldur Þjóðskrár við gerð kjörskrárstofna í stað þess að rætt sé um Hagstofuna í því sambandi.

Um 22. gr.

    Í lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga er nú vísað til skrár Hagstofu Íslands í 14. gr. laganna. Ákvæði um þessa skrá eru í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og er hún þar nefnd bannskrá. Í þessari grein er lagt til að orðin bannskrá(r) Þjóðskrár komi í stað orðanna skrá(r) Hagstofu Íslands í 2. og 3. mgr. 14. gr.

Um 23. gr.

    Í 28. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er rætt um bannskrá Hagstofunnar og hlutverk Hagstofunnar í því sambandi. Hér er lagt til að þessu verði breytt þannig að rætt sé um bannskrá Þjóðskrár og hlutverk hennar hvað þetta snertir. Þá er lagt til að dómsmálaráðherra setji reglur um gerð og notkun slíkrar skrár en það er hlutverk ráðherra Hagstofu Íslands í gildandi lögum.

Um 24. gr.

    Breytingar samkvæmt þessari grein gera ráð fyrir að felld verði niður tilvísun til Hagstofu Íslands í 1. og 16. gr. laga um skráningu og mat fasteigna og tekin verði upp tilvísun til Þjóðskrár þess í stað.

Um 25.–27. gr.

    Í 7. gr. barnalaga er nú kveðið á um að ráðherra Hagstofu Íslands geti sett ákvæði um skráningu faðernis í reglugerð. Með flutningi Þjóðskrár til dómsmálaráðuneytis verður setning reglugerðar í höndum dómsmálaráðherra eins og lagt er til hér. Þá eru í 18. og 34. gr. laganna lagðar þær skyldur á dómara að þeir sendi tilteknar upplýsingar til Þjóðskrár á eyðublöðum sem Hagstofa Íslands leggur til. Þessi eyðublöð verða ekki á ábyrgð Hagstofunnar eftir að Þjóðskráin hefur flust frá henni.

Um 28. gr.

    Hér er um að ræða ákvæði í 27. gr. ábúðarlaga um skráningu á sambúð og er lagt til að í stað skráningu „hjá Hagstofu Íslands“ komi „í þjóðskrá“.

Um 29. gr.

    Í 2. mgr. 11. jarðalaga er kveðið á um að Hagstofu Íslands sé ásamt nokkrum öðrum aðilum skylt að láta landbúnaðarráðuneytinu í té endurgjaldslaust allar upplýsingar sem það óskar eftir við skráningu í jarðahluta Landskrár fasteigna. Hér er um að ræða upplýsingar úr þjóðskrá og sýnist ákvæðið geta falið í sér mun meiri upplýsingaskyldu en samrýmist eðlilegri meðferð Þjóðskrár á ýmsum persónuupplýsingum. Því er lagt til að þetta ákvæði taki ekki til upplýsinga þjóðskrár. Það hefur ekki í för með sér að ekki verði kostur á nægjanlegum þjóðskrárupplýsingum fyrir jarðahluta Landskrár fasteigna, svo hægt sé að uppfylla skyldur samkvæmt jarðalögum um skrána, heldur að þær upplýsingar verði háðar ákvörðun dómsmálaráðherra en ekki landbúnaðarráðuneytis eins og nú sýnist felast í ákvæðinu.

Um 30. gr.

    Lagt er til að breytingar samkvæmt þessu frumvarpi taki gildi á sama tíma og breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu og breyting á reglugerð um Stjórnarráð Íslands þess efnis að þjóðskrá og almannaskráning flytjist frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða öðru frumvarpi um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu sem gerir ráð fyrir að þau verkefni verði flutt frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis. Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum sem leiða af þeim flutningi. Vísað er til kostnaðarumsagnar um frumvarp til laga um breytingu á lögunum um þjóðskrá og almannaskráningu.