Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 838  —  577. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2005.

I.    Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi hinn 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis-, auðlinda- og samgöngumál, aukið menningarsamstarf og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir og getur auk þess skipað vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

II.    Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi árs 2005 skipuðu Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins eftirtaldir þingmenn: Birgir Ármannsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Varamenn voru Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, Sigurjón Þórðarson, þingflokki Frjálslynda flokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Hinn 3. október 2005 voru eftirtaldir þingmenn kosnir í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins: Halldór Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Hjálmar Árnason, þingflokki Framsóknarflokks, Sigurrós Þorgrímsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigurjón Þórðarson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Eftirfarandi varamenn voru kjörnir: Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Arna Gerður Bang gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.
    Á fyrsta fundi nýrrar Íslandsdeildar hinn 5. október 2005 var Halldór Blöndal kjörinn formaður og Hjálmar Árnason endurkjörinn varaformaður.

III. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Á fyrri hluta ársins bar hæst undirbúning fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins sem haldinn var á Ísafirði 22.–24. ágúst. Auk þess var hugað að undirbúningi Íslandsdeildarinnar fyrir þemaráðstefnu ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum um sjávarútvegsmál sem haldin var í júní. Landsdeildin ákvað einnig að skipa sömu dómnefnd og starfað hefur undanfarin ár við bókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins. Dómnefndin samþykkti að halda starfi sínu áfram. Íslandsdeild fjallaði einnig sérstaklega um ályktanir ráðsins og hvernig mætti auka yfirsýn og tryggja framkvæmd þeirra og afgreiðslu í þingum landanna.

IV. Ráðning nýs framkvæmdastjóra ráðsins.
    Í lok febrúar 2005 hætti Ernst Olsen sem framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins eftir rúmlega fjögurra ára starf. Starf framkvæmdastjóra var auglýst laust til umsóknar í dagblöðum Vestnorrænu landanna í nóvember 2004 og bárust 30 umsóknir. Í febrúar 2005 hóf Þórður Þórarinsson stjórnmálafræðingur störf sem nýr framkvæmdastjóri ráðsins.

V.    Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins.
    Í desember 2005 voru tilkynntar tilnefningar til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og er þetta í þriðja skipti sem tilnefningar fara fram. Dómnefndir landanna þriggja tilnefna eina bók hver frá sínu landi.
    Íslenska dómnefndin um Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins tilnefndi til verðlaunanna árið 2006 skáldsöguna Frosnu tærnar eftir Sigrúnu Eldjárn. Grænlenska dómnefndin tilnefndi barnabókina Jólasveinninn og litlu sveinarnir eftir Grethe Guldager sem Nuka Godfredsen myndskreytti. Dómnefnd Færeyja tilnefndi bókina Hundur, köttur og mús eftir Bárð Oskarsson. Vestnorræna dómnefndin mun veita einni af þessum bókum verðlaunin í tengslum við ársfund ráðsins sem haldinn verður í ágúst nk.
    Markmiðið með barnabókaverðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur- Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu en þær bækur sem hljóta tilnefningu eru þýddar á vegum menntamálaráðuneyta landanna á vestnorrænu málin og skandinavísku.

VI. Þemaráðstefna um sjávarútvegsmál.
    Dagana 15. og 16. júní var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um sjávarútvegsmál og sameiginlega stefnu Vestur-Norðurlanda gagnvart Evrópusambandinu haldin í Þórshöfn. Á ráðstefnunni var sjónum beint að fiskveiðimálum Grænlands, Færeyja og Íslands og leitað var leiða til aukinnar samvinnu landanna. Fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sátu ráðstefnuna Birgir Ármannsson, formaður Íslandsdeildar, Hjálmar Árnason, varaformaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kjartan Ólafsson og Sigurjón Þórðarson, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Markmið ráðstefnunnar var að komast að samkomulagi um atriði sem varða sameiginlega stefnu landanna í sjávarútvegsmálum og byggja á þann hátt undirstöðu sem getur nýst löndunum í samskiptum þeirra við umheiminn. Áhugi á sameiginlegri stefnu í sjávarútvegsmálum gagnvart Evrópusambandinu er ljós en ráðstefnuna sóttu um sextíu aðilar frá Vestur-Norðurlöndum og Noregi. Meðal þeirra voru þingmenn, ráðherrar og sérfræðingar auk fulltrúa ESB og hagsmunasamtaka sem tengjast sjávarútvegsmálum.
    Birgir Ármannsson, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ráðstefnuna og lagði áherslu á mikilvægi þess að á ráðstefnunni yrðu stigin fyrstu skrefin við að skilgreina þau sameiginlegu undirstöðuatriði sem vestnorrænu löndin eru sammála um varðandi sjávarútvegsmál og Evrópusambandið. Birgir ræddi einnig um mikilvægi þess að þjóðirnar geti rætt saman um umdeild efni, jafnvel þótt aðilar séu ekki alltaf sammála.
    Ekkert vestnorrænu landanna er aðili að Evrópusambandinu og þau hafa enga sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu í sjávarútvegsmálum. Ákvarðanir Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál hafa engu að síður víðfeðmar afleiðingar fyrir Vestur-Norðurlönd. Í ljósi þess var niðurstaða ársfundar Vestnorræna ráðsins árið 2004 að mikilvægt væri að Vestur-Norðurlönd reyndu í sameiningu að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru um fiskveiðar í Evrópusambandinu. Með því að standa saman og tala einni röddu auka löndin möguleika sína á að hafa áhrif á stefnu Evrópusambandsins. Að öðrum kosti geta þau átt á hættu að áhrif þeirra á sjávarútvegsmál minnki í framtíðinni. Í lok ráðstefnunnar ríkti samstaða um að aukið vestnorrænt samstarf væri af hinu góða.

VII. Ársfundur Vestnorræna ráðsins.
    Dagana 22.–24. ágúst var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn á Ísafirði. Fyrir hönd Íslandsdeildar sátu fundinn Birgir Ármannsson, formaður, Hjálmar Árnason, varaformaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Kjartan Ólafsson og Magnús Þór Hafsteinsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Meðal efna á dagskrá fundarins voru vestnorrænt samstarf í sjávarútvegsmálum og Evrópusambandið, samgöngu- og ferðamannamál á Vestur-Norðurlöndum og samstarf á sviði orkumála, loftslags-, umhverfis- og heilbrigðismála.
    Ársfundurinn hófst á því að Birgir Ármannsson, fráfarandi formaður ráðsins, flutti skýrslu sína um starfsemi ársins og bauð þátttakendur velkomna, með sérstöku þakklæti til gesta fundarins, þeirra Rannveigar Guðmundsdóttur, forseta Norðurlandaráðs, Valgerðar Sverrisdóttur, norræns samstarfsráðherra, og Lodve Solholm, forseta Lögþingsins. Að því loknu voru fluttar frásagnir framkvæmdastjóra og landsdeilda um störf Vestnorræna ráðsins síðasta árið.
    Formaður Íslandsdeildar, Birgir Ármannsson, skýrði einnig frá störfum deildarinnar á árinu. Hann ræddi meðal annars um umfjöllun Íslandsdeildarinnar um ályktanir ráðsins og hvernig mætti auka yfirsýn og tryggja framkvæmd þeirra og afgreiðslu í þingum landanna. Birgir fjallaði einnig um þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um sjávarútvegsmál og Evrópusambandið og lagði áherslu á þau tækifæri sem samvinna vestnorrænu landanna á sviði sjávarútvegsmála getur veitt. Birgir þakkaði einnig fundargestum gott samstarf við skipulagningu ársfundarins.
    Í kjöri til forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins var Henrik Old frá Færeyjum kosinn formaður, Jonathan Motzfeldt frá Grænlandi varaformaður og Birgir Ármannsson annar varaformaður. Ákveðið var að þemaráðstefna starfsársins 2006 yrði tileinkuð ferðamálum og haldin á Grænlandi. Ferðaþjónusta og samgöngumál eru mikilvæg á Vestur-Norðurlöndum og óskaði ráðið eftir því við ríkisstjórnir Íslands og Grænlands að þær styddu áfram flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Narsarsuaq, en þriggja ára samningur um stuðning við þessar flugsamgöngur rann út í lok árs 2005. Niðurstaða virðist nú vera fengin í það mál og munu tvö flugfélög sjá um sumarflug milli Íslands og Grænlands.
    Í ræðu sinni lagði Henrik Old áherslu á að ráðið væri mikilvægur samstarfsaðili í vestnorrænum málum, þar sem svæðisbundið og alþjóðlegt samstarf verður sífellt mikilvægara. Það hefur bæði verðug verkefni og tækifæri í för með sér fyrir Vestur-Norðurlönd, enda oft erfitt fyrir smáþjóðir að láta rödd sína heyrast. Vestnorræna svæðasamstarfið getur því veitt löndunum tækifæri til að standa saman sem ein heild og aukið þar með möguleika þeirra á að hafa áhrif á alþjóðleg málefni. Henrik lagði enn fremur áherslu á mikilvægi þess að vestnorrænu þjóðirnar stæðu saman og töluðu einni röddu á þeim sviðum sem hagsmunir fara saman að því marki sem það er mögulegt.
    Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum. Fyrst er að nefna ályktun um að styrkja námskeið fyrir vestnorræna rithöfunda. Einnig var samþykkt ályktun um að stuðla að því að Norður-Atlantshafssvæðið verði frumkvöðlasvæði á sviði náttúruverndar og notkunar á náttúruvænum orkugjöfum. Í þriðju ályktuninni var lagt til að samstarf á sviði talningar á hvölum í Norður-Atlantshafi yrði aukið. Ályktanir fundarins voru samþykktar einróma.
    Aðalfundur ákvað einnig að varaformenn landsdeilda ráðsins yrðu jafnframt varamenn í forsætisnefnd þess.

VIII. Ályktanir Vestnorræna ráðsins á ársfundi á Ísafirði 22.–24. ágúst 2005.
          Tillaga til þingsályktunar um að styrkja námskeið fyrir vestnorræna rithöfunda.
          Tillaga til þingsályktunar um að stuðla að því að þjóðir við Norður-Atlantshaf verði frumkvöðlar á sviði náttúruverndar og notkunar á umhverfisvænum orkugjöfum.
          Tillaga til þingsályktunar um aukið samstarf á sviði talningar á hvölum í Norður- Atlantshafi.

Alþingi, 22. febr. 2006.



Halldór Blöndal,


form.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Hjálmar Árnason,


varaform.

Sigurjón Þórðarson.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.