Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 584. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 848  —  584. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2005.

1. Inngangur.
    Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) var stofnað árið 1889 og er hlutverk þess að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning á milli þjóða. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 143 þing en aukaaðilar að sambandinu eru sjö svæðisbundin þingmannasamtök. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf en það hefur jafnframt skrifstofu í New York. IPU fjallar um alþjóðamál og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. IPU hefur áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum og rétt til að dreifa skjölum sambandsins á allsherjarþinginu.
    Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins er fjármögnuð með framlögum frá aðildarþingum þess. Þing IPU taka pólitískar ákvarðanir og álykta um alþjóðamál. Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Sautján manna framkvæmdastjórn hefur m.a. umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd: friðar- og öryggismálanefnd;
     2.      nefnd: nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál;
     3.      nefnd: nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Til viðbótar eru starfandi eftirfarandi nefndir og vinnuhópar: nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhópur um samstarf kynjanna.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar og á vefsíðu IPU, www.ipu.org.

2. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Íslandsdeild var í upphafi árs skipuð Einari K. Guðfinnssyni, formanni, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristjáni L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, og Hjálmari Árnasyni, varaformanni, þingflokki framsóknarmanna. Varamenn voru Bjarni Benediktsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Jóhann Ársælsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna. Ný Íslandsdeildin var kjörin í upphafi 132. þings, 1. október sl. Breytingar voru þær að Ásta Möller var kjörin fulltrúi þingflokks sjálfstæðismanna í stað Einars K. Guðfinnssonar og Jóhanna Sigurðardóttir varamaður í stað Jóhanns Ársælssonar. Ásta Möller var svo kjörin formaður Íslandsdeildar og Hjálmar Árnason endurkjörinn varaformaður 5. október. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu.

3. Störf og ályktanir 112. þings IPU.
    112. þing IPU var haldið í Manila 3.–8. apríl 2005. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson, formaður Íslandsdeildar, Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar. Fulltrúar 116 þjóðþinga tóku þátt í þinghaldinu. Auk þess sóttu þingið fulltrúar svæðisþinga sem eiga aukaaðild að IPU og fjölmargir áheyrnarfulltrúar frá stofnunum og samtökum. 27% þingfulltrúa voru konur.
    Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir ávörp: F.M. Drilon, forseti efri deildar filippseyska þingsins, J. de Venecia jr., forseti neðri deildar filippseyska þingsins, R. Orr, einn af aðstoðaraðalriturum Sameinuðu þjóðanna, S. Páez, forseti IPU, og Gloria Macapagal-Arroyo, forseti Filippseyja.
    Að venju fóru fram almennar umræður á þinginu. Undir þessum lið fluttu nokkrir gestir ávörp. C. Bellamy, framkvæmdastjóri UNICEF, flutti ávarp og lagði áherslu á hlutverk þingmanna þegar kemur að því að vernda börn. Framkvæmdastjórinn fagnaði góðu samstarfi við IPU, sérstaklega útgáfu handbókar fyrir þingmenn um að sporna gegn verslun með börn og ræddi um mikilvægi lagasetningar og umræðu um málið. R. Orr, fulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, óskaði í ávarpi sínu eftir stuðningi þingmanna við breytingar á starfsemi samtakanna. Hann lagði áherslu á samstarf Sameinuðu þjóðanna og IPU við uppbyggingu lýðræðis. Utanríkisráðherra Filippseyja, A.G. Romulo, ávarpaði jafnframt þingið og ræddi m.a. nauðsynlegar breytingar á starfi Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði Filippseyjar styðja tillögur aðalritarans um breytingar á mannréttindanefnd stofnunarinnar. Hann hvatti jafnframt IPU til að styðja aukið viðskiptafrelsi.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Hér er aðeins sagt lítillega frá samþykktum ályktunum, en nálgast má heildartextann á alþjóðasviði og á heimasíðu IPU. Í 1. nefnd um frið og alþjóðleg öryggismál var rætt um hlutverk þjóðþinga til að tryggja að forsendur séu til að dæma í málum er tengjast stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu, þjóðarmorði og hryðjuverkum. Hjálmar Árnason tók þátt í starfi nefndarinnar. Í lokaályktun eru allir stríðsglæpir, glæpir gegn mannkyninu, þjóðarmorð og hryðjuverk fordæmd. Þjóðþing eru m.a. hvött, á grundvelli alþjóðalaga, til að taka á slíkum glæpum í landslögum.
    Einar K. Guðfinnsson var formaður 2. nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál og stjórnaði hann öllum fundum nefndarinnar á þinginu, auk þess sem hann setti í gang starf vinnuhóps sem vann að lokaályktun nefndarinnar. Nefndin fjallaði um hlutverk þjóðþinga við að finna nýstárlegar lausnir á sviði alþjóðlegrar fjármögnunar og viðskipta til að taka á skuldavandamálum og ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í lokaályktun eru þjóðþing iðnríkja hvött til að fara fram á það við ríkisstjórnir sínar að þær standi við þau markmið að leggja 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunarmála. Farið er m.a. fram á að ríkisstjórnir veiti þjóðþingum fullnægjandi upplýsingar um gang viðræðna um alþjóðlega samninga og lagt til að þingmenn séu ávallt með í sendinefndum ríkisstjórna á ráðherrafundi WTO.
    Í 3. nefnd um lýðræði og mannréttindi var fjallað um hlutverk þjóðþinga til að tryggja að mannréttindi séu virt í því starfi sem lýtur að því að koma í veg fyrir útbreiðslu alnæmis og því er tengist meðferð sjúkdómsins. Kristján L. Möller tók þátt í störfum nefndarinnar. Í lokaályktun eru þing og ríkisstjórnir m.a. hvött til að tryggja að stefnumið á sviði alnæmis tryggi virðingu fyrir mannréttindum, sérstaklega rétt til menntunar, vinnu, friðhelgi einkalífsins og rétt til meðferðar og félagslegrar aðstoðar. Þau eru jafnframt hvött til að sjá til þess að kynlífsfræðsla sé veitt, að fólk hafi aðgang að smokkum, hreinum nálum, ókeypis alnæmisprófum og lyfjum.
    Samþykkt var neyðarályktun um náttúruhamfarir: hlutverk þjóðþinga hvað varðar varnir, enduruppbyggingu og verndun áhættuhópa.
    Tvennar pallborðsumræður fóru fram á þinginu. Annars vegar var fjallað um fólksflutninga og þróunarmál og stýrði Einar K. Guðfinnsson unmræðum. J. Karlsson, formaður Alþjóðanefndar um fólksflutninga og fyrrverandi þróunarmálaráðherra Svíþjóðar, og T. Achacoso, fyrrverandi yfirmaður stofnunar sem fæst við málefni Filippseyinga sem starfa erlendis, tóku þátt í umræðunum. Karlsson sagði frá skýrslu sem nefndin ætlaði að leggja fljótlega fyrir aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Achacoso sagði m.a. frá því að margir filippseyskir læknar væru í endurþjálfun svo þeir gætu farið til útlanda að vinna sem hjúkrunarfræðingar. Hinar pallborðsumræðurnar fjölluðu um ofbeldi gegn konum og börnum á stríðshrjáðum svæðum. Framsögur höfðu þingmenn frá Rúanda, Sri Lanka og Svíþjóð, fulltrúi Amnesty International og sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna á sviði barnahernaðar.

4. Störf og ályktanir 113. þings IPU.
    113. þing IPU var haldið í Genf 16.–19. október 2005. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar, Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Árnason og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar. Auk þeirra málefna sem tekin voru fyrir í nefndum voru helstu mál þingsins kjör nýs forseta og umfjöllun um breytingar á starfi IPU (IPU reforms).
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Hjálmar Árnason tók þátt í störfum 1. nefndar um frið og alþjóðleg öryggismál, en þar var rætt um hlutverk þinga og fjölmiðla þegar kemur að því að veita almenningi upplýsingar um vopnuð átök og aðgerðir gegn hryðjuverkum. Í lokaályktun eru þjóðþing m.a. hvött til að setja lög til að koma í veg fyrir að efni frá fjölmiðlum og auglýsingar hvetji til kynþáttahaturs eða mannréttindabrota og að tryggja að ríkisstórnir uppfylli þær skyldur sínar að veita óvilhallar og réttar upplýsingar um atvik sem tengjast hryðjuverkum og vopnuðum átökum.
    Ásta Möller tók þátt í störfum 2. nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál. Nefndin fjallaði um fólksflutninga og þróunarmál. Ásta gerði mansal að umtalsefni og lagði áherslu á að ekki mætti líta á fórnarlömb mansals sem ólöglega innflytjendur heldur fórnarlömb. Í lokaályktun eru ríkisstjórnir m.a. hvattar til að leggja meiri áherslu á að uppfylla þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og undirbúa og framkvæma áætlanir til að draga úr fordómum og ofbeldi gegn innflytjendum.
    Jóhanna Sigurðardóttir tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræði og mannréttindi. Þar var fjallað um hlutverk borgaranna þegar kemur að þróun lýðræðis. Jóhanna fjallaði um mikilvægi frjálsra félagasamtaka í jafnréttisbaráttunni og tók nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Í lokaályktun eru stjórnvöld m.a. hvött til að endurskoða löggjöf eftir þörfum til að auðvelda starfsemi frjálsra félagasamtaka og auka samskipti sín við slík samtök.
    Neyðarályktun um náttúruhamfarir var samþykkt á þinginu. Í ályktuninni eru stjórnvöld hvött til að viðurkenna tenginguna á milli loftslagsbreytinga og umhverfismála. Jafnframt er lögð áhersla á mikilvægi þjóðþinga þegar kemur að því að ákveða framlög til aðstoðar á hamfarasvæðum.

5. Svæðisbundið samstarf innan IPU.
5.1. Tólfplús-hópurinn.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings eða ráðsfundar hittist svokallaður tólfplús-hópur, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing eða sérstakur ráðsfundur stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Á þeim fundum eru jafnframt fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU valdir. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.
    Kosningar til forseta IPU voru fyrirhugaðar haustið 2005 og var framboð til forseta IPU fyrirferðarmesta málið á dagskrá tólfplús-hópsins á vorþinginu. Tveir þingmenn úr hópnum höfðu lýst yfir áhuga á embættinu en enginn frá öðrum svæðishópum. Þegar tólfplús-hópurinn hefur sóst eftir forsetaembættinu og fleiri en einn þingmaður er í kjöri er venja að lýst sé yfir framboði innan hópsins, sem tekur síðan lýðræðislega ákvörðun um hver verði frambjóðandi hans til forsetakjörs. Var tekin ákvörðun um það á síðasta þingi að þessi framgangsmáti yrði viðhafður nú. Því var gert ráð fyrir að frambjóðendurnir tveir, Belginn Versnick sem var á þeim tíma formaður tólfplús-hópsins og ítalski þingforsetinn Casini, mundu kynna framboð sitt innan hópsins sem tæki síðan ákvörðun í Manila um hvor þeirra byði sig fram til forseta. Í ljós kom að Casini átti ekki heimangengt vegna fráfalls páfa. Ítalska sendinefndin var á móti því að tólfplús-hópurinn greiddi atkvæði um það hvor þeirra yrði frambjóðandi hópsins og sagði að Casini héldi framboðinu til streitu hvað sem ákveðið yrði í hópnum, enda liti hann ekki á sig sem frambjóðanda hópsins heldur allra innan IPU. Einar K. Guðfinnsson var einn margra sem talaði fyrir því að kosið yrði á milli frambjóðendanna án frekari kynningar, enda hefði Casini þegar efnt til mikillar kynningaherferðar meðal sendinefnda tólfplús-hópsins. Of seint yrði að gera upp á milli frambjóðenda í haust, enda biðu aðrir svæðishópar eftir því að fá að vita hver væri frambjóðandi tólfplús-hópsins. Hann og fleiri lýstu vonbrigðum með að Casini vildi ekki hlíta lýðræðislegri ákvörðun hópsins. Að lokum fór fram kosning um frambjóðanda hópsins til forseta IPU, en aðeins Belginn var í kjöri, þar sem Ítalinn neitaði að vera í framboði á vegum hópsins. Hlaut Versnick góða kosningu og var opinber frambjóðandi tólfplús-hópsins til forseta IPU, en ljóst að Casini héldi sínu framboði jafnframt til streitu.
    Á fundum tólfplús-hópsins í tengslum við 113. þing IPU var mikið rætt um hvernig hefði til tekist með breytingar á starfsháttum IPU. Almennt má segja að menn hafi talið breytingar hafa verið til batnaðar, þó að frekari breytinga væri þörf. Mikilvægt væri að hafa fasta fulltrúa í IPU til að byggja upp þekkingu á starfi samtakanna, en sum þing hafa ekki fasta sendinefnd heldur senda nýja fulltrúa á hvert þing. Þingfulltrúar voru almennt sammála um að nauðsynlegt væri að hafa áfram tvö þing á ári og töldu jafnframt að þingmenn ættu að koma meira að þeim verkefnum sem IPU vinnur á milli þinga. Fram kom að vinnuhópur innan tólfplús-hópsins mundi halda áfram störfum til næsta þings, en jafnframt var gert ráð fyrir að nýr forseti IPU setti á stofn lítinn vinnuhóp til að fjalla um breytingarnar fram að næsta þingi (vor 2006). Töluvert var rætt um stöðu skrifstofu IPU og nauðsyn þess að hún þjónaði þingmönnum betur. Þar væri vissulega mjög hæft starfsfólk, en það virtist sem framkvæmdastjórinn vildi stundum taka sér of mikil völd á kostnað pólitískrar stjórnar IPU. Ásta Möller tók í framhaldi af þessum umræðum málið upp á ráðsfundi og setti fram málefnalega gagnrýni á framkvæmdastjórann. Hjálmar Árnason fylgdi málinu eftir á næsta tólfplús-fundi, en í framhaldi af því fékk málflutningur Ástu almennan stuðning í hópnum og tóku fulltrúar margra ríkja til máls og þökkuðu Ástu fyrir skelegga framgöngu. Ásta Möller var síðan valin fyrir hönd tólfplús-hópsins til að vera skýrsluhöfundur á næsta ári um samstarf þjóðþinga og Sameinuðu þjóðanna til að stuðla að heimsfriði, sérstaklega með tilliti til baráttunnar gegn hryðjuverkum.

5.2. Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Danir í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Kaupmannahöfn 28. febrúar til 1. mars og sá síðari á Fjóni i 15.–16. september 2005. Varaformaður og ritari Íslandsdeildar sóttu fyrri fund ársins en ritari þann síðari.

6. Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU Council).
6.1. Ráðsfundir í tengslum við 112. þing.
    Ráð IPU kom tvívegis saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Þess má geta að Georgía fékk á ný aðild að IPU. Ráðið samþykkti að taka fyrir á næsta fundi sínum tillögu að lagabreytingu þess eðlis að heimilt verði í sérstökum tilfellum að fella niður langvarandi skuldir við IPU sem ríki erfa frá fyrrverandi stjórnvöldum.
    Rætt var um aðgerðir til að styrkja lýðræði og þjóðþing, en á vegum IPU er veitt tæknileg aðstoð og ráðgjöf til nýrra þinga og í löndum þar sem lýðræðisþróun er komin skammt á veg. Oftast eru verkefni unnin í samstarfi við þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Aðstoð er nú veitt í eftirfarandi ríkjum: Albaníu, Gíneu, Nígeríu, Pakistan, Srí Lanka, Austur- Tímor, Úrúgvæ og Kósóvó. Verið er að setja af stað verkefni til að aðstoða framtíðarþjóðþing Afganistans og núverandi bráðabirgðaþing Íraks.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Ekvador, Erítrea, Hondúras, Indónesía, Malasía, Mongólía, Burma, Pakistan, Palestína, Rúanda, Sýrland, Tyrkland og Simbabve.
    Rætt var almennt um starfsemi IPU og þær breytingar sem gerðar voru á sínum tíma á þinghaldinu. Kynnt var nýstofnuð upplýsingamiðstöð IPU sem á að styrkja IPU sem miðstöð fyrir upplýsingar um þing og lýðræði, varðveita og þróa þekkingu innan IPU, gera IPU-skrifstofunni betur kleift að sinna verkefnum sínum og styrkja upplýsinganet um lýðræði og þing. Ráðgjafarfyrirtækið Saatchi & Saatchi hafði verið fengið til að skrifa skýrslu um ásýnd IPU út á við og var hún lögð fram. Hún var rædd í tólfplús-hópnum og jafnframt lítillega í ráðinu. Verður áfram unnið með þetta mál. Einar K. Guðfinnsson lagði áherslu á að skoða yrði annars vegar hvernig IPU kemur upplýsingum á framfæri við þingmenn aðra en þá sem eiga sæti í landsdeildum og hvernig hægt er að auka sýnileika IPU út á við hins vegar.

6.2. Ráðsfundir í tengslum við 113. þing.
    Ráð IPU kom tvívegis saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Maldíveyjar fengu inngöngu í IPU og Dómíníska lýðveldið og Madagaskar fengu endurinngöngu. Máritaníu var vikið tímabundið úr IPU þar sem ekkert þing er þar starfandi eftir stjórnarbyltingu hersins í ágúst 2005.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Bangladess, Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Ekvador, Erítrea, Hondúras, Indónesía, Malasía, Mongólía, Búrma, Pakistan, Palestína, Rúanda, Singapúr, Srí Lanka, Sýrland, Tyrkland og Simbabve.
    Nýr forseti IPU var kjörinn í Genf. Tveir voru í framboði, Geert Versnick frá Belgíu og Pier Ferdinando Casini, forseti ítalska þingsins. Casini vann með 230 atkvæðum gegn 107, en þrír atkvæðaseðlar voru auðir eða ógildir.

7. Aðrir fundir.
    Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, starfandi ritari Íslandsdeildar IPU, sóttu þingmannafund IPU um málefni WTO sem haldinn var í tengslum við ráðherrafund WTO í Hong Kong. Þingmennirnir voru jafnframt hluti af opinberri sendinefnd Íslands á ráðherrafundinn og gafst þingmönnunum þannig tækifæri til að fylgjast með störfum framkvæmdarvaldsins í þeim mikilvægu hagsmunamálum sem til umfjöllunar voru og koma áherslum sínum á framfæri. Á þingmannafundi IPU gafst tækifæri til skoðanaskipta við ýmsa ráðherra og háttsetta embættismenn, en jafnframt voru teknar til umræðu skýrslur þingmanna um margvísleg viðfangsefni ráðherrafundarins. Um 400 þingmenn frá 69 ríkjum tóku þátt í fundinum. Ályktun var samþykkt í lok fundar þar sem þingmenn hvöttu stjórnvöld aðildarríkja WTO að ljúka Dóha-viðræðunum fyrir lok 2006. Þingmenn lýstu m.a. áhyggjum yfir litlum framförum í viðræðunum á öllum sviðum þeirra. Farið var fram á að útflutningsstyrkir á sviði viðskipta með landbúnaðarvörur yrðu með öllu aflagðir fyrir lok 2006, minnt var á að skoða þyrfti viðskipti með landbúnaðarvörur með tilliti til margra hagsmunaþátta, svo sem fæðuöryggis, byggðarsjónarmiða, o.s.frv., en bent var jafnframt á að sanngjörn niðurstaða á þessu sviði sem kæmi til móts við kröfur fátækra ríkja væri forsenda þess að jákvæð niðurstaða fengist út úr samningaviðræðunum almennt. Aðildarríki WTO voru hvött til að leggja harðar að sér til að ná framförum á sviði þjónustuviðskipta, en bent var á að fara þyrfti varlega þegar um almannaþjónustu væri að ræða.

8. Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2004.
8.1. Ályktanir 112. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Hlutverk þjóðþinga til að tryggja að forsendur séu til staðar til að dæma í málum er tengjast stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu, þjóðarmorði og hryðjuverkum.
     2.      Hlutverk þjóðþinga við að finna nýstárlegar lausnir á sviði alþjóðlegrar fjármögnunar og viðskipta til að taka á skuldavandamálum og ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
     3.      Hlutverk þjóðþinga til að tryggja að mannréttindi séu virt í því starfi sem lýtur að því að koma í veg fyrir útbreiðslu alnæmis og því er tengist meðferð sjúkdómsins.
     4.      Neyðarályktun um náttúruhamfarir: hlutverk þjóðþinga hvað varðar varnir, enduruppbyggingu og verndun áhættuhópa.

8.2. Ályktanir 113. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Hlutverk þinga og fjölmiðla þegar kemur að því að veita almenningi upplýsingar um vopnuð átök og aðgerðir gegn hryðjuverkum.
     2.      Fólksflutninga og þróunarmál.
     3.      Hlutverk borgaranna þegar kemur að þróun lýðræðis.
     4.      Neyðarályktun um náttúruhamfarir.
    Til viðbótar voru samþykktar ályktanir á ýmsum sérráðstefnum og fundum IPU. Alþingi átti einungis fulltrúa á einum slíkum fundi, þ.e. þingmannafundi í tengslum við ráðherrafund WTO, sbr. 7 kafla.


Alþingi, 22. febr. 2006.



Ásta Möller,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Kristján L. Möller.