Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 596. máls.

Þskj. 880  —  596. mál.Frumvarp til laga

um varnir gegn fisksjúkdómum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Markmið, gildissvið,
skilgreiningar og stjórnsýsla.

1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að vernda lífríki vatna og vatnafisk með því að sporna við sjúkdómum og sníkjudýrum.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til vatnafisks og innflutnings fisks og hrogna á íslenskt forráðasvæði. Við framkvæmd laganna skal gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um fiskrækt, laga um eldi vatnafiska og laga um eldi nytjastofna sjávar.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Alifiskur: Fiskur sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum.
     2.      Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
     3.      Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska og annarra vatnadýra, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
     4.      Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu fiskeldis.
     5.      Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fisk í veiðivatni.
     6.      Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma, en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     7.      Fiskur: Fiskur í merkingu laga þessara tekur til allra tegunda lagardýra sem lifa í vatni og sjó, hvort sem er við náttúrulegar aðstæður eða í eldi.
     8.      Geldstofn: Vatnafiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
     9.      Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
     10.      Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og veiði kynþroska fiska til þess að fanga þá til endurveiða eða slátrunar er þeir ganga úr sjó í ferskt vatn.
     11.      Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
     12.      Laxastofn: Hópur laxa sem hrygnir á tilteknum stað og tíma, en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     13.      Sjávarfiskur: Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.
     14.      Sjór: Salt vatn utan árósa.
     15.      Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
     16.      Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
     17.      Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
     18.      Vatnadýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
     19.      Vatnafiskur: Lax (Salmo salar), silungur (urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss)), áll (Anguilla anguilla) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
     20.      Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
     21.      Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
     22.      Villtur fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á sama stað og sama tíma en ekki í neinum mæli með öðrum slíkum hópum.

4. gr.
Stjórnsýsla.

    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Landbúnaðarstofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Landbúnaðarstofnun til ráðgjafar við framkvæmd laganna er fisksjúkdómanefnd. Landbúnaðarráðherra skipar fimm manna fisksjúkdómanefnd: einn samkvæmt tilnefningu rannsóknardeildar fisksjúkdóma í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar, einn samkvæmt tilnefningu Veiðimálastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu Fiskistofu og yfirdýralækni, sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Landbúnaðarstofnun skal hafa forgöngu um að stundaðar séu fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í lögum þessum, og annað er að fisksjúkdómum lýtur.
    Í samræmi við fyrirmæli einstakra greina laga þessara er ráðherra heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd þeirra. Við setningu reglugerða skal ávallt leitað faglegrar umsagnar Landbúnaðarstofnunar, Veiðimálastofnunar og fisksjúkdómanefndar.

II. KAFLI
Um innflutning á lifandi fiski og hrognum.
5. gr.
Innflutningur lifandi ferskvatnsfiska.

    Um innflutning lifandi laxfiska og annarra fiska er lifa í ósöltu vatni, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrogna og svilja, gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra. Óheimilt er að sleppa í veiðivatn lifandi fiskum, lagardýrum eða vatnaplöntum sem fluttar hafa verið til landsins.

6. gr.
Um innflutning skrautfiska.

    Landbúnaðarstofnun er heimilt að leyfa innflutning skrautfiska og hrogna þeirra með þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru svo að markmið laga þessara náist. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli þar að lútandi.

7. gr.
Tímabundin viðkoma vegna flutnings á fiski.

    Ef fiskur er fluttur milli landa með viðkomu á Íslandi skal sá flutningur fara fram undir eftirliti Landbúnaðarstofnunar og hlíta þeim fyrirmælum sem stofnunin setur. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um slíkan flutning.

8. gr.
Sótthreinsun veiðitækja og veiðibúnaðar.

    Skylt er að sótthreinsa veiðitæki, veiðibúnað, báta og annan sambærilegan búnað, sem notaður hefur verið erlendis, áður en leyfilegt er að flytja hann inn í landið, enda liggi ekki fyrir fullnægjandi vottorð, að mati Landbúnaðarstofnunar, um að búnaðurinn hafi verið sótthreinsaður erlendis. Landbúnaðarráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um framkvæmd og eftirlit með sótthreinsun samkvæmt grein þessari. Landbúnaðarráðherra getur falið tollyfirvöldum framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari grein.

9. gr.
Innflutningur á dauðum fiski.

    Landbúnaðarstofnun er rétt að banna innflutning á dauðum fiski, ferskum eða frystum, ef ástæða þykir til, t.d. vegna hættu á sjúkdómum og sníkjudýrum í vatnafiski. Slík fyrirmæli Landbúnaðarstofnunar skulu birt í B-deild Stjórnartíðinda.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
10. gr.
Viðbrögð vegna sjúkdóma og sníkjudýra í veiðivatni eða fiskeldisstöð.

    Ef upp kemur smitandi sjúkdómur eða sníkjudýr í veiðivatni eða í fiskeldisstöð er Landbúnaðarstofnun heimilt, að höfðu samráði við fisksjúkdómanefnd, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu þeirra. Við framkvæmd slíkra ráðstafana skal þar að auki og eftir föngum haft samráð við viðkomandi veiðifélag, veiðiréttarhafa, hafi veiðifélag ekki verið stofnað, eða rekstrarleyfishafa fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar.

11. gr.
Setning reglugerða.

    Ráðherra skal, að höfðu samráði við Landbúnaðarstofnun og fisksjúkdómanefnd, setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð.
    Í reglugerð skal mælt fyrir um skilyrði innflutnings lifandi fisks, hrogna og svilja þar sem m.a. skal kveðið á um að fyrir hendi sé heilbrigðisvottorð og að fisksjúkdómanefnd mæli ekki gegn slíkum innflutningi. Þá skal nánar mælt fyrir um sótthreinsun hrogna, íláta og umbúða innfluttra fiska, sem og meðferð þeirra að öðru leyti. Enn fremur skal í reglugerð mælt fyrir um framkvæmd sótthreinsunar veiðibúnaðar. Jafnframt skal kveðið á um nánari skilyrði sem Landbúnaðarstofnun getur sett fyrir innflutningi á dauðum fiski.
    Í reglugerð skal einnig mælt fyrir um heilbrigðiseftirlit í eldisstöðvum, um töku sýnishorna, um sóttvarnaraðgerðir og um kostnað af nauðsynlegum ráðstöfunum og annað það sem nauðsynlegt kann að teljast til þess að ná þeim markmiðum laga þessara að tryggja heilbrigði í vatnafiski.

IV. KAFLI
Refsi- og gildistökuákvæði.
12. gr.
Um refsingar.

    Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að einu ári brjóti hann gegn ákvæðum 7. gr. af ásetningi eða gáleysi. Það varðar sömu refsingu brjóti maður af ásetningi eða gáleysi fyrirmæli Landbúnaðarstofnunar skv. 9. gr. um bann við innflutningi á dauðum, ferskum eða frystum fiski.

13. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006. Um leið falla úr gildi 78.–84. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um lax- og silungsveiði, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt og laga um eldi vatnafiska. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af landbúnaðarráðherra og í henni sitja tíu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árinu 2001 ákvað landbúnaðarráðherra að endurskoða skyldi ákvæði gildandi lax- og silungsveiðilaga í því skyni að færa ákvæði þeirra til nútímahorfs að efni og formi. Unnið hefur verið jafnt og þétt að verkinu frá áramótum 2004/05 með það að markmiði að unnt yrði að leggja fram frumvarp til nýrra lax- og silungsveiðilaga og annarra tengdra laga við upphaf haustþings 2005. Nefnd sú sem vann að endurskoðun löggjafarinnar var skipuð þeim Þorgeiri Örlygssyni, dómara við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ingimari Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og dr. Páli Hreinssyni, prófessor við sömu deild. Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Stefánsson, héraðsdómslögmaður á Lex-Nestor lögmannsstofu, og Atli Már Ingólfsson, lögfræðingur og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Sigurður Guðjónsson, forstöðumaður Veiðimálastofnunar, var faglegur ráðgjafi nefndarinnar í störfum hennar. Í september 2005 var afrakstur af vinnu nefndarinnar kynntur á vef landbúnaðarráðuneytisins og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á því að gera athugasemdir við drög að frumvörpunum. Bárust nefndinni athugasemdir frá 34 aðilum og samtökum. Fór nefndin yfir þær athugasemdir og tók tillit til þeirra eftir því sem efni stóðu til.
    Endurskoðun löggjafar á þessu sviði er afar umfangsmikið verkefni þar sem gæta þarf fjölþættra hagsmuna og lagaskila. Stofn gildandi löggjafar er að hluta til frá árinu 1932, þótt ný lög hafi verið sett 1941, 1957 og 1970. Með einstökum lögum hafa síðan verið gerðar fjölmargar breytingar á gildandi stofnlögum á hverjum tíma. Tilraunir til heildarendurskoðunar laganna á síðustu áratugum hafa hins vegar ekki borið árangur.
    Við þá lagaendurskoðun sem nú hefur farið fram hefur sú leið verið farin að einfalda löggjöfina og gera framsetninguna markvissari. Er að því stefnt með þrennum hætti. Í fyrsta lagi hafa verið samin frumvörp um fjóra þætti eða málaflokka sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði og þannig gert ráð fyrir að sérlög gildi á þeim sviðum. Þetta eru ákvæði um Veiðimálastofnun, ákvæði um fiskeldi, ákvæði um fiskrækt og síðast en ekki síst ákvæði um varnir gegn fisksjúkdómum sem frumvarp þetta hefur að geyma. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að nánari útfærsla einstakra atriða verði í reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra og reglum settum af Landbúnaðarstofnun. Í þriðja lagi hefur uppbyggingu laganna verið breytt, bæði í því skyni að einfalda og skýra, sem og að samræma fyrirkomulag og uppbyggingu laganna viðteknum viðhorfum við lagasmíð í upphafi 21. aldar.
    Til þess að benda sem skýrast á nauðsynlegt samhengi umræddrar löggjafar eru frumvörp sem lúta að áðurnefndum fjórum málaflokkum lögð fram samhliða frumvarpi um lax- og silungsveiði og ráðgert að þau öll og málaflokkurinn í heild fái þannig samræmda þinglega meðferð og afgreiðslu. Í því samhengi er rétt að benda á að lög um lax- og silungsveiði verða eins konar þungamiðja þessarar lagasetningar, en hin frumvörpin fjögur koma þar til fyllingar og stuðnings, þótt þau samkvæmt efni sínu séu sjálfstæð. Er því ástæða til þess að vísa til fyllingar athugasemdum þessum til ítarlegra almennra athugasemda með nýju frumvarpi til lax- og silungsveiðilaga sem að breyttu breytanda þykja jafnframt taka til þess sviðs sem þetta frumvarp fjallar um.
    Ákvæði um varnir gegn fisksjúkdómum komu fyrst inn í lög um lax- og silungsveiði með lögum nr. 53/1957. Allmiklar breytingar voru á þeim reglum gerðar með lögum nr. 76/1970, sem að stærstum hluta eru í óbreyttri mynd í lögunum, sbr. X. kafla laganna. Ekki eru með frumvarpi þessu fyrirhugaðar neinar verulegar efnisbreytingar á gildandi reglum.
    Hér á eftir fara athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins. Er hér um hefðbundna efnisskipan að ræða. Ekki er um að ræða verulegar efnisbreytingar frá reglum X. kafla gildandi laga en einstakar athugasemdir eru að sínu leyti nokkuð ítarlegar enda óhjákvæmilegt að rekja þar uppruna einstakra greina og samsvörun þeirra í gildandi lögum.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla

    Í I. kafla er að finna hefðbundin ákvæði um markmið og gildissvið laganna, sbr. 1. og 2. gr. Þá eru í 3. gr. ítarlegar orðskýringar, en í 4. gr. er mælt fyrir um fyrirkomulag stjórnsýslu samkvæmt lögunum.

Um 1. gr.

    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er markmið þess að vernda lífríki vatnafisks með því að sporna við sjúkdómum og sníkjudýrum í honum. Engin slík skilgreining er í gildandi lögum og er frumvarpsgreinin því nýmæli. Framangreint markmið tengist markmiðum annarra þeirra frumvarpa sem fyrr er getið og lögð eru fram samhliða frumvarpi þessu um veiðar, viðkomu, ræktun og eldi ferskvatnsfiska og stefna öll að því sameiginlega markmiði að stuðla að skynsamlegri, hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu fiskstofna í ferskvatni. Nauðsynlegur hluti þess er að sjálfsögðu heilbrigði viðkomandi stofna.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er kveðið á um það að lögin taki til vatnafisks og innflutnings fisks og hrogna á íslenskt forráðasvæði. Er að því stefnt með lögunum að verja eftir föngum vatnafisk og lífríki hans fyrir sjúkdómum og sníkjudýrum. Er augljóst að mikil hætta í þá veru getur skapast vegna innflutnings fisks, hrogna og ýmiss tækjabúnaðar erlendis frá. Með afmörkun gildissviðs frumvarpsins er vísað til þeirra reglna sem ætlað er að sporna við þeirri hættu með því að reisa skorður við öllum slíkum innflutningi og tryggja virkt eftirlit með þeim takmarkaða innflutningi sem leyfður verður. Þá er jafnframt kveðið á um það í 2. gr. að við framkvæmd laga um varnir gegn fisksjúkdómum skuli gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um fiskrækt, laga um eldi vatnafiska og laga um eldi nytjastofna sjávar. Er með þessu lögð áhersla á það sérstaka samhengi og samræmi sem vera þarf við beitingu þeirrar löggjafar sem ætlað er að leysa gildandi lög um lax- og silungsveiði af hólmi. Lögin taka ekki til eldis nytjastofna sjávar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar. Sambærileg ákvæði eiga að vera í öðrum þeim lögum sem tilgreind eru í frumvarpsgreininni. Í þessu felst árétting þess að þrátt fyrir þá uppskiptingu núgildandi lax- og silungsveiðilöggjafar í fleiri lagabálka, sem birtist í frumvarpi þessu og fylgifrumvörpum þess, er þeim öllum saman ætlað að mynda heildarumgjörð um málaflokkinn svo sem gildandi lög hafa gert.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. hafa verið teknar saman skilgreiningar allra helstu hugtaka sem fyrir koma, sem og hugtaka sem lýsa ýmsum þeim afbrigðum sem fyrir koma við varnir gegn sjúkdómum í fiskstofnum og lífríki vatnsins. Hefur sú leið verið valin að skýra fremur fleiri en færri hugtök og styðst sú aðferð við þau rök að þótt tiltekin hugtök komi ekki fyrir í lögunum sjálfum kunni þau að verða notuð í reglugerðum og reglum settum á grundvelli laganna. Vakin er athygli á því að hugtakið fiskur hefur víðtækari merkingu í frumvarpi þessu heldur en frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Þá er bent á að hugtakið hafbeit er samkvæmt greininni tvíþættrar merkingar. Í fyrsta lagi er um að ræða föngun fisks á sleppistað (hafbeitarstöð) til slátrunar og í öðru lagi föngun fisks til flutnings og endurveiða í öðrum vötnum. Í þessu samhengi er vert að geta þess að slepping gönguseiða í veiðivötn telst ekki til hafbeitar heldur fiskræktar. Greinin skýrir sig að öðru leyti sjálf.

Um 4. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. fer landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála er varða varnir gegn fisksjúkdómum. Að öðru leyti er framkvæmd stjórnsýslunnar í höndum Landbúnaðarstofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að vekja á því athygli að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að til sé sérstök staða dýralæknis fisksjúkdóma, en í frumvarpinu er hins vegar við það miðað að verkefni hans flytjist til Landbúnaðarstofnunar í samræmi við breytta stjórnsýslu á sviði landbúnaðarmála.
    Í 2. mgr. er tekið fram að Landbúnaðarstofnun til ráðgjafar við framkvæmd laganna skuli starfa sérstök nefnd, fisksjúkdómanefnd. Gert er ráð fyrir nokkuð breyttri skipan hennar miðað við 78. gr. gildandi lax- og silungsveiðilaga. Er nú gert ráð fyrir því að í nefndinni sitji fimm menn, skipaðir samkvæmt tilnefningum rannsóknardeildar fisksjúkdóma í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Hafrannsóknastofnunarinnar, Veiðimálastofnunar, Fiskistofu, auk yfirdýralæknis, sem vera skal formaður nefndarinnar. Er með þessari breytingu stefnt að því að nefndin sé skipuð hæfustu sérfræðingum sem völ er á á þessu sviði auk fulltrúa þeirra tveggja stjórnvalda sem málaflokkurinn helst varðar. Hlutverk nefndarinnar er nokkuð breytt þar sem henni er nú ætlað ráðgjafarhlutverk. Af þessu leiðir jafnframt að regla 2. mgr. 78. gr. gildandi lax- og silungsveiðilaga er ekki tekin upp í frumvarpið, enda án þýðingar í breyttu stjórnsýsluumhverfi.
    Um reglugerðarheimild 3. mgr. er það að segja að eitt helsta markmiðið með heildarendurskoðun löggjafar um lax- og silungsveiði felst í því að einfalda lögin og gera þau aðgengilegri en áður, svo sem nánar er um fjallað í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Liður í þeirri viðleitni er að flytja úr lögum ýmsar reglur tæknilegs eðlis sem betur fer á að séu í reglugerð. Til þess að tryggja að við setningu reglugerðar samkvæmt lögunum sé ætíð byggt á vísindalegum forsendum og gögnum er tekið fram í 3. mgr. að ávallt skuli leita umsagnar Landbúnaðarstofnunar, Veiðimálastofnunar og fisksjúkdómanefndar áður en slíkar reglugerðir eru settar. Í þessu felst ekki að ráðherra eða önnur stjórnvöld samkvæmt lögum þessum séu bundin af umsögn álitsgjafa nema það sé sérstaklega tekið fram.

Um II. kafla.

    Í II. kafla er að finna meginreglur þær sem gilda munu um innflutning á lifandi fiski og hrognum. Hafa reglur kaflans, svo sem rakið er í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins, það markmið að vernda lífríki ferskvatnsfiska gegn þeirri hættu sem stafað getur af óheftum innflutningi fiska. Vakin er á því athygli að gert er ráð fyrir því að regla 1. mgr. 81. gr. gildandi lax- og silungsveiðilaga verði tekin upp og útfærð í reglugerðum þeim sem ráðherra skal setja á grundvelli 5. og 6. gr. frumvarpsins, verði það að lögum. Fer betur á því að slíkum tæknilegum atriðum sé skipað í reglugerð en lögum.

Um 5. gr.

    Í greininni er hnykkt á þeirri meginreglu að um innflutning laxfiska, sem og annarra fiska sem lifa í ósöltu vatni, gildi ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra. Af þessari tilvísun til laga nr. 54/1990 leiðir að slíkur innflutningur sætir umfangsmiklum takmörkunum. Sambærilega reglu er að finna í 1. mgr. 79. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði. Þá er sú sjálfsagða bannregla áréttuð að óheimilt sé að sleppa í veiðivatn lifandi fiskum, lagardýrum eða vatnaplöntum sem fluttar hafa verið til landsins. Með tilliti til breytts lagaumhverfis og stjórnsýslu á sviði landbúnaðarmála leiðir af sjálfu sér að ekki er þörf á því að taka upp í frumvarpið reglu þá sem nú er í 2. mgr. 79. gr. gildandi laga.

Um 6. gr.

    Regla 6. gr. á sér fyrirmynd í 80. gr. gildandi laga. Þó eru gerðar á henni þær breytingar að í stað bannreglu gildandi laga með undanþáguheimildum er við það miðað í frumvarpsgreininni að innflutningur skrautfiska sé heimill, en með þeim skilyrðum sem Landbúnaðarstofnun setur til að tryggja að markmið laganna náist. Gert er ráð fyrir að þau skilyrði verði nánar útfærð í reglugerð ráðherra á grundvelli þeirra viðmiða sem fram koma í lögunum. Þá leiðir það af breyttri stjórnsýslu landbúnaðarmála að Landbúnaðarstofnun fer með meginhlutverkið samkvæmt frumvarpsgreininni, en það var áður á hendi ráðherra og fisksjúkdómanefndar.

Um 7. gr.

    Ljóst má vera að hætta fyrir lífríki ferskvatns og ferskvatnsfiska getur skapast þegar fiskur er fluttur milli landa með viðkomu á Íslandi. Er því nauðsynlegt í lögum að hafa skýrar reglur um eftirlit og heimild til inngrips, ef þörf krefur. Regla svipaðs efnis er í 2. mgr. 81. gr. gildandi laga, en sem fyrr leiðir breytt stjórnsýsla landbúnaðarmála til þess að verkefni samkvæmt frumvarpsgreininni eru í höndum Landbúnaðarstofnunar. Þá er og gert ráð fyrir því í frumvarpsgreininni að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um flutning fisks milli landa.

Um 8. gr.

    Efni greinarinnar svarar til fyrri málsliðar 82. gr. gildandi laga og fjallar um sótthreinsun veiðitækja og veiðibúnaðar. Þeirri reglu er í frumvarpinu breytt úr valkvæðri heimild í fortakslausa skyldu, enda mun það vera í samræmi við þá framkvæmd sem í raun hefur tíðkast. Þá er regla frumvarpsgreinarinnar nokkuð víðtækari því að hún nær til smærri báta og annars sambærilegs búnaðar sem ætlaður er til nota á íslenskum veiðivötnum.

Um 9. gr.

    Í lokaákvæði II. kafla eru fyrirmæli í þá veru að Landbúnaðarstofnun sé rétt að banna innflutning á dauðum fiski, ferskum eða frystum, ef ástæða þykir til, t.d. vegna hættu á sjúkdómum og sníkjudýrum í vatnafiski. Slík regla er nú í síðari málslið 82. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði. Af breyttri stjórnsýslu leiðir að Landbúnaðarstofnun fer nú með það hlutverk sem fisksjúkdómanefnd er ætlað að gildandi lögum.

Um III. kafla.

    Í III. kafla eru annars vegar ákvæði um heimild til viðbragða komi upp sjúkdómur í veiðivatni eða eldisstöð en hins vegar um skyldu ráðherra til útgáfu reglugerða, þar á meðal vegna heilbrigðiseftirlits í eldisstöðvum.

Um 10. gr.

    Regla 10. gr. á sér samsvörun í 83. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði og fjallar um heimild Landbúnaðarstofnunar til víðtæks inngrips komi upp sjúkdómur eða sníkjudýr í veiðivatni eða fiskeldisstöð. Heimild til þess sætir þó eðli málsins samkvæmt takmörkunum á grundvelli meðalhófs, sbr. þann áskilnað að aðgerðir þær sem gripið er til verði að vera nauðsynlegar til þess að hefta útbreiðslu sjúkdómsins eða sníkjudýranna. Þá skal haft samráð við fisksjúkdómanefnd og við það veiðifélag sem með veiði fer í viðkomandi veiðivatni, veiðiréttarhafa, sé veiðifélag ekki starfrækt, og rekstrarleyfishafa sé um að ræða fiskeldis- og hafbeitarstöð.

Um 11. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir setningu tvenns konar reglugerða, að höfðu samráði við Landbúnaðarstofnun og fisksjúkdómanefnd.
    Í 2. mgr. er áréttuð skylda ráðherra til þess að setja reglugerð til fyllingar ákvæðum II. kafla frumvarpsins. Svo sem ráðið verður af texta frumvarpsins er nú m.a. gert ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um þau atriði sem nú er mælt fyrir um í 81. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði. Að öðru leyti verður ekki talið að greinin þarfnist sérstakra skýringa.
    Í 3. mgr. er tekið upp ákvæði sama efnis og í 84. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði en það lýtur að heilbrigðiseftirliti í eldisstöðvum. Greinin er efnislega óbreytt en vakin er athygli á þeim reglum sem settar hafa verið á grundvelli 84. gr. gildandi laga en það eru nú eftirfarandi reglugerðir: nr. 403/1986, sbr. nr. 597/1989 (um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum); nr. 105/2000 (um flutning og sleppingar laxfiska o.fl.), sbr. nr. 528/2003; nr. 525/2003 (um dýraheilbrigðiseftirlit með innflutningi eldisdýra); nr. 526/2003 (um skilyrði á sviði dýraheilbrigðis sem áhrif hafa á markaðssetningu eldisdýra og afurða þeirra) og nr. 527/2003 (um sýnatökuáætlanir o.fl.).

Um IV. kafla.

    Í kaflanum er refsiheimild og ákvæði um gildistöku og breytingar á lögum.

Um 12. gr.

    Með ákvæðinu eru brot á 7. og 9. gr. frumvarpsins gerð refsiverð. Vakin er athygli á því að sé bann við innflutningi á dýrum brotið varðar það refsingu skv. 18. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra.

Um 13. gr.

    Gildistakan er miðuð við 1. júní 2006 og falla þá um leið úr gildi þau ákvæði laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sem lúta að innflutningi á lifandi fiski og hrognum.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Svo sem víða hefur verið vikið að í athugasemdum með frumvarpi þessu hefur sú leið verið farin við endurskoðun gildandi lax- og silungsveiðilaga að kljúfa efni þeirra upp og greina í fimm lagabálka. Liggur því til grundvallar það sjónarmið að skipa saman í lagabálka þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga en skilja að öðru leyti á milli. Birtist þetta í því að samhliða frumvarpi þessu eru lögð fram fjögur önnur frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, frumvarp til laga um fiskrækt, frumvarp til laga um eldi vatnafiska og frumvarp til laga um Veiðimálastofnun, og munu þau öll, ef að lögum verða, mynda þá lagaumgjörð sem nú er að finna í lax- og silungsveiðilögunum einum. Til viðbótar þessum frumvörpum munu nýsamþykkt lög um Landbúnaðarstofnun víða koma við sögu við framkvæmd lax- og silungsveiðilöggjafar. Þá er og rétt að hafa í huga að samhliða þessari fyrirkomulagsbreytingu er öll stjórnsýsla við lagaframkvæmdina einfölduð í frumvörpunum og munu færri aðilar koma þar að málum en nú er.
    Þegar svo miklar breytingar eru gerðar á lagaumhverfinu er nauðsynlegt að tryggja að lagaframkvæmdin geti gengið sem best fyrir sig, agnúar verði sniðnir af og samþætting tryggð. Því er í bráðabirgðaákvæði með frumvarpinu gert ráð fyrir því að á næstu fimm árum frá gildistöku laganna starfi samráðsnefnd um framkvæmd þeirra og annarra þeirra laga er mynda þá lagaumgjörð sem hér er lögð til. Er nefndinni ætlað að vera samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra aðila sem lagaframkvæmdin varðar helst. Hún á að fylgjast með og stuðla að greiðri lagaframkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra sem lögin varða helst.
    Í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir því að nefndin verði skipuð til fimm ára, enda ætti þá að vera komin góð reynsla á lagaframkvæmdina. Ef reynslan af starfi nefndarinnar er jákvæð er með lagabreytingu unnt að festa hana varanlega í sessi.Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um fiskrækt, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði, en lagafrumvörpum þessum er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.
    Þessu tiltekna frumvarpi er ætlað að leysa af hólmi X. kafla gildandi laga um lax- og silungsveiði. Ekki eru með frumvarpinu fyrirhugaðar neinar verulegar efnisbreytingar frá gildandi lögum og verður ekki séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.