Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 607. máls.

Þskj. 891  —  607. mál.Frumvarp til laga

um lax- og silungsveiði.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra.

2. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði laga þessara gilda um alla veiði úr ferskvatnsfiskstofnum á íslensku forráðasvæði, nema aðra skipan leiði af ákvæðum annarra laga.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Afréttur: Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.
     2.      Almenningur í stöðuvatni: Sá hluti stöðuvatns sem er fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti (netlög) landareigna þeirra sem að vatninu liggja.
     3.      Á: Straumvatn frá ósasvæði til upptaka.
     4.      Áll: Sá staður langs eftir vatni, stöðuvatni eða straumvatni þar sem dýpi er mest milli grynninga eða sandeyra sem eigi teljast bakkar. Nú eru álar fleiri en einn og heitir sá höfuðáll sem vatnsmestur er.
     5.      Áveita: Mannvirki sem notað er til þess að veita vatni á land.
     6.      Bakki: Fast takmark á farvegi straumvatns eða legi stöðuvatns, svo sem klettar, gróið land eða eyrar sem vatn fellur eigi yfir í meðalvexti eða sjór um stórstraumsflæði.
     7.      Eignarland: Landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
     8.      Farvegur: Vatnsleg sem vatnsfall rennur eftir, hvort heldur af manna völdum eða náttúru.
     9.      Fasteign: Afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega er við landið skeytt.
     10.      Ferskvatnsvistkerfi: Tiltekið svæði þar sem vatnadýr tengjast hvert öðru og umhverfi sínu á einn eða annan hátt.
     11.      Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska og annarra vatnadýra, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
     12.      Fiskför: För fisks um veiðivatn.
     13.      Fiskigengd: Sá fjöldi fiska sem gengur í veiðivatn eða elst upp í veiðistærð í veiðivatni.
     14.      Fiskihverfi: Veiðivatn eða -vötn sem sami fiskstofn byggir og fer um fram og aftur eða ætla má að sami fiskstofn byggi og fari um fram og aftur þá er ræktaður hefur verið.
     15.      Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fisk í veiðivatni eða arð af veiðivatni.
     16.      Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     17.      Fiskur: Lax (Salmo salar), silungur (urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss)), áll (Anguilla anguilla og Anguilla rostrata) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
     18.      Fiskvegur: Hvers konar mannvirki er gerir veiðivötn fiskgeng eða greiðir fiskför um þau.
     19.      Föst veiðivél: Veiðitæki sem fest er í vatni og fiskur getur ánetjast í eða króast af, svo sem lagnet, króknet og girðing.
     20.      Geldstofn: Vatnafiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
     21.      Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
     22.      Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og veiði kynþroska fiska til þess að fanga þá endurveiða eða slátrunar er þeir ganga úr sjó í ferskt vatn.
     23.      Háflæði: Mesta rennsli eða hækkun á vatnsborði sem verður að jafnaði oftar en annað hvert ár í ólögðu vatni og þegar auð er jörð.
     24.      Jörð: Lögbýli samkvæmt ábúðarlögum.
     25.      Kvísl: Hluti af straumvatni sem fellur sér milli bakka.
     26.      Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
     27.      Lögn: Staður í vatni þar sem fastri veiðivél verður við komið.
     28.      Merkivatn: Vatn það sem landamerkjum ræður.
     29.      Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
     30.      Ós í á: Sá staður þar sem straumur þverár sameinast straumi höfuðár.
     31.      Ós í sjó: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í sjó um stórstraumsfjöru.
     32.      Ós í stöðuvatn: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í stöðuvatn.
     33.      Ós úr stöðuvatni: Sá staður þar sem straumlína ár hefst í stöðuvatni.
     34.      Ósasvæði: Svæði í straumvatni er nær frá ósi í sjó upp til þess staðar þar sem straumlína hverfur um stórstraumsflæði.
     35.      Rennsli: Hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.
     36.      Sjálfbær nýting fiskstofna: Nýting þar sem ekki er gengið á fiskstofn. Eftir veiði er hrygningarstofn nægilega stór til þess að tryggja eðlilega nýliðun og til þess að viðhalda fjölbreytileika stofnsins.
     37.      Sjávarfiskur: Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.
     38.      Sjór: Salt vatn utan árósa.
     39.      Straumlína (strengur): Lína sem liggur eftir endilöngu straumvatni um þá staði þess þar sem straumur er mestur.
     40.      Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
     41.      Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
     42.      Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
     43.      Vatnafiskur: Fiskur sem lifir að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
     44.      Vatnadýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
     45.      Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
     46.      Vatnsfall: Rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að tíma- og staðbreytilegur sé, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við.
     47.      Vatnsleg: Lægð í landi, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs.
     48.      Vatnsmiðlun: Geymsla og miðlun vatns til þess að breyta náttúrulegu vatnsmagni straumvatns (vatnsfalls) eða til þess að stýra rennsli vatns.
     49.      Vatnsnýting: Vatnstaka, veiting eða virkjun vatns til heimilis- og búsþarfa, í arðsemisskyni eða til að verja fasteign spjöllum.
     50.      Vatnsveita: Mannvirki til að flytja vatn til notenda.
     51.      Vatnsvirki: Mannvirki umhverfis vatn, í eða yfir vatni eða við það.
     52.      Veiðifélag: Félag allra veiðiréttarhafa í sama fiskihverfi, veiðivatni eða landsvæði, sbr. 38. gr.
     53.      Veiðiréttarhafi: Sá einstaklingur sem á hverjum tíma fer með rétt fasteignar til veiði, sbr. fyrirmæli II. kafla laga þessara.
     54.      Veiðihlutur: Hundraðshluti jarðar í veiði vatns samkvæmt arðskrá.
     55.      Veiðimagn: Samanlögð þyngd veiddra fiska.
     56.      Veiðimál: Hvers konar mál er lúta að lax-, silungs- og álaveiði, fiskrækt eða fiskeldi.
     57.      Veiðitala: Tala veiddra fiska.
     58.      Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
     59.      Veiðivél: Sjá föst veiðivél.
     60.      Villtur fiskstofn: Fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.
     61.      Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.
     62.      Örmerkingar: Merkingar á laxi með málmflísum í trjónuna.

4. gr.
Stjórnsýsla.

    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Landbúnaðarstofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt, nema á annan veg sé mælt í lögum þessum.
    Í samræmi við fyrirmæli einstakra greina laga þessara er ráðherra heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd þeirra í reglugerð.
    Þegar talað er um reglur í lögum þessum er átt við svæðis- og tímabundnar reglur sem Landbúnaðarstofnun setur á grundvelli laganna eða reglugerða ráðherra sem settar eru með stoð í lögum þessum.
    Við setningu reglugerða og reglna samkvæmt lögum þessum skal leita faglegra umsagna eftir því sem við kann að eiga, þar með talið frá viðkomandi veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum.
    Öll veiðifélög samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga þessara hafa með sér landssamtök, Landssamband veiðifélaga, sem gætir sameiginlegra hagsmuna þeirra.

II. KAFLI
Um veiðirétt.
5. gr.
Veiðiréttur.

    Eignarlandi hverju fylgir veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum.
    Í þjóðlendum er íslenska ríkið eigandi veiðiréttar samkvæmt lögum þessum með þeim takmörkunum sem leiðir af veiðirétti afréttareigenda, sbr. ákvæði 7. gr.
    Ábúð á jörð fylgir heimild til ráðstöfunar veiðiréttar sem jörðinni tilheyrir, nema á annan veg semjist milli jarðeiganda og ábúanda.
    Þegar vatn skilur fasteignir, sem veiðiréttur fylgir, er landeiganda einum heimil veiði fyrir landi sínu. Mönnum er þó ævinlega heimil för í annarra land til þess að koma í veg fyrir missi afla eða koma í veg fyrir tjón á veiðibúnaði. Ávallt skulu þeir gæta þess að valda sem minnstri röskun á hagsmunum nágranna og bæta tjón ella á grundvelli mats skv. VII. kafla laga þessara.
    Ef farvegur straumvatns breytist eða stöðuvatn tekur sér nýtt leg færist veiðiréttur til eigenda þeirra fasteigna er land eiga undir, sbr. þó 7. og 8. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.

6. gr.
Veiðiréttur í almenningi stöðuvatns.

    Fasteignaeigendum, er land eiga að stöðuvatni, er einum heimil veiði í almenningi vatnsins, þar með talin dorgveiði um ís, og er hún þeim öllum jafnheimil. Ef forn venja er til þess að veiðiréttur í almenningi stöðuvatns fylgi tiltekinni eða tilteknum fasteignum gildir sú skipan mála.

7. gr.
Veiðiréttur á afrétti í þjóðlendu.

    Þeim jörðum sem rétt eiga til upprekstrar á afrétt í þjóðlendu fylgir veiðiréttur í vötnum þeim sem á þeim afrétti eru, með sama hætti og verið hefur. Veiðifélag fer að jafnaði með hagnýtingu og ráðstöfun veiði í slíkum vötnum.

8. gr.
Veiðiréttur í óskiptri sameign.

    Ef fasteign eða veiðiréttur samkvæmt lögum þessum er í óskiptri sameign er sameigendum öllum veiði jafnheimil.
    Rétt er þeim er telur sig vanhaldinn að krefjast skipta á veiði, annaðhvort þannig að hvor eða hver hafi sinn hluta vatns eða veiði sinn tíma, dag eða vikur, í samræmi við eignarhluta sinn. Skal skorið úr um skiptinguna með mati skv. VII. kafla laga þessara náist samkomulag ekki.

9. gr.
Aðskilnaður veiðréttar frá fasteign.

    Ekki má skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu frá fasteign, hvorki fyrir fullt og allt né um tilekinn tíma. Ráðherra getur þó, að fenginni jákvæðri umsögn Landbúnaðarstofnunar, veitt undanþágu frá banni þessu. Á lögbýlum, þar sem stundaður er landbúnaður, skal þess gætt við veitingu undanþágu að aðskilnaður valdi því ekki að torvelt verði eftirleiðis að stunda þar landbúnað. Þá má slíkur aðskilnaður ekki valda hættu á því að fiskstofnar viðkomandi veiðivatns verði ofnýttir.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að skilja stangveiðirétt frá fasteign um tiltekinn tíma, allt að tíu árum. Ef ekki er á annan veg samið felst í slíkri ráðstöfun afsal veiðiréttarhafa á rétti til annarrar veiði en stangveiði á umsömdu tímabili.

10. gr.
Innlausnarréttur.

    Veiðiréttindi ein og sér, sem skilin hafa verið frá fasteign fyrir gildistöku laga þessara, er eigendum fasteigna þeirra sem rétturinn hefði ella fylgt, sbr. 5. gr., rétt að leysa til sín, hverjum á og fyrir sínu landi að fengnu leyfi ráðherra. Áður en afstaða er tekin til slíkrar leyfisveitingar skal leita umsagnar Landbúnaðarstofnunar og viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, hafi veiðifélag ekki verið stofnað.
    Ef hinn fráskildi veiðiréttur liggur um eða fyrir landi fleiri en einnar fasteignar þarf hið minnsta samþykki 3/ 4hluta þeirra er veiðiréttur upphaflega tilheyrði. Um vægi atkvæða fer samkvæmt reglum þeim er gilda um atkvæðisrétt í veiðifélagi eftir því sem við á, í samræmi við fyrirmæli VI. kafla laga þessara.
    Þegar innlausnar er krafist, en þó ekki af hálfu allra þeirra fasteignareigenda er innlausnarrétt eiga, getur eigandi veiðiréttarins krafist þess að þeir landeigendur sem innlausnar krefjast leysi jafnframt til sín veiðirétt þeirra sem ekki vilja innleysa.
    Ef ágreiningur er um verðmæti innleysts veiðiréttar fer um mat skv. VII. kafla laga þessara.
    Ef innlausnar samkvæmt grein þessari er ekki krafist innan fimm ára frá gildistöku laganna fellur innlausnarrétturinn niður.

11. gr.
Ófriðun sels.

    Ef selur er í veiðivatni, ósi þess eða ósasvæði er þeim er veiðirétt eiga samkvæmt lögum þessum heimilt að styggja hann og skjóta.
    Nú fara ekki saman nytjar sellátra og selalagna annars vegar og nýting og viðkoma lax og göngusilungs í veiðivatni hins vegar. Getur Landbúnaðarstofnun þá, að ósk veiðifélags eða veiðiréttarhafa og að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, heimilað eyðingu sellátursins og upptöku allra selalagna í eða við það veiðivatn eða fiskihverfi.
    Ef sannað þykir að aðgerðir þær sem Landbúnaðarstofnun heimilar skv. 2. mgr. hafi í för með sér tjón á fjárhagslegum hagsmunum þeirra er sellátur eiga eða nytja skulu veiðiréttarhafar þeir er aðgerðanna óska bæta tjónið. Bætur skulu ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara.

III. KAFLI
Um veiðistjórn.
12. gr.
Skráning veiðivatna.

    Skrá skal öll veiðivötn og veiðiréttarhafa og annast Landbúnaðarstofnun þá skráningu.
    Við gerð og frágang skrár skv. 1. mgr. skal þess gætt að samræmi sé milli hennar og annarra skráa sem haldnar eru lögum samkvæmt af opinberum aðilum og geyma upplýsingar um eiginleika og eignarhald fasteigna.
    Veiðiréttarhöfum er skylt að veita Landbúnaðarstofnun þær upplýsingar sem hún óskar eftir og nauðsynlegar eru skráningarinnar vegna.
    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um skráningu veiðivatna og þær upplýsingar sem við slíka skráningu skulu liggja fyrir.

13. gr.
Veiðiskýrslur.

    Gera skal skýrslu um veiði í sérhverju veiðivatni og netlögum sjávarjarða og hvílir skylda til skýrslugjafar á handhafa veiðiréttar og sérhverjum þeim er veiði stundar.
    Skýrslugjöf skal vera samræmd fyrir landið allt og í formi sem Landbúnaðarstofnun útbýr og leggur til.
    Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki er veiðifélag, skulu sjá til þess að skýrslur séu gefnar um veiði í sérhverju veiðivatni og að þeim sé skilað til Landbúnaðarstofnunar. Upplýsingar úr skýrslum skulu aðgengilegar Veiðimálastofnun.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um skráningu veiði.

14. gr.
Laxveiðar í sjó.

    Ekki má veiða lax í sjó. Veiðist lax í veiðitæki í sjó skal sleppa honum strax aftur.

15. gr.
Veiðar göngusilungs í sjó.

    Ekki má veiða göngusilung í sjó. Slíkar veiðar eru þó heimilar í netlögum sjávarjarða og skulu þær hlíta sömu reglum og veiði silungs í ósöltu vatni eftir því sem við getur átt.
    Við veiðar göngusilungs í fastar veiðivélar í netlögum einstakra sjávarjarða skal miða við þann netafjölda sem viðkomandi fasteign hafði síðustu fimm ár fyrir gildistöku laga um lax- og silungsveiði, nr. 53/1957. Landbúnaðarstofnun skal halda skrá um framangreindan rétt sjávarjarða til netaveiði í netlögum og sinna eftirliti með þeim veiðum í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert má ekki leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns, sem fiskur gengur í, eða hafbeitarstöðvar en 2.000 metra.
    Ef stangveiði er stunduð í netlögum sjávarjarða á svæðum þeim sem tilgreind eru í 3. mgr. er eiganda sjávarjarðar skylt að hafa fullt samráð við veiðifélög eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag, og eigendur viðkomandi hafbeitarstöðvar.
    Landbúnaðarstofnun er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni veiðifélaga eða veiðiréttarhafa sem hagsmuna eiga að gæta heimilt með reglum að takmarka eða banna á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma veiði silungs samkvæmt grein þessari, ef slíkt er nauðsynlegt, til þess að tryggja fiskigengd í nærliggjandi veiðivötn.
    Ef sannað þykir að takmarkanir skv. 5. mgr. hafi í för með sér tjón á fjárhagslegum hagsmunum eiganda sjávarjarðar skulu þeir bæta honum tjónið sem takmörkunin er til hagsbóta fyrir. Bætur skulu ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara.
    Landbúnaðarstofnun setur nánari reglur um netaveiði göngusilungs í sjó.

16. gr.
Takmarkanir á veiði sjávarfiska.

    Að fenginni heimild sjávarútvegsráðuneytisins getur Landbúnaðarstofnun að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni veiðifélags eða veiðiréttarhafa takmarkað eða bannað veiði sjávarfiska framan við árósa straumvatna ef sýnt þykir að slíkar veiðar geti spillt fiskigengd í viðkomandi veiðivötn eða að slíkt er af öðrum ástæðum nauðsynlegt til verndar fiskstofnum veiðivatnsins. Áður en gripið er til slíkrar takmörkunar eða banns skal leita umsagnar Veiðimálastofnunar.
    Ef sannað þykir að takmarkanir skv. 1. mgr. á veiðum innan netlaga hafi í för með sér tjón á fjárhagslegum hagsmunum tiltekins landeiganda skulu þeir bæta tjónið sem takmörkunin er til hagsbóta fyrir. Bætur skulu ákvarðaðar með mati skv. VII. kafla laga þessara.

17. gr.
Veiðitími lax.

    Laxveiðar eru heimilar á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert, en þó aðeins í níutíu daga innan þess tímabils. Landbúnaðarstofnun er heimilt að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar að lengja veiðitíma í allt að 120 daga og allt til 31. október ár hvert í þeim veiðivötnum þar sem fyrst og fremst er veitt úr stofnum sem viðhaldið er með viðvarandi sleppingu seiða. Þá er Landbúnaðarstofnun, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilt að lengja um allt að fimmtán daga veiðitímabil skv. 1. málsl. í þeim veiðivötnum þar sem öllum laxi er sleppt.
    Á veiðitíma þeim sem um getur í 1. mgr. skal lax vera friðaður fyrir allri veiði a.m.k. 84 stundir í viku hverri. Netaveiði má aldrei stunda frá föstudagskvöldi klukkan 22 til þriðjudagsmorguns klukkan 10.
    Ef lax veiðist á tímabilinu frá 1. apríl og þar til veiðitími skv. 1. mgr. hefst er skylt að sleppa slíkum fiski.
    Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
    Í reglum skv. 4. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
     a.      fjölda veiðidaga skv. 1. mgr.,
     b.      takmarkanir á notkun tiltekinna veiðitækja á ákveðnum tímabilum,
     c.      ákvörðun um daglegan veiðitíma,
     d.      ákvörðun um mörk veiðisvæða.

18. gr.
Veiðitími göngusilungs.

    Veiðar göngusilungs eru heimilar frá 1. apríl til 10. október ár hvert, en í veiðivatni, þar sem megnið af veiðinni er villtur laxastofn, skulu lok veiðitíma miðast við 30. september ár hvert. Þó getur Landbúnaðarstofnun, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað stangveiðar utan þess veiðitíma í veiðivötnum þar sem slíkar veiðar hafa verið stundaðar.
    Á veiðitíma þeim sem um getur í 1. mgr. skal göngusilungur vera friðaður gegn allri veiði 84 stundir í viku hverri. Netaveiði má aldrei stunda frá föstudagskvöldi klukkan 22 til þriðjudagsmorguns klukkan 10.
    Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
    Í reglum skv. 3. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
     a.      fjölda veiðidaga skv. 1. mgr. vegna dorgveiði,
     b.      takmarkanir á notkun tiltekinna veiðitækja á ákveðnum tímabilum,
     c.      ákvörðun um daglegan veiðitíma,
     d.      ákvörðun um mörk veiðisvæða.

19. gr.
Veiðitími vatnasilungs.

    Veiðar á vatnasilungi eru heimilar frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
    Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
    Í reglum skv. 2. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
     a.      alfriðun veiðivatns um tiltekið tímabil,
     b.      tímabundna friðun innan veiðitímabils, t.d. um ákveðinn daga- eða vikufjölda,
     c.      takmarkaðar veiðar til heimilisþarfa á friðunartíma skv. 1. mgr.,
     d.      friðun vatnasilungs á hrygningarstöðvum,
     e.      ákvörðun um mörk veiðisvæða.

20. gr.
Álaveiðar.

    Álaveiðar eru heimilar allt árið. Að álaveiðum skal jafnan þannig staðið að veiðar og gengd lax og silungs spillist eigi.
    Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur. Í slíkum reglum skal m.a. kveðið á um tíma- eða staðbundnar friðanir áls og gerð og frágang heimilla veiðitækja.

21. gr.
Ósaveiðar.

    Eigi má veiða fisk með föstum veiðivélum í ósum í ár eða ósum í stöðuvötn og eigi 100 metra upp frá slíkum ósum eða 250 metra niður frá þeim. Eigi má heldur veiða fisk með föstum veiðivélum í ósum úr stöðuvötnum þeim er lax eða göngusilungur fer um né 50 metra upp eða niður frá slíkum ósum.
    Landbúnaðarstofnun getur, að ósk hlutaðeigandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, bannað eða takmarkað umfram það sem greinir í 1. mgr. alla veiði eða tilteknar veiðiaðferðir, þar með talið stangveiði, upp eða niður frá ósi, enda þyki slíkt nauðsynlegt vegna fiskigengdar og viðhalds veiði í vatninu.
    Bann eða takmörkun veiði skv. 2. mgr. skal vera tímabundin, sé þess kostur. Ef sannað þykir að slíkt bann eða takmörkun valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra skulu þeir veiðiréttarhafar við viðkomandi veiðivatn, sem bannið eða takmörkunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið á grundvelli mats skv. VII. kafla laga þessara.

22. gr.
Gönguhelgi.

    Í straumvatni eða hluta straumvatns þar sem veiði er stunduð með föstum veiðivélum skal fiskur eiga frjálsa för eftir miðju vatni og nefnist þar gönguhelgi.
    Gönguhelgi tekur yfir þriðjung af breidd straumvatns um miðbik og ósasvæði skv. 1. mgr. 21. gr. Þó skal fiskur eiga frjálsa för eftir aðalstraumlínu, þótt skemmra liggi frá bakka en nemur þriðjungi af breidd vatns.
    Nú rennur straumvatn í kvíslum og skal þá haga veiði í hverri kvísl sem hún væri sérstakt vatn.
    Nú greinir menn á um gönguhelgi eða aðalstraumlínu og skal þá skorið úr með mati skv. VII. kafla laga þessara.

23. gr.
Veiðar við fiskvegi.

    Ekki má veiða eða styggja fisk í fiskvegi eða fiskteljara nær neðra mynni þeirra en 30 metrum og ekki nær efra mynni þeirra en 20 metrum. Ekki má spilla fiskvegum eða fiskteljurum eða tálma með nokkrum hætti fiskför að þeim né um þá.

24. gr.
Svæðisbundin friðun lax og göngu- og vatnasilungs.

    Ef nauðsyn ber til að draga úr veiði eða friða heilt vatn eða hluta þess um tiltekinn tíma gegn allri veiði eða takmarka einstakar veiðiaðferðir í vatninu til verndar fiskstofnum þess getur Landbúnaðarstofnun sett reglur um slíka friðun, að fenginni tillögu eða umsögn Veiðimálastofnunar. Áður en slíkar reglur eru settar skal jafnan leita umsagnar viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag.
    Með sömu skilmálum og greinir í 1. mgr. er Landbúnaðarstofnun heimilt að setja reglur um friðun tiltekinna svæða í vatni, þar sem fiskur safnast saman til hrygningar, eða vegna fyrirstöðu á göngu, enda sé það mat Veiðimálastofnunar að veiði á þeim stöðum sé skaðleg fiskstofnum vatnsins.
    Friðun skv. 2. mgr. getur ýmist verið bundin við tiltekinn tíma eða ótímabundin. Ef sannað þykir að bann eða takmörkun valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra skulu þeir veiðiréttarhafar við viðkomandi veiðivatn, sem bannið eða takmörkunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið. Ef eigi semst skal ákveða bætur með mati skv. VII. kafla laga þessara.

25. gr.
Eyðing fisks.

    Ef rétt þykir að eyða fiski eða lagardýrum úr veiðivatni vegna sjúkdóma eða sníkjudýra getur Landbúnaðarstofnun heimilað slíkt. Skal áður aflað umsagnar viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög, Veiðimálastofnunar, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og fisksjúkdómanefndar. Ef nauðsyn ber til skal kveða á um notkun tiltekinna efna við eyðingu fiskstofnsins, með þeim skilyrðum sem þurfa þykir.

26. gr.
Veiðar í klak- og vísindaskyni og merkingar vatnafiska.

    Heimilt er veiðifélögum að veiða lax eða silung til hrognatöku vegna fiskræktar enda liggi fyrir samþykkt fiskræktaráætlun, sbr. lög um fiskrækt. Þá getur Landbúnaðarstofnun heimilað veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, að veiða lax- eða silung til hrognatöku í sama skyni. Eru slíkar veiðar undanþegnar ákvæðum III. og IV. kafla laga þessara en um nánari framkvæmd þeirra fer eftir lögum um fiskrækt.
    Landbúnaðarstofnun getur heimilað þeim er rannsóknir stunda á lífríki ferskvatns veiðar ferskvatnsfiska í vísindaskyni, þar með talið í eignarlöndum. Eru slíkar veiðar undanþegnar ákvæðum III. kafla laga þessara um veiðistjórn og ákvæðum IV. kafla um veiðitæki og veiðiaðferðir.
    Til veiða í vísindaskyni þarf veiðiskírteini sem Landbúnaðarstofnun gefur út á nafn einstaklings, eða stofnunar ef rannsóknir eru stundaðar á hennar vegum. Landbúnaðarstofnun er heimilt að gera ákveðnar kröfur um færni og kunnáttu þeirra sem óska eftir veiðiskírteini. Skal skírteinið gilda tímabundið. Að jafnaði skal tiltekið til hverra veiðivatna rannsókn tekur. Ef sérstaklega stendur á, t.d. þar sem rannsóknir eru stundaðar á landsvísu eða afmörkuðum svæðum landsins, er ekki þörf slíkrar tilgreiningar. Veiðar í vísindaskyni skulu, eftir því sem kostur er, stundaðar í samráði við veiðifélög eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki eru veiðifélög.
    Handhafa veiðiskírteinis er ekki heimilt að hagnýta sér í eigin þágu þann fisk sem veiddur er í vísindaskyni. Veiðiréttarhafa er heimilt að hagnýta sér aflann, en ber að öðru leyti ekki endurgjald vegna slíkrar veiði.
    Landbúnaðarstofnun veitir heimildir til merkinga á vatnafiskum með skilyrðum sem hún setur og heldur gagnabanka um merkingar. Eigendur veiðiréttar og þeir sem veiði stunda skulu skila merkjum til Landbúnaðarstofnunar, í samræmi við reglur sem stofnunin setur.
    Landbúnaðarstofnun getur sett reglur um upprunamerkingu á þeim laxi sem boðinn er til sölu og gert sérstakar kröfur um merkingar á stangveiddum slátruðum laxi sem veiddur er í ám. Landbúnaðarstofnun leggur þá til slík merki, hagsmunaaðilum að kostnaðarlausu.

IV. KAFLI
Um veiðitæki og veiðiaðferðir.
27. gr.
Veiðitæki og veiðiaðferðir í straumvatni.

    Í straumvatni má við veiðar aðeins nota færi, stöng, lagnet og króknet.
    Ekki má í straumvatni veiða fisk með krók eða sting eða í háf. Þó má nota þessi tæki til þess að bjarga á land fiski sem fastur er á öngli eða í neti. Ekki má veiða fisk með því að veita af honum vatni.
    Landbúnaðarstofnun getur, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað veiðifélagi eða veiðiréttarhafa ádráttarveiði á göngusilungi á veiðisvæði sínu. Ádráttarveiði á laxi er einungis heimil í vísindaskyni og til öflunar klakfisks. Landbúnaðarstofnun er einnig heimilt að leyfa veiði með girðingum og kistum þar sem sérstaklega hagar til, enda setji hún með sama skilorði ákvæði um gerð og notkun þessara veiðitækja umfram það sem segir í lögum þessum.
    Ekki er heimilt að stunda samhliða veiði á stöng og veiði með föstum veiðivélum eða ádrætti á sama svæði í straumvatni eða svæði stöðuvatns þar sem göngufiskur fer um.

28. gr.
Fastar veiðivélar í straumvatni.

    Lagnet og króknet skulu liggja frá bakka eða garði er gengur þvert á straum út frá bakka, beint út í straumvatn eða forstreymis. Leiðara má hafa frá krók, og telst hann hluti veiðivélar. Ekki má leggja lagnet svo að af verði gildra, og ekki má nota tvöföld net.
    Á tímabilinu frá 20. maí til 30 september ár hvert mega net þau er í 1. mgr. greinir, á þeim svæðum sem lax gengur um, ekki vera smáriðnari en svo að 4,5 cm séu á milli hnúta, þegar net eru vot, og á sama við um leiðara frá krókneti eða öðrum föstum veiðivélum.
    Veiðifélag setur reglur um gerð og möskvastærð silungsveiðineta á félagssvæði sínu ef ætlunin er að stunda þar netaveiðar á silungi. Slíkar reglur skulu samþykktar af Landbúnaðarstofnun, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar.
    Milli fastra veiðivéla, hvort sem þær eru sömu megin í straumvatni eða ekki, skal jafnan vera hundrað metra bil eftir endilöngu vatni, þar sem skemmst er á milli þeirra. Þó má bil aldrei vera skemmra en fimmföld lengd veiðivéla frá bakka og út á vatn. Til fastrar veiðivélar telst fjarlægð hennar frá bakka straumvatns, svo og leiðari.
    Ekki má fjölga föstum veiðivélum frá því sem var síðustu fimm árin fyrir gildistöku laga nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði. Landbúnaðarstofnun getur þó, ef sérstaklega stendur á, heimilað fjölgun lagna, enda mæli Veiðimálastofnun ekki gegn slíku.
    Ef heimil veiðitæki samkvæmt lögum þessum þykja, að mati Veiðimálastofnunar, stofna viðgangi fiskstofns í veiðivatni í hættu, er Landbúnaðarstofnun heimilt að fækka föstum veiðivélum í því vatni. Skal áður aflað umsagnar viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag.
    Ef sannað þykir að ákvarðanir Landbúnaðarstofnunar skv. 5. mgr. valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra veiðiréttarhafa í sama veiðivatni skulu þeir veiðiréttarhafar, sem ákvörðunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið. Skulu bætur ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

29. gr.
Stangveiði í straumvatni.

    Við veiði með færi og stöng skal nota agn, lifandi eða dautt, sem fiskur eltir og tekur. Aldrei má við slíka veiði nota krækjur eða neitt annað sem festir í fiski honum að óvörum og án þess að hann elti það.
    Veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um stangveiði á veiðisvæði sínu sem gilda skulu í a.m.k. átta ár. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
    Í reglum skv. 2. mgr. skal kveða á um eftirfarandi atriði:
     a.      fjölda stanga sem á má veiða hverju sinni,
     b.      aðra tilhögun veiði sem nauðsynleg þykir.
    Ef ágreiningur rís um skiptingu veiðitíma, veiðistaði eða endurgjald fyrir stangveiði milli veiðiréttarhafa er þeim sem telur sig vanhaldinn heimilt að krefjast mats skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

30. gr.
Veiðitæki og veiðiaðferðir í stöðuvötnum.

    Í stöðuvatni má við veiðar aðeins nota færi, dorg, stöng, lóð, lagnet og ádráttarnet. Í almenningi stöðuvatns er ádráttarveiði þó óheimil.
    Ekki má í stöðuvatni veiða fisk með krók eða sting eða í háf. Þó má nota þessi tæki til þess að bjarga á land fiski sem fastur er á öngli eða í neti.
    Veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiði á veiðisvæði sínu. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal Landbúnaðarstofnun staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur Landbúnaðarstofnun, að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
    Í reglum skv. 3. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
     a.      undanþágu til notkunar annarra veiðitækja en greinir í 1. mgr.,
     b.      fjölda, gerð og notkun þeirra veiðitækja sem leyfð eru,
     c.      lágmarksstærð fisks sem veiða má,
     d.      fjarlægð stangveiði frá föstum veiðivélum,
     e.      undanþágu frá banni við ádrætti í almenningi stöðuvatns.
    Fari lax og göngusilungur um stöðuvatn skulu gilda um það sömu reglur og um straumvötn með tilliti til staðsetningar fastra veiðivéla og gönguhelgi. Að öðru leyti gilda reglur laga þessara um veiði í straumvötnum um veiði í stöðuvötnum eftir því sem við getur átt.

31. gr.
Tæki og aðferðir við veiðar göngusilungs í sjó.

    Veiða má göngusilung í netlögum sjávarjarða á færi, stöng og í lagnet. Við þær veiðar má ekki nota nein þau veiðitæki sem ætluð eru til laxveiða.

32. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um veiðitæki og veiðiaðferðir samkvæmt kafla þessum, þ.m.t. um merkingu fastra veiðivéla.
    Landbúnaðarstofnun getur með reglum heimilað notkun annarra veiðitækja og aðrar veiðiaðferðir en greinir í kafla þessum, enda telji Veiðimálastofnun að slíkt skaði hvorki lífríki vatns, fiskigengd né fiskför.

V. KAFLI
Um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn.
33. gr.
Um heimild til mannvirkjagerðar í veiðivötnum.

    Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Landbúnaðarstofnunar. Um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir fer einnig samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.
    Með umsókn framkvæmdaraðila eða landeiganda til Landbúnaðarstofnunar um leyfi til framkvæmda við ár og vötn skulu fylgja álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Leyfi Landbúnaðarstofnunar skal aflað áður en ráðist er í framkvæmd.
    Ef sérstök ástæða þykir til getur Landbúnaðarstofnun krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Landbúnaðarstofnun getur í slíkum tilvikum kveðið nánar á um til hvaða þátta úttektin skuli ná.
    Kostnaður vegna nauðsynlegra líffræðilegra úttekta skal greiddur af þeim sem óskar eftir leyfi til framkvæmda.

34. gr.
Fiskvegir.

    Landbúnaðarstofnun getur, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, að gera fiskveg eða önnur sambærileg mannvirki í vatni eða meðfram vatni. Þar sem ekki er starfandi veiðifélag þarf ósk um slíkt að koma frá a.m.k. 2/ 3veiðiréttarhafa.
    Ráðherra getur heimilað veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum skv. 1. mgr. að taka eignarnámi land, landsafnot, vatn eða afnot vatns sem með þarf til gerðar, starfrækslu og viðhalds fiskvegar eða annarra sambærilegra mannvirkja. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.
    Með sömu skilyrðum og greinir í 1. mgr. getur Landbúnaðarstofnun heimilað lokun fiskvegar, tímabundið eða ótímabundið.
    Ef sannað þykir að beiting heimilda skv. 1. og 3. mgr. valdi tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra skulu þeir veiðiréttarhafar, sem ákvörðunin er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir, bæta tjónið. Skulu bætur ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

35. gr.
Önnur mannvirkjagerð.

    Ef heimiluð er á grundvelli annarra laga gerð mannvirkis sem tálmar fiskför í eða við veiðivatn er þeim sem heimild fær skylt að kosta gerð og viðhald fullnægjandi fiskvegar samkvæmt ákvæðum 34. gr.
    Skylda til gerðar fiskvegar skv. 1. mgr. er ekki fyrir hendi ef sýnt er fram á með mati skv. VII. kafla laga þessara að gerð fiskvegarins og viðhald hafi til muna meiri kostnað í för með sér en sem nemur tjóni á veiði þeirra veiðiréttarhafa sem land eiga að veiðivatni ofan mannvirkis. Tjón þeirra skal hins vegar sá bæta að fullu er heimild fær til mannvirkjagerðar.
    Ef vatni er veitt úr eða í veiðivatn til áveitu, vatnsveitu, vatnsaflsvirkjana eða annarra nota, sem ekki tengjast veiði eða fiskför, getur Landbúnaðarstofnun sett það skilyrði að svo sé búið um hnútana að fiskur eða fiskseiði gangi ekki í skurði eða leiðslur. Kostnað, er af slíku hlýst, skal sá greiða er á eða hagsbóta nýtur af framkvæmdinni.
    Hafi vatnsmiðlun áhrif á vatnsmagn í veiðivatni skal ávallt haga henni þannig að sem minnst röskun hljótist af fyrir lífríki, fiskför og veiði. Rekstraraðila miðlunar er skylt að hafa samráð við veiðifélag eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag, um vatnsmagnsbreytingar sem fyrirhugaðar eru á hverjum tíma og líklegar eru til að hafa áhrif á fiskför.

36. gr.
Skaðabætur.

    Ef sannað þykir að framkvæmd eða mannvirkjagerð í eða við veiðivatn spilli fiskigengd, lífríki veiðivatns eða öðrum þeim hagsmunum sem verndar njóta samkvæmt lögum þessum og slíkt veldur tilteknum veiðiréttarhafa tjóni, skal sá aðili er að framkvæmd stendur bæta tjónið. Skulu bætur ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga þessara, ef eigi semur.

VI. KAFLI
Um veiðifélög.
37. gr.
Starfsvettvangur veiðifélags og félagsaðild.

    Í því skyni að markmiðum laga þessara skv. 1. gr. verði náð er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Hlutverk slíks félags er m.a. eftirfarandi:
     a.      Að sjá til þess að reglum laga þessara og samþykktum viðkomandi félags um veiðistjórnun og veiðiaðferðir sé framfylgt á félagssvæðinu.
     b.      Að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra.
     c.      Að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra.
     d.      Að ráðstafa rétti til stangveiði í fiskihverfi í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu.
     e.      Að hafa að öðru leyti með höndum verkefni þau sem þeim eru falin í lögunum og varða framkvæmd þeirra.
    Félagsmenn veiðifélags eru allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu skv. 12. gr., en um atkvæðisrétt þeirra fer skv. 40. gr.
    Veiðifélag sem starfar samkvæmt lögum þessum skal taka til allrar veiði í umdæmi félagsins og eftir stofnun þess er öllum óheimilt að veiða í vatni á félagssvæðinu nema samkvæmt heimild frá félaginu.
    Hafi veiðifélag ráðstafað í heild stangveiði á félagssvæði sínu er einstökum félagsmönnum skylt að veita aðgang að veiðistöðum fyrir landi sínu. Ávallt skulu þeir sem aðgengis njóta gæta þess að valda sem minnstri röskun á hagsmunum félagsmanns.
    Ef nýr aðili tekur við veiðirétti skv. II. kafla laga þessara fyrir afsal eða á grundvelli ábúðarsamnings er þeim aðila skylt að gerast félagsmaður í veiðifélagi og taka á sig skuldbindingar fráfarandi félagsmanns.
    Sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyra þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga, og í arðskrárhlutfalli.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um starfsemi veiðifélaga svo sem nánar er kveðið á um í kafla þessum.

38. gr.
Umdæmi veiðifélags.

    Umdæmi veiðifélags getur náð yfir heilt fiskihverfi, einstakt veiðivatn í fiskihverfi, hluta af veiðivatni, þar sem sérstaklega hagar til um veiði eða vatnskosti, eða veiðivötn á afrétti sem eru hluti af einu eða fleiri fiskihverfum og eru á sama landsvæði.
    Landbúnaðarstofnun skal ákveða umdæmi veiðifélags að höfðu samráði við veiðiréttarhafa á væntanlegu félagssvæði.
    Ef veiði hefst fyrir eða á landi fasteignar, sem liggur að fiskihverfi veiðifélags en er utan félagssvæðis, skal sú fasteign tilheyra félagssvæðinu, og er viðkomandi veiðiréttarhafa skylt að gerast félagi.
    Ef félagssvæði er hluti straumvatns skal umdæmi félags ná svo langt upp með vatninu sem veiði er stunduð, nema sérstaklega standi á, t.d. vegna fiskræktar.

39. gr.
Stofnun veiðifélags.

    Þar sem ekki er starfandi veiðifélag fyrir geta einn eða fleiri veiðiréttarhafar átt frumkvæði að stofnun veiðifélags og boðun stofnfundar, en að þeim frátöldum Landbúnaðarstofnun.
    Til stofnfundar skal boða alla þekkta veiðiréttarhafa á fyrirhuguðu félagssvæði, sbr. 12. gr. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um boðun stofnfundar og dagskrá hans. Til annarra funda en stofnfundar í veiðifélagi skal boða með sama hætti.
    Á stofnfundi skal setja veiðifélagi samþykktir sem hafa a.m.k. að geyma ákvæði um:
     a.      nafn félags,
     b.      heimilisfang og varnarþing,
     c.      félagssvæði og skulu þar taldar upp allar þær fasteignir eða einstaklingar og lögaðilar sem veiðiréttindi eiga skv. II. kafla laga þessara,
     d.      verkefni félagsins,
     e.      skipun og starfssvið félagsstjórnar,
     f.      málsmeðferðarreglur, reikninga félags og endurskoðun,
     g.      skyldu til framlagningar fjárhagsáætlunar fyrir komandi starfsár á aðalfundi félags,
     h.      meðferð afla félags eða arðs og greiðslu kostnaðar af starfsemi félags.
Ráðherra skal í reglugerð setja veiðifélögum fyrirmynd að samþykkt í samræmi við efni málsgreinar þessarar.
    Í samþykktum má ákveða að félag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Hver deild ráðstafar þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur.
    Atkvæði 2/ 3hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna þarf til þess að samþykktir séu löglega gerðar eða þeim breytt. Sé fundarsókn ekki næg skal boða til annars fundar með sama hætti og að framan greinir, og ræður þar afl atkvæða.
    Hafi veiðifélag ekki sett sér lögmætar samþykktir, þrátt fyrir ákvæði greinar þessarar, getur Landbúnaðarstofnun sett félagi samþykktir sem gilda þar til lögmætar samþykktir hafa verið settar af félaginu sjálfu.
    Sá er vefengja vill lögmæti stofnaðs veiðifélags getur borið ágreining þar að lútandi undir dómstóla innan sex mánaða frá stofnfundi.
    Samþykkt skv. 3. mgr. skal staðfest af Landbúnaðarstofnun og birt í B-deild Stjórnartíðinda eftir að málskostsfrestur skv. 7. mgr. er liðinn.

40. gr.
Atkvæðisréttur í veiðifélagi.

    Á félagssvæði veiðifélags fylgir eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama gildir um veiðifélag sem einungis tekur til veiðivatna á afréttum í þjóðlendu. Með jörð í framangreindum skilningi er átt við þær jarðir sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976.
    Ef eigendur jarðar eða veiðiréttar eða ábúendur jarðar eru fleiri en einn skulu þeir gera með sér skriflegan samning um það hver fari með atkvæðisréttinn og skal það tilkynnt veiðifélagi með sannanlegum hætti. Hið sama gildir þegar jörð hefur löglega verið skipt í ákveðnum hlutföllum milli eigenda.
    Þegar sameinaðar hafa verið jarðir, sem veiðirétt hafa, fylgir eitt atkvæði hinni sameinuðu jörð.
    Þegar veiðiréttur hefur löglega verið skilinn frá jörð, eða land hefur verið fellt úr tölu jarða með samþykki réttra yfirvalda, skal eitt atkvæði koma fyrir þá jörð eða það land sem veiðirétturinn tilheyrði upphaflega.
    Ef landareign er leigð samkvæmt ábúðarlögum skal ábúandi fara með atkvæðisrétt ábúðarjarðar sinnar, nema á annan veg hafi verið samið, sbr. 3. mgr. 5. gr.
    Félagsmaður má fela öðrum að fara með atkvæði sitt, enda sé umboðið skriflegt og ekki eldra en þriggja mánaða. Geta skal umboðsins í fundargerðarbók.
    Ef lagt er fyrir fund í veiðifélagi að ráðast vegna starfsemi félagsins í framkvæmdir, sem hafa fjárútlát í för með sér er nema a.m.k. 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, getur hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Gildir þá hver eining í arðskrá sem eitt atkvæði. Í samþykktum veiðifélags er heimilt að ákveða að regla þessi um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilgreindum tilvikum sem varða ákvarðanatöku í veiðifélagi.
    Um málefni, sem ekki er sérstaklega kveðið á í lögum eða samþykktum félags, ræður afl atkvæða.

41. gr.
Arðskrá.

    Veiðifélagi er skylt að láta gera skrá er sýni hluta þann af veiði eða arð af veiði sem koma skal í hlut hverrar fasteignar, lögaðila eða einstaklings er veiðirétt á í vatni á félagssvæði.
    Við niðurjöfnun veiði eða úthlutun arðs af henni skal m.a. taka tillit til:
     a.      aðstöðu til netaveiði og stangveiði,
     b.      landlengdar að veiðivatni, vatnsmagns og stærðar vatnsbotns og
     c.      hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks.
    Arðskrá skal leggja fram til samþykktar eða synjunar félagsmanna á löglega boðuðum félagsfundi. Um arðskrá skal greiða atkvæði, og þarf atkvæði 2/ 3hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna til samþykktar henni. Sé fundarsókn ekki næg skal boða til annars fundar með sama hætti og að framan greinir, og ræður þá afl atkvæða.
    Ef arðskrá er ekki samþykkt ber stjórn veiðifélags að óska eftir mati skv. VII. kafla laga þessara um þau atriði sem greinir í 1. mgr. Einnig er sérhverjum félagsmanni rétt að krefjast mats með framangreindum hætti, enda komi sú krafa fram innan tveggja mánaða frá fundi þar sem arðskrá hefur verið samþykkt.
    Arðskrá skv. 1.–4. mgr. skal staðfest af Landbúnaðarstofnun og birt í B-deild Stjórnartíðinda eftir að málskostsfrestur skv. 4. mgr. er liðinn. Tekur hún gildi tveimur mánuðum eftir slíka birtingu. Komi fram krafa um mat gildir eldri arðskrá ef henni er til að dreifa þar til matsgerð skv. VII. kafla laga þessara liggur fyrir og arðskrá á grundvelli hennar hefur verið staðfest og birt.
    Heimilt er veiðifélagi samkvæmt ákvörðun félagsfundar eða stjórnar, svo og einstökum félagsmönnum, að krefjast endurskoðunar á arðskrá átta árum eftir gildistöku hennar.
    Nánari fyrirmæli um arðskrár skal ráðherra setja í reglugerð.

42. gr.
Nánari ákvæði um starfshætti veiðifélags.

    Kostnað af starfsemi veiðifélags skulu félagsmenn greiða í því hlutfalli sem þeir taka arð.
    Félagsstjórn skal senda Landbúnaðarstofnun samþykktir viðkomandi veiðifélags og arðskrá til staðfestingar.
    Skylt er stjórn veiðifélags að gefa Landbúnaðarstofnun skýrslu um starfsemi félagsins og þau atriði önnur sem stofnunin kann að óska eftir og henni eru nauðsynleg við framkvæmd laga þessara.
    Aðalfund veiðifélags skal halda árlega fyrir 1. júní ár hvert og aukafundi eftir þörfum. Boði félagsstjórn ekki til aðalfundar fyrir 1. september ár hvert er þeim sem fund vilja halda heimilt að boða hann. Nánari ákvæði um slíka fundi skal ráðherra setja í reglugerð.

43. gr.
Kæruheimild.

    Nú greinir félagsmenn veiðifélags á um lögmæti ákvörðunar sem tekin hefur verið á fundi veiðifélags eða af félagsstjórn og getur þá hver félagsmaður kært ákvörðunina til Landbúnaðarstofnunar innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun var tekin.
    Landbúnaðarstofnun skal hafa lokið afgreiðslu máls innan tveggja mánaða frá því að kæra barst.
    Reynist hin kærða ákvörðun ólögmæt fellir Landbúnaðarstofnun hana úr gildi. Ákvörðun Landbúnaðarstofnunar samkvæmt þessari grein verður ekki kærð til ráðherra.

VII. KAFLI
Um matsgerðir og skaðabætur.
44. gr.
Skipan matsnefndar o.fl.

    Landbúnaðarráðherra skipar þrjá menn og jafnmarga til vara í matsnefnd til fjögurra ára í senn. Tveir skulu skipaðir að tilnefningu Hæstaréttar Íslands og skulu þeir uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Einn nefndarmaður skal skipaður að tilnefningu stjórnar Landssambands veiðifélaga. Nefndin skiptir með sér störfum. Annar þeirra nefndarmanna sem Hæstiréttur tilnefnir skal vera formaður nefndarinnar.
    Ráðherra er heimilt að framlengja starfstíma matsnefndar um sex mánuði til þess að ljúka þeim málum sem nefndin hafði til meðferðar þegar ráðherra skipar nýja menn í nefndina.
    Heimilt er matsnefndinni að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar ef þörf þykir. Henni er einnig heimilt að leita eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknastofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls.
    Ráðherra ákveður tímagjald matsmanna og starfsmanns nefndarinnar. Laun og annar kostnaður af starfsemi matsnefndar greiðist með fjárveitingum af fjárlögum. Við ákvörðun matskostnaðar skv. 47. gr. skal miðað við að hann standi almennt undir kostnaði af starfsemi matsnefndarinnar.
    Matsnefnd er heimilt að ráða sér starfsmann.

45. gr.
Beiðni um úrskurð eða matsgerð.

    Ef félagsmenn í veiðifélagi greinir á um arðskrá verður ágreiningi þar að lútandi skotið til matsnefndar í samræmi við 4. og 6. mgr. 41. gr.
    Nú greinir menn á hvar um sé að tefla sjó, straumvatn, stöðuvatn, á, ós, ósasvæði, kvísl, ál eða takmörk fiskihverfis og er þá heimilt að bera ágreininginn undir úrskurð matsnefndar.
    Matsnefnd fer að auki með önnur þau verkefni sem henni eru falin lögum samkvæmt.
    Beiðni um úrskurð um ágreiningsefni skal vera skrifleg og skal ágreiningsefnið skýrt afmarkað. Beiðninni skulu fylgja öll nauðsynleg gögn.

46. gr.
Málsmeðferð.

    Matsnefnd skal ákveða fyrirtöku máls með a.m.k. viku fyrirvara með skriflegri tilkynningu til veiðifélags og eigenda veiðiréttar, sem málið beinlínis varðar, í ábyrgðarbréfi, símskeyti eða með öðrum tryggilegum hætti. Matsnefnd getur þess í stað óskað eftir því við hlutaðeigandi veiðifélag að það annist tilkynningu til allra eigenda veiðiréttar um fyrirtöku máls. Ef ekki þykir nægilega ljóst fyrir fram hvaða aðilar eigi beinna hagsmuna að gæta skal birta tilkynningu um fyrirtöku máls í Lögbirtingablaði.
    Við fyrstu fyrirtöku máls skal skorað á aðila að upplýsa hvort þeir geri athugasemdir við hæfi nefndarmanna til meðferðar máls. Þá skal og farið yfir afmörkun ágreiningsefnis sem til úrlausnar er og ákvarðar nefndin það nánar sé ástæða til.
    Um meðferð máls fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga sé ekki á annan veg mælt fyrir í lögum þessum.
    Matsnefnd skal ganga á vettvang að tilkvöddum málsaðilum samkvæmt ákvörðun nefndarinnar.
    Matsnefnd skal í rökstuddum skriflegum úrskurði gera grein fyrir niðurstöðu sinni. Form og efni úrskurðarins skal vera í samræmi við 31. gr. stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Úrskurð skal birta með sama hætti og segir í 1. mgr.

47. gr.
Kostnaður af matsgerð.

    Í úrskurði matsnefndar skal kveðið á um kostnað af meðferð máls og skiptingu hans á aðila og rennur hann í ríkissjóð. Veiðifélag skal að jafnaði bera kostnað af endurskoðun arðskrár.
    Til málskostnaðar telst allur kostnaður af matinu, þ.m.t. laun matsmanna samkvæmt tímaskýrslu og sérfræðinga skv. 3. mgr. 44. gr., ferðakostnaður og annar kostnaður, svo og laun starfsmanns nefndarinnar samkvæmt tímaskýrslu.

48. gr.
Úrskurðir matsnefndar og málshöfðunarfrestur.

    Matsnefnd skv. 1. mgr. 44. gr. er sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda.
    Vilji aðili bera úrskurð nefndarinnar undir dómstóla skal hann höfða mál innan sex mánaða frá því að honum var birtur úrskurður nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar.

49. gr.
Bótaskyld skerðing á veiðirétti.

    Nú hafa lagaákvæði leitt til þess að veiði veiðieiganda skerðist verulega og að mun umfram aðra eigendur veiði í sama fiskihverfi, og á hann þá rétt til bóta úr ríkissjóði eftir mati.
    Nú leiðir ákvörðun veiðifélags um veiði og friðun til þess að veiðieigandi verður að mun öðrum fremur fyrir tjóni og á hann þá rétt til bóta úr hendi annarra veiðieigenda á félagssvæðinu, á meðan sú ákvörðun gildir. Skulu bætur þessar vera árgjald sem ákveðið er með mati, ef ekki semur. Ákveða má þeim er tjón hefur beðið bætur með því að úthluta honum arði í arðskrá. Stjórn veiðifélags er skylt að annast innheimtu bóta á félagssvæðinu.
    Um ákvörðun bótafjárhæðar, greiðslu bóta og endurgjald, er greinir í lögum þessum, skal eftir því sem við á fara eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.

VIII. KAFLI
Refsi- og réttarfarsákvæði.
50. gr.
Um refsingar.

    Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru, ef:
     a.      Hann veiðir án leyfis í vatni annars manns.
     b.      Hann er staðinn að því að vera með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, nema sannað sé að hann hafi átt þar lögmæt erindi.
     c.      Hann veiðir á tíma þegar veiði er bönnuð eða á stöðum þar sem veiði er bönnuð.
     d.      Hann notar veiðitæki eða veiðiaðferðir sem bannað er að nota eða fylgir ekki settum reglum um tilhögun veiðitækja eða um veiðiaðferð.
     e.      Hann veiðir fisk sem er minni en leyft er að veiða eða sleppir ekki veiddum fiski er sleppa skal.
     f.      Hann brýtur ákvæði 1. eða 3. mgr. 27. gr., 28. gr., 1. mgr. 29. gr., 1. eða 2. mgr. 30. gr.
     g.      Hann spillir fiskvegi eða tálmar á ólögmætan hátt fiskför um vatn.
     h.      Hann notar sprengiefni, skotvopn, rafmagn, eitruð efni eða deyfandi eða veitir vatni af fiski við veiði.
     i.      Hann hlítir ekki settum reglum um veiðifélög eða samþykktum þeirra.

51. gr.
Um fullframningarstig brota.

    Brot þau er getur í c-, d- og h-liðum 50. gr. teljast fullframin jafnskjótt og veiðarfæri er komið að veiðistað, nema sannað sé að það hafi verið flutt þangað í lögmætum tilgangi.

52. gr.
Um skaðabótarétt brotaþola.

    Nú veiðir maður án leyfis í vatni annars manns, og skal sá er misgert var við fá allt veiðifang eða andvirði þess auk bóta fyrir annað tjón sem hann kann að hafa orðið fyrir.

53. gr.
Um upptöku veiðitækja og ólöglegs afla.

    Ólögleg veiðitæki og veiðitæki, sem notuð eru með ólöglegum hætti, skulu gerð upptæk. Eins fer um ólöglegt veiðifang, sbr. þó 52. gr.

54. gr.
Um ráðstöfun sektarfjár.

    Sektir samkvæmt lögum þessum og andvirði upptækra veiðitækja renna í ríkissjóð.

55. gr.
Um þátttöku Landhelgisgæslu í löggæslu.

    Landhelgisgæsla Íslands fer með löggæslu samkvæmt lögum þessum á hafinu umhverfis Ísland, jafnt innan sem utan landhelgi að ystu mörkum efnahagslögsögunnar.

56. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Lögregla og Landhelgisgæsla Íslands geta lagt stjórnvaldssekt að fjárhæð 50.000 kr. á skipstjóra eða hvern þann sem veitt hefur lax í sjó og af ásetningi eða gáleysi ekki sleppt honum strax aftur. Ef brot er stórfellt má leggja á hinn brotlega 200.000 kr. stjórnvaldssekt. Sektir samkvæmt þessari grein renna í Landhelgissjóð Íslands.

IX. KAFLI
Gildistaka o.fl.
57. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006.
    Ákvæðum VII. kafla skal einvörðungu beitt um mál sem koma til meðferðar matsnefndar eftir gildistöku laganna. Sé mál endurupptekið eftir gildistöku laga þessara skal beita lögunum um þau mál upp frá því.
    Þau mál sem eru til meðferðar hjá matsmönnum og yfirmatsmönnum skv. 2. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, þegar lög þessi taka gildi, skal til lykta leiða af þessum matsmönnum samkvæmt ákvæðum laga nr. 76/1970, með síðari breytingum.
    Mati skv. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, má skjóta til matsnefndar áður en liðnir eru tveir mánuðir frá birtingu mats.
    Mat skv. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, verður borið undir matsnefnd í samræmi við ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga þessara.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi 1.–22. gr., 24.–61. gr., 85.–89. gr., 1. mgr. 90. gr., 95. og 96. gr. og 101.–110. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

58. gr.
Breyting á lögum nr. 80/2005, um Landbúnaðarstofnun.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Landbúnaðarstofnun skipar eftirlitsmenn með veiði samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði þar sem þurfa þykir enda æski þess veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, og greiði kostnað af eftirlitinu. Á sama hátt skipar Landbúnaðarstofnun eftirlitsmann með klaköflun þar sem þurfa þykir og greiðir viðkomandi klakleyfishafi kostnað sem af þessu leiðir.
    Landbúnaðarstofnun er heimilt að skipa eftirlitsmenn með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt. Kostnaður við störf þeirra greiðist úr ríkissjóði.
    Eftirlitsmenn skulu hafa nákvæmar gætur á því að veiði í umdæmi þeirra sé stunduð með löglegum hætti. Þeir safna skýrslum, m.a. skulu þeir gera skrár um veiðivélar, lagnir og drætti í umdæmum sínum og sjá um merkingu veiðarfæra. Nánari fyrirmæli um starfsemi eftirlitsmanna setur Landbúnaðarstofnun í erindisbréfi.
    Landbúnaðarstofnun gefur út skírteini handa eftirlitsmönnum.
    Eftirlitsmenn skulu eiga frjálsa för um veiðivatn, meðfram því og um netlög í sjó eftir því sem þörf krefur. Þeir hafa vald til að taka upp ólögleg veiðitæki eða veiðitæki sem notuð eru á óleyfilegum tíma eða óleyfilegum stað.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um eldi vatnafiska, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af landbúnaðarráðherra og í henni sitja 10 fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

II.

    Samþykktum einstakra veiðifélaga skal breytt til samræmis við fyrirmæli og reglur laga þessara, í síðasta lagi innan árs frá gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Um aðdragandann að samningu frumvarps þessa.
    Hinn 1. júlí 2001 fól landbúnaðarráðherra þeim dr. jur. Gauki Jörundssyni, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, dr. jur. Páli Hreinssyni, lagaprófessor við Háskóla Íslands, og Ingimari Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, að semja frumvarp til nýrra laga um lax- og silungsveiði, er leysa skyldi af hólmi gildandi lög um sama efni nr. 76/1970, með síðari breytingum. Við fráfall dr. jur. Gauks Jörundssonar voru í hans stað skipaðir til starfans þeir Karl Axelsson, hrl. og lektor, og Þorgeir Örlygsson, dómari við EFTA-dómstólinn, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Stefánsson, héraðsdómslögmaður á Lex-Nestor lögmannsstofu, og Atli Már Ingólfsson, lögfræðingur og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Þá hefur dr. Sigurður Guðjónsson, forstöðumaður Veiðimálastofnunar, verið ráðgjafi við samningu frumvarpsins. Áslaug Björgvinsdóttir, laganemi við Háskólann í Reykjavík, tók saman dómareifanir er fylgja sem fylgiskjal I við frumvarp þetta.
    Unnið hefur verið jafnt og þétt að verkinu frá áramótum 2004/05 með það að markmiði að unnt yrði að leggja fram frumvarp til nýrra lax- og silungsveiðilaga við upphaf haustþings 2005. Í september 2005 var afrakstur af vinnu nefndarinnar kynntur á vef landbúnaðarráðuneytisins og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á því að gera athugasemdir við drög að frumvörpunum. Bárust nefndinni athugasemdir frá 34 aðilum og samtökum. Fór nefndin yfir þær athugasemdir og tók tillit til þeirra eftir því sem efni stóðu til.
    Endurskoðun löggjafar á þessu sviði er umfangsmikið verkefni þar sem gæta þarf fjölþættra hagsmuna og lagaskila. Svo sem rakið verður í næsta kafla (II) er stofn gildandi löggjafar að hluta til frá árinu 1932, þótt ný lög hafi verið sett 1941, 1957 og 1970. Með einstökum lögum hafa síðan verið gerðar fjölmargar breytingar á gildandi stofnlögum á hverjum tíma. Tilraunir til heildarendurskoðunar laganna á síðustu áratugum hafa hins vegar ekki borið árangur.
    Á síðustu árum og áratugum hefur átt sér stað allveruleg endurskoðun, og að sínu leyti samræming, ákvæða íslenskrar löggjafar sem lúta að auðlindum landsins, eignarhaldi þeirra og nýtingu. Má í þessu sambandi nefna lög nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum; lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu; lög nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta; raforkulög, nr. 65/2003, o.fl. Á 131. löggjafarþingi voru jafnframt lögð fram frumvörp til nýrra vatnalaga og laga um jarðrænar auðlindir sem ekki urðu útrædd. Við þá endurskoðun sem fram hefur farið á lögum um lax- og silungsveiði og endurspeglast í frumvarpi þessu hefur nauðsynlegs samræmis verið gætt í þessu tilliti, enda um þá auðlindanýtingu að ræða sem eðlilegt er að meta og stýra í samhengi og samræmi við aðra nýtingu lífrænna og ólífrænna auðlinda landsins.
    Löggjöf um lax- og silungsveiði er í eðli sínu löggjöf um nýtingu auðlindar á því sviði og fellur hún því í sama flokk og löggjöf sú er að framan er talin. Efni frumvarpsins fylgir í öllum aðalatriðum sömu meginsjónarmiðum og fram koma í þeirri auðlindalöggjöf um eignarhald og takmarkanir eignarráða, enda er þar um fyrirkomulag eignarhalds og takmarkanir þess byggt á viðhorfum sem ráðandi hafa verið í íslenskri löggjöf og lagaframkvæmd frá upphafi lagasetningar hér á landi um það efni. Verði frumvarp þetta og fylgifrumvörp þess að lögum má í raun segja að komið sé gott samræmi í íslenska löggjöf um eignarhald og nýtingu þýðingarmestu auðlinda landsins.
    Meginmarkmið frumvarps þessa er hið sama og gildandi laga, þ.e. að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og þær takmarkanir sem sá réttur sætir. Því til viðbótar felur 1. gr. frumvarpsins í sér þá stefnuyfirlýsingu að nýting auðlindarinnar skuli fara fram með skynsamlegum og hagkvæmum hætti þar sem sjálfbær nýting fiskstofnanna er höfð að leiðarljósi. Svo sem nánar verður fjallað um hér síðar var sú leið farin við endurskoðunina að einfalda löggjöfina og gera hana sem skýrasta og markvissasta. Er að því stefnt með þrennum hætti. Í fyrsta lagi eru fjórir þættir eða málaflokkar, sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði, fluttir í sérstök frumvörp og þannig ráðgert að sérlög gildi á þeim sviðum. Í öðru lagi er ráðgert að nánari útfærsla einstakra atriða verði í reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra og reglum settum af Landbúnaðarstofnun. Í þriðja lagi hefur uppbyggingu laganna verið breytt, bæði í því skyni að einfalda, skýra og samræma fyrirkomulag og uppbyggingu laganna viðteknum viðhorfum við lagasmíð í upphafi 21. aldar.
    Staða íslenskra laxfiskstofna er betri en víða annars staðar. Íslendingum hefur tekist að nýta laxveiðiauðlindina betur en öðrum þjóðum. Bæði fæst meiri arður af auðlindinni og ekki hefur verið gengið á auðlindina eins og hjá öðrum þjóðum. Íslenskir laxastofnar standa almennt betur en stofnar víða annars staðar en í heild hefur Atlantshafslaxi hnignað verulega á síðustu áratugum. Svipað má segja um silungsstofna þó að nýting þeirra sé ekki eins mikil og þróuð og laxveiðin. Gott ástand mála er þó ekki sjálfgefið. Vel þarf að halda á málum til að viðhalda þessu góða ástandi og er góður lagarammi afar mikilvægur.
    Stangveiðar eru mjög mikilvægar fyrir land og þjóð. Kannanir sýna að um þriðjungur Íslendinga eða um 60.000 manns á aldrinum 18–75 ára stunda stangveiði árlega. Stangveiði er því vinsæl og mikið stunduð. Þá hefur það verið metið að um 5.000 erlendir veiðimenn leggi leið sína hingað til lands til veiða.
    Laxveiðiframboð er nú um 34.000 stangadagar á ári. Það framboð verður ekki aukið mikið án ræktunaraðgerða. Veiðidagar Íslendinga eru yfir 400.000 á ári svo að ljóst er að margir stunda silungsveiði. Veiðidagar á mann eru færri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.
    Tekjur af veiðinytjum eru mikilvægar. Óbein og afleidd áhrif stangveiða má meta til 7,8–9,1 milljarðs króna á ári. Þar af eru beinar tekjur veiðifélaga 1,0–1,2 milljarðar króna á ári. Milli 1.000 og 1.200 störf eru til vegna stangveiða. Sem dæmi má nefna að stangveiði stendur undir um það bil helmingi atvinnutekna í landbúnaði á Vesturlandi. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Veiðimálastofnunar um efnahagsáhrif stangveiða og stöðu laxastofna á Íslandi.
    Í athugasemdum þessum verður næst vikið að sögulegu yfirliti réttarreglna um lax- og silungsveiði (II); þá verður fjallað sérstaklega um þau sjónarmið sem búa að baki og heimila skylduaðild að veiðifélögum (III); síðan verður nánar vikið að helstu nýmælum og efnisskipan frumvarpsins (IV). Loks eru athugasemdir við einstaka kafla og greinar. Með frumvarpinu eru birt sem fylgiskjöl reifanir allra þeirra hæstaréttardóma sem gengið hafa á þessu réttarsviði og tilvitnuð skýrsla Hagfræðistofnunar og Veiðimálastofnunar.

II. Sögulegt yfirlit réttarreglna um lax- og silungsveiði.
    Í íslenskri löggjöf hafa líklega verið ákvæði um veiði allt frá stofnun Alþingis. Fyrstu skráðu lagaákvæðin í íslenskum rétti um veiði eru í Grágás, lögum hins íslenska þjóðveldis. Þar kom fram meginreglan um einkaveiðirétt landeiganda í landi sínu en hún hljóðaði svo: „Hver maður á að veiða fugla og fiska í sínu landi“, sbr. Konungsbók II, bls. 122 og Staðarhólsbók, bls. 506. Einkaveiðirétti landeiganda voru þó nokkur takmörk sett. Honum var m.a. bannað að þverleggja ár eða þvergirða þær með öðrum hætti, nema hann ætti einn alla ána og þá varð hann í vissum tilvikum að þola veiði annarra manna í landi sínu. Í Jónsbók var byggt á sömu meginreglu og í Grágás um einkarétt landeiganda til veiða í landi sínu. Ákvæðin í Jónsbók um veiði voru í 56. kap. landsleigubálks. Af lestri þeirra ákvæða verður ráðið að þau hafi einkum verið sett til að jafna veiði og koma í veg fyrir yfirgang. Hitt virðist ekki hafa vakað fyrir þeim er lögin settu að fiskur þyrfti friðunar við til að veiðin héldist. Ákvæðin í Jónsbók voru um margar aldir einu fyrirmælin um veiðirétt og veiði hér á landi.
    Það var ekki fyrr en árið 1849 sem ný ákvæði voru sett um veiði hérlendis. Það ár var gefin út tilskipun um veiði á Íslandi en hún fjallaði einkum um dýraveiðar á landi og sela- og hvalveiðar, en tók ekki til veiði í vötnum og ám.
    Er líða tók á 19. öld var farið að stunda laxveiði í meira mæli en áður enda varð nokkur spurn eftir laxi til útflutnings. Deilur og málaferli tóku að spretta út af laxveiðum og ljóst varð að nauðsyn bæri til að sett yrði laxveiðilöggjöf er væri fyllri en hin fábrotnu ákvæði Jónsbókar og svaraði betur breyttum viðhorfum á þessu sviði, m.a. um friðun. Laxafriðun var til meðferðar á Alþingi árið 1867 en ekki varð þó af því að lög yrðu sett um það efni að sinni. Mál þessi voru einnig til meðferðar á Alþingi 1871 og 1873 en það var ekki fyrr en árið 1875 sem Alþingi samþykkti frumvarp er varð að lögum nr. 16/1876, viðaukalög við Jónsbókar landsleigubálks 56. kapitula, um friðun á laxi. Í lögunum voru reglur um friðunartíma lax en hann skyldi friðaður fyrir hvers konar veiði frá 1. september til 20. maí ár hvert. Þá voru í lögunum ákvæði um gerð og umbúnað veiðarfæra sem m.a. lutu að því að óheimilt væri að nota neinar þær veiðiaðferðir eða nein veiðarfæri er tækju smálax. Loks var óheimilt að spilla veiði með því að fæla lax frá því að ganga í ár eða vötn eða „upp að þeim“, eins og tekið var til orða í lögunum.
    Laxafriðun var enn til meðferðar á Alþingi árin 1877, 1879 og 1885. Átti það að verulegu leyti rætur að rekja til ágreinings sem risið hafði á sjöunda áratug aldarinnar um veiðiaðferðir og veiðirétt í Elliðaánum. Spunnust af þessum ágreiningi málaferli sem ekki verða rakin hér.
    Með lögum nr. 5/1886, um friðun á laxi, voru ákvæði 56. kapitula landsleigubálks Jónsbókar endanlega numin úr íslenskum rétti og jafnframt viðaukalögin frá 1876. Í lögunum frá 1886 voru ýmis nýmæli og miðuðu þau í flestum atriðum að aukinni friðun á laxi, nema þau fyrirmæli sem heimiluðu að þvergirða á, ef sú á væri í eigu eins manns. Af öðrum nýmælum má nefna að á veiðitíma var tekin upp friðun um ákveðinn tíma í viku hverri, svonefnd vikufriðun, viss notkun veiðitækja var bönnuð og heimiluð var stofnun veiðifélaga með vissum skilyrðum.
    Árið 1909 voru fyrstu ákvæðin um friðun silungs sett með lögum nr. 55/1909, um samþykktir um friðun silungs og veiðiaðferðir í vötnum. Í lögunum voru þó ekki nein almenn ákvæði um friðun silungs heldur veittu þau heimildir til að gera samþykktir um friðun og veiði silungs ef 3/ 5þeirra manna sem veiði áttu í vatni kröfðust þess. Gátu slíkar samþykktir m.a. haft að geyma ákvæði um friðun á riðasilungi og á riðastöðvum (gotstöðvum) um ákveðinn tíma árs eftir mismunandi staðháttum, friðun á ófullþroska silungi og tilhögun netja og annarra veiðivéla.
    Vatnalög voru sett árið 1923 (lög nr. 15/1923) en þar var að finna ýmis ákvæði er snertu veiði og veiðirétt. Áðurnefnd lög nr. 5/1886, um friðun á laxi, héldu þó áfram gildi sínu að því leyti sem þau vörðuðu laxveiði og selveiði og þá var heldur ekki hróflað við gildi laga nr. 55/1909, sem getið var hér að framan, um samþykktir um friðun silungs og veiðiaðferðir í vötnum. Í XIII. kafla vatnalaganna voru ýmis ákvæði er snertu veiði og veiðirétt. Ákvæði þessa kafla virðast eingöngu hafa átt við fiskveiðar, en t.d. ekki fuglaveiðar. Markverðast var að tekið var upp ákvæði í kaflann sem var hliðstætt banni 4. gr. veiðitilskipunarinnar frá 1849 við því að skilja að „veiðiréttinn og lóðina“, enda talið vafasamt að bannið í tilskipuninni næði til fiskveiði í ám og vötnum. Samkvæmt því ákvæði vatnalaga var bannað að skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti frá landareign. Þetta bann gekk þó skemmra en bannið í veiðitilskipuninni þar sem í vatnalögum var heimilað að skilja veiðirétt frá landareign um tiltekið árabil, þó ekki lengur en 10 ár í senn, nema ráðherra leyfði eða önnur hlunnindi kæmu á móti er væru ekki metin landareigninni minna virði en veiðirétturinn. Fram kom í greinargerð með þessu ákvæði frumvarpsins að fortakslaust bann við aðskilnaði þætti líklega fullhart.
    Árið 1929 voru sett lög um fiskiræktarfélög, nr. 6/1929. Með lögunum var stofnun fiskiræktarfélaga heimiluð. Heimildin var veitt eigendum veiðiréttar í sama fiskihverfi. Til fiskiræktar voru í lögunum taldar hvers konar aðgerðir sem ætla mætti að sköpuðu eða ykju fiskimagn vatna, svo sem klak, innflutningur fiskseiða, friðun á fiski og eyðing sels og annars veiðivargs.
    Fyrstu heildstæðu lögin um lax- og silungsveiði voru sett með lögum nr. 61/1932, en þau lög voru afrakstur starfs nefndar sem atvinnumálaráðherra hafði skipað árið 1929 til þess „að endurskoða öll lagafyrirmæli um veiði í vötnum og ám og að semja frumvarp til nýrra laga um allt það, sem að veiði í vötnum og ám og fiskirækt [lyti]“. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því er að lögum varð var megintilgangur laganna að bæta hlut þeirra er borið höfðu skarðan hlut frá borði við skiptingu veiði úr ám og vötnum og að tryggja veiði til frambúðar með því að koma í veg fyrir ofveiði og rányrkju. Nefndin taldi að það hefðu einkum verið þeir er byggju með ánum ofanverðum sem fram að setningu laganna hefðu haft of litla hlutdeild í veiðinni. Frumvarpið var lagt fram á þingi 1930 og 1931 en varð í hvorugt skipti útrætt. Frumvarpið var samþykkt með nokkrum breytingum á Alþingi 1932 og urðu allharðar deilur á þinginu um ýmis atriði þess.
    Með lögum nr. 61/1932 voru felld úr gildi lög sem áður er getið, þ.e. lög nr. 5/1886, um friðun á laxi, lög nr. 55/1909, um samþykktir um friðun silungs og veiðiaðferðir í vötnum, XIII. kafli vatnalaga, nr. 15/1923, og lög nr. 6/1929, um fiskiræktarfélög. Í lögunum voru gerðar nokkrar breytingar frá fyrra réttarástandi. Hert var á takmörkunum á ráðstöfunarrétti manna yfir veiði frá því sem kveðið var á um í vatnalögum og lýst var hér að framan. Bannað var að skilja veiðirétt að nokkru eða öllu frá landareign hvort heldur var fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma, en undantekningar gerðar sem einkum lutu að heimild landeiganda til að skilja rétt til stangveiði frá landareign um tiltekinn tíma sem þó mátti ekki fara fram úr 10 árum, nema leyfi ráðherra kæmi til og veiðimálanefnd og veiðimálastjóri mæltu með leyfisveitingunni. Þá var fiskræktarfélagi með vissum skilyrðum heimilað að taka veiði leigunámi. Með lögum nr. 61/1932 voru sett ákvæði um innlausnarrétt eigenda landareigna á veiðiréttindum sem skilin höfðu verið frá þeim eignum fyrir gildistöku laganna. Innlausnarréttur sá var bundinn því skilyrði að veiðifélag yrði stofnað til að hagnýta veiðina og að hans yrði neytt innan 5 ára frá gildistöku laganna. Þessi frestur var þrívegis lengdur, síðast til ársloka 1951, en eftir það, með lögum nr. 53/1957, var ákveðið að innlausnarrétturinn skyldi haldast án tímamarks. Með lögum nr. 61/1932 var nokkuð hert á friðunarákvæðum. Þannig var t.a.m. farið inn á þá braut að setja ákvæði sem takmörkuðu veiði á svæðum þar sem veiði var talin hættuleg fiskstofni. Þá var laxveiði í sjó að meginstefnu til bönnuð en silungsveiði heimiluð. Bann var lagt við fiskveiðum í ósum í ár og ósum í stöðuvötn og enn fremur 100 metra upp frá slíkum ósum og 250 metra niður frá þeim. Þó var heimilt að veita undanþágu frá slíku banni, svo sem algengt hefur verið. Í lögunum voru fjölmörg ákvæði er vörðuðu veiðitæki og veiðiaðferðir til að koma í veg fyrir rányrkju, einkum er laut að veiði ungviðis. Sú leið var yfirleitt farin að tiltaka þau veiðitæki sem nota mætti og kveða síðar nánar á um gerð, umbúnað og tilhögun þeirra. Í lögunum var kveðið á um að skylda mætti menn, að vissum skilyrðum uppfylltum, til þátttöku í fiskræktarfélögum. Þá var í lögunum sérstakur kafli um veiðifélög. Var mönnum samkvæmt ákvæðum laganna heimilt að gera með sér félagsskap um veiði í þeim tilgangi, í fyrsta lagi, að félagið sjálft léti stunda veiði, og í öðru lagi, að félagið seldi á leigu rétt til stangveiði. Þegar aukinn meiri hluti manna hafði í samræmi við nánari reglur í lögunum samþykkt félagsstofnun var öllum öðrum skylt að gerast félagar. Samkvæmt lögunum skyldi gera veiðifélagi skrá sem sýndi þann hluta veiði eða arðs af veiði sem koma ætti í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta sem veiðiréttur fylgdi í vatni eða vötnum á félagssvæðinu. Veiði eða arði af henni skyldi jafna eftir veiðimagni eða áætluðu veiðimagni jarðanna og skyldi í því efni hafa hliðsjón af veiðiskýrslum undanfarinna 10 ára, ef til væru. Loks voru í lögum nr. 61/1932 ákvæði um matsgerðir og skaðabætur. Var tekið fram að um ákvörðun bóta og endurgjalds, er greiða ætti samkvæmt lögunum, skyldi matsnefnd fjalla eftir því sem segði í þágildandi lögum um framkvæmd eignarnáms. Virðast lögin hafa verið byggð á þeirri meginstefnu að ekki væri skylt samkvæmt stjórnarskrá að greiða bætur fyrir eignartakmarkanir sem af lögunum leiddi, eða kynni að leiða, aðrar en þær sem lögin beinlínis tóku fram að hefðu bótaskyldu í för með sér.
    Fram til ársins 1940 var lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/1932, breytt sjö sinnum, sjaldnast í meiri háttar atriðum. Þó skal þess getið að með lögum nr. 79/1936 varð veigamikil breyting á afstöðu löggjafans til þeirra eignatakmarkana sem lögin um lax- og silungsveiði, nr. 61/1932, höfðu eða gátu haft í för með sér. Var tekið upp almennt bótaákvæði sem kvað á um að ef veiðieigandi missti með öllu veiði vegna ákvæða í lögum nr. 61/1932 fyrir þá sök að lögin fyrirmunuðu honum að nota þá veiðiaðferð sem hann áður einni mátti við koma skyldi hann eiga kröfu til skaðabóta úr ríkissjóði eftir mati.
    Árið 1941 voru breytingar þær sem gerðar höfðu verið á lax- og silungsveiðilögum frá setningu laga nr. 61/1932 felldar inn í meginmál laganna og lögin gefin út svo breytt í heild sem lög nr. 112/1941. Frá þeim tíma og fram til ársins 1957 var lögunum enn breytt sex sinnum, en ekki í meiri háttar atriðum.
    Árið 1957 voru sett ný heildarlög um lax- og silungsveiði, nr. 53/1957. Almennt má segja að ekki verði séð að til grundvallar lögum nr. 53/1957 hafi legið nein veruleg stefnubreyting miðað við ástæður og tilgang eldri löggjafar. Juku þau lög þó í flestu tilliti mjög á friðun lax og silungs enda var talið að eldri lög hefðu verið orðin ófullnægjandi þar sem til sögunnar hefðu komið betri veiðitæki en áður höfðu þekkst og meiri stund verið lögð á veiðar en áður hefði verið gert ráð fyrir. Hin strangari ákvæði lutu m.a. að friðun fyrir veiði, stangveiði og netaveiði, fjarlægð veiðivéla, stangafjölda í ám og lax- og silungsveiði í sjó. Þannig má sem dæmi nefna, að stangveiðitími var gerður jafnlangur netaveiðitíma eða 3 mánuðir í hverju veiðivatni ár hvert, kveðið var á um að daglegur veiðitími mætti ekki vera lengri en 12 klst. og að stangveiði mætti ekki stunda á þeim stöðum þar sem önnur veiðitæki væru notuð. Öll þessi ákvæði voru nýmæli. Þá var þeim veiðitækjum sem heimilt var að nota í ám fækkað. Loks má nefna að gerðar voru breytingar á ákvæðum um fiskræktarfélög og veiðifélög sem einkum vörðuðu stofnun þeirra félaga, fundarboðun, atkvæðagreiðslur og frest til vefengingar á stofnun félaganna. Að því er varðar veiðifélög sérstaklega var ákvæðum um niðurjöfnun veiði og skiptingu arðs í veiðifélögum breytt. Horfið var frá þeirri reglu, sem var í eldri lögum, að við niðurjöfnun og skiptingu arðs skyldi miðað við veiðireynslu á jörðum tiltekin ár aftur í tímann. Þess í stað var litið til þriggja atriða, þ.e. aðstöðu við netaveiði og stangveiði á jörð, landlengdar jarðar að veiðivatni og hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks á jörð.
    Árið 1970 var samþykkt á Alþingi frumvarp til breytinga á lax- og silungsveiðilögum, nr. 53/1957. Var meginmál hinna fyrrnefndu laga (nr. 38/1970) fellt inn í hin síðarnefndu og gefin út sem lög nr. 76/1970. Þau lög eru að stofni til enn gildandi lög hérlendis um lax- og silungsveiði. Þeim hefur þó alloft verið breytt, eins og síðar verður rakið, þó ekki í grundvallaratriðum. Með lögum nr. 38/1970 var ýmsum ákvæðum breytt til skýringar frá eldri lögum eða í samræmi við breytta hætti. Þá var þar að finna nokkrar nýjungar. Þannig var sett inn ákvæði sem heimilaði að stytta vikufriðunartíma vegna annarrar veiði en stangveiði úr 80 í 60 klst. ef engin hætta var á, að dómi veiðimálstjóra, veiðimálanefndar og hlutaðeigandi veiðifélags, að um þverrandi fiskstofn væri að tefla á viðkomandi veiðisvæði. Að sama skapi var heimilt að lengja friðunartímann um allt að 24 klst. væri talin hætta á þverrandi fiskstofni í fiskihverfinu. Þá voru reistar skorður við því að tekin væru í notkun net úr nýjum efnum eða úr efnum sem fullkomnuð höfðu verið í framleiðslu sem veiðiútbúnaður. Aðrar helstu nýjungar sem komu inn með lögum nr. 38/1970 lutu að breytingum á félagslegu skipulagi veiðimála. Þannig voru fiskiræktarfélög lögð niður enda höfðu þau ekki náð þeirri hylli og útbreiðslu sem vænst var þegar ákvæði um þau voru leidd í lög. Þá voru veiðifélög gerð að skylduaðildarfélögum. Samkvæmt því skyldu veiðifélög starfa við öll fiskihverfi landsins, m.a. á afréttum, þar sem slík félög gátu náð yfir fleiri en eitt fiskihverfi eftir aðstæðum. Var þannig ætlun löggjafans að breyta því fyrirkomulagi að veiðifélög störfuðu við sum fiskihverfi en ekki önnur enda var stjórn og rekstur veiðimála í góðu lagi þar sem veiðifélög störfuðu. Þá var með lögunum stofnaður Fiskræktarsjóður sem hafði það hlutverk að efla fiskrækt og fiskeldi í landinu með beinum styrkjum og lánum. Loks má nefna að með lögunum voru viðurlög við brotum á þeim hert verulega, enda hafði ásókn manna í ólöglegar lax- og silungsveiðar aukist árin á undan.
    Eins og að framan var rakið hefur gildandi lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, verið breytt alloft frá árinu 1970, einkum hin síðari ár, og verða hér helstu breytingar raktar.
    Með lögum nr. 63/1994 voru fjölmörg ákvæði laganna endurskoðuð þar eð ýmislegt hafði gerst á sviði veiðimála frá gildistöku eldri laga sem kallaði á breytt lagaákvæði og ný ákvæði. Tekið var þó fram í frumvarpi því er að lögum varð að hér væri ekki um heildarendurskoðun þeirra að ræða. Helsta breytingin með lögum nr. 63/1994 laut að því að sett voru inn í lögin almenn og nauðsynleg ákvæði um fiskeldi og hafbeit en sú atvinnugrein hafði þá í auknum mæli rutt sér til rúms. Þá voru nokkrar breytingar gerðar á ákvæðum laganna um friðun lax og silungs, sum í átt til rýmkunar. Þannig var árlegur veiðitími lengdur úr 3 mánuðum í 3½ mánuð og lok árlegrar veiði færð aftur um 10 daga, frá 20. september til 30. september. Þá voru ákvæði laganna um hvenær sólarhrings mætti veiða rýmkuð þannig að kveðið var á um að veiði gæti staðið allt til 3 eftir miðnætti. Ekki var þó hróflað við því að stangveiði mætti ekki standa lengur en 12 klst. á sólarhring. Önnur ákvæði laganna voru í átt til takmörkunar, m.a. var lögfest heimild fyrir ráðherra til að friða viss svæði í sjó í námunda við laxveiðiár þar sem miklar laxagöngur færu um á leið sinni í þær. Loks var lögfest heimild til að friða vatnasilung fyrir allri veiði.
    Með lögum nr. 50/1998 voru gerðar breytingar á lögum nr. 76/1970 sem lutu einkum að þrennu. Stjórnsýsluverkefni voru flutt frá landbúnaðarráðherra til veiðimálastjóra, lagaákvæði er vörðuðu verndun og viðhald náttúrulegra stofna laxfiska voru treyst og Fiskræktarsjóður efldur.
    Með lögum nr. 83/2001 voru sett skýrari og ítarlegri ákvæði í þann kafla laga nr. 76/1970 er fjallaði um fiskeldi og hafbeit, þar eð þágildandi löggjöf var talin fábrotin og ekki veita stjórnvöldum nóg svigrúm til að hafa úrslitaáhrif á mótun og starfsemi atvinnugreinarinnar.
    Ekki verður í þessu sögulega yfirliti getið annarra minni háttar breytinga sem gerðar hafa verið á lögum nr. 76/1970 frá gildistöku þeirra laga.

III. Um skylduaðild að veiðifélögum.
    Ákvæði um skilyrðislausa skyldu manna til að gera með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi kom fyrst inn í lög um lax- og silungsveiði með lögum nr. 38/1970. Fyrir þann tíma, eða allt frá gildistöku laga nr. 5/1886, um friðun á laxi, var valkvætt hvort stofnuð væru slík veiðifélög, en með lögum nr. 61/1932 voru sett ákvæði um að ef slík félög væru á annað borð stofnuð, en til þess þurfti samþykki aukins meiri hluta þeirra sem á stofnfund mættu, væri öllum öðrum ábúendum á hinu fyrirhugaða félagssvæði skylt að gerast félagar í þeim.
    Hin skilyrðislausa skylda manna til að gera með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi var rökstudd með svofelldum hætti í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/1970:
    „Ætlast er [...] til, að veiðifélög verði starfandi samkvæmt lögum við öll fiskihverfi landsins, m.a. á afréttum, þar sem slík félög geti náð yfir fleiri en eitt fiskihverfi eftir aðstæðum. Er fyrirhugað að breyta þeirri tilhögun, sem nú er, þ.e. að veiðifélög starfi við sum fiskihverfi og eigi við önnur, enda er stjórn og rekstur veiðimála í góðu lagi, þar sem veiðifélögin starfa, til mikils gagns og hagsbóta fyrir veiðibændur. En þar sem veiðifélög eru eigi starfandi, er skipulagsleysi ríkjandi og fiskrækt vart hugsanleg vegna skorts á samstarfi. Er slíkt ástand til vandræða fyrir menn almennt við einstök fiskihverfi, þó að einstakir veiðibændur kunni að koma ár sinni vel fyrir borð vegna skipulagsleysis. Í nágrannalöndum hefur skipulag á stjórn veiðimála við fiskihverfi eða stærri félagsheildir þegar verið bundið í lögum.“ (Alþt. 1968–1969, A-deild, bls. 1606–1607.)
    Ákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 12. gr. laga nr. 97/1995, hefur að geyma ákvæði um félagafrelsi. Þar er í 1. mgr. kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að sækja um leyfi til þess. Í 1. málsl. 2. mgr. er rétturinn til að standa utan félaga verndaður, en þar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi. Í 2. málsl. 2. mgr. er að finna undantekningar frá þeirri meginreglu en þar segir að með lögum megi kveða á um skyldu til aðildar að félagi ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Ákvæði þessi komu inn í stjórnarskrána með 12. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, með síðari breytingum. Í athugasemdum með 12. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum, nr. 97/1995, komu fram þau rök fyrir skylduaðild vegna réttinda annarra að við ákveðnar aðstæður gætu tengsl á milli hagsmuna manna orðið svo náin að nauðsynlegt þætti að leggja þá skyldu á þá að virða hagsmuni hvor eða hver annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni. Eru veiðifélög tekin sem dæmi um þessa aðstöðu í frumvarpinu og tekið fram að í slíkum félögum sé eigendum veiðiréttar gert að standa að sameiginlegu félagi vegna þeirra nánu tengsla sem eru á milli hagsmuna þeirra (sbr. Alþt. 1994–1995, A-deild, bls. 2108).
    Heimildir löggjafans til að mæla fyrir um skylduaðild að veiðifélögum skv. VI. kafla frumvarps þessa helgast því, með vísan til framangreinds, af 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum sem það ákvæði er byggt á.
    Rétturinn til að standa utan félaga er ekki berum orðum varinn í 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í dómaframkvæmd hefur Mannréttindadómstóll Evrópu þó komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið verndi þann rétt, þótt ekki hafi hann með skýrum hætti tekið afstöðu til þess hvort sá réttur njóti verndar í sama mæli og rétturinn til að stofna og starfrækja félög, sbr. t.d. dóm dómstólsins í máli Sigurðar Sigurjónssonar gegn Íslandi frá 30. júní 1993. Af þessu leiðir, skv. 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans, að uppfylla þarf tiltekin skilyrði til að rétturinn til að standa utan félaga verði takmarkaður. Um skylduaðild að félagi þarf þannig að mæla fyrir í lögum. Hún þarf að vera í þágu lögmætra markmiða, þ.e. vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Loks má skylduaðildin ekki ganga lengra en nauðsyn ber til í lýðræðisþjóðfélagi.
    Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi frá 29. apríl 1999 reyndi m.a. á hvort fyrirkomulag það sem var við lýði á sumum svæðum í Frakklandi og kvað á um skylduaðild landeigenda jarða af tiltekinni stærð að félögum um villidýraveiði og flutning veiðiréttar þeirra landeigenda til veiðifélaganna stæðist 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hlutverk félaganna var samkvæmt lögum þeim sem um þau giltu að stuðla að uppbyggingu villibráðarstofna og eyðingu rándýra og hindra veiðiþjófnað á félagssvæði. Kærendur höfðu tekið yfirlýsta afstöðu gegn veiðum og stunduðu náttúruvernd. Töldu kærendur m.a. af þeim ástæðum að skylduaðildin bryti í bága við 11. gr. mannréttindasáttmálans. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að franska ríkið hefði brotið gegn 11. gr. mannréttindasáttmálans á þeim forsendum að enda þótt kveðið væri á um skylduaðildina í lögum og að hún þjónaði lögmætu markmiði, þ.e. að vernda réttindi og frelsi annarra, gæti hún ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í rökstuðningi sínum benti dómstóllinn á nokkur atriði niðurstöðu sinni til stuðnings. Hér skal í fyrsta lagi nefnt að dómstóllinn taldi að líta yrði til þess að kærendur væru andsnúnir veiðum af siðferðilegum ástæðum og að þær ástæður byggðust á skoðunum sem væru virtar í lýðræðisríkjum. Í öðru lagi benti dómstóllinn á að hin umdeildu lög næðu aðeins til hluta landeigenda. Þannig næðu lögin ekki til tiltekinna opinberra aðila sem ættu land. Þá væri skylduaðildin aðeins við lýði í fjórðungi sveitarfélaga auk þess sem hún ætti aðeins við um eigendur landareigna undir ákveðinni stærð. Meðal annars með vísan til ofangreindra atriða taldi dómstóllinn að franska ríkið hefði gengið lengra en því var heimilt til að ná því markmiði sem stefnt var að og féllst á að brotið hefði verið gegn 11. gr. mannréttindasáttmálans í þessu tilviki.
    Rétt er að víkja að hinu íslenska fyrirkomulagi á skylduaðild að veiðifélögum á grundvelli lax- og silungsveiðilaga andspænis 11. gr. mannréttindasáttmálans og ofangreindum dómi Mannréttindadómstólsins. Fyrst skal á það bent að tilgangur skylduaðildar að veiðifélögum hérlendis er skv. 37. gr. frumvarps þessa sá að stuðla að því að markmið laganna náist, en þau markmið eru skv. 1. gr. frumvarpsins að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Áður en kveðið var á um skylduaðild að veiðifélögum með lögum nr. 76/1970 sýndi það sig, eins og áður segir, að þar sem veiðifélög voru ekki starfandi var skipulagsleysi ríkjandi og fiskrækt vart hugsanleg vegna skorts á samstarfi. Þá gat slíkt ástand leitt til þess að einstakir veiðibændur kæmu ár sinni vel fyrir borð vegna skipulagsleysis á kostnað annarra. Skylduaðildin þjónar af þessum sökum því markmiði að vernda réttindi annarra í skilningi 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans, þ.e. eignarréttindi.
    Þegar því er svarað hvort hið íslenska fyrirkomulag sé nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi í skilningi 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans er að einhverju marki unnt að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu um það efni í dómi Mannréttindadómstólsins í máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi. Nauðsynlegt er þó þegar að benda á þann grundvallarmun þessara tilvika að sá dómur laut að skylduaðild að félagi um veiði villtra landdýra, eins og að framan greinir. Eðli slíkra dýra annars vegar og vatnafiska hins vegar, sem um er að tefla í frumvarpi þessu, er gjörólíkt. Fiskur lifir í vatni, þ.e. ám og sjó, með þeim takmörkunum sem af því leiðir fyrir ferðir hans, og kemst því ekki yfir sambærileg landsvæði og landdýrin geta á láði og sum í lofti. Nýting eins veiðiréttarhafa, t.d. að laxveiðiá, þar sem villtur stofn fer um hefur því allt önnur og meiri áhrif á sambærilega nýtingarmöguleika annars veiðiréttarhafa við sama veiðivatn heldur en nýting fleiri fasteignaeigenda á stofnum landdýra sem á og um land þeirra fara. Á Íslandi er ekki skylduaðild að félögum um veiði landdýra og umræða í þá veru óþekkt, enda engin marktæk efnisleg rök sem knýja á um slíka skylduaðild. Líta verður til þessarar staðreyndar þegar dómur í máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi er skoðaður andspænis skylduaðildarfyrirkomulagi lax- og silungsveiðilaga. Þá verður jafnframt að horfa til þess að lagafrumvarp þetta gerir, líkt og gildandi lög um lax- og silungsveiði, öllum veiðiréttarhöfum hérlendis skylt að vera aðilar að veiðifélagi, að því gefnu að þeir séu tveir eða fleiri í tilteknu fiskihverfi. Í því sambandi skiptir engu máli hvort um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila, hvar á landinu veiðiréttarhafar eru búsettir eða hver stærð landareigna er. Skyldan er þannig skilyrðislaus öndvert við aðstöðuna í máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi þar sem ákveðin sjónarmið, þ.e. eiginleikar veiðiréttarhafa og lega og stærð landareignar, réðu því hvort aðilar voru skyldaðir til aðildar að veiðifélagi. Loks skal á það bent að ekki er kunnugt um það hérlendis að einstakir veiðiréttarhafar hafi mótmælt skylduaðild að veiðifélögum á þeim grundvelli að þeir séu alfarið andsnúnir veiðum af siðferðilegum ástæðum. Unnt er að fullyrða að allur meginþorri fólks er hlynntur því að fiskstofnar í ferskvatni hér á landi séu verndaðir og nýttir á skynsamlegan, hagkvæman og sjálfbæran hátt, eins og markmiðsyfirlýsing lagafrumvarps þessa hljóðar. Kæmi sú staða hins vegar upp hérlendis að einstakur veiðiréttarhafi teldi sig alfarið andsnúinn veiðum af siðferðilegum ástæðum er sjálfstætt álitamál hvort sú skylda sem á honum hvíldi að vera aðili að veiðifélagi á grundvelli lax- og silungsveiðilaga bryti gegn rétti hans til að standa utan félaga í skilningi 11. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. 9. og 10. gr. sáttmálans. Er ekkert unnt að fullyrða um hver afstaða Mannréttindadómstólsins yrði til þessa atriðis. Þó er unnt að fullyrða, með vísan til alls þess sem að framan greinir, að í langflestum tilvikum stenst fyrirkomulag það sem hér er við lýði um skylduaðild veiðiréttarhafa að veiðifélögum 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við það sem að framan er rakið bætist að með frumvarpi þessu er ætlunin að auka enn frekar en nú er réttaröryggi einstakra félagsmanna í veiðifélögum. Er það m.a. gert með því að fjölga þeim atriðum sem veiðifélögum er gert skylt að taka upp í samþykktir sínar með það að markmiði að gera rekstur og ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélaga skýrari og skilvirkari.

IV. Um helstu nýmæli og efnisskipan frumvarpsins.
1.    Um helstu nýmæli í frumvarpi þessu.
    Að því var vikið hér að framan að við endurskoðun gildandi lax- og silungsveiðilaga væri óhjákvæmilegt að gera framsetningu nýrra laga sem einfaldasta og skýrasta og þau þannig aðgengilegri þeim sem með þau sýsla og hagsmuni sína eiga undir framkvæmd þeirra. Í þessu sambandi hafa þrír þættir verið nefndir: Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði sérstök lög um fjóra málaflokka, sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði, í öðru lagi er ráðgert að nánari útfærslu einstakra atriða verði fyrirkomið í reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra sem og reglum Landbúnaðarstofnunar og loks hefur í þriðja lagi uppbyggingu laganna verið breytt til þess að gera þau einfaldari og skýrari. Má sem dæmi um það nefna að við framsetningu efnisreglna frumvarpsins er yfirleitt greint á milli þeirra reglna sem gilda um lax annars vegar og silung hins vegar, enda reglurnar oft ólíkar.
    Þeir fjórir málaflokkar sem betur þykir fara á að um gildi sérstök lög eru í fyrsta lagi ákvæði um Veiðimálastofnun og stjórnsýslu hennar, sbr. sérstakt frumvarp þar að lútandi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Er þetta í takt við þær venjur sem tíðkast hafa í lagasetningu hin síðari ár. Þykir ekki heppilegt að hafa ákvæði um starfshætti slíkrar rannsóknastofnunar í lögum sem fyrst og fremst lúta að eignarhaldi og stjórn á nýtingu auðlindarinnar. Er það einnig til mikillar einföldunar fyrir alla þá sem starfa eiga eftir lögunum. Í öðru lagi er lagt til að ákvæði gildandi laga sem lúta að fiskrækt, þ.m.t. ákvæði um fiskræktaráætlun og Fiskræktarsjóð, verði í sérstökum lögum, sbr. sérstakt frumvarp til laga um fiskrækt sem ráðgert er að lagt verði fram samhliða þessu frumvarpi. Í 2. gr. þess frumvarps er um gildissvið tekið fram að lögin muni taka til allrar fiskræktar sem fram fer á íslensku forráðasvæði, en að teknu tilliti til ákvæða lax- og silungsveiðilaga, sem og annarra sérlaga sem lúta að friðun, viðgangi og veiðum ferskvatnsfisks. Er með þessu minnt rækilega á það órjúfanlega samhengi og samræmi sem er á milli nýtingar veiðiréttar og fiskræktar, þótt af lagatæknilegum ástæðum fari betur á því að skipa þessu efni í tvenn lög. Það breytir hins vegar engu um það að eftir sem áður verður framkvæmd beggja laganna með samræmdum hætti. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæðum sem lúta að fiskeldi verði fyrirkomið í sérlögum, sbr. framkomið frumvarp þar um. Með sama hætti og við á um fiskrækt er þó ráðgert að lög þar að lútandi verði í öllum tilvikum skýrð til samræmis við og í samhengi við ákvæði þessa frumvarps verði það að lögum. Loks er í fjórða lagi ráðgert að í sérlög verði flutt öll þau ákvæði gildandi laga sem lúta að vörnum gegn fisksjúkdómum, innflutningi á lifandi fiski, hrognum o.fl. Eiga sambærileg rök við um þá tilhögun og tilflutning ákvæða um Veiðimálastofnun í sérlög, sbr. hér að framan.
    Til þess að benda sem skýrast á nauðsynlegt samhengi umræddrar löggjafar eru, sem fyrr segir, frumvörp sem lúta að þessum fjórum málaflokkum lögð fram samhliða frumvarpi þessu og ráðgert að þau öll og málaflokkurinn í heild fái þannig samræmda þinglega meðferð og afgreiðslu. Í því samhengi er rétt að benda á að lög um lax- og silungsveiði verða eins konar þungamiðja þessarar lagasetningar, en hin frumvörpin þrjú koma þar til fyllingar og stuðnings, þótt þau samkvæmt efni sínu séu sérstök frumvörp.
    Aðstæður og staðhættir við nýtingu ferskvatnsfiskstofna eru mismunandi frá einum stað til annars og frá einum tíma til annars. Því þykir það horfa til mikils hagræðis og veita jafnframt nauðsynlegt svigrúm að samkvæmt frumvarpinu er ráðgert að nánari og sértæk útfærsla einstakra þátta fari fram á grundvelli reglugerða og svæðis- og tímabundinna reglna Landbúnaðarstofnunar. Í velflestum tilvikum er gert ráð fyrir aðkomu viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa og Veiðimálastofnunar. Heimildir hér að lútandi taka fyrst og fremst til útfærslu þeirra þátta sem eru í III. og IV. kafla frumvarpsins og varða veiðistjórnun, veiðitæki og veiðiaðferð, en ákvæði í þessa veru eru nú í III., IV., V. og VI. kafla gildandi laga.
    Lög um lax- og silungsveiði bera þess merki að þau eru að stofni til frá ýmsum tímum. Þykja mörg þau ákvæði, sem í gildandi lögum er skipað saman, jafnvel innan einstakra greina, ekki eiga neitt sameiginlegt efnislega. Hefur köflum verið fækkað verulega frá gildandi lögum, einstök ákvæði færð til eftir efni þeirra og önnur felld niður. Til glöggvunar ber nú hver grein jafnframt sérstakt heiti sem ætlað er að vísa til megininntaks hennar og þýðingar.
    Helstu nýmæli frumvarps þessa eru að öðru leyti þessi:
          Í lögin eru tekin upp ákvæði um markmið og gildissvið.
          Allri stjórnsýslu samkvæmt lögunum er breytt, m.a. með tilkomu Landbúnaðarstofnunar, sbr. lög nr. 80/2005, um Landbúnaðarstofnun, sem leysir embætti veiðimálastjóra af hólmi. Þá er veiðimálanefnd lögð niður.
          Greinarmunur verður nú gerður á veiði í eignarlöndum annars vegar og í þjóðlendum hins vegar, sbr. lögtaka þjóðlendulaga, nr. 58/1998.
          Réttur til innlausnar verður bundinn þeim tímatakmörkunum að hafi innlausn ekki farið fram innan fimm ára frá gildistöku laganna fellur slíkur réttur endanlega niður í eitt skipti fyrir öll.
          Öll ákvæði um veiðistjórn eru nú sameinuð í III. kafla frumvarpsins, þeim skipað saman að nýju, fækkað og þau skýrð.
          Lagt er til að veiðitími á laxi verði styttur úr þremur og hálfum mánuði í 90 daga.
          Veiðifélögum, í samráði við Landbúnaðarstofnun og Veiðimálastofnun, er ætlað meira ákvörðunarvald um daglegan veiðitíma, en gætt skal meginreglu um 84 stunda vikufriðun.
          Sú breyting er gerð að ósaveiði á stöng verður nú almennt heimiluð, þótt Landbúnaðarstofnun geti, að ósk veiðifélags eða veiðiréttarhafa, bannað eða takmarkað frekar slíka veiði. Ósaveiði í net og aðrar fastar veiðivélar verður þó áfram bönnuð.
          Öll ákvæði um veiðitæki og veiðiaðferðir eru nú sameinuð í IV. kafla frumvarpsins, þeim skipað saman að nýju, fækkað og þau skýrð. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að veiðar verði framvegis lítið stundaðar á önnur veiðitæki en færi, stöng, lagnet og króknet.
          Reglum um gerð fiskvega er breytt á þá lund að nú er gert ráð fyrir að fiskvegum verði lokað um lengri eða skemmri tíma, samþykki aukinn meiri hluti innan veiðifélags slíkt að fenginni heimild Landbúnaðarstofnunar.
          Reglur um mannvirkjagerð í veiðivötnum eru hertar og gert ráð fyrir því að öll mannvirkjagerð eða rask við veiðivatn, sem áhrif getur haft á fiskigengd, skuli háð umsögn starfandi veiðifélags. Þá er tekin upp sérstök bótaregla í frumvarpið af þessu tilefni.
          Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ákvarðanir félagsfundar eða félagsstjórnar veiðifélags verði kærðar til Landbúnaðarstofnunar sem fellt getur þær úr gildi standi lög til slíks.
          Þau atriði sem veiðifélögum er gert skylt að taka upp í samþykktir sínar er fjölgað með það að markmiði að gera rekstur og ákvarðanatöku í veiðifélögum skýrari og skilvirkari og tryggja eftir föngum réttaröryggi einstakra félagsmanna sem sæta þurfa skylduaðild.
          Gert er ráð fyrir nokkuð breyttri tilhögun atkvæðisréttar á félagsfundum veiðifélags. Meginreglan verður sú að hverri jörð sem taldist lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976, fylgir eitt atkvæði. Sú undantekning er hins vegar gerð að ef lagt er fyrir fund í veiðifélagi að ráðast í framkvæmdir vegna starfsemi félagsins sem hafa fjárútlát í för með sér, sem nema a.m.k. 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, geti hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Þá er heimilað að ákveða í samþykktum veiðifélags að regla þessi um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilvikum sem varða ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélags.
          Matsreglum og reglum um ákvörðun skaðabóta skv. VII. kafla frumvarpsins er breytt og skiptir þar mestu máli að allt matsferli er mjög einfaldað og eingöngu gert ráð fyrir einu matsstigi. Matsnefndinni er ætlað að annast í öllum tilvikum það mat sem fram skal fara á grundvelli frumvarpsins verði það að lögum. Mati eða úrskurðum matsnefndar verður ekki skotið til yfirmats en þetta verður að sjálfsögðu borið undir dómstóla með hefðbundnum hætti.
          Loks er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir tímabundnu starfi samráðsnefndar um framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt, laga um eldi vatnafiska og laga um varnir gegn fisksjúkdómum, sbr. frumvörp þar að lútandi sem lögð eru fram samhliða frumvarpi þessu.
    Um aðrar breytingar og athugasemdir við einstaka kafla og greinar vísast nánar til athugasemda þar að lútandi hér á eftir.

2.     Um efnisskipan og kaflaskiptingu í frumvarpi þessu.
    Kaflaskipan frumvarpsins er með eftirfarandi hætti:
     1.      Markmið og gildissvið.
     2.      Um veiðirétt.
     3.      Um veiðistjórn.
     4.      Um veiðitæki og veiðiaðferðir.
     5.      Um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn.
     6.      Um veiðifélög.
     7.      Um matsgerðir og skaðabætur.
     8.      Refsiákvæði og réttarfars.
     9.      Gildistaka.
    Er skipting þessi í góðu samræmi við viðtekna uppbyggingu auðlindalöggjafar og horfir til mikillar einföldunar miðað við kaflaskipan gildandi laga sem vissulega er, svo sem fyrr segir, barn síns tíma, þótt um margt hafi þau reynst vel.

    Hér fara á eftir athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins. Er um hefðbundna efnisskipan að ræða en einstakar athugasemdir að nokkuð ítarlegar enda óhjákvæmilegt að rekja nokkuð nákvæmlega uppruna einstakra greina og samsvörun þeirra í gildandi lögum.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í I. kafla eru hefðbundin ákvæði um markmið og gildissvið laganna, sbr. 1. og 2. gr. Þá eru í 3. gr. ítarlegar orðskýringar, en í 4. gr. er mælt fyrir um fyrirkomulag stjórnsýslu samkvæmt lögunum.

Um 1. gr.

    Svo sem fram kemur í almennum athugasemdum frumvarpsins er markmið þess að mæla fyrir um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og þær takmarkanir sem sá réttur sætir. Þá er og það markmið löggjafarinnar sérstaklega áréttað að stuðla skuli að skynsamlegri, hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu þeirra fiskstofna sem undir ákvæði laganna falla. Með þessari tilhögun er stefnt að samræmingu við efni og markmið annarrar löggjafar er um eignarhald og nýtingu auðlinda gildir, sem og frekari löggjafaráform í þá veru.
    Rétt er að taka fram að þótt greinin, samkvæmt orðalagi sínu, taki aðeins til veiða í ferskvatni þá leiðir það af öðrum ákvæðum frumvarpsins að lögunum er jafnframt ætlað að taka til veiða úr ferskvatnsfiskstofnum í sjó í þeim takmarkaða mæli sem þær eru heimilaðar.
    Nýmæli er að nú er mælt svo fyrir í lögum að nýting skuli vera sjálfbær. Sjálfbær nýting endurnýjanlegra auðlinda eins og fiskstofnar eru felur það í sér að nýtingin er hófleg og ekki er gengið svo á veiðistofna að þeir spillist heldur geti þeir áfram endurnýjað sig og skapað þar með möguleika á áframhaldandi veiði. Þá er kveðið á um verndun fiskstofna. Slíkt markmið er mikilvægt til að viðhalda stofnunum og líffræðilegum fjölbreytileika í náttúru landsins, en hver fiskstofn er sérstakur og varðveisla fiskstofna viðheldur fjölbreytileika í arfgerð þeirra tegunda. Þetta er í anda alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, sbr. t.d. Ríó-sáttmálann sem samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál sem haldin var í borginni Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1992. Þá skal áréttað að í ákvörðunum og umsögnum sínum um veiðinýtingu og verndun búsvæða taki veiðifélög, veiðiréttarhafar, Landbúnaðarstofnun og Veiðimálastofnun tillit til varúðarreglunnar (Precautionary principle). Varúðarreglan hefur verið tekin upp af Norður-Atlantshafslaxverndunarstofnuninni NASCO og Alþjóðahafrannsóknaráðinu ICES en Ísland er fullgildur aðili að báðum þessum alþjóðastofnunum. Með varúðarreglunni er kveðið á um að villtir dýrastofnar og umhverfi þeirra eigi að njóta vafans í öllum ákvörðunum er lúta að nýtingu og verndun stofnanna og búsvæða þeirra. Þá má skortur á vísindalegum upplýsingum ekki verða til þess að ekki verði gripið til nauðsynlegra verndaraðgerða eða þeim slegið á frest.

Um 2. gr.

    Af eðli máls leiðir að ákvæði frumvarps þessa, ef að lögum verður, gilda fyrst og fremst um veiðar úr fiskstofnum í ferskvatni, þ.e. í lækjum, straumvötnum og stöðuvötnum. Því til viðbótar taki lögin til þeirra takmörkuðu veiða úr fiskstofnum þessum sem heimilaðar eru í sjó á íslensku forráðasvæði. Ber í því sambandi að hafa í huga þá meginreglu gildandi laga sem áfram er byggt á í frumvarpinu og fram kemur í 1. mgr. 14. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. og bannar lax- og silungsveiðar í sjó. Sú undantekning er þó frá þeirri reglu að veiðar silungs eru heimilaðar í netlögum sjávarjarða.

Um 3. gr.

    Í þessa grein eru teknar upp þær orðskýringar sem nauðsynlegar eru við túlkun laganna, sem og hugtök er lýsa ýmsum þeim afbrigðum sem fyrir koma við beitingu vatns- og veiðiréttinda í rúmum skilningi. Hefur sú leið verið valin að skýra fremur fleiri en færri hugtök og styðst sú aðferð við þau rök að þótt tiltekin hugtök komi ekki fyrir í lögunum sjálfum kunna þau að verða notuð í reglugerðum og/eða reglum settum á grundvelli laganna. Vakin er athygli á því að hugtakið hafbeit er samkvæmt greininni tvíþættrar merkingar. Í fyrsta lagi er um að ræða föngun fisks á sleppistað (hafbeitarstöð) til slátrunar og í öðru lagi föngun fisks til flutnings og endurveiða í öðrum vötnum. Í þessu samhengi er vert að geta þess að sleppingar gönguseiða í veiðivötn teljast ekki til hafbeitar heldur fiskræktar. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa. Reglum um hafbeit er nú og að öðru leyti skipað í frumvarp til laga um fiskrækt.

Um 4. gr.

    Eðlilegt er að þessi málaflokkur heyri undir landbúnaðarráðherra, svo sem verið hefur, enda eru réttindi þau sem lög þessi taka til veigamikill þáttur í eignarrétti landeigenda og með verðmætustu hlunnindum margra jarða. Í sumum tilvikum hagar jafnvel svo til að meginstoðin í búrekstri einstakra bújarða hefur falist í hagnýtingu þessarar auðlindar. Í samræmi við þetta sjónarmið er við það miðað að landbúnaðarráðherra fari með yfirstjórn málaflokksins. Stjórnsýslan er að öðru leyti í höndum Landbúnaðarstofnunar, nema lögin mæli fyrir um aðra skipan. Eru þá sérstaklega hafðar í huga þær auknu valdheimildir sem veiðifélögum eru fengnar í hendur með frumvarpi þessu. Í því sambandi er hliðsjón höfð af því að veiðifélögin hafa flest hver fest sig í sessi og gegnt veigamiklu hlutverki við framkvæmd gildandi laga. Í ljósi þeirrar jákvæðu reynslu, sem af því hefur fengist, þykir í nýrri löggjöf síst ástæða til breytinga í þeim efnum.
    Um reglugerðarheimild 2. mgr. er það að segja að eitt af markmiðunum við heildarendurskoðun laga um lax- og silungsveiði er að einfalda lögin og gera þau aðgengilegri, svo sem nánar er um fjallað í almennum athugasemdum. Liður í þeirri viðleitni er að flytja úr lögunum ýmsar staðbundnar og tímabundnar reglur, sem og reglur tæknilegs eðlis, sem betur fer á að séu í reglugerð.
    Aðstæður við veiðar geta verið breytilegar frá einu svæði til annars og frá einum tíma til annars. Við slíku þarf að vera unnt að bregðast án þess að til komi lagabreyting hverju sinni og eru ákvæði 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar í samræmi við það. Er þar gert ráð fyrir því að Landbúnaðarstofnun geti sett svæðis- og tímabundnar reglur eftir því sem þörf krefur hverju sinni, ýmist á grundvelli ákvæða laganna eða reglugerða þeirra sem mælt er fyrir um skv. 2. mgr. Ljóst er að þetta fyrirkomulag horfir til hagræðis og einföldunar miðað við það sem verið hefur í tíð gildandi laga.
    Til þess að tryggja að við setningu reglugerða og reglna samkvæmt lögum þessum sé ætíð byggt á vísindalegum forsendum og gögnum er í 4. mgr. lagt til að fylgt verði þeirri meginreglu að leita ávallt umsagnar viðkomandi aðila, sem í flestum tilvikum væri Veiðimálastofnun, áður en slíkar reglugerðir og reglur eru settar. Í þessu felst ekki að ráðherra eða önnur stjórnvöld samkvæmt lögum þessum séu bundin af umsögn Veiðimálastofnunar, nema það sé sérstaklega tekið fram. Þá er og eðlilegt að hagsmunaaðilar, þ.e. viðkomandi veiðifélög eða veiðiréttarhafar, hafi veiðifélög ekki verið stofnuð, eigi umsagnarrétt ef reglusetning beinist að sértækum hagsmunum þeirra fremur en almennum hagsmunum allra þeirra er undir ákvæði laganna falla.
    Loks svarar efni 5. mgr. til reglu 95. gr. gildandi laga og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um II. kafla.

    Annar kafli hefur að geyma ákvæði um það hverjum veiðiréttur í ferskvatni tilheyrir, en í III. og IV. kafla frumvarpsins eru ákvæði um það hverjum takmörkunum sá réttur sætir. Í II. kafla er áfram byggt á þeirri fornu meginreglu íslensks réttar að hver maður eigi veiði á og fyrir sínu landi. Þá eru í kaflanum ákvæði um veiðirétt í afréttum í þjóðlendum, um veiðirétt í sameign og um veiðirétt í almenningum stöðuvatna. Er í þeim efnum í öllum aðalatriðum fylgt sömu reglum og nú gilda en þó að teknu tilliti til breyttrar löggjafar um skipan eignarhalds á landi utan byggðar. Einnig er í kaflanum að finna ákvæði um aðskilnað veiðiréttar frá landi. Eru þau ákvæði fyllri heldur en ákvæði gildandi laga auk þess sem mælt er fyrir um málsmeðferðarreglur, og er þetta fyrirkomulag til þess fallið að draga úr ágreiningsmálum sem lúta að veiðirétti útskiptra fasteigna, þ.e. fasteigna sem skipt hefur verið niður í fleiri sjálfstæðar einingar. Loks eru í kaflanum ákvæði um innlausn veiðiréttar sem rétt þykir að tímabinda nú endanlega með þeim rökum sem nánar koma fram í athugasemdum við 10. gr.

Um 5. gr.

    Hugtakið fasteign hefur ekki algilda merkingu í íslenskum lögum. Almennt hefur þó verið lagt til grundvallar í íslensku lagamáli um langa hríð að hugtakið fasteign merki afmarkaðan hluta lands ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt. Á þessari skilgreiningu er byggt í ákvæðum nokkurra laga sem sett hafa verið á seinni árum, t.d. í lögum um fasteignamat og fasteignakaup, og er á því byggt í 9. tölul. 3. gr. frumvarps þessa.
    Þrátt fyrir framangreinda hugtaksskilgreiningu er rétt að hafa í huga að til eru ýmsir flokkar fasteigna sem hafa ólíka réttarstöðu. Fyrsta og nærtækasta dæmið er sú aðgreining í löggjöf sem byggist á því að til séu annars vegar eignarlönd og hins vegar þjóðlendur. Annars konar afbrigði er lóð í þéttbýli ásamt mannvirkjum en hún telst ein tegund fasteigna. Sama á við um útskipta lóð undir frístundahús í dreifbýli. Þriðja tilbrigði fasteignar er jörð samkvæmt jarða- og ábúðarlögum og hugtökin lögbýli og eyðibýli hafa sérstaka merkingu. Þessi mismunandi réttaráhrif birtast með glöggum hætti í lax- og silungsveiðilögum. Meðan meginreglan er sú að öllum fasteignum sem land eiga að veiðivötnum tilheyri veiðiréttur þá eru það aðeins jarðeigendur eða ábúendur jarða sem fara með atkvæðisrétt í veiðifélagi.
    Með þessum formála skal það tekið fram að í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er áréttuð sú forna meginregla íslensks réttar að eignarhaldi á landi fylgir réttur til veiði á eða fyrir því landi, enda leiði aðra skipan ekki af lögum eða samningsskuldbindingum sem löglega hefur verið til stofnað.
    Hafa ber í huga að þegar mælt er fyrir um veiðirétt í vatni í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er fyrst og fremst hafður í huga veiðiréttur í straum- og stöðuvötnum. Þess ber þó jafnframt að geta að silungsveiðar eru heimilaðar í netlögum sjávarjarða og því nær meginregla 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar einnig til slíkrar veiði.
    Ákvæði 2. mgr. leiðir af þeirri skipan mála sem komið var á með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur o.fl. og þarfnast ekki frekari skýringa. Þó skal áréttað að í samræmi við ákvæði þeirra laga er í frumvarpi þessu í engu hróflað við réttarstöðu þeirra afréttarhafa sem slíkan veiðirétt eiga í vötnum á afréttum, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar um fyrirsvar veiðiréttar þegar jörð er byggð á leigu eru efnislega samhljóða 3. mgr. 2. gr. gildandi laga, að öðru leyti en því að ekki er þörf á því að aflað sé samþykkis stjórnvalda fyrir þeirri tilhögun sem samið er um.
    Í 4. mgr. er um það tilvik fjallað þegar fleiri en ein fasteign liggja að sama vatni sem veiðiréttur fylgir. Hin forna meginregla íslensks réttar er sú að hver maður á einn veiði fyrir sínu landi. Í ákvæðinu er þetta ítrekað, en jafnframt áréttað að mönnum er heimil för í annarra land til þess að forða veiðivélum og afla frá tjóni. Er hér í raun verið að endursegja efni 6. gr. gildandi laga með breyttu orðalagi. Eins og fram kemur í ákvæðinu takmarkast þessi réttur af almennum grenndarreglum og er mælt fyrir um bótaskyldu ef tjón hlýst af. Bætur skulu ákveðnar með mati skv. VII. kafla og vísast nánar um fyrirkomulag þess til skýringa við þann kafla. Sú regla hefur um langa hríð gilt í íslenskum rétti að breytist farvegur straumvatns eða stöðuvatn tekur sér nýtt leg, færast landamerki jarða ekki til en veiðiréttur færist til þeirra fasteigna er land eiga undir, þó með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 7. og 8. gr. gildandi vatnalaga. Ber að skoða tilhögun þessa í samræmi við þá fornu meginreglu íslensk réttar, sem áður er nefnd, að saman fari eignarhald á landi og veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi. Er augljóst að annað fyrirkomulag getur leitt til mikils glundroða, þ.e. ef ekki fer saman eignarhald á landi og veiði.

Um 6. gr.

    Í frumvarpsgreininni kemur fram sú regla að fasteignaeigendum, er land eiga að stöðuvatni, sé einum heimil veiði í almenningi vatnsins, þ.m.t. dorgveiði um ís, og sé hún þeim öllum jafnheimil. Þá kemur og fram að standi forn venja til þess að veiðiréttur í almenningi stöðuvatns fylgi tiltekinni eða tilteknum fasteignum þá skuli sú skipan mála gilda. Eiga ákvæði frumvarpsgreinarinnar við um veiðirétt í almenningi þeirra stöðuvatna sem umlukin eru eignarlöndum. Ekki þykir ástæða til að mæla sérstaklega fyrir um eignarhald veiðiréttar í almenningi stöðuvatna í þjóðlendum, umfram það sem fram kemur í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins og leitt verður eðli málsins samkvæmt af þjóðlendulögum, nr. 58/1998. Um almenninga stöðuvatna á afréttum í þjóðlendu gilda ákvæði 7. gr. frumvarps þessa.
    Í öndverðu var veiðiréttur sá sem hér er mælt fyrir um alfarið á hendi eigenda þeirra jarða sem land áttu að stöðuvötnum. Í tímans rás hefur af ýmsum ástæðum orðið breyting þar á með þeim hætti að veiðirétturinn hefur við uppskiptingu jarða og útskiptingu einstakra lóða úr jörðum skipst á fleiri hendur og hafa dómstólar staðfest lögmæti slíkrar skiptingar, sbr. nánari umfjöllun í athugasemdum með 9. gr. frumvarpsins. Ekki er ætlunin með frumvarpi þessu að hagga í neinu við þeirri eignarréttarlegu stöðu sem þannig hefur komist á og byggjast reglur frumvarpsgreinarinnar á því sjónarmiði. Hins vegar er ætlunin með frumvarpi þessu sú, þegar til framtíðar er litið, að taka af skarið um það í löggjöf að regla sú sem í öndverðu gilti og áður er gerð grein fyrir gildi framvegis, sbr. 9. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana. Þykir það fyrirkomulag vera í betra samræmi við meginmarkmið lagasetningarinnar, svo sem því er lýst í 1. gr. frumvarpsins og almennum athugasemdum við það.

Um 7. gr.

    Í frumvarpsgrein þessari er kveðið á um þær sérreglur sem gilda um eignarhald veiðiréttar í stöðu- og straumvötnum á afréttum. Á regla þessi sér stoð í 1. málsl. 5. gr. gildandi laga, en það fyrirkomulag sem þar er mælt fyrir um á sér langa sögu.
    Regla 1. málsl. tekur fyrst og fremst mið af samnotaafréttum, sem svo eru stundum nefndir. Um veiðirétt í vötnum á öðrum afréttum í þjóðlendu fer eftir almennum reglum laganna. Í því felst m.a. að séu afréttarréttindin í eigu einka- eða lögaðila fara þeir með ráðstöfun veiðiréttarins. Sem dæmi má nefna sveitarfélag sem fengið hefur slíkum afréttum afsalað frá ríki, kirkju eða einstökum jörðum. Í því tilviki er það viðkomandi sveitarfélag sem lögpersóna sem er handhafi veiðiréttarins en hann er ekki sjálfstætt á hendi einstakra jarða með sama hætti og á samnotaafréttum. Þegar upp er staðið mun þessi munur þó ekki skipta verulegu máli í framkvæmd enda ráðgert að veiðifélög séu að jafnaði starfrækt um slíka veiði, sbr. umfjöllun um 2. málsl. frumvarpsgreinarinnar.
    Það skal áréttað að sé jörð í ábúð er það ábúandinn sem fer með heimildir fasteignareiganda nema þeir hafi samið skýrlega með öðrum hætti, sbr. eðlislíkt tilvik sem fjallað er um í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins.
    Út frá því er gengið að veiði í vötnum þeim sem frumvarpsgreinin tekur til lúti að jafnaði stjórn veiðifélags. Í þeirri tilhögun felst m.a. tvennt. Í fyrsta lagi að veiðifélag setur reglur um skipulag veiði í viðkomandi vötnum. Í öðru lagi að veiðifélagið eitt er bært til þess að ráðstafa veiði í vatninu til þriðja aðila í samræmi við fyrirmæli laganna.
    Eðli málsins samkvæmt er ekki þörf á sérreglum um veiði í almenningum þeirra vatna sem frumvarpsgrein þessi fjallar um, enda strangt til tekið hvorki netlög né almenningur í þeim.

Um 8. gr.

    Regla þessi er í samræmi við 4. gr. gildandi laga og almennar reglur um óskipta (sérstaka) sameign. Gert er ráð fyrir að sameigendur freisti þess að ná samkomulagi um skiptingu veiði, en náist samkomulag ekki getur hver sameigenda sem er óskað mats skv. VII. kafla frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er engin grein sambærileg við 9. gr. gildandi laga. Þar er um að ræða sérreglu sem bannar veiðiréttarhafa að leyfa öðrum veiði fyrir sameignarlandi, í félagsvatni eða í almenningi. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir slíkri takmörkun þannig að veiðiréttarhöfum, sem svo stendur á um, verður heimilt að leyfa slíka veiði. Þó er ástæða til þess að árétta að leyfishafi fer aldrei með rýmri heimildir en eigandi veiðiréttarins, og þess utan er það jafnan svo að þegar félagsskapur er um veiði fer veiðifélagið alfarið með slíkar heimildir.

Um 9. gr.

    Frumvarpsgreinin kemur í stað 4. og 5. mgr. 2. gr. gildandi laga. Á gildistíma gildandi laga um lax- og silungsveiði hafa gengið dómar sem af ýmsum hafa verið túlkaðir þannig að bann 4. mgr. 2. gr. þeirra laga við skilnaði veiðiréttar frá landareign taki ekki til annarra fasteigna en þeirra þar sem stundaður er búskapur. Til þess að taka af öll tvímæli er með frumvarpsgrein þessari lagt til að sú meginregla gildi frá gildistöku laganna að veiðiréttur verði ekki skilinn frá fasteignum, hvorki með hefðbundnu afsali veiðiréttarins né heldur við uppskiptingu fasteignar eða ráðstöfun einstakra spildna úr henni. Slíkt yrði því í öllum tilvikum leyfisskylt, og gert er ráð fyrir því að við mat á heimild til undanþágu beri sérstaklega að líta til þess hvort kostir fasteignar til landbúnaðarnota skerðist, og jafnframt að fiskstofnar viðkomandi vatns verði ekki ofnýttir. Þykir þessi fortakslausa tilhögun í betra samræmi við þau meginmarkmið frumvarpsins sem áður hefur verið gerð grein fyrir og er m.a. ætlað að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggja afkomu sína, að öllu leyti eða hluta, á veiðinytjum. Þess utan er ljóst að takmarkalaus uppskipting veiðiréttar einstakra jarða á fleiri hendur getur stefnt í hættu því markmiði frumvarpsins að tryggja skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu þeirrar auðlindar sem fiskstofnar ferskvatna eru.
    Miðað er við það að aðskilnaður stangveiðiréttar standi aldrei lengur en tíu ár í einu, og er það breyting frá gildandi lögum. Slíkt kemur ekki í veg fyrir að sami aðili geti í raun leigt stangveiðirétt um lengri tíma en umrædd tíu ár, en samningstíminn hverju sinni getur aldrei verið lengri.
    Í 2. málsl. 2. mgr. felst sú löglíkindaregla að tímabundið framsal stangveiðiréttar í samræmi við frumvarpsgreinina feli jafnframt í sér afsal veiðiréttarhafa á öðrum veiðinytjum á samningstímanum. Samningur kann hins vegar að leiða til annarrar niðurstöðu.

Um 10. gr.

    Innlausnarréttur kom fyrst í lögin 1932 og var þá tímabundinn. Þau tímamörk voru síðan endurnýjuð við síðari lagabreytingar, en með nýjum lögum um lax- og silungsveiði á árinu 1957 var réttur þessi gerður ótímabundinn og er sú tilhögun óbreytt í gildandi lögum. Innlausn veiðiréttar á þessum grundvelli mun vera nánast óþekkt hin seinni ár. Hér er því um að tefla úrræði sem lítið hefur reynt á og lítið verið notað. Þá felur það í sér íþyngjandi inngrip í réttindi sem stofnað var til með lögum fyrir meira en 70 árum. Með hliðsjón af þeirri meginreglu sem fram kemur í 9. gr. frumvarpsins og þeim sjónarmiðum sem að baki henni liggja þykir rétt að taka enn upp ákvæði um rétt í þessa veru í ný lög um lax- og silungsveiði, en ætla honum nú stuttan gildistíma, þ.e. fimm ár frá gildistöku laganna. Þykir með þessu fyrirkomulagi gætt réttmætra hagsmuna bæði landeigenda og veiðiréttarhafa. Rétt er að ítreka að innlausnarréttur þessi tekur eingöngu til veiðiréttar sem einn og sér hefur verið skilinn frá fasteign, svo sem skýrt er tekið fram í 1. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar. Með hliðsjón af hinu íþyngjandi eðli innlausnar þykir rétt að ráðherra fari sjálfur með leyfisveitingarvald í þessu skyni.
    Þá þykir og rétt að við atkvæðagreiðslu þá sem ráðgerð er í greininni fari um vægi og gildi atkvæða eftir sömu meginreglum og gilda um atkvæðagreiðslur innan veiðifélaga. Að öðru leyti er um sambærilegar reglur að ræða og fram koma í 3. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.

    Í frumvarpsgreininni felast reglur um það efni sem nú er fjallað um í XII. kafla gildandi laga, en þær eru hér einfaldaðar mjög og framsetningu breytt.
    Reglur núgilandi laga um ófriðun sels komu inn í lax- og silungsveiðilög árið 1932, en fyrir þann tíma höfðu verið í gildi sérstakar reglur um það efni. Ákvæði gildandi laga eru að nokkru orðin úrelt og taka mið af atvinnuháttum sem nú hafa breyst, en arður af selnytjum hefur um langt árabil verið hverfandi. Það er hins vegar ekki útilokað að til hagsmunaárekstra geti komið vegna þessara ólíku nytja. Af þessari ástæðu þykir nauðsynlegt að hafa áfram í lögum ákvæði um það hvernig bregðast skal við slíkum aðstæðum.
    Rétt er að vekja á því athygli að nokkurrar óvissu gætir um það hverja stöðu selur hefur í íslenskri löggjöf, m.a. með tilliti til friðunar. Með ákvæðum frumvarpsgreinarinnar er ekki verið að marka sel ákveðna stöðu í þeim efnum, heldur einvörðungu mæla fyrir um það hvernig við skuli brugðist þegar hinar ólíku nytjar geta ekki farið saman. Í ákvæðum frumvarpsgreinarinnar felst ákveðin forgangsröðun ólíkra hagsmuna og ótvírætt kveðið á um að lax- og silungsnytjar gangi framar selnytjum.
    Í 1. mgr. kemur fram regla sama efnis og nú er í 86. gr. gildandi laga. Hún byggist á því sjónarmiði að ávallt skuli heimilt að styggja sel í veiðivatni og ósum þess. Ef önnur vægari ráð duga ekki heimilar ákvæðið að sel megi skjóta.
    Í 2. mgr. er orðuð forgangsregla sú sem minnst var á hér að framan og nú er í í 87. gr. gildandi laga. Er sú regla mjög einfölduð í ljósi breyttra atvinnuhátta. Þá er og í málsgreininni tekið mið af breyttu fyrirkomulagi við stjórnsýslu landbúnaðar- og umhverfismála. Aðgerðir samkvæmt þessari málsgrein eru háðar því að frumkvæðið komi frá veiðiréttarhöfum.
    Í ákvæðum 3. mgr. felast fyrirmæli um bótarétt þeim til handa sem tjón bíður af aðgerðum skv. 2. mgr. Í gildandi lögum eru bótareglur um sama efni í 88. gr. Þær eru barn síns tíma og eru því í frumvarpsgreininni einfaldaðar að formi til og samræmdrar öðrum bótareglum frumvarpsins. Af bótareglum íslensks eignarnámsréttar leiðir að ekki er þörf á því í sértækum lagatexta að taka upp þau efnislegu ákvæði sem ákvörðun bótafjárhæðar hvílir á, en slíkar reglur eru nú að hluta til í 88. gr. gildandi laga.

Um III. kafla.

    Í þessum kafla eru tekin saman ákvæði III., IV. og V. kafla gildandi laga. Ekki eru í frumvarpinu ákvæði sambærileg 13. gr. gildandi laga enda þykir skýrslugjöf skv. 13. gr. frumvarpsins í öllum tilvikum nægileg.
    Athygli er vakin á því að kaflinn hefur að geyma þær takmarkanir veiðiréttarins sem leiðir af friðun og nú er að finna í IV. og V. kafla gildandi laga. Er þar bæði um að ræða tímabundnar og svæðisbundnar friðanir.
    Um kaflann í heild er það að öðru leyti að segja að þar eru ákvæði um veiðar ferskvatnsfiska í sjó, reglur um veiðitíma og almenn ákvæði um gönguhelgi og skyld atriði. Við framsetningu reglna kaflans þykir það til skýrleika fallið að aðgreina umfjöllun um lax, göngusilung og vatnasilung.
    Í 3. og 5. mgr. 14. gr. gildandi laga er að finna ákvæði er tengjast innlausn laxveiðiréttar sjávarjarða. Ákvæði þar að lútandi eru ekki tekin upp í frumvarpið þar sem slík réttindi eru ekki lengur fyrir hendi.

Um 12. gr.

    Skráning veiðivatna er nauðsynlegur þáttur í að tryggja að markmið laganna náist, sbr. 1. gr. þeirra. Á það jöfnum höndum við um skýrleika og gagnsæi eignarhalds og markmið laganna um sjálfbæra og hagkvæma nýtingu ferskvatnsfiskstofna. Grein þessi svarar að öðru leyti til 10. gr. gildandi laga en hefur þó verið einfölduð og framsetningu breytt. Landbúnaðarstofnun skal sjá um skráninguna og skal skv. 2. mgr. tryggja samræmi við aðrar opinberar skrár, svo sem þinglýsingarbækur, fasteignamatskrá, jarðaskrá o.s.frv. Skráning á þessu sviði hefur á undanförnum árum þróast í átt til samræmingar með lagasamræmingu og samstarfi stofnana er undir hin ýmsu ráðuneyti heyra.
    Í 3. mgr. er sú skylda lögð á veiðiréttarhafa að veita nauðsynlegar upplýsingar til skráningarinnar. Skv. 4. mgr. skal ráðherra setja í reglugerð nánari fyrirmæli um skráninguna og inntak hennar. Í aðalatriðum er gert ráð fyrir því að í skránni verði allar sömu upplýsingar og gert er ráð fyrir í 10. gr. gildandi laga. Í ljósi þess yfirlýsta markmiðs með frumvarpi þessu að skýra og einfalda löggjöfina er ekki ástæða til þess að nákvæmlega sé upptalið í lagatextanum sjálfum hvaða upplýsingar skráin skuli hafa að geyma. Slíkt á betur heima í reglugerð. Það er auk þess hagkvæmara þar sem þörfin á skráningaratriðum getur breyst frá einum tíma til annars. Heimild ráðherra til útfærslu á upplýsingaþörf og skráningaratriðum í reglugerð takmarkast við þau atriði sem nauðsynlegt er að skrá svo að markmið laganna, sbr. 1. gr. þeirra, náist.

Um 13. gr.

    Greinin svarar efnislega til 12. gr. gildandi laga en er einfölduð nokkuð. Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að gera skuli skýrslu um veiði í sérhverju veiðivatni og netlögum sjávarjarða og hvílir skylda til skýrslugjafar á öllum handhöfum veiðiréttar og sérhverjum þeim er veiði stundar. Mikilvægt er að þessi skylda hvíli á handhöfum veiðiréttar, þ.e. veiðifélögum sem ber þá að sjá um að þeir sem veiði stunda á þeirra ábyrgð skrái veiði. Jafnframt er rétt að sú skylda hvíli á öllum veiðimönnum að skrá veiði. Rétt er að vekja á því athygli að skráning skv. 12. gr. og skýrslugjöf skv. 13. gr. lúta ekki að hinu sama. Skráning varðar varanleg atriði, sem tengjast veiðivatni, en skýrslugjöfin felur í sér reglulega upplýsingagjöf um veiði, magn, stærð og samsetningu afla. Á grundvelli skýrslugjafarinnar geta veiðiréttarhafar og stjórnvöld gripið inn í óæskilega þróun viðgangs fiskstofna í viðkomandi veiðivatni. Saman eru því skráning skv. 12. gr. og skýrslugjöf skv. 13. gr. nauðsynlegt tæki við nýtingu og verndun auðlindarinnar.
    Í ákvæðum 2. mgr. felst að Landbúnaðarstofnun ákveður form skýrslugjafarinnar og leggur veiðifélögum og veiðiréttarhöfum þau til, þeim að kostnaðarlausu. Þótt Landbúnaðarstofnun fari með þá framkvæmd sem hér um ræðir er við það miðað að Veiðimálastofnun og önnur stjórnvöld hafi aðgang að öllum þessum upplýsingum, en veiðifélög og veiðiréttarhafar hafi aðgang að skráðum upplýsingum sem varða eigin vatnasvæði.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það að veiðifélög eða veiðiréttarhafar skuli sjá til þess að skýrslur séu gefnar um veiði í sérhverju veiðivatni og að þeim sé skilað til Landbúnaðarstofnunar að loknu hverju veiðitímabili. Rétt er að leggja áherslu á þýðingu þess að veiðiskýrslum sé skilað tímanlega. Veiðifélög gegna að þessu leyti ákveðnu stjórnsýsluhlutverki við framkvæmd laganna og er í samræmi við það hlutverk sitt skylt að sjá til þess að sú framkvæmd gangi eftir. Sérstaklega skal áréttað að við það er miðað að Íslenskar vatnarannsókir hafi ótakmarkaðan aðgang að þeim upplýsingum sem safnað er á grundvelli þessarar greinar, enda eru þær sú stofnun sem mest nýtir þær upplýsingar sem skráðar eru.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að heimilt sé að kveða á um nánari útfærslu í reglugerð.

Um 14. gr.

    Fyrri málsliðurinn felur í sér reglu sem er sama efnis og regla 1. mgr. 14. gr. gildandi laga að því er lax varðar. Bann við laxveiðum í sjó var lögleitt hér á landi með gildistöku lax- og silungsveiðilaga árið 1932 og urðu Íslendingar fyrstir þjóða til að setja slíkt bann. Nú hefur slíkt bann víða verið tekið upp með öðrum þjóðum og er þróunin mjög á þann veg. Reglan studdist í upphafi við þau rök að nýting ferskvatnsfiskstofna færi fram á uppeldisslóð í fersku vatni og nytjar féllu þannig til viðkomandi jarðeigenda. Þá styðst bannreglan jafnframt við þau veigamiklu líffræðilegu rök að veiðar fari fram á hverjum stofni fyrir sig en með laxveiðum í sjó er veitt úr mörgum stofnum þar sem einstaka stofnar gætu skaðast við ofveiði. Loks má benda á þau efnahagslegu rök að arður veiðiréttarhafa og samfélagsins í heild af laxveiðum á stöng í ferskvatni er margfaldur á við þann arð sem sjávarveiðar skila. Öll þessi rök eiga enn við og búa að baki áframhaldandi banni við laxveiðum í sjó.
    Í 2. málsl. er regla sama efnis og nú er í 2. mgr. 14. gr. gildandi laga, en framsetning hennar einfölduð nokkuð. Þarfnast hún ekki frekari skýringa.

Um 15. gr.

    Grein þessi svarar að hluta til 1., 4., 6. og 7. mgr. 14. gr. og 15. gr. gildandi laga, en orðalagi er breytt og framsetning öll einfölduð.
    Í ákvæðum 1. mgr. felst að silungsveiðar í sjó eru bannaðar með sama hætti og laxveiðar í sjó. Ekki þykir þó ástæða til að banna veiðar göngusilungs í netlögum sjávarjarða, enda hafa slíkar veiðar víða verið stundaðar um langt skeið á grundvelli heimilda í lögum. Er ekkert fram komið sem kallar á takmarkanir í þeim efnum umfram það sem leiðir af ákvæðum greinarinnar og fyrst og fremst tekur mið af því ástandi sem ríkt hefur.
    Rétt er að taka fram að í rétti til veiða í netlögum skv. 1. mgr. felst bæði réttur til stangveiði og netaveiði. Hvað netaveiðina varðar er þó sú takmörkun gerð í 2. mgr. að miða skal við þann netafjölda sem viðkomandi fasteign hafði á fimm ára tímabili fyrir gildistöku laga nr. 53/1957. Er þar um að ræða sama viðmið og í gildandi lögum. Þá leiðir það og af ákvæðum málsgreinarinnar að aðeins þeir eigendur jarða sem slíks réttar nutu við gildistöku laga nr. 53/1957 hafa slíkan rétt framvegis verði frumvarp þetta að lögum. Í 2. málsl. 2. mgr. er það nýmæli hvað þennan rétt varðar að Landbúnaðarstofnun skal halda skrá um framangreindan rétt og sinna eftirliti með veiðum samkvæmt honum í samræmi við ákvæði laganna.
    Í 3. mgr. eru efnisreglur þær sem nú eru fólgnar í 1. og 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. gildandi laga, en hafa verið einfaldaðar nokkuð í samræmi við markmið frumvarpsins þar að lútandi. Í ljósi þess að mjög takmarkað kveður að silungsveiðum í sjó þykir ekki óvarlegt að einfalda þau fjarlægðarviðmið sem um er að ræða í þessu ákvæði og gera ráð fyrir einni reglu þar að lútandi, þ.e. um 2.000 metra fjarlægð frá ósi eða hafbeitarstöð.
    Í 4. mgr. felst samráðsregla sú sem nú kemur fram í 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. og þarfnast hún ekki sérstakra skýringa.
    Samkvæmt 5. mgr. getur Landbúnaðarstofnun sett svæðis- og tímabundnar takmarkanir á veiðar skv. 1. mgr. að fullnægðum þeim skilyrðum sem í 5. mgr. koma fram. Reglunni er ætlað að tryggja eftir föngum að fiskur eigi óhindraða för í aðliggjandi veiðivötn og þannig verði sem best tryggð þau meginmarkmið laganna sem fram koma í 1. gr. Leiði takmörkunin til tjóns getur bótaréttur stofnast á grundvelli 6. mgr.
    Rétt þykir að mæla svo fyrir í 6. mgr. að þeir sem hagsbóta njóta af takmörkun skv. 5. mgr. bæti eigendum jarða það fjárhagslega tjón sem þeir verða fyrir. Í þessari skipan felst nokkur breyting frá gildandi rétti sem lýsir sér helst í því að takmörkunin er ekki háð því að ósk komi fram um hana frá veiðifélögum og veiðiréttarhöfum í nærliggjandi vötnum, heldur geti komið til frumkvæði þess stjórnvalds sem eftirlit hefur með framkvæmd laganna. Ekki þykir rétt að bótaskylda ráðist af því hvort slík beiðni hafi komið fram. Með nærliggjandi veiðivötnum í málsgreininni er átt við þau veiðivötn þar sem áhrifa sjávarveiðinnar getur gætt.
    Í 7. mgr. er Landbúnaðarstofnun veitt heimild til að setja nánari reglur um netaveiði göngusilungs í sjó.

Um 16. gr.

    Í greininni eru reglur svipaðs efnis og nú koma fram í 8. mgr. 14. gr. og 3. málsl. 2. mgr. 15. gr. gildandi laga. Ekki er útilokað að veiðar sjávarfiska sem um ræðir í frumvarpsgreininni geti spillt fiskigengd í aðliggjandi veiðivötn eða skaðað með öðrum hætti stofna þeirra. Þykir því nauðsynlegt að hafa áfram í lögum heimild til þess að bregðast við slíku. Þess er vænst að heimild í þessa veru verði varlega beitt og því er hugmyndin að ávallt skuli leita umsagnar Veiðimálastofnunar og að fengnu samþykki sjávarútvegsráðuneytisins.
    Um bótareglu 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar má að breyttu breytanda vísa til umfjöllunar um 6. mgr. 15. gr. frumvarpsins, en greinin á við um hugsanlegt tjón sem sýnt er fram á innan netlaga jarða.

Um 17. gr.

    Frumvarpsgrein þessi hefur að geyma helstu efnisreglur um þau atriði sem nú koma fram í 18. og 19. gr. gildandi laga og varða veiðar og friðun á laxi, en orðalagi og framsetningu er verulega breytt. Landbúnaðarstofnun er skv. 4. mgr. ætlað það hlutverk að útfæra reglurnar nánar á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í frumvarpsgreininni, og er það í samræmi við þá tilhögun við gerð frumvarpsins sem áður hefur verið lýst. Ber hér sérstaklega að hafa í huga að reglur þær sem um er fjallað í frumvarpsgreininni varða að jafnaði stað- og tímabundið ástand í einstökum veiðivötnum og eru því skýrt dæmi um nauðsyn þess sveigjanleika sem þarf að vera til staðar vegna breytinga á reglunum.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram sama regla og nú er í 1. mgr. 18. gr. gildandi laga, þó með þeirri breytingu að lagt er til að á umræddu tímabili séu veiðar heimilar í 90 daga í stað þriggja og hálfs mánaðar, samkvæmt gildandi lögum. Til skamms tíma var fortakslaust miðað við 90 daga en með lögum nr. 50/1998 var tímamörkum breytt í þrjá og hálfan mánuð. Reynslan sýnir að veiði úr villtum stofnum er víðast ekki stunduð lengur en í 90 daga. Hins vegar gegnir öðru máli um veiði úr stofnum sem orðnir eru til við viðvarandi sleppingu seiða, þ.e. veiðiþol þeirra er meira og því yfirleitt óhætt að stunda þær veiðar lengur. Við þessum aðstæðum er brugðist í 2. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar með þeim hætti að Landbúnaðarstofnun getur ýmist lengt veiðitímabil í þeim veiðivötnum í allt að 120 daga og/eða flutt veiðitímabilið aftur til 31. október ár hvert. Þá er í 3. málsl. mælt fyrir um heimild til lengingar veiðitíma skv. 1. málsl. um fimmtán daga í þeim veiðivötnum þar sem öllum veiddum fiski er sleppt.
    Í 2. mgr. er fjallað um vikulegan friðunartíma meðan á veiði stendur, en reglur af þeim toga eru nú í 1. mgr. 19. gr. gildandi laga. Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur óbreytt fram regla 5. mgr. 18. gr. gildandi laga og þarfnast því ekki frekari skýringa.
    Samkvæmt 4. mgr. frumvarpsgreinarinnar er veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum, þar sem ekki eru veiðifélög, skylt að setja staðbundnar reglur um veiðitíma og veiðitilhögun í einstökum veiðivötnum, en gildi slíkra reglna er háð staðfestingu Landbúnaðarstofnunar. Eðlilegt þykir að slík reglusetning verði í höndum viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, enda er þar fyrir að fara sérstakri þekkingu á staðháttum í viðkomandi veiðivatni. Vald Landbúnaðarstofnunar til staðfestingar umræddra reglna lýtur að eftirliti með því að fyrirmælum laga sé fylgt og að í heiðri séu höfð þau líffræðilegu sjónarmið sem umsögn Veiðimálastofnunar tekur til. Vakin er athygli á þeirri breytingu sem leiða mun af lögfestingu frumvarpsins að ekki er lengur bundið í lög hvenær sólarhringsins stangveiði er stunduð. Veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum er, með samþykki Landbúnaðarstofnunar, ætlað að mæla fyrir um daglegan veiðitíma í einstökum veiðivötnum, eftir því sem þörf krefur á hverjum stað, sbr. nánar ákvæði 5. mgr.
    Í 5. mgr. frumvarpsgreinarinnar eru talin upp helstu efnisatriði sem staðbundnar reglur fyrir hvert svæði skulu lúta að. Er þar í aðalatriðum um að ræða sömu efnisatriði og fram koma í 18. og 19. gr. gildandi laga.

Um 18. gr.

    Í frumvarpsgreininni felast helstu efnisreglur um þau atriði sem nú koma fram í 18. og 19. gr. gildandi laga og varða veiðar og friðun göngusilungis. Framsetning greinarinnar er með sama hætti og í 17. gr. varðandi veiðar og friðun á laxi að breyttu breytanda, og vísast til athugasemda við þá grein um þau atriði. Þó er nauðsynlegt að geta þess að í 2. málsl. 1. mgr. er heimild til handa Landbúnaðarstofnun til þess að leyfa veiðar utan þess veiðitíma sem ákveðinn er skv. 1. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar í veiðivötnum þar sem slíkar veiðar hafa verið stundaðar, þó ekki netaveiðar. Þessi undantekning er í samræmi við 3. málsl. 3. mgr. 18. gr. gildandi laga, en þó er gengið skemmra hér. Eingöngu er miðað við að undantekningin nái til veiði í þeim veiðivötnum þar sem hún hefur verið stunduð fram að gildistöku laga á grundvelli frumvarps þessa. Ekki þykja hins vegar efni til að heimila sérstaklega undanþágu til veiða í net utan hins lögákveðna veiðitíma skv. 1. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar.

Um 19. gr.

    Efnislega eru reglur framvarpsgreinarinnar hinar sömu og nú koma fram í V. kafla gildandi laga. Framsetning er hins vegar með sama hætti og í 17. og 18. gr. varðandi veiðar og friðun lax og göngusilungs. Að öðru leyti þarfnast frumvarpsgreinin ekki skýringa.

Um 20. gr.

    Frumvarpsgrein þessi leysir af hólmi ákvæði XI. kafla gildandi laga, en orðalagi er hnikað til. Í 1. mgr. er tekið fram að álaveiðar séu heimilar allt árið um kring, en áréttað að þannig skuli að þeim staðið að hvorki spillist gengd né veiðar á laxi og silungi. Heimild til reglusetningar er sama efnis og fram kemur í 17., 18. og 19. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Í frumvarpsgreininni koma fram reglur sama efnis og nú er að finna í 16. gr. gildandi laga og varða veiðar í ósum. Er eftir sem áður gert ráð fyrir óbreyttum reglum um veiðar með föstum veiðivélum í ósum og eru slíkar veiðar bannaðar sem fyrr. Öðru máli gegnir hins vegar um veiðar á stöng á slíkum svæðum. Þegar virt eru rökin fyrir almennu banni gildandi laga við allri veiði á nánar afmörkuðum ósasvæðum verður óhjákvæmilega staðnæmst við þau rök sem er að finna í frumvarpi því sem varð að lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/1932, en þar var lögtekið bann við ósaveiði, sambærilegt því sem nú gildir. Að þeim rökum virtum er ljóst að banninu hefur fyrst og fremst verið stefnt gegn veiði með föstum veiðivélum. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 53/1957 var ráðgert að slíku veiðibanni yrði aflétt hvað stangveiði varðar. Frumvarpinu var hins vegar breytt í meðförum þingsins og í endanlegri og samþykktri mynd var regla eldri laga um almennt bann við ósaveiði óbreytt. Verður ekki ráðið af lögskýringargögnum að veigamikil fiskifræðileg eða hagfræðileg rök hafi búið þar að baki. Allt að einu hefur ekki verið við reglunni hróflað síðan, sbr. 16. gr. gildandi laga. Má nú segja að með 1. mgr. frumvarps þessa sé horfið aftur til tillögugerðar í aðdraganda lagasetningarinnar 1957 þegar lagt er til að bann við ósaveiði taki ekki til stangveiði. Ekki þykja sérstök fiskifræðileg rök standa til þess að banna stangveiðar í ósum og ósasvæðum umfram önnur veiðisvæði. Er slík veiði víða stunduð á grundvelli undanþága og án þess að neinn merkjanlegur skaði hafi orðið á fiskigengd í þeim veiðivötnum. Er eðlilegra að slík veiði sé almennt heimil, en heimild til þess að takmarka hana eða banna að ósk viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa er í 2. mgr. greinarinnar. Má þannig segja hvað stangveiði í ósum varðar að endaskipti hafi orðið á meginreglu og undantekningu. Eðli málsins samkvæmt gegnir hins vegar allt öðru máli um veiðar með föstum veiðivélum í ósum og á ósasvæðum. Með hliðsjón af þessu er nú með 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar lagt til að bann við ósaveiðum taki áfram til allrar veiði með föstum veiðivélum en stangveiði sé þar heimil. Hvað netaveiði varðar eru fjarlægðarviðmið óbreytt frá 16. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um heimild til að takmarka ósaveiðar frekar en kveðið er á um í 1. mgr. og getur slík takmörkun einnig náð til stangveiði. Bann eða takmörkun samkvæmt þessari málsgrein þarf ávallt að styðjast við þau rök að slíkt sé nauðsynlegt til þess að tryggja fiskigengd og viðgang veiði í viðkomandi veiðivatni.
    Í 3. mgr. er bótaregla sem ætlað er að bæta tjón það sem af takmörkunum skv. 2. mgr. getur leitt.

Um 22. gr.

    Grein þessi svarar til 17. gr. gildandi laga. Sú efnisbreyting er lögð til í samræmi við breytt efni 21. gr. frumvarpsins um ósaveiðar að gönguhelgi nái jafnan yfir ósa í heild sinni og eins og þeir eru afmarkaðir í 1. mgr. 21. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að þegar um ós í stöðuvatni eða sjó er að ræða nái bann við ósaveiðum með föstum veiðivélum 100 metra upp frá ósi og 250 metra niður frá honum. Í ósum stöðuvatna takmarkast sambærilegt bann 50 metra upp eða niður frá ósnum. Að öðru leyti eru reglur um gönguhelgi óbreyttar frá gildandi lögum. Loks er í 3. mgr. tekin upp sú regla 37. gr. gildandi laga að renni straumvatn í kvíslum þá skuli líta á hverja kvísl sem sérstakt vatn.

Um 23. gr.

    Regla frumvarpsgreinarinnar er sama efnis og regla sú er nú kemur fram í 40. gr. gildandi laga, að því viðbættu að hún tekur nú auk fiskvega til fiskteljara. Betur fer á því að skipa frumvarpsgreininni í þann kafla frumvarpsins sem fjallar um veiðistjórn og kemur hún því í framhaldi af reglum um ósaveiði og gönguhelgi. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 24. gr.

    Regla 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar svarar til þeirrar reglu sem nú kemur fram í 21. gr. gildandi laga, en 2. og 3. mgr. eiga sér fyrirmynd í 20. gr. gildandi laga. Sú breyting er þó lögð til að heimild til friðunar nái ekki aðeins til lax og göngusilungs heldur jafnframt vatnasilungs. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. er og gert ráð fyrir því nýmæli að ekki sé fortakslaus þörf á alfriðun, heldur geti í stað þess komið til þess að dregið sé úr veiði með markvissum aðgerðum. Þá nær meginregla 1. mgr. nú jafnframt til hluta veiðivatns. Sá munur er á reglum 1. og 2. mgr. að friðunaraðgerðir skv. 1. mgr. eru almennar og taka til alls veiðivatnsins, en friðunaraðgerðir skv. 2. mgr. eru hins vegar staðbundnar og geta því komið misjafnlega við einstaka veiðiréttarhafa. Er því þörf að bregðast sérstaklega við þeim aðstæðum og er slíkt gert með bótareglu 3. mgr. sem byggist á sama grunni og aðrar sambærilegar bótareglur laganna. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 25. gr.

    Heimild til þess að eyða fiski úr veiðivötnum var lögleidd 1970 en náði aðeins til vatnasilungs. Þær sérstöku aðstæður geta skapast í veiðivatni að eyða þurfi fiskstofnum þess, svo sem vegna sjúkdóma eða sníkjudýra sem herja á stofnana. Er því nauðsynlegt að hafa í lögum heimild til þess að bregðast við slíkri vá með eyðingu stofnanna til varnar fiskstofnum í öðrum veiðivötnum, og styðst regla sú sem fram kemur í 25. gr. frumvarpsins við þau rök. Regla svipaðs efnis er nú í 25. gr. gildandi laga. Regla frumvarpsgreinarinnar er þrengri en regla gildandi laga að því leyti að heimildin er takmörkuð við það að um sjúkdóma eða sníkjudýr sé að ræða, en í gildandi lögum nær heimildin jafnframt til þess að eyða ákveðnum fiskstofni í því skyni að rækta annan. Þykir af umhverfisástæðum ekki ástæða til þess að halda í slíka heimild. Regla frumvarpsgreinarinnar er hins vegar rýmri en heimild gildandi laga að því leyti að hún nær til allra fisktegunda, en í gildandi lögum er heimildin bundin við vatnasilung. Rétt er að leggja á það ríka áherslu að hér er um vandmeðfarna heimild að ræða sem einungis ber að beita við þær aðstæður sem nánar er lýst í frumvarpsgreininni.

Um 26. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir heimild til veiða til klaks o.fl. Sú breyting er hér lögð til að veiðifélög þurfa ekki að afla sérstakrar heimildar til slíks, en eru allt að einu bundin af ákvæðum laga um fiskrækt, sbr. framkomið frumvarp þar um, m.a. um fiskræktaráætlun. Í öðrum tilvikum er ráðgert að Landbúnaðarstofnun geti heimilað veiðiréttarhöfum að veiða lax eða silung til hrognatöku vegna fiskræktar. Við það er miðað að við aðferðir til slíks séu viðkomandi undanþegnir ákvæðum III. og IV. kafla frumvarpsins.
    Að öðru leyti er í frumvarpsgreininni að finna reglur um heimildir til veiða í vísindaskyni, og kemur greinin í stað 2. mgr. 2. gr. og 22. gr. gildandi laga. Orðalag og framsetning frumvarpsgreinarinnar er nokkuð breytt frá gildandi lögum. Þannig er nú ráðgert að stofnanir sem stunda rannsóknir á fiskstofnum á lands- eða svæðavísu geti fengið veiðiskírteini útgefin sér til handa án sérstakrar tilgreiningar þeirra einstaklinga sem vísindaveiðar mega stunda og án upptalningar þeirra veiðivatna sem heimildin nær til. Í öðrum tilvikum er gert ráð fyrir óbreyttum reglum. Þó er sú breyting lögð til að Landbúnaðarstofnun geti gert ákveðnar kröfur um færni og kunnáttu umsækjenda veiðiskírteina. Loks er í 5. mgr. að finna reglu sem svarar til d-liðar 1. mgr. 90. gr. gildandi laga. Enn fremur er lögð sú skylda á veiðiréttarhafa og þá sem veiði stunda að skrásetja og skila merkjum til Landbúnaðarstofnunar samkvæmt reglum sem stofnunin setur.
    Í 1. málsl. 6. mgr. er að finna sambærilega reglu og nú er í 2. tölul. 13. gr. núgildandi laga. Enn fremur er þar að finna nýmæli sem gerir ráð fyrir heimild Landbúnaðarstofnunar til að láta merkja dauðan lax út stangveiði til að hægt sé að hafa eftirlit með því að það magn sem fjarlægt er úr veiðiánum sé í samræmi við veiðikvóta. Slíkar merkingar á dauðum laxi hafa lengi verið notaðar við eftirlit í Kanada og hafa nýlega verið teknar í notkun á Írlandi. Rétt þykir að hafa þennan möguleika fyrir hendi hér á landi ef nauðsyn krefur.

Um IV. kafla.

    Efnislega svarar þessi kafli til VI. kafla gildandi laga, en framsetning tekur mið af þeirri stefnu að einfalda lögin og hafa nánari útfærslu í reglugerð eða reglum sem settar verða um framkvæmd þeirra. Þá hafa verið færð undir þennan kafla frumvarpins ákvæði sem eru á víð og dreif í gildandi lögum og snerta veiðitæki og veiðiaðferðir.
    Í 27. gr. frumvarpsins er meginregla kaflans um veiðitæki og veiðiaðferðir í straumvatni en reglur 28. og 29. gr. kaflans eru henni til fyllingar. Í 30. gr. eru reglur um veiðitæki og aðferðir í stöðuvötnum og í 31. gr. um tæki og aðferðir við veiðar göngusilungs í sjó. Loks er í 32. gr. mælt fyrir um skyldu ráðherra til setningar reglugerðar til fyllingar ákvæðum kaflans og heimild Landbúnaðarstofnunar til setningar reglna.
    Ákvæði um heimild Landbúnaðarstofnunar til að leyfa veiðar í kistur og fyrirstöður kemur til vegna rannsókna og talninga á laxfiskum í veiðivötnum. Slík veiðitæki eru að sjálfsögðu ekki hugsuð til almennra veiða, þótt nýta mætti þau til klakveiði.

Um 27. gr.

    Ákvæði 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar svara til 1. mgr. 27. gr. gildandi laga. Hér eru heimiluð þau tæki sem löng venja stendur til notkunar á við veiðar og er ekki um að ræða neina breytingu þar á frá gildandi lögum.
    Efni 2. mgr. svarar í einu og öllu til 28. gr. gildandi laga. Með greininni er áréttað að bannað sé í straumvatni að veiða með þeim tækjum sem þar eru nefnd þótt heimilt sé að nýta þau við þær þröngu aðstæður sem frumvarpsgreinin nefnir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild Landbúnaðarstofnunar til þess að leyfa veiðar á göngusilungi með ádrætti, líkt og er í gildandi lögum. Í greininni er hins vegar áréttað að ádráttarveiði á laxi er aðeins heimil í vísindaskyni og til öflunar klakfisks. Ádráttarveiði á laxi mun nú nánast alfarið heyra sögunni til og þess utan standa fiskifræðileg og hagfræðileg rök til þess að það skref verði nú stigið til fulls að banna slíkar veiðar á laxi. Öðru máli gegnir hins vegar um göngusilung sem sums staðar er vannýtt veiðiauðlind.
    Í 4. mgr. er tekið upp efni sem nú er í 2. og 3. mgr. 30. gr. gildandi laga og fjallar um þær takmarkanir sem settar eru við því að veiði sé samtímis stunduð með föstum veiðivélum annars vegar og á stöng hins vegar á sömu svæðum í straumvötnum. Reglan styðst við þau fiskifræðilegu rök að illa fer á því að stunda saman veiði í straumvatni með svo ólíkum veiðitækjum. Auk þess er regla greinarinnar í góðu samræmi við reglu 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 28. gr.

    Efni 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar svarar til 1. og 2. mgr. 29. gr. gildandi laga og þarfnast ekki frekari skýringa, enda hafa reglur þar að lútandi verið í íslenskum rétti um langa hríð.
    Í 2. og 3. mgr. er að finna breytingar frá gildandi lögum þar sem greint er á milli netaveiði á laxi annars vegar og silungi hins vegar að því er varðar gerð og möskvastærð neta. Í 2. mgr. er kveðið á um að við veiðar á laxi megi net þau sem notuð eru ekki vera smáriðnari en svo að 4,5 cm séu á milli hnúta, þegar net eru vot, og á sama við um leiðara frá krókneti eða öðrum föstum veiðivélum. Ákvæði þetta er efnislega í samræmi við núgildandi lög. Með 3. mgr. er hins vegar ætlunin að fela veiðifélögum að setja reglur um gerð og möskvastærð silungsveiðineta á hverju og einu félagssvæði ef ætlunin er að stunda þar netaveiðar á silungi. Slíkar reglur skulu samþykktar af Landbúnaðarstofnun að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Rökin fyrir þessari tilhögun eru þau að silungsstofnar eru misjafnir að gerð og frá fiskifræðilegu sjónarmiði er rétt að ólíkar reglur gildi um gerð og möskvastærð silungsveiðineta eftir vatnakerfum.
    Mikilvægt er að í lögum sé skýrt kveðið á um lengd milli fastra veiðivéla í straumvatni, og er ákvæði um það efni í 4. mgr. frumvarpsgreinarinnar sem svarar til efnis 35. gr. gildandi laga. Er hugmyndin að atriði er lúta að nánari framkvæmd frumvarpsgreinarinnar verði í reglugerð, sbr. 32. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. frumvarpsgreinarinnar, sem svarar til 1. málsl. 5. mgr. 27. gr. gildandi laga, er mælt fyrir um þann fjölda fastra veiðivéla sem nota má í hverju straumvatni. Er til grundvallar lagt til að fjöldinn skuli vera sá hinn sami og var við gildistöku lax- og silungsveiðilaga, nr. 53/1957, enda almennt ekki efni til þess af fiskifræðilegum ástæðum að fjölga lögnum frá því sem þá var. Þó getur Landbúnaðarstofnun skv. 2. málsl. heimilað fjölgun lagna, ef slíkt telst óhætt að mati Veiðimálastofnunar. Ekki þykir ástæða til að taka upp í frumvarpið reglu 2. málsl. 5. mgr. 27. gr. gildandi laga sem er barn síns tíma.
    Með sama hætti og unnt er að fjölga lögnum skv. 5. mgr. gerir 6. mgr. frumvarpsgreinarinnar, sem svarar til 6. mgr. 27. gr. gildandi laga, ráð fyrir því að Landbúnaðarstofnun sé heimilt að mæla fyrir um fækkun fastra veiðivéla, ef viðgangur fiskstofna kallar á slíkt að mati Veiðimálastofnunar.
    Bótaregla 7. mgr. frumvarpsgreinarinnar er nýmæli, en á mjög skylt við aðrar bótareglur frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa hér.

Um 29. gr.

    Efni 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar svarar til 1. mgr. 30. gr. gildandi laga og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Í samræmi við það markmið frumvarps þessa að færa aukna ábyrgð á stjórnun veiða á hendur þeim sem hana bera er við það miðað í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar að veiðifélög eða veiðiréttarhafar skuli setja sér nánari reglur um stangveiði í einstökum veiðivötnum sem gilda eiga í a.m.k. átta ár, en gildi slíkra reglna er þó háð staðfestingu Landbúnaðarstofnunar sem í öllum tilvikum ber að afla faglegs mats Veiðimálastofnunar. Í 3. mgr. er nánar kveðið á um það hvað koma skuli fram í slíkum reglum. Það skal áréttað að þar er ekki um tæmandi talningu að ræða. Efni í þessa veru kemur nú m.a. fram í 2., 3. og 4. mgr. 30. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er loks fjallað um úrlausn ágreinings um skiptingu veiðitíma, veiðistaða og endurgjald fyrir stangveiði.

Um 30. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um veiðitæki og veiðiaðferðir í stöðuvötnum. Fyrsti málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar svarar til 1. málsl. 1. mgr. 38. gr. gildandi laga og 2. málsl. svarar til 1. málsl. 2. mgr. 38. gr. gildandi laga. Engar efnisbreytingar eru hér lagðar til.
    Efni 2. mgr. svarar í einu og öllu til 28. gr. gildandi laga, sbr. samhljóða athugasemdir við 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins. Um skýringu 3. mgr. vísast til athugasemda við 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins að breyttu breytanda. Í 4. mgr. er nánar kveðið á um það hvað koma skuli fram í reglum skv. 3. mgr., en ekki er þar um tæmandi talningu að ræða. Efni í þessa veru kemur nú m.a. fram í 2. málsl. 1. mgr. 38. gr., 2. málsl. 2. mgr. 38. gr., 3. mgr. 38. gr. og 5. mgr. 38. gr. gildandi laga.
    Efni 5. mgr. svarar til 4. mgr. 38. gr. en að öðru leyti er áréttað í frumvarpsgreininni að reglur laganna um veiði í straumvötnum skulu að breyttu breytanda gilda um veiði í stöðuvötnum.

Um 31. gr.

    Frumvarpsgreinin hefur að geyma reglur um sama efni og nú kemur fram í 1. mgr. 15. gr. gildandi laga, en betur þykir fara á því samræmisins vegna að koma slíkri reglu fyrir í IV. kafla frumvarpsins. Sú efnisbreyting er ein gerð frá gildandi lögum að ekki er lengur gert ráð fyrir því að ádráttarveiðar á göngusilungi séu stundaðar í netlögum í sjó, þegar af þeirri ástæðu að ekki er til þess vitað að þær hafi verið stundaðar hin seinni ár.

Um 32. gr.

    Í greininni er þau nýmæli að þar er í fyrsta lagi, sbr. 1. mgr., gert ráð fyrir skyldu ráðherra til útgáfu reglugerðar sem feli í sér nánari útfærslu ýmissa þeirra atriða sem lúta að veiðitækjum og aðferðum og sum hver eru í VI. kafla gildandi laga. Í öðru lagi er í 2. mgr. gert ráð fyrir því að Landbúnaðarstofnun geti með reglum heimilað notkun annarra veiðitækja og aðrar veiðiaðferðir en þær sem greindar eru í kaflanum.

Um V. kafla.    

    Í kaflanum er fjallað um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivatn. Reglur um sambærilegt efni er nú að finna í VII. kafla gildandi laga, en efni og framsetning í frumvarpinu er töluvert breytt frá gildandi lögum. Mannvirkjagerð samkvæmt kaflanum er í aðalatriðum tvíþætt, þ.e. annars vegar gerð fiskvegar og annarra sambærilegra mannvirkja, sbr. ákvæði 34. gr., og hins vegar efnistöku eða gerð annarra mannvirkja sem tálmað geta fiskför eða raskað geta lífríki vatns, sbr. 35. gr. Ákvæði 33. gr. felur í sér almenna reglu um nauðsynlegan undanfara heimilda til allarar mannvirkjagerðar í og við veiðivötn, þ.m.t. framkvæmda skv. 34. og 35. gr., en í 36. gr. er bótaregla sem nær til annarra tilvika en þeirra sem falla undir reglur 34. og 35. gr. Er regla 36. gr. frumvarpsins nýmæli.
    Við endurskoðun vatnalaga, sem nú stendur yfir, er áformað að herða á gildandi reglum um heimild til mannvirkjagerðar í vötnum. Reglur vatnalaga eru í eðli sínu almennar og eiga við um alla mannvirkjagerð í vatni. Reglur þessa kafla frumvarpsins eru hins vegar sérreglur sem koma til viðbótar ákvæðum vatnalaga og ná sérstaklega til mannvirkjagerðar og framkvæmda í og við veiðivötn. Af þessu leiðir að sá sem ræðst í framkvæmdir í veiðivatni á grundvelli ákvæða þessa kafla frumvarpsins þarf til viðbótar leyfum samkvæmt þessum lögum að afla sér tilskilinna leyfa eða heimilda samkvæmt vatnalögum og eftir atvikum fleiri lögum.

Um 33. gr.

    Reglur 1. og 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar eru að stofni til í 43. gr. gildandi laga. Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metra frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er nú háð leyfi Landbúnaðarstofnunar. Þá er það nýmæli lagt til að ávallt skuli leita álits viðkomandi veiðifélags, en veruleg brögð hafa verið að því að ráðist væri í framkvæmdir í og við veiðivötn án þess að leita álits viðkomandi veiðifélaga eða veiðiréttarhafa, ef ekki er veiðifélag starfandi. Reglur frumvarpsgreinarinnar fela í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar, sem 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar mælir fyrir um, getur leitt til þess að Landbúnaðarstofnun fallist ekki á framkvæmdina, þótt sá er hennar óskar hafi aflað sér jákvæðra álita annara umsagnaraðila.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er gert ráð fyrir því að umsókn um leyfi til framkvæmdar fylgi umsögn sérfræðings í veiðimálum. Gert er ráð fyrir því að slík umsögn geti verið frá Veiðimálastofnun eða sjálfstætt starfandi sérfræðiaðila.
    Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er lagt til að Landbúnaðarstofnun geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Hér er um að ræða þau tilvik þegar framkvæmd er umfangsmikil og líkur eru taldar á því að hún geti haft veruleg áhrif á lífríki veiðivatns. Landbúnaðarstofnun getur þá kveðið nánar á um til hvaða þátta líffræðileg úttekt skuli ná. T.d. gætu slík skilyrði fjallað um að rannsókn næði til búsvæða í vatni, hrigningarstöðva og veiðistaða eða til samanburðar á veiði til nokkurra ára.

Um 34. gr.

    Ákvæði 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar svarar til 1. mgr. 39. gr. gildandi laga, en orðalagi er vikið við og greinin aðlöguð breyttri stjórnsýslu á sviði landbúnaðarmála. Þess má vænta að í flestum tilvikum standi veiðifélag að framkvæmd af þessum toga, en ekki þykir útilokað að félagi sé ekki til að dreifa og því gerir frumvarpsgreinin ráð fyrir því að í slíku tilviki þurfi aukinn meiri hluta veiðiréttarhafa. Sú breyting kemur fram, miðað við gildandi lög, að gert er ráð fyrir því að auk fiskvegar kunni að koma til gerðar annarra sambærilegra mannvirkja, þótt ekki sé um fiskveg í eiginlegri merkingu þess hugtaks að ræða.
    Regla 2. mgr. svarar til 2. mgr. 39. gr. gildandi laga og varðar heimild til eignarnáms lands- og vatnsréttinda í þágu þeirrar mannvirkjagerðar sem frumvarpsgreinin tekur til. Er þar allt með hefðbundnum hætti.
    Í 3. mgr. er regla sem ekki er að finna í gildandi lögum og varðar heimild til þess að loka fiskvegi tímabundið eða varanlega. Á liðnum áratugum hefur fjöldi fiskvega verið reistur í veiðivötnum landsins. Reynsla af því hefur ekki í öllum tilvikum verið jákvæð og af hálfu veiðiréttarhafa hefur því verið hreyft að nauðsyn beri til þess að í nýjum lögum sé heimild til þess að loka fiskvegum, a.m.k. tímabundið. Með þessari málsgrein er brugðist við því.
    Bótaregla sú sem fram kemur í 4. mgr. er nýmæli, en byggist á sömu sjónarmiðum og bótareglur þær sem fram koma í fleiri greinum frumvarpsins. Eðli málsins samkvæmt tekur bótareglan fyrst og fremst mið af þeirri aðstöðu sem skapast þegar fiskvegur er fjarlægður og fiskigengd stöðvuð í efri hluta viðkomandi straumvatns. Líklegt er að veiðiréttarhafar, sem veiði missa fyrir sínu landi, verði fyrir fjártjóni af þeirri ástæðu. Hins vegar er ekki útilokað að fjártjón geti einnig af því hlotist þegar fiskvegur er gerður, þ.e. að gerð fiskvegar valdi því að veiði minnki fyrir landi tiltekinna fasteigna. Er því rétt að bótareglan veiti heimild til að bregðast við báðum tilvikum, en því er ekki fyrir að fara í gildandi lögum.

Um 35. gr.

    Frumvarpsgreinin fjallar um aðra mannvirkjagerð í eða við veiðivatn sem tálmað getur fiskför eða raskað lífríki þess. Er þar um að ræða framkvæmdir sem í flestum tilvikum eru leyfisskyldar samkvæmt öðrum lögum, t.d. vatna- og raforkulögum. Felst í greininni skylda framkvæmdaraðila til að kosta nauðsynlegar aðgerðir sem tryggja eiga fiskför og veiði í viðkomandi veiðivatni þrátt fyrir framkvæmdina.
    Í 1. mgr. er lögð sú skylda á framkvæmdaraðila að kosta gerð og viðhald fiskvegar ef framkvæmdin er til þess fallin að tálma fiskför. Á reglan sér nokkra stoð í 1. og 3. mgr. 41. gr. gildandi laga. Árétta ber að við gerð fiskvegar gilda ákvæði 34. gr. frumvarpsins að öllu leyti, þ.m.t. heimild sú til eignarnáms sem fram kemur í 2. mgr. 34. gr.
    Skyldan til gerðar fiskvegar skv. 1. mgr. er ekki fortakslaus því að í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er gert ráð fyrir undantekningu. Forsenda þeirrar undanþágu er sú að sýnt sé fram á það með mati að kostnaður af gerð fiskvegar sé til muna meiri en það tjón sem veiðiréttarhafi mun fyrirsjáanlega bíða af framkvæmdinni. Sambærileg regla er nú í 2. mgr. 41. gr. gildandi laga. Ekki þykir þörf á að taka upp í frumvarpið ákvæði 2. mgr. 41. gr. gildandi laga vegna þess að í breyttri mynd ná reglur þessa kafla frumvarpsins að fullu yfir þau tilvik sem þar er um fjallað.
    Regla 3. mgr. lýtur að þeirri stöðu sem uppi er þegar vatni er veitt úr eða í veiðivatn um pípur, skurði eða með öðrum sambærilegum hætti í þágu annarrar starfsemi eða hagsmuna en veiði. Regla þessi, sem nú á sér stoð í 1. mgr. 42. gr. gildandi laga, leggur þá skyldu á herðar þeim aðila, sem stendur að eða hagsbóta nýtur af framkvæmdinni, að tryggja það að fiskur eða seiði spillist ekki með því að ganga inn í veitutækin.
    Loks er í 4. mgr. frumvarpsgreinarinnar gert ráð fyrir ríkri skyldu þeirra aðila, sem standa fyrir vatnsmiðlunum, til samráðs við veiðifélag eða veiðiréttarhafa, í því skyni að takmarka sem frekast er kostur áhrif tíðra breytinga á vatnsmagni sem fyrir fram eru líklegar til þess að hafa áhrif á veiði og fiskför.

Um 36. gr.

    Í 34. og 35. gr. frumvarpsins eru bótareglur sem ná til tjóns sem leitt getur af þeim framkvæmdum sem um ræðir í þeim greinum. Ekki þykir útilokað að veiðiréttarhafar verði fyrir annars konar bótaskyldri skerðingu en þeirri sem um er fjallað í 34. og 35. gr. og er frumvarpsgrein þessari ætlað að taka til slíkra tilvika. Af þessu leiðir að greininni er bætt við önnur ákvæði kaflans í öryggisskyni. Þá skal áréttað að þessu til viðbótar njóta viðkomandi veiðiréttarhafar verndar almennra ákvæða vatnalaga.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum eru reglur um veiðifélög og starfsemi þeirra. Fylgt er í meginatriðum þeim reglum sem fram koma í gildandi lögum. Á það við um skylduaðildina sem slíka, stofnun, starfrækslu og skipulag veiðifélaga og tilhögun við gerð arðskrár. Nokkrar breytingar hafa á hinn bóginn verið gerðar á atkvæðisrétt innan veiðifélags. Um rök fyrir skylduaðild að veiðifélögum vísast til kafla III í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu. Gert er ráð fyrir þeirri tilhögun að ýmis nánari ákvæði, sem lúta að starfsemi veiðifélaga, verði tekin upp í reglugerð ráðherra. Þá er vakin á því athygli að ekki er í frumvarpinu að finna reglur um þau atriði sem nú koma fram í 2. og 3. mgr. 57. gr., 58. gr., 60. og 61. gr. gildandi laga. Að hluta til er um úrelt fyrirmæli að ræða, en að öðru leyti er reglum þessa efnis fyrir komið í III. kafla frumvarpsins um veiðistjórn og í IV. kafla um veiðitæki og veiðiaðferðir.

Um 37. gr.

    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur skýrt fram það sjónarmið að starfræksla veiðifélaga og skylduaðild að þeim sé þýðingarmikið úrræði til að ná markmiðum laganna svo sem þau eru nánar skilgreind í 1. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. er að öðru leyti fjallað um hlutverk veiðifélaga og á greinin sér að hluta til samsvörun í 44. gr. gildandi laga, en þó er orðalagi vikið við og framsetningu nokkuð breytt. Rétt er þó að taka fram að með frumvarpi þessu er veiðifélögum ætlað meira hlutverk en áður við framkvæmd laganna og er mið tekið af því við framsetningu málsgreinararinnar.
    Í 2. mgr. er það nýmæli að félagsmenn í veiðifélagi eru skilgreindir sem allir veiðiréttarhafar á viðkomandi félagssvæði, þ.e. þeir aðilar sem teknir eru upp í skrá skv. 12. gr. frumvarpsins og réttinda njóta á grundvelli arðskrár, sbr. 41. gr. Um fyrirkomulag atkvæðisréttar er hins vegar nánar fjallað í 40. gr.
    Í 3. mgr. er annars vegar kveðið á um fortakslaust forræði veiðifélags í umdæmi þess, sbr. 2. mgr. 45. gr. gildandi laga, og hins vegar bann við veiði félagsmanna án heimildar félags, sbr. 1. mgr. 57. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er það nýmæli að hafi veiðifélag ráðstafað í heild stangveiði á félagssvæði sínu er einstökum félagsmönnum skylt að heimila aðgang að veiðistöðum fyrir landi sínu. Eðlilegt er að í lögum séu tekin af öll tvímæli um það að þeir aðilar sem keypt hafa stangveiðirétt af veiðifélagi og þeir sem frá þeim leiða rétt sinn njóti ótvíræðrar heimildar til að nýta þann rétt með nauðsynlegum umferðarrétti og aðgangi um lönd þeirra fasteigna sem að veiðivötnum liggja. Til mótvægis er hins vegar lögð á það rík áhersla í 2. málsl. málsgreinarinnar að ávallt skuli þeir sem aðgangs njóta gæta þess að valda sem minnstri röskun á hagsmunum félagsmanns.
    Í 5. mgr. er að finna skuldskeytingarreglu þá sem fram kemur í 1. mgr. 59. gr. gildandi laga, en með breyttu orðalagi og framsetningu.
    Í 6. mgr. er áréttuð sú eignarréttarstaða í skiptum veiðifélags og félagsmanna að félagið sjálft er ekki handhafi neins konar eignarréttarheimilda, heldur teljast sjálfstæðar eignir félagsins tilheyra einstökum félagsmönnum og veiðiréttarhöfum í samræmi við hlutdeild þeirra í félaginu á grundvelli arðskrár.
    Í 7. mgr. er mælt fyrir um skyldu ráðherra til þess að útfæra nánar í reglugerð ýmis atriði er varða skipan og starfshætti veiðifélaga, en betur þykir fara á að slík ákvæði séu í reglugerð en lögum.

Um 38. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um umdæmaskipan veiðifélaga sem getur verið með fernum hætti. Umdæmi einstaks veiðifélags getur í fyrsta lagi tekið yfir heilt fiskihverfi, í öðru lagi einstakt veiðivatn í fiskihverfi, í þriðja lagi hluta af veiðivatni, þar sem sérstaklega hagar til um veiði eða vatnskosti, og í fjórða lagi veiðivötn á afrétti sem eru hluti af einu eða fleiri fiskihverfum og eru á sama landsvæði. Er þetta ekki efnisbreyting miðað við 1. mgr. 45. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er mælt svo fyrir að Landbúnaðarstofnun fari með ákvörðunarvald um umdæmi einstakra veiðifélaga í samræmi við þau viðmið sem fram koma í 1. mgr., en að höfðu samráði við veiðiréttarhafa. Á grundvelli gildandi laga er nú þegar komin á föst umdæmaskipan veiðifélaga, sem reynst hefur vel, og er því líklegt að ekki reyni á reglu þessarar málsgreinar nema í undantekningatilvikum. Efnislega sambærileg regla kemur nú fram í 1. mgr. 46. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er regla sama efnis og nú kemur fram 54. gr. gildandi laga, en orðalagi er breytt. Lýtur hún að stöðu einstakra fasteigna þar sem möguleikar á veiði eru upphaflega ekki fyrir hendi en koma síðar til. Skal sú fasteign tilheyra veiðifélagi aðliggjandi fiskihverfis og viðkomandi veiðiréttarhafa er skylt að gerast félagi.
    Í 4. mgr. er regla sama efnis og fram kemur í 3. mgr. 45. gr. gildandi laga. Við afmörkun á félagssvæði veiðifélags skal samkvæmt frumvarpinu almennt hafa hliðsjón af því hvar veiði er stunduð á tilteknu svæði. Regla 4. mgr. felur í sér heimild til að víkja frá þessu viðmiði og láta umdæmi félags, þegar sérstaklega stendur á, ná lengra upp með veiðivatni. Er í dæmaskyni nefnt það tilvik þegar fiskrækt er stunduð í straumvatni ofan veiðisvæða.

Um 39. gr.

    Regla 1. mgr. mælir fyrir um frumkvæðisrétt að stofnun veiðifélags, og er hann í fyrsta lagi á hendi viðkomandi veiðiréttarhafa, en að þeim frátöldum á hendi Landbúnaðarstofnunar. Er við það miðað að á slíkt frumkvæði Landbúnaðarstofnunar reyni einungis í þeim tilvikum þar sem veiðiréttarhafar sinna ekki þeirri skyldu sinni að stofna til félags. Er regla sama efnis nú í 2. mgr. 46. gr. gildandi laga, en er hér tekin upp nokkuð breytt.
    Í 2. mgr. er nánar mælt fyrir um boðun stofnfundar. Samkvæmt ákvæðinu skal boða alla þekkta veiðiréttarhafa á fyrirhuguðu félagssvæði, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Ráðherra er í reglugerð ætlað að setja nánari ákvæði um boðun stofnfundar og dagskrá hans. Til annarra funda en stofnfundar í veiðifélagi skal boða með sama hætti. Í greininni felst að nokkru leyti tilvísun til þeirra atriða sem nú koma fram í 47. og 1. mgr. 48. gr. gildandi laga, en betur þykir fara á því að nánari útfærsla sé í reglugerð.
    Í 3. mgr. eru fyrirmæli um samþykktir veiðifélags og þau efnisatriði sem þar er nauðsynlegt að komi fram. Á efni greinarinnar sér að hluta til fyrirmynd í 3. mgr. 49. gr. gildandi laga, en með verulegum viðbótum þó. Fyrst skal þess getið að ætlast er til að í samþykktum verði taldar upp þær fasteignir sem veiðiréttindi eiga en hafi veiðiréttur verið skilinn frá fasteign skulu taldir upp þeir einstaklingar og/eða lögaðilar sem hinn aðskilda veiðirétt eiga. Í öðru lagi er veiðifélögum samkvæmt frumvarpinu ætlað aukið hlutverk við framkvæmd nýrra lax- og silungsveiðilaga, þótt ekki séu þau gerð að eiginlegu stjórnvaldi í skilningi stjórnsýslulaga. Af hinu aukna hlutverki veiðifélaga leiðir að gera verður ríkar kröfur til vandaðrar málsmeðferðar af þeirra hálfu enda eru þau í störfum sínum að fjalla um þýðingamikil réttindi manna og skyldur, þar á meðal stjórnarskrárvarin eignarréttindi. Því er kveðið á um það í málsgreininni að í samþykktum skuli vera málsmeðferðarreglur. Gert er ráð fyrir því að í reglugerð ráðherra, sem sett verður um veiðifélög, verði nánari fyrirmæli um útfærslu samþykktanna, þ.m.t. málsmeðferðarreglur þar sem hliðsjón verður höfð af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Loks er gert ráð fyrir því nýmæli að í samþykktum veiðifélags sé kveðið á um skyldu til að leggja fram fjárhagsáætlun komandi starfsárs á aðalfundi félagsins.
    Samkvæmt 4. mgr. er heimilt að deildarskipta starfsemi veiðifélags, en sambærilega reglu er að finna í 4. mgr. 49. gr. gildandi laga.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um nauðsynlegt atkvæðamagn svo samþykktir teljist löglega gerðar, en sambærileg regla er í 1. mgr. 49. gr. gildandi laga. Atkvæði 2/ 3atkvæðisbærra félagsmanna, sbr. 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar, þarf til þess að setja veiðifélagi samþykktir eða breyta þeim. Það frávik er þó heimilað samkvæmt frumvarpsgreininni að sé fundarsókn ekki næg þá skuli boða til annars fundar og ráði þar afl atkvæða þeirra félagsmanna.
    Í 6. mgr. eru fyrirmæli um það hvernig bregðast skuli við setji veiðifélag sér ekki lögmætar samþykktir, en sambærileg regla er nú í 2. mgr. 49. gr. gildandi laga. Skal Landbúnaðarstofnun þá setja félaginu samþykktir sem gilda þar til lögmætar samþykktir hafa verið settar af félaginu sjálfu.
    Í 7. mgr. mælt fyrir um heimild þess sem vefengja vill félagsstofnun til þess að bera ágreining þar að lútandi undir dómstóla innan sex mánaða frá stofnfundi. Skyld regla er í 53. gr. gildandi laga en er hér verulega einfölduð.
    Loks er í 8. mgr. mælt fyrir um birtingu samþykkta.

Um 40. gr.

    Í greininni er að finna reglur um atkvæðisrétt innan veiðifélags, en reglur í þá veru eru nú í 2. og 3. mgr. 48. gr. gildandi laga. Er ljóst að um þetta atriði hefur löngum verið deilt og verður án efa áfram. Við mótun þessarar reglu frumvarpsins er það fyrrnefnda markmið haft að leiðarljósi að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggja afkomu sína, að öllu leyti eða að hluta, á veiðinytjum. Ber meginregla 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar þess merki þar sem kveðið er á um þá óbreyttu tilhögun að eitt atkvæði fylgir hverri jörð sem veiðirétt á. Allt að einu er ljóst, og verður ekki fram hjá þeirri staðreynd litið, að mjög örar breytingar verða nú á eignarhaldi fasteigna utan þéttbýlis, sem og á atvinnu- og samfélagsháttum. Er á því skilningur að tryggja verði með einum eða öðrum hætti vernd þeirra aðila sem eiga veiðirétt í skilningi II. kafla laganna og teljast félagsmenn í veiðifélagi, sbr. fyrirmæli 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins, en fullnægja ekki því skilyrði að fara með atkvæðisrétt fyrir jörð í skilningi 1. mgr. frumvarpsgreinar þessarar. Þá þykir jafnframt verða að taka réttmætt tillit til hagsmuna þeirra aðila sem eru tiltölulega stórir í arðskrá en vægi þeirra endurspeglast ekki nægilega í atkvæði greiddu á grundvelli 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar. Við þessu er brugðist með undantekningarreglu þeirri sem er í 7. mgr. frumvarpsgreinarinnar en þar er kveðið á um það að ef lagt sé fyrir fund í veiðifélagi að ráðast í framkvæmdir vegna starfsemi félagsins sem hafi fjárútlát í för með sér, er nema hærri fjárhæð en 25% af tekjum af veiði á því ári, geti hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Þá er gert ráð fyrir því í sömu málsgrein að í samþykktum veiðifélags sé heimilt að ákveða að sama regla um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilvikum sem varða ákvarðanatöku í veiðifélagi. Af sjálfu leiðir að eigi að koma á slíkri tilhögun ber að fara eftir reglum laganna um breytingar á samþykktum, sbr. 5. mgr. 39. gr. frumvarpsins, og gildir þá meginregla laganna um atkvæðisrétt, sbr. 1. mgr. frumvarpsgreinar þessarar. Eru þetta óneitanlega grundvallarbreytingar frá gildandi lögum. Í frumvarpsgreininni eru jafnframt reglur um það hvernig farið skuli að þegar jarðir hafa verið sameinaðar, jörð/lögbýli fellt úr þeim flokki, sem það var áður í, hvernig fyrirsvari einstakra jarða skuli háttað o.fl.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram sú fyrrnefnda meginregla að eitt atkvæði fylgir hverri jörð sem veiðirétt á. Tekið er fram að með jörð sé átt við þær jarðir sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga 1976, en við þau tímamörk þykir eðlilegt að miða í ljósi þess að þá hafði lögbýlaskipan landsins tekið á sig nokkuð endanlega mynd. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að árétta að til eru ýmsir flokkar fasteigna sem haft geta ólíka réttarstöðu. Fyrsta og nærtækasta dæmið er sú aðgreining í löggjöf sem byggð er á því að til séu annars vegar eignarlönd og hins vegar þjóðlendur. Annars konar afbrigði er lóð í þéttbýli ásamt mannvirkjum en hún telst ein tegund fasteigna. Sama á við um útskipta lóð undir frístundahús í dreifbýli. Þriðja tilbrigði fasteignar er jörð samkvæmt jarða- og ábúðarlögum og hugtökin lögbýli samkvæmt ábúðarlögum og eyðibýli hafa sérstaka merkingu. Þessi mismunandi réttaráhrif birtast með glöggum hætti í frumvarpinu. Meðan meginreglan er sú að öllum fasteignum sem land eiga að veiðivötnum tilheyrir veiðiréttur þá eru það aðeins eigendur eða ábúendur jarða í þessum skilningi 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar sem að meginstefnu fara með atkvæðisrétt í veiðifélagi. Þá skal áréttað það nýmæli að með því að hverri jörð fylgir eitt atkvæði skiptir ekki máli þótt sami aðili eigi fleiri en eina jörð, hann fer þá með eitt atkvæði fyrir hverja þeirra. Loks er í 1. mgr. tekin upp regla 3. mgr. 48. gr. gildandi laga um sambærilega réttarstöðu þeirra jarða sem veiðiréttur fylgir í vötnum á afrétti í þjóðlendu, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er regla sem nú kemur fram í 4. málsl. 2. mgr. 48. gr. gildandi laga og lýtur að þeirri stöðu þegar veiðiréttur einnar og sömu jarðarinnar hefur skipst á fleiri hendur. Er gert ráð fyrir því nýmæli að skylt sé að tilkynna veiðifélagi með sannanlegum hætti hver fari með atkvæðisrétt þegar svo háttar.
    Í 3. og 4. mgr. eru reglur um það annars vegar hvernig með skuli farið séu jarðir eru sameinaðar og hins vegar þegar veiðiréttur hefur verið skilinn frá jörð eða jörð telst ekki vera slík lengur. Skýra reglur þessar sig sjálfar.
    Í 5. mgr. er sú regla 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins áréttuð að sé jörð leigð samkvæmt ábúðarlögum skuli ábúandi fara með atkvæðisrétt ábúðarjarðar, nema á annan veg hafi verið samið.
    Þá er í 6. mgr. tekin upp óbreytt regla niðurlagsákvæðis 2. mgr. 48. gr. gildandi laga um heimild til framsals atkvæðisréttar með umboði. Almennar reglur um umboð koma grein þessari að öðru leyti til fyllingar.
    Í 7. mgr. er nýmæli, sem áður er getið, og felst í þeirri undantekningu frá meginreglu 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar að eigi að ráðast í framkvæmdir í þágu starfsemi félagsins sem hafa fjárútlát í för með sér, sem nema hærri fjárhæð en 25% af tekjum af veiði á því ári, geti hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Leggja verður á það áherslu að eigi regla þessi að ná tilgangi sínum verður beiting hennar að vera með málefnalegum hætti. Sem dæmi um hið öndverða má nefna það tilvik að meiri hluti í veiðifélagi samkvæmt meginreglu 1. mgr. dreifi ákveðnum útgjöldum á fleiri ár án þess að fyrir því séu efnisleg rök og geri þar með undantekningarreglu 7. mgr. óvirka. Þá er, eins og áður segir, gert ráð fyrir að í samþykktum veiðifélags sé heimilt að ákveða að sama regla um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilvikum sem varða ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélags. Um breytingu þessa er að öðru leyti fjallað í skýringum við frumvarpsgreinina hér að framan.
    Loks er í 8. mgr. greinarinnar almenn regla um afl atkvæða á fundum veiðifélags, en sambærileg regla er nú í niðurlagi 1. mgr. 49. gr. gildandi laga. Er meginreglan sú að meiri hluti mættra og atkvæðisbærra félagsmanna er bær til ákvarðanatöku.

Um 41. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um skyldu til arðskrárgerðar og er um að ræða lítið breytt fyrirmæli frá 1. málsl. 1. mgr. 50. gr. gildandi laga, auk þess sem hér eru tekin upp fyrirmæli 2. málsl. 2. mgr. 50. gr. Gerð arðskrár er eðlilega eitt lykilatriðið í starfrækslu þess veiðifélagakerfis sem hér er við lýði og arðskrá á að endurspegla eignarhlutföll einstakra fasteigna/veiðiréttarhafa í þessari auðlind viðkomandi veiðivatns. Á grundvelli þeirrar reynslu sem fengist hefur í tíð gildandi laga er ekki ástæða til þess að hrófla við þeim grundvelli sem felst í arðskrá sem slíkri, þ.e. sem ákveðnu formi til þess að meta og dreifa arði af nýtingu auðlindarinnar.
    Í 2. mgr. eru talin upp þau grundvallaratriði sem öðru fremur ber að taka tillit til við arðskrárgerð. Í 1. mgr. 50. gr. gildandi laga er kveðið á um að við niðurjöfnun veiði eða úthlutun arðs af henni skuli m.a. taka tillit til aðstöðu við netaveiði og stangveiði, landlengd að veiðivatni og hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks. Eru þetta þau atriði sem hingað til hefur í framkvæmd verið stuðst við þegar arðskrár er gerðar. Í ljósi eignarréttar hefur ekki verið um það deilt að eðlilegt sé að hin tilgreindu atriði séu lögð til grundvallar við arðskrárgerð þó að hagsmunaaðila kunni að greina á um innbyrðis vægi einstakra þátta. Hins vegar er til þess að líta að þótt atriði þau sem fram koma í gildandi lögum verði áfram grundvallaratriði við arðskrármat þá er nauðsynlegt að líta til þeirrar þróunar sem óhjákvæmilega hefur átt sér stað í tímans rás. Upphafleg fyrirmæli um viðmið í þessa veru voru lögtekin með 64. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/1932. Gildandi fyrirmæli voru í lög leidd með 70. gr. laga nr. 53/1957. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því er varð að þeim lögum sagði svo:
    „Hún kemur í stað 65. gr. laganna og mælir fyrir um arðskrár veiðifélaga. Rétt þykir að breyta þeim meginreglum, sem fara á eftir, þegar arði af félagsveiði er jafnað niður, því að aðstæður hafa breytzt frá því, er lög um lax- og silungsveiði voru sett. Þá var lítil veiði í höfuðám ofanverðum og þverám, því að stangarveiði var þá fremur fátíð og langmest um netjaveiði neðanvert í höfuðám eða við ósa þeirra. Þótti því verða að jafna arðinum niður eftir veiðimagni eða áætluðu veiðimagni jarða. Síðan lögin voru sett, hefur stangarveiði færzt mjög í vöxt, og hefur reynsla sýnt, að hún er jafnan mest ofarlega í fiskihverfi hverju. Augljóst er, að hrygningarsvæði og uppeldisskilyrði ráði úrslitum um afkomu fiskstofns. Hitt er jafnvíst, að ekki nýtast þessi skilyrði, nema fiskurinn fái gengið leið sína frá sjó til hrygningar- og uppeldissvæða, sem jafnan eru ofanvert í ám. Virðist því rétt að taka tillit til allra þeirra atriða, er í greininni getur, enda hefur sú raun orðið á, að víða hefur það verið gert, þá er arðskrá hefur verið sett með mati.“ (Alþt. 1955, A-deild, bls. 420.)
    Við gerð frumvarps þessa hefur verið litið til nokkurra niðurstaðna yfirmats vegna arðskrárgerðar frá seinni árum. Þó að hin lögbundnu viðmið séu eðli málsins samkvæmt þeir meginþættir sem litið er til við arðskrárgerð er allt að einu ljóst að á tæpri hálfri öld hefur mikið vatn runnið til sjávar og afstaða manna til vægis þeirra einstöku þátta sem til grundvallar arðskrármati liggja breyst og ný sjónarmið komið til sögunnar. Þannig er t.d. augljóst af rýni í tilvitnaðar matsgerðir að vægi aðstöðu til netaveiði minnkar jafnt og þétt í yngri matsgerðum. Það er hins vegar vandasamt að ætla að breyta í grundvallaratriðum þeim forsendum sem arðskrárgerð hefur verið byggð á um langan aldur og er óhjákvæmilega undirstaðan í gildandi mati í öllum helstu veiðivötnum landsins. Þó er lagt til að auk þeirra atriða sem eru í gildandi lögum verði m.a. litið til vatnsmagns og stærðar vatnsbotns fyrir landi viðkomandi fasteignar til fyllingar fyrirmælum um landlengd (bakkalengd), en þessi atriði þykja skipta verulegu máli. Áhersla er þó lögð á það að alls ekki er um tæmandi upptalningu að ræða á þeim atriðum sem áhrif geta haft við arðskrárgerð. Eru engar forsendur til þess í lögum að njörva slíkt niður fyrir fram enda á því byggt að úr ágreiningi í þeim efnum sé skorið í matsgerðum þeim sem liggja arðskrám til grundvallar og ófært að binda hendur matsmanna í stóru og smáu fyrir fram og án nauðsynlegs tillits til sérstakra aðstæðna í hverju einstöku veiðivatni.
    Í 3. og 4. mgr. eru reglur um þau atriði sem nú koma fram í 2. mgr. 50. gr. gildandi laga. Lúta þau annars vegar að samþykkt arðskrár á félagsfundi veiðifélags, sbr. 3. mgr., og þeim aukna meiri hluta sem þarf til samþykktar arðskrár. Er þar um sömu reglur að ræða og gilda um samþykktir veiðifélaga, sbr. 5. mgr. 39. gr. frumvarpsins. Hins vegar er í 4. mgr. um það fjallað hvernig við skuli brugðist ef fyrirliggjandi arðskrá er ekki samþykkt á félagsfundi. Ber stjórn veiðifélags þá að óska eftir mati skv. VII. kafla. Einnig er sérhverjum félagsmanni, sem telur á hlut sinn gengið í arðskrá, rétt að krefjast slíks mats. Krafa þar að lútandi þarf þó að koma fram innan tveggja mánaða frá samþykkt arðskrár á félagsfundi.
    Þá er í 5. mgr. kveðið á um nokkuð breytt fyrirkomulag birtingar og gildistöku arðskrár. Er lagt til að arðskrá skuli staðfest af Landbúnaðarstofnun og birt í B-deild Stjórnartíðinda eftir að frestir til að krefjast mats eru liðnir. Tekur hún þá gildi tveimur mánuðum eftir slíka birtingu. Komi hins vegar fram krafa um mat gildir eldri arðskrá, ef henni er til að dreifa, þar til matsgerð skv. VII. kafla liggur fyrir og arðskrá á grundvelli hennar hefur verið staðfest og birt. Sé um fyrstu arðskrá að ræða gildir hún með afturvirkum hætti.
    Í 6. mgr. eru reglur sem nú koma fram í 3. mgr. 50. gr. gildandi laga og lúta að heimild félagsfundar veiðifélags, stjórnar eða einstakra félagsmanna til þess að krefjast endurskoðunar gildandi arðskrár. Er nú lagt til eitt samræmt tímaviðmið, átta ár, en samkvæmt gildandi lögum er heimilt að krefjast endurskoðunar í fyrsta sinn fimm árum eftir gildistöku fyrstu arðskrár en síðan á átta ára fresti.
    Loks er í 7. mgr. frumvarpsgreinarinnar kveðið á um að nánari fyrirmæli um verklag við útfærslu arðskrár skuli sett í reglugerð ráðherra.

Um 42. gr.

    Í þessari grein eru ýmis nánari fyrirmæli um starfshætti veiðifélaga sem nauðsynlegt þykir að eigi sér stoð í lögunum sjálfum.
    Í 1. mgr. er að finna reglu sem nú kemur fram í 51. gr. gildandi laga og kveður á um þá skipan að félagsmenn veiðifélags skuli greiða kostnað af starfsemi þess í sama hlutfalli og þeir taka arð. Er þessi skipan í góðu samræmi við meginreglur íslensks réttar um óskipta sameign.
    Í 2. mgr. er regla sem lýtur að staðfestingu Landbúnaðarstofnunar á samþykktum veiðifélags og arðskrá. Skyld regla er nú í 52. gr. gildandi laga, en hún er hér einfölduð verulega og hugmyndin að um nánari útfærslu verði kveðið á í reglugerð. Þá er vakin á því athygli að Landbúnaðarstofnun skal staðfesta samþykktir og arðskrá, en landbúnaðarráðherra fer með það vald.
    Í 3. mgr. er fyrirmæli um skyldu veiðifélags til skýrslugjafar um starfsemi félagsins o.fl. til Landbúnaðarstofnunar, en sambærilegt ákvæði er nú 55. gr. gildandi laga.
    Loks eru í 4. mgr. tekin upp fyrirmæli 56. gr. gildandi laga um fyrirkomulag og tilhögun funda veiðifélags, þ.m.t. aðalfunda. Verði frumvarpið samþykkt er lögbundið að aðalfundi veiðifélags skuli halda fyrir 1. júní ár hvert. Að öðru leyti er til þess ætlast að nánari útfærsla þess verði í reglugerð.

Um 43. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um heimild félagsmanna til þess að kæra ákvarðanir veiðifélags eða félagsstjórnar til Landbúnaðastofnunar sem hefur á grundvelli ákvæðisins heimild til að fella ákvörðunina úr gildi reynist hún ólögmæt. Í ákvæðinu felst að Landbúnaðarstofnun hefur lögmætiseftirlit með ákvörðunum veiðifélaga á grundvelli kæru sem til hennar er beint. Landbúnaðarstofnun getur einvörðungu fellt ákvörðun úr gildi, reynist hún ólögmæt, eða kveðið upp úr um að hún skuli óröskuð standa, reynist hún lögmæt. Landbúnaðarstofnun hefur ekki á grundvelli ákvæðisins heimild til þess að taka nýja ákvörðun í stað þeirrar sem felld er úr gildi eða breyta efni hennar.
    Tekið er fram að ákvörðun Landbúnaðarstofnunar samkvæmt ákvæði þessu verður ekki kærð til landbúnaðarráðherra. Er talið rétt að deilur af þessum toga verði almennt leystar fyrir dómstólum vilji menn ekki una við úrskurð Landbúnaðarstofnunar. Tekið skal fram að heimilt er á hinn bóginn að kæra aðrar stjórnvaldsákvarðanir Landbúnaðarstofnunar til landbúnaðarráðherra á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla felast reglur um mat á grundvelli laganna og ákvörðun bóta, sem og úrlausn annarra ágreiningsefna sem matsnefnd lax- og silungsveiðilaga er ætlað að leysa úr, bæði samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps verði það að lögum, sem og annarra laga. Er hér um verulega breyttar reglur að ræða miðað við gildandi lög. Markmið breytinganna er m.a. að stytta þann tíma sem mat og úrlausn annarra ágreiningsefna tekur og að draga úr kostnaði. Ekki er lengur gert ráð fyrir því að mat fari fram á tveimur stjórnsýslustigum, þ.e. undirmat og yfirmat, heldur verði ein matsnefnd, ekki ósvipuð matsnefnd eignarnámsbóta, látin annast matið. Auk framangreindra markmiða er þetta fyrirkomulag til þess fallið að tryggja meira samræmi en áður við úrlausn mála og þar með að auðveldara verði en ella að sjá framkvæmdina skýrt fyrir.

Um 44. gr.

    Í þessari grein er fjallað um skipan matsnefndar lax- og silungsveiðilaga. Lagt er til að landbúnaðarráðherra skipi nefndarmenn og skulu tveir skipaðir að tilnefningu Hæstaréttar Íslands og einn að tilnefningu stjórnar Landssambands veiðifélaga.
    Matsnefndinni er heimilt að kalla eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknastofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls. Kostnaður af slíku mati telst til matskostnaðar sem fellur á aðila málsins, sbr. 2. mgr. 47. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að laun og annar kostnaður af starfsemi matsnefndarinnar greiðist með fjárveitingum af fjárlögum. Á hinn bóginn skal við ákvörðun matskostnaðar, sbr. 47. gr. frumvarpsins, miða við að hann standi almennt undir kostnaði af starfsemi nefndarinnar. Sá kostnaður sem til hefur fallið við framkvæmd hverrar matsgerðar á því á endanum að greiðast af aðilum málsins, sbr. 1. mgr. 47. gr.

Um 45. gr.

    Í greininni er fjallað um þau álitaefni sem matsnefndinni er falið að leysa úr. Í 1. mgr. er áréttað hvernig arðskrá verður skotið til matsnefndar, sbr. nánari útlistun í 41. gr.
    Ákvæði 2. mgr. svipar til 1. mgr. 101. gr. gildandi lax- og silungsveiðilaga en í 3. mgr. er tekið fram að nefndin fari að auki með önnur þau verkefni sem henni eru falin samkvæmt frumvarpi þessu, sem og öðrum lögum.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um þau formskilyrði sem erindi til matsnefndarinnar þurfa að uppfylla. Þannig skulu erindi ávallt lögð fyrir nefndina skriflega og ágreiningsefnið skýrt afmarkað. Ef erindi uppfyllir ekki þetta skilyrði ber matsnefndinni að leiðbeina aðilum þar um og gefa þeim færi á að bæta úr, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Við fyrstu fyrirtöku er síðan farið á ný yfir afmörkun á ágreiningsefninu og ákvarðar nefndin það nánar sé ástæða til, sbr. 2. mgr. 46. gr. frumvarpsins.

Um 46. gr.

    Í þessari frumvarpsgrein er fjallað um málsmeðferð fyrir matsnefnd lax- og silungsveiðilaga. Um meðferð mála fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg kveðið í greininni. Í 1. mgr. er að finna það nýmæli að matsnefndin getur óskað eftir því við hlutaðeigandi veiðifélag að það annist tilkynningu til allra eigenda veiðiréttar um fyrirtöku máls. Að öðru leyti skýrir efni greinarinnar sig sjálft.

Um 47. gr.

    Í greininni er fjallað um málskostnað sem aðilum máls ber að greiða. Greinin er á því byggð að aðilar málsins eigi að bera allan kostnað sem af matsgerðinni hlýst.

Um 48. gr.

    Í frumvarpsgreininni er fjallað um stjórnsýslulega stöðu matsnefndar lax- og silungsveiðilaga. Nefndin telst sjálfstæð stjórnsýslunefnd og af þeim sökum getur ráðherra ekki gefið henni bindandi fyrirmæli um úrlausn mála og úrskurðum hennar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.

Um 49. gr.

    Í frumvarpsgreininni er fjallað um bótaskylda skerðingu á veiðirétti. Í 102. gr. gildandi lax- og silungsveiðilaga er að finna svipað ákvæði. Ákvæði frumvarpsins hefur verið einfaldað nokkuð og sett fram á almennari hátt.

Um VIII. kafla.

    Í þessum kafla er að finna refsi- og réttarfarsákvæði þau sem gilda eiga verði frumvarp þetta að lögum. Hefur sú leið verið farin að taka efnislega upp ákvæðin í XVI. kafla gildandi laga sem bæði þykja hafa reynst vel og eru öll tiltölulega nýlega endurskoðuð. Hefur orðalagi verið vikið við á nokkrum stöðum og ákvæðin að öðru leyti heimfærð að nýjum lögum. Þykja ákvæði kaflans í heild ekki útheimta frekari skýringar.

Um 50. gr.

    Í greininni eru tekin saman refsiákvæði þau sem nú eru í 104. gr. gildandi laga. Þykir ákvæðið ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 51. gr.

    Í greininni er fjallað um fullframningarstig brota skv. 50. gr. og á greinin sér samsvörun í 105. gr. gildandi laga. Þarfnast ákvæðið ekki sérstakra skýringa.

Um 52. gr.

    Í þessari grein felst sérstök bótaregla til handa brotaþola og er þar m.a. gert ráð fyrir því að brotaþoli fái hinn ólögmæta afla eða andvirði hans auk skaðabóta séu skilyrði bótaréttar fyrir hendi. Sambærileg regla er í 106. gr. gildandi laga. Þykir ákvæðið ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 53. gr.

    Í þessari grein er ákvæði um upptöku veiðitækja og afla, en reglan er nú í 107. gr. gildandi laga. Þykir ákvæðið ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 54. gr.

    Í greininni er kveðið á um það að sektir samkvæmt lögunum og andvirði upptækra veiðitækja skuli renna í ríkissjóð, sbr. 108. gr. gildandi laga. Þykir ákvæðið ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 55. gr.

    Loks er í þessari grein mælt fyrir um aðkomu Landhelgisgæslunnar að löggæslu samkvæmt lögunum. Er sambærilegt ákvæði í 109. gr. gildandi laga. Þykir ákvæðið ekki þarfnast sérstakra skýringa.

Um 56. gr.

    Í greininni er að finna nýmæli. Lagt er til að lögregla og Landhelgisgæsla Íslands geti lagt stjórnvaldssekt á skipstjóra eða hvern þann sem veitt hefur lax í sjó og ekki sleppt honum strax aftur. Hér er um að ræða brot sem auðsönnuð eru, t.d. þegar starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands koma um borð í báta eða skip og finna þar lax sem veiðst hefur. Þar sem oftast er um að ræða fábrotin mál þykir það horfa til aukinnar skilvirkni og draga verulega úr kostnaði við meðferð mála að fela lögregluyfirvöldum heimild til álagningar stjórnvaldssekta. Vilji maður ekki una stjórnvaldssekt getur hann höfðað mál og fengið dómstóla til þess að skera úr því hvort sektin hafi verið réttilega á hann lögð.

Um IX. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins eru gildistökuákvæði og ákvæði um breytingu og brottfall laga. Er þar í flestum atriðum um hefðbundin ákvæði að ræða.

Um 57. gr.

    Í ákvæði þessu er fjallað um gildistöku laganna og lagaskilareglur. Af 2. mgr. greinarinnar leiðir að ákvæðum um matsgerðir verður aðeins beitt um þau mál sem upp koma eftir gildistöku laganna. Þeim málum sem eru til meðferðar hjá matsmönnum skv. 2. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, ber að ljúka samkvæmt þeim lögum, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Skv. 4. mgr. verður heimilt að kæra undirmat til matsnefndar lax- og silungsveiðilaga sé það gert innan tveggja mánaða frá birtingu mats. Skv. 5. mgr. verður mat yfirmatsmanna borið undir matsnefnd til endurskoðunar eftir ákvæðum 2. mgr. 44. gr. frumvarpsins. Meiri hluti atkvæðisbærra félagsmanna er því bær til þess að taka ákvörðun um að bera slíkt mat undir matsnefndina. Þá getur sérhver eigandi veiðiréttar í veiðifélagi skotið máli til matsnefndar þegar átta ár eru liðin frá því að yfirmatsmenn kváðu síðast upp úrskurð sinn um arðskrá.

Um 58. gr.

    Í greininni er lagt til að þau ákvæði sem nú er að finna í 96. gr. laga nr. 76/1970 verði tekin upp í lög nr. 80/2005, um Landbúnaðarstofnun.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Svo sem víða hefur verið vikið að í athugasemdum með frumvarpi þessu hefur sú leið verið farin við endurskoðun gildandi lax- og silungsveiðilaga að kljúfa efni þeirra upp og greina í fimm lagabálka. Liggur því til grundvallar það sjónarmið að skipa saman í bálka þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga en skilja að öðru leyti á milli. Birtist þetta í því að samhliða frumvarpi þessu eru lögð fram fjögur önnur frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um eldi vatnafiska, frumvarp til laga um fiskrækt, frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum og frumvarp til laga um Veiðimálastofnun, og munu þau öll, ef að lögum verða, mynda þá lagaumgjörð sem nú er að finna í lax- og silungsveiðilögunum einum. Til viðbótar þessum frumvörpum munu nýsamþykkt lög um Landbúnaðarstofnun víða koma við sögu við framkvæmd lax- og silungsveiðilöggjafar. Þá er og rétt að hafa í huga að samhliða þessari fyrirkomulagsbreytingu er öll stjórnsýsla við lagaframkvæmdina einfölduð í frumvörpunum og munu færri koma þar að málum en nú er.
    Þegar svo miklar breytingar eru gerðar á lagaumhverfinu er nauðsynlegt að tryggja að lagaframkvæmdin geti gengið sem best fyrir sig, agnúar verði sniðnir af og samþætting tryggð. Því er í ákvæði til bráðabirgða I með frumvarpinu gert ráð fyrir því að á næstu fimm árum frá gildistöku nýrra lax- og silungsveiðilaga starfi samráðsnefnd um framkvæmd þeirra og annarra þeirra laga er mynda þá lagaumgjörð sem hér er lögð til. Er nefndinni ætlað að vera samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra aðila sem lagaframkvæmdin varðar helst. Hún á að fylgjast með og stuðla að greiðri lagaframkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra sem lögin varða helst.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að nefndin verði skipuð til fimm ára, enda ætti þá að vera komin góð reynsla á lagaframkvæmdina. Ef reynslan af starfi nefndarinnar er jákvæð er með lagabreytingu unnt að festa hana varanlega í sessi.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Ljóst má vera að breyttar reglur frumvarpsins, verði það að lögum, hafa í för með sér allnokkrar breytingar á starfsháttum og skipulagi einstakra veiðifélaga. Má um þetta vísa í heild til ákvæða VI. kafla frumvarpsins. Í 3. mgr. 39. gr. er gerð grein fyrir því að í samþykktir veiðifélags skuli m.a. taka upp ákvæði um nafn félags; heimilisfang og varnarþing; félagssvæði og skulu þar taldar upp allar þær fasteignir eða einstaklingar og lögaðilar sem veiðiréttindi eiga skv. II. kafla laganna; verkefni félagsins; skipun og starfssvið félagsstjórnar; málsmeðferðarreglur, reikninga félags og endurskoðun; skyldu til þess að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár á aðalfundi félags; meðferð afla félags eða arð og greiðslu kostnaðar af starfsemi félags. Er jafnframt ráðgert að nánari útfærsla þessa verði í reglugerð settri af ráðherra. Af þessum sökum þykir eðlilegt að ætla veiðifélögum nægilegt svigrúm til þess að breyta samþykktum sínum og laga þær að nýrri löggjöf.Fylgiskjal I.


Reifanir á dómum er varða lög um lax- og silungsveiði.


Hrd. nr. 173/2003 frá 18. desember 2003.
    Deila málsaðila snerist um veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni á Núpsheiði í Miðfirði. H krafðist aðallega viðurkenningar á því að veiðirétturinn tilheyrði sér sem eiganda Núpsheiðar og Þverár. S og Ö kröfðust hins vegar sýknu.
    Dómurinn ákvarðaði veiðiréttinn á grundvelli fyrirliggjandi gagna um eigendaskipti að veiðiréttinum, auk löggerninga um aðliggjandi jarðir og afrétt.
    Í héraðsdóminum, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, segir að eftir gildistöku vatnalaga nr. 15/1923 hafi verið lagt bann við því í lögum að veiðiréttur yrði skilinn frá jörð. Óumdeilt var þó í málinu að veiðiréttur sá er tilheyrði jörðinni Þverá var frá henni skilinn og lagður til Efra Hjúps með afsali árið 1908. Eftir gildistöku lax- og silungsveiðilaga frá 1932 hafi verið óheimilt að færa veiðiréttinn til baka nema með innlausn, sbr. 3. gr. Þar sem innlausn hafði ekki farið fram taldi dómurinn veiðiréttinn enn tilheyra jörðinni Þverá. H var því talinn eigandi veiðiréttarins að undanskildum þeim veiðirétti sem fylgdi Efra Hjúpi samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þverá frá árinu 1887.

Hrd. nr. 118/2003 frá 9. október 2003.
    S krafðist staðfestingu á lögbanni sýslumanns við því að V myndi ráðstafa arði til eigenda tiltekinna jarða í samræmi við samþykkt aðalfundar S.
    Í héraðsdómi, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, var tekið fram að skv. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 væri arðskrá grundvöllur úthlutunar af veiði félagsmanna. Af arðskránni fyrir hinar tilteknu jarðir yrði hins vegar ekki séð hvernig innbyrðis skipting arðsins ætti að vera milli jarðanna. Þar sem innbyrðis hlutföll lágu ekki ljós fyrir taldi dómurinn ákvæði lax- og silungsveiðilaga ekki standa því í vegi að S myndi ráðstafa arði í samræmi við samþykkt aðalfundar, enda hefðu þeir sem greiðslurnar fengu heitið endurgreiðslu. Réttarreglur um skaðabætur voru því taldar vernda hagsmuni S nægjanlega og vegna þessa þóttu skilyrði lögbanns ekki vera fyrir hendi. Kröfum S var því hafnað.

Hrd. 1999. bls. 2809 .
    Deilt var um álagningarhlutfall fasteignaskatts. Laxveiðiá og vatn höfðu verið skilin frá aðliggjandi jörðum fyrir gildistöku laga nr. 61/1923 um lax- og silungsveiði, sem lögðu bann við slíku sbr. II. kafla laga nr. 76/1970, og voru þau því metin sem sérstakar fasteignir. Með vísan til þess, að sambærilegar eignir væru almennt skattlagðar með tilteknu lægra hlutfalli (þar sem miðað var við álagningu á erfðafestulöndum og jarðeignum sem ekki voru nýtt til annars en landbúnaðar), var fallist á með eigendum jarðanna að þeir skyldu einnig greiða fasteignaskatt, sem miðaður væri við það. Voru því kröfur þeirra um endurgreiðslu oftekins fasteignaskatts teknar til greina að því marki, sem þær voru ófyrndar.

Hrd. 1999. bls. 2794.
    Deilt var um álagningarhlutfall fasteignaskatts. Laxveiðiá og vatn höfðu verið skilin frá aðliggjandi jörðum fyrir gildistöku laga nr. 61/1923 um lax- og silungsveiði, sem lögðu bann við slíku sbr. II. kafla laga nr. 76/1970, og voru þau því metin sem sérstakar fasteignir. Með vísan til þess, að sambærilegar eignir væru almennt skattlagðar með tilteknu lægra hlutfalli (þar sem miðað var við álagningu á erfðafestulöndum og jarðeignum sem ekki voru nýtt til annars en landbúnaðar), var fallist á með eigendum jarðanna að þeir skyldu einnig greiða fasteignaskatt, sem miðaður væri við það. Voru því kröfur þeirra um endurgreiðslu oftekins fasteignaskatts teknar til greina að því marki, sem þær voru ófyrndar.

Hrd. 1999. bls. 486.
    Deilt var um það hvort jörðin Litli-Langidalur ætti rétt á einu eða tveimur atkvæðum í Veiðifélagi Stóru-Langadalsár og Setbergsár.
    Í gögnum málsins kom fram að jörðin Litli-Langidalur var frá árinu 1932 talin til tveggja matshluta í fasteignamati, Litli-Langidalur fremri og Litli-Langidalur ytri. Í fasteignamati árið 1970 var jörðin þó metin sem einn hluti, en því mati var breytt með millimati ári síðar. Eigandi Litla-Langadals, J, afsalaði bróður sínum, Þ, Litla-Langadal fremri árið 1984.
    Í kjölfar gildistöku laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði var stofnað veiðifélag árið 1970. Reis þá ágreiningur um hvort líta bæri á Litla-Langadal sem eitt eða tvö lögbýli og þar með hvort jörðinni bæri eitt eða tvö atkvæði í veiðifélaginu.
    Dómurinn sagði að við gildistöku lax- og silungsveiðilaganna hefði jörðin Litli-Langidalur verið eitt lögbýli, bæði í reynd og skv. því fasteignamati sem þá gilti. Vísaði dómurinn til 2. mgr. 48. gr. laga nr. 76/1970 en skv. því ákvæði færi ábúandi hvers lögbýlis með eitt atkvæði og fengi hann ekki aukið atkvæðamagn, þótt hann byggi á fleiri en einni jörð. Dómurinn taldi því ákvæði lax- og silungsveiðilaganna ófrávíkjanleg og skipti engu, hvort félagar í veiðifélagi hefðu áður samþykkt að einhver þeirra skyldi njóta betri réttar en áskilinn væri í lögunum. Voru því engin skilyrði til þess að lögum á árinu 1970 eða síðar, að ábúandi jarðarinnar Litli-Langidalur færi með tvö atkvæði. Niðurstaðan var því sú að jörðin færi aðeins með eitt atkvæði.

Hrd. 1997. bls. 1096.
    S krafðist þess að V greiddi sér tiltekna upphæð vegna sviptingar á leigugreiðslum fyrir laxveiðirétt S í Langá.
    Málsatvik voru þau að S var eigandi jarðarinnar Langárfoss í Álftaneshreppi. Hafði hann frá því að hann eignaðist jörðina, árið 1968, nýtt sjálfur eða leigt veiði í Langá fyrir landi jarðarinnar. Í september 1992 leigði S J og skylduliði hans veiðirétt jarðarinnar til þriggja ára, 1993–1995, og var leigugjaldið 5.000.000 kr. fyrir hvert ár.
    Veiðifélag Langár var stofnað árið 1972. Á aðalfundi þess í apríl 1994 var samþykkt að leita eftir tilboði í veiðirétt árinnar til næstu þriggja ára. Á fundi í september 1994 var stjórn félagsins veitt heimild til að semja við Langá hf. um leigu árinnar til þriggja ára fyrir 12.500.000 kr. á ári. Var þetta gert með níu atkvæðum gegn einu atkvæði S. Í leigusamningnum var ekki tekið tillit til þess að eitt ár var eftir af leigusamningi S við J. Óumdeilt var í málinu að eigendur veiðiréttar í Langá höfðu fram til ársins 1995 ráðstafað veiði sinni án afskipta V. Héraðsdómur, sem Hæstiréttur staðfesti, taldi þó þessa nýtingu ekki koma í veg fyrir að V gæti ákveðið að nýta veiðina í samræmi við lög nr. 76/1970. Með hliðsjón af lögbundnum rétti V til þess að ráðstafa veiði í ánni taldi dómurinn S ekki hafa getað með samningi við þriðja aðila takmarkað þann rétt án sérstaks samþykkis V. Þá tók Hæstiréttur fram að S hefði ekki gert fundarmönnum grein fyrir efni samnings síns við J né hafi verið leitað samþykkis félagsins fyrir þeim leigusamningi á sínum tíma. Dómurinn taldi V því geta ráðstafað veiði í Langá án þess að taka tillit til samnings S og J frá 1992 og sýknaði V af kröfum S.

Hrd. 1996. bls. 2245.
    L höfðaði mál á hendur eigendum og ábúendum jarðanna B og T og krafðist þess að viðurkennd yrði með dómi 15% hlutdeild L í veiðirétti B og T í Sogi.
    R, sem L leiddi rétt sinn frá, keypti árið 1917 af B allt vatnsafl í Sogi fyrir landi jarðanna B og T, ásamt öllum rétti til notkunar á vatninu. Í 4. lið afsalsins var kveðið svo á, að jafnskjótt og byrjað yrði á mannvirkjum til hagnýtingar vatnsaflsins í Sogi, eignaðist kaupandi allan veiðirétt fyrir landi B og T í þeim kafla Sogsins sem mannvirkin næðu til. Héraðsdómur tók fram að á þeim tíma er afsalið var gefið út höfðu vatnalög nr. 15/1923, þar sem takmörkun á aðskilnaði veiðiréttar frá landareign komu fyrst fram, ekki tekið gildi og því hefði framsal veiðiréttarins skv. afsalinu fullt gildi.
    Niðurstaðan var sú að framkvæmdir við Írafossvirkjun hefðu hafist árið 1950. Sogsvirkjun hefði því fengið veiðiréttinn afhentan þá, jafnvel þó svo að eignarrétturinn að veiðiréttindunum hafi færst til R árið 1917.
    Héraðsdómurinn tók fram að það væri ekki á verksviði dómsins að ákvarða umfang veiðiréttarins, heldur yrði að gera það á grundvelli sjónarmiða skv. 1. mgr. 50. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Þá tók dómurinn fram að ekki væri unnt að viðurkenna veiðirétt fyrir virkjunarsvæðinu sjálfu, sem teldist ekki veiðivatn skv. skilgreiningu 1. gr. laga nr. 76/1970. Þá gæti L ekki fengið veiðirétt nær útrennslismannvirkjum en leyft væri skv. 40. gr. laga nr. 76/1970.
    Hæstiréttur staðfesti dóminn og taldi L eiga veiðirétt sem miðað við aðstæður teldist vera 50 metra frá frárennslisopinu að sunnan og áfram að girðingu á mörkum B/T og landspildu L.

Hrd. 1996. bls. 33.
    Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 66/1995 var kröfu stefnenda um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt lögum nr. 76/1970 hafnað á þeirri forsendu, að ekki hefði verið leyst úr þeirri grundvallarspurningu, hvaða ástæður liggi að baki ætluðu tjóni þeirra. Í þessu máli lögðu stefnendur fram nýja beiðni þar sem krafist var dómkvaðningar matsmanna á grundvelli 3. mgr. 96. gr., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, sbr. 7. gr. laga nr. 63/1994 um breytingu á þeim lögum.
    Á árunum 1972–1973 var gerður fiskvegur (laxastigi) í Laxfossi í Laxá í Kjósarsýslu. Var framkvæmdum þessum ætlað að auka heildarveiði og þar með heildararðsemi árinnar. Stefnendur töldu tekjur sínar hins vegar hafa lækkað hlutfallslega eftir gerð fiskvegarins og óskuðu þau eftir mati dómkvaddra matsmanna til þess að meta tjón þeirra.
    Héraðsdómur skoðaði athugasemdir með 96. gr. laganna. Af þeim taldi dómurinn það verða ráðið að tilgangur lagaákvæðisins væri að bæta hluteiganda veiðiréttareigendum tjón sem þeir verða fyrir vegna friðunar veiðifélaga á ákveðnum veiðisvæðum, umfram það sem lögin kveða á um. Dómurinn taldi bótareglur þessarar lagagreinar ekki eiga við um atvik er lágu á bak við matsbeiðninni í þessu máli.
    Þá vísaði dómurinn til 2. mgr. 39. gr. laga nr. 76/1970 en tók fram að matsbeiðnin hefði ekki verið reist á því ákvæði.
    Dómurinn taldi þannig ekki lagaskilyrði eftir matsreglum lax- og silungsveiðilaga til dómkvaðningar matsmanna skv. þeim lögum og því óhjákvæmilegt að hafna henni. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm.

Hrd. 1995. bls. 797.
    Eigendur tiltekinna jarða kröfðust þess að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að meta það tjón, er þeir töldu sig hafa orðið fyrir vegna lækkunar arðskrárprósentu þeirra í Veiðifélagi Laxár í Kjós. Töldu matsbeiðendur gerð laxastiga hafa valdið þeim tjóni öðrum fremur og ættu þeir að fá tjón sitt bætt með hliðsjón af 2. mgr. 39. gr. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.
    Dómurinn taldi matsbeiðni sóknaraðila ekki beinast að því að fá skorið úr um hvaða ástæður lágu að baki ætluðu tjón þeirra. Dómurinn taldi hins vegar þörf á að leysa úr þeirri grundvallarspurningu áður en stofnað yrði til matskostnaðar sem hugsanlega yrði felldur á varnaraðila, þar sem matsreglur laga um lax- og silungsveiði hefðu sérstöðu, svo sem vegna fyrirmæla 5. mgr. 95. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 63/ 1994. Niðurstaða dómsins var því sú að ekki yrði séð, að matsgerð myndi þjóna tilgangi, eins og matsbeiðni sóknaraðila var úr garði gerð, en telja yrði varnaraðila hafa hagsmuna að gæta, er þeir andmæltu dómkvaðningu samkvæmt henni. Skorti því skilyrði til að verða við beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt lögum nr. 76/1970.

Hrd. 1994. bls. 2344.
    R höfðaði mál á hendur S og G, ásamt T til réttargæslu, og krafðist þess að sér yrðu dæmdar skaðabætur að tiltekinni fjárhæð m.a. með vísan í IX. kafla laga nr. 76/1970.
    Málavextir voru þeir að stjórafæri á kví í eigu R festust í fisksjárstaut síldarbátsins Sæborgar og dróst með henni nokkurn spöl. Urðu afleiðingarnar þær að hoppnetið slitnaði niður og karfa þeirrar kvíar snerist þannig að seiðin sem í henni voru sluppu úr henni.
    Dómurinn taldi skipstjóra Sæborgar hafa sýnt af sér verulegt gáleysi með siglingu sinni svo nálagt kvíunum að hann var bótaskyldur skv. almennum reglum skaðabótaréttar sbr. og 158. gr. og 171. gr. siglingarlaga nr. 34/1985. Dómurinn taldi R þó þurfa að bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar fyrir að hafa engin viðvörunarljós fyrir utan eða í útjaðri kvíanna.

Hrd. 1994. bls. 924.
    Stefnendur gerðu þær dómkröfur fyrir héraðsdómi að staðfest yrði lögbann sem lagt var við veiði af hálfu stefndu í Hvítá og að viðurkennt yrði með dómi, að allur veiðiréttur í Hvítá, milli suður og norðurmerkja Gíslastaða, tilheyrði jörðinni einni og að eigendur jarðarinnar hafi umferðarrétt um land stefndu til að nýta veiðiréttinn fyrir því landi.
    Málsatvik voru þau að stefndu eignuðust spildu úr landi Gíslastaða með afsalsbréfi, dagsettu í maí 1974. Í afsalinu var svofellt ákvæði: „Veiðiréttur í Hvítá fylgir hinum selda jarðarhluta, sem nemur hálfri stöng, sem eru samkvæmt núgildandi veiðilögum og reglum 46 heilir stangarveiðidagar fyrir eina stöng.“
    Stefnendur töldu veiðiréttinn hins vegar niður fallinn með vísan í 4. tl. 2. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, en þar segir: „Eigi má skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma, sbr. þó 5. mgr. 14. gr., annan en stangarveiðirétt, en harm má skilja við landareign um tiltekið tímabil, er þó má ekki vera lengra en 10 ár, nema leyfi ráðherra komi til og veiðimálastjóri og veiðimálanefnd mæli með því, að leyfið sé vent.“
    Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu, með vísan í aðdraganda umrædds banns í lax- og silungsveiðilögunum, að við skýringu á 2. gr. lax- og silungsveiðilaganna bæri að leggja til grundvallar merkingu orðsins landareign sbr. 1. gr. vatnalaga. Taldi dómurinn að þegar hinum umdeilda veiðirétti var afsalað árið 1974 hafi Gíslastaðir ekki verið landareign í skilningi 4. tl. 2. gr. laga nr. 76/1970. Ráðstöfun veiðiréttarins fór því ekki í bága við greint ákvæði. Tók dómurinn fram að líta bæri einnig til þess að ákvæðið fæli í sér skerðingu á eignarráðum landeiganda sem skýra yrði þröngt. Samkvæmt þessu sýknaði dómurinn stefndu. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn.

Hrd. 1993. bls. 1566.
    Ákæruvaldið höfðaði mál á hendur K fyrir að hafa án fullnægjandi merkinga lagt net í sjó til veiða á silungi, en veiðiverðir tóku netið upp. Taldi ákæruvaldið þetta varða við 7. tl., sbr. 9. tl. reglna nr. 205/1990, sbr. d. og j. lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.
    Dómurinn taldi sannað að net K hefði verið ómerkt þegar það var tekið upp. Dómurinn dæmdi K því til þess að greiða 9.000 kr. í sekt, sbr. 97. gr. laga um lax- og silungsveiði og til þess að hlíta upptöku netsins sbr. 100. gr. lax- og silungsveiðilaga. K var einnig gert að greiða allan sakar- og áfrýjunarkostnað.

Hrd. 1993. bls. 1563.
    Ákæruvaldið höfðaði mál með ákæru á hendur G fyrir að hafa án fullnægjandi merkinga lagt net í sjó til veiða á silungi, en veiðiverðir tóku netið upp. Taldi ákæruvaldið þetta varða við 7. tl. sbr. 9. tl. reglna nr. 205/1990, sbr. d. og j. lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.
    Dómurinn taldi sannað að net G hefði verið ómerkt þegar það var tekið upp. Dómurinn dæmdi G því til þess að greiða 9.000 kr. í sekt sbr. 97. gr. laga um lax- og silungsveiði og til þess að hlíta upptöku netsins sbr. 100. gr. lax- og silungsveiðalaga. G var einnig gert að greiða allan sakar- og áfrýjunarkostnað.

Hrd. 1993. bls. 751.
    Mál nr. 402/1992 og mál nr. 197/1992 voru sameinuð.
    Mál nr. 197/1992 reis vegna kæru á hendur Á og fimm öðrum mönnum vegna 13 silunganeta í sjó við Hvammstanga. Átti Á tvö þessara neta og var hann sakfelldur vegna umbúnaðar annars þeirra. Dómurinn ómerkti hins vegar hinn áfrýjaða dóm ex officio með vísan í 7. tl. 36. gr. þágildandi laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 74/1974, og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
    Í málinu nr. 402/1992 var Á sakaður um brot gegn 2. tl. reglna nr. 205/1990 um netaveiði göngusilungs, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 76/1970. Í reglunum segir að lagnet skuli vera lagfast, en það var það ekki hjá Á. Dómurinn taldi aðstæður ekki hafa verið kannaðar með mati eða mælingu dómkvaddra matsmanna og því hafi brostið viðhlítandi sönnun um sök Á sem leiddi til þess að hann var sýknaður.

Hrd. 1992. bls. 1886.
    J og Þ óskuðu eftir því að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir menn til þess að gera arðskrá fyrir ána Flóku. Rökstuddu J og Þ kröfu sína um dómkvaðningu með því að forsendur arðskrár, er gerð var í september 1987 og vísað hafði verið til yfirmats, hefðu breyst verulega. Héraðsdómur féllst á dómkvaðninguna. Eigendur S sem höfðu mótmælt dómkvaðningunni áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar og kröfðust þess að dómkvaðningu yrði frestað þar til yfirmatsnefnd hefði úrskurðað í málinu.
    Dómurinn taldi upplýst að frá því að matið hefði farið fram árið 1987 hefði verið gerður nýr fiskvegur. Tók dómurinn fram að forsendur væru því breyttar og fallast ætti því á dómkvaðningu matsmanna. Tók dómurinn fram að ákvæði 3. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 yrði ekki talið standa því í vegi.

Hrd. 1988. bls. 449.
    Í málinu krafði Ó S um bætur fyrir veiðimissi í Hvítá fyrir jörðinni Einarsnesi árin 1982–1985. Byggði Ó bótarétt sinn á gerðardómi frá 1959. Einnig byggði hann á matsgerð frá 1986 um tvennt, að hann gæti krafist bóta eftir 1. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 76/1970 og hve háar þær skyldu vera. S taldi hins vegar að gerðardómurinn frá 1959 væri fallin úr gildi vegna ákvæða laga nr. 76/1970. Þá taldi hann 67. gr. stjórnarskrár Íslands standa því í vegi að S væri skylt að hlíta lagaákvæðum almennra laga, vegna lögmætra skerðinga á eignaréttindum. Þá taldi S að sýkna ætti það um bætur vegna áranna 1984–1985.
    Ó voru ákvarðaðar bætur vegna veiðimissis skv. 35. gr. laga nr. 53/1957. Dómurinn tók fram að ekkert ákvæði í lögum nr. 76/1970 mælti fyrir um að þeir menn sem fengið höfðu ákvarðaðar skaðabætur fyrir veiðimissi vegna ákvæða 35. gr. laga nr. 53/1957, en ekki fengið þær greiddar við gildistöku hinna nýju laga, ættu að missa tilkall sitt til þeirra bóta, en þess í stað hlíta því að ógreiddar bætur yrðu ákveðnar að nýju eftir ákvæðum 95. gr. laga nr. 76/1970. Dómurinn taldi því ekki hægt að líta svo á að breyting sú sem varð á lögunum nr. 53/1957 stæði því ein í vegi að Ó gæti krafið S um bætur fyrir veiðimissinn. Dómurinn tók málsástæðu S er vísaði til stjórnarskrár heldur ekki til greina.
    Í dóminum segir að skerðing sú sem varð á veiðiheimildum Ó hafi verið vegna laga nr. 53/1957. Hafi gerðardómurinn gengið um bótaskyldu og bætur árið 1959. Í honum hafi þó ekki ljóslega verið sagt hvort bætur skyldi greiða í 25 ár eða lengur. Dómurinn taldi því 35. gr. laga nr. 53/1957 ráða úrslitum og af þeirri ástæðu hafi S ekki verið skylt að greiða bætur fyrir árin 1984 og 1985. Réttarfarsástæður studdu einnig þá niðurstöðu.
    Þá taldi dómurinn það leiða af gerðardómsúrskurðinum að þegar lög nr. 76/1970 leystu lög nr. 53/1957 af hólmi bar ákvörðun um breytingu á árgjaldinu eftirleiðis undir matsmenn skv. hinum nýju lögum. Þar sem S mómælti ekki þeirri niðurstöðu er yfirmatsmenn komust að varðandi árin 1982 og 1983 lagði dómurinn hana til grundvallar.
    Dómurinn komst því að þeirri niðurstöðu að gerðardómurinn frá 1959 væri grundvöllur réttar Ó til bóta. Samkvæmt honum ætti S að greiða fjórðung bótanna, skv. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 53/1957. Var S því gert að greiða Ó fjórðung tjóns hans á árunum 1982 og 1983.

Hrd. 1987. bls. 863.
    Málið var höfðað til greiðslu skaðabóta vegna skerðingar eða rýrnunar á veiðiaðstöðu í Hvítá í Borgarfirði á árunum 1970 til og með 1977.
    Dómurinn tók fram að þegar lög nr. 38/1970, er felldu úr gildi ákvæði 35. gr. laga nr. 53/1957, tóku gildi hafði S o.fl. verið ákvarðaðar skaðabætur fyrir veiðimissi þann er leiddi af lögtöku 35. gr. laga nr. 54/1957. Þá sagði dómurinn ekkert ákvæði í lögum nr. 38/1970 sbr. lög nr. 76/1970 hafa mælt fyrir um það að þeir menn sem fengið höfðu ákvarðaðar skaðabætur fyrir veiðimissi vegna ákvæða 35. gr. laga nr. 53/1957 en ekki fengið þær greiddar við gildistöku hinna nýju laga, ættu að missa tilkall sitt til þeirra bóta en þess í stað hlíta því að ógreiddar bætur yrðu ákveðnar að nýju eftir ákvæðum 95. gr. laga nr. 76/1970. Dómurinn taldi því breytingarnar á lögum nr. 53/1957 með lögum nr. 38/1970 ekki standa því í vegi ein og sér að S o.fl. gætu krafið SM um skaðabætur á grundvelli úrskurðar er gerðardómsmenn kváðu upp árið 1959. Dómurinn tók málsástæðu SM er vísaði til stjórnarskrár heldur ekki til greina. Þá taldi dómurinn stjórnvöld ekki hafa farið út fyrir valdmörk sín er þau sömdu af hálfu ríkissjóðs og sýslusjóðs Mýrasýslu um að skaðabætur skv. 35. gr. yrðu ákvarðaðar af gerðardómi. Niðurstaða dómsins var því sú að SM var bundinn gagnvart S o.fl. skv. gerðardómsúrskurðinum frá 1959 til að greiða þeim bætur í formi tiltekins árgjalds. Það leiddi þó af gerðardómsúrskurðinum að eftir gildistöku laga nr. 76/1970 ætti árgjaldið eftirleiðis undir matsmenn skv. nýju lögunum. Dómurinn lagði mat yfirmatsmanna frá 1981 til grundvallar við ákvörðun bóta S o.fl. til handa. Dómurinn sýknaði sýslusjóð Borgarfjarðarsýslu og Veiðifélag Borgarfjarðar þar sem S o.fl. fengu dæmdar fébætur úr hendi SM. Sératkvæði.

Hrd. 1987. bls. 830.
    Málið var höfðað til greiðslu skaðabóta vegna skerðingar eða rýrnunar á veiðiaðstöðu í Hvítá í Borgarfirði fyrir landi Holts á árunum 1970 til og með 1977.
    Dómurinn tók fram að þegar lög nr. 38/1970, er felldu úr gildi ákvæði 35. gr. laga nr. 53/1957, tóku gildi hafði G o.fl. verið ákvarðaðar skaðabætur fyrir veiðimissi þeirra, þann er leiddi af lögtöku 35. gr. laga nr. 54/1957. Þá sagði dómurinn ekkert ákvæði í lögum nr. 38/1970 sbr. lög nr. 76/1970 hafa mælt fyrir um það að þeir menn sem fengið höfðu ákvarðaðar skaðabætur fyrir veiðimissi vegna ákvæða 35. gr. laga nr. 53/1957 en ekki fengið þær greiddar við gildistöku hinna nýju laga, ættu að missa tilkall sitt til þeirra bóta en þess í stað hlíta því að ógreiddar bætur yrðu ákveðnar að nýju eftir ákvæðum 95. gr. laga nr. 76/1970. Dómurinn taldi því breytingarnar á lögum nr. 53/1957 með lögum nr. 38/1970 ekki standa því í vegi ein og sér að G o.fl. gætu krafið SM um skaðabætur á grundvelli úrskurðar er gerðardómsmenn kváðu upp árið 1959. Dómurinn tók málsástæðu SM er vísaði til stjórnarskrár heldur ekki til greina. Þá taldi dómurinn stjórnvöld ekki hafa farið út fyrir valdmörk sín er þau sömdu af hálfu ríkissjóðs og SM um að skaðabætur skv. 35. gr. yrðu ákvarðaðar af gerðardómi. Niðurstaða dómsins var því sú að SM var bundinn gagnvart G o.fl. skv. gerðardómsúrskurðinum frá 1959 til að greiða þeim bætur í formi tiltekins árgjalds. Það leiddi þó af gerðardómsúrskurðinum að eftir gildistöku laga nr. 76/1970 ætti árgjaldið eftirleiðis undir matsmenn skv. nýju lögunum. Dómurinn lagði mat yfirmatsmanna frá 1981 til grundvallar við ákvörðun bóta G o.fl. til handa. Dómurinn sýknaði sýslusjóð Borgarfjarðarsýslu og Veiðifélag Borgarfjarðar þar sem G o.fl. fengu dæmdar fébætur úr hendi SM. Sératkvæði.

Hrd. 1987. bls. 788.
    Málið var höfðað til greiðslu skaðabóta vegna veiðimissis sem rót átti að rekja til skerðingar á rétti J til laxveiði í net fyrir landi eignarjarðar sinnar, Bóndahóls, sem honum var gert að þola með stoð í 35. gr. laga um lax- og silungsveiði sem breytt var með 15. gr. laga nr. 38/1970, sbr. 35. gr. laga nr. 76/1970.
    Dómurinn tók fram að þegar lög nr. 38/1970, er felldu úr gildi ákvæði 35. gr. laga nr. 53/1957, tóku gildi höfðu J verið ákvarðaðar skaðabætur fyrir veiðimissi hans er leiddi af lögtöku 35. gr. laga nr. 54/1957. Þá sagði dómurinn ekkert ákvæði í lögum nr. 38/1970 sbr. lög nr. 76/1970 hafa mælt fyrir um það að þeir menn sem fengið höfðu ákvarðaðar skaðabætur fyrir veiðimissi vegna ákvæða 35. gr. laga nr. 53/1957 en ekki fengið þær greiddar við gildistöku hinna nýju laga, ættu að missa tilkall sitt til þeirra bóta en þess í stað hlíta því að ógreiddar bætur yrðu ákveðnar að nýju eftir ákvæðum 95. gr. laga nr. 76/1970. Dómurinn taldi því breytingarnar á lögum nr. 53/1957 með lögum nr. 38/1970 ekki standa því í vegi einar og sér að J gæti krafið SM um skaðabætur á grundvelli úrskurðar er gerðardómsmenn kváðu upp árið 1959. Dómurinn tók málsástæðu SM er vísaði til stjórnarskrár heldur ekki til greina. Þá taldi dómurinn stjórnvöld ekki hafa farið út fyrir valdmörk sín er þau sömdu af hálfu ríkissjóðs og SM um að skaðabætur skv. 35. gr. yrðu ákvarðaðar af gerðardómi. Niðurstaða dómsins var því sú að SM var bundinn gagnvart J skv. gerðardómsúrskurðinum frá 1959 til að greiða honum bætur í formi tiltekins árgjalds. Það leiddi þó af gerðardómsúrskurðinum að eftir gildistöku laga nr. 76/1970 ætti árgjaldið eftirleiðis undir matsmenn skv. nýju lögunum. Dómurinn lagði mat yfirmatsmanna frá 1981 til grundvallar við ákvörðun bóta J til handa. Dómurinn sýknaði sýslusjóð Borgarfjarðarsýslu og Veiðifélag Borgarfjarðar þar sem J fékk dæmdar fébætur úr hendi SM. Sératkvæði.

Hrd. 1986. bls. 1473.
    F höfðaði mál á hendur O, I og S og krafðist þess að staðfest yrði með dómi að jörðin Gýgjarhóll ætti engan rétt til lax- og silungsveiði í Miklavatni eða Sæmundará byggðan á rétti Glæsibæjar. Þá var þess krafist að viðurkennt yrði að jörðin Hafsteinsstaðir ætti engan rétt til lax- og silungsveiði í Miklavatni eða Sæmundará, byggðan á rétti Glæsibæjar.
    Málsatvik voru þau að þann 20. apríl 1926 seldi J S jörðina Glæsibæ þar sem hann áskildi Hafsteinsstöðum ítak í lax- og silungsveiði Sæmundarár og Miklavatns, en hluta þeirrar jarðar var síðar skipt út og nefndist hann Gýgjarhóll.
    Héraðsdómur tók fram að það væri grundvallarregla í íslenskum rétti að hver maður ætti veiði fyrir sinni jörð, sbr. landsleigubálk Jónsbókar 56. kafla, sem síðar var staðfestur með ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923. Þegar samningur aðilanna var gerður voru því vatnalögin í gildi. Í 2. tl. 121. gr. þeirra laga væri lagt bann við því að skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign, nema um tiltekið árabil þó ekki lengur en 10 ár í senn nema leyfi ráðherra kæmi til.
    Dómurinn taldi ekki verða séð af gögnum málsins að leyfi ráðherra hafi verið aflað. Þá tók hann fram að ekki væri ljóst að á móti ítakinu hafi komið hlunnindi sem metin væru jörðinni ekki minna virði en skerðing veiðiréttarins.
    Dómurinn taldi ákvæði samningsins um íhlutun í veiðiréttinn því hafa brotið gegn 2. tl. 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Því hafi ekki stofnast lögmætur réttur fyrir Hafsteinsstaði til veiða í Miklavatni og Sæmundará og tók dómurinn kröfur F til greina. Meirihluti Hæstaréttar staðfesti niðurstöðu héraðsdóms. Sératkvæði.

Hrd. 1984. bls. 1148.
    D var ákærð fyrir að hafa, þann 7.–9. júlí 1982, brotið reglur nr. 454/1980 um veiði göngusilungs í lagnet í sjó í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sbr. 6. mgr. 14. gr, sbr. c-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.
    Með reglum nr. 178/1977 var takmörkuð veiði göngusilungs í lagnet í sjó í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Þessar reglur setti landbúnaðarráðherra að fengnum meðmælum veiðifélags Hvítár og veiðifélags Borgarfjarðar og sýslunefnda Borgarfjarðar- og Mýrarsýslu. Þann 24. júlí 1980 setti landbúnaðarráðherra nýjar reglur um þetta efni að beiðni sýslumanns í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og áttu þær að bæta fyrri reglur sem ekki þótti unnt að byggja ákæru á, þar sem tilvísun í lagaákvæði sem þær studdust við vantaði ásamt refsiákvæði eða tilvísun til þess.
    Á þeim tíma er reglurnar nr. 454/1980 voru settar lágu þó ekki fyrir meðmæli sýslunefnda Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og veiðifélaga þar svo sem 6. mgr. 14. gr. laga nr. 76/1970 áskildi beinum orðum. Dómurinn taldi þetta valda því að reglurnar gátu ekki verið löggiltur refsigrundvöllur. Dómurinn sýknaði því D af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Hrd. 1984. bls. 1142.
    J var ákærður fyrir að hafa, þann 6.–9. júlí 1982, brotið reglur nr. 454/1980 um veiði göngusilungs í lagnet í sjó í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sbr. 6. mgr. 14. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.
    Með reglum nr. 178/1977 var takmörkuð veiði göngusilungs í lagnet í sjó í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Þessar reglur setti landbúnaðarráðherra að fengnum meðmælum veiðifélags Hvítár og veiðifélags Borgarfjarðar og sýslunefnda Borgarfjarðar- og Mýrarsýslu. Þann 24. júlí 1980 setti landbúnaðarráðherra nýjar reglur um þetta efni að beiðni sýslumanns í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og áttu þær að bæta fyrri reglur sem ekki þótti unnt að byggja ákæru á, þar sem tilvísun í lagaákvæði sem þær studdust við vantaði ásamt refsiákvæði eða tilvísun til þess.
    Á þeim tíma er reglurnar nr. 454/1980 voru settar lágu þó ekki fyrir meðmæli sýslunefnda Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og veiðifélaga þar svo sem 6. mgr. 14. gr. laga nr. 76/1970 áskildi beinum orðum. Dómurinn taldi þetta valda því að reglurnar gátu ekki verið löggiltur refsigrundvöllur. Dómurinn sýknaði því J af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Hrd. 1981. bls. 780.
    G var ákærður fyrir að hafa haft net í sjó fyrir landi Sauðár, 398 metra frá ósi Hamarsár, og veitt lax í netið. Taldi ákæruvaldið háttsemi G varða við 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 15. gr., 1. mgr. 19. gr., sbr. 4. mgr. (sic), 5. gr. og 97. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970.
    Veiðieftirlitsmenn komu að G þar sem hann var búinn að leggja net frá skeri, nefndu Stóraskeri. Náðu þeir í netið saman og var einn lax í netinu. G og veiðieftirlitsmennina greindi á hvort laxinn hefði verið sprelllifandi eða ekki lífvænlegur. Dómurinn taldi því ekki hægt að líta svo á að um fullframið brot gegn 1. mgr. 144. gr. laga nr. 76/1970 hafi verið að ræða, heldur tilraun til þess, og var G refsað í samræmi við það.
    Í öðru lagi var G ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 15. gr. laga nr. 76/1970. Þar sem net G lá innan við 400 metra frá ósi Hamarsár taldi dómurinn G hafa brotið gegn þessu ákvæði.
    Í þriðja lagi var G ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 19. gr. sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 76/1970. Netlagnir nálægt ósi Hamarsár voru bannaðar á tímabilinu frá 1. mars til 1. október. Dómurinn taldi G því hafa brotið gegn 1. mgr. 19. gr. laganna. Dómurinn taldi 2. mgr. 15. gr. hins vegar tæma sök hans að þessu leyti og því var honum ekki refsað sérstaklega fyrir brot gegn 1. mgr. 19. gr.
    Dómurinn ákvarðaði refsingu skv. 97. gr. laga nr. 76/1970, með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var G dæmdur til þess að greiða sekt að fjarhæð 1.000.00 nýjum krónum, skilorðsbundið til tveggja ára. Vararefsing var ákveðin 7 daga varðhald. Þá var net G gert upptækt ásamt laxi þeim er veiðieftirlitsmenn lögðu hald á. Þá var G gert að greiða sakar- og áfrýjunarkostnað.

Hrd. 1981. bls. 775.
    J var ákærður fyrir að hafa lagt þrjú silunganet í sjó fyrir Grafarmelum í landi sínu og látið þau liggja í sjó, þar til veiðiverðir og lögreglumenn drógu þau í land. Taldi ákæruvaldið háttsemi J varða við 1. mgr. 19. gr., sbr. 4. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 97. gr., og 98. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði.
    Er veiðiverðirnir drógu upp netin var einn lax í netunum en hann slapp.
    Dómurinn taldi atferli J varða við 1. mgr. 19. gr., sbr. 4. mgr. 14. gr. og c-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 76/1970. Þótti dóminum refsing hans hæfilega ákveðin 1.000.000 nýrra krónu sekt, skilorðsbundið til 2 ára ef almennt skilorð 57. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 yrði haldið, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Vararefsing var ákveðin 7 daga varðhald. Skv. 100. gr. laga nr. 76/1970 var net J gert upptækt til ríkissjóðs.

Hrd. 1979. bls. 1077.
    B krafðist þess að staðfest yrði að eignarhluta hans, tveim þriðju hlutum jarðarinnar Haukabrekku, fylgdi veiðiréttur í sama hlutfalli, óstaðbundið, í svokölluðum Fróðár- eða Haukabrekkuvaðli og í Fróðárósi við Haukabrekkuhöfða.
    Við munnlegan flutning málsins í héraði var bókað í þingbók að málsástæður B byggju eingöngu á því að 4. gr. laga nr. 76/1970 veitti B réttarstöðu sem hann hefði ekki haft áður. Hæstiréttur tók því fram í dómi sínum að eigi yrði dæmt um aðrar málsástæður.
    Eigendur jarðarinnar Haukabrekku gerðu með sér landaskiptasamning þann 4. ágúst 1941. Þar kom skýrt fram að hvor eigenda um sig skyldi eiga öll hlunnindi fyrir því landi sem í hans hlut kæmi við skiptin. Þar sem eigendurnir hefðu þar með samið gagngert um veiðiréttindi við landskiptin taldi dómurinn 2. gr. laga nr. 38/1970, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 76/1970 ekki geta haggað þeirri skipan. Ákvæðinu væri ætlað að rétta hlut þeirra landeiganda sem við skipti hafa farið halloka í veiðiaðstöðu miðað við það land sem eftir stendur. Það sé hins vegar gert ráð fyrir því að menn geti eftir sem áður haft þá skipan á sem þeir kjósa með samningum sín á milli. F var því sýknað af kröfum B.

Hrd. 1975. bls. 55.
    Deilt var um rétt til silungsveiða í ám og vötnum Arnarvatnsheiða.
    Í málinu kom fram að S hafði afsalað hluta Arnarvatnsheiðar til viðsemjenda sinna með öllum landsnytjum, að því frátöldu að hann áskildi sér að hafa silungsveiði og eggjatöku fyrir sig og sína erfingja. Varðaði ágreiningur málsaðila að hvaða marki silungsveiði í ám, lækjum og vötnum á hinu selda landi hafi verið undanskilið sölunni með þessu ákvæði afsalsbréfsins.
    Dómurinn vísaði til þess að það væri bæði forn og ný réttarregla að landeigandi ætti fiskiveiði í vötnum á landi sínu, sbr. landbrigðaþátt Grágásar um veiði, 208. kap. Konungsbókar og 438. kap. Staðarhólsbókar og 56. kap. landleigubálks Jónsbókar, og 2. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Með tilliti til þessarar reglu taldi dómurinn ríka ástæðu hafa verið fyrir S til þess að kveða afdráttarlaust að orði ef ætlun hans hafi verið sú að engin silungsveiði í vötnum á hinu selda landi ætti að fylgja með við sölu þess. Ákvæðið í afsalinu um silungsveiðiréttinn var hins vegar ekki skýrt. Þá vísaði dómurinn í mótmæli hreppsbænda frá 1898 sem sýndi það að þeir hefðu ekki litið svo á að allur silungsveiðiréttur hefðu verið tekinn undan við landsöluna 1880 og vottorð margra manna um að þeir hafi stundað silungsveiði í vötnum á heiðarlandinu án sérstaks leyfi eiganda Kalmannstungu. Þá taldi dómurinn að K og Ó, sem leiddu rétt sinn frá S, ekki hafa sýnt fram á að þeir hafi eignast allan silungsveiðiréttinn fyrir hefð. Dómurinn taldi K og Ó því ekki hafa sannað að þeir ættu einir silungsveiðirétt á hinu selda heiðarlandi.
    Dómurinn taldi veiðiréttinn hafa orðið sameign S og kaupnauta hans við söluna 1880, þannig að þeir hefðu allir haft jafnan rétt til þess að nýta veiðina, sbr. 56. kap. landleigubálks Jónsbókar sbr. 1. tl. 4. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Dómurinn taldi K og Ó því eiga 14 hluta á móti R og H til silungsveiði í ám og vötnum á landi því sem S afsalaði 1880.

Hrd. 1974. bls. 368.
    K o.fl. kröfðust þess að viðurkennt yrði að jörðinni Berjanesi í Austureyjafjallahreppi, eignar- og ábýlisjörð A, fylgdi enginn veiðiréttur í Holtsósi og að A væri óheimil öll veiði þar. Til vara kröfðust K o.fl. þess að dæmt yrði að A, sem eigandi og ábúandi Berjaness, ætti ekki veiðirétt í Holtsósi þegar ósinn væri við eðlilegar aðstæður og næði ekki að Berjaneslandi.
    Í dóminum kom fram að hæð vatnsborðs í Holtsósi, og þar með stærð stöðuvatnsins, væri mjög breytileg. Færi það eftir því hvort afrennsli óssins væri stíflað og hann stæði uppi, eða ekki. Dómurinn taldi kröfu K o.fl. miða við veiði í Holtsósi eins og hann er þegar afrennsli hans er teppt. Þá kom fram að ágreiningslaust væri að við þær aðstæður myndi leggjast vatn á Berjanes. Þar sem dómurinn taldi K o.fl. ekki hafa fært rök fyrir því að A ætti að vera óheimilt að veiða í því vatni sem á landi hans liggur sbr. 2. gr. laga nr. 76/1970, var aðalkrafa þeirra ekki tekin til greina.
    Dómurinn taldi kröfu K o.fl. varðandi veiði A í Holtsósi þegar ósinn væri við eðlilegar aðstæður þýða þegar Holtsós hafi óhindrað afrennsli til sjávar og liggi að engu leyti á landi Berjaness. Þá vísaði dómurinn til þess að skv. 94. gr. laga nr. 76/1970 ætti það undir matsmenn, sem nefndir væru eftir fyrirmælum greinarinnar, að skera úr ágreiningi um ýmis nánar greind atriði í lögunum, þar á meðal um það, hvar séu takmörk vatns í merkingu laganna. Sú matsgerð fór fram vegna málsins og komust yfirmatsmenn að því að „takmörk Holtsóss væru í Berjaneslandi við 4 metra hæðarlínu samkvæmt uppdrætti Ásgeirs L. Jónssonar vatnsvirkjafræðings, dags. í ágúst 1941“. Samkvæmt þessu og þeirri staðreynd að Holtsós er breytilegur og sérstætt stöðuvatn, er það leggst tímum saman á land Berjaness, taldi dómurinn verða að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins, að Berjanes ætti land að Holtsósi í merkingu 1. mgr. 8. gr. laga nr. 76/1970 og þar með veiðirétt í vatninu utan netlaga, eins og þau eru ákveðin í 4. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Taldi dómurinn ekki hafa verið sýnt fram á að veiðiréttur utan netlaganna fylgdi ákveðnum jarðeignum samkvæmt fornri venju. Hins vegar taldi dómurinn ekki hægt að fallast á það með A að hann ætti fyrir hefð eða af öðrum ástæðum rétt til veiði í netlögum jarða K o.fl. Leiddi það af því, að frá gildistöku laga nr. 15/1923 hafði verið bann við því í lögum, að veiðiréttur væri skilinn frá jörð, nema að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum, sbr. 121. gr. þeirra laga og 4. tl. 2. gr. laga nr. 76/1970. Taldi dómurinn því þurfa að skýra þessi ákvæði þannig að þau bönnuðu m.a. stofnun veiðiítaks fyrir hefð. Dómurinn sýknaði A af öllum kröfum K o.fl.

Hrd. 1971. bls. 1137.
    V og B kröfðust sýknu af kröfum A og L og að dæmt yrði að Reyðarvatn væri allt innan landamerkja Þverfells. A og L kröfðust þess að þeim, sem eigendum að norður- og austurströnd Reyðarvatns í Lundarreykjadal, yrði dæmdur botns-, vatns- og veiðiréttur í vatninu á nánar tilgreindum stöðum.
    Dómurinn skírskotaði til forsendna dóms Hæstaréttar frá 20. október 1967 þar sem kom fram að telja yrði að eigendur Þverfells ættu botns-, vatns- og veiðirétt í Reyðarvatni frá landi jarðarinnar og 115 metra út í vatnið, miðað við lágflæði sbr. 1. tl. 4. gr., 8. gr. og 94. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Dómurinn taldi að á sama hátt yrði að telja að A ætti botns-, vatns- og veiðirétt í Reyðarvatni 115 metra út í vatnið miðað við lágflæði, frá Grímsárósi að Fossármynni, og veiði í almenningi vatnsins skv. ákvörðun matsmanna sbr. 1. tl. 4. gr., 8. gr. og 94. gr. laga nr. 76/1970, ef því væri að skipta.
    Dómurinn taldi málið vanreifað hvað varðaði kröfu L um vatns- og botnsrétt í Reyðarvatni á svæðinu frá Fossármynni að mynni Reyðarlækjar. Dómurinn taldi L hins vegar eiga veiðirétt á þessu svæði, 115 metra út í vatnið, sbr. 5. gr. laga nr. 76/1970 svo og veiði í almenningi vatnsins skv. ákvörðun matsmanna sbr. 1. tl. 4. gr., 8. gr. og 94. gr. laga nr. 76/1970, ef því væri að skipta.

Hrd. 1967. bls. 1047.
    Málið var höfðað til staðfestingar á lögbanni sem sett hafði verið gegn því að Ó o.fl., eða aðrir á þeirra vegum, ferðuðust um eða stunduðu nokkurs konar veiðiskap í Þjórsá innan marka jarðar S o.fl., Fljótshóla, eða spilltu þar veiði með skotum eða á annan hátt frá austurbakka árinnar.
    Dómurinn vísaði í 15. gr. tilskipunar frá 24. júní 1849 um veiði á Íslandi þar sem kom fram að sýslumönnum bæri af sjálfsdáðum og óbeðið af eiganda hvert ár að lýsa friðhelgi þeirra staða, þar sem landselaveiði eða útsela þá var tíðkuð með nótum eða öðrum hætti. Dómurinn tók fram að ekki væri vitað til þess að slík friðlýsing hefði átt sér stað um ós eða ósasvæði Þjórsár, en skv. 4 gr. laga nr. 16/1876 skyldi hverjum manni heimilt að skjóta seli eða styggja í veiðiám og ósum, þar sem lax gengur, ef eigi er þar friðlýst selalátur eða æðarfuglaeggver. Í 4. gr. laga nr. 5/1886 um friðun á laxi, sem leystu lög nr. 16/1876 af hólmi, var mælt, að hverjum manni skyldi vera heimilt að skjóta sel og styggja í ám og árósum, er lax gengur um, þó mátti „ekki raska þinglesinni friðun eggvera og selalátra, nema fullt gjald komi fyrir, slíkt, er dómkvaddir menn meta“. Í 71. gr. laga nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði, sem tóku við af lögum nr. 5/1886, sagði: „Hverjum manni er heimilt að skjóta eða styggja sel í veiðivötnum svo og í ósum þeirra, ef eigi er öðruvísi mælt fyrir í lögum“. Ákvæði þetta var óbreytt tekið upp í 72. gr. laga nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði. Í 97. gr. laga nr. 53/1957 um lax- og silungsveiði var ákvæðið orðað svo: „Hverjum manni er rétt að skjóta eða styggja sel i veiðivatni og ósi þess eða ósasvæði, enda sé eigi öðruvísi mælt í lögum“.
    Dómurinn taldi af gögnum málsins að miða þyrfti við það að ós Þjórsár í sjó og svo ósasvæði a.m.k. að nokkru hafi verið innan landamerkja Fljótshóla.
    Þá vísaði dómurinn til þess að S o.fl. og forverar þeirra á Fljótshólum hefðu rekið selveiði í ósi Þjórsár og ósasvæði hennar um langan aldur óátalið. Með skírskotun til 67. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 yrðu þó að líta svo á að hver sá sem hygðist nýta heimild 97. gr. laga nr. 53/1957 til seladráps yrði að inna af hendi til S o.fl. fébætur skv. mati. Þar sem Ó o.fl. höfðu ekki boðið fram slíkar bætur taldi dómurinn að staðfesta bæri lögbann við því að Ó o.fl. skjóti eða styggi sel í Þjórsá innan landamerkja Fljótshóla. Dómurinn taldi þó ekki rétt að meina Ó o.fl. friðsama för um Þjórsá ef þeir skjóti hvorki né styggi þar sel, sbr. 6. gr. laga nr. 48/1956. Sératkvæði.

Hrd. 1964. bls. 573.
    G höfðaði mál á hendur fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og krafðist greiðslu skaðabóta fyrir það að minkaeldi var bannað með lögum.
    G hafði reist sundmarðahús og aflað sér tækja til sundmarðaeldis í réttmætu trausti þess að honum yrði að lögum veitt heimild til þess að reka sundmarðabú. Bann var hins vegar lagt við sundmarðaeldi hér á landi með lögum nr. 32/1951 sem leiddi til þess að hús og tæki G urðu ónothæfar eignir. Dómurinn taldi því rétt að taka til greina kröfu G um skaðabætur vegna húsa, búra og tækja. Ekki þótti þó rétt að veita honum bætur vegna atvinnuspjalla.
    Aðdragandi lax- og silungsveiðilöggjafar er ítarlega rakinn í héraðsdóminum. Ástæðan er sú að dómurinn taldi að af henni mætti ráða viðhorf löggjafans til þess hver mörkin væru milli þeirra takmarkana á eignarrétti sem settar verða bótalaust og þeirra sem greiða þarf bætur fyrir.

Hrd. 1963. bls. 173.
    Ungmennafélag Íslands höfðaði mál á hendur Á og H. Við munnlegan málflutning féll U þó frá öllum kröfum á hendur H. Á hendur Á gerði U þær kröfur að viðurkennt yrði með dómi að veiðiréttur svo og hver önnur vatnsréttindi í Sogi fyrir Þrastarskógslandi fylgi Þrastaskógslandi og sé eign U.
    Málsatvik voru þau að árið 1909 seldi G Á landareign en undanskildi tiltekna landspildu sem nú er nefnd Þrastarskógur og er nú í eigu U. Deilt var um það hvort landspildunni hefðu fylgt venjuleg veiði- og vatnsréttindi.
    Dómurinn taldi ljóst af gögnum málsins að við afsalsgerðina árið 1909 hefði ekkert verið rætt um veiðirétt og vatnsréttindi í Soginu fyrir landspildu þeirri er G undanskildi við söluna til Á.
    Dómurinn tók þó fram að það væri almenn regla skv. íslenskum lögum að hver maður ætti vatn og veiði fyrri sinni jörðu sbr. landsleigubálk 56. kap Jónsbókar, sem síðar var staðfestur með ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923 og laga um lax- og silungsveiði nr. 53/1957. Þá taldi dómurinn það hefði þurft að koma skýrt fram ef skilja hefði átt frá landinu vatns- og veiðirétt. Yrði því að telja að í upphafi hafi réttindi þessi fylgt nefndri landspildu. Þá taldi dómurinn Á ekki hafa unnið veiðirétt fyrir hefð sbr. 8. gr. laga nr. 46/1905. Héraðsdómur komst því að þeirri niðurstöðu að U ætti vatns- og veiðirétt í Sogi fyrir Þrastárskógarlandi. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna.
    
Hrd. 1962. bls. 488.
    G, bóndi í Nýpukoti, höfðaði mál á hendur E, bónda á Þorkelshóli, til viðurkenningar á eignarrétti hans að allri veiði í Víðidalsá fyrir landi jarðarinnar Nýpukots skv. gildandi landamerkjum.
    Málsatvik voru þau að þegar Veiði- og fiskræktarfélagið Víðidalsá var stofnað var Þ eigandi Nýpukots og hálfs Þorkelshóls og ábúandi alls Þorkelshóls. Lét Þ meta til arðskrár veiði fyrir báðum jörðunum sameiginlega. Þegar Þorkelshóll var seldur varð að skipta veiðinni milli jarðanna. Í stað þess að láta formleg skipti fara fram ákvað Þ skiptin sjálfur.
    Héraðsdómur sagði að við þessa skiptingu veiðiarðsins væri ekkert að athuga, á meðan sami maður hefði umráð beggja jarðanna en eftir að Nýpukot var selt myndi sú spurning vakna hvort kaupandi þyrfti að hlíta því að skiptingin héldist áfram. Vísaði dómurinn í það að skiptingin hefði komið fram í kaupsamningi sem ekki hefði verið þinglesinn og því væri ekki um opinbert heimildarskjal að ræða og kaupandi Nýpukots hefði ekki átt aðgang að því skjali fyrr en við dómtöku málsins. Þá taldi dómurinn G ekki hafa samþykkt skiptin með móttöku veiðiarðsins um nokkurra ára bil.
    Dómurinn komst því að þeirri niðurstöðu að á meðan skipting með mati dómkvaddra matsmanna hefði ekki farið fram þá gæti enginn vitað með vissi hver aðskrárhluti Nýpukots ætti að vera. Það væri þó klárt að jarðirnar Þorkelshóll og Nýpukot ættu báðar veiði fyrir landi sínu í Víðidalsá. Dómurinn tók því kröfu G til greina.

Hrd. 1961. bls. 734.
    B krafði Fiskræktar- og veiðifélag Miðfirðinga um tiltekna fjárhæð. Kröfu sína byggði hann á því að frá stofnun F árið 1938 og fram til ársins 1956 hafi B einungis fengið kr. 1066.00 sem arð fyrir þá veiði jarðar hans sem ekki var tekin eignarnámi árið 1940, í stað þess að hann hefði átt að fá 21.900.00 í veiðiarð, miðað við þau 60 arðstig sem jörð hans var úthlutað fyrir veiði þessa árið 1957. Krafði B F um mismuninn á þessum fjárhæðum þar sem hann taldi mistök við nefnt eignarnám hafa valdið því að hann fékk svo lítinn veiðiarð sem raun bar vitni.
    Dómurinn tók fram að B hefði ekki gert neinar ráðstafanir á sínum tíma til þess að fá hnekkt eignarnámsgerð þeirri eða mati sem áður greinir, heldur hafi hann fyrirvaralaust tekið við greiðslum fyrri veiði árin 1940–1955. Dómurinn taldi því ekki hægt að taka dómkröfur hans til greina.

Hrd. 1960. bls. 807.
    Þ krafðist þess að lögbann það sem lagt var við því að J stundaði lax- og silungsveiði í Andakílsá fyrir Neðra-Hreppsengi, yrði staðfest með dómi.
    Þ byggði kröfu sína um það að J yrði bönnuð öll veiði fyrir Neðra-Hreppsengi á því að hann hefði fullkominn eignarrétt á enginu skv. afsali frá móður sinni. Einnig vísaði hann til þess að hann hefði í mörg ár stundað veiði í Andakílsá.
    Með dómi Hæstaréttar frá 23. nóvember 1960 var því slegið föstu að Neðra-Hreppsengi hafi verið slægjuítak og því eigi eigandi ítaksins aðeins slægjuítak á því, en landið sé undir eign eiganda Innri-Skeljabrekku.
    Dómurinn taldi afsal Þ, frá móður sinni, því ekki veita honum rétt til veiði fyrir Neðra- Hreppsengi. Dómurinn taldi þá staðreynd að hann hefði veitt á þeim stað um nokkurt árabil heldur ekki veita honum veiðirétt skv. hefð.
    Dómurinn felldi því lögbannið úr gildi og gerði Þ að greiða J bætur fyrri tjón það er lögbannið hafði valdið honum, eða kr. 100.00.

Hrd. 1957. bls. 342.
    G var ákærður fyrir að hafa sumarið 1953 og allt frá því á árinu 1942 stundað laxveiði í ós við Urriðaá í Skilamannahreppi með ólöglegum veiðitækjum, þannig að op í veiðikrær vissu á móti straumi, og leiðarar frá girðingu veiðitækja lágu upp á móti straumi, svo að í tækin veiddist fiskur, sem leitaði út úr ánni og árósnum. Taldi ákæruvaldið brot þessi varða við 4. tl. 30. gr. sbr. b-lið 89. gr. laga nr. 112/1942 um lax- og silungsveiði.
    Dómurinn taldi veiðitæki þau er G hafði notað ólögleg og því hefði hann gerst brotlegur við 4. tl. 30. gr. laxveiðilaganna. Dómurinn taldi þó rétt að líta til afskiptaleysis veiðieftirlitsmanns og veiðimálanefndar gagnvart veiðitækjum G, en hann hafði notað þau um langt árabil sem hefði orðið þess valdandi að hann liti ekki svo á að verknaður sinni væri réttarbrot. Þótti því rétt skv. 3. tl. 74. gr. laga nr. 19/1940 að ákveða að refsing hans skyldi niður falla. G var þó gert að þola upptöku veiðitækjanna og var honum gert að greiða allan sakarkostnað.

Hrd. 1957. bls. 338.
    J og S voru ákærðir fyrir að hafa stundað laxveiði í ós við Urriðaá í Skilamannshreppi með ólöglegum veiðitækjum, þannig að op í veiðikrær vissu á móti straumi, og leiðarar frá girðingum veiðitækja lágu upp á móti straumi, svo að í veiðitækin veiddist fiskur, sem leitaði úr ánni og árósnum. Taldi ákæruvaldið þessi brot varða við 4. tl. 30. gr. sbr. b-lið 89. gr. laga nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði.
    Dómurinn taldi ekkert fram komið í málinu sem benti til þess að S hefði átt veiðigildrur þær er málið varðaði, heldur hefði hann aðeins starfrækt þær fyrir föður sinn eftir hans fyrirmælum. Dómurinn sýknaði hann því.
    Dómurinn taldi J hins vegar hafa gerst brotlegur við 4. tl. 30. gr. laxveiðilaganna. Dómurinn taldi þó rétt að líta til afskiptaleysis veiðieftirlitsmanns og veiðimálanefndar gagnvart veiðigildrum ákærða sem hefði orðið þess valdandi að hann liti ekki svo á að verknaður sinn væri réttarbrot. Þótti því rétt skv. 3. tl. 74. gr. laga nr. 19/1940 að ákveða að refsing hans skyldi niður falla. J var þó gert að þola upptöku veiðitækjanna og var honum gert að greiða allan sakarkostnað.

Hrd. 1955. bls. 423.
    G var ákærður fyrir að hafa sumarið 1953, og allt frá því á árinu 1942, stundað laxveiði í ós við Urriðaá með ólöglegum veiðitækjum, þannig að op í veiðikrær vissu á móti straumi og leiðarar frá girðingum veiðitækja lágu upp á móti straumi, svo að í veiðitækin veiddist fiskur, sem leitaði út úr ánni og árósunum. Taldi ákæruvaldið brot þessi varða við 4. tl. 30. gr. sbr. b-lið 89. gr. laga nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði.
    Hæstiréttur taldi prófun málsins og dóm svo áfátt að ómerkja þyrfti héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar

Hrd. 1955. bls. 419.
    J og S voru ákærðir fyrir að hafa sumarið 1953, og allt frá því á árinu 1942, stundað laxveiði í ós við Urriðaá með ólöglegum veiðitækjum, þannig að op í veiðikrær vissu á móti straumi og leiðarar frá girðingum veiðitækja lágu upp á móti straumi, svo að í veiðitækin veiddist fiskur, sem leitaði út úr ánni og árósunum. Taldi ákæruvaldið brot þessi varða við 4. tl. 30. gr. sbr. b-lið 89. gr. laga nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði.
    Dómurinn taldi prófun málsins og dóm svo áfátt að ómerkja þyrfti héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar

Hrd. 1955. bls. 108.
    Landbúnaðarráðherra, Hreppsnefnd Holtahrepps f.h. hreppsins og Hreppsnefnd Rangárvallarhrepps f.h. eigenda og ábúenda jarðanna Næfurholts og Hóla annars og Hreppsnefnd Landmannahrepps f.h. hreppsins hins vegar deildu um rétt til veiði í vötnum og vatnsföllum á Landmannaafrétti. Hæstiréttur tók fram að réttur til afréttarins hafi í öndverðu orðið til á þann veg að íbúar hreppanna og býlanna hefðu tekið afréttarlandið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill til annarrar takmarkaðrar notkunar. Taldi dómurinn hreppsfélögin því ekki hafa unnið eignarhefð á því. Þar sem slíkur eignaréttur væri ekki fyrir hendi taldi dómurinn 5. gr. laga nr. 112/1941 um rétt til veiða í vötnum og afréttur koma til álita. Í 1. tl. þeirrar greinar sagði að noti héruð afrétt með löglegri heimild þá sé héraðsmönnum þar öllum veiði jafnheimil. Þar sem íbúar Landmannahrepps, Holtahrepps og býlanna Næfurholts og Hóla í Rangárvallahreppi notuðu Landmannaafrétt með löglegri heimild, hefðu þeir samkvæmt greindu ákvæði sameiginlega veiðirétt í vötnum á afrétti þessum. Dómurinn tók jafnframt fram að orðið afrétt í 2. tölulið 5. gr. yrði að skýra svo þröngt, að það tæki ekki til afrétta, sem notaðir væru með löglegri heimild sbr. 1. tl.

Hrd. 1953. bls. 363.
    E krafðist staðfestingar á lögbanni sem sett hafði verið á P o.fl. við veiði þeirra í Austurkotslátri, sem E taldi vera í sinni einkaeign. Þá krafðist hann viðurkenningar dómsins á rétti sínum eins til veiði í Austurkotslátri og annars staðar fyrir landi Austurkots í Hvítá. P o.fl. gerðu þær dómkröfur að lögbannsgerðin yrði felld úr gildi og hrundið kröfu E um rétt hans til veiði í Austurkotslátri. Þá gerðu P o.fl. þær kröfur að viðurkenndur yrði réttur þeirra til veiði fyrir landi Austurkotseyja. Þá voru gerðar kröfur um málskostnað.
    Dómurinn vísaði í 56. kap. Jónsbókar, XIII. kafla vatnalaga og II. kafla laga um lax- og silungsveiðar nr. 112/1941 þar sem kom fram að landeigandi ætti einn veiði í vötnum fyrir landi sínu, nema veiðiréttur hafi verið löglega frá landinu skilinn. Dómurinn taldi engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem sögðu að veiðiréttur í Hvítá hafi að einhverju eða öllu leyti verið í séreign tiltekinna jarða, en ekki í óskiptri sameign, eins og önnur gögn og gæði torfunnar. Dómurinn taldi því þurfa að líta svo á að vatns- og veiðiréttindi í Hvítá hefði í öndverðu verið óskipt sameign og hefði veiðiréttur ekki lagst af með hefð. Dómurinn felldi því lögbannsgerðina úr gildi þar sem ekki yrði séð að veiðiréttur fyrir Austurkotslátri væri talinn tilheyra eigendum jarðarinnar í sama hlutfalli og eyjan sjálf.

Hrd. 1950. bls. 175.
    B var ákærður fyrir að hafa brotið gegn 31. gr. lax- og silungsveiðilaga með því að leggja laxveiðilögn fyrir landi sínu á leirusvæði Hvítár, er mælst hafði 840 metrar á lengd, er hún var mæld frá bakka árinnar, og var því nær öðrum lögnum á leirusvæðinu en heimilað var í 31. gr. laga nr. 112/1941.
    Ákæruvaldið taldi að skýra ætti 31. gr. þannig að telja skyldi fjarlægð veiðivélar frá árbakka til lengdar hennar. Dómurinn taldi það hins vegar ekki rétt og sagði að miða ætti einungis við lengd veiðivélarinnar sjálfrar. Samkvæmt þeirri mælingu braut B ekki gegn 31. gr. laganna og var hann því sýknaður.

Hrd. 1949. bls. 132.
    Í 11. gr. laga nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði voru króknet talin til fastra veiðivéla, en í 25. gr. sömu laga voru þau nefnd meðal þeirra veiðitækja sem nota mátti til laxveiða eða silungsveiða í ám. Í athugasemdum með frumvarpi laganna var lýsing á krókneti ásamt uppdrætti af því.
    J var tekinn fyrir að nota frábrugðið veiðitæki því, sem höfundar laganna miðuðu við. Dómurinn taldi J því hafa brotið 25. gr. sbr. b-lið 89. gr. laga nr. 112/1941. Dómurinn taldi J hins vegar hafa framið verknað sinn vegna afsakanlegrar vanþekkingar á réttarreglum og með vísan til 3. tl. 74. gr. laga nr. 19/1940 var refsing hans látin falla niður.

Hrd. 1948. bls. 170.
    Deilt var um rétt F til að framleigja veiðirétt í Langá.
    Málsatvik voru þau að árið 1937 gerðu J o.fl. og F samning. Í samningi þeim kom m.a. fram: „1. Frú [F] gefur okkur afsal fyrir veiðirétti í Langá fyrir jörðum okkar, gegn því að hún fái að nota veiðiréttinn endurgjaldslaust í 10 ár eða frá 1. janúar 1938 til 1. janúar 1948 og að hún og hennar erfingjar fái veiðirétt þennan leigðan í næstu 10 ár þar á eftir eða frá 1. janúar 1948 til 1. janúar 1958 gegn því hún greiði þau árin £ 60, sextíu pund sterling, í leigu á ári samtals, en eftir þann tíma hefur hún forgangsrétt að leigunni, ef hún vill og veiðirétturinn verður leigður, og þá með þeim skilyrðum, er um semst þá. 2. Frú [F] hefur leyfi til, meðan hún notar veiðiréttinn samkvæmt framantöldu, að leigja eða leyfa öðrum að nota hann um lengri eða skemmri tíma, með sama rétti og hún hefur.“
    Með samningi í ágúst 1944 seldi frú F svo G veiðiréttindi í Langá sem hún átti óskorað og yfirfærði og framleigði honum allan veiðirétt sinn skv. fyrrgreindum samningi frá 1937.
    J o.fl. í málinu töldu frú F hafa öðlast persónulegan veiðirétt í Langá með samningnum sem hún gæti ekki framselt. Þá töldu stefnendur 4. tl. 2. gr. laga nr. 112/1941 sbr. lög 61/1932, leggja bann við því að réttur til stangarveiði yrði skilinn frá landareign um lengra tímabil en 10 ár nema að leyfi ráðherra komi til. Töldu stefnendur samning þeirra við frú F brjóta í bága við þetta ákvæði og því væri hann ógildur.
    Héraðsdómur taldi J o.fl. ekki hafa fært fram sönnur fyrir því að frekari takmarkanir hefðu verið á framsali frú F heldur en lesa mátti af samningi aðila. Þá taldi dómurinn ljóst að veiðirétturinn í Langá hafi verið seldur undan jörðunum um síðustu aldamót en bannið við skilnaði veiðiréttar og jarðar hafi ekki komið til fyrr en með vatnalögunum nr. 15/1923.
    Dómurinn sýknaði því frú F og G af öllum kröfum J o.fl.

Hrd. 1940. bls. 239.
    J krafðist viðurkenningar á því með dómi að hann sem eigandi jarðanna Svarfhóls og Bjargarsteins hefði skv. 3. gr. laga nr. 61/1932 rétt til innlausnar á veiðirétti í Hvítá fyrir landi því sem téðum jörðum kynni að verða úthlutað meðfram Hvítá við væntanleg yfirlandskipti.
    Dómurinn tók fram að ætla mætti af sambandinu milli 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 61/1932 að skilyrði 1. mgr. um að ¾ hlutar landeigenda krefjist innlausnar, ætti við það að þegar sami aðili á veiðirétt fyrir landi fleirum en einnar jarðar í sömu veiðigrennd, þá sé honum ekki skylt að hlíta innlausn, nema ¾ hlutar landeigenda krefjist hennar. Í þessu máli var J eigandi beggja þeirra jarða sem innlausnar var krafist fyrir og því taldi dómurinn skilyrðinu fullnægt. Dómurinn tók jafnframt fram að 2. mgr. 3. gr. laganna gæti ekki staðið rétti J í vegi. Taldi dómurinn rétt að fallast á kröfu J.

Hrd. 1939. bls. 400.
    S, eigandi og ábúandi Sauðhúsa, J, eigandi og ábúandi Saura og S, eigandi og ábúandi Hrappsstaða ásamt R, eiganda jarðarinnar Fjósa, höfðuðu mál á hendur T og kröfðust þess að hann yrði, að viðurlögðum dagsektum, dæmdur til að gefa út til þeirra hvers um sig, afsal fyrir veiðirétti á jörðum þeirra gegn greiðslu upphæðar skv. matsgerð. Töldu þeir sig eiga rétt skv. 3. gr. laga nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði til að innleysa veiðiréttindi fyrir sinni jörð.
    Eigendur jarðanna létu gera bæði undir- og yfirmat. Matsmenn framkvæmdu matið á þeim grundvelli að sannvirði veiðiréttindanna væri andvirði veiðinnar að frádregnum kostnaði við að afla hennar.
    Dómarinn í héraði vísaði til 85. gr. veiðilaganna, sbr. 10. gr. þeirra laga, þar sem kom fram að matsverð skyldi miða við gangverð er eignin myndi hafa í kaupum og sölum. Þar sem yfirmatsmenn höfðu ekki gert grein fyrir gangverði eignanna í frjálsum kaupum, t.d. miðað við veiðiréttindi í öðrum sambærilegum ám, þá taldi dómarinn matið framkvæmt á röngum grundvelli. Dómurinn sýknaði því T. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna.

Fylgiskjal II.


Lax- og silungsveiði á Íslandi.

Efnahagsleg áhrif og líffræðileg staða auðlindarinnar.

Skýrsla unnin fyrir Landssamband veiðifélaga.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.HLUTI I

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands:

Lax- og silungsveiði á Íslandi. Efnahagsleg áhrif.

Skýrsla til Landssambands veiðifélaga, september 2004.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


HLUTI II

Veiðimálastofnun:

Líffræðileg staða lax- og silungsstofna á Íslandi.

Skýrsla til Landssambands veiðifélaga, september 2004.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um lax- og silungsveiði.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um fiskrækt og frumvarpi til laga um eldi vatnafiska, en saman er lagafrumvörpum þessum ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Við endurskoðun laganna var farin sú leið að kljúfa efni þeirra upp og greina í fimm lagafrumvörp og liggur því til grundvallar það sjónarmið að skipa saman í lagabálka þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga. Þessu tiltekna frumvarpi er ætlað að verða eins konar þungamiðja þessarar lagasetningar, en hin frumvörpin fjögur koma þar til fyllingar og stuðnings, þótt þau samkvæmt eðli sínu séu sjálfstæð. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að meginmarkmið frumvarpsins sé hið sama og gildandi laga, þ.e. að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og þær takmarkanir sem sá réttur sætir. Uppbyggingu laganna er hins vegar breytt í þeim tilgangi að gera þau einfaldari og skýrari og öll stjórnsýsla við lagaframkvæmdina er einfölduð og munu færri kom þar að málum en nú er.
    Fjórar efnisbreytingar frumvarpsins frá ákvæðum gildandi laga sýnast helst geta snert kostnað ríkissjóðs. Í fyrsta lagi ákvæði 43. gr. um heimild félagsmanna til að kæra ákvarðanir veiðifélags eða félagsstjórnar til Landbúnaðarstofnunar. Í ákvæðinu felst að Landbúnaðarstofnun hefur lögmætiseftirlit með ákvörðunum veiðifélaga á grundvelli kæru. Sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum. Í öðru lagi ákvæði 44. gr. um að laun og annar kostnaður af starfsemi matsnefndar greiðist af fjárlögum. Á móti kemur að við ákvörðun matskostnaðar skv. 47. gr. skal við það miðað að hann standi almennt undir kostnaði af starfsemi nefndarinnar. Samkvæmt því eiga aðilar máls að bera allan kostnað sem af matsgerðinni hlýst. Er það í samræmi við gildandi lög. Í þriðja lagi ákvæði 1. mgr. 49. gr. frumvarpsins um bótarétt veiðieiganda úr ríkissjóði í þeim tilvikum að lagaákvæði leiði til þess að veiði hans skerðist verulega. Í 102. gr. gildandi laga er svipað ákvæði en þar er bótarétturinn hins vegar bundinn við að skerðingin leiði einungis af þeim lögum og skal ríkissjóður þá greiða helming bótanna á móti hlutaðeigandi sveitarsjóðum. Í fjórða lagi bráðabirgðaákvæði I um að skipa skuli 10 manna samráðsnefnd um framkvæmd laganna. Í frumvarpinu er ekkert vikið að kostnaði af nefndarstarfinu eða hver skuli greiða hann og er í umsögn þessari við það miðað að nefndin verði ólaunuð, enda er um að ræða samráðsnefnd hagsmunaaðila og þeirra opinberu stofnana sem helst koma að framkvæmd laganna.
    Ekki verður séð að frumvarp þetta, verði það óbreytt að lögum, leiði beint til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Kostnaður við afgreiðslu hugsanlegra kærumála skv. 43. gr. er óljós og að öllum líkindum ekki verulegur og er hér gert ráð fyrir að hann rúmist innan núverandi fjárhagsramma landbúnaðarráðuneytis. Sama gildir um kostnað samráðsnefndar, verði hann einhver. Samandregið má því ætla að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs séu óveruleg. Ekki eru forsendur til að meta hugsanleg útgjöld ríkissjóðs vegna skaðabóta á grundvelli 1. mgr. 49. gr. frumvarpsins umfram útgjöld samkvæmt gildandi lögum.