Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.

Þskj. 899  —  614. mál.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Til starfandi hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni og stækka veitusvæði sitt með yfirtöku á hitaveitum sem ekki hafa slíkt einkaleyfi og standa frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis.

2. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Þegar um er að ræða styrki á grundvelli 3. tölul. 11. gr. skal miðað við 20.000 kWst ársnotkun á hverja íbúð sem tengd er veitunni. Við ákvörðun styrkfjárhæðar skal miðað við fjárhæð niðurgreiðslu í dreifbýli á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins.

3. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Styrkir til hitaveitu á grundvelli 3. tölul. 11. gr. skulu renna óskertir til hitaveitunnar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum III. kafla laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, um stofnun nýrra hitaveitna.
    Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að auka notkun jarðvarma til húshitunar. Árið 1998 var komið á laggirnar sérstöku átaki til jarðhitaleitar á svokölluðum köldum svæðum, þar sem rafmagn er notað til húshitunar. Hefur þessu átaksverkefni verið fram haldið frá 1998. Aðilar að því hafa verið iðnaðarráðuneytið, Byggðastofnun og Orkusjóður. Jarðhitaleitarátakinu er ætlað að vera hvati og upphaf að frekari aðgerðum til nýtingar jarðvarma til húshitunar. Það beinist einkum að frumstigum leitar, en sveitarfélögum og orkufyrirtækjum er ætlað að taka við verkefnunum, finnist jarðhiti sem hagkvæmt er að nýta. Vinna á vegum jarðhitaleitarátaksins hefur einkum beinst að þéttbýlisstöðum og þau svæði verið látin ganga fyrir þar sem dreifing raforku til húshitunar kann að vera ótrygg. Í 16. gr. laga nr. 78/2002, svo sem þeim var breytt með 5. gr. laga nr. 58/2004, er ráðherra veitt heimild til að ákveða að sérstakt jarðhitaleitarátak á köldum svæðum fái allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna. Ef leit leiðir til jákvæðrar niðurstöðu taka sveitarfélög og orkufyrirtæki við framkvæmdum og standa undir frekari kostnaði.
    Í þeim tilgangi að auðvelda stofnun hitaveitna samþykkti ríkisstjórnin haustið 1999 tillögur iðnaðarráðherra að reglum um úthlutun styrkja til lagningar nýrra hitaveitna á svæðum sem njóta niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar. Reglurnar byggðust á þeirri stefnu sem mörkuð var með samþykkt þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 1999–2001. Í byggðaáætlun var mörkuð sú stefna að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu á rafhitun til íbúðarhúsnæðis til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla með þeim hætti að aukinni notkun jarðvarma til húshitunar. Í byggðaáætluninni var miðað við að styrkir til einstakra hitaveitna gætu numið sömu fjárhæð og sem nam fimm ára niðurgreiðslum til rafhitunar á dreifiveitusvæði nýrra veitna. Hitaveitustyrkjum var ætlað að vera hvati til að stuðla að frekari nýtingu á heitu vatni til hitunar á íbúðarhúsnæði. Rétt var talið að gera þetta í ljósi þess að aðgangur að hitaveitu skapaði bætt lífskjör og að með því að leggja fé til nýrra hitaveitna væri verið að skapa þeim betri rekstrarskilyrði með lækkun stofnkostnaðar. Talið var æskilegt að tengja þetta niðurgreiðslum til húshitunar og niðurfellingu þeirra þar sem með því væri ríkissjóður að losna undan niðurgreiðslum vegna húshitunar til framtíðar litið.
    Með III. kafla laga nr. 78/2002 var m.a. lögfest sú framkvæmd sem verið hafði á úthlutun styrkja vegna nýrra hitaveitna eða stækkunar eldri veitna með þeirri breytingu að allar hitaveitur gætu átt rétt á styrk en ekki eingöngu þær sem hefðu einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni. Með 4. gr. laga nr. 58/2004, um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, var kveðið á um að styrkur skyldi miðast við fjárhæð sem næmi átta ára niðurgreiðslum.

II. Réttur til niðurgreiðslna á orku til húshitunar.
    Stofnstyrkir til nýrra hitaveitna tengist mjög niðurgreiðslum til húshitunar en fjárhæð styrkja er reiknuð út frá niðurgreiðslum þeirra sem tengjast hitaveitunni. Því er rétt að gera grein fyrir helstu ákvæðum II. kafla laga nr. 78/2002 varðandi niðurgreiðslu á orku til hitunar áður en fjallað er um styrki til nýrra hitaveitna. Skv. 4. gr. laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, skal, ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til niðurgreiðslna á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis, verja þeim fjármunum til niðurgreiðslna í eftirfarandi tilfellum: Í fyrsta lagi ef íbúð sem hituð er með raforku er ekki á veitusvæði hitaveitu. Í öðru lagi til íbúða sem eru á veitusvæði hitaveitu en kostnaður við tengingu og áætluð orkukaup er hærri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu. Í þriðja lagi skal þeim varið til íbúða sem hitaðar eru með olíu og hvorki eru á veitusvæði hitaveitu né tengjast raforkukerfi. Í fjórða lagi skal fjármunum varið til íbúða sem hitaðar eru með vatni frá kyntri hitaveitu og raforkunotkun veitunnar til hitunar vatns er meira en 10% af heildarorkuöflu veitunnar.
    Í 3. gr. laganna er veitusvæði hitaveitu skilgreint sem það svæði þar sem hitaveita hefur einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni. Þetta felur í sér að þeir sem tengdir eru hitaveitu sem ekki hefur einkaleyfi geta tekið upp rafhitun og jafnframt átt rétt á niðurgreiðslum. Þessar hitaveitur keppa því í raun við niðurgreitt rafmagn til hitunar.

III. Stofnstyrkir til nýrra hitaveitna.
    Samkvæmt lögum nr. 78/2002 eiga hitaveitur sem hófu rekstur árið 1998 eða síðar eða hitaveitur sem hafa aukið við dreifikerfi sitt á árinu 1998 eða síðar rétt á stofnstyrk. Styrkur til hitaveitu getur numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan. Styrkurinn, sem er í formi eingreiðslu, greiðist til hitaveitu þegar hún hefur rekstur með dreifingu á heitu vatni til húshitunar á orkuveitusvæðinu. Þetta hefur síðan í för með sér að niðurgreiðslur á kostnaði til hitunar íbúðarhúsnæðis á hinu nýja starfssvæði hitaveitunnar eru felldar niður, svo sem nánar er kveðið á um í 15. gr. laganna.

IV. Einkahitaveitur
    Í lögum er ekki að finna skilgreiningu á einkahitaveitum. Í orkulögum, nr. 58/1967, er fjallað um skilyrði fyrir veitingu einkaleyfis til reksturs hitaveitu til almenningsþarfa. Í lögum nr. 78/2002 er veitusvæði hitaveitu skilgreint sem það svæði þar sem hitaveita hefur einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni. Þessar veitur hafa gjarnan verið nefndar opinberar veitur eða reglugerðarveitur til aðgreiningar frá einkahitaveitum. Einkahitaveitur eru því þær hitaveitur sem ekki hafa einkaleyfi til rekstrar og um starfsemi þeirra gilda hvorki sérstök reglugerð né gjaldskrá staðfest af ráðherra.
    Ráðuneytið hefur leitað upplýsinga hjá Orkustofnun um fjölda einkahitaveitna á landinu. Samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar eru u.þ.b. 200 einkahitaveitur skráðar hjá stofnuninni. Talið er að viðskiptavinir sem tengdir eru einkahitaveitum séu á bilinu 700 til 800 og að nálægt 2.200 manns búi á starfssvæðum slíkra einkahitaveitna. Af þessum u.þ.b. 200 einkahitaveitum eru 22 veitur með um 1.630 íbúa. Þær veitur sem eftir standa þjónusta hver um sig fáa notendur.
    Meðalhitaorkuþörf íbúðarhúsnæðis sem nýtur niðurgreiðslu í dag er í kringum 30.000 kWst/ári. Í frumvarpinu er lagt til að miðað verði við 20.000 kWst við útreikning styrks þar sem allur styrkurinn er hugsaður til að greiða niður kostnað við endurnýjun dreifikerfis hitaveitunnar. Meðalniðurgreiðsla í dreifbýli á veitusvæði RARIK er 3,2 kr./kWst. Útgjöldum vegna slíkra styrkja verður mætt með breyttri forgangsröðun innan ramma fjárlaga.

V. Efni frumvarpsins og helstu ástæður breytinga.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að veita styrki til einkaleyfishitaveitna sem yfirtaka starfsemi einkahitaveitna með svipuðum hætti og nú gildir um hitaveitur sem stofnaðar eru árið 1998 eða síðar. Rétt þykir að setja það skilyrði fyrir styrkveitingu að viðkomandi einkahitaveita standi frammi fyrir miklum fjárútlátum vegna endurnýjunar dreifikerfis. Meðalhitaorkuþörf íbúðarhúsnæðis sem nýtur niðurgreiðslu í dag er í kringum 30.000 kWst/ári. Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðanir við útreikning styrkfjárhæðar verði fastákveðnar í lögum og að miðað verði við 20.000 kWst við útreikning styrks þar sem allur styrkurinn er hugsaður til að greiða niður kostnað við endurnýjun dreifikerfis hitaveitunnar og ekki er um að ræða kostnað notenda af tengingu við hitaveituna. Meðalniðurgreiðsla í dreifbýli á veitusvæði RARIK er í 3,2 kr./kWst og er gert ráð fyrir að útgjöldum vegna þessara styrkja verði mætt með breyttri forgangsröðun innan ramma fjárlaga.
    Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðanir við útreikning styrkfjárhæðar verði fastákveðnar í lögum við 20.000 kWst. Þá er og lagt til að miðað verði við þá fjárhæð niðurgreiðslna sem gildir fyrir dreifbýli á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins.
    Rökin fyrir því að gera þá breytingu á lögum nr. 78/2002 sem frumvarpið felur í sér eru nokkur. Í fyrsta lagi er nokkuð hallað á þær hitaveitur sem stofnaðar voru fyrir 1998 og ekki eiga kost á styrk vegna stofnunar samkvæmt núverandi fyrirkomulagi. Á þetta sérstaklega við um einkahitaveitur sem starfa í raun við þau skilyrði að þurfa að keppa við niðurgreidda raforku til húshitunar. Í öðru lagi er óskynsamlegt að láta þá fjárfestingu sem lagt hefur verið í vegna lagningar hitaveitu fara alfarið forgörðum vegna þess að notendur hennar sjá sér ekki fært að taka þátt í fjármögnun endurnýjunar dreifikerfis og velja frekar niðurgreitt rafmagn til húshitunar. Með þessu kaupir ríkissjóður sig frá mögulegum framtíðarkröfum um niðurgreiðslur vegna rafhitunar. Í þriðja lagi er með þessu ýtt undir frekari sameiningu hitaveitna í stærri einingar sem hafa meiri fjárhags- og tæknilega burði til starfseminnar. Á undanförnum árum hafa stærri orkufyrirtæki yfirtekið smærri hitaveitur án þess að slíkir styrkir hafi staðið til boða. Í fjórða lagi er þessum einkaveitum komið undir það gjaldskráreftirlit sem kveðið er á um í orkulögum, nr. 58/1967. Þannig er tryggt að gjaldskrárstefna fyrirtækjanna taki auk annarra þátta mið af endurnýjunarþörf veitunnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður sem feli í sér að heimilt verði að veita styrki til hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni og stækka veitusvæði sitt með yfirtöku á hitaveitum sem ekki hafa slíkt einkaleyfi.
    Ákvæðið felur í sér tvö skilyrði. Annars vegar er þess krafist að um sé að ræða samruna eða yfirtöku hitaveitu með einkaleyfi á dreifikerfi einkahitaveitu. Hins vegar er gerð krafa um að einkahitaveitan standi frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis. Hér má hafa að leiðarljósi hversu mikill kostnaður fellur á íbúa vegna endurnýjunarinnar, hvernig fjárhagslegri þátttöku þeirra var háttað í upphafi og hvernig uppbyggingu gjaldskrár hitaveitunnar hefur verið háttað. Þessi skilyrði þyrfti að útfæra nánar í reglugerð

Um. 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um breytingar sem gera þarf á ákvæði 12. gr. um fjárhæð styrkja. Þegar um yfirtöku einkaleyfishitaveitu á einkahitaveitu er að ræða er ekki unnt að miða við raforkunotkun og niðurgreiðslur til einstakra notenda þar sem ekki er um beinar niðurgreiðslur að ræða. Í þessum tilfellum er því nauðsynlegt að ákvarða sérstaklega forsendur útreiknings niðurgreiðslna svo unnt sé að reikna fjárhæð styrkja.
    Í greininni er lagt að miðað verði við 20.000 kWst ársnotkun á hverja íbúð sem tengd er veitunni. Meðalhitaorkuþörf íbúðarhúsnæðis sem nýtur niðurgreiðslu er um 30.000 kWst. Þar sem einvörðungu er um að ræða styrki til hitaveitu vegna endurnýjunar dreifikerfis en ekki styrki til nýrra notenda vegna kostnaðarsamra breytinga á hitakerfi íbúðarhúsa er lagt til að miðað verði við 20.000 kWst. Þetta samsvarar u.þ.b. 65% af meðalhitaorkuþörf sem er það hlutfall sem koma á hitaveitu í hlut til að greiða niður stofnkostnað, sbr. 2. mgr. 14. gr. Þá er kveðið á um að miða skuli fjárhæð niðurgreiðslna við það sem gerist í dreifbýli á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins.

Um 3. gr.

    Í 14. gr. laganna er kveðið á um úthlutun og ráðstöfun styrkja. Þar segir m.a. að hitaveita skuli nýta styrkinn að hluta til að greiða niður stofnkostnað hitaveitunnar og að hluta til að styrkja eigendur íbúðarhúsa þar sem kostnaður við tengingu við starfandi eða nýjar veitur er umtalsverður, svo sem vegna kostnaðarsamra breytinga á hitakerfi. Þegar um er að ræða yfirtöku einkaleyfisveitu á einkaveitu er ekki um að ræða kostnað við tengingu hjá eigendum íbúðarhúsa og því rétt að styrkurinn renni alfarið til viðkomandi hitaveitu.
    Í lokamálslið 1. mgr. 12. gr. er kveðið á um að frá styrkfjárhæðinni skuli dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar. Eins og orðalag ákvæðisins gefur til kynna nær það almennt ekki til styrkja eða fjárhagsstuðnings sem einkahitaveitna hefur hlotið vegna þess dreifikerfis sem er til staðar og þarfnast endurnýjunar þar sem styrkur vegna yfirtöku hitaveitu á starfandi einkahitaveitu rennur til einkaleyfisveitunnar. Skilyrðið um að einkahitaveita standi frammi fyrir kostnaðarsamri endurnýjun dreifikerfis kemur í veg fyrir að styrkur verði fyrst veittur á grundvelli 1. eða 2. tölul. 11. gr. og síðar á grundvelli samruna við einkaleyfishitaveitu þar sem endingartími dreifikerfis ætti að vera nokkrir áratugir.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002,
um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu verður heimilt að veita niðurgreiðslur vegna starfandi hitaveitna sem sækja um einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni eða hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni. Núgildandi lög ná eingöngu til opinberra hitaveitna en með breytingunni ná þau einnig til einkaveitna. Gerð eru þau skilyrði um niðurgreiðslur til einkaveitna að um sé að ræða samruna eða yfirtöku hitaveitu með einkaleyfi á dreifikerfi einkahitaveitu. Auk þess er gerð krafa um að einkahitaveitan standi frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis. Þessi skilyrði þarf að útfæra í reglugerð. Samkvæmt mati Orkustofnunar munu um 10% af einkahitaveitum geta tengst einkaleyfisveitum vegna fjarlægðar. Áætlað er að niðurgreiðslur einkaveitna gætu orðið um 20 m.kr á ári. Með breyttri forgangsröðun munu niðurgreiðslurnar rúmast innan fjárlagaramma iðnaðarráðuneytisins. Samkvæmt fjárlögum 2006 er í heild ráðgert að veita 1.036 m.kr. til niðurgreiðslna til húshitunar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.