Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 616. máls.

Þskj. 901  —  616. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 79 24. maí 2005,
um uppboðsmarkaði sjávarafla.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Við a-lið 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt og lögheimili hér á landi ná ekki til einstaklinga sem hafa ríkisfang og búsettir eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða til Færeyinga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þessi breyting kemur til vegna ákvæða samnings um Evrópska efnahagssvæðið (EES- samningsins), sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Hér er sérstaklega verið að vísa til reglna EES-samningsins um staðfesturétt og frjálsa fjármagnsflutninga. Í 31. gr. EES- samningsins er kveðið á um svokallaðan staðfesturétt en hann felur í sér rétt fyrir einstaklinga og lögaðila í einu aðildarríki EES til að stunda atvinnustarfsemi í öðru aðildarríki með sömu skilyrðum og einstaklingar og fyrirtæki í því ríki. Í 40. gr. EES-samningsins er kveðið á um frjálsa fjármagnsflutninga en þar segir m.a. að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum eða nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða á því hvar féð er notað til fjárfestingar. Af þessum sökum er talið að skilyrði a-liðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 79/2005 eigi ekki að ná til borgara frá Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er einnig talið að skilyrði a-liðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 79/2005 eigi ekki við um borgara frá Sviss og Færeyjum vegna ákvæða nýs stofnsamnings EFTA sem undirritaður var í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001 og samnings Íslands við Færeyjar um fríverslun sem undirritaður var 31. ágúst 2005.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2005,
um uppboðsmarkað á sjávarafla.

    Með frumvarpinu er lagt til að skilyrði um það hverjir megi reka uppboðsmarkað með sjávarafla hér á landi verði víkkuð út þannig að þau samrýmist alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.
    Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið hvorki áhrif á gjöld né tekjur ríkissjóðs.