Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 651. máls.

Þskj. 958  —  651. mál.Frumvarp til laga

um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Tilgangur.

    Tilgangur laga þessara er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til bærra yfirvalda verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.

2. gr.
Gildissvið.

    Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar:
     a.      Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
     b.      Líftryggingafélög og lífeyrissjóðir.
     c.      Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum söfnunartengdum tryggingum skv. 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994.
     d.      Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–c-lið.
     e.      Einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta.
     f.      Lögmenn og aðrir lögfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
        i.        þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum;
        ii.    þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja, sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns, opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum, útvega nauðsynlegt fjármagn til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum eða stofna, reka eða stýra fjárvörslusjóðum, fyrirtækjum og áþekkum aðilum.
     g.      Endurskoðendur.
     h.      Aðrir einstaklingar og lögaðilar þegar þeir í starfi sínu inna af hendi sömu þjónustu og talin er upp í f-lið, t.d. skattaráðgjafar eða aðrir utanaðkomandi ráðgjafar.
     i.      Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
     j.      Einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
     k.      Þjónustuaðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
     l.      Einstaklingar eða lögaðilar sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti, eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga þegar greiddir eru út vinningar.
    Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að aðilar sem falla undir a–d-lið 1. mgr. og taka þátt í fjármálastarfsemi aðeins stöku sinnum eða að mjög takmörkuðu leyti og starfsemin felur í sér litla hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka séu undanþegnir ákvæðum laga þessara.
    Skylt er þeim sem falla undir ákvæði þessara laga að veita alla nauðsynlega aðstoð til að ákvæðum laganna verði framfylgt.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Peningaþvætti: Þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings með broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum, svo sem auðgunarbroti eða meiri háttar skatta- eða fíkniefnabroti, tollalögum, lögum um ávana- og fíkniefni, áfengislögum og lyfjalögum. Einnig er átt við þegar einstaklingur eða lögaðili tekur að sér að geyma, dylja eða flytja slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.
     2.      Fjármögnun hryðjuverka: Öflun fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það til að fremja brot sem er refsivert skv. 100. gr. a almennra hegningarlaga.
     3.      Ávinningur: Hvers kyns hagnaður og eignir hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár.
     4.      Raunverulegur eigandi: Einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á eða stýrir þeim einstaklingi og/eða lögaðila sem skráður er fyrir eða framkvæmir viðskiptin. Raunverulegur eigandi telst m.a. vera:
              a.      Einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
              b.      Einstaklingur eða einstaklingar sem eru framtíðareigendur að 25% eða meira af eignum fjárvörslusjóðs eða svipaðs löglegs fyrirkomulags, eða hafa yfirráð yfir 25% eða meira af eignum hans. Í tilvikum þar sem ekki hefur enn verið ákveðið hverjir munu njóta góðs af slíkum fjárvörslusjóði telst raunverulegur eigandi vera sá eða þeir sem sjóðurinn er stofnaður fyrir eða starfar fyrir.
     5.      Tilkynningarskyldir aðilar: Aðilar sem taldir eru upp í 1. mgr. 2. gr.
     6.      Þjónustuaðili á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu: Einstaklingur eða lögaðili sem veitir eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi:
              a.      stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
              b.      gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
              c.      útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið, eða aðra tengda þjónustu,
              d.      starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars löglegs fyrirkomulags,
              e.      starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði.

II. KAFLI
Könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.
4. gr.
Könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.

    Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skulu kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna í samræmi við ákvæði þessa kafla í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Við upphaf samningssambands.
     b.      Vegna einstakra viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleirum sem virðast tengjast hver annarri.
     c.      Þegar grunur leikur á um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, án tillits til undanþágna eða takmarkana af neinu tagi.
     d.      Þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann séu réttar eða nægilega áreiðanlegar.

5. gr.
Upplýsingaöflun tilkynningarskyldra aðila.

    Áður en samningssambandi er komið á skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að nýr viðskiptamaður sanni á sér deili með eftirfarandi hætti:
     a.      Einstaklingar: með framvísun persónuskilríkja sem gefin eru út af opinberum aðila.
     b.      Lögaðilar: með framlagningu vottorðs úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá með heiti, heimilisfangi og kennitölu eða sambærilegum upplýsingum. Tilkynningarskyldur aðili skal jafnframt gera kröfu um að fullnægjandi upplýsingar séu veittar um raunverulegan eiganda, sbr. 3. gr. Prókúruhafar skulu sanna deili á sér með sama hætti og greinir í a-lið.
    Afla skal upplýsinga um tilganginn með fyrirhuguðum viðskiptum hjá verðandi viðskiptamanni.
    Hafi einstaklingur eða starfsmaður tilkynningarskylds aðila vitneskju um eða ástæðu til að ætla að tiltekin viðskipti fari fram í þágu þriðja manns skal viðskiptamaður krafinn upplýsinga um hver sá þriðji maður er.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu varðveita ljósrit af persónuskilríkjum og öðrum gögnum sem krafist er, eða fullnægjandi upplýsingar úr þeim, í a.m.k. fimm ár frá því að viðskiptum lýkur.

6. gr.
Reglubundið eftirlit tilkynningarskyldra aðila.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa reglubundið eftirlit með samningssambandinu við viðskiptamenn sína til að tryggja að viðskipti þeirra séu í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar um þá, t.d. með athugun á viðskiptum sem eiga sér stað á meðan á samningssambandinu stendur. Upplýsingar um viðskiptamenn skulu uppfærðar og frekari upplýsinga aflað í samræmi við lög þessi eftir því sem þörf krefur.

7. gr.
Áhættumat.

    Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að beita ákvæðum 5. og 6. gr. á grundvelli áhættumats þar sem umfang upplýsingaöflunar og annarra ráðstafana samkvæmt lögum þessum gagnvart hverjum viðskiptamanni byggist á mati á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nýti þeir sér slíka heimild er þeim skylt að setja sér reglur um framkvæmd þess og ber aðilum sem tilgreindir eru í a–d-lið 1. mgr. 2. gr. að fá reglurnar samþykktar af Fjármálaeftirlitinu og aðilum sem tilgreindir eru í e–l-lið 1. mgr. 2. gr. að fá reglurnar samþykktar af lögreglu.

8. gr.
Tímabundin frestun upplýsingaöflunar.

    Nýr viðskiptamaður skal sanna á sér deili í samræmi við 5. gr. áður en samningssambandi er komið á. Til að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta má þó fresta því þar til samningssamband hefur stofnast í þeim tilvikum þar sem lítil hætta er talin á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Viðskiptamaður skal í slíkum tilvikum sanna á sér deili eins fljótt og því verður komið við.
    Heimilt er að opna bankareikning fyrir viðskiptamann þrátt fyrir að skilyrðum 1. mgr. sé ekki fullnægt að því tilskildu að tryggt sé að færslur á hann verði ekki framkvæmdar fyrr en hann hefur sannað á sér deili skv. 5. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt þegar um viðskipti með líftryggingar er að ræða að rétthafi samkvæmt líftryggingarsamningnum sanni á sér deili þegar samningssambandi við viðskiptamann hefur verið komið á. Í slíkum tilvikum skal rétthafi sanna deili á sér eigi síðar en þegar líftrygging er greidd út eða áður en rétthafi hyggst nýta sér rétt þann sem felst í tryggingunni.

9. gr.
Skilyrðum könnunar á áreiðanleika upplýsinga ekki uppfyllt.

    Hafi ekki reynst mögulegt að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. er óheimilt að stofna til samningssambands við viðkomandi. Skal jafnframt metið hvort ástæða sé til að senda lögreglu tilkynningu skv. 16. gr.
    1. mgr. gildir ekki um störf lögmanna við athugun þeirra á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli.

III. KAFLI
Auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann.
10. gr.
Fjarsala.

    Við upphaf viðskipta með fjarsölu, stofnun samninga með notkun fjarskiptaaðferða eða á annan sambærilegan hátt þar sem viðskiptamaðurinn er ekki á staðnum til að sanna á sér deili ber að afla viðbótargagna um viðskiptamann ef nauðsyn krefur svo og krefjast þess að fyrsta greiðsla skuli gerð í nafni viðskiptamanns og af reikningi sem hann hefur stofnað í starfandi fjármálafyrirtæki.
    Í reglum sem tilkynningarskyldum aðilum er skylt að setja um innra eftirlit fyrir starfsemina, sbr. 1. mgr. 22. gr., skal þegar það á við kveða nánar á um viðskipti með notkun fjarskiptaaðferða og varðveislu gagna um slík viðskipti.

11. gr.
Millibankaviðskipti.

    Í millibankaviðskiptum yfir landamæri, við aðila frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, skulu fjármálafyrirtæki sem lög þessi gilda um uppfylla eftirtalin skilyrði:
     a.      afla upplýsinga um starfsemi gagnaðilans og meta út frá opinberum gögnum orðstír viðkomandi og gæði eftirlits hjá honum,
     b.      leggja mat á eftirlit gagnaðilans með því að ekki fari fram peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
     c.      afla samþykkis frá yfirstjórn áður en millibankaviðskiptum er komið á,
     d.      skrásetja skyldur hvors aðila fyrir sig samkvæmt lögum þessum, og
     e.      fá staðfest, þegar um greiðslustreymisreikninga er að ræða, að gagnaðilinn viti deili á viðskiptamanni og meti reglulega upplýsingar um viðskiptamenn sem hafa beinan aðgang að reikningum hjá fjármálafyrirtæki sem lög þessi gilda um, og geti veitt viðeigandi upplýsingar um viðskiptamann sé þess óskað.

12. gr.
Einstaklingar í áhættuhópi.

    Ef samningssamband eða viðskipti eru við einstaklinga sem teljast vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna og eru búsettir í öðru landi skulu tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum fullnægja eftirtöldum skilyrðum, auk skilyrða II. kafla:
     a.      meta hvort viðskiptamaður telst vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna, en til þess hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu og nánasta fjölskylda þeirra eða einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra,
     b.      afla samþykkis frá yfirstjórn áður en stofnað er til viðskipta við þá,
     c.      grípa til viðeigandi ráðstafana til að sannreyna uppruna fjármuna sem notaðir eru í samningssambandinu eða viðskiptunum,
     d.      hafa reglubundið aukið eftirlit með samningssambandinu.

13. gr.
Millibankaviðskipti við lánastofnun án raunverulegrar starfsemi.

    Lánastofnunum sem lög þessi gilda um er óheimilt að stofna til eða halda áfram millibankaviðskiptum við lánastofnun eða annan aðila með sambærilega starfsemi sem stofnaður er innan lögsögu þar sem hann hefur enga raunverulega starfsemi eða stjórn og er ótengdur eftirlitsskyldri fjármálasamstæðu. Þeim er jafnframt óheimilt að eiga í millibankaviðskiptum við banka sem heimilar slíkri lánastofnun að nota reikninga sína.

14. gr.
Nafnleynd í viðskiptum.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu sýna sérstaka varúð þegar um er að ræða vöru eða viðskipti þar sem hvatt er til nafnleyndar og skulu ef þörf krefur gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slík viðskipti séu notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

IV. KAFLI
Undanþágur frá kröfum um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.
15. gr.
Aðilar sem undanþegnir eru ákvæðum um könnun
á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.

    5. og 6. gr. laga þessara um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna gilda ekki um eftirtalda aðila:
     a.      Lögaðila sem taldir eru upp í a- og b-lið 1. mgr. 2. gr. og samsvarandi lögaðila sem hlotið hafa starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildir um eftirlitsskyldar lána- eða fjármálastofnanir frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem gerðar eru sambærilegar kröfur til og í lögum þessum.
     b.      Félög sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
     c.      Íslensk stjórnvöld.
    Áður en undanþága skv. 1. mgr. er veitt skal afla fullnægjandi upplýsinga um viðskiptamann til að ganga úr skugga um að hann falli undir a-, b- eða c-lið 1. mgr.

V. KAFLI
Tilkynningarskylda og aðrar skyldur aðila.
16. gr.
Almenn tilkynningarskylda.

    Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka og tilkynna lögreglu um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi. Gildir þetta einkum um viðskipti sem eru óvenjuleg, mikil eða flókin, með hliðsjón af venjubundinni starfsemi viðskiptamannsins eða virðast ekki hafa fjárhagslegan eða lögmætan tilgang.
    Samkvæmt beiðni lögreglu, sem rannsakar peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, skulu tilkynningarskyldir aðilar láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna tilkynningarinnar.
    1. mgr. gildir ekki um upplýsingar sem lögmenn öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings, eða upplýsingar sem þeir öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við dómsmálið. Sama gildir um upplýsingar sem aðilar skv. g–i-lið 1. mgr. 2. gr. öðlast þegar þeir veita lögmanni sérfræðiráðgjöf fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls.

17. gr.
Skylda til að forðast viðskipti.

    Forðast skal viðskipti þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að rekja megi þau til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Skal tilkynna um þau til lögreglu og taka fram í tilkynningunni innan hvaða frests tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma viðskiptin. Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað lögsókn á hendur þeim sem hafa hagnað af viðskiptunum skal lögreglu tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.

18. gr.
Meðferð tilkynninga o.fl.

    Lögreglu ber að staðfesta skriflega móttöku tilkynningar skv. 16. og 17. gr. Lögreglu er heimilt ef brýn nauðsyn krefur að óska eftir því að viðskipti sem tilkynnt hefur verið um skv. 16. og 17. gr. verði ekki framkvæmd fyrr en að loknum þeim fresti sem tilgreindur er í tilkynningunni. Lögregla skal tafarlaust gera tilkynnanda viðvart telji hún ekki þörf á hindrun viðskipta.
    Nánar skal mælt fyrir um móttöku tilkynninga, greiningu og miðlun upplýsinga um hugsanlegt peningaþvætti í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur.

19. gr.
Bann við upplýsingagjöf.

    Tilkynningarskyldum aðilum og stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki vitneskju um að lögreglu hafi verið sendar upplýsingar skv. 16. og 17. gr., um að rannsókn sé hafin vegna gruns um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða að slíkri rannsókn kunni að verða hrundið af stað.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er miðlun framangreindra upplýsinga heimil til eftirtalinna aðila:
     a.      til Fjármálaeftirlitsins,
     b.      innan samstæðu eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga,
     c.      milli aðila sem nefndir eru í f- og g-lið 1. mgr. 2. gr. og sinna starfi sínu hjá sama lögaðila eða sama neti fyrirtækja,
     d.      milli aðila sem nefndir eru í a–g-lið 1. mgr. 2. gr. að því tilskildu að öllum eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:
              1.      að báðir aðilar tilheyri sömu starfsgrein,
              2.      að málið varði einstakling eða lögaðila sem er viðskiptavinur hjá báðum aðilum,
              3.      að upplýsingarnar varði viðskipti sem snerta báða aðila,
              4.      að báðir aðilar hafi sambærilegar skyldur hvað varðar þagnarskyldu og vernd persónuupplýsinga, og
              5.      að upplýsingarnar séu eingöngu notaðar í þeim tilgangi að hindra peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Eingöngu er heimilt að miðla upplýsingum skv. 2. mgr. til einstaklings eða lögaðila með heimili í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef einstaklingurinn eða lögaðilinn er bundinn af sambærilegum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lög þessi mæla fyrir um.
    Aðilar nefndir í f- og g-lið 1. mgr. 2. gr. sem ráða viðskiptavinum sínum frá því að taka þátt í ólöglegu athæfi teljast ekki hafa brotið 1. mgr. um bann við upplýsingagjöf.

20. gr.
Undantekning frá þagnarskyldu.

    Þegar tilkynningarskyldur aðili veitir lögreglu upplýsingar í góðri trú samkvæmt lögum þessum telst það ekki brot á þagnarskyldu sem hann er bundinn lögum samkvæmt eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi einstaklingum, lögaðilum eða starfsmönnum þeirra.

21. gr.
Tilnefning ábyrgðarmanns.

    Tilkynningarskyldir aðilar bera ábyrgð á því að ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim sé framfylgt. Þeim er skylt að tilnefna einn úr hópi stjórnenda sem sérstakan ábyrgðarmann sem að jafnaði annast tilkynningar í samræmi við ákvæði 16. og 17. gr. og sjá til þess að mótaðar séu samræmdar starfsaðferðir er stuðli að framkvæmd laganna. Lögreglu skal tilkynnt um tilnefningu ábyrgðarmanns.

22. gr.
Innra eftirlit o.fl.

    Tilkynningarskyldum aðilum ber skylda til þess að setja sér skriflegar innri reglur og hafa innra eftirlit sem miðar að því að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Skulu þeir m.a. sjá til þess að starfsmenn hljóti sérstaka þjálfun í þeim tilgangi.
    Tilkynningarskyldum aðilum ber skylda til þess að gera skriflegar skýrslur um allar grunsamlegar og óvenjulegar færslur sem verða við framkvæmd viðskipta í starfsemi þeirra. Um varðveislu slíkra gagna fer samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 5. gr.
    Lögaðilar sem nefndir eru í 1. mgr. 2. gr. skulu búa yfir kerfi sem gerir þeim kleift að bregðast skjótt við fyrirspurnum frá lögreglu eða öðrum lögbærum yfirvöldum. Um varðveislu slíkra gagna, þ.m.t. upplýsinga um einstök viðskipti viðskiptamanna, fer samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 5. gr.
    Lögaðilum sem nefndir eru í 1. mgr. 2. gr. ber við ráðningu starfsfólks að setja sérstakar reglur um hvaða athuganir skuli gerðar á ferli umsækjenda um stöður hjá fyrirtækjunum og í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs eða annarra sambærilegra skilríkja um feril og fyrri störf.

23. gr.
Útibú og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Aðilar sem tilgreindir eru í a–c-lið 1. mgr. 2. gr. skulu tryggja að útibú þeirra og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins kanni áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína með sambærilegum hætti og mælt er fyrir um í lögum þessum eða eins sambærilegum hætti og lög viðkomandi ríkis heimila.
    Ef löggjöf ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett heimilar ekki sambærilega könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn og mælt er fyrir um í lögum þessum skal viðkomandi aðili senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu um það. Jafnframt skal viðkomandi aðili tryggja að hlutaðeigandi útibú eða dótturfélag bregðist við hættunni á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eftir öðrum leiðum.
    Aðilar sem tilgreindir eru í a–c-lið 1. mgr. 2. gr. skulu sjá til þess að útibú þeirra og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins setji sér skriflegar innri reglur sambærilegar þeim sem krafist er í 1. mgr. 22. gr. eða eins sambærilegar reglur og lög viðkomandi ríkis heimila.

VI. KAFLI
Eftirlit o.fl.
24. gr.
Fjármálaeftirlitið.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að aðilar sem tilgreindir eru í a–d-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem um starfsemi eftirlitsskyldra aðila gilda.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beita eftirlitsúrræðum sem kveðið er á um í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi við eftirlit samkvæmt lögum þessum.

25. gr.
Tilkynningar eftirlitsaðila.

    Fái Fjármálaeftirlitið, önnur stjórnvöld eða aðrir fagaðilar sem hafa eftirlit með starfsemi tilkynningarskyldra aðila í störfum sínum vitneskju um viðskipti sem tengjast peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða upplýsingar um viðskipti sem grunur leikur á að tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal það tilkynnt til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitið gefur út tilkynningar og leiðbeiningar ef þörf er á sérstakri varúð í viðskiptum við ríki eða ríkjasvæði sem ekki fylgja alþjóðlegum tilmælum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Tilkynningarskyldum aðilum ber jafnframt að gefa sérstakan gaum að ríkjum eða ríkjasvæðum sem ekki fylgja alþjóðlegum tilmælum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti.

VII. KAFLI
Viðurlög.
26. gr.
Viðurlög.

    Vanræki tilkynningarskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi að kanna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína skv. II. kafla, tilkynningarskyldu eða aðrar skyldur skv. V. kafla eða vanræki hann að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skýrslur eða gögn svo sem kveðið er á um í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim skal hann sæta sektum.
    Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðila sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera lögaðilanum sekt.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
27. gr.
Reglugerðarheimild.

    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal:
     1.      frekari ákvæði um undanþágur frá kröfum um könnun á áreiðanleika skv. 15. gr.,
     2.      nánari ákvæði um framkvæmd tilkynningarskyldu skv. 16. gr.,
     3.      sérstakar reglur um heimild tilkynningarskyldra aðila til að reiða sig á könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann sem framkvæmd er af þriðja aðila,
     4.      nánari ákvæði um hvaða upplýsingar um sendanda skuli fylgja millifærslum,
     5.      sérstakar reglur um tilkynningar á millifærslum til eða í þágu einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki er með viðunandi reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
     6.      sérstakar reglur um bann eða takmarkanir á heimildum tilkynningarskyldra aðila til að stofna til samningssambands eða framkvæma millifærslur til einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki er með viðunandi reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

28. gr.
Innleiðing.

    Með lögum þessum eru tekin upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/60/EB, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverka.

29. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum viðskiptaráðuneytisins og er því ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/60/EB. Vegna þess hve umfangsmiklar breytingar hafa orðið á alþjóðlegum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti var farin sú leið að semja frumvarp til nýrra heildarlaga.

Alþjóðlegt samstarf.
    Með vaxandi heimsvæðingu viðskipta og frelsi í fjármagnsflæði milli ríkja hefur peningaþvætti orðið alþjóðlegt vandamál en talið er að það sé ein af undirstöðum alþjóðlegrar glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnaverslunar og hryðjuverka. Á alþjóðavettvangi hafa ýmsar aðgerðir beinst að því að efla baráttu gegn þessari þróun. Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem samþykktur var í Vín 19. desember 1988 gerir m.a. kröfu um að þvætti peninga, sem fengnir eru fyrir ólöglega meðferð ávana- og fíkniefna, sé gert refsivert og Alþjóðasamningur til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka sem samþykktur var í New York árið 1999 gerir m.a. kröfu um að hægt sé að kyrrsetja og leggja hald á fjármuni sem notaðir eru eða verja skal til fjármögnunar hryðjuverka. Ísland er aðili að báðum samningunum. Á vettvangi Evrópuráðsins var í Strassborg árið 1989 samþykktur samningur um þvætti á illa fengnu fé og um hald, leit og upptöku ávinnings af afbrotum en samkvæmt honum er alþjóðlegt samstarf ekki bundið við peningaþvætti vegna fíkniefnabrota heldur allra refsiverðra brota. Evrópuráðssamningurinn öðlaðist gildi á Íslandi árið 1998.

FATF.
    Á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í París í júlí 1989 var ákveðið að setja á stofn alþjóðlegan vinnuhóp, Financial Action Task Force on Money Laundering (FATF), til að vinna að aðgerðum til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé í umferð. Árið 2001 var baráttunni gegn fjármögnun hryðjuverka bætt við hlutverk FATF. Þau ríki sem tekið hafa þátt í FATF-samstarfinu hafa verið í fararbroddi aðgerða gegn peningaþvætti. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með inngöngu skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur að tillögunum.
    Hlutverk og starfssvið FATF hefur verið greint í þrennt. Í fyrsta lagi að semja staðla fyrir aðgerðir í hverju ríki gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í öðru lagi að leggja mat á aðgerðir ríkja til að innleiða þessa staðla, og í þriðja lagi rannsaka og læra að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samin hafa verið tilmæli til aðildarríkjanna um aðgerðir gegn peningaþvætti. Árið 1990 voru 40 slík tilmæli gefin út og hafa þau verið endurskoðuð tvisvar, árið 1996 og 2003, til að tryggja að þau fylgi þróun á þessu sviði og hafa 9 sérstök tilmæli bæst við.
    Af hálfu FATF eru framkvæmdar úttektir á lögum, reglum og starfsaðferðum og gerðar skýrslur um aðgerðir hvers aðildarríkis um sig. Ríkin hafa einnig sammælst um að beita önnur ríki þrýstingi eftir því sem við á með því að setja þau á sérstakan lista yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði standist þau ekki kröfur FATF um aðgerðir gegn peningaþvætti. Felst þrýstingurinn meðal annars í því að gera strangari kröfur til ríkjanna eða aðila þar búsettra um hvers konar fjármálalega gerninga, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við aðila á slíkum svæðum geti falið í sér hættu á peningaþvætti. Í apríl á þessu ári verður framkvæmd úttekt hér á landi á stöðu þessara mála. Lögð er áhersla á að Ísland komi vel út svo trúverðugleiki og traust íslensks viðskiptalífs bíði ekki hnekki. Nefnd sem skipuð var af viðskiptaráðherra hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd aðgerða gegn peningaþvætti hér á landi, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni tengd peningaþvætti. Hefur hún unnið að undirbúningi fyrir úttekt FATF á Íslandi. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar viðskiptaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Seðlabankans, ríkislögreglustjóra, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Fjármálaeftirlitsins.

EES-samningurinn og tilskipanir ESB.
    Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að koma í veg fyrir og berjast gegn peningaþvætti og í þeim tilgangi samþykkt þrjár tilskipanir. Efni þeirra hefur verið í takt við tilmæli FATF- hópsins og hefur verið litið á vinnu hans sem leiðandi á heimsvísu á þessu sviði. Fyrsta tilskipunin er tilskipun ráðsins 91/308/EBE og var tilgangurinn með henni að samræma aðgerðir aðildarríkjanna til að reyna að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir verði notaðar til að þvætta ábata af brotastarfsemi og að hindra að aukið frelsi í fjármagnsflutningum og rétti til að veita fjármálaþjónustu, sem hið óskipta fjármálasvæði felur í sér, verði notað til peningaþvættis. Var hún felld inn í EES-samninginn og innleidd með gildandi lögum nr. 80/ 1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti. Tilskipunin lagði þær skyldur á herðar ríkjanna að banna þvætti á fíkniefnagróða, skylda fjármálafyrirtæki til að bera kennsl á viðskiptavini sína, varðveita skjöl og koma á innri reglum og tilkynna um allt sem bendi til peningaþvættis til lögbærra yfirvalda. Brátt kom í ljós að of þröngt þótti að takmarka gildissvið tilskipunarinnar við fíkniefnagróða. Einnig sýndi það sig að aukið eftirlit í fjármálageiranum varð til þess að þeir sem stunduðu peningaþvætti leituðu annarra leiða til þvættis. Í framhaldinu var samþykkt tilskipun 2001/97/EB og víkkaði hún gildissvið fyrri tilskipunarinnar þar sem hún felldi fleiri starfsgreinar undir ákvæðin. Tilskipunin fjölgaði einnig tegundum refsiverðra brota og felldi undir hana þvætti á ávinningi af alvarlegum afbrotum. Ákvæði tilskipunarinnar voru innleidd með lögum nr. 42/2003.
    Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa valið þá leið að innleiða nýjustu ákvæði FATF- samstarfsins á vettvangi ESB. Var samin ný tilskipun frá grunni en leitast við að byggja eins og mögulegt væri á gildandi efnisreglum. Við samþykkt nýrrar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverka, féllu tilskipanirnar tvær frá 1991 og 2001 úr gildi.
    Tilskipun 2005/60/EB hefur enn sem komið er ekki verið felld inn í EES-samninginn en ákveðið var að fara þá leið að innleiða hana nú þegar og innleiða um leið hin nýju ákvæði FATF-samstarfsins og leitast við að ljúka innleiðingunni áður en úttekt FATF hér á landi hefst.

Helstu nýjungar.
    Hvað varðar gildissvið laganna er í stað þess að miða við þá starfsemi sem aðilar stunda verði gildissviðið miðað við aðilana sem starfsemina stunda og að vísað verði til þeirra sem tilkynningarskyldra aðila. Aðilum sem falla undir lögin er fjölgað í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB.
    Lagt er til að gerðar verði auknar kröfur til tilkynningarskyldra aðila um að þeim sé ljóst hver viðskiptamaður þeirra er og hver standi í raun að baki viðskiptunum, þ.e. hver teljist raunverulegur eigandi.
    Lögð eru til ítarleg ákvæði um könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn tilkynningarskyldra aðila en jafnframt heimilað að slíkt mat verði framkvæmt á grundvelli áhættumats þar sem tilkynningarskyldum aðila er heimilað að nokkru leyti að meta hversu mikilla upplýsinga um viðskiptamann er þörf í hverju tilviki.
    Þá er lagt til að ríkari kröfur verði gerðar til upplýsingaöflunar við ákveðnar aðstæður þar sem almennt er talið að hætta á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka sé meiri.
    Lagt er til að lögmönnum verði veitt undanþága frá almennri tilkynningarskyldu vegna gruns um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka þegar lagaleg staða skjólstæðings er könnuð og í tengslum við rekstur dómsmáls.
    Lagðar eru til víðtækari undanþágur frá banni við upplýsingagjöf þannig að auk eftirlitsaðila verði m.a. heimilt að miðla upplýsingum um tilkynningu, rannsókn eða mögulega rannsókn innan samstæðu og milli lögmanna og endurskoðenda hjá sama lögaðila eða neti fyrirtækja.
    Mælt er fyrir um að tilkynningarskyldir aðilar skuli setja sér skriflegar innri reglur sem miða að því að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.
    Mælt er fyrir um skyldu lögaðila sem frumvarpið tekur til að búa yfir kerfi sem gerir þeim kleift að bregðast með skjótum hætti við fyrirspurnum frá lögreglu eða öðrum lögbærum yfirvöldum.
    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi virkt eftirlit með því að aðilar sem tilgreindir eru í a–e-lið frumvarpsins fari að ákvæðum þess. Felst eftirlitið í heimildum til að kalla eftir hvers konar gögnum og heimild til sérstakra athugana á starfsstöð. Láti aðili hjá líða að uppfylla skyldur sínar um afhendingu gagna getur Fjármálaeftirlitið lagt dagsektir á viðkomandi í samræmi við ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að markmið laganna verði skilgreint í sérstakri grein. Skyldum þeim sem lagðar eru á herðar aðilunum sem frumvarpið tekur til um að þekkja viðskiptavini sína og framkvæma áreiðanleikakannanir er fyrst og fremst ætlað að vera fyrirbyggjandi og koma í veg fyrir að starfsemi þeirra verði notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Verði þeir hins vegar varir við slíkt í starfsemi sinni er lögð áhersla á að það verði strax tilkynnt til eftirlitsaðila.

Um 2. gr.

    Í 1. gr. gildandi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti er farin sú leið að lýsa þeirri starfsemi einstaklinga og lögaðila sem falla undir ákvæði laganna. Ákvæðinu var breytt á þann veg með lögum nr. 38/1999 sem breyttu lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993. Fyrir þann tíma var farin sú leið að telja upp þá aðila sem lögin tóku til. Frumvarpið leggur til að aftur verði farin sú leið að telja upp þá aðila sem lögin taka til. Með þeim hætti er alveg skýrt til hverra lögin taka og þeim aðilum sem taldir eru upp er skylt að gæta þeirra varúðarráðstafana sem frumvarpið mælir fyrir um. Aðilum sem lögunum er ætlað að taka til er fjölgað, en við bætast vátryggingamiðlarar og þjónustuaðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu og er það í samræmi við kröfur tilskipunar 2005/60/EB.
    Fjármálafyrirtæki eins og þau eru skilgreind í gildandi lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, hafa með höndum flesta þá starfsemi sem lýst er í 1.–13. tölul. 1. mgr. 1. gr. gildandi laga og þarf starfsleyfi til að hafa með höndum megnið af þeirri starfsemi. Er því lagt til að fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki falli undir lögin. Verði breyting á þeim lögum og nýrri starfsemi bætt við þau lög mun sú starfsemi einnig falla undir frumvarpið. Í gildandi lögum um fjármálafyrirtæki er leyfisskyld starfsemi talin upp í 1. mgr. 3. gr. Starfsemi sem þar er lýst og fjármálafyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi samkvæmt lögunum munu því falla undir lögin en skv. 4. gr. laganna geta fjármálafyrirtæki fengið starfsleyfi sem viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun og rekstrarfélag verðbréfasjóða. Þá eru verðbréfasjóðir og fjárfestingasjóðir reknir af rekstrarfélagi sem fellur undir ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og er frumvarpinu ætlað að taka til þeirra.
    Lagt er til að líftryggingafélög og lífeyrissjóðir falli áfram undir lögin, sbr. b-lið, en samkvæmt gildandi lögum er vísað til líftryggingastarfsemi og starfsemi lífeyrissjóða. Fyrirtæki sem hafa með höndum slíka starfsemi munu því áfram falla undir ákvæði laganna.
    Með c-lið er lagt til að vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga falli undir lögin þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum söfnunartengdum tryggingum skv. 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, en gildandi lög ná ekki til slíkrar starfsemi. Er með tillögunni verið að innleiða e-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Með d-lið er mælt fyrir um að þegar erlent fyrirtæki er með útibú á Íslandi og útibúið fellur undir a–c-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins nái gildissvið laganna til útibúsins. Ástæðan er sú að þótt meginreglan á Evrópska efnahagssvæðinu sé að eftirlitsaðili heimaríkis annist eftirlit með útibúum í öðrum löndum þykir eðlilegra að eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé á þeim stað þar sem útibúið er. Ákvæðið nær til útibúa erlendra fyrirtækja hvort sem fyrirtækið er innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ákvæðið innleiðir að hluta 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2005/60/EB, sbr. 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.
    Með e-lið er lagt til að frumvarpið gildi um einstaklinga eða lögaðila sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta. Þannig falla t.d. gjaldeyrisskiptastöðvar (e. bureau de change) undir ákvæði frumvarpsins. Gjaldeyrisskiptastöðvar eru aðilar sem fengið hafa leyfi frá Seðlabanka Íslands til að reka gjaldeyrisskiptastöð samkvæmt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
    Ákveðnir þættir í starfsemi lögmanna falla undir ákvæði gildandi laga en í frumvarpinu er lagt til með f-lið 1. mgr. að kveðið verði á um það með skýrari hætti hvaða þættir í störfum lögmanna fyrir skjólstæðinga sína ákvæði frumvarpsins gilda um. Ákvæðið er samræmi við ákvæði tilskipunar 2005/60/EB.
    Samkvæmt g-lið er lagt til að frumvarpið gildi um endurskoðendur og er það í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB.
    Með h-lið er lagt til að frumvarpið taki einnig til annarra en lögmanna þegar þeir inna af hendi sömu þjónustu og talin er upp í f-lið. Hvers kyns ráðgjafar- eða sérfræðistörf geta fallið þar undir þegar þeir veita þessa þjónustu sem þátt í starfi sínu.
    Þá er lagt til í i-lið að frumvarpið taki til fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala en gildandi lög taka til starfsemi þeirra.
    Einnig er lagt til í j-lið að ákvæði frumvarpsins gildi um einstaklinga og lögaðila sem versla með vörur, þegar þeir selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé að fjárhæð 15.000 evrur eða meira. Skiptir ekki máli hvort greiðslunni er skipt niður ef heildarfjárhæð hlutarins fer yfir viðmiðunarfjárhæðina. Ákvæðið gildir um verslunareigendur og aðra aðila, t.d. uppboðshaldara, þegar þeir selja einstaka vörur sem ná þessari fjárhæð eða hærri. Ákvæðinu er einkum ætlað að gilda um söluaðila dýrrar vöru, t.d. eðalsteina, málma eða listmuna. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun ESB.
    Í k-lið er lagt til að þjónustuaðili á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu falli undir gildissvið laganna. Um það hverjir teljast slíkir þjónustuaðilar vísast til umfjöllunar um 3. gr.
    L-liður samsvarar 2. mgr. 1. gr. gildandi laga.
    Lagt er til með 2. mgr. að Fjármálaeftirlitið geti ákveðið að aðilar sem falla undir a–d-lið 1. mgr. og taka þátt í fjármálastarfsemi aðeins stöku sinnum eða að mjög takmörkuðu leyti og starfsemin felur í sér litla hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka séu undanþegnir ákvæðum laganna. Gild rök verða að vera fyrir því að slík undanþága sé heimiluð. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 2. gr. tilskipunar ESB.
    3. mgr. samsvarar 3. mgr. 2. gr. gildandi laga.

Um 3. gr.

    Með greininni eru lagðar til hugtaksskilgreiningar sem nauðsynlegar þykja.
    Skilgreiningar á peningaþvætti og ávinningi eru óbreyttar frá gildandi lögum.
    Með frumvarpinu er lagt til að það fjalli um aðgerðir gegn fjármögnun hryðjuverka auk aðgerða gegn peningaþvætti. Er því lögð til skilgreining á fjármögnun hryðjuverka sem er öflun fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það til að fremja brot sem er refsivert skv. 100. gr. a almennra hegningarlaga. Með því er átt við útvegun eða söfnun fjármuna, með öllum leiðum beint eða óbeint, með það að markmiði að nota þá til að fremja hryðjuverk. Skv. 100. gr. b almennra hegningarlaga er fjármögnun hryðjuverka gerð refsiverð en þar segir að hver sem beint eða óbeint styður mann, félag eða hóp, sem fremur eða hefur þann tilgang að fremja hryðjuverk skv. 100. gr. a, með því að leggja fram fé eða veita annan fjárhagslegan stuðning, útvega eða safna saman fjármagni eða með öðrum hætti gera fjármagn aðgengilegt skuli sæta fangelsi allt að 10 árum.
    Raunverulegur eigandi er ný skilgreining sem lögð er til og er henni ætlað að innleiða 6. tölul. 3. gr. tilskipunar ESB. Tilskipunin gerir ríkar kröfur um að þeir aðilar sem ákvæði laganna taka til þekki viðskiptamenn sína. Í frumvarpinu er lagt til að við upphaf viðskipta verði skylt að borin séu kennsl á viðskiptamann og áreiðanleiki upplýsinga um hann kannaður. Jafnframt er mælt fyrir um að ef ekki liggur ljóst fyrir hver er raunverulegur eigandi (e. beneficial owner) verði skylt að veita upplýsingar um hann. Með raunverulegum eiganda er átt við einstakling, einn eða fleiri, sem í raun á eða stýrir þeim aðila sem skráður er fyrir eða framkvæmir viðskiptin. Meta verður hvenær einstaklingur teljist stýra lögaðila eða stjórni einstaklingi þannig að hann teljist vera raunverulegur eigandi og eru þau tilvik ekki tæmandi talin í skilgreiningunni. Slíkt mat gæti byggst á eignarhlut í lögaðila en einnig kæmu til skoðunar samþykktir, stofnsamningur eða aðrir samningar, t.d. hluthafasamkomulag ef um hlutafélag er að ræða. Þá getur það haft þýðingu ef hlutum í hlutafélagi er skipt í flokka. Einnig þyrfti að skoða tilvik þar sem aðili á veð í lögaðila og fer með atkvæðisrétt í viðkomandi lögaðila á grundvelli veðsins. Lagt er til að miðað sé við að aðili teljist m.a. vera raunverulegur eigandi ef hann, einn eða með fleirum, í raun á eða stjórnar lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum eða ráði yfir meira en 25% atkvæðisréttar. Einnig mundi sá sem beinlínis ræður yfir eða stýrir stjórn lögaðila teljast raunverulegur eigandi hans. Ákvæðið tiltekur einnig fjárvörslusjóði (e. trust) en hér er um að ræða form sem ekki er þekkt í íslenskum rétti en fjallað er um það í tilskipun ESB. Fjárvörslusjóðir eru einkum notaðir í löndum með fordæmisrétt (e. common law). Rétt þykir hins vegar að innleiða ákvæðið að fullu í íslenskan rétt þó að um sé að ræða félagaform sem ekki er notað hér á landi, einkum þar sem um er að ræða aðila sem gæti orðið viðskiptamaður tilkynningarskyldra aðila erlendis frá. Einkenni á fjárvörslusjóðum er að um er að ræða lögformlegan aðila sem byggir á samningi þar sem aðili (stofnandi) felur einum aðila eða fleirum umsjón eigna til hagsbóta fyrir ákveðinn/ákveðna aðila (e. beneficial owner) eða í ákveðnum tilgangi. Í slíkum tilvikum telst raunverulegur eigandi vera einstaklingur eða einstaklingar sem eru framtíðareigendur að 25% eða meira af eignum slíks sjóðs eða hafa yfirráð yfir 25% eða meira af eignum hans. Í tilvikum, þar sem raunverulegur eigandi hefur hins vegar í raun ekki verið skilgreindur, er ekki unnt að tilgreina einstakling sem raunverulegan eiganda og þá nægir að tilgreina þann hóp einstaklinga sem áformað er að verði rétthafar fjárvörslusjóðs. Ekki verður gerð krafa um að einstaklingar innan þess hóps sanni á sér deili.
    Lagt er til að tilkynningarskyldur aðili verði skilgreindur. Tilkynningarskyldir eru þeir aðilar sem taldir eru upp í 2. gr. og frumvarpinu er ætlað að taka til þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að ýmsar skyldur verði lagðar á herðar þessum aðilum, sem er ætlað að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra verði misnotuð til peningaþvættis eða fjármögnun hryðjuverka.
    Lagt er til að þjónustuaðili á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu verði skilgreindur en slíkur aðili er tilkynningarskyldur skv. 2. gr. frumvarpsins. Með skilgreiningunni er 7. tölul. 3. gr. tilskipunar 2005/60/EB innleiddur. Er átt við einstakling eða lögaðila sem veitir tiltekna þjónustu, sem talin er upp í a–e-lið, gegn gjaldi. Skv. a-lið er um að ræða þjónustu sem felur í sér stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila. Í b-lið er fjallað um þau tilvik þegar aðili gegn gjaldi gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis eða gerir annað sambærilegt. Líkt og kemur fram í inngangsorðum tilskipunar ESB felur það að sinna starfi framkvæmdastjóra fyrirtækis eða gegna sambærilegri stöðu ekki í sjálfu sér í sér að viðkomandi verði þjónustuveitandi á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu. Af þeirri ástæðu tekur skilgreiningin aðeins til þeirra einstaklinga sem gegna starfi framkvæmdastjóra eða svipaðri stöðu fyrir þriðja aðila og þá í viðskiptaskyni. Lagt er til að undir c-lið falli þjónusta sem felst í því að aðili útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan máta er notað til að hafa samband við fyrirtækið, eða aðra tengda þjónustu. Skv. d-lið getur einnig verið um að ræða aðila sem starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars löglegs fyrirkomulags. Að lokum getur skv. e-lið verið um að ræða aðila sem starfar eða fær annan einstakling til að starfa sem hluthafi að nafninu til fyrir annan aðila en aðeins þegar um er að ræða fyrirtæki sem ekki er skráð á skipulegum markaði.

Um 4. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að tilkynningarskyldir aðilar framkvæmi könnun á áreiðanleika upplýsinga viðskiptamanna sinna undir ákveðnum kringumstæðum. Ákvæðið leggur til, ásamt öðrum ákvæðum í kaflanum, að gerðar verði ítarlegri ráðstafanir til þess að tilkynningarskyldir aðilar þekki viðskiptamenn sína og sé kunnugt um eðli viðskipta þeirra.
    Könnun á áreiðanleika upplýsinga viðskiptamanna felur það í sér að tilkynningarskyldur aðili staðfestir að upplýsingarnar sem viðskiptamaðurinn veitir honum séu réttar. Sambærilegar efnisreglur eru í gildandi lögum en grein þessari er ætlað að innleiða 7. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Lagt er til að könnun á áreiðanleika upplýsinga fari alltaf fram í þeim tilvikum sem talin eru upp í greininni. Svipaðar reglur er að finna í gildandi lögum en tilskipunin og endurskoðuð FATF-tilmæli gera nú ítarlegri kröfur. Í fyrsta lagi er lagt til í a-lið að könnun á áreiðanleika fari ætíð fram í upphafi viðskipta. Í 5. gr. eru lögð til nánari fyrirmæli um framkvæmd a-liðar. Í öðru lagi er lagt til í b-lið að áreiðanleikakönnun fari fram vegna einstakra eða tilfallandi viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleirum sem virðast tengjast hver annarri. Lagt er til að evra verði áfram viðmiðið eins og er í gildandi lögum, fjárhæðin er þá í samræmi við tilskipunina þó að breytingar verði á gengi íslensku krónunnar. Ákvæðið er sambærilegt við 2. mgr. 3. gr. gildandi laga.
    Með c-lið er lagt til að skylt sé að könnun á áreiðanleika upplýsinga fari í öllum tilvikum fram þegar grunur leikur á að um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka sé að ræða. Skiptir þá engu máli hvort einhverjar undanþágur frá könnun á áreiðanleika upplýsinga eða aðrar takmarkanir séu heimilaðar frá slíkri könnun, t.d. ef fjárhæð sem keypt er fyrir er lægri en 15.000 evrur í einstökum viðskiptum eða þegar ella væri heimil einföld könnun á áreiðanleika upplýsinga skv. 15. gr. Sömuleiðis er lagt til í d-lið að áreiðanleikakönnun fari alltaf fram þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann séu réttar eða nægilega áreiðanlegar. Í slíkum tilvikum er t.d. hægt að krefjast þess að hann sanni á sér deili á ný skv. 5. gr.

Um 5. gr.

    Með greininni er lögð til nánari útfærsla á því hvernig upplýsingaöflun í upphafi viðskipta skuli fara fram. Er lagt til að tilkynningarskyldur aðili skuli krefja viðskiptamann um að hann sanni á sér deili áður en samningssambandi er komið á. Í tilviki einstaklinga skal gerð krafa um að þeir framvísi skilríkjum með mynd og nafni og öðrum upplýsingum sem staðfesta hver viðkomandi er. Mismunandi er eftir skilríkjum hvaða upplýsingar koma fram á þeim en nota skal skilríki sem gefin eru út af yfirvöldum, t.d. vegabréf, ökuskírteini eða önnur sambærileg skilríki. Tilkynningarskyldur aðili sem hyggst stofna til samningssambands við viðkomandi verður að vera sannfærður um að viðskiptamaðurinn tilvonandi sé sá sem hann segist vera. Í sumum tilvikum getur þurft að gera ríkari kröfur til áreiðanleikakönnunar, sjá síðar.
    Þegar um lögaðila er að ræða er lagt til að krafist verði framlagningar vottorðs úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða úr sambærilegri skrá frá sambærilegri stofnun ef um t.d. erlenda aðila er að ræða. Í tilmælum FATF er gert ráð fyrir að til að ganga úr skugga um lagalega tilvist og form lögaðila verði upplýsingar látnar í té um heiti, lagalegt form, heimili, stjórnarmenn og reglur um hver geti skuldbundið lögaðila. Að auki þegar í hlut á íslenskur lögaðili bæri að gefa upp kennitölu. Prókúruhafar skulu sanna deili á sér með sama hætti og einstaklingar sanna á sér deili og sýna fram á að þeir hafi heimild til að koma fram fyrir hönd lögaðila.
    Í samræmi við kröfur tilskipunar ESB er lagt til það nýmæli að gerð er krafa um að upplýst sé hver raunverulegur eigandi er. Í umfjöllun um 3. gr. er fjallað um raunverulegan eiganda (e. beneficial owner). Áður en viðskiptasambandi er komið á skal veita upplýsingar um eigendur og stjórnendur lögaðila. Í inngangsorðum tilskipunar ESB er gefið það viðmið að tilkynningarskyldum aðilum sé í sjálfsvald sett hvort þeir noti opinber gögn raunverulegra eigenda, biðji viðskiptamenn sína um að afhenda viðkomandi upplýsingar eða afli þeirra með öðrum hætti með hliðsjón af því að umfang könnunar á áreiðanleika upplýsinga um hvern viðskiptamann sé mismunandi eftir samningssambandinu við hann, vörunni, viðskiptunum og því hvaða viðskiptamenn eiga í hlut en það er ræðst líka af hættunni á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Lagt er til í 2. mgr. að aflað skuli upplýsinga um tilganginn með fyrirhuguðum viðskiptum hjá verðandi viðskiptamanni. Er þetta í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB. Skal skoða ákvæðið í samræmi við ákvæði 6. gr. frumvarpsins um reglubundið eftirlit með samningssambandinu.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 5. gr. gildandi laga og 4. mgr. er samhljóða 6. gr. þeirra.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að tilkynningarskyldum aðilum sé gert að hafa reglubundið eftirlit með samningssambandinu við viðskiptamenn sína til að tryggja að viðskipti þeirra séu í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar um viðkomandi viðskiptamann. Jafnframt er lagt til að gætt sé að því að upplýsingarnar séu uppfærðar eftir þörfum. Er þetta ákvæði í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB og auknar kröfur sem gerðar eru í henni til þess að tilkynningarskyldir aðilar þekki til viðskiptamanna sinna og að farið sé reglulega yfir upplýsingarnar um þá. Eftirlit samkvæmt þessari grein nær bæði til nýrra viðskiptamanna og þeirra sem hafa verið lengur í viðskiptum.

Um 7. gr.

    Með greininni er lagt til að tilkynningarskyldum aðilum verði heimilt að ákveða umfang könnunar á áreiðanleika upplýsinga viðskiptamanna út frá mati á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Umfang slíks áhættumats skal grundvallað á tegund viðskiptamanns, viðskiptatengslum, afurð og viðskiptunum. Dæmi um viðskipti þar sem lítil hætta er talin vera á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eru lánasamningar þar sem bankareikningur er eingöngu notaður til þess að gera lánið upp og endurgreiðslur á láninu koma frá reikningi sem stofnaður var í nafni viðskiptamanns hjá viðurkenndri lánastofnun. Ákveði tilkynningarskyldur aðili að nýta sér heimild ákvæðisins skal hann setja sér reglur um framkvæmd áhættumatsins og fá þær samþykktar af Fjármálaeftirlitinu eða lögreglu eftir því sem við á. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 2005/60/EB.

Um 8. gr.

    Með 1. mgr. er mælt fyrir um þá meginreglu að viðskiptamaður skuli sanna á sér deili áður en samningssambandi er komið á. Til að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta er þó veitt svigrúm til að fresta áreiðanleikakönnun í þeim tilvikum sem lítil hætta er talin á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Þó er gerð krafa um að viðskiptamaður sanni á sér deili eins og fljótt og því verði við komið, helst strax eftir fyrstu samskipti. Hér er um undanþágu að ræða sem túlka skal þröngt. Er ákvæðinu ætlað að koma t.d. til móts við þau tilvik þar sem viðskiptamaðurinn er ekki á staðnum til að sanna á sér deili. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 1. og 2. mgr. 9. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Með 2. mgr. er lögð til heimild til að opna bankareikning fyrir viðskiptamann þó að hann hafi ekki sannað á sér deili að því tilskildu að tryggt sé að færslur séu ekki framkvæmdar á reikninginn fyrr en því er lokið.
    3. mgr. fjallar um viðskipti með líftryggingar og heimilar undanþágu frá meginreglu frumvarpsins um að viðskiptamaður skuli sanna á sér deili áður en til samningssambands er stofnað. Hér er það rétthafi samkvæmt líftryggingarsamningnum sem skal sanna á sér deili skv. 5. gr. frumvarpsins og er heimilt að bíða með það þar til eftir að til samningssambands hefur stofnast. Rétthafi skal þó sanna á sér deili eigi síðar en áður en líftrygging er greidd út eða áður en rétthafi hyggst nýta sér rétt þann sem felst í tryggingunni.

Um 9. gr.

    Með greininni er lagt til að óheimilt verði að stofna samningssamband ef ekki reynist unnt að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Engu skiptir hvort ástæðan er að gagnaðilinn neitar að veita umbeðnar upplýsingar eða aðrar orsakir eru fyrir því. Með hliðsjón af því að viðskiptamaður skal sanna á sér deili í samræmi við 1. mgr. 5. gr. áður en samningssambandi er komið á getur í fæstum tilfellum stofnast til samningssambands í slíkum tilvikum, sbr. þó 8. gr. Þegar það liggur fyrir að skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. verði ekki fullnægt skal tilkynningarskyldur aðili gæta þess að samningssamband komist ekki á. Skal jafnframt metið hvort ástæða sé til að tilkynna lögreglu um tilvikið. Tilkynningarskyldur aðili metur það í hverju tilviki með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni hvort ástæða sé til að ætla að hætta hafi verið á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
    Með 2. mgr. er lagt til að störf lögmanna við athugun þeirra á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál verði undanþegin ákvæði 1. mgr. Þykir ekki við hæfi að þeim sé skylt að tilkynna grunsemdir um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka undir slíkum kringumstæðum. Þagnarskylda lögmanna gildir því um slík störf fyrir umbjóðendur þeirra nema lögmaðurinn sé sjálfur þátttakandi í peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, lögfræðiráðgjöfin sé veitt í því skyni að stunda slíka starfsemi eða lögmaðurinn viti að umbjóðandi hans sé að leita eftir lögfræðiráðgjöf í því skyni að stunda peningaþvætti eða fjármagna hryðjuverk.

Um 10. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 4. mgr. 3. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.

    Ákvæðið mælir fyrir um tiltekin skilyrði sem fjármálafyrirtæki ber að uppfylla í millibankaviðskiptum (e. correspondent banking) við aðila frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í a- og b-lið eru gerðar kröfur um að lagt sé mat á viðkomandi aðila. Við framkvæmd matsins skv. a-lið skal farið eftir opinberum gögnum og þar skiptir m.a. máli hvort heimaríki viðkomandi aðila fylgir alþjóðlegum viðmiðum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Með c-lið er lagt til að afla verði samþykkis frá yfirstjórn áður en stofnað er til viðskipta við slíka aðila. Það skilyrði er nægilega uppfyllt með því að samþykkis sé aflað frá næsta stjórnunarstigi fyrir ofan þann starfsmann sem annast stofnun millibankaviðskipta. Ekki er þörf á að leita samþykkis stjórnar.
    Með d-lið er lagt til að skrásettar verði skyldur hvors aðila. Í tilvikum þar sem skýrt liggur fyrir hvor aðilinn ber ábyrgð á framkvæmd reglna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er skrifleg framkvæmd ekki nauðsynleg.
    E-liður á eingöngu við í þeim tilvikum er fjármálafyrirtæki hefur veitt viðskiptavinum millibanka beinan aðgang að reikningum hjá sér.
    Ákvæðinu er ætlað að innleiða 3. mgr. 13. gr. tilskipunar 2005/60/EB.

Um 12. gr.

    Með greininni er lagt til að ítarlegri kröfur um könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn gildi um einstaklinga sem teljast vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna (e. politically exposed persons) og eru búsettir utan Íslands. Þeir sem teljast vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna skv. a-lið eru einstaklingar sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, s.s. forsetar, ráðherrar, þingmenn, dómarar, háttsettir saksóknarar, háttsettir sendiherrar, háttsettir liðsforingjar, háttsettir lögreglustjórar og einstaklingar í stjórnum ríkisstofnana sem fara með eftirlit eða stjórna öðrum opinberum stofnunum, s.s. seðlabönkum og sambærilegum stofnunum. Til nánustu fjölskyldu einstaklings í áhættuhópi teljast m.a. maki, sambúðarmaki, börn, tengdabörn og foreldrar. Með nánum samstarfsmönnum er átt við einstaklinga sem samkvæmt opinberum gögnum hafa verið í nánu viðskiptasambandi við einstakling í áhættuhópi, s.s. meðeigendur hans í hvers konar félagi eða lögaðila.
    Með b-lið er lagt til að afla verði samþykkis frá yfirstjórn áður en stofnað er til viðskipta við slíka aðila. Það skilyrði er nægilega uppfyllt með því að samþykkis sé aflað frá næsta stjórnunarstigi fyrir ofan þann starfsmann sem annast stofnun viðskipta við einstakling í áhættuhópi. Ekki er þörf á að leita samþykkis stjórnar.
    Með c-lið er lagt til að grípa skuli til viðeigandi ráðstafana til að sannreyna uppruna fjármuna sem notaðir eru í samningssambandinu eða viðskiptunum. Með því er átt við að aflað skuli upplýsinga um eignir og tekjur viðkomandi til að geta metið hvort viðskiptin séu í eðlilegum tengslum við fjárhagslega stöðu hans.
    Með d-lið er lagt til að fram fari reglubundið aukið eftirlit með samningssambandinu, þannig að breytingar á fjölda og fjárhæð færslna uppgötvist og verði kannaðar nánar.
    Ákvæðinu er ætlað að innleiða 4. mgr. 13. gr. tilskipunar 2005/60/EB.

Um 13. gr.

    Ákvæðið bannar lánastofnunum að stofna til eða halda áfram millibankaviðskiptum við lánastofnun eða aðila með sambærilega starfsemi sem er stofnaður innan lögsögu þar sem hann hefur enga raunverulega starfsemi eða stjórnun og er ótengdur eftirlitsskyldri fjármálasamstæðu (e. shellbank). Staðbundinn fulltrúi eða almennur starfsmaður lánastofnunar innan lögsögu nægir ekki til þess að litið sé svo á að raunveruleg starfsemi eða stjórnun sé til staðar. Bannið nær einnig til millibankaviðskipta við banka sem heimila lánastofnunum án raunverulegrar starfsemi að nota reikninga sína. Með lánastofnun er átt við fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Ákvæðinu er ætlað að innleiða 5. mgr. 13. gr. tilskipunar 2005/60/EB.

Um 14. gr.

    Með greininni er lagt til að aðilum sem frumvarpið tekur til sé gert að sýna sérstaka varúð vegna hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka þegar um er að ræða viðskipti eða vöru, t.d. nýja tegund vöru, þar sem hvatt er til nafnleyndar eða þar sem viðskiptin eru nafnlaus.

Um 15. gr.

    Í inngangsorðum tilskipunar 2005/60/EB kemur fram að litið er svo á að hættan á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé ekki sú sama í öllum tilvikum. Er heimilað að á grundvelli áhættumats megi í ákveðnum tilvikum veita undanþágur frá almennum reglum um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna. Í samræmi við þetta er lagt til að þeir aðilar sem taldir eru upp í a–c-lið 1. mgr. verði undanþegnir því að þurfa að uppfylla skilyrði 5. og 6. gr. frumvarpsins um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna. Er hér um að ræða svokallaða einfaldaða könnun á áreiðanleika viðskiptamanna (e. simplified customer due diligence) í samræmi við 11. gr. tilskipunar ESB. Heimilt er að beita henni um aðila sem teljast vera í litlum áhættuhópi, en lítil hætta er talin stafa af þeim af þeirri ástæðu að fullnægjandi eftirlit með þeim fer fram á öðrum vettvangi. Á grundvelli þess er lagt til með a-lið 1. mgr. að heimilt verði að veita fjármálastofnunum skv. a-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins og líftryggingafélögum og lífeyrissjóðum skv. b-lið 1. mgr. 2. gr. undanþágu frá almennum reglum um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna þar sem lögbundið eftirlit með þeim er þegar til staðar auk þess sem þau eru leyfisskyld lögum samkvæmt. Einnig er lagt til með b-lið að undanþágan gildi um skráð félög með þeim rökum m.a. að lögbundið eftirlit er með skipulegum verðbréfamörkuðum sem falla undir skilgreiningu gildandi laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998. Með c-lið er lagt til að undanþágan gildi um íslensk stjórnvöld. Ekki er unnt að telja tæmandi upp hverjir falla þar undir en átt er við þá aðila eða stofnanir sem hafa opinbert hlutverk eða verkefni, t.d. ríkisstjórn og ráðuneyti, undirstofnanir ráðuneyta og sveitarstjórnir.
    Með 2. mgr. er lagt til að tilkynningarskyldur aðili verði að ganga svo fullnægjandi sé úr skugga um að viðkomandi viðskiptamaður falli undir a–c-lið 1. mgr. Jafnframt verður að hafa í huga við beitingu ákvæðisins að í skv. 4. gr. frumvarpsins er óheimilt að beita undanþágunni ef grunur leikur á að um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka sé að ræða. Í slíkum tilvikum bæri alltaf að beita reglum 5. og 6. gr. frumvarpsins. Að auki er með 16. gr. frumvarpsins lagt til að lögð verði skylda á herðar tilkynningarskyldum aðilum að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

Um 16. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. samsvarar fyrsta málslið 1. mgr. 7. gr. gildandi laga. Í síðari málslið 1. mgr. er til nánari skýringar tekið fram að skyldan eigi einkum við um viðskipti sem eru óvenjuleg, mikil eða flókin með hliðsjón af venjubundinni starfsemi viðskiptamannsins. Óvenjuleg viðskipti geta t.d. verið færslur sem fara upp fyrir tiltekin fjárhæðarmörk, ör velta á reikningi sem er í ósamræmi við innstæðu hans og færslur sem falla utan venjubundins viðskiptamynsturs viðskiptavinar. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 20. gr. tilskipunar 2005/60/EB og 11. tilmæli FATF, sbr. einnig athugasemdir við 22. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2. mgr. samsvarar lokamálslið 1. mgr. 7. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er lögmönnum veitt undanþága frá almennri tilkynningarskyldu undir vissum kringumstæðum, þ.e. annars vegar þegar lagaleg staða skjólstæðings er athuguð og hins vegar í tengslum við dómsmál. Undanþágan felur í sér að lögmaður er ekki skyldugur til að tilkynna til lögreglu upplýsingar um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka undir þessum kringumstæðum. Undanþágan á þó ekki við ef lögmaðurinn tekur þátt í peningaþvættinu eða fjármögnun hryðjuverkanna, ef hin lögfræðilega ráðgjöf er veitt í þeim tilgangi að þvætta peninga eða fjármagna hryðjuverk, eða ef lögmaðurinn veit að skjólstæðingur hans leitar eftir lögfræðilegri ráðgjöf í þeim tilgangi að þvætta peninga eða fjármagna hryðjuverk. Sama undanþága frá tilkynningarskyldu gildir um endurskoðanda sem veitir lögmanni sérfræðiráðgjöf í tengslum við dómsmál.
    Orðin „athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings“ ber að túlka með þeim hætti að undanþágan eigi aðeins við um upplýsingar sem lögmaður veitir skjólstæðingi um lagalega stöðu hans samkvæmt gildandi lögum og afleiddum rétti. Til dæmis með því að heimfæra ákveðið tilvik undir ákvæði laga.
    Ákvæði 3. mgr. er ætlað að innleiða 2. mgr. 23. gr. tilskipunar 2005/60/EB og 16. tilmæli FATF.

Um 17. gr.

    Ákvæðið samsvarar 2. mgr. 7. gr. gildandi laga.

Um 18. gr.

    Ákvæði 1. mgr. samsvarar 1. mgr. 8. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er dómsmálaráðherra veitt heimild til að mæla nánar fyrir um móttöku tilkynninga og greiningu og miðlun upplýsinga um hugsanlegt peningaþvætti í reglugerð. Í 21. gr. tilskipunar 2005/60/EB er mælt fyrir um að stofnsett skuli miðlæg innlend eining (e. Financial Intelegence Unit (FIU)) sem bera skuli ábyrgð á móttöku upplýsinga og greiningu og miðlun upplýsinga varðandi hugsanlegt peningaþvætti eða hugsanlega fjármögnun hryðjuverka. Í 27. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um að grípa skuli til viðeigandi ráðstafana til að vernda þá sem tilkynna hugsanleg brot. Í því sambandi skiptir miklu máli að trúnaður ríki milli lögreglu og tilkynnanda og að skýrar verklagsreglur mæli fyrir um samskipti þessara aðila. Jafnframt mælir 33. gr. tilskipunar 2005/60/EB fyrir um söfnun og birtingu tölfræðiupplýsinga varðandi fjölda tilkynninga um grunsamleg viðskipti, hvernig tilkynningum er fylgt eftir, fjölda tilvika sem rannsakaður er, fjölda einstaklinga sem eru saksóttir eða dæmdir fyrir peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka o.fl. Loks mælir 2. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar fyrir um að tilkynningarskyldir aðilar hafi aðgang að nýjustu upplýsingum um starfsemi peningaþvætta og um fjármögnun hryðjuverka. Á Íslandi verður umrædd miðlæg eining innan efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og jafnframt mun efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra halda utan um söfnun tölfræðiupplýsinga og almenna fræðslu. Rétt er að geta þess að gagnvart aðilum sem tilgreindir eru í a–d-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins mun Fjármálaeftirlitið þó að jafnaði sinna fræðsluhlutverkinu. Með reglugerð dómsmálaráðherra er ætlunin að innleiða 21., 27., 33. og 2. mgr. 35. gr. tilskipunar 2005/60/EB og 26. og 32. tilmæli FATF.

Um 19. gr.

    Ákvæði 1. mgr. samsvarar 9. gr. gildandi laga. Við málsgreinina bætist þó skylda til að sjá til þess að utanaðkomandi aðili fái ekki vitneskju um að rannsókn kunni að verða hrundið af stað.
    Með 2. mgr. er lagt til að veittar verði undanþágur frá þagnarskyldunni og veitt heimild til að miðla upplýsingum um að lögreglu hafi verið sendar upplýsingar skv. 16. og 17. gr. frumvarpsins um upphaf rannsóknar eða að slíkri rannsókn kunni að verða hrundið af stað í nánar tilgreindum tilvikum. Framkvæmd miðlunar upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga.
    Samkvæmt a-lið er lagt til að heimilt verði að miðla upplýsingum til Fjármálaeftirlitsins en skv. 24. gr. frumvarpsins er lagt til að því verði falið að hafa eftirlit með aðilum skv. a–d- lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 2. mgr. 28. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Samkvæmt b-lið er heimilt að miðla upplýsingum innan samstæðu eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga, en þar segir að samstæða sé móðurfélag og dótturfélög þess. Undir samstæðu falla jafnframt félög sem móðurfélagið eða dótturfélagið á hlutdeild í, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um ársreikninga en þar er að finna skilgreiningu á móðurfélagi. Sömuleiðis falla innan samstæðu félög sem tengjast hvert öðru með tengslum sem skylda þau til að skila samstæðureikningum og samstæðuársskýrslu, sbr. 53. gr. laga um ársreikninga. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 3. mgr. 28. gr. tilskipunar 2005/60/EB en þar er vísað til skilgreiningar 12. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/87/EB á samstæðu sem framangreind ákvæði laga um ársreikninga innleiddu í íslenskan rétt.
    Með c-lið er lagt til að lögmönnum og endurskoðendum verði heimilt að miðla upplýsingum sinni þeir starfi sínu hjá sama lögaðila eða sama neti fyrirtækja. Með neti fyrirtækja er átt við einingu fyrirtækja sem viðkomandi lögmaður eða endurskoðandi tilheyrir og að einingin lúti sameiginlegu eignarhaldi, stjórn eða eftirliti (e. compliance control). Ákvæðið á við þótt viðkomandi lögmaður eða endurskoðandi sé ekki starfsmaður fyrirtækisins, þ.e. ráðningarsamband þarf ekki að vera til staðar. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 4. mgr. 28. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Samkvæmt d-lið er þeim aðilum sem nefndir eru í ákvæðinu heimilt að miðla upplýsingum sín á milli ef öllum skilyrðum ákvæðisins er fullnægt: Báðir aðilar skulu tilheyra sömu starfsgrein, málið þarf að varða viðskiptavin beggja aðila, upplýsingarnar skulu varða viðskipti sem snerta báða aðila, báðir aðilar skulu hafa sambærilegar trúnaðarskyldur og loks má eingöngu nota upplýsingarnar í þeim tilgangi að hindra peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 5. mgr. 28. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Í 3. mgr. er lagt til að miðlun upplýsinga skv. 2. mgr. sé eingöngu heimil til einstaklinga og lögaðila utan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi er bundinn af sambærilegum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og mælt er fyrir um í frumvarpinu. Sambærilegar reglur eru reglur sem samræmast tilskipun 2005/60/EB og tilmælum FATF.
    Af 4. mgr. leiðir að bann 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir að lögmönnum og endurskoðendum sé heimilt að ráða viðskiptavinum sínum frá því að taka þátt í ólöglegu athæfi. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 6. mgr. 28. gr. tilskipunar 2005/60/EB.

Um 20. gr.

    Ákvæðið samsvarar 12. gr. gildandi laga.

Um 21. gr.

    Ákvæðið samsvarar 2. mgr. 8. gr. gildandi laga með þeirri breytingu að lagt er til að tiltekið verði sérstaklega að ábyrgðarmaður skuli vera úr hópi stjórnenda, en með því er ætlunin að innleiða 15. tilmæli FATF. Með orðunum „úr hópi stjórnenda“ er gagnvart smærri fyrirtækjum átt við að viðkomandi gegni stöðu framkvæmdastjóra en gagnvart stærri fyrirtækjum að viðkomandi sé t.d. aðstoðarforstjóri eða forstöðumaður lögfræðideildar.

Um 22. gr.

    Ákvæði 1. mgr. samsvarar 1. mgr. 10. gr. gildandi laga en lagt er til að við ákvæðið bætist skylda til að setja skriflegar innri reglur. Kröfum ákvæðisins um skriflegar innri reglur er fullnægt ef reglurnar eru til staðar á tölvutæku formi. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 1. mgr. 34. gr. og 1. mgr. 35. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Ákvæði 2. mgr. samsvarar 2. mgr. 10. gr. gildandi laga.
    Með 3. mgr. er lagt til að lögð verði sú skylda á lögaðila að búa yfir kerfi til að bregðast við fyrirspurnum frá lögreglu eða öðrum lögbærum yfirvöldum. Gögnin skulu vera nægilega ítarleg til að átta sig á eðli viðskiptanna og til að nota sem sönnunargögn í refsimáli. Kerfið verður því að geta rakið einstakar færslur. Þau gögn sem er eðlilegt að lögaðili varðveiti eru m.a. upplýsingar um nafn viðskiptavinar (og raunverulegs eiganda) auk heimilisfangs, kennitölu eða annarra persónugreinanlegra upplýsinga, tegund viðskipta, tímamark viðskipta, gjaldmiðil viðskipta og fjárhæð auk tegundar og númers á öllum reikningum sem viðskiptunum tengdust. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 30. gr. tilskipunar 2005/60/EB og 10. og 11. tilmæli FATF, sbr. einnig athugasemdir við 16. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 4. mgr. er samhljóða 3. mgr. 10. gr. gildandi laga.

Um 23. gr.

    Með 1. mgr. er lagt til að þeir aðilar sem nefndir eru í ákvæðinu skuli tryggja að útibú þeirra og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins kanni áreiðanleika upplýsinga um viðskiptavini sína með sambærilegum hætti og mælt er fyrir um í lögum þessum. Undir þessa skyldu fellur m.a. skyldan til að varðveita ljósrit af persónuskilríkjum. Ákvæðið á einkum við þegar útibú eða dótturfélag er í ríki sem ekki fylgir tilmælum FATF með fullnægjandi hætti.
    Ef löggjöf ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett heimilar ekki sambærilega könnun á áreiðanleika og mælt er fyrir um í lögum þessum skal viðkomandi tilkynningarskyldur aðili tilkynna Fjármálaeftirlitinu að ekki sé unnt að beita reglunum. Jafnframt skal viðkomandi tilkynningarskyldur aðili tryggja að hlutaðeigandi útibú eða dótturfélag bregðist við áhættunni af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eftir öðrum leiðum.
    Með 3. mgr. er lagt til að þeir aðilar sem nefndir eru í ákvæðinu skuli sjá til þess að útibú og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins setji sér sambærilegar skriflegar innri reglur og mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins eða eins sambærilegar og lög viðkomandi ríkis heimila. Kröfum ákvæðisins um skriflegar innri reglur er fullnægt ef reglurnar eru til á tölvutæku formi.
    Ákvæði 23. gr. er ætlað að innleiða 1. og 3. mgr. 31. gr. tilskipunar 2005/60/EB og 22. tilmæli FATF.

Um 24. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið skuli hafa eftirlit með því að ákvæðum frumvarpsins, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim sé framfylgt af hálfu þeirra aðila sem tilgreindir eru í a–d-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Um framkvæmd eftirlitsins er vísað til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en í því felst m.a. að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gera vettvangskannanir og krefja aðila um allar upplýsingar og gögn sem eftirlitið telur nauðsynleg. Skyldan til að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar og aðgang að gögnum gengur hér framar ákvæðum laga um þagnarskyldu, þar á meðal ákvæðum um bankaleynd. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 1. og 2. mgr. 25. gr. tilskipunar 2005/60/EB.
    Samkvæmt 2. mgr. getur Fjármálaeftirlitið beitt þeim eftirlitsúrræðum, þar á meðal dagsektum og févítum, sem kveðið er á um í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ákvæðinu er ætlað að innleiða 2. og 3. mgr. 37. gr. tilskipunar 2005/60/EB.

Um 25. gr.

    Greinin samsvarar 11. gr. gildandi laga.

Um 26. gr.

    1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    2. mgr. samsvarar 2. mgr. 14. gr. gildandi laga.

Um 27.–29. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um aðgerðir
gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

    Frumvarpi þessu er ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/60/EB, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka.
    Í frumvarpinu er að finna mun ítarlegri reglur en í gildandi lögum um hvernig haga skal eftirliti auk þess sem eftirlitið sjálft er aukið. Fjármálaeftirlitið mun þurfa að auka verulega þennan þátt í eftirliti sínu með eftirlitsskyldum aðilum og búast má við að stofnunin muni þurfa að ráða sérstakan starfsmann af þessum sökum. Þá gera reglur tilskipunarinnar ráð fyrir auknu eftirliti lögreglu á þessum vettvangi, m.a. verður henni falin rannsókn mála, söfnun tölfræðiupplýsinga, fræðsla og þátttaka í alþjóðastarfi á þessum vettvangi. Í frumvarpinu er ekki kveðið sérstaklega á um með hvaða hætti þessum atriðum skuli sinnt hjá lögreglu heldur er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra kveði á um þá tilhögun í reglugerð.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að kostnaður Fjármálaeftirlitsins aukist um sem nemur einu stöðugildi. Rekstur Fjármálaeftirlitsins er fjármagnaður með ríkistekjum af eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneyti er áætlað að þau viðbótarverkefni sem leggjast á lögreglu muni leiða til að fjölga þurfi starfsmönnum um sem nemur einu og hálfu stöðugildi lögreglumanns og lögfræðings og að kostnaður vegna slíkrar fjölgunar muni nema um 9 m.kr. á ársgrundvelli.