Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.

Þskj. 962  —  655. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti,
nr. 33/2003, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      7. tölul. verður svohljóðandi: Fagfjárfestar:
          a.      Lögaðilar sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, þ.m.t. lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki, önnur fjármálafyrirtæki sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra eftir því sem við á og hrávörumiðlanir.
          b.      Lögaðilar sem hvorki hafa starfsleyfi né sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, en þar sem tilgangur fyrirtækjanna er einungis að fjárfesta í verðbréfum.
          c.      Ríkisstjórnir og sveitarstjórnir, seðlabankar, alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar sambærilegar alþjóðastofnanir.
          d.      Aðrir lögaðilar sem uppfylla ekki tvö af þeim þremur skilyrðum sem sett eru fram í f-lið.
          e.      Einstaklingar búsettir á Íslandi, óski þeir skriflega eftir því við Fjármálaeftirlitið að vera viðurkenndir sem fagfjárfestar og uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi þremur skilyrðum:
                  i.      fjárfestir hefur átt umtalsverð viðskipti á verðbréfamörkuðum næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi,
                  ii.      verðgildi verðbréfaeignar fjárfestis nemur meira en 41,8 millj. kr.,
                  iii.      fjárfestir gegnir eða hefur gegnt í að minnsta kosti eitt ár stöðu á fjármálamarkaði sem krefst sérþekkingar á fjárfestingum í verðbréfum.
          f.      Lítil og meðalstór fyrirtæki með skráða skrifstofu á Íslandi, óski þau skriflega eftir því við Fjármálaeftirlitið að vera viðurkennd sem fagfjárfestar. Með litlum og meðalstórum fyrirtækjum er átt við fyrirtæki sem samkvæmt síðasta ársreikningi eða samstæðureikningi sínum uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi þremur skilyrðum:
                  i.      meðalfjöldi starfsmanna á fjárhagsárinu var innan við 250,
                  ii.      niðurstöðutala efnahagsreiknings fór ekki yfir 3,6 milljarða króna,
                  iii.      hrein ársvelta fór ekki yfir 4,2 milljarða króna.
     b.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir þá einstaklinga og þau litlu og meðalstóru fyrirtæki sem það hefur viðurkennt sem fagfjárfesta. Skráin skal vera aðgengileg útgefendum verðbréfa.
                  Einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem skráð eru sem fagfjárfestar hjá Fjármálaeftirlitinu er hvenær sem er heimilt að láta taka sig af skránni.
                  Einstaklingar og lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru á skrá sem fagfjárfestar hjá lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu teljast einnig fagfjárfestar á Íslandi.

2. gr.

    Í stað „24. gr.“ í 8. gr. laganna kemur: 28. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      1. mgr. verður svohljóðandi: Ákvæði kafla þessa taka til almennra útboða verðbréfa og skráningar verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað.
     b.      Í stað orðanna „héraðs- eða sveitarstjórnum“ í 2. tölul. 2. mgr. kemur: svæðis- eða staðaryfirvöldum ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.
     c.      Í stað orðanna „héraðs- eða sveitarstjórna“ í 4. tölul. 2. mgr. kemur: svæðis- eða staðaryfirvalda ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.
     d.      Á eftir orðinu „endurgreiðslu“ í c-lið 6. tölul. 2. mgr. kemur: innborgunar.
     e.      7. tölul. 2. mgr. verður svohljóðandi: verðbréf boðin í útboði þar sem heildarfjárhæð útboðsins er lægri en 210 millj. kr., sbr. þó 73. gr. laga þessara; heildarfjárhæð útboðsins skal miðuð við 12 mánaða tímabil.
     f.      Í stað „2., 4., 6. eða 7. tölul. 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 2., 4., 7. eða 8. tölul. 2. mgr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sett eru á markað“ í lokamálslið 1. tölul. kemur: eru markaðsett og/eða seld.
     b.      3. tölul. verður svohljóðandi: Grunnlýsing: Lýsing sem inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar um útgefanda og verðbréf sem boðin eru almenningi eða sem ætlunin er að skrá á skipulegan verðbréfamarkað, og að vali útgefanda, endanlega skilmála útboðs.
     c.      Í stað orðsins „umsjónaraðila“ í 6. tölul. kemur: ábyrgðaraðilum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      3. mgr. verður svohljóðandi:
                  Þegar um er að ræða lýsingu vegna skráningar á skipulegan verðbréfamarkað á verðbréfum sem eru ekki hlutabréfatengd og sem eru í einingum sem nema að lágmarki 4,2 millj. kr. að nafnverði er ekki skylda að útbúa samantekt.
     b.      B-liður 6. mgr. verður svohljóðandi: þegar verðbréf sem eru ekki hlutabréfatengd eru gefin út með samfelldum og endurteknum hætti af lánastofnunum,
                  i.      þar sem andvirði útgáfu verðbréfanna er samkvæmt landslögum bundið í eignum sem veita nægjanlega tryggingu fram að gjalddaga vegna skuldbindinga samkvæmt verðbréfunum,
                  ii.      þar sem andvirði bréfanna er fyrst og fremst ætlað að greiða upp gjaldfallinn höfuðstól og vexti ef lánastofnun verður ógjaldfær, sbr. þó XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

6. gr.

    Í stað „1. mgr. 26. gr.“ í 4. mgr. 25. gr. laganna kemur: 1. mgr. 24. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      B-liður 1. tölul. verður svohljóðandi: verðbréf eru boðin færri en 100 aðilum, öðrum en fagfjárfestum, í hverju ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
     b.      Við d-lið 1. tölul. bætist: hver eining.
     c.      Við e-lið 1. tölul. bætist: og miðast útreikningurinn á þeim mörkum við 12 mánaða tímabil.
     d.      Á undan orðinu „seld“ í 2. málsl. 1. tölul. kemur: markaðssett og/eða.
     e.      Í stað orðsins „Útboð“ í 2. tölul. kemur: Almenn útboð.
     f.      E-liður 2. tölul. verður svohljóðandi: verðbréf sem vinnuveitandi eða félag tengt honum býður, úthlutar eða mun úthluta núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum eða stjórnarmönnum félaganna; að því gefnu að verðbréfin sem boðin eru séu í sama flokki og þau verðbréf sem þegar hafa verið skráð á skipulegum verðbréfamarkaði; skjal skal vera fyrirliggjandi þar sem fram koma upplýsingar um fjölda og eðli fyrrgreindra verðbréfa ásamt ástæðum fyrir útboðinu og upplýsingum um útboðið sjálft.
     g.      Í stað orðanna „skráður á skipulegum verðbréfamarkaði“ í a-lið 3. tölul. kemur: skráður á sama skipulega verðbréfamarkaði.
     h.      Orðið „fastráðnum“ í f-lið 3. tölul. fellur brott.
     i.      Í stað orðanna „eðli hlutanna“ í f-lið 3. tölul. kemur: eðli verðbréfanna.
     j.      Á undan orðunum „skipulegum verðbréfamarkaði“ í i. lið h-liðar 3. tölul. kemur: viðkomandi,
     k.      ii. liður h-liðar 3. tölul. verður svohljóðandi: þegar um er að ræða verðbréf sem fyrst eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað eftir gildistöku þessara laga skulu verðbréfin hafa verið skráð á viðkomandi skipulegan verðbréfamarkað á grundvelli staðfestrar lýsingar sem birt hefur verið í samræmi við sambærilegar reglur og eru í lögum þessum og reglugerð, sbr. 73. gr.,
     l.      iv. liður h-liðar 3. tölul. verður svohljóðandi: viðvarandi skyldum fyrir viðskiptum með bréfin á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði hefur verið fullnægt.

8. gr.

    Í stað „29. gr.“ í 2. og 3. mgr. 32. gr. laganna kemur: 33. gr.

9. gr.

    Í stað „28. gr.“ tvívegis í 34. gr., í 1. mgr. 35. gr. og í 1. tölul. 1. mgr. 75. gr. laganna kemur: 32. gr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 76. gr. laganna:
     a.      Í stað „2. mgr. 21. gr.“ í 1. tölul. kemur: 1. mgr. 22. gr.
     b.      2. tölul. verður svohljóðandi: upplýsingar í lýsingu skv. 23. gr. og.
     c.      Í stað „26. gr.“ í 3. tölul. kemur: 30. gr.

11. gr.

         Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga að breytingum á tilteknum þáttum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum, er lúta að útboðs- og skráningarlýsingum, hér eftir nefndar lýsingar þegar átt er við hvort tveggja. Frumvarpið er hluti af innleiðingarferli vegna tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um lýsingar þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða skráð á skipulegan verðbréfamarkað (e. Directive 2003/71/EC of the European Parliament and of the Council of 4 November 2003 on the prospectus to be published when securities are offered to the public or admitted to trading), hér eftir nefnd tilskipun Evrópusambandsins um lýsingar.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út eina reglugerð á grunni fyrrgreindrar tilskipunar um lýsingar en það er reglugerð nr. 2004/809 frá 29. apríl 2004 (e. Commission Regulation (EC) No 809/2004 of 29 April 2004 implementing Directive 2003/71/EC of the European Parliament and of the Council as regards information contained in prospectuses as well as the format, incorporation by reference and publication of such prospectuses and dissemination of advertisements). Í reglugerðinni er m.a. skilgreint hvert innihald og birtingarform lýsinga skuli vera ásamt því að hún hefur að geyma reglur um birtingu auglýsinga um almenn útboð verðbréfa og skráningu þeirra á skipulegan verðbréfamarkað.
    Hinn 29. janúar 2004 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að vinna að innleiðingu framangreindrar tilskipunar og reglugerðar. Í nefndina voru skipuð Þórir Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, formaður, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, Kauphöll Íslands, Kristjana Grímsdóttir, Fjármálaeftirlitinu, Sigurður V. Guðjónsson, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, og Sólveig Ágústsdóttir, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja. Sigurður V. Guðjónsson lét af störfum í nefndinni í maí 2004 og tók Ragnar Jónasson sæti hans, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir lét af störfum í mars 2005 og tók Guðríður Ásgeirsdóttir sæti hennar, Þórir Skarphéðinsson lét af störfum í ágúst 2005 og tók Hreinn Hrafnkelsson sæti hans sem formaður, og Sólveig Ágústsdóttir lét af störfum í september 2005 og tók Helga Gunnarsdóttir sæti hennar.
    Nefndin lagði fram drög að frumvarpi til laga í lok desember 2004. Viðskiptaráðuneytið yfirfór drögin og gerði lítils háttar breytingar á þeim, en lagði síðan á grunni þeirra frumvarp til laga um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi, 2004–2005. Alþingi samþykkti lög nr. 31/2005 um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti í maí 2005 og tók sá hluti þeirra er snýr að lýsingum gildi 1. janúar 2006.
    Nefndin hefur að undanförnu unnið að gerð reglugerða um nánari framkvæmd laganna, í samræmi við ákvæði 73. gr. þeirra. Í þeirri vinnu hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að gera nokkrar minni háttar breytingar á nokkrum greinum laganna og eru tillögur að þeim breytingum lagðar fram í þessu frumvarpi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um breytingar á orðskýringum í 2. gr. laganna. Þar er um að ræða orðskýringar sem upphaflega átti að útfæra í reglugerð, en horfið hefur verið frá því og lagt er til í staðinn að viðkomandi orðskýringar verði í lögunum.

Um 2. gr.


    Leiðrétt er tilvísun í samræmi við breytingar sem urðu á lögunum þegar nýr IV. kafli tók gildi 1. janúar sl.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna breytingar á 20. gr. laganna. Í a-lið er gildissvið kaflans skýrt frekar, í b–e-lið eru breytingar sem fela í sér skýrara orðalag og í f-lið er leiðrétt tilvísun í töluliði í 3. mgr. 20. gr.

Um 4. gr.


    Í a- og b-lið greinarinnar eru breytingar sem fela í sér skýrara orðalag og í c-lið er leiðrétting.

Um 5. gr.


    Í greininni eru breytingar sem fela í sér skýrara orðalag.

Um 6. gr.


    Í greininni eru leiðrétt röng tilvísun sem var tilkomin vegna villu í tilskipun 2003/71/EB.

Um 7. gr.


    Í greininni er að finna breytingar á orðalagi nokkurra töluliða 28. gr. laganna og fela þær breytingar í sér skýrara orðalag. Þá er í f-lið greinarinnar að finna breytingu á e-lið 2. tölul. 28. gr., en með þeirri breytingu er brugðist við ábendingu framkvæmdastjórnarinnar um ónákvæmt orðalag í tilskipun 2003/71/EB.

Um 8.–10. gr.

    Í greinunum er leiðrétting á tilvísunum í samræmi við breytingar sem urðu á lögunum þegar nýr IV. kafli tók gildi 1. janúar sl. Í b-lið 10. gr. er auk þess gerð breyting til samræmis við breytta orðanotkun í lögunum.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti,


nr. 33/2003, með síðari breytingum.


    Með frumvarpinu er gerð tillaga að breytingum á tilteknum þáttum laga um verðbréfaviðskipti er lúta að útboð og skráningarlýsingum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.