Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 662. máls.

Þskj. 970  —  662. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu samnings milli Ríkjasambandsins Sviss, lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða
hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram
í Sviss, á Íslandi eða í Noregi.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Ríkjasambandsins Sviss, lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í Sviss, á Íslandi eða í Noregi, sem gerður var í Brussel 17. desember 2004.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til staðfestingar á samningi Íslands og Noregs við Sviss um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í Sviss, á Íslandi eða í Noregi, sem gerður var 17. desember 2004. Framangreindur samningur er þáttur í aðild Sviss að Schengen-samstarfinu og Dyflinnar-samningnum.
    Segja má að meginefni þessa samnings sé tvíþætt. Annars vegar mælir samningurinn fyrir um samskipti Íslands og Noregs við Sviss vegna þátttöku síðastnefnda ríkisins í Schengen- samstarfinu um afnám persónueftirlits innan Schengen-svæðisins svonefnda. Hins vegar mælir samningurinn fyrir um samskipti Íslands og Noregs við Sviss vegna þátttöku síðastnefnda ríkisins í Dyflinnar-samstarfinu um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki Evrópusambandsins, Íslandi eða Noregi.
    Samkvæmt 1. gr. samningsins skulu samskipti Íslands og Noregs við Sviss innan vébanda Schengen-samstarfsins fara samkvæmt því sem hér segir: Ísland og Noregur skulu hafa þau réttindi og skyldur sem leiðir af ákvæðum samnings þessara ríkja við ráð Evrópusambandsins um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna frá 18. maí 1999, sem og þeirra Schengen-gerða sem þessi ríki samþykkja á grundvelli þess samnings. Um réttindi Sviss í samskiptum þess við Ísland og Noreg fer hins vegar eftir samningi Sviss við Evrópusambandið frá 2004 um þátttöku þess í Schengen-samstarfinu sem og þeim Schengen-gerðum sem Sviss samþykkir á grundvelli þess samnings. Samningur Sviss við Evrópusambandið um þátttöku þess í Schengen-samstarfinu er í öllum meginatriðum sama efnis og framangreindur samningur Íslands og Noregs við Evrópusambandið frá 1999.
    Samkvæmt 2. gr. samningsins gilda sömu meginsjónarmið um samskipti Íslands og Noregs við Sviss í Dyflinnar-samstarfinu og gilda um Dyflinnar-samstarfið. Um réttindi og skyldur Íslands og Noregs í samskiptum þessara ríkja við Sviss fer því samkvæmt ákvæði samnings þessara ríkja við Evrópubandalagið frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi og þeim gerðum sem ríkin tvö hafa samþykkt á grundvelli þess samnings. Réttindi Sviss í samskiptum þess við Ísland og Noreg fer hins eftir samningi þess við Evrópubandalagið um sama efni frá 2004.
    Samkvæmt framangreindu hefur því samningurinn að öðru leyti ekki í för með sér neina breytingu á stöðu Íslands í Schengen-samstarfinu né í Dyflinnar-samstarfinu. Stefnt er að því að Sviss verði orðið hluti Schengen-svæðisins árið 2008.
    Gera þarf breytingar á 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga vegna staðfestingar framangreinds samnings. Dóms- og kirkjumálaráðherra mun síðar leggja til nauðsynlegar lagabreytingar af þeim sökum.



Fylgiskjal.


Samningur milli Ríkjasambandsins Sviss, lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í Sviss, á Íslandi eða í Noregi



RÍKJASAMBANDIÐ SVISS

og

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND

og

KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR

sem nefnast hér á eftir „samningsaðilar“,

hafa hugfast að samskipti milli Ríkjasambandsins Sviss, lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs hafa verið framúrskarandi á fjölmörgum sviðum,

hafa hug á að styrkja og þróa þessi samskipti enn frekar, einkum á sviði lögreglusamvinnu og dómsmálasamstarfs, stefnu í vegabréfsáritunarmálum og varðandi hælisveitingar,

hafa í huga, annars vegar, samningana milli lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs og Evrópusambandsins um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi eða í Noregi og, hins vegar, samningana milli Ríkjasambandsins Sviss og Evrópusambandsins um sömu málefni,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.

Í samskiptum lýðveldisins Íslands, Konungsríkisins Noregs og Ríkjasambandsins Sviss skulu lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur hafa þau réttindi og skyldur sem leiðir af samþykkt þeirra á efni ákvæða Schengen-gerðanna og þróun þeirra á grundvelli samningsins frá 18. maí 1999, sem ráð Evrópusambandsins og þessi tvö ríki gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, og Ríkjasambandið Sviss hafa þau réttindi og skyldur sem leiðir af samþykkt þess á efni ákvæða Schengen-gerðanna og þróun þeirra á grundvelli samningsins frá 2004 milli Evrópusambandsins, Evrópubandalagsins og Ríkjasambandsins Sviss um þátttöku þess síðastnefnda í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, að svo miklu leyti sem þessi ríki hafa sömu réttindi og skyldur í samskiptum sínum við Evrópusambandið og Evrópubandalagið.

2. gr.

Í samskiptum lýðveldisins Íslands, Konungsríkisins Noregs og Ríkjasambandsins Sviss skulu lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur hafa þau réttindi og skyldur sem leiðir af samþykkt þeirra á efni ákvæða Dyflinnargerðanna og þróun þeirra á grundvelli samningsins frá 19. janúar 2001, sem Evrópubandalagið og þessi tvö ríki gerðu með sér um þátttöku þeirra að því er varðar viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi, og Ríkjasambandið Sviss hafa þau réttindi og skyldur sem leiðir af samþykkt þess á efni ákvæða Dyflinnargerðanna og þróun þeirra á grundvelli samningsins frá 2004 milli Evrópubandalagsins og Ríkjasambandsins Sviss um þátttöku þess síðastnefnda að því er varðar viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða Sviss, að svo miklu leyti sem þessi ríki hafa sömu réttindi og skyldur í samskiptum sínum við Evrópubandalagið.

3. gr.

     1.      Samningur þessi fellur úr gildi, að því er varðar framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, sama dag og samsvarandi samningur milli Ríkjasambandsins Sviss, annars vegar, og Evrópusambandsins og Evrópubandalagsins, hins vegar, fellur úr gildi.

        Samningur þessi fellur úr gildi, að því er varðar framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, sama dag og samsvarandi samningur milli ráðs Evrópusambandsins, annars vegar, og lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs, hins vegar, fellur úr gildi. Ef síðastnefndi samningurinn fellur einungis úr gildi gagnvart öðru þessara tveggja ríkja skal þessi samningur einungis falla úr gildi gagnvart því ríki.

     2.      Samningur þessi fellur úr gildi, að því er varðar viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í Sviss, á Íslandi eða í Noregi, sama dag og samsvarandi samningur milli Ríkjasambandsins Sviss og Evrópubandalagsins fellur úr gildi.

        Samningur þessi fellur úr gildi, að því er varðar viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í Sviss, á Íslandi eða í Noregi, sama dag og samsvarandi samningur milli Evrópubandalagsins, annars vegar, og lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs, hins vegar, fellur úr gildi. Ef síðastnefndi samningurinn fellur einungis úr gildi gagnvart öðru þessara tveggja ríkja skal þessi samningur einungis falla úr gildi gagnvart því ríki.

4. gr.

     1.      Samningsaðilarnir skulu tilkynna hverjir öðrum um það skriflega þegar lagaskilyrðum þeirra fyrir gildistöku þessa samnings hefur verið fullnægt. Samningurinn öðlast gildi á fyrsta degi annars mánaðar eftir dagsetningu síðustu tilkynningarinnar.

     2.      Samningur þessi skal koma til framkvæmda, að því er varðar framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, sama dag og samsvarandi samningur milli Ríkjasambandsins Sviss, annars vegar, og Evrópusambandsins og Evrópubandalagsins, hins vegar, kemur til framkvæmda. Það getur í fyrsta lagi orðið á gildistökudaginn sem um getur í 1. mgr.

     3.      Samningur þessi kemur til framkvæmda, að því er varðar viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í Sviss, á Íslandi eða í Noregi, sama dag og samsvarandi samningur milli Ríkjasambandsins Sviss og Evrópubandalagsins kemur til framkvæmda. Það getur í fyrsta lagi orðið á gildistökudaginn sem um getur í 1. mgr.

Gjört í Brussel 17. desember 2004, í þremur fullgiltum eintökum á ensku.

Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss

Fyrir hönd lýðveldisins Íslands

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs