Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 554. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 971  —  554. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um skattbyrði.

     1.      Hvernig hefur skattbyrði hjóna með tvö börn undir sjö ára aldri þróast frá 1995 til 2006 að teknu tilliti til þróunar launavísitölu, miðað við eftirfarandi mánaðarlaun árið 1995:
                  a.      100 þús. kr.,
                  b.      150 þús. kr.,
                  c.      175 þús. kr.,
                  d.      208 þús. kr.,
                  e.      290 þús. kr.,
                  f.      1 millj. kr.?

    Í meðfylgjandi töflu er reiknað hversu mikla beina skatta (tekjuskatt til ríkis og útsvar til sveitarfélags með meðalútsvar) hjón með tvö börn greiða sem hlutfall af launum miðað við gefnar forsendur. Fyrir yfirstandandi ár (álagning 2007) hafa mánaðarlaun verið hækkuð sem svarar áætlaðri breytingu á launavístölu frá meðaltali ársins 1995 til yfirstandandi árs. Því er ekki um samanburð jafn verðmætra tekna að ræða. Mínustala þýðir að framteljandi fær greiddar barnabætur úr ríkissjóði.

Mánaðarlaun
1995,
þús. kr.
Skattbyrði við
álagningu 1996,
m.v. jöfn laun
beggja hjóna.
Skattbyrði við
álagningu 1996,
m.v. annað hjóna
á vinnumarkaði.
Skattbyrði við
álagningu 2007,
mánaðarlaun hækkuð með launavísitölu.
100 –15,1% –15,1% –8,2%
150 3,8% 7,1% 8,5%
175 9,3% 12,1% 13,3%
208 14,4% 16,8% 17,8%
290 22,2% 24,9% 24,1%
1.000 40,2% 40,5% 32,0%

    Í þessum útreikningum er ekki reiknað með skerðingu barnabóta vegna eigna og ekki heldur með gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra. Fyrir fyrra árið eru gefin tvö dæmi um samsetningu tekna vegna þess að á því ári var ónýttur persónuafsláttur millifæranlegur að 80 hundraðshlutum, en er það að fullu í ár og því skipti samsetning tekjuöflunar máli. Fyrir yfirstandandi ár er einungis reiknað með lögbundinni skyldugreiðslu í lífeyrissjóð (4%).

     2.      Hve hátt hlutfall framteljenda, hjón annars vegar og einstaklingar hins vegar, ber meiri skattbyrði nú en árið 1995 að teknu tilliti til þróunar launa miðað við launavísitölu á tímabilinu?
    Breyting á skattbyrði framteljenda milli ára fer eftir mörgum þáttum: tekjuþróun, aldri og fjölda barna, vaxtagjöldum og eignum, skatthlutfalls og persónuafsláttar, ásamt upphæðum og skerðingarmörkum bóta. Því er ekki hægt að segja til um það fyrr en eftir á hversu hátt hlutfall framteljenda greiðir hærra hlutfall af tekjum sínum nú en fyrir einhverjum árum og jafnvel þá er ekki heimilt að tengja saman upplýsingar þannig að hægt sé að gera grein fyrir því hverjir greiða hærri eða lægri skatta. Því er ekki hægt að svara þessum lið fyrirspurnarinnar.