Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 667. máls.

Þskj. 977  —  667. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð
í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 22. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Nú er beiðni um aðstoð lögð fram á grundvelli samnings Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 og bókunar við hann frá 16. október 2001 og skal þá fylgja þeirri málsmeðferð sem það ríki sem leggur fram beiðni tilgreinir sérstaklega að því tilskildu að það brjóti ekki í bága við íslensk lög. Verða skal við beiðnum um skýrslutöku vitna eða sérfræðinga í síma eða á myndfundi eftir því sem unnt er. Yfirheyrsla í síma skal einungis leyfð ef viðkomandi vitni eða sérfræðingur samþykkir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.    Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með því eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984, með síðari breytingum, vegna frekari þátttöku Íslands í samningi Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 (hér eftir nefndur samningurinn) og bókun við þann samning frá 16. október 2001. Samningurinn og bókunin eru birt sem fylgiskjal með frumvarpinu. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við samgönguráðuneytið vegna álitaefna er lúta að hlerun fjarskipta. Þess ber að geta að ekki eru lagðar til breytingar á lögum um fjarskipti að svo stöddu.
    Samningurinn var samþykktur af ráðherraráði Evrópusambandsins og undirritaður af aðildarríkjum þess hinn 29. maí 2000 (Stjórnartíðindi EB C 197, 12. júlí 2000, bls. 1). Í 2. gr. samningsins eru rakin þau ákvæði samningsins sem breyta eða byggjast á þeim Schengen-gerðum sem um getur í viðauka A við samninginn milli Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um þátttöku síðarnefndu landanna í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna (Brussel-samningnum). Skv. 3. mgr. 2. gr. Brussel-samningsins skulu Ísland og Noregur samþykkja, koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum Evrópusambandsins sem breyta eða bætast við þau ákvæði sem um getur í viðaukum við samninginn.
    Sama dag og samningurinn um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins var samþykktur og undirritaður af aðildarríkjum Evrópusambandsins samþykktu Ísland og Noregur samninginn að því leyti sem hann tekur til landanna vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu og lýstu því jafnframt yfir að gripið yrði til nauðsynlegra ráðstafana til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningnum. Með lögum nr. 45 19. maí 2001 voru gerðar breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum vegna þeirra ákvæða samningsins sem tóku til Íslands. Þegar hafa því verið gerðar nauðsynlegar lagabreytingar vegna ákvæða samningsins sem breyta eða byggjast á Schengen- gerðum samningsins. Ákvæðin eru 3. gr., sem felur í sér að gagnkvæma réttaraðstoð skuli einnig veita í refsimálum til úrlausnar hjá stjórnvöldum og í málum vegna refsiábyrgðar lögaðila, 5. gr. um sendingu og afhendingu málsskjala, 6. gr. um sendingu beiðna um gagnkvæma réttaraðstoð, 7. gr. um miðlun upplýsinga án formlegrar beiðni, 12. gr. um afhendingu undir eftirliti, og 23. gr. um vernd persónuupplýsinga. Að því er varðar afhendingu undir eftirliti skv. 12. gr. gilda einnig ákvæði 15. gr. samningsins um refsiábyrgð opinberra starfsmanna og 16. gr. um skaðabótaábyrgð vegna opinberra starfsmanna.
    Hinn 16. október 2001 var samþykkt af ráðherraráði Evrópusambandsins og undirrituð af aðildarríkjum þess bókun við samninginn (Stjórnartíðindi EB C 326, 21. nóvember 2001, bls. 1). Skv. 15. gr. bókunar felast í 8. gr. bókunar (skattabrot) ráðstafanir sem breyta eða byggjast á þeim Schengen-gerðum sem um getur í viðauka A við Brussel-samninginn. Hinn 15. febrúar 2002 var ráði Evrópusambandsins tilkynnt um samþykkt Íslands á gerð ráðsins frá 16. október 2001 um bókun við samninginn og þann 25. janúar 2002 var birt auglýsing um gerðina.
    Á árinu 2003 hófust viðræður milli framangreindra aðila um frekari aðild Íslands og Noregs að samningnum og bókun við hann. Þann 19. desember 2003 var undirritaður samningur milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um beitingu þeirra ákvæða samningsins og bókunar hans sem fyrrnefnd ríki höfðu ekki þegar innleitt í gegnum Schengen-samstarfið. Samningurinn frá 19. desember 2003 tók til beitingar ákvæða 4., 8.–11., 13.–22., og 25.–26. gr. samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000, svo og ákvæða 1. og 24. gr. að því marki sem þær greinar varða hinar greinarnar og síðan til ákvæða 1.–5. mgr. 1. gr., 2.–7. gr., 9. og 11.–12. gr. bókunar við samninginn.

II. Markmið og efni samnings Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum og bókunar.
    Markmið samningsins er að bæta og auka réttaraðstoð milli ríkjanna í sakamálum á þeim grundvelli sem þegar er fyrir hendi. Gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum hvílir einkum á Evrópusamningi um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959, ásamt viðbótarbókun frá 17. mars 1978 og samningi frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 15. júní 1985 (Schengen-samningnum). Samningurinn byggist á framangreindum samningum, en með tilliti til nýrra aðstæðna gerir hann ráð fyrir fleiri aðstæðum þar sem réttaraðstoðar getur verið óskað og með nýjum úrræðum er réttaraðstoð gerð fljótari, sveigjanlegri og árangursríkari en verið hefur. Ákvæðum 3.–9. gr. samningsins er ætlað að ná þessu markmiði. Ákvæði 3., 5., 6. og 7. gr. hafa þegar verið innleidd hér á landi en þau fela í sér breytingu á Schengen-reglum sem gilda á þessu sviði, sbr. athugasemdir í I. kafla.
    Samkvæmt 4. gr. samningsins skal þegar gagnkvæm réttaraðstoð er veitt það aðildarríki sem beiðni er beint til uppfylla þau formlegu skilyrði og fylgja þeirri málsmeðferð sem aðildarríkið sem leggur fram beiðni tilgreinir sérstaklega.
    Samkvæmt 8. gr. samningsins um skil getur aðildarríki orðið við beiðni um að afhenda öðru aðildarríki hluti til umráða sem fengnir voru með ólögmætum hætti með það í huga að þeim verði skilað til réttmætra eigenda, með fyrirvara um réttindi þriðja aðila í góðri trú. Þá geta aðildarríki gert með sér samning um tímabundinn flutning manna sem eru í varðhaldi vegna rannsóknar, sbr. 9. gr. samningsins. Samningnum er ætlað að taka mið af þeim miklu tæknibreytingum sem orðið hafa á síðustu árum. Samningsaðilum er gert kleift að nýta sér þá þróun. Þannig getur réttaraðstoðar verið óskað og hún veitt með yfirheyrslu á myndfundi, sbr. 10. gr. samningsins. Þá getur yfirheyrsla vitna og sérfræðinga farið fram á símafundi, sbr. 11. gr. Samningnum er einnig ætlað að taka mið af nýjum aðstæðum sem skapast hafa við afnám eftirlits á sameiginlegum landamærum í kjölfar Schengen-samningsins. Frjáls för íbúa samningsaðila hefur leitt til breyttrar afbrotastarfsemi og sú þróun kallar á nýjar reglur sem gera yfirvöldum kleift að takast á við breyttar aðstæður. Þegar hefur verið innleidd 12. gr. samningsins um afhendingu undir eftirliti við rannsókn sakamála vegna brota sem leitt geta til framsals, sbr. athugasemdir í I. kafla. Þá heimilar samningurinn aðildarríkjum, með gagnkvæmu samkomulagi, að koma á fót sérstökum sameiginlegum rannsóknarhópum, sbr. 13. gr. Aðildarríki geta einnig komið sér saman um að aðstoða hvort annað við rannsókn sakamáls með því að nota lögreglumenn sem starfa leynilega eða undir fölsku flaggi (rannsókn með aðstoð flugumanna), sbr. 14. gr. samningsins. Um réttarstöðu slíkra rannsóknarmanna er fjallað í 15. og 16. gr. samningsins, en þær greinar hafa þegar verið innleiddar hér á landi, sbr. 23. gr. b laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 45 19. maí 2001.
    III. bálkur samningsins (17.–22. gr.) hefur að geyma ítarleg ákvæði um hlerun fjarskipta sem taka tillit til þeirra miklu tæknibreytinga sem orðið hafa á sviði farsíma og réttaraðstoð er gerð skilvirkari og um leið árangursríkari hvað varðar hleranir. Ákvæði 1. mgr. 1. gr. Evrópusamnings um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 1959 hefur hingað til legið til grundvallar réttaraðstoð milli ríkja en þær skuldbindingar voru ekki taldar fullnægjandi í mörgum tilvikum. Sérstaklega var talin þörf á frekari skuldbindingu ríkja hvað varðar hleranir á sviði farsímakerfa. Á sviði farsíma hafa orðið hvað mestar tæknibreytingar á síðustu árum og að sama skapi eru farsímafjarskipti mikið notuð við framkvæmd refsiverðs athæfis.
    Samkvæmt 17. gr. samningsins skal, að því er tekur til beitingar 18., 19. og 20. gr., þar til bært yfirvald merkja dómsmálayfirvald eða, þegar dómsmálayfirvöld hafa ekki lögsögu á því sviði sem ákvæðin ná yfir, sambærilegt þar til bært yfirvald sem tilgreint hefur verið af ríki og vinnur að rannsókn sakamáls. Hér á landi væri þar til bært yfirvald dómsmálaráðuneytið, nema annað sé ákveðið með samningi við annað ríki. 18. gr. samningsins fjallar um beiðnir um hlerun fjarskipta í þágu rannsóknar sakamáls í öðru ríki. 19. gr. fjallar um hlerun fjarskipta á eigin yfirráðasvæði með aðstoð þjónustuveitenda og 20. gr. fjallar um tilkynningar um hlerun fjarskipta án tæknilegrar aðstoðar annars aðildarríkis. Skv. 21. gr. skal það aðildarríki sem leggur fram beiðni bera kostnað sem fjarskiptafyrirtæki eða þjónustuveitendur stofna til þegar orðið er við beiðnum skv. 18. gr. Í 22. gr. samningsins er tiltekið að framangreind ákvæði komi ekki í veg fyrir tvíhliða eða fjölþjóðlega samninga milli aðildarríkjanna til þess að auðvelda að tæknilegir möguleikar séu nýttir í nútíð og framtíð að því er varðar löglega hlerun fjarskipta.
    Við gerð reglna um hlerun fjarskipta var sérstaklega hugað að tvenns konar aðstæðum:
     1.      Tilvik þar sem aðildarríki býr ekki yfir tækni til að hlera með beinum hætti fjarskipti sem eru frá eða móttekin á yfirráðasvæði þess. Hlerun á fjarskiptum sem fram fara í gegnum gervihnött krefst aðeins einnar aðgerðar með uppsetningu tæknibúnaðar, svokallaðrar gáttar (e. gateway), og skiptir þá ekki máli hvar sá sem hlera skal hjá kann að vera staðsettur. Gáttin gerir það mögulegt að koma á jarðstöð (e. satellite link) og geta fjarskipti farið fram á mjög stóru svæði. Ríki, sem fellur undir það svæði sem gervihnötturinn nær til en hefur ekki gátt, væri ekki tæknilega unnt að hlera beint fjarskipti sem eru frá eða móttekin í gegnum gervihnattasíma (e. satellite telephone) á yfirráðasvæði þess. Samningurinn gerir hlerun slíkra fjarskipta mögulega með tvennum hætti: (i) aðildarríki getur í hverju tilviki fyrir sig beðið um aðstoð þess ríkis þar sem gáttin er; (ii) fjarskiptafyrirtæki setur upp aðgang að gáttinni, nokkurs konar fjarstýringu. Þessi búnaður gerir ríki kleift að gefa fyrirmæli um hlerun í gegnum gátt sem staðsett er utan yfirráðasvæðis þess. Fyrirmælin geta verið gefin til þess fyrirtækis eða fyrirtækja (þjónustuveitenda samkvæmt samningnum) sem veita gervihnattafjarskiptaþjónustu á hverju landsvæði, með því skilyrði að þau framfylgi fyrirmælum um hlerun sem eru sett fram með lögmætum hætti af þar til bærum yfirvöldum. Notkun slíkrar fjarstýringar skal takmörkuð við fjarskipti send eða móttekin á yfirráðasvæði þess ríkis sem notar fjarstýringuna. Þannig getur það ríki sem hefur fjarstýringuna einungis hlerað fjarskipti sem eru frá eða móttekin á yfirráðasvæði þess. Samkvæmt samningnum skulu aðildarríki sjá til þess að fjarskiptakerfi, sem eru starfrækt um gátt á yfirráðasvæði þeirra og veita ekki beinan aðgang til að hlera löglega fjarskipti manns, sem dvelur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, geti veitt því aðildarríki beinan aðgang til að hlera löglega með aðstoð milliliðar sem skal vera tilnefndur þjónustuveitandi á yfirráðasvæði þess. Þar til bær yfirvöld aðildarríkis skulu hafa, í þágu rannsóknar sakamáls og í samræmi við gildandi landslög og að því tilskildu að sá sem hlerað er hjá sé staddur í því aðildarríki, heimild til hlerunar með aðstoð milliliðar sem skal vera tilnefndur þjónustuveitandi á yfirráðasvæði þess án afskipta aðildarríkisins sem ræður því yfirráðasvæði þar sem stöðin er, sbr. 19. gr. samningsins. Samkvæmt samningnum er uppsetning slíkrar fjarstýringar valfrjáls, en það kemur í hlut aðildarríkjanna að meta þörfina á að koma á og nota þennan möguleika til hlerunar hjá þeim sem eru staddir á yfirráðasvæði þeirra.
     2.      Aðildarríki, í eigin þágu eða fyrir annað ríki, getur tæknilega séð hlerað fjarskipti sem eru frá eða móttekin á öðru yfirráðasvæði en sínu eigin, án þess að þurfa aðstoð þess síðarnefnda. Slíkar aðstæður geta komið upp á mismunandi vegu. Þannig getur maður verið staddur á yfirráðasvæði annars ríkis, en fjarskiptin fara fram á yfirráðasvæði ríkis sem annast hlerun. Hefðbundin farsímanet, eins og GSM-farsímakerfi, gera hlerun erlendis mögulega, t.d. á landamærasvæðum, þar sem það svæði sem þau ná til samsvara ekki nákvæmlega landamærum. 20. gr. samningsins kveður á um tilkynningarskyldu þess ríkis sem annast hlerun í slíkum tilvikum.
    Bókun við samninginn er viðbótarráðstöfun á sviði gagnkvæmrar réttaraðstoðar í sakamálum til að berjast gegn afbrotum. Bókuninni er sérstaklega ætlað að taka til skipulagðrar brotastarfsemi, peningaþvættis og efnahagsbrota. 1. gr. bókunar fjallar um beiðni um upplýsingar um bankareikninga og skyldu aðildarríkja til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að geta veitt aðildarríki slíkar upplýsingar, að vissum skilyrðum uppfylltum. Þá fjallar 2. gr. bókunar um beiðni um upplýsingar um bankaviðskipti og 3. gr. um beiðni um eftirlit með bankaviðskiptum. 4. gr. bókunar fjallar um trúnaðarkvöð, 5. gr. um upplýsingaskyldu og 6. gr. um viðbótarbeiðnir um gagnkvæma réttaraðstoð. Skv. 7. gr. skal aðildarríki ekki skírskota til bankaleyndar sem ástæðu til að synja um samvinnu þegar beiðni berst um gagnkvæma réttaraðstoð frá öðru aðildarríki. Þá er aðildarríki ekki heimilt að synja um samvinnu á grundvelli þeirrar ástæðu að um sé að ræða rannsókn á skattabroti, sbr. 8. gr., eða að um sé að ræða stjórnmálaafbrot, sbr. 9. gr.

III. Lagabreytingar vegna þátttöku í samningi Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum.
    Lög um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984, með síðari breytingum, geyma heimildir til að veita öðrum ríkjum aðstoð vegna reksturs sakamála. Ákvæði laganna endurspegla skuldbindingar Íslands samkvæmt Evrópusamningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 og viðbótarbókunar hans frá 17. mars 1978, en Ísland fullgilti samninginn og viðbótarbókun 20. júní 1984. Með lögum nr. 15 14. apríl 2000 voru gerðar breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum vegna Brussel-samningsins, en tiltekin ákvæði Schengen-gerðanna varða réttaraðstoð í sakamálum, sbr. 48.–53. gr. Með lögum nr. 45 19. maí 2001 voru gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, vegna þeirra ákvæða samnings Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum sem töldust breyta eða byggjast á þeim Schengen-gerðum sem um getur í viðauka A við Brussel-samninginn, eins og fram kemur í I. kafla athugasemda.
    Á grundvelli framangreindra laga er í flestu tilliti unnt að fullnægja þeim skuldbindingum sem hvíla á Íslandi vegna fullgildingar samningsins og bókunar hans. Skv. 1. mgr. 22. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að ákveða samkvæmt beiðni að ákvæðum laga um meðferð opinberra mála skuli beitt til að afla sönnunargagna til notkunar í refsimáli í öðru ríki á samsvarandi hátt og í sambærilegum málum hér á landi. Hliðstætt ákvæði er einnig í f-lið 2. gr. laga um meðferð opinberra mála, en þar segir að fara skuli eftir lögunum með erindi frá erlendum dómstólum og yfirvöldum um aðgerðir hér á landi í tengslum við opinber mál. Ákvæði 1. mgr. 22. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum fela í sér nægjanlega heimild til að veita öðrum ríkjum aðstoð vegna reksturs sakamála á grundvelli samningsins og eðli þeirra réttarúrræða sem tiltekin eru í samningnum er í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála. Ekki er því talin þörf á lagabreytingu vegna eftirfarandi ákvæða samningsins: 8. gr. um skil, 9. gr. um tímabundinn flutning manna sem eru í varðhaldi vegna rannsóknar, 13. gr. um sameiginlega rannsóknarhópa og 14. gr. um rannsókn með aðstoð flugumanna. Hins vegar felur 4. gr. samningsins um formleg skilyrði og málsmeðferð við framkvæmd beiðna um gagnkvæma réttaraðstoð í sér breytingu á núverandi framkvæmd og kallar á breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Jafnframt kalla 10. gr. um yfirheyrslu á myndfundi og 11. gr. um yfirheyrslu vitna og sérfræðinga á símafundi á lagabreytingu.
    Í 18. gr. samningsins er gerður greinarmunur á tveimur tilvikum þar sem þar til bært yfirvald í aðildarríki getur lagt fram beiðni til annars aðildarríkis um hlerun. Í fyrsta lagi er beiðni um að fjarskipti séu hleruð og upplýsingar sendar tafarlaust til aðildarríkisins sem leggur fram beiðni og í öðru lagi að fjarskipti séu hleruð, tekin upp og síðan sé upptakan send aðildarríkinu sem leggur fram beiðni. Fyrra tilvikinu er ætlað að vera meginreglan hér eftir en seinna tilvikið, sem er núgildandi meginregla, verður undantekning hér eftir. Heimild til að leggja fram beiðni fer eftir því hvar sá sem hlera skal hjá er staddur og í ákvæðinu er kveðið á um hvað skuli koma fram í beiðni. Meðal annars þarf að liggja fyrir staðfesting á að lögleg skipun eða heimild til hlerunar hafi verið gefin út í tengslum við rannsókn sakamáls.
    Með lögum nr. 78 24. maí 2005, um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81 26. mars 2003, var fjarskiptafyrirtækjum gert skylt að útvega nauðsynlegan tæknibúnað til hlerunar, sbr. 5. og 6. mgr. 6. gr. fjarskiptalaga. Orðalag ákvæðisins er almennt. Þar er kveðið á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að ráða yfir búnaði sem gerir lögreglu kleift að hlera símtöl og afla annarra gagna í fjarskiptanetum síum. Með fjarskiptaneti er átt við sendikerfi og þar sem það á við skiptistöðvar, beina og önnur úrræði sem gera mögulegt að miðla merkjum eftir þræði, þráðlaust, með ljósbylgjum, rafdreifikerfi, háspennulínum eða með öðrum rafsegulaðgerðum, sbr. orðskýringu í 3. gr. laganna. Er þannig gerð krafa um að unnt sé að hlera símtal óháð þeirri tækni sem notuð er við flutning þess. Að öðru leyti er ekki vikið að tæknilegum eiginleikum slíks búnaðar, t.d. að mögulegt sé að veita lögreglu beinan aðgang (e. on line) að fjarskiptasendingum eða miðla þeim milliliðalaust til lögregluyfirvalda í öðru ríki. Samkvæmt áliti Póst- og fjarskiptastofnunar er sá búnaður sem fjarskiptafyrirtæki hér á landi ráða yfir þessum eiginleikum gæddur.
    19. gr. samningsins fjallar um gagnkvæmar skyldur aðildarríkja samningsins í tengslum við hlerun fjarskipta sem fara um gervihnattasambönd. Það eru svokallaðar gáttir (e. gateways) sem senda og taka á móti fjarskiptamerkjum sem fara um gervihnött. Slíkar gáttir þjóna mjög stórum landsvæðum og er því mögulegt að mörg ríki noti einu og sömu gáttina. Markmið 19. gr. samningsins er að bregðast við þeim aðstæðum þegar aðildarríki hyggst hlera símtal einstaklings sem staddur er á yfirráðasvæði þess en sjálft samtalið fer um gátt sem staðsett er í öðru ríki. Engin gátt er hér á landi og ekki eru líkur til þess að svo verði í náinni framtíð, fyrst og fremst vegna legu landsins. Ekki er því þörf sérstakra lagabreytinga vegna 19. gr. samningsins, a.m.k. að svo stöddu. Stefnt er að því að kanna nánar hvort ástæða sé til að setja í fjarskiptalögin ákvæði um tæknilega eiginleika hlerunarbúnaðar en slíkar breytingar þykja ekki tímabærar.
    Í II. kafla athugasemda var fjallað um efni 20. gr. samningsins og tilkynningarskyldu ríkis sem annast hlerun í ákveðnum tilvikum. Þar sem ákvæðið kveður einungis á um tilkynningarskyldu ríkis sem annast hlerun við ákveðnar aðstæður og ekki verður gagnályktað frá ákvæðinu að hlerun sé heimil í öðrum tilvikum en þar greinir er lagabreytinga ekki þörf vegna þátttöku Íslands í samningnum.
    Um upplýsingar um bankareikninga, bankaviðskipti og eftirlit með bankaviðskiptum og heimild dómara til að úrskurða að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu í þágu opinberrar rannsóknar gilda ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87 16. júní 1998, 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36 22. maí 2001, 1. mgr. 40. gr. laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34 21. apríl 1998, og 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161 20. desember 2002, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991. Ekki er því þörf á lagabreytingum vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt bókun við samninginn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að ný 2. mgr. bætist við 22. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Þegar gagnkvæm réttaraðstoð er veitt á grundvelli samnings um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli ríkja Evrópusambandsins skal uppfylla þau formlegu skilyrði og fylgja þeirri málsmeðferð sem aðildarríkið sem leggur fram beiðni tilgreinir sérstaklega, að því tilskildu að formlegu skilyrðin og málsmeðferðin brjóti ekki í bága við íslensk lög. Er þetta í samræmi við 1. mgr. 4. gr. samningsins. Sú regla að við framkvæmd réttaraðstoðar skuli eins og mögulegt er fara eftir óskum þess aðila sem leggur fram beiðni er fráhvarf frá eldri reglu um réttaraðstoð milli ríkja. Skv. 3. gr. Evrópusamnings um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 skal aðilinn sem beiðni er beint til láta framkvæma réttarbeiðni á þann hátt sem lög hans gera ráð fyrir. Tilgangur nýrrar framkvæmdar er að gera það mögulegt að þær upplýsingar sem fást með réttaraðstoð séu tæk sem sönnunargögn í málsmeðferð í því aðildarríki sem biður um aðstoð. Samkvæmt athugasemdum við 4. gr. samningsins skulu hugtökin formleg skilyrði og málsmeðferð túlkuð rúmt. Tekið er sem dæmi þegar ríki óskar eftir því að fulltrúi dómsmálayfirvalda þess ríkis sem leggur fram beiðni verði viðstaddur vitnayfirheyrslu eða fulltrúi verjanda máls. Hins vegar, vegna þeirrar skyldu sem þetta hefur í för með sér fyrir það ríki sem fær beiðni, skal aðildarríki sem leggur fram beiðni einungis óska þeirra skilyrða og málsmeðferðar sem eru nauðsynleg fyrir rannsókn málsins. Aðildarríki sem fær beiðni getur þó alltaf neitað að verða við framangreindum óskum ef formlegu skilyrðin og málsmeðferðin myndi brjóta í bága við grundvallarreglur í aðildarríkinu, svo og ef samningurinn tilgreinir sérstaklega að fylgja eigi reglum aðildarríkis sem beiðni er beint til.
    Þá er í ákvæðinu gert ráð fyrir að verða skuli við beiðnum um yfirheyrslu vitna eða sérfræðinga í gegnum síma eða með myndfundi eftir því sem unnt er. Yfirheyrsla í gegnum síma skuli þó einungis leyfð ef viðkomandi vitni eða sérfræðingur samþykkir. Þetta nýmæli um yfirheyrslur í gegnum síma eða myndfundi er í samræmi við 10. og 11. gr. samningsins.
    Markmiðið með 10. gr. samningsins er að vinna bug á erfiðleikum sem upp kunna að koma í sakamálum þegar viðkomandi er í einu aðildarríki og mæting í öðru aðildarríki er óæskileg eða ómöguleg. Beiðni um yfirheyrslu með myndfundi verður gerð við þær kringumstæður þegar dómsmálayfirvöld í því ríki sem leggur fram beiðni þurfa að yfirheyra vitni eða sérfræðing og það telst óæskilegt eða ómögulegt fyrir viðkomandi að ferðast til þess ríkis til yfirheyrslu. Þau tilvik sem yfirheyrsla í því ríki sem leggur fram beiðni telst óæskileg geta t.d. átt við þegar vitnið er mjög ungt, mjög aldrað, eða við slæma heilsu. Ómöguleiki getur átt við tilvik þegar vitnið væri sett í hættu með því að mæta í ríkið sem leggur fram beiðni. Verða skal við beiðni um yfirheyrslu vitnis eða sérfræðings með myndfundi eftir því sem unnt er, en skv. 10. gr. samningsins skal ríkið sem beiðni er beint til samþykkja slíka yfirheyrslu að því tilskildu að myndfundir séu ekki í andstöðu við grundvallarreglur landslaga og ef nauðsynlegur tæknibúnaður er til staðar. Skírskotun til grundvallarreglna landslaga leiðir til þess að beiðni verður ekki synjað af þeirri ástæðu einni að ekki sé gert ráð fyrir yfirheyrslu vitna og sérfræðinga með myndfundi í því ríki sem beiðni er beint til, eða ef einu eða fleiri skilyrðum slíkrar yfirheyrslu verður ekki fullnægt samkvæmt lögum þar. Ekki þarf að liggja fyrir samþykki vitnis eða sérfræðings fyrir yfirheyrslu með myndfundi.
    Yfirheyrslur í gegnum síma, sbr. 11. gr. samningsins, geta verið sérstaklega gagnlegar við ákveðnar aðstæður, t.d. þegar einfaldra og staðlaðra yfirlýsinga er þörf frá vitninu. Þar að auki er hægt að koma slíkum yfirheyrslum á og framkvæma á nokkuð auðveldan og hagkvæman hátt. 11. gr. samningsins er ekki ætlað að grafa undan þeirri framkvæmd sem tíðkast í sumum aðildarríkjum samningsins, að yfirheyra vitni í gegnum síma erlendis, t.d. á ræðisskrifstofum, án aðstoðar þess ríkis sem vitnið er staðsett í. Verða skal við beiðni um yfirheyrslu vitnis eða sérfræðings í gegnum síma að því tilskildu að það brjóti ekki í bága við grundvallarreglur landslaga. Samþykki vitnis eða sérfræðings er nauðsynlegt svo yfirheyrsla geti farið fram í gegnum síma, öfugt við það þegar yfirheyrsla fer fram á myndfundi.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


GERÐ RÁÐSINS


um


að koma á, í samræmi við 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið,


samningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum


milli aðildarríkja Evrópusambandsins.



RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS,

með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum a-lið 31. gr. og d-lið 2. mgr. 34. gr.,

með hliðsjón af frumkvæði aðildarríkjanna,

með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins, 1

og að teknu tilliti til eftirfarandi:


     1.      Til þess að ná markmiðum Evrópusambandsins ætti að endurbæta reglur um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins og í þeim tilgangi koma á samningi þeim sem fram kemur í viðaukanum.
     2.      Nokkur ákvæða samningsins falla undir gildissvið 1. gr. ákvörðunar ráðsins 1999/437/ EB frá 17. maí 1999 um sérstakt fyrirkomulag um beitingu samningsins sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku þessara tveggja ríkja í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. 2
     3.      Þetta á við 3., 5., 6., 7., 12. og 23. gr. og, að því marki sem við kemur 12. gr., 15. og 16. gr. og, að því marki sem við kemur greinunum sem um getur, 1. gr.
     4.      Málsmeðferðin, sem lýst er í samningnum sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, 3 hefur verið virt með tilliti til þessara ákvæða.
     5.      Þegar Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur fá tilkynningu um samþykkt þessarar gerðar í samræmi við a-lið 2. mgr. 8. gr. framangreinds samnings verða þessi tvö ríki sérstaklega upplýst um inntak 29. gr. um gildistöku að því er Ísland og Noreg varðar og verður boðið að leggja fram viðeigandi yfirlýsingar skv. 24. gr. samningsins um leið og þau tilkynna ráðinu og framkvæmdastjórninni að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt.

HEFUR ÁKVEÐIÐ að samningnum er hér með komið á en texti hans fylgir með í viðaukanum og hafa fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins undirritað hann í dag,

BEINIR ÞEIM TILMÆLUM TIL aðildarríkjanna að samþykkja hann í samræmi við viðeigandi stjórnskipuleg skilyrði sín,

HVETUR aðildarríkin til þess að hefja viðeigandi málsmeðferð í því skyni fyrir 1. janúar 2001.

Gjört í Brussel hinn 29. maí 2000.



Fyrir hönd ráðsins,


A. COSTA, forseti.


_________________




VIÐAUKI

SAMNINGUR,


SEM RÁÐIÐ KEMUR Á,


Í SAMRÆMI VIÐ 34. GR.


SÁTTMÁLANS UM EVRÓPUSAMBANDIÐ,


UM GAGNKVÆMA RÉTTARAÐSTOÐ Í SAKAMÁLUM


MILLI AÐILDARRÍKJA EVRÓPUSAMBANDSINS.



HINIR HÁU SAMNINGSAÐILAR samnings þessa, aðildarríki Evrópusambandsins,

VÍSA TIL gerðar ráðsins um að koma á samningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins,

HAFA HUG Á að bæta dómsmálasamstarf í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins, sbr. þó ákvæði um verndun einstaklingsfrelsis,

BENDA Á þá sameiginlegu hagsmuni aðildarríkjanna að tryggja að gagnkvæm réttaraðstoð milli aðildarríkjanna sé veitt fljótt og með skilvirkum hætti sem samrýmist grundvallarreglum landslaga þeirra og í samræmi við rétt einstaklinga og meginreglur Evrópusáttmálans um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem var undirritaður í Róm 4. nóvember 1950,

LÁTA Í LJÓS trú sína á skipulagi og starfsemi réttarkerfa sinna og möguleika allra aðildarríkjanna til að tryggja sanngjörn réttarhöld,

EINSETJA SÉR að bæta við Evrópusamninginn um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 og aðra gildandi samninga á þessu sviði með samningi Evrópusambandsins,

VIÐURKENNA að ákvæði þessara samninga gilda áfram á öllum þeim sviðum sem ekki er fjallað um í samningi þessum,

HAFA Í HUGA að aðildarríkin leggja áherslu á að efla dómsmálasamstarf jafnframt því að virða meðalhófsregluna,

HAFA HUGFAST að með samningi þessum eru settar reglur um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum þar sem byggt er á meginreglum samningsins frá 20. apríl 1959,

HAFA Í HUGA að 20. gr. samnings þessa nær að vísu yfir tiltekin sérstök tilvik um hlerun fjarskipta án þess að hún hafi nein áhrif á önnur slík tilvik sem falla utan gildissviðs samningsins,

HAFA Í HUGA að almennar meginreglur þjóðaréttar eiga við tilvik sem samningur þessi nær ekki yfir,

VIÐURKENNA að samningur þessi hefur ekki áhrif á hvernig aðildarríkin sinna þeirri skyldu sinni að halda uppi lögum og reglu og tryggja innra öryggi og við hvaða aðstæður hvert aðildarríki ákveður, í samræmi við 33. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, að halda uppi lögum og reglu og tryggja innra öryggi,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI ÁKVÆÐI:

I. BÁLKUR


ALMENN ÁKVÆÐI


1. gr.


Tengsl við aðra samninga um gagnkvæma réttaraðstoð.


    1. Markmið þessa samnings er að vera viðbót við eftirfarandi ákvæði og auðvelda beitingu þeirra innan aðildarríkja Evrópusambandsins:
     a.      Evrópusamning um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959, hér á eftir nefndur „Evrópusamningurinn um gagnkvæma aðstoð“;
     b.      viðbótarbókun frá 17. mars 1978 við Evrópusamninginn um gagnkvæma aðstoð;
     c.      ákvæði um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum í samningnum frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum (hér á eftir nefndur „Schengen-framkvæmdarsamningurinn“) sem eru ekki felld úr gildi skv. 2. mgr. 2. gr.;
     d.      ákvæði 2. kafla sáttmálans um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum milli Konungsríkisins Belgíu, Stórhertogadæmisins Lúxemborgar og Konungsríkisins Hollands frá 27. júní 1962, eins og honum var breytt með bókuninni frá 11. maí 1974 (hér á eftir nefndur „Benelúx-sáttmálinn“), að því er varðar samskipti aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins.
    2. Þessi samningur hefur hvorki áhrif á beitingu hagstæðari ákvæða tvíhliða eða fjölþjóðlegra samninga milli aðildarríkja né, eins og kveðið er á um í 4. mgr. 26. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð, samkomulag um gagnkvæma aðstoð í sakamálum á grundvelli samræmdrar löggjafar eða sérstaks kerfis þar sem gert er ráð fyrir gagnkvæmum ráðstöfunum vegna gagnkvæmrar réttaraðstoðar á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna.

2. gr.


Ákvæði sem tengjast Schengen-gerðunum.


    1. Í ákvæðum 3., 5., 6., 7., 12. og 23. gr. og, að því marki sem við kemur 12. gr., í ákvæðum 15. og 16. gr. og, að því marki sem við kemur greinunum sem um getur, í ákvæðum 1. gr. er að finna ráðstafanir sem breyta eða eru byggðar á ákvæðunum sem um getur í viðauka A við samninginn sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen- gerðanna. 1
    2. Ákvæði a-liðar 49. gr. og 52., 53. og 73. gr. Schengen-framkvæmdarsamningsins eru hér með felld úr gildi.

3. gr.


Málsmeðferð þar sem gagnkvæm réttaraðstoð skal einnig veitt.


    1. Gagnkvæm réttaraðstoð skal einnig veitt við málsmeðferð stjórnvalda vegna verknaða sem eru refsiverðir samkvæmt lögum þess aðildarríkis, sem leggur fram beiðni, eða þess sem beiðni er beint til eða beggja og teljast brot á lögum sem stjórnvöld geta tekið ákvörðun um og slíkar ákvarðanir geta leitt til málsmeðferðar fyrir þar til bærum dómstóli í sakamálum.
    2. Gagnkvæm réttaraðstoð skal einnig veitt í tengslum við meðferð sakamáls og málsmeðferð sem um getur í 1. mgr. að því er varðar verknaði eða brot sem draga má lögaðila til ábyrgðar fyrir í því aðildarríki sem leggur fram beiðni.

4. gr.


Formleg skilyrði og málsmeðferð við framkvæmd beiðna


um gagnkvæma réttaraðstoð.


    1. Þegar gagnkvæm réttaraðstoð er veitt skal aðildarríkið, sem beiðni er beint til, uppfylla þau formlegu skilyrði og fylgja þeirri málsmeðferð sem aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, tilgreinir sérstaklega, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi og að því tilskildu að formlegu skilyrðin og málsmeðferðin brjóti ekki í bága við grundvallarlagareglur í aðildarríkinu sem beiðni er beint til.
    2. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal verða við beiðni um réttaraðstoð eins fljótt og unnt er og skal taka, eftir því sem unnt er, að fullu til greina málsmeðferðarfresti og aðra fresti sem aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, tilgreinir. Aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, skal tilgreina ástæður fyrir því að frestur er settur.
    3. Ef ekki er unnt að verða við beiðninni, eða ekki er unnt að verða við henni að öllu leyti, í samræmi við þær kröfur sem aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, setur fram skulu yfirvöld aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, tilkynna yfirvöldum aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, það strax og tilgreina að hvaða skilyrðum fullnægðum unnt sé að verða við beiðninni. Yfirvöld aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, og þess sem beiðni er beint til geta síðar komið sér saman um til hvaða aðgerða skuli gripið í kjölfar beiðninnar og skal framkvæmd aðgerðanna vera háð því að framangreind skilyrði séu uppfyllt ef þörf krefur.
    4. Ef fyrirsjáanlegt er að ekki er unnt að verða við beiðni innan þess frests sem aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, hefur tilgreint til að verða við beiðni þess og ef það kemur greinilega í ljós af þeim ástæðum sem um getur í 2. málsl. 2. mgr. að töf muni verulega skaða málsmeðferðina sem fylgt er í aðildarríkinu sem leggur fram beiðni skulu yfirvöld aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, tilgreina strax þann tíma sem áætlað er að þurfi til að unnt sé að verða við beiðninni. Yfirvöld aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, skulu strax tilgreina hvort beiðnin verði engu að síður lögð fram. Yfirvöld aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, og þess sem beiðni er beint til geta síðar komið sér saman um til hvaða aðgerða skuli gripið í kjölfar beiðninnar.

5. gr.


Sending og afhending málsskjala.


    1. Hvert aðildarríki um sig skal senda beint í pósti málsskjöl sem eiga að fara til einstaklinga sem dvelja á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.
    2. Hægt er að senda málsskjöl fyrir milligöngu þar til bærra yfirvalda aðildarríkisins sem beiðni er beint til þegar:
     a.      heimilisfang einstaklingsins, sem skjalið á að fara til, er óþekkt eða óvisst; eða
     b.      samkvæmt viðeigandi málsmeðferðarreglum aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, er krafist annarrar staðfestingar á því að skjalið hafi verið afhent viðtakanda en þeirrar sem unnt er að fá með póstsendingum; eða
     c.      ekki hefur verið unnt að afhenda skjalið í pósti; eða
     d.      aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, hefur réttmætar ástæður til að ætla að afgreiðsla í pósti beri ekki árangur eða sé óviðeigandi.
    3. Þegar ástæða er til að ætla að viðtakandi skilji ekki tungumálið sem skjalið er samið á skal þýða skjalið, eða að minnsta kosti mikilvægustu kafla þess, á tungumál eða eitt af tungumálum þess aðildarríkis sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem viðtakandi dvelur. Ef yfirvaldinu, sem gefur út málsskjalið, er kunnugt um að viðtakandi skilur eingöngu eitthvert annað tungumál skal þýða skjalið, eða að minnsta kosti mikilvægustu kafla þess, á það tungumál.
    4. Öllum málsskjölum skal fylgja tilkynning þar sem því er lýst yfir að viðtakandi geti fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur varðandi skjalið frá yfirvaldinu sem gaf skjalið út eða frá öðrum yfirvöldum þess aðildarríkis. Ákvæði 3. mgr. eiga einnig við um þessa tilkynningu.
    5. Þessi grein hefur hvorki áhrif á beitingu 8., 9. og 12. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð né heldur beitingu 32., 34. og 35. gr. Benelúx-sáttmálans.

6. gr.


Sending beiðna um gagnkvæma réttaraðstoð.


    1. Beiðnir um gagnkvæma réttaraðstoð og upplýsingaskipti án beiðni, sem um getur í 7. gr., skulu vera skrifleg eða miðlað þannig að unnt sé við tilteknar aðstæður að fá skriflega útgáfu sem gerir aðildarríkinu, sem fær beiðni, kleift að ganga úr skugga um að hún sé áreiðanleg. Þessar beiðnir skulu fara beint á milli dómsmálayfirvalda sem eru bær til þess á því svæði að hefja meðferð þeirra og verða við þeim og skulu þær sendar sömu leið til baka nema annað sé tekið fram í þessari grein.
    Allar upplýsingar, sem aðildarríki leggur fram með það í huga að meðferð máls fari fram fyrir dómstóli í öðru aðildarríki í skilningi 21. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð og 42. gr. Benelúx-sáttmálans, geta farið beint á milli þar til bærra dómsmálayfirvalda.
    2. Ákvæði 1. mgr. útiloka ekki þann möguleika að beiðnir séu sendar eða sendar til baka í sérstökum tilvikum:
     a.      milli miðlægs yfirvalds eins aðildarríkis og miðlægs yfirvalds annars aðildarríkis; eða
     b.      milli dómsmálayfirvalds eins aðildarríkis og miðlægs yfirvalds annars aðildarríkis.
    3. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta Breska konungsríkið og Írland, hvort fyrir sig, lýst því yfir, þegar send er tilkynning skv. 2. mgr. 27. gr., að beiðnir og orðsendingar til ríkjanna, eins og tilgreint er í yfirlýsingunni, verði að senda um miðlægt yfirvald þeirra. Þessi aðildarríki geta með annarri yfirlýsingu, hvenær sem er, takmarkað gildissvið slíkrar yfirlýsingar í þeim tilgangi að auka áhrif 1. mgr. Þau skulu haga málsmeðferð á þennan hátt þegar ákvæði Schengen-framkvæmdarsamningsins um gagnkvæma réttaraðstoð koma til framkvæmda gagnvart þeim.
    Hvert aðildarríki getur beitt meginreglunni um gagnkvæmni í tengslum við yfirlýsingarnar sem um getur hér að framan.
    4. Allar beiðnir um gagnkvæma réttaraðstoð má, í neyðartilvikum, senda gegnum Alþjóðasamband sakamálalögreglu (Interpol) eða aðra þar til bæra stofnun samkvæmt ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt sáttmálanum um Evrópusambandið.
    5. Ef, að því er varðar beiðnir skv. 12., 13. eða 14. gr., þar til bært yfirvald er dómsmálayfirvald eða miðlægt yfirvald í öðru aðildarríkinu en lögreglu- eða tollyfirvald í hinu aðildarríkinu má senda beiðnir og svör við þeim beint á milli þessara yfirvalda. Ákvæði 4. mgr. eiga við um þessa tengiliði.
    6. Ef, að því er varðar beiðnir um gagnkvæma réttaraðstoð í tengslum við málsmeðferðina sem lýst er í 1. mgr. 3. gr., þar til bært yfirvald er dómsmálayfirvald eða miðlægt yfirvald í öðru aðildarríkinu en stjórnsýsluyfirvald í hinu aðildarríkinu má senda beiðnir og svör við þeim beint á milli þessara yfirvalda.
    7. Hvert aðildarríki getur, þegar það leggur fram tilkynninguna sem kveðið er á um í 2. mgr. 27. gr., lýst því yfir að það sé óbundið af 1. málsl. 5. mgr. eða 6. mgr. þessarar greinar eða báðum þessum ákvæðum eða að það muni einungis beita þessum ákvæðum við sérstakar aðstæður sem það mun tilgreina. Slíka yfirlýsingu má draga til baka eða breyta hvenær sem er.
    8. Eftirfarandi beiðnir eða orðsendingar skulu sendar gegnum miðlæg yfirvöld aðildarríkjanna:
     a.      beiðnir um tímabundinn flutning eða gegnumferð einstaklinga í varðhaldi eins og um getur í 9. gr. þessa samnings, 11. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð og 33. gr. Benelúx-sáttmálans;
     b.      upplýsingar úr sakaskrám eins og um getur í 22. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma réttaraðstoð og 43. gr. Benelúx-sáttmálans. Beiðnir um afrit af refsidómum og ráðstöfunum, sem um getur í 4. gr. viðbótarbókunar við Evrópusamninginn um gagnkvæma aðstoð, má senda beint gegnum þar til bær yfirvöld.

7. gr.


Upplýsingaskipti án beiðni.


    1. Innan ramma landslaga geta þar til bær yfirvöld aðildarríkjanna skipst á upplýsingum, án þess að beiðni þar að lútandi hafi borist, um refsiverða verknaði og brot á lögum sem um getur í 1. mgr. 3. gr. ef refsing eða meðferð slíkra brota fellur undir lögsögu viðtökuyfirvaldsins á þeim tíma sem upplýsingarnar eru veittar.
    2. Yfirvaldið, sem sendir upplýsingarnar, getur samkvæmt landslögum sett skilyrði um hvernig viðtökuyfirvaldið notar þessar upplýsingar.
    3. Viðtökuyfirvaldið er bundið af þessum skilyrðum.

II. BÁLKUR


BEIÐNIR UM SÉRSTÖK TILTEKIN EYÐUBLÖÐ


UM GAGNKVÆMA RÉTTARAÐSTOÐ


8. gr.


Skil.


    1. Að beiðni aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, og með fyrirvara um réttindi þriðja aðila í góðri trú, getur aðildarríkið, sem beiðni er beint til, afhent aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, hluti til umráða sem fengnir voru með ólögmætum hætti með það í huga að þeim verði skilað til réttmætra eigenda.
    2. Við beitingu 3. og 6. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð og 2. mgr. 24. gr. og 29. gr. Benelúx-sáttmálans getur aðildarríkið, sem beiðni er beint til, fallið frá því að hlutum verði skilað annaðhvort áður eða eftir að það hefur afhent þá aðildarríkinu sem leggur fram beiðni ef það er til þess fallið að auðvelda skil þessara hluta til réttmæts eiganda. Þetta hefur ekki áhrif á réttindi þriðja aðila í góðri trú.
    3. Í því tilviki að aðildarríkið, sem beiðni er beint til, fellur frá því að hlutum verði skilað áður en það afhendir þá aðildarríkinu sem leggur fram beiðni skal fyrrnefnda aðildarríkið ekki beita tryggingarétti eða öðrum rétti um endurkröfu vegna þessara hluta samkvæmt skatta- eða tollalöggjöf.
    Þegar fallið er frá því að hlutum verði skilað eins og um getur í 2. mgr. skal það gert með fyrirvara um rétt aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, til að innheimta skatta eða gjöld af réttmætum eiganda.

9. gr.


Tímabundinn flutningur manna sem eru í varðhaldi vegna rannsóknar.


    1. Svo framarlega sem samningur er í gildi milli þar til bærra yfirvalda hlutaðeigandi aðildarríkja getur aðildarríki, sem hefur beðið um rannsókn, flutt tímabundið, í þágu rannsóknarinnar, mann, sem það hefur í varðhaldi á sínu yfirráðasvæði, á yfirráðasvæði aðildarríkisins þar sem rannsóknin fer fram.
    2. Í samningnum skal fjallað um fyrirkomulag við tímabundinn flutning mannsins og hvaða dag verður að flytja hann til baka á yfirráðasvæði aðildarríkisins sem leggur fram beiðni.
    3. Þegar krafist er samþykkis viðkomandi manns fyrir flutningnum skal tafarlaust senda yfirlýsingu um samþykki eða afrit af henni til ríkisins sem beiðni er beint til.
    4. Tíma í varðhaldi á yfirráðasvæði aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, skal draga frá þeim varðhaldstíma sem viðkomandi maður sætir eða verður gert skylt að sæta á yfirráðasvæði aðildarríkisins sem leggur fram beiðni.
    5. Ákvæði 2. og 3. mgr. 11. gr. og 12. og 20. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð eiga við um þessa grein að breyttu breytanda.
    6. Hvert aðildarríki um sig getur lýst því yfir, þegar send er tilkynning skv. 2. mgr. 27. gr., að það muni, áður en samkomulagi er náð skv. 1. mgr. þessarar greinar, krefjast samþykkis sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar eða krefjast þess við tilteknar aðstæður sem tilgreindar eru í yfirlýsingunni.

10. gr.


Yfirheyrsla á myndfundi.


    1. Ef dómsmálayfirvöld eins aðildarríkis þurfa að yfirheyra vitni eða sérfræðing, sem dvelur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, getur fyrrnefnda aðildarríkið, ef óæskilegt eða ómögulegt er að maðurinn, sem á að yfirheyra, komi í eigin persónu á yfirráðasvæði þess, farið þess á leit að yfirheyrslan fari fram á myndfundi eins kveðið er á um í 2. til 8. mgr.
    2. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal samþykkja að yfirheyrslan fari fram á myndfundi að því tilskildu að myndfundir séu ekki í andstöðu við grundvallarreglur landslaga og með því skilyrði að það ráði yfir tæknibúnaði fyrir yfirheyrslu af því tagi. Ef aðildarríkið, sem beiðni er beint til, hefur ekki aðgang að tæknibúnaði fyrir myndfundi getur aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, lagt því til þann búnað samkvæmt samkomulagi.
    3. Í beiðnum um yfirheyrslu á myndfundi skal koma fram, auk þeirra upplýsinga sem um getur í 14. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð og í 37. gr. Benelúx-sáttmálans, ástæða þess að talið er óæskilegt eða ómögulegt að vitnið eða sérfræðingurinn komi til yfirheyrslu í eigin persónu, heiti dómsmálayfirvaldsins og nöfn þeirra manna sem sjá munu um yfirheyrsluna.
    4. Dómsmálayfirvald aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, skal kveðja viðkomandi mann til yfirheyrslu í samræmi við þau formsatriði sem mælt er fyrir um í lögum þess.
    5. Eftirfarandi reglur gilda um yfirheyrslu á myndfundi:
     a.      Dómsmálayfirvald aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, skal vera viðstatt yfirheyrsluna og, ef nauðsyn krefur, njóta aðstoðar túlks auk þess sem það skal tryggja að staðfest sé að maðurinn, sem á að yfirheyra, sé sá sem hann segist vera og að virtar séu grundvallarreglur laga í því aðildarríki sem beiðni er beint til. Ef dómsmálayfirvald aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, er þeirrar skoðunar að grundvallarreglur laga þess hafi verið brotnar við yfirheyrsluna skal það þegar í stað gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að yfirheyrslan haldi áfram í samræmi við umræddar meginreglur.
     b.      Þar til bær yfirvöld aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, og aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, skulu , ef þörf krefur, koma sér saman um ráðstafanir til að vernda þann mann sem á að yfirheyra.
     c.      Dómsmálayfirvald aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, skal annast yfirheyrsluna beint eða stýra henni í samræmi við eigin lög.
     d.      Að beiðni aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, eða þess manns, sem á að yfirheyra, skal aðildarríkið, sem beiðni er beint til, tryggja, ef nauðsyn krefur, að sá maður, sem á að yfirheyra, fái notið aðstoðar túlks.
     e.      Maðurinn, sem á að yfirheyra, getur nýtt sér rétt sinn til að neita að bera vitni samkvæmt lögum aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, eða aðildarríkisins sem leggur fram beiðni.
    6. Með fyrirvara um þær ráðstafanir, sem samþykktar hafa verið um verndun manna, skal dómsmálayfirvald aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, bóka við lok yfirheyrslunnar þar sem kemur fram hvenær og hvar yfirheyrslan fór fram, hver var yfirheyrður, hvaða aðrir menn í aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, hafi tekið þátt í yfirheyrslunni og hvert hlutverk þeirra var, hvort einhverjir hafi verið eiðsvarnir og hvaða tækni var viðhöfð við yfirheyrsluna. Þar til bært yfirvald aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, skal senda skjalið til þar til bærs yfirvalds aðildarríkisins sem leggur fram beiðni.
    7. Aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, skal endurgreiða aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, kostnað við að koma á myndsambandi, rekstrarkostnað vegna myndsambandsins í aðildarríkinu sem beiðni er beint til, laun túlka sem það ríki útvegaði og greiðslur til vitna og sérfræðinga og ferðakostnað þeirra í aðildarríkinu sem beiðni er beint til, nema síðarnefnda aðildarríkið falli frá kröfu um endurgreiðslu allra þessara útgjalda eða hluta þeirra.
    8. Hvert aðildarríki um sig skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að, þegar vitni eða sérfræðingar eru yfirheyrðir á yfirráðasvæði þess í samræmi við þessa grein og neita að bera vitni þegar þeim er það skylt eða greina ekki rétt frá, þá gildi lög þess aðildarríkis á sama hátt og ef yfirheyrslan færi fram við innlenda málsmeðferð.
    9. Aðildarríkin geta, ef þau svo kjósa, einnig beitt ákvæðum þessarar greinar við yfirheyrslu sakbornings á myndfundi ef það á við og með samþykki þar til bærra dómsmálayfirvalda sinna. Í því tilviki skulu viðkomandi aðildarríki koma sér saman um þá ákvörðun að halda myndfundinn og hvernig hann skuli fara fram, í samræmi við lög þeirra og viðeigandi alþjóðlega gerninga, þ.á m. Evrópusáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 1950.
    Aðildarríki getur, þegar send er tilkynning skv. 2. mgr. 27. gr., lýst því yfir að það muni ekki beita fyrstu undirgrein. Slíka yfirlýsingu má draga til baka hvenær sem er.
    Yfirheyrslur skulu aðeins fara fram með samþykki sakbornings. Til að vernda réttindi sakborninga, skal ráðið, ef þurfa þykir, samþykkja nauðsynlegar reglur í bindandi gerningi að lögum.

11. gr.


Yfirheyrsla vitna og sérfræðinga á símafundi.


    1. Ef dómsmálayfirvöld eins aðildarríkis þurfa að yfirheyra vitni eða sérfræðing, sem dvelur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, getur fyrrnefnda aðildarríkið, ef heimilt er samkvæmt innlendum lögum, farið þess á leit að síðarnefnda aðildarríkið geri það kleift að yfirheyra viðkomandi á símafundi eins og kveðið er á um í 2. til 5. mgr.
    2. Yfirheyrsla á símafundi getur því aðeins farið fram að vitnið eða sérfræðingurinn samþykki að hún fari fram með þeim hætti.
    3. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal samþykkja yfirheyrslu á símafundi að því tilskildu að það brjóti ekki í bága við grundvallarreglur landslaga.
    4. Beiðnum um yfirheyrslu á símafundi skal fylgja, auk þeirra upplýsinga sem um getur í 14. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð og í 37. gr. Benelúx-sáttmálans, heiti dómsmálayfirvaldsins og nöfn þeirra manna sem sjá um yfirheyrsluna og upplýsingar um að vitni eða sérfræðingur sé fús til þess að taka þátt í yfirheyrslu á símafundi.
    5. Viðkomandi aðildarríki skulu koma sér saman um fyrirkomulag yfirheyrslu í reynd. Þegar slíku samkomulagi hefur verið náð skal aðildarríkið, sem beiðni er beint til, taka að sér að:
     a.      tilkynna viðkomandi vitni eða sérfræðingi um hvenær og hvar yfirheyrslan fari fram;
     b.      tryggja að staðfest sé að vitni eða sérfræðingur sé sá sem hann segist vera;
     c.      sannreyna að vitni eða sérfræðingur samþykki yfirheyrslu á símafundi.
    Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur ákveðið að samkomulagið sé háð, að einhverju eða öllu leyti, viðeigandi ákvæðum 5. og 8. mgr. 10. gr. Ákvæði 7. mgr. 10. gr. eiga við að breyttu breytanda nema samkomulag hafi orðið um annað.

12. gr.


Afhending undir eftirliti.


    1. Hvert aðildarríki um sig skal sjá um að tryggja, að heimilt verði að fallast á beiðni annars aðildarríkis um afhendingu undir eftirliti á yfirráðasvæði þess við rannsókn sakamála vegna brota sem leitt geta til framsals.
    2. Ákvörðun um hvort afhending undir eftirliti fari fram skulu þar til bær yfirvöld aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, taka í hverju tilviki fyrir sig að teknu tilliti til laga þess aðildarríkis.
    3. Afhending undir eftirliti skal fara fram í samræmi við málsmeðferð hjá aðildarríkinu sem beiðni er beint til. Þar til bær yfirvöld þess aðildarríkis skulu hafa heimild til að grípa inn í, stjórna og hafa eftirlit með aðgerðum.

13. gr.


Sameiginlegir rannsóknarhópar.


    1. Þar til bær yfirvöld tveggja eða fleiri aðildarríkja geta með gagnkvæmu samkomulagi, í sérstökum tilgangi og í takmarkaðan tíma, sem unnt er að framlengja með gagnkvæmu samþykki, komið á fót sameiginlegum rannsóknarhópi til að vinna að rannsókn sakamála í einu eða fleiri þeirra aðildarríkja sem komu hópnum á fót. Í samkomulaginu skal tilgreint hvernig hópurinn skuli vera samsettur.
    Sameiginlegum rannsóknarhópi skal einkum komið á fót þegar:
     a.      rannsókn aðildarríkis á sakamáli er krefjandi og erfið og varðar önnur aðildarríki;
     b.      nokkur aðildarríki fara með rannsókn sakamáls þar sem nauðsynlegt er vegna aðstæðna málsins að grípa til samræmdra, samstilltra aðgerða í viðkomandi aðildarríkjum.
    Hvert og eitt hlutaðeigandi aðildarríkja getur lagt fram beiðni um að komið verði á fót sameiginlegum rannsóknarhópi. Hópnum skal komið á fót í því aðildarríki þar sem búist er við að rannsókn fari fram.
    2. Auk upplýsinganna, sem um getur í viðeigandi ákvæðum 14. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð og 37. gr. Benelúx-sáttmálans, skulu tillögur um samsetningu hópsins fylgja beiðnum um að komið verði á fót sameiginlegum rannsóknarhópi.
    3. Sameiginlegur rannsóknarhópur skal starfa á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, sem komu honum á fót, að uppfylltum eftirfarandi almennum skilyrðum:
          Stjórnandi hópsins skal vera fulltrúi þar til bærs yfirvalds, sem tekur þátt í rannsókn sakamála, frá því aðildarríki þar sem hópurinn starfar. Stjórnandi hópsins skal starfa innan marka þeirra heimilda sem hann hefur samkvæmt landslögum.
          Hópurinn skal sinna verkefnum sínum í samræmi við lög aðildarríkisins þar sem hann starfar. Þátttakendur í hópnum skulu sinna verkefnum sínum undir stjórn þess manns sem um getur í a-lið, að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem þeirra eigin yfirvöld hafa sett í samkomulaginu um að koma hópnum á fót.
          Aðildarríkið, þar sem hópurinn starfar, skal gera nauðsynlegar ráðstafanir innan stjórnkerfisins til þess að hann geti starfað.
    4. Í skilningi þessarar greinar er litið svo á að þátttakendur í sameiginlega rannsóknarhópnum frá aðildarríkjum, öðrum en því aðildarríki þar sem hópurinn starfar, séu „sendir til starfa“ í hópnum.
    5. Þátttakendur, sem hafa verið sendir til starfa í sameiginlega rannsóknarhópnum, eiga rétt á því að vera viðstaddir þegar ráðstafanir eru gerðar vegna rannsóknarinnar í aðildarríkinu þar sem aðgerðir fara fram. Þó getur stjórnandi hópsins, af sérstökum ástæðum, ákveðið annað í samræmi við lög aðildarríkisins þar sem hópurinn starfar.
    6. Þátttakendum, sem hafa verið sendir til starfa í sameiginlega rannsóknarhópnum, er heimilt, í samræmi við lög aðildarríkisins þar sem hópurinn starfar, að grípa til tiltekinna ráðstafana vegna rannsóknarinnar sem stjórnandi hópsins felur þeim og þar til bær yfirvöld aðildarríkisins, þar sem hópurinn starfar, og aðildarríkisins, sem sendi mennina til starfa, samþykkja.
    7. Þegar sameiginlegi rannsóknarhópurinn þarf að grípa til ráðstafana vegna rannsóknarinnar í einu þeirra aðildarríkja sem komu hópnum á fót, geta þátttakendur, sem sendir hafa verið til starfa í hópnum frá því aðildarríki, farið fram á að þar til bær yfirvöld í eigin ríki geri þær ráðstafanir. Í því aðildarríki skal meta þessar ráðstafanir samkvæmt þeim skilyrðum sem ættu við ef farið væri fram á ráðstafanir í innlendri rannsókn.
    8. Þegar sameiginlegi rannsóknarhópurinn þarfnast aðstoðar aðildarríkis, sem var ekki meðal þeirra ríkja sem kom hópnum á fót, eða þriðja ríkis geta þar til bær yfirvöld ríkisins, þar sem hópurinn starfar, lagt fram beiðni um aðstoð sem beint er til þar til bærra yfirvalda viðkomandi ríkis í samræmi við viðeigandi gerninga eða samkomulag.
    9. Þátttakandi í sameiginlega rannsóknarhópnum getur, í samræmi við landslög og innan heimilda sinna, veitt hópnum upplýsingar, sem fengnar eru í aðildarríkinu sem sendi hann til starfa, í þágu rannsóknar sakamáls sem hópurinn stjórnar.
    10. Upplýsingar, sem þátttakandi eða þátttakandi sem hefur verið sendur til starfa í hópnum fær á löglegan hátt á meðan hann starfar með hópnum og þar til bær yfirvöld viðkomandi aðildarríkja geta ekki fengið á annan hátt, má nota á eftirfarandi hátt:
     a.      til að þjóna þeim tilgangi sem var ástæða þess að hópnum var komið á fót;
     b.      til að ljóstra upp um, rannsaka og ákæra fyrir aðra refsiverða verknaði, að fengnu fyrirframsamþykki aðildarríkisins þar sem upplýsingarnar fengust. Aðeins má neita að veita slíkt samþykki þegar slík notkun myndi stofna í hættu rannsókn sakamáls í viðkomandi aðildarríki eða í þeim tilvikum þar sem það aðildarríki myndi neita að veita gagnkvæma réttaraðstoð;
     c.      til að koma í veg fyrir bráða og alvarlega ógnun við almannaöryggi ef hafin er rannsókn sakamáls í beinu framhaldi, sbr. þó b-lið;
     d.      í öðrum tilgangi svo framarlega sem aðildarríkin, sem komu hópnum á fót, samþykkja það.
    11. Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á önnur gildandi ákvæði eða samkomulag um að koma á fót eða starfrækja sameiginlega rannsóknarhópa.
    12. Svo framarlega sem lög viðkomandi aðildarríkja eða ákvæði lagagerninga, sem gilda milli þeirra, heimila má komast að samkomulagi um að menn, aðrir en fulltrúar þar til bærra yfirvalda aðildarríkjanna sem komu sameiginlega rannsóknarhópnum á fót, taki þátt í störfum hópsins. Þessir menn geta t.d. verið embættismenn við stofnanir sem komið hefur verið á fót samkvæmt sáttmálanum um Evrópusambandið. Réttindi, sem þeir sem eru í hópnum eða þeir sem hafa verið sendir til starfa í honum, hafa öðlast samkvæmt þessari grein eiga ekki við umrædda menn, nema í samkomulaginu sé skýrt kveðið á um annað.

14. gr.


Rannsókn með aðstoð flugumanna.


    1. Aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, og aðildarríkið, sem beiðni er beint til, geta komið sér saman um að aðstoða hvort annað við rannsókn sakamáls með því að nota lögreglumenn sem starfa leynilega eða undir fölsku nafni (rannsókn með aðstoð flugumanna).
    2. Þar til bær yfirvöld aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, tekur ákvörðun um beiðni í hverju einstöku tilviki að teknu tilliti til laga þess og innlendrar málsmeðferðar. Aðildarríkin skulu koma sér saman um, að teknu tilliti til laga þeirra og innlendrar málsmeðferðar, hve lengi rannsókn með aðstoð flugumanna skuli standa, hvernig henni skuli háttað í smáatriðum og hver sé lagaleg staða viðkomandi lögreglumanna á meðan þeir starfa sem flugumenn.
    3. Rannsókn með aðstoð flugumanna skal fara fram í samræmi við lög og málsmeðferð þess aðildarríkis sem ræður því yfirráðasvæði þar sem rannsóknin fer fram. Hlutaðeigandi aðildarríki skulu vinna sameiginlega að því að tryggja undirbúning rannsóknar með aðstoð flugumanna og eftirlit með rannsókninni og gera ráðstafanir til að stuðla að öryggi lögreglumannanna sem starfa leynilega eða undir fölsku nafni.
    4. Hvert aðildarríki getur, þegar send er tilkynning skv. 2. mgr. 27. gr., lýst því yfir að það sé óbundið af þessari grein. Slíka yfirlýsingu er unnt að draga til baka hvenær sem er.

15. gr.


Refsiábyrgð opinberra starfsmanna.


    Á meðan á aðgerðum, sem um getur í 12., 13. og 14. gr., stendur hafa opinberir starfsmenn frá öðru aðildarríki en ríkinu, þar sem aðgerðirnar fara fram, sömu stöðu og opinberir starfsmenn frá síðarnefnda ríkinu með tilliti til refsiverðra verknaða sem þeir verða fyrir eða fremja sjálfir.

16. gr.


Einkaréttarábyrgð vegna opinberra starfsmanna.


    1. Þegar embættismenn aðildarríkis starfa í öðru aðildarríki, í samræmi við 12., 13. og 14. gr., skal fyrrnefnda aðildarríkið bera ábyrgð á því tjóni sem þeir valda meðan á aðgerðunum stendur í samræmi við lög aðildarríkisins sem ræður því yfirráðasvæði sem þeir starfa á.
    2. Aðildarríkið, sem ræður því yfirráðasvæði þar sem unnið var tjón sem um getur í 1. mgr., skal bæta tjónið samkvæmt skilyrðum sem gilda þegar þeirra eigin embættismenn valda tjóni.
    3. Aðildarríkið, sem hefur embættismenn í sinni þjónustu sem hafa valdið öðrum tjóni á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, skal endurgreiða síðarnefnda aðildarríkinu að fullu þá fjárhæð sem það hefur þurft að greiða til tjónþola eða annarra fyrir þeirra hönd.
    4. Hvert aðildarríki um sig skal afsala sér, í því tilviki sem kveðið er á um í 1. mgr., réttinum til að krefjast skaðabóta vegna tjóns sem annað aðildarríki hefur valdið því með fyrirvara um rétt sinn gagnvart þriðja aðila og að undanskildum ákvæðum 3. mgr.

III. BÁLKUR
HLERUN FJARSKIPTA
17. gr.
Yfirvöld sem eru bær til þess að fyrirskipa hlerun fjarskipta.

    Að því er tekur til beitingar 18., 19. og 20. gr. skal „þar til bært yfirvald“ merkja dómsmálayfirvald eða, þegar dómsmálayfirvöld hafa ekki lögsögu á því sviði sem þessi ákvæði ná yfir, sambærilegt þar til bært yfirvald sem er tilgreint skv. e-lið 1. mgr. 24. gr. og vinnur að rannsókn sakamáls.

18. gr.


Beiðnir um hlerun fjarskipta.


    1. Þar til bært yfirvald í aðildarríkinu, sem leggur fram beiðni, getur, í þágu rannsóknar sakamáls og í samræmi við landslög, beint beiðni til þar til bærs yfirvalds í aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, um að:
     a.      fjarskipti séu hleruð og upplýsingar sendar tafarlaust til aðildarríkisins sem leggur fram beiðni; eða
     b.      fjarskipti séu hleruð, tekin upp og síðan sé upptakan send aðildarríkinu sem leggur fram beiðni.
    2. Beiðnir skv. 1. mgr. má leggja fram í tengslum við fjarskiptanotkun þess manns sem hlerað er hjá ef hann er staddur í:
     a.      aðildarríkinu sem leggur fram beiðni og það aðildarríki þarfnast tæknilegrar aðstoðar aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, til að hlera fjarskipti viðkomandi;
     b.      aðildarríkinu sem beiðni er beint til og unnt er að hlera fjarskipti viðkomandi í því aðildarríki;
     c.      þriðja aðildarríki sem hefur fengið upplýsingar skv. a-lið 2. mgr. 20. gr. og aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, þarfnast tæknilegrar aðstoðar aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, til að hlera fjarskipti mannsins.
    3. Með fyrirvara um 14. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð og 37. gr. Benelúx-sáttmálans skal eftirfarandi koma fram í beiðnum samkvæmt þessari grein:
     a.      hvaða yfirvald leggur fram beiðnina;
     b.      staðfesting á að lögleg skipun eða heimild til hlerunar hafi verið gefin út í tengslum við rannsókn sakamáls;
     c.      upplýsingar sem gera kleift að staðfesta hver sá er sem hlera á hjá;
     d.      hvaða refsiverða hegðun er til rannsóknar;
     e.      á hvaða tímabili óskað er eftir hlerun; og,
     f.      ef unnt er, nægar tæknilegar upplýsingar, einkum tölvupóstfang, til að tryggja að unnt sé að verða við beiðninni.
    4. Þegar um er að ræða beiðni skv. b-lið 2. mgr. skal einnig vera í beiðninni yfirlit yfir staðreyndir málsins. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur krafist allra frekari upplýsinga til að það geti ákveðið hvort gripið yrði til ráðstöfunarinnar, sem beðið er um, í sambærilegu tilviki innanlands.
    5. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal skuldbinda sig til að verða við beiðnum skv. a-lið 1. mgr.:
     a.      þegar um er að ræða beiðni skv. a- og c-lið 2. mgr. og ríkið hefur fengið upplýsingarnar sem um getur í 3. mgr. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur heimilað að hlerun haldi áfram án frekari formsatriða;
     b.      þegar um er að ræða beiðni skv. b-lið 2. mgr. og ríkið hefur fengið upplýsingarnar sem um getur í 3. og 4. mgr. og gripið yrði til ráðstöfunarinnar, sem beðið er um, í sambærilegu tilviki innanlands. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur veitt samþykki sitt með sömu skilyrðum og þyrfti að uppfylla í sambærilegu tilviki innanlands.
    6. Þegar tafarlaus sending er ekki möguleg skal aðildarríkið, sem beiðni er beint til og hefur fengið upplýsingarnar sem um getur í 3. og 4. mgr., verða við beiðni skv. b-lið 1. mgr. ef gripið yrði til umbeðinnar ráðstöfunar í sambærilegu tilviki innanlands. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, getur veitt samþykki sitt með sömu skilyrðum og þyrfti að uppfylla í sambærilegu tilviki innanlands.
    7. Hvert aðildarríki getur, þegar send er tilkynning skv. 2. mgr. 27. gr., lýst því yfir að það sé aðeins bundið af 6. mgr. þegar það geti ekki annast tafarlausa sendingu. Í því tilviki getur hitt aðildarríkið beitt meginreglunni um gagnkvæmni.
    8. Þegar beiðni skv. b-lið 1. mgr. er lögð fram getur aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, þegar það hefur sérstakar ástæður til þess, einnig beðið um skriflegt eftirrit af upptökunni. Aðildarríkið, sem beiðni er beint til, skal taka slíka beiðni til athugunar í samræmi við landslög og innlenda málsmeðferð.
    9. Aðildarríkið, sem fær upplýsingarnar sem kveðið er á um í 3. og 4. mgr. skal fara með þær sem trúnaðarmál í samræmi við landslög.

19. gr.


Hlerun fjarskipta á eigin yfirráðasvæði með aðstoð þjónustuveitenda.


    1. Aðildarríkin skulu sjá til þess að fjarskiptakerfi, sem eru starfrækt um stöð á yfirráðasvæði þeirra og veita ekki beinan aðgang til að hlera löglega fjarskipti manns, sem dvelur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, geti veitt því aðildarríki beinan aðgang til að hlera löglega með aðstoð milliliðar sem skal vera tilnefndur þjónustuveitandi á yfirráðasvæði þess.
    2. Í því tilviki, sem um getur í 1. mgr., skulu þar til bær yfirvöld aðildarríkis hafa, í þágu rannsóknar sakamáls og í samræmi við gildandi landslög og að því tilskildu að sá sem hlerað er hjá sé staddur í því aðildarríki, heimild til hlerunar með aðstoð milliliðar sem skal vera tilnefndur þjónustuveitandi á yfirráðasvæði þess án afskipta aðildarríkisins sem ræður því yfirráðasvæði þar sem stöðin er.
    3. Ákvæði 2. mgr. gilda einnig þegar hlerað er samkvæmt beiðni sem lögð er fram skv. b- lið 2. mgr. 18. gr.
    4. Ekkert í þessari grein kemur í veg fyrir að aðildarríki sendi beiðni til aðildarríkisins, sem ræður því yfirráðasvæði þar sem stöðin er, um löglega hlerun fjarskipta í samræmi við 18. gr., einkum þegar ekki er milliliður í aðildarríkinu sem leggur fram beiðni.

20. gr.


Hlerun fjarskipta án tæknilegrar aðstoðar annars aðildarríkis.


    1. Með fyrirvara um almennar meginreglur þjóðaréttar, svo og ákvæði c-liðar 2. mgr. 18. gr., eiga skuldbindingar samkvæmt þessari grein við um fyrirskipanir um hlerun sem þar til bært yfirvald aðildarríkis gefur eða heimilar þegar á rannsókn sakamáls stendur sem einkennist af því að lúta nánar að tilgreindu broti, þ.m.t. tilraunum til að fremja slíkt brot svo framarlega sem þær eru taldar refsiverðar samkvæmt landslögum, í þeim tilgangi að staðfesta hverjir beri ábyrgð, handtaka þá, hefja lögsókn og kveða upp dóm yfir þeim.
    2. Þegar þar til bært yfirvald eins aðildarríkis („aðildarríkisins sem annast hlerun“) heimilar, í þágu rannsóknar sakamáls, hlerun fjarskipta og fjarskiptafang mannsins, sem tilgreindur er í fyrirskipun um hlerun, er í notkun á yfirráðasvæði annars aðildarríkis („aðildarríkisins sem fær tilkynningu“) en ekki er þörf á tæknilegri aðstoð þess til hlerunar skal aðildarríkið, sem annast hlerun, upplýsa aðildarríkið, sem fær tilkynningu, um hlerunina:
     a)      áður en hlerun fer fram í tilvikum þar sem vitað er áður en aðildarríkið fyrirskipar hlerun að maðurinn, sem hlera á hjá, er staddur á yfirráðasvæði aðildarríkisins sem fær tilkynningu;
     b)      í öðrum tilvikum um leið og ljóst er að maðurinn, sem hlera á hjá, er staddur á yfirráðasvæði aðildarríkisins sem fær tilkynningu.
    3. Í tilkynningu aðildarríkisins, sem annast hlerun, skal eftirfarandi koma fram:
     a)      hvaða yfirvald fyrirskipar hlerunina;
     b)      staðfesting á að lögleg skipun til hlerunar hafi verið gefin út í tengslum við rannsókn sakamáls;
     c)      upplýsingar til að staðfesta hver sá er sem hlera á hjá;
     d)      hvaða refsiverða hegðun er til rannsóknar; og
     e)      á hvaða tímabili óskað er eftir hlerun.
    4. Eftirfarandi gildir þegar aðildarríki fær tilkynningu skv. 2. og 3. mgr.:
     a)      Þar til bært yfirvald aðildarríkisins, sem fær tilkynningu, skal, þegar því berast upplýsingar skv. 3. mgr., án tafar og í síðasta lagi innan 96 klukkustunda svara aðildarríkinu, sem annast hlerun, með tilliti til þess:
                  i)      hvort leyfi er veitt til að hlerun fari fram eða sé haldið áfram. Aðildarríkið, sem fær tilkynningu, getur veitt samþykki sitt með sömu skilyrðum og þyrfti að uppfylla í sambærilegu tilviki innanlands;
                  ii)      hvort þess er krafist að hlerun fari ekki fram eða sé hætt þar sem hlerun er ekki heimil samkvæmt lögum aðildarríkisins sem fær tilkynningu eða af ástæðum sem tilgreindar eru í 2. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð. Þegar aðildarríkið, sem fær tilkynningu, gerir slíka kröfu skal það tilgreina skriflega ástæður fyrir þeirri ákvörðun;
                  iii)      hvort, í tilvikum sem um getur í ii-lið, þess er krafist að ekki megi nota efni sem fengist hefur með hlerun á meðan sá sem hlerað var hjá var staddur á yfirráðasvæði þess eða hvort nota megi það með skilyrðum sem téð ríki tiltekur. Aðildarríkið, sem fær tilkynningu, skal upplýsa aðildarríkið, sem annast hlerun, um rökin fyrir því að þessi skilyrði eru sett.
                  iv)      hvort þess er krafist að aðildarríkið, sem annast hlerun, samþykki stuttan frest, að hámarki 8 daga, til viðbótar við hinn upprunalega 96 klukkustunda frest til þess að fram fari innlendri málsmeðferð samkvæmt landslögum. Aðildarríkið, sem fær tilkynningu, skal upplýsa aðildarríkið, sem annast hlerun, skriflega um hvaða skilyrði, samkvæmt landslögum, réttlæti að beðið er um framlengingu frests.
     b)      Þar til aðildarríkið, sem fær tilkynningu, hefur tekið ákvörðun skv. i- eða ii-lið a-liðar má aðildarríkið, sem annast hlerun:
                  i)      halda hleruninni áfram; en
                  ii)      ekki nota efnið sem safnað hefur verið með hlerun, nema:
                           viðkomandi aðildarríki hafi samþykkt annað; eða
                           vegna brýnna ráðstafana til að koma í veg fyrir bráða og alvarlega ógnun við almannaöryggi. Aðildarríkið, sem fær tilkynningu, skal upplýst um alla notkun af þessu tagi og ástæður sem réttlæta hana.
     c)      Aðildarríkið, sem fær tilkynningu, getur beðið um yfirlit yfir staðreyndir málsins og aðrar nauðsynlegar upplýsingar til þess að taka ákvörðun um hvort hlerun væri heimiluð í sambærilegu tilviki innanlands. Slík beiðni hefur ekki áhrif á beitingu b-liðar, nema aðildarríkið, sem fær tilkynningu, og aðildarríkið, sem annast hlerun, komi sér saman um annað.
     d)      Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að svar berist innan 96 klukkustunda. Í því skyni skulu þau tilnefna tengiliði sem eru á vakt allan sólarhringinn og tilgreina þá í yfirlýsingum sínum skv. e-lið 1. mgr. 24. gr.
    5. Aðildarríkið, sem fær tilkynningu, skal fara með upplýsingarnar, sem veittar eru skv. 3. mgr., sem trúnaðarmál í samræmi við landslög.
    6. Þegar aðildarríkið, sem annast hlerun, er þeirrar skoðunar að upplýsingarnar, sem veittar eru skv. 3. mgr., séu sérstaklega viðkvæmar má senda þær til þar til bærs yfirvalds fyrir milligöngu sérstaks yfirvalds þegar viðkomandi aðildarríki hafa komið sér saman um það á tvíhliða grundvelli.
    7. Hvert aðildarríki getur, þegar send er tilkynning skv. 2. mgr. 27. gr. eða hvenær sem er eftir það, lýst því yfir að það sé ekki nauðsynlegt að veita því upplýsingar um hlerun eins og lýst er í þessari grein.

21. gr.


Ábyrgð á kostnaði sem fjarskiptafyrirtæki stofna til.


    Aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, skal bera kostnað sem fjarskiptafyrirtæki eða þjónustuveitendur stofna til þegar orðið er við beiðnum skv. 18. gr.

22. gr.


Tvíhliða samningar.


    Ekkert í þessum bálki kemur í veg fyrir tvíhliða eða fjölþjóðlega samninga milli aðildarríkjanna til þess að auðvelda að tæknilegir möguleikar séu nýttir í nútíð og framtíð að því er varðar löglega hlerun fjarskipta.

IV. BÁLKUR


23. gr.


Vernd persónuupplýsinga.


    1. Persónuupplýsingar, sem sendar eru samkvæmt þessum samningi, má aðildarríki, sem hefur fengið þær, nota:
     a)      vegna málsmeðferðar sem þessi samningur gildir um;
     b)      vegna meðferðar annarra dóms- eða stjórnsýslumála sem tengist beint málsmeðferð sem um getur í a-lið;
     c)      til að koma í veg fyrir bráða og alvarlega ógnun við almannaöryggi;
     d)      í einhverjum öðrum tilgangi því aðeins að aðildarríkið, sem veitir upplýsingarnar, samþykki það fyrir fram, nema viðkomandi aðildarríki hafi fengið samþykki þess sem upplýsingarnar fjalla um.
    2. Þessi grein gildir einnig um persónuupplýsingar sem voru ekki sendar heldur fengnar á annan hátt samkvæmt þessum samningi.
    3. Við sérstakar aðstæður í einstöku máli getur aðildarríkið, sem veitir upplýsingar, krafist þess að aðildarríkið, sem fékk persónuupplýsingarnar, veiti upplýsingar um notkun þeirra.
    4. Ef sett hafa verið skilyrði fyrir notkun persónuupplýsinganna skv. 2. mgr. 7. gr., b-lið 5. mgr. 18. gr., 6. mgr. 18. gr. eða 4. mgr. 20. gr. ganga þau skilyrði framar. Ef engin slík skilyrði hafa verið sett gildir þessi grein.
    5. Ákvæði 10. mgr. 13. gr. ganga framar þessari grein að því er varðar upplýsingar sem fengnar eru skv. 13. gr.
    6. Þessi grein gildir ekki um persónuupplýsingar sem aðildarríki fær samkvæmt þessum samningi og eru upprunnar í því aðildarríki.
    7. Lúxemborg getur, við undirritun samningsins, lýst því yfir að eftirfarandi gildi um persónuupplýsingar sem Lúxemborg veitir öðru aðildarríki samkvæmt þessum samningi:
    Lúxemborg getur, með fyrirvara um c-lið 1. mgr., með tilliti til aðstæðna í einstöku máli krafist þess, nema viðkomandi aðildarríki hafi fengið samþykki þess sem upplýsingarnar fjalla um, að persónuupplýsingarnar megi einungis nota í þeim tilgangi sem um getur í a- og b-lið 1. mgr. að fengnu samþykki Lúxemborgar fyrir fram að því er varðar málsmeðferð sem Lúxemborg gæti hafa neitað eða takmarkað sendingu eða notkun persónuupplýsinganna við í samræmi við ákvæði þessa samnings eða gerninganna sem um getur í 1. gr.
    Ef, í einstöku tilviki, Lúxemborg neitar að samþykkja beiðni frá aðildarríki samkvæmt ákvæðum 1. mgr. verður Lúxemborg að tilgreina skriflega ástæður fyrir þeirri ákvörðun.

V. BÁLKUR


LOKAÁKVÆÐI


24. gr.


Yfirlýsingar.


    1. Hvert aðildarríki skal, þegar send er tilkynning skv. 2. mgr. 27. gr., gefa út yfirlýsingu þar sem þau yfirvöld eru tilgreind, auk þeirra sem þegar hafa verið tilgreind í Evrópusamningnum um gagnkvæma aðstoð og Benelúx-sáttmálanum, sem eru bær til þess að beita þessum samningi og að beita ákvæðum þeirra gerninga, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkjanna, þar sem einkum skal tilgreina:
     a)      þar til bær stjórnsýsluyfirvöld í skilningi 1. mgr. 3. gr., ef við á;
     b)      eitt eða fleiri miðlæg yfirvöld vegna beitingar 6. gr. svo og þar til bær yfirvöld til að fjalla um beiðnir sem um getur í 8. mgr. 6. gr.;
     c)      þar til bær lögreglu- eða tollyfirvöld vegna 5. mgr. 6. gr., ef við á;
     d)      þar til bær stjórnsýsluyfirvöld vegna 6. mgr. 6. gr., ef við á; og
     e)      þar til bært yfirvald eða þar til bær yfirvöld vegna beitingar 18. og 19. gr. og 1. til 5. mgr. 20. gr.
    2. Yfirlýsingum, sem eru gefnar út í samræmi við 1. mgr., má, hvenær sem er, breyta með sömu málsmeðferð að einhverju eða öllu leyti.

25. gr.


Fyrirvarar.


    Ekki er unnt að gera aðra fyrirvara við samning þennan en þá sem skýrt er kveðið á um í honum.

26. gr.


Gildissvið.


    Samningur þessi mun taka til Gíbraltar þegar gildissvið Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð verður rýmkað þannig að hann taki einnig til Gíbraltar.
    Breska konungsríkið skal tilkynna forseta ráðsins skriflega þegar það æskir þess að samningurinn taki til Ermarsundseyja og eyjarinnar Manar eftir að gildissvið Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð hefur verið rýmkað þannig að hann taki einnig til þeirra svæða. Ráðið skal taka ákvörðun um slíka beiðni með samhljóða samþykki.

27. gr.


Gildistaka.


    1. Samningur þessi er háður samþykki aðildarríkjanna í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði þeirra hvers um sig.
    2. Aðildarríkin skulu tilkynna aðalframkvæmdastjóra ráðs Evrópusambandsins um að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt fyrir samþykkt samnings þessa.
    3. Að því er varðar þau átta aðildarríki sem hlut eiga að máli öðlast samningur þessi gildi 90 dögum eftir að tilkynningin, sem um getur í 2. mgr., berst frá ríki sem er aðildarríki Evrópusambandsins þegar ráð þess samþykkir gerðina um að koma samningi þessum á og er hið áttunda í röðinni til að uppfylla þessa formkröfu.
    4. Sérhver tilkynning frá aðildarríki sem berst eftir að áttunda tilkynningin, sem um getur í 2. mgr., hefur borist, hefur í för með sér að samningur þessi öðlast gildi, 90 dögum eftir síðari tilkynninguna, milli þess aðildarríkis og þeirra aðildarríkja þar sem samningurinn hefur þegar öðlast gildi.
    5. Áður en samningurinn öðlast gildi skv. 3. mgr. getur hvert aðildarríki, þegar það sendir tilkynninguna sem um getur í 2. mgr. eða hvenær sem er eftir það, lýst því yfir að það muni beita samningi þessum í samskiptum við aðildarríki sem hafa gefið sams konar yfirlýsingu. Slíkar yfirlýsingar skulu koma til framkvæmda 90 dögum eftir að þær eru afhentar til vörslu.
    6. Samningur þessi gildir um gagnkvæma réttaraðstoð sem hafin er eftir gildistökudag hans eða er beitt skv. 5. mgr. milli hlutaðeigandi aðildarríkja.

28. gr.


Aðild nýrra aðildarríkja.


    1. Hverju ríki, sem gerist aðili að Evrópusambandinu, er heimilt að gerast aðili að samningi þessum.
    2. Ráð Evrópusambandsins gerir texta samnings þessa á tungumáli ríkisins sem fær aðild að samningnum og er hann jafngildur öðrum textum.
    3. Aðildarskjölin skulu afhent vörsluaðila til vörslu.
    4. Samningur þessi öðlast gildi, að því er varðar hvert ríki sem fær aðild að honum, 90 dögum eftir að það hefur afhent aðildarskjöl sín til vörslu eða þann dag sem samningur þessi öðlast gildi ef hann hefur ekki þegar öðlast gildi þegar 90 daga tímabilinu lýkur.
    5. Ef samningur þessi hefur ekki enn öðlast gildi þegar þau aðildarríki, sem fá aðild að samningnum, afhenda aðildarskjöl sín til vörslu gildir 5. mgr. 27. gr. um þau ríki.

29. gr.


Gildistaka að því er Ísland og Noreg varðar.


    1. Með fyrirvara um 8. gr. samningsins sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna („samstarfssamningurinn“) öðlast ákvæðin, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., gildi, að því er Ísland og Noreg varðar, 90 dögum eftir að ráðið og framkvæmdastjórnin taka á móti upplýsingum skv. 2. mgr. 8. gr. samstarfssamningsins um að Ísland og Noregur hafi uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði í gagnkvæmum samskiptum við öll aðildarríki þar sem samningur þessi hefur þegar öðlast gildi skv. 3. eða 4. mgr. 27. gr.
    2. Gildistaka samnings þessa, að því er varðar eitthvert aðildarríki, eftir þann dag sem ákvæðin, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., öðlast gildi að því er Ísland og Noreg varðar, hefur í för með sér að ákvæði þessi öðlast einnig gildi að því er varðar gagnkvæm samskipti þess aðildarríkis og Íslands og Noregs.
    3. Ákvæðin, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., verða í engu tilviki bindandi á Íslandi og í Noregi fyrir þann dag sem verður ákveðinn skv. 4. mgr. 15. gr. samstarfssamningsins.
    4. Með fyrirvara um 1., 2. og 3. mgr. hér að framan öðlast ákvæðin, sem um getur í 1. mgr. 2. gr., gildi, að því er Ísland og Noreg varðar, eigi síðar en þann dag sem samningur þessi öðlast gildi að því er varðar fimmtánda ríkið sem er aðildarríki Evrópusambandsins þegar ráð þess samþykkir gerðina um að koma samningi þessum á.

30. gr.


Vörsluaðili.


    1. Aðalframkvæmdastjóri ráðs Evrópusambandsins skal vera vörsluaðili samnings þessa.
    2. Vörsluaðilinn skal birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna upplýsingar um framgang samþykkta og aðildar, yfirlýsingar og fyrirvara og allar aðrar tilkynningar sem varða samning þennan.

    Gjört í Brussel tuttugasta og níunda dag maímánaðar árið tvö þúsund í einu frumriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, írsku, ítölsku, portúgölsku, spænsku, sænsku og þýsku og eru allir textarnir jafngildir en frumritið verður afhent til vörslu í skjalasafni aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins. Aðalframkvæmdastjórinn lætur hverju aðildarríki um sig í té staðfest endurrit.

YFIRLÝSINGAR



Yfirlýsing ráðsins um 9. mgr. 10. gr.


    „Þegar ráðið hyggst samþykkja gerning, eins og um getur í 9. mgr. 10. gr., ber því að virða skuldbindingar aðildarríkja samkvæmt Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda.“

Yfirlýsing Breska konungsríkisins um 20. gr.


    Þessi yfirlýsing er samþykktur, óaðskiljanlegur hluti samningsins:
    „Í Breska konungsríkinu gildir 20. gr. að því er varðar hlerunarheimildir sem innanríkisráðherrann gefur út til lögreglu eða toll- og skattayfirvalda þegar yfirlýstur tilgangur með heimildinni er, í samræmi við landslög um hlerun fjarskipta, að ljóstra upp um alvarlega refsiverða verknaði. Hún gildir einnig um slíkar heimildir sem gefnar eru út til öryggisdeilda, í samræmi við landslög, þegar verkefni þeirra er að aðstoða við rannsókn sem er sama eðlis og lýst er í 1. mgr. 20. gr.“

Fylgiskjal II.


GERÐ RÁÐSINS
frá 16. október 2001
um gerð bókunar við samninginn um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins, í samræmi við 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið
(2001/C 326/01)


RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS,

með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum a-lið 31. gr. og d-lið 2. mgr. 34. gr.,

með hliðsjón af frumkvæði Lýðveldisins Frakklands, 1

með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins, 2

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1.      Til þess að ná markmiðum Evrópusambandsins er rétt að endurbæta reglur um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins og, í þeim tilgangi, gera bókun þá sem fram kemur í viðaukanum.
     2.      Ákvæði 8. gr. bókunarinnar falla undir gildissvið 1. gr. ákvörðunar ráðsins 1999/437/EB frá 17. maí 1999 um sérstakt fyrirkomulag um beitingu samningsins sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. 3
     3.      Málsmeðferðin, sem lýst er í samningnum sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, 4 hefur verið virt með tilliti til þessa ákvæðis.
     4.      Þegar Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur fá tilkynningu um samþykkt þessarar gerðar í samræmi við a-lið 2. mgr. 8. gr. framangreinds samnings verða þessi tvö ríki sérstaklega upplýst um inntak 16. gr. um gildistöku að því er Ísland og Noreg varðar.

HEFUR ÁKVEÐIÐ að bókunin er hér með gerð en texti hennar fylgir með í viðaukanum og hafa fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins undirritað hana í dag,

BEINIR ÞEIM TILMÆLUM TIL aðildarríkjanna að samþykkja hana í samræmi við viðeigandi stjórnskipuleg skilyrði sín,

HVETUR aðildarríkin til þess að hefja viðeigandi málsmeðferð í því skyni fyrir 1. júlí 2002.

Gjört í Lúxemborg 16. október 2001.

Fyrir hönd ráðsins,
D. REYNDERS, forseti.


_________________




VIÐAUKI

BÓKUN
sem ráðið gerir við samninginn um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum
milli aðildarríkja     Evrópusambandsins í samræmi
við 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið


HINIR HÁU SAMNINGSAÐILAR að bókun þessari, aðildarríki Evrópusambandsins,

VÍSA TIL gerðar ráðsins frá 16. október 2001 um gerð bókunar við samninginn um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins,

TAKA TIL GREINA niðurstöður fundar leiðtogaráðsins, sem haldinn var í Tampere 15. og 16. október 1999, og þörfina á að koma þeim til framkvæmda tafarlaust í því skyni að skapa svæði frelsis, öryggis og réttlætis,

HAFA Í HUGA tilmæli sérfræðinga þegar þeir lögðu fram gagnkvæmar matsskýrslur, byggðar á sameiginlegum aðgerðum ráðsins 97/827/JHA frá 5. desember 1997, þar sem ákveðin var aðferð til að meta beitingu og framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga innanlands í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, 1

ERU SANNFÆRÐIR UM að þörf sé á viðbótarráðstöfunum á sviði gagnkvæmrar réttaraðstoðar í sakamálum til að berjast gegn afbrotum, þ.m.t. einkum skipulagðri brotastarfsemi, peningaþvætti og efnahagsbrotum,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI ÁKVÆÐI, sem skulu fylgja með í viðauka og vera órjúfanlegur hluti af samningnum um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins frá 29. maí 2000, 2 sem nefnist hér á eftir „samningurinn um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000“:

1. gr.
Beiðni um upplýsingar um bankareikninga

1.     Sérhvert aðildarríki skal, samkvæmt skilyrðum þessarar greinar og til að svara beiðni annars aðildarríkis, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kanna hvort einstaklingur eða lögaðili, sem sætir rannsókn vegna sakamáls, á eða ræður yfir einum eða fleiri reikningum, af hvaða tagi sem er, í banka sem staðsettur er á yfirráðasvæði þess og, ef svo er, veita allar upplýsingar um tilgreinda reikninga.

Upplýsingarnar skulu einnig, ef beðið er um þær og að því marki sem þær er hægt að láta í té innan sanngjarns tíma, taka til reikninga sem aðilinn, sem málsmeðferðin lýtur að, hefur umboð fyrir.

2.     Sú kvöð, sem mælt er fyrir um í þessari grein, gildir einungis ef bankinn, sem reikningurinn er í, ræður yfir upplýsingunum.

3.     Sú kvöð, sem mælt er fyrir um í þessari grein, gildir aðeins ef rannsóknin varðar:

–    afbrot sem varðar refsingu sem felst í frjálsræðissviptingu eða öryggisráðstöfun í a.m.k. fjögur ár í ríkinu, sem leggur fram beiðnina, og í a.m.k. tvö ár í ríkinu sem beiðni er beint til, eða

–    afbrot sem um getur í 2. gr. samningsins um stofnun Evrópulögreglunnar frá 1995 (Europol- samningurinn), eða í viðauka við þann samning, með áorðnum breytingum, eða

–    að því marki að það heyri ekki undir Europol- samninginn, afbrot sem um getur í samningnum um verndun fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna frá 1995, bókun við hann frá 1996 eða annarri bókun við hann frá 1997.

4.     Yfirvaldið, sem leggur fram beiðnina, skal í henni:

–    tilgreina af hverju það telur líklegt að upplýsingarnar, sem beðið er um, hafi efnislegt gildi fyrir markmið rannsóknar afbrotsins,

–    tilgreina á hvaða forsendum það gerir ráð fyrir að reikningurinn sé í bönkum í aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, og, að því marki sem hægt er, hvaða bankar kunna að tengjast málinu,

–    láta allar tiltækar upplýsingar fylgja sem kunna að auðvelda framkvæmd beiðninnar.

5.     Aðildarríkjunum er heimilt að setja sömu skilyrði fyrir framkvæmd beiðni samkvæmt þessari grein og þau beita að því er varðar beiðnir um leit og haldlagningu.

6.     Ráðið getur ákveðið, í samræmi við c-lið 2. mgr. 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, að víkka út gildissvið 3. mgr.

2. gr.
Beiðni um upplýsingar um bankaviðskipti

1.     Að beiðni ríkisins, sem leggur fram beiðni, skal ríkið, sem beiðni er beint til, veita upplýsingar um tiltekna bankareikninga og bankaviðskipti sem átt hafa sér stað á tilteknu tímabili um einn eða fleiri reikninga sem tilteknir eru í beiðninni, að meðtöldum upplýsingum um reikninga sem fé er sent á eða móttekið frá.

2.     Sú kvöð, sem mælt er fyrir um í þessari grein, gildir einungis ef bankinn, sem reikningurinn er í, ræður yfir upplýsingunum.

3.     Aðildarríkið, sem leggur fram beiðnina, skal tilgreina í henni af hverju það telur að upplýsingarnar, sem beðið er um, skipti máli fyrir rannsókn afbrotsins.

4.     Aðildarríkjunum er heimilt að setja sömu skilyrði fyrir framkvæmd beiðni samkvæmt þessari grein og þau beita að því er varðar beiðnir um leit og haldlagningu.

3. gr.
Beiðni um eftirlit með bankaviðskiptum

1.     Sérhvert aðildarríki skal tryggja, að beiðni annars aðildarríkis, að það sé fært um að hafa, um tiltekinn tíma, eftirlit með bankaviðskiptum sem eiga sér stað á tilteknu tímabili um einn eða fleiri reikninga, sem tilteknir eru í beiðninni, og senda niðurstöðurnar til aðildarríkisins sem leggur fram beiðni.

2.     Aðildarríkið, sem leggur fram beiðnina, skal tilgreina í henni af hverju það telur að upplýsingarnar, sem beðið er um, skipti máli fyrir markmið rannsóknar afbrotsins.

3.     Ákvörðun um eftirlit skulu þar til bær yfirvöld aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, taka í hverju einstöku tilviki, að teknu viðeigandi tilliti til landslaga í því aðildarríki.

4.     Þar til bær yfirvöld aðildarríkis, sem leggur fram beiðni, og aðildarríkis, sem beiðni er beint til, skulu koma sér saman um tilhögun eftirlitsins.

4. gr.
Trúnaðarkvöð

Sérhvert aðildarríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að bankar upplýsi ekki hlutaðeigandi viðskiptamann bankans eða aðra þriðju aðila um að upplýsingar hafi verið sendar ríkinu, sem leggur fram beiðni, í samræmi við 1., 2. eða 3. gr. eða um að rannsókn standi yfir.

5. gr.
Upplýsingaskylda

Telji þar til bært yfirvald aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, meðan á framkvæmd beiðni um gagnkvæma réttaraðstoð stendur, að rétt sé að hefja rannsókn, sem ekki var séð fyrir í upphafi eða sem ekki var unnt að tilgreina þegar beiðnin var lögð fram, skal það tafarlaust tilkynna yfirvaldinu, sem leggur fram beiðni, um það til að gera því kleift að grípa til frekari aðgerða.

6. gr.
Viðbótarbeiðnir um gagnkvæma réttaraðstoð

1.     Þegar þar til bært yfirvald aðildarríkis, sem leggur fram beiðni, leggur fram beiðni til viðbótar fyrri beiðni um gagnkvæma réttaraðstoð skal það ekki krafið aftur um upplýsingar sem fram komu í upphaflegu beiðninni. Í viðbótarbeiðninni skulu koma fram upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að vísa til upphaflegu beiðninnar.

2.     Þegar þar til bæra yfirvaldið, sem lagt hefur fram beiðni um gagnkvæma réttaraðstoð, tekur þátt í framkvæmd beiðninnar í aðildarríkinu, sem beiðni er beint til, í samræmi við gildandi lagaákvæði, getur það, með fyrirvara um 3. mgr. 6. gr. samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000, lagt fram viðbótarbeiðni beint til þar til bærs yfirvalds aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, á meðan á dvöl í því ríki stendur.

7. gr.
Bankaleynd

Aðildarríki skal ekki skírskota til bankaleyndar sem ástæðu til að synja um samvinnu þegar um er að ræða beiðni um gagnkvæma réttaraðstoð frá öðru aðildarríki.

8. gr.
Skattabrot

1.     Ekki má neita um gagnkvæma réttaraðstoð af þeirri ástæðu einni að beiðnin varði afbrot sem aðildarríkið, sem beiðni er beint til, telur vera skattabrot.

2.     Ef aðildarríki hefur sett það skilyrði fyrir framkvæmd beiðni um leit og haldlagningu að afbrotið, sem leiðir til beiðninnar, sé einnig refsivert samkvæmt lögum þess skal skilyrðið uppfyllt að því er varðar afbrot, sem um getur í 1. mgr., ef afbrotið svarar til afbrots sama eðlis samkvæmt lögum þess.

Óheimilt er að synja beiðni á þeim grundvelli að lög aðildarríkisins, sem beiðni er beint til, leggi ekki á sams konar skatta eða gjöld eða að í þeim séu ekki sams konar reglur í sambandi við skatta, gjöld, tolla og gjaldeyrisviðskipti og í lögum aðildarríkisins sem leggur fram beiðnina.

3.     Ákvæði 50. gr. Schengen-framkvæmdarsamningsins falla hér með úr gildi.

9. gr.
Stjórnmálaafbrot

1.     Að því er varðar gagnkvæma réttaraðstoð milli aðildarríkja, má aðildarríkið, sem beiðni er beint til, ekki líta á neitt afbrot sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot sem sprottið er af stjórnmálaástæðum.

2.     Sérhverju aðildarríki er frjálst, þegar það sendir tilkynninguna sem um getur í 2. mgr. 13. gr., að lýsa því yfir að það muni aðeins beita 1. mgr. í tengslum við:

a)    afbrotin sem um getur í 1. og 2. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum frá 27. janúar 1977, og

b)    afbrot sem felast í samsæri eða samanteknum ráðum, sem svara til lýsingarinnar á hegðun sem um getur í 4. mgr. 3. gr. samningsins frá 27. september 1996 um framsal milli aðildarríkja Evrópusambandsins, um að fremja eitt eða fleiri af afbrotunum sem um getur í 1. og 2. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum.

3.     Fyrirvarar, sem gerðir eru skv. 13. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum, skulu ekki gilda um gagnkvæma réttaraðstoð milli aðildarríkja.

10. gr.
Sending synjana til ráðsins og íhlutun Evrópsku réttaraðstoðarinnar (Eurojust)

1.     Sé beiðni synjað á grundvelli:
–    b-liðar 2. gr. samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000 eða b-liðar 2. mgr. 22. gr. Benelúx-sáttmálans, eða

–    51. gr. Schengen-framkvæmdarsamningsins eða 5. gr. samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð,
    eða

–    5. mgr. 1. gr. eða 4. mgr. 2. gr. þessarar bókunar,

og aðildarríkið, sem leggur fram beiðni, heldur fast við hana og ekki finnst lausn á málinu skal aðildarríkið, sem beiðni er beint til, senda rökstudda ákvörðun um að synja beiðninni til ráðsins til upplýsingar og mögulegs mats á tilhögun réttaraðstoðar milli aðildarríkjanna.

2.     Þar til bær yfirvöld aðildarríkisins, sem leggur fram beiðni, geta tilkynnt Evrópsku réttaraðstoðinni, þegar hún hefur verið stofnuð, um hvers konar vandamál, sem upp koma varðandi framkvæmd beiðni í tengslum við ákvæðin sem um getur í 1. mgr., til að ná fram hagkvæmum lausnum í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í gerningnum um stofnun Evrópsku réttaraðstoðarinnar.

11. gr.
Fyrirvarar

Ekki er unnt að gera aðra fyrirvara við bókun þessa en þá sem kveðið er á um í 2. mgr. 9. gr.

12. gr.
Svæðisbundið gildissvið

Beiting þessarar bókunar, að því er varðar Gíbraltar, mun taka gildi þegar samningurinn um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000 hefur tekið gildi þar í samræmi við 26. gr. þess samnings.

13. gr.
Gildistaka

1.     Bókun þessi er háð samþykki aðildarríkjanna í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði þeirra hvers um sig.

2.     Aðildarríkin skulu tilkynna aðalframkvæmdastjóra ráðs Evrópusambandsins um að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt fyrir samþykkt bókunar þessarar.

3.     Níutíu dögum eftir að tilkynningin, sem um getur í 2. mgr., berst frá því ríki sem er hið áttunda í röðinni til að uppfylla þá formkröfu, og er jafnframt aðildarríki Evrópusambandsins þegar ráðið samþykkir gerðina um þessa bókun, öðlast bókun þessi gildi í aðildarríkjunum átta sem hlut eiga að máli. Hafi samningurinn um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000 hins vegar ekki tekið gildi á þeim degi skal bókun þessi öðlast gildi á gildistökudegi þess samnings.

4.     Sérhver tilkynning frá aðildarríki, sem berst eftir gildistöku þessarar bókunar skv. 3. mgr., hefur í för með sér að bókun þessi öðlast gildi níutíu dögum eftir slíka tilkynningu milli þess aðildarríkis og þeirra aðildarríkja þar sem bókun þessi hefur þegar öðlast gildi.

5.     Áður en bókun þessi öðlast gildi skv. 3. mgr. getur aðildarríki, þegar það sendir tilkynninguna sem um getur í 2. mgr. eða hvenær sem er eftir það, lýst því yfir að það muni beita bókun þessari í samskiptum við aðildarríki sem hafa gefið sams konar yfirlýsingu. Slíkar yfirlýsingar skulu koma til framkvæmda 90 dögum eftir að þær eru afhentar til vörslu.

6.     Þrátt fyrir 3. og 5. mgr. skal gildistaka eða beiting þessarar bókunar ekki koma til framkvæmda milli neinna tveggja aðildarríkja fyrr en samningurinn um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000 hefur öðlast gildi eða honum verið beitt milli þessara aðildarríkja.

7.     Bókun þessi gildir um gagnkvæma réttaraðstoð sem hafin er eftir gildistökudag hennar eða eftir að henni hefur verið beitt skv. 5. mgr. milli hlutaðeigandi aðildarríkja.

14. gr.
Ríki sem gerast aðilar

1.     Hverju ríki, sem gerist aðili að Evrópusambandinu og að samningnum um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000, er heimilt að gerast aðili að bókun þessari.

2.     Ráð Evrópusambandsins gerir texta bókunar þessarar á tungumáli ríkisins sem gerist aðili að samningnum og er hann jafngildur öðrum textum.

3.     Aðildarskjölin skulu afhent vörsluaðila til vörslu.

4.     Bókun þessi öðlast gildi, að því er varðar hvert ríki sem gerist aðili að henni, 90 dögum eftir að það hefur afhent aðildarskjöl sín til vörslu eða þann dag sem bókun þessi öðlast gildi ef hún hefur ekki þegar öðlast gildi þegar 90 daga tímabilinu lýkur.

5.     Ef bókun þessi hefur ekki enn öðlast gildi þegar þau aðildarríki, sem gerast aðilar, afhenda aðildarskjöl sín til vörslu gildir 5. mgr. 13. gr. um þau ríki.

6.     Þrátt fyrir 4. og 5. mgr. skal gildistaka eða beiting þessarar bókunar ekki koma til framkvæmda, að því er varðar ríkið sem gerist aðili, fyrr en samningurinn um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000 hefur öðlast gildi eða honum verið beitt gagnvart því ríki.

15. gr.
Staða Íslands og Noregs

Í 8. gr. felast ráðstafanir sem breyta eða byggjast á ákvæðunum sem um getur í viðauka A við samninginn sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna 1 (hér á eftir nefndur „samstarfssamningurinn“).

16. gr.
Gildistaka að því er Ísland og Noreg varðar

1.     Með fyrirvara um 8. gr. samstarfssamningsins öðlast ákvæðið, sem um getur í 15. gr., gildi, að því er Ísland og Noreg varðar, 90 dögum eftir að ráðið og framkvæmdastjórnin fá upplýsingar skv. 2. mgr. 8. gr. samstarfssamningsins um að Ísland og Noregur hafi uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði í gagnkvæmum samskiptum við öll aðildarríki þar sem bókun þessi hefur þegar öðlast gildi skv. 3. eða 4. mgr. 13. gr.
_________________
1 Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 36.
2.     Gildistaka bókunar þessarar, að því er varðar aðildarríki, eftir þann dag sem ákvæðið, sem um getur í 15. gr., öðlast gildi að því er Ísland og Noreg varðar, hefur í för með sér að ákvæði þetta öðlast einnig gildi að því er varðar gagnkvæm samskipti þess aðildarríkis og Íslands og Noregs.

3.     Ákvæðin, sem um getur í 15. gr., verða í engu tilviki bindandi á Íslandi og í Noregi fyrir þann dag sem ákvæðin, sem um getur í 1. mgr. 2. gr. samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð frá 2000, öðlast gildi að því er varðar þessi tvö ríki.

4.     Með fyrirvara um 1., 2. og 3. mgr. hér að framan öðlast ákvæðið, sem um getur í 15. gr., gildi, að því er Ísland og Noreg varðar, eigi síðar en þann dag sem bókun þessi öðlast gildi að því er varðar fimmtánda ríkið sem er aðildarríki Evrópusambandsins þegar ráð þess samþykkir gerðina um að koma bókun þessari á.

17. gr.
Vörsluaðili

Aðalframkvæmdastjóri ráðs Evrópusambandsins skal vera vörsluaðili bókunar þessarar.

Vörsluaðilinn skal birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna upplýsingar um framgang samþykkta og aðildar, yfirlýsingar og allar aðrar tilkynningar sem varða bókun þessa.





ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað bókun þessa.

Gjört í Lúxemborg 16. október 2001 í einu frumriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, írsku, ítölsku, portúgölsku, spænsku, sænsku og þýsku og eru allir textarnir jafngildir en frumritið verður afhent til vörslu í skjalasafni aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins. Aðalframkvæmdastjórinn lætur hverju aðildarríki um sig í té staðfest endurrit.


Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til lagabreytingar vegna þátttöku Íslands í samningi Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000. Um er að ræða ákvæði um þær málsmeðferðarreglur sem gilda skuli þegar beiðni er sett fram um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum á grundvelli samningsins. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Áliti var skilað 17. febrúar 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 2
    2     Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 3
    3     Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 4
    1     Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 5
    1 Stjtíð. EB C 243, 24.8.2000, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 6
    2 Áliti var skilað 4. október 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 7
    3 Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 8
    4 Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 9
    1 Stjtíð. EB L 344, 15.12.1997, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 10
    2     Stjtíð. EB C 197, 12.7.2000, bls. 3.