Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 668. máls.

Þskj. 978  —  668. mál.Frumvarp til laga

um landmælingar og grunnkortagerð.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja að ávallt séu til staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
    Grunnkort: Staðfræðileg kortagögn sem notuð eru sem undirlag fyrir þau þemagögn sem unnið er með hverju sinni, svo sem upplýsingar um gróður, skipulag eða jarðfræði. Grunnkort eru í flestum tilfellum stafræn gögn sem hægt er að nota í landfræðilegum upplýsingakerfum. Grunnkort má einnig nota til að vinna afleidd kort til útgáfu, t.d. ferðakort og göngukort.
    Hæðarkerfi: Net eða kerfi fastra hæðarmælipunkta, t.d. málmbolta, á yfirborði jarðar.
    Landfræðileg gagnasöfn: Söfn landupplýsinga sem yfirleitt eru geymd flokkuð á tölvutæku formi og hægt er að setja fram með margs konar hætti á korti. Gögn eða upplýsingar í landfræðilegum gagnasöfnum eru flokkaðar eftir gerð í mismunandi þekjur.
    Landshnitakerfi: Hnitakerfi með viðmiðun sem nær til alls landsins og samanstendur af mælistöðvum á yfirborði jarðar, t.d. málmboltum.
    Landupplýsingar: Hvers kyns hnitsettar upplýsingar um fyrirbæri í umhverfinu, bæði náttúruleg og manngerð.
    Viðmiðun: Kennistærðir sem lýsa legu, stefnu og kvarða landshnitakerfisins á jörðinni.
    Þekja: Ákveðin gerð eða flokkur landupplýsinga sem mynda eina heild í landfræðilegu gagnasafni, t.d. vegaþekja eða vatnafarsþekja.

3. gr.
Landmælingar Íslands.

    Landmælingar Íslands eru ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra. Aðsetur Landmælinga Íslands er á Akranesi. Hlutverk stofnunarinnar er að vinna að verkefnum sem tilgreind eru í 4. gr.
    Ráðherra skipar forstjóra Landmælinga Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun og reynslu af stjórnun.
    Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar.

4. gr.

Verkefni Landmælinga Íslands.

    Verkefni Landmælinga Íslands samkvæmt lögum þessum eru:
     1.      Að vera umhverfisráðuneytinu til ráðuneytis á fagsviðum sem stofnunin starfar á samkvæmt lögum þessum og varðandi stefnumótun á sviði landmælinga og opinberrar grunnkortagerðar.
     2.      Uppbygging og viðhald viðmiðana og aðgengilegs landshnitakerfis og hæðarkerfis fyrir allt Ísland.
     3.      Að hafa frumkvæði að gerð og notkun staðla á sviði landupplýsinga.
     4.      Gerð, viðhald og miðlun á eftirtöldum stafrænum þekjum í mælikvarðanum 1:50.000 og miðlun þeirra í minni mælikvarða:
                  a.      Vatnafar.
                  b.      Yfirborð.
                  c.      Vegir og samgöngur.
                  d.      Örnefni, í samráði við Örnefnastofnun Íslands.
                  e.      Stjórnsýslumörk.
                  f.      Mannvirki.
                  g.      Hæðarlínur og hæðarpunktar.
     5.      Að veita aðgang að gögnum sem stofnunin varðveitir í gagnasöfnum sínum, sbr. 6. gr.
     6.      Skráning og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi.
     7.      Að eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og alþjóðleg samtök í samræmi við verkefni stofnunarinnar.

5. gr.
Höfundaréttur.

    Ríkið er eigandi að öllum réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast.
    Stofnunin gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

6. gr.
Miðlun upplýsinga og afnotaréttur.

    Landmælingar Íslands miðla upplýsingum og veita aðgang að gögnum sem eru í vörslu stofnunarinnar við gildistöku laga þessara auk þeirra gagna sem falla undir 2., 4. og 6. tölul. 4. gr., enda brjóti afhending þeirra ekki gegn lögvernduðum rétti þriðja aðila. Ef um er að ræða frumgögn sem eiga uppruna utan stofnunar skal samið um frekari dreifingu við upprunaaðila.
    Heimilt er að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði landmælinga og kortagerðar sem getið er í 1. mgr. og eru í vörslu Landmælinga Íslands að því tilskildu að uppruna sé getið og að áreiðanleiki upplýsinga sé tryggður.

7. gr.
Fjármögnun.

    Kostnaður við starfrækslu Landmælinga Íslands greiðist af fjárveitingum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum. Landmælingar Íslands afla sér enn fremur tekna á eftirfarandi hátt:
     1.      Með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins, sbr. 5. og 6. gr.
     2.      Með sölu á sérhæfðri þjónustu við vinnslu og afgreiðslu gagna sem eru í vörslu stofnunarinnar við gildistöku laga þessara auk þeirra gagna sem falla undir 4. tölul. 4. gr.
     3.      Með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna, svo sem ljósritun eða aðra afritun, fjölföldun og dreifingu.
    Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna þannig að mætt sé öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.

8. gr.

    Skylt er að heimila þá för um landareign og uppsetningu mælingapunkta sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd laga þessara. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki ónæði að þarflausu.

9. gr.

    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fyrir 1. janúar 2007 skal bjóða út lager prentaðra korta og geisladiska Landmælinga Íslands og réttindi honum tengd. Þó skal ekki bjóða út réttindi til korta og tengds hugbúnaðar sem upprunnin eru hjá öðrum aðilum en Landmælingum Íslands nema með leyfi rétthafa.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var 11. október 2004 af umhverfisráðherra og var falið það hlutverk að endurskoða lög nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, með síðari breytingum, og einkanlega í því sambandi að skilgreina hvert ætti að vera hlutverk hins opinbera í landmælingum og kortagerð. Í nefndinni áttu sæti: Hugi Ólafsson, umhverfisráðuneyti, formaður, Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins, Ingibjörg Halldórsdóttir lögfræðingur, umhverfisráðuneyti, Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, og Reimar Pétursson lögfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins og Verslunarráði. Nefndin lauk störfum 9. mars 2005 og skilaði þá skýrslu til ráðherra.
    Þótt lög um landmælingar og kortagerð séu ekki gömul, þá hefur mikil þróun verið í tækni á sviði landupplýsinga á undanförnum árum. Einnig hefur starfsemi einkaaðila á því sviði vaxið mikið og hafa á stundum verið árekstrar á milli einkafyrirtækja og Landmælinga Íslands (LMÍ), sem hafa leitt til málareksturs fyrir samkeppnisyfirvöldum. Þá hefur starfsemi LMÍ byggst upp að segja má upp á nýtt eftir flutning upp á Akranes. Allt þetta kallaði á endurskoðun á því lagaumhverfi sem stofnunin starfar í og á betri skilgreiningu á því hvert hlutverk hins opinbera á sviði landmælinga og kortagerðar eigi að vera.
    Nefndin kallaði í byrjun starfs síns á marga aðila sem starfa á sviði landupplýsinga og kortagerðar, eða eru mikilvægir kaupendur eða notendur landupplýsinga. Um var að ræða ríkisstofnanir, sveitarfélög, einkaaðila og háskóla. Skiptar skoðanir voru um ýmis atriði, m.a. um það hver þáttur ríkisins ætti að vera í þessum málum, en þó má segja að ákveðin atriði hafi komið fram hjá flestum viðmælendum varðandi þróun mála síðustu ár og nauðsyn þess að bregðast við þeim.
    Tækni á sviði landupplýsinga hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum og arðsemismöguleikar hafa skapast á sumum sviðum landupplýsinga og kortagerðar, sem hefur leitt til aukinnar sóknar einkafyrirtækja inn á þennan markað. Á sama tíma hefur ríkisvaldið verið að draga sig úr margs konar framleiðslu og þjónustustarfsemi. Fyrir skömmu hefði stór hluti starfsemi Landmælinga Íslands verið talinn óarðbær og utan markaðs. Þetta hefur breyst. Einkafyrirtæki hafa aukna burði til að vinna verk sem Landmælingar Íslands sátu einar að áður og til að framleiða nýjar lausnir og vörur á sviði landupplýsinga. Þessi þróun kallar á betri skilgreiningu á verkefnum hins opinbera og að skýr lína sé dregin á milli starfsemi ríkisins og einkaaðila.
    Nauðsynlegt er að kort og önnur íslensk landupplýsingagögn lúti viðurkenndum stöðlum til að tryggja möguleika á samnýtingu upplýsinga og tengingu gagnagrunna. Nær allir viðmælendur nefndarinnar virtust sammála um að opinber stofnun ætti að halda utan um grunnstöðvanet (hnitakerfi) og staðla á sviði landupplýsinga. Sumir vildu láta þar við sitja, m.a. einkaaðilar sem eru komnir vel á veg með að kortleggja stærstan hluta landsins með verulegri nákvæmni. Margir, einkum notendur landupplýsinga, töldu að opinber stofnun ætti að tryggja að til sé opinber stafrænn kortagrunnur sem geymi grunnupplýsingar um landið, svo sem hnit og hæðarlínur, vatnafar, vegakerfi, örnefni o.fl., sem nýtist ríkisstofnunum og sveitarfélögum við lögbundin verkefni. Skiptar skoðanir voru hins vegar meðal þessara aðila um hversu nákvæmt slíkt grunnlíkan þyrfti að vera. Krafa á hendur LMÍ um umtalsverðar sértekjur gerir það erfitt fyrir stofnunina að draga sig út úr umdeildum samkeppnisrekstri. Það er ljóst af viðtölum nefndarinnar og af umkvörtunum einkafyrirtækja til samkeppnisyfirvalda að fyrirtæki telja að LMÍ sé í óþarfri samkeppni á markaði og njóti þar óeðlilegs forskots og stöðu. Ekki er heldur víst að LMÍ kjósi að standa í umdeildri samkeppni.
    Með þessu frumvarpi er reynt að bregðast við fyrrgreindri þróun og sjónarmiðum. Verkefni Landmælinga Íslands eru skýrð og einfölduð, en stofnunin fer með lykilhlutverk af hálfu hins opinbera á sviði landmælinga og grunnkortagerðar, sem nefndinni var ætlað að skilgreina. Verkefni LMÍ eru skilgreind í 4. gr., en samkvæmt henni mun stofnunin draga sig úr þeim rekstri sem nú telst vera samkeppnisrekstur. Með þessu ætti að draga úr núningi við einkafyrirtæki og álitamálum sem gætu komið til kasta samkeppnisyfirvalda. LMÍ mun hins vegar tryggja að veigamiklum grunnverkefnum sé sinnt, sem ekki er víst að markaðurinn muni sjá sér hag í að sinna. Hins vegar geta einkafyrirtæki og aðrir aðilar komið að vinnu við slík grunnverkefni eða einstaka þætti þeirra.
    Athygli er vakin á því að heiti frumvarpsins er annað en núgildandi laga, það fjallar um landmælingar og grunnkortagerð, en ekki landmælingar og kortagerð. Nefndin taldi að kortagerð næði yfir mjög vítt svið, þar sem fjölmargar ríkisstofnanir fást við kortagerð af ýmsu tagi. Frumvarpinu er hins vegar ekki ætlað að fjalla um alla þá starfsemi, heldur þá grunnvinnu við landmælingar og kortagerð sem lagt er til að Landmælingar Íslands sinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni segir að markmið laganna sé að tryggja að ávallt séu til staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland. Með því að reka stofnunina Landmælingar Íslands og koma á samræmdu kerfi við öflun og vinnslu landupplýsinga er leitast við að ná þessu markmiði. Ljóst er að bæði opinberir aðilar og einkaaðilar vinna að söfnun og úrvinnslu landfræðilegra upplýsinga en Landmælingum Íslands er samkvæmt þessum lögum ætlað að tryggja að til séu ákveðnar grunnupplýsingar og jafnframt að tryggja eins vel og hægt er að gögn sem safnað hefur verið nú þegar séu aðgengileg.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu eru skilgreind nokkur hugtök á sviði landfræði. Mikilvægt þykir að hugtök frumvarpsins séu skýr þar sem tilgangur þess er m.a. að skilgreina nánar hvað felist í hlutverki Landmælinga Íslands.
    Meðal hugtaka sem hér eru skilgreind er hugtakið hæðarkerfi. Er hugtakið skilgreint sem net eða kerfi fastra hæðarmælipunkta, t.d. málmbolta, á yfirborði jarðar. Venjulega eru þessir málmboltar úr kopar sem steyptir eru í klappir eða stöplar með koparboltum. Hæðarkerfi gerir notendum kleift að tengja niðurstöður úr hæðarmælingum við sameiginlega hæðarviðmiðun (vertical datum) alls landsins. Hæðarviðmiðun er viðmiðunarflötur með hæðargildið núll metrar og þar sem lóðstefna þyngdarkraftsins stendur hornrétt á flötinn í öllum punktum flatarins. Með hæðarkerfi er ekki átt við svokallað hæðarlíkan, en hæðarlíkan er þrívíddarmynd (t.d. tölvugerð) sem verður til úr hæðarlínum af ákveðinni nákvæmni.
    Landshnitakerfi er í ákvæðinu skilgreint sem hnitakerfi sem nær til alls landsins með landfræðilegri viðmiðun og samanstendur af mælistöðvum á yfirborði jarðar, t.d. málmboltum. Landshnitakerfi gerir notendum þess kleift að tengja niðurstöður úr mælingum við sameiginlega viðmiðun landsins.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er í meginatriðum sama efnis og 2. og 3. gr. gildandi laga.

Um 4. gr.

    Ákvæðinu er ætlað að skilgreina grunnverkefni Landmælinga Íslands. Samkvæmt 1. tölul. skal stofnunin vera umhverfisráðuneytinu til ráðuneytis á þeim fagsviðum sem stofnuninni er ætlað að starfa á og fram koma í öðrum töluliðum ákvæðisins og varðandi stefnumótun á sviði landmælinga og grunnkortagerðar. Meginfagsvið Landmælinga Íslands eru landmælingar, fjarkönnun, kortagerð og landupplýsingakerfi auk þess sem stofnunin þarf að koma að gerð staðla og vinnuleiðbeininga á framangreindum fagsviðum. Mikilvægt er að stofnunin hafi yfir að ráða faglegri þekkingu til að geta sinnt þessu hlutverki sínu. Hér skal þó áréttað að stofnuninni er ekki ætlað að stunda sölu á ráðgjöf í samkeppni við einkafyrirtæki svo sem verkfræðistofur.
    Í 2. tölul. er fjallað um það mikilvæga hlutverk Landmælinga Íslands að reka sameiginlegt landshnitakerfi og hæðarkerfi fyrir allt Ísland. Þessi kerfi nýtast m.a. sem grunnur fyrir vöktunarkerfi (svo sem á jarðskorpuhreyfingum), verklegar framkvæmdir, skipulagsvinnu hins opinbera og sveitarfélaga og vegna margs konar leiðsögukerfa. Í gildi er reglugerð nr. 919/1999, um viðmiðun ÍSN93, grunnstöðvanet og mælistöðvar til notkunar við landmælingar og kortagerð, þar sem þetta hlutverk er nákvæmlega skilgreint.
    Í 3. tölul. er fjallað um hlutverk Landmælinga Íslands á sviði staðlamála. Þar sem landupplýsingaiðnaðurinn er ung grein er þörf á vinnu við að móta og aðlaga erlenda staðla að íslensku umhverfi. Tilgangurinn er m.a. að tryggja gæði og samræmingu á þessu sviði hér á landi. Mikilvægt er að Landmælingar Íslands vinni þetta verkefni í góðu samstarfi við hagsmunaaðila, LÍSU – samtök um upplýsingatækni og Staðlaráð Íslands.
    Í 4. tölul. kemur fram það verkefni við grunnkortagerð sem Landmælingum Íslands er ætlað að sjá um. Leitast er við að skýra nákvæmlega hvar mörk þessa verkefnis liggja til að forðast núning við hinn frjálsa markað. Stafrænn kortagrunnur í viðmiðunarmælikvarða 1:50.000 (IS 50V) hefur verið í vinnslu hjá Landmælingum Íslands síðan árið 1999 en fyrsta útgáfa af grunninum sem þekur allt Ísland var kynnt í árslok 2003. Hafin er endurskoðun gagnanna og í sumum tilfellum er þörf á að endurnýja gögn og fá ný. Grunnurinn telst vera hluti af grunnkortagerð Íslands og auk þess að nýta gögnin í mælikvarða 1:50.000 er hægt að einfalda hluta gagnanna og birta í minni mælikvörðum, t.d. 1:100.000, 1:250.000 eða 1:500.000. Gögnin nýtast hins vegar að öllu jöfnu ekki fyrir stærri mælikvarða, t.d. 1:10.000. Stofnunin getur við framkvæmd þessa verkefnis aflað gagna frá einkaaðilum, svo sem loftmynda og gervitunglagagna, og falið einkaaðilum að vinna einstaka verkþætti.
    Upptalning ákvæðisins í liðum a–g byggist á þeim sjö meginlögum, þekjum, sem kortagrunnurinn IS 50V inniheldur. Með vatnafari er í a-lið ákvæðisins átt við staðfræðilegar upplýsingar um allt í umhverfinu er tengist vatni eða sjó, svo sem upplýsingar um ár, læki, hveri, stöðuvötn, jökla, strendur, ásamt fyrirbærum sem tengjast vatni með hlutverki sínu, þ.m.t. skurðir. Yfirborð, sbr. b-lið, tekur yfir gróin og ógróin svæði af hluta landsins. Svæðum er í IS 50V skipt upp í eftirfarandi 9 flokka yfirborðs: 1) mosaþemba, 2) mólendi, 3) skóg- og kjarrlendi, 4) votlendi, 5) ræktað land (og graslendi), 6) annar gróður (hálfgróið og lítt gróið land), 7) vatnafar, 8) óþekkt. Vegir og samgöngur í IS 50V gagnasafninu eru GPS mældir akvegir frá Vegagerðinni og Landmælingum Íslands. Alls eru um 23.000 km mældra akvega í gagnasafninu eins og það var kynnt árið 2003. Vegagögnin innihalda upplýsingar um gerð vega, yfirborð vega, vegnúmer, kaflanúmer og vegflokk. Mannvirki, sbr. f-lið, tekur yfir allt það sem gert hefur verið af manna höndum í eða á landi, þá sérstaklega meiri háttar jarðfastar byggingar. Í mannvirkjalagi IS 50V er að finna upplýsingar um þéttbýlisstaði, stærstu flugvelli og mannvirki utan þéttbýlis; kirkjur, skóla, orkumannvirki, raflínur, vita, sumarhús og sveitabæi. Vegna þess að í mælikvarða 1:50.000 er þörf á einföldun þá eru flest mannvirki táknuð með punktum eða línum en að öllu jöfnu eru ekki teiknaðar raunverulegar útlínur mannvirkja. Til að gera slíkt er þörf á stærri mælikvarða, t.d. 1:10.000, sem lagt er til að falli utan verksviðs Landmælinga Íslands að vinna. Hæðarlínur, sbr. g-lið, gefa upplýsingar um hæð lands í formi lína sem liggja í sömu hæð yfir sjávarmáli. IS 50V inniheldur hæðarlínur með 20–100 metra hæðarmun.
    Samkvæmt 5. tölul. fellur það innan verksviðs Landmælinga Íslands að veita aðgang að þeim gögnum sem stofnunin varðveitir við gildistöku lagafrumvarps þessa. Um er að ræða bæði nýleg og gömul gögn svo sem loftmyndir, niðurstöður mælinga, stafræn gagnasöfn og kort.
    Í 6. tölul. er fjallað um það hlutverk sem Landmælingum Íslands er falið við að skrásetja og miðla upplýsingum um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi. Mikil aukning er í framleiðslu stafrænna korta og önnur vinnsla landfræðilegra upplýsinga fer vaxandi. Sífellt verður erfiðara að fá yfirsýn yfir hvað til er af slíkum gögnum hverju sinni. Mikilvægt er að einn aðili hafi það hlutverk að kortleggja hvar gagnasöfn er að finna þó að gagnasöfnin séu geymd vítt og breitt um samfélagið.
    Samkvæmt 7. tölul. er það eitt af verkefnum Landmælinga Íslands að eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og alþjóðleg samtök í samræmi við verkefni stofnunarinnar. Stofnunin gegnir nú þegar hlutverki sem tengiliður við fagstofnanir og fyrirtæki bæði hér á landi sem erlendis. Sem dæmi má nefna að stofnunin tekur virkan þátt í samtökum kortastofnana í Evrópu sem nefnast EuroGeographics. Stofnunin hefur einnig mikilvægt hlutverk í samskiptum með landfræðileg gögn í samstarfi NATO-ríkja.

Um 5. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 8. gr. gildandi laga. Landmælingar Íslands búa yfir miklu safni gagna svo sem prentuðum kortum, loftmyndum, filmum og stafrænum gögnum og gagnagrunnum. Grein þessi tekur á því að þessi gögn eru almennt bundin höfundarétti sem Landmælingum Íslands er ætlað að gæta og um þau réttindi gilda höfundalög. Landmælingar Íslands munu sem fyrr geta veitt afnotarétt eða heimilað birtingu þessara gagna gegn gjaldi, sbr. 6. og 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 9. gr. núgildandi laga. Það fjallar um það með hvaða hætti Landmælingar Íslands skulu miðla og veita aðgang að gögnum sem eru í vörslu stofnunarinnar. Sérstök skil eru á milli þeirra gagna sem eru í vörslu stofnunarinnar við gildistöku laganna og annarra gagna sem stofnunin mun viðhalda eftir gildistöku þeirra. Helgast það af því að hlutverk stofnunarinnar er þrengt nokkuð með setningu laganna eins og fjallað er um í 4. gr. frumvarpsins. Markmiðið er að það liggi ljóst fyrir hvaða gögnum stofnunin á að miðla og veita aðgang að eftir gildistöku laganna.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um fjármögnun Landmælinga Íslands og heimildir stofnunarinnar til gjaldtöku fyrir þau verkefni sem henni er ætlað að inna af hendi. Gert er ráð fyrir þeirri áherslubreytingu að stofnunin verði að stærstum hluta rekin á grundvelli opinberra fjárframlaga og sértekjur minnki. Kemur þetta til af því að stofnunin mun ekki lengur annast þau verkefni, t.d. útgáfu korta, sem verið hafa í samkeppni við einkaaðila á hinum almenna markaði. Stofnunin mun einungis sinna þeim afmörkuðu verkefnum sem skilgreind eru í 4. gr. frumvarpsins, sem þýðir að tekjur hennar munu minnka. Ákvæði 1.–3. tölul. 1. mgr. 7. gr. eru að mestu í samræmi við 10. gr. gildandi laga en eins og áður segir leiða færri verkefni til minni sértekna. Áfram verður stofnuninni heimilt að taka gjald fyrir sölu á afnotarétti af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins, sbr. 1. tölul. Einnig er gert gert ráð fyrir að stofnunin afli sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu við vinnslu og afgreiðslu gagna sem eru í vörslu stofnunarinnar við gildistöku laga þessara auk þeirra gagna sem falla undir 4. tölul. 4. gr. Að lokum er stofnuninni heimilt að taka þjónustugjöld fyrir afgreiðslu gagna. Þar sem um þjónustugjald er að ræða má ekki taka hærra gjald en nemur öllum föstum og breytilegum kostnaði af veittri þjónustu eða afgreiðslu gagna. Hér má því t.d. taka gjald til að mæta öllum kostnaði af framreiðslu, fjölföldun og dreifingu gagna auk sanngjarnrar hlutdeildar í afskriftum á fjárfestingu í vélum og tækjum sem þörf er á við ljósritun eða afritun gagna. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða með frumvarpinu skulu Landmælingar Íslands bjóða fyrir 1. janúar 2007 út lager prentaðra korta og geisladiska Landmælinga Íslands og réttindi honum tengd. Eftir þann tíma er þannig ekki gert ráð fyrir að stofnunin miðli annarri framleiðsluvöru en stafrænum þekjum í mælikvarðanum 1:50.000, sbr. 4. tölul. 4. gr., en það mun stofnunin gera samkvæmt þjónustugjöldum.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 11. gr. gildandi laga og sams konar grein er einnig í lögum um skipulags- og byggingarmál. Greininni er ætlað að tryggja að opinberir aðilar geti stundað landmælingar á einkalöndum án sérstakra heimilda landeigenda enda valdi slík starfsemi hvorki tjóni né ónæði.

Um 9. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 12. gr. gildandi laga.

Um 10. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er lagt til að Landmælingar Íslands skuli fyrir 1. janúar 2007 bjóða út lager prentaðra korta og geisladiska og réttindi honum tengd. Er þetta liður í því að draga stofnunina út úr samkeppni við einkamarkaðinn.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um landmælingar og grunnkortagerð.

    Með frumvarpinu er hlutverk hins opinbera í landmælingum og kortagerð endurskilgreint og það þrengt frá gildandi lögum. Verkefni Landmælinga Íslands eru skýrð og einfölduð og stofnunin hverfur af samkeppnismarkaði. Gert er ráð fyrir að Landmælingar Íslands gæti áfram hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem stofnunin hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Gert er ráð fyrir að stofnunin geti aflað sér tekna á sama hátt og verið hefur með sölu á afnotum af þessu efni ásamt sölu á sérhæfðri þjónustu við vinnslu og afgreiðslu tiltekinna gagna auk þjónustugjalda fyrir afgreiðslu gagna svo sem ljósritun eða aðra afritun, fjölföldun og dreifingu.
    Áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs koma fram með þeim hætti að Landmælingar Íslands hverfa af samkeppnismarkaði. Áætlað er að við það verði stofnunin af 20 m.kr. sértekjum á ári en á móti fellur niður beinn kostnaður við samkeppnisreksturinn og er fjárhagslegt tap stofnunarinnar vegna þessarar breytingar metið 6 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að því verði mætt innan útgjaldamarkmiða langtímaáætlunar.