Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 395. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 987  —  395. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Adolfs H. Berndsens um styrki til háskólanáms.

     1.      Hefur ráðherra látið framkvæma könnun á möguleikum þess að taka upp námsstyrki á háskólastigi sambærilega þeim sem verið hafa á framhaldsskólastigi? Ef svo er ekki, er ekki ástæða til að úttekt verði gerð á hugsanlegu fyrirkomulagi og kostnaði?
    Stjórnvöld hafa ekki skoðað það sérstaklega hvort veita eigi háskólanemum á landsbyggðinni styrki sambærilega þeim jöfnunarstyrkjum sem veittir eru á framhaldsskólastigi. Allt önnur umgerð er um námsaðstoð á háskólastigi og eiga nemendur á háskólastigi rétt á námslánum þar sem upphæðin miðast m.a. við félagslegar aðstæður og búsetuform. Meginhluverk námslánakerfisins er að tryggja nemendum tækifæri til náms án tillits til efnahags sbr. 1. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum. Greiðslubyrði og vaxtakjör námslána eru hagstæð og við það miðuð að þau nægi námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði, að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Heimilt er að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu nemenda skv. 3. gr. laganna. Grunnframfærsla námsmanns er miðuð við einhleypan námsmann í leiguhúsnæði og er 82.500 kr. á mánuði. Grunnframfærsla einstaklinga með barn, eða börn, á framfæri er hærri en misjöfn og fer eftir eftir því hvort um er að ræða einstætt foreldri eða foreldra í sambúð og hvað börnin eru mörg. Grunnframfærsla einstæðs foreldris með þrjú börn er til að mynda 2,35 sinnum hærri en barnlauss einstaklings, eða 194.000 kr. á mánuði. Að meðaltali eru um 50% námslána styrkur í formi niðurgreiddra vaxta og aðstoðin sem hverjum og einum stendur til boða er því í raun meiri en samsvarar fullum námsstyrk samkvæmt lögum um námsstyrki, nr. 79/2003. Styrkir til námsmanna á haustönn 2005 voru 92.000 kr. dvalarstyrkur og 52.000 kr. akstursstyrkur.
    Lög um námsstyrki eru grundvölluð á sama meginmarkmiði og lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þ.e. að jafna aðstöðu nemenda, en þó í þrengri skilningi og einungis nemenda á framhaldsskólastigi sem ekki eiga rétt á námsláni. Í 1. gr. laganna segir: „Ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám.“ Í 2. gr. laganna er skilgreint hverjir eiga rétt á námsstyrkjum samkvæmt lögunum og í 3. gr. hvers eðlis námsstyrkirnir eru. Fjárhæð styrkja er svo ákveðin í fjárlögum ár hvert og svonefnd fimm manna námsstyrkjanefnd, sem menntamálaráðherra skipar, sér um úthlutun styrkjanna. Við setningu laganna árið 2003 var skilgreining á einstaklingum sem njóta námsstyrkja rýmkuð og látin ná til erlendra ríkisborgara. Hugtakið „fjölskylda“ var rýmkað í skilningi laganna. Einnig voru lögfestar reglur sem áður var að finna í reglugerðum sem settar voru á grundvelli laganna. Það ákvæði sem er veigamest er hin svokallaða „30 km regla“, þ.e. það skilyrði dvalarstyrks að nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Framlög ríkisins til jöfnunarstyrkja á framhaldsskólastigi hafa verið um 500 millj. kr. á ári. Nánari skilgreiningar á hæfi styrkþega er svo að finna í reglugerð um námsstyrki, nr. 692/2003, með síðari breytingum.
    Þá ber að geta þess að aðstæður nemenda, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi, hafa breyst gríðarlega frá því að lög um jöfnun námskostnaðar voru fyrst sett árið 1989. Sérstaklega hvað varðar aukið framboð á greinum sem kenndar eru í fjarkennslu. Nú stendur nemendum til boða að taka fjölmarga námsáfanga á háskólastigi og stóran hluta framhaldsskólanáms í fjarnámi. Eins og nánar verður fjallað um síðar eru starfræktar símenntunarmiðstöðvar í öllum landshlutum og gegna þær mjög mikilvægu hlutverki við að veita stoðþjónustu við nemendur í fjarnámi og aðstöðu fyrir kennslu. Þannig hefur skapast grundvöllur fyrir frekari þjónustu vegna háskólanáms. Höfuðáhersla hefur verið lögð á að minnka aðstöðumun með auknu framboði fjarnáms og hefur aðgengi einstaklinga sem búsettir eru á landsbyggðinni batnað að sama skapi.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir afslætti af endurgreiðslu námslána til einstaklinga sem setjast að á landsbyggðinni þar sem skortur er á fólki með háskólamenntun?

    Afsláttur af endurgreiðslu námslána vegna búsetu hefur tvisvar verið tekinn til athugunar af hálfu stjórnvalda. Fyrst árið 1999 og aftur árið 2003. Í hvorugt skiptið var hugmyndin þó talin fýsileg.
    Fjármálaráðuneytið skoðaði í samvinnu við Lánasjóð íslenskra námsmanna upplýsingar um þær reglur sem gilda um afslátt frá endurgreiðslu á námlánum í Noregi þegar málið var í skoðað í seinna skiptið, árið 2003. Þar gilda reglurnar um háskólamenntað fólk sem býr í nyrstu héruðum Noregs og sérstaka hópa, t.d. lækna á ákveðnum svæðum. Athugunin leiddi í ljós að afsláttarreglur í Noregi eru töluvert flóknar og verður að teljast líklegt að ef afsláttarreglur yrðu settar hér á landi yrðu þær jafnvel flóknari vegna ólíkra staðhátta. Þá er talið að eftirlit geti orðið kostnaðarsamt feli reglurnar í sér að gert verði upp á milli fólks, t.d. eftir því hvar það á lögheimili, hvar á landinu það stundar vinnu, hugsanlega á hvaða aldri það er, í hvaða skóla það hefur stundað nám og hvort það vinnur störf sem krefjast háskólamenntunar. Ekki hefur verið lagt mat á hugsanlegan ávinning eða kostnað af slíkum afsláttarreglum verði þær settar. Í skýrslu iðnaðarráðherra um framkvæmd byggðaáætlunar 2002–2005 kemur fram að fjámálaráðuneytið muni hafa málið áfram til skoðunar. Það er vissulega möguleiki með námslánakerfinu að hafa stýrandi áhrif á náms- og starfsval nemenda og með því að taka slíka ákvörðun eru höfð áhrif á val á búsetu að loknu háskólanámi eða val á námsleiðum. Slíkt hefur jafnframt ákveðna mismunun milli námsmanna í för með sér, aukið eftirlit og umsýsla yrði nauðsynleg sem hefði aftur aukinn kostnað í för með sér. Vega þarf og meta hver ávinningurinn af slíkum breytingum yrði í víðu samhengi en hingað til hefur það ekki verið talinn fýsilegur kostur og eru ekki uppi áform um að veita slíkan afslátt.

     3.      Liggur fyrir úttekt á kostnaði sveitarfélaga við fjarkennsluþjónustu? Ef svo er ekki, hefur ráðherra hug á að framkvæma slíka úttekt?

    Ráðuneytið hefur ekki látið gera sérstaka úttekt á kostnaði sveitarfélaga við fjarkennsluþjónustu og slík úttekt er ekki fyrirhuguð á vegum ráðuneytisins. Fjarkennsla fer fram á vegum fjölda opinberra stofnana, framhalds- og háskóla sem og einkaaðila. Aðstæður þeirra er bjóða upp á fjarkennslu er mjög mismunandi eftir stærð sveitarfélaga, staðsetningu þeirra og staðháttum.

     4.      Hyggst ráðherra koma til móts við sveitarfélög og mæta kostnaði þeirra af fjarkennslu?

    Stjórnvöld hafa stutt við bakið á símenntun og fjarkennslu á landsbyggðinni með beinum stuðningi við níu símenntunarmiðstöðvar víðs vegar um landið og á þann hátt komið til móts við kostnað sveitarfélaganna vegna fjarkennslu. Ekki er fyrirhuguð breyting á þessum stuðningi vegna fjarkennsluþáttarins sérstaklega. Starfsemi símenntunarmiðstöðvanna hefur vaxið ört á síðustu árum og fjöldi einstaklinga á landsvísu sem nýta sér þjónustu þeirra hefur aukist jafnt og þétt. Miðstöðvarnar eru sjálfseignarstofnanir, settar á laggirnar árin 1998–2003 en á því tímabili var gert sérstakt átak til þess að auka símenntun markvisst í landinu. Stofnaðilar miðstöðvanna eru sveitarfélög, fræðsluaðilar, stéttarfélög, ýmis félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki. Við hverja þeirra eru 1,5–3 stöðugildi og sinna starfsmenn verkefnum samkvæmt skipulagsskrá, veita ráðgjöf og upplýsingar, auk þess að miðla menntun í samvinnu við félagasamtök, fræðsluaðila og atvinnulíf. Menntamálaráðuneytið gerir samninga við símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni á grundvelli fjárveitinga frá Alþingi. Samningar ráðuneytisins við símenntunarmiðstöðvarnar taka mið af meginmarkmiðum stöðvanna og í þeim felst viðurkenning á starfsemi þeirra. Nemendum sem sækja sér þjónustu til símenntunarmiðstöðva má skipta í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn sækir símenntunarnámskeið til miðstöðvanna. Annar hópurinn nýtir sér þjónustu símenntunarmiðstöðva til fjarnáms við framhaldsskóla og þriðji hópurinn nýtir sér þjónustu þeirra til háskólanáms.
    Fjárhagsgrundvöllur símenntunarmiðstöðva hefur verið styrktur með framlögum ríkisins til þeirra símenntunarmiðstöðva sem eru á landsbyggðinni. Undanfarin ár hafa fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar níu fengið styrk frá ríkinu til að standa undir kostnaði við tilgreinda þætti. Á fjárlögum 2006 nemur framlag ríkisins til hverrar stöðvar 9,9 millj. kr. Á fjárlögum 2006 er auk þess um 1,3 millj. kr. framlag til stöðvanna til að standa undir kostnaði vegna reksturs háhraðanets og myndfundaþjónustu á FS-neti sem fyrst og fremst er notað til fjarkennslu. Framlög ríkisins til símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni eru samkvæmt fjárlögum 2006 rúmlega 100 millj. kr.