Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 361. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 988  —  361. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um faggildingu o.fl.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Frey Guðmundsson frá viðskiptaráðuneyti og Sigurlinna Sigurlinnason frá Neytendastofu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum verslunar og þjónustu, Viðskiptaráði Íslands, Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins o.fl., Landssambandi smábátaeigenda og Siglingastofnun Íslands.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að sett verði sérstök lög um faggildingu, en með faggildingu er átt við formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að framkvæma ákveðin verkefni. Nú eru ákvæði um faggildingu í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, en við gildistöku þeirra laga 1. janúar 1993 komu ákvæði um faggildingu fyrst inn í íslenska löggjöf.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni voru gerðar athugasemdir um að texti frumvarpsins væri ekki nægilega skýr. Taldi nefndin því þörf á úrbótum og var unnið að því í samráði við fulltrúa ráðuneytis, Neytendastofu, Staðalráðs Íslands og Einkaleyfastofu að bæta orðalag frumvarpsins. Nefndin telur ástæðu til að taka sérstaklega fram að í frumvarpinu er notast bæði við hugtökin „faggildingarsvið“ og „faggildingarstofa“. Í raun er faggildingarsvið Einkaleyfastofu hin íslenska faggildingarstofa en bent var á að þetta gæti valdið ruglingi. Því leggur nefndin til að í stað hugtaksins „faggildingarstofa“ í frumvarpinu verði notað „stjórnvald sem annast faggildingu“ eða því um líkt, þó svo að í daglegu tali verði án vafa algengast að nota hugtakið „faggildingarstofa“ um erlend stjórnvöld á sviði faggildingar.
    Fram komu athugasemdir um að ófullnægjandi væri að vísa til staðals, þ.e. ÍST ISO/IEC 17011, sbr. 5. gr. frumvarpsins, um grundvallaratriði, svo sem málsmeðferð umsókna og niðurfellingu faggildingar. Bent skal á að í fyrrnefndum staðli er auk nánari ákvæða um starfsreglur faggildingarstofa að finna ákvæði sem kveða m.a. á um málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um faggildingu, sbr. einkum ákvæði í 7. gr. staðalsins um málsmeðferð við veitingu faggildingar, eftirlit með þeim og niðurfellingu faggildingar ef umsækjendur fullnægja ekki lengur þeim skilyrðum sem eru grundvöllur fyrir faggildingu þeirra. Í ljósi þess að aðili í faggildingu nýtur mikilvægra atvinnuréttinda, sem eru þó háð ýmsum skilyrðum sem hlutaðeigandi er skylt að endurnýja og viðhalda í samræmi við þær alþjóðlegu reglur sem gilda um faggildingar, er nauðsynlegt að í íslenskri löggjöf sé að finna þær grunnreglur sem faggildingarsviði ber að hafa til hliðsjónar við veitingu slíkra réttinda, svo og við sviptingu þeirra, þegar það á við. Af þessari ástæðu leggur nefndin til að við frumvarp þetta verði bætt greinum sem kveða á um framangreind atriði og í stað beinnar tilvísunar til staðals er lagt til að um málsmeðferð fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setji með tilvísun til staðla sem gilda um starfsemi faggildingarsviðs. Það er í samræmi við ákvæði í 3. gr. laga nr. 36/2003, um staðla og Staðlaráð Íslands, að þegar íslensk stjórnvöld ákveða að gera notkun tiltekins staðals skyldubundna þá skuli það gert með setningu reglugerðar og tilvísun þar til hlutaðeigandi staðals.
    Nánar tiltekið leggur nefndin til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að hin tilteknu orð og orðasambönd í 2. gr. verði afmörkuð við lögin. Þá er uppsetning skilgreininganna lagfærð. Breytingar sem lagðar eru til á skilgreiningum eru óverulegar og lúta aðallega að því að gera textann einfaldari og skýrari.
     2.      Lagt er til að 3. gr. frumvarpsins falli brott, enda greinin að mestu óþörf. Þeim efnisatriðum hennar sem nauðsynleg eru verði bætt við 4. gr., sjá nánar skýringar í 3. lið hér á eftir.
     3.      Lögð er til breyting á 4. gr. Rétt þykir að fram komi að faggildingarsvið Einkaleyfastofu annist faggildingu og aðra þá starfsemi sem um getur í 1. gr. fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Þá fer betur á því að efnisatriðum 3. gr. um sjálfstæði verði steypt saman við 4. gr. og að tekið verði fram að viðskiptaráðherra fari með yfirstjórn mála sem lögin taka til. Þá er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt.
     4.      Í 5. gr. frumvarpsins kemur fram að faggildingarsviði beri að starfa eftir nánar tilteknum staðli. Eins og fram kom hér að framan telur nefndin slíka tilvísun ekki nægilega. Auk þess er staðallinn eingöngu til á ensku og hefur ekki verið birtur á aðgengilegan hátt. Nefndin leggur því til að ráðherra setji reglugerð um starfsreglur sem faggildingarsviði beri að starfa eftir ásamt tilvísunum til þeirra staðla sem um starfsemina eiga að gilda, þ.m.t. ÍST ISO/IEC 17011. Slíkt fyrirkomulag er viðhaft samkvæmt núgildandi lögum um vog, mál og faggildingu. Því til viðbótar leggur nefndin til að lágmarksákvæði um málsmeðferð verði í lögunum sjálfum, sbr. 5. lið hér á eftir.
                  Með Evrópusamtökum um faggildingu er átt við European co-operation for Accreditation (EA).
     5.      Lagt er til að við frumvarpið bætist nokkrar nýjar greinar er lúta að umsókn um faggildingu, breytingar á skilyrðum faggildingar, niðurfellingu faggildingar og eftirlit, auk greinar um málsmeðferð við mat á tilnefndum aðilum o.fl.
                  Í 7. gr. staðalsins ÍST ISO/IEC 17011 um starfsemi faggildingar er að finna ítarleg ákvæði um meðferð umsókna o.s.frv. Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir því að með reglugerð sem ráðherra setur verði framangreindur staðall gerður skyldubundinn hér á landi. Engu að síður er nauðsynlegt að hafa í íslenskum lögum helstu grunnreglur sem varða málsmeðferð við veitingu þeirra mikilvægu starfsréttinda sem felast í faggildingu, svo og niðurfellingu og sviptingu þessara réttinda, þegar og ef til þess kemur að fella eigi niður faggildingu. Það tryggir best samræmi við kröfur í stjórnarskrá lýðveldisins um atvinnuréttindi. Auk þess samræmist það best grunnreglum stjórnsýsluréttarins og þeim álitum sem m.a. umboðsmaður Alþingis hefur gefið út um sambærileg málefni á undanförnum árum að það sé ófullnægjandi að eingöngu sé kveðið á um slík atriði í reglugerðum sem settar eru á grundvelli almennrar lagaheimildar í lögum.
                  Samkvæmt núgildandi lögum um vog, mál og faggildingu má skjóta synjun Neytendastofu á umsókn um faggildingu til sérstakrar úrskurðarnefndar. Í frumvarpinu er ekki kveðið sérstaklega á um málskot en í breytingartillögum nefndarinnar er lagt til að málskot verði til ráðherra.
                  Eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins ná lögin til faggildingar auk mats á tilnefndum aðilum og mats á góðum starfsvenjum við rannsóknir. Nefndinni þykir frumvarpið skorta ákvæði um hina tvo síðarnefndu þætti og leggur því til að sett verði almennt ákvæði um málsmeðferð þar að lútandi.
     6.      Breytingar sem lagðar eru til á 6. gr. lúta eingöngu að því að taka út hugtakið „faggildingarstofa“, sbr. það sem fram hefur komið. Með Alþjóðasamtökum um faggildingarsamvinnu er átt við International Laboratory Accrediation Cooperation (ILAC).
     7.      Í 7. gr. er fjallað um merkingar og nafnmerki. Til einföldunar er lagt til að orðið „faggildingarmerki“ verði notað í stað umræddra orða enda nokkuð óljóst hvað átt er við með hugtakinu „nafnmerki“ og hvort það fellur þá undir hugtakið „merkingar“.
                  Í 2. mgr. kemur fram að faggildingarsvið skuli viðurkenna reglur hins faggilta aðila um hvernig hann og þeir sem hann metur starfsemina hjá megi nota nafnmerki faggildingarstofu. Við umfjöllun málsins kom fram að ekki ætti að vera um viðurkenningu á reglum að ræða þar sem frumkvæðið kæmi frá faggildingarsviði. Þá kemur fram í 3. mgr. að ráðherra samþykkir merki faggildingarsviðs og nánari reglur sem um það skulu gilda og birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Nefndinni þótti leika nokkur vafi á því hvort bæði faggildingarsvið og ráðherra ættu að setja reglur, eða eingöngu faggildingarsvið með því skilyrði að ráðherra samþykkti þær og birti. Með hliðsjón af þessu telur nefndin einfaldast að ráðherra setji reglugerð um þetta atriði. Kveðið yrði m.a. á um útlit merkisins, stöðu þess og notkun. Þykir nefndinni þá ekki þörf á að hafa sérstaka heimild til handa faggildingarsviði til að setja nánari reglur um faggildingarmerki.
     8.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á 1. mgr. 8. gr. sem lúta einkum að því að einfalda textann og gæta samræmis í orðalagi, bæði milli einstakra töluliða og við 2. gr. frumvarpsins.
                  Varðandi umsóknar- og skráningargjald kom fram við umfjöllun málsins að ekki væri tekið gjald fyrir upplýsingar vegna umsóknar og að ekki hefði verið ætlunin að breyta því fyrirkomulagi með frumvarpi þessu. Því leggur nefndin til að sá hluti verði felldur undan því gjaldi. Í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins kemur fram að faggildingargjald sé gjald fyrir mat á tilnefndum aðilum o.s.frv. Við umfjöllun málsins var bent á, sbr. einnig umsögn Neytendastofu, að einnig væri um að ræða gjald fyrir mat á faggiltum aðila. Nefndin leggur því til umrædda viðbót. Að því er varðar gjald fyrir mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir þá leggur nefndin til að orðalag verði samræmt við skilgreininguna í 2. gr. Aðrar breytingar á greininni telur nefndin að þarfnist ekki skýringa.
     9.      Lögð er til breyting á fyrirsögn II. kafla með hliðsjón af brottfalli 3. gr. frumvarpsins.
     10.      Í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins kemur fram að ráðherra á viðeigandi stjórnsýslusviði taki ákvörðun og tilkynni um aðila sem uppfylla þau skilyrði sem lög og reglugerðir setja um starfsemi þeirra. Nefndin leggur til að bætt verði við tilvísun í 6. tölul. 2. gr. þar sem fram koma þeir aðilar sem tilkynna ber til.
                  Í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að ef tilkynntur aðili brýtur af sér eða fullnægir ekki lengur þeim skilyrðum sem starfsleyfi hans byggist á geti ráðherra ákveðið að afturkalla tilnefningu sína á tilkynntum aðila til Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Nefndin leggur til að þetta verði sett inn í lagatextann.
     11.      Lagt er til að orðalag 12. gr. verði einfaldað. Um meðferð mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
     12.      Lögð er til breyting á gildistökuákvæðinu í 13. gr. Einnig eru lagðar til frekari breytingar á lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Telur nefndin að þær þarfnist ekki skýringa.
     13.      Að síðustu leggur nefndin til að bætt verði við frumvarpið bráðabirgðaákvæði þess efnis að starfsmanni Neytendastofu skuli boðið annað starf hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 21. mars 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.Ásta Möller.


Ögmundur Jónasson.