Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 684. máls.

Þskj. 1001  —  684. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum
(samlagshlutafélög o.fl.).


(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „án framvísunar arðmiða eða hlutabréfa“ í 3. málsl. kemur: án framvísunar hlutabréfa.
     b.      Við bætist nýr málsliður sem orðast svo: Félög, sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað, hafa heimild til að ákvarða að réttindi til arðs miðist við annað tímamark en útborgun arðs enda sé það tímamark tiltekið í ákvörðun hluthafafundar um arðgreiðslu og tilkynnt fyrir fram til viðkomandi markaðar.

2. gr.

    Í stað 159. gr. laganna kemur nýr kafli, XX. kafli, Samlagshlutafélög, með fjórum nýjum greinum sem orðast svo:

    a. (159. gr.)
    Lög þessi taka til samlagshlutafélaga eftir því sem við á nema kveðið sé á um annað í lögunum.
    Samlagshlutafélag er sú tegund samlagsfélaga þar sem einn eða fleiri félagsmenn (ábyrgðaraðilar) bera beina og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins en aðrir félagsmenn (hluthafar), einn eða fleiri, bera takmarkaða ábyrgð á grundvelli framlaga sem mynda hlutafé í félaginu. Ábyrgðaraðilar geta jafnframt verið hluthafar.
    Samlagshlutafélögum einum er rétt og skylt að hafa orðið samlagshlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina slhf.
    Í samþykktum skulu auk annarra viðeigandi atriða vera upplýsingar um:
     1.      nafn, kennitölu, stöðu og heimilisfang ábyrgðaraðila,
     2.      hvort ábyrgðaraðila sé skylt að leggja fram hlutafé og, ef svo er, hversu mikið,
     3.      reglur um áhrif ábyrgðaraðila í málefnum félagsins og þátt hans í skiptingu hagnaðar og taps og
     4.      hvort einhver félagsmanna njóti sérstakra réttinda eða skyldna í félaginu.
    Gætt skal ákvæða laga þessara á grundvelli reglna Evrópska efnahagssvæðisins, m.a. um stofnun og skráningu samlagshlutafélaga, svo og ákvæða annarra laga.
    Í samþykktum samlagshlutafélags skulu m.a. vera reglur um innbyrðis réttarsamband félagsmanna, þ.e. ábyrgðaraðila og hluthafa.

    b. (160. gr.)
    Í samþykktum samlagshlutafélaga, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, má víkja frá ákvæðum laga þessara svo sem hér er kveðið á um.
    Ábyrgðaraðili, einn eða fleiri sameiginlega, getur gegnt hlutverki stjórnar sé hún ekki kosin, svo og störfum framkvæmdastjóra eða falið öðrum það, og ritað firma félagsins. Sé ábyrgðaraðilinn lögaðili kemur tiltekinn einstaklingur fram fyrir hönd hans. Ábyrgðaraðili skal ávallt eiga sæti í stjórn sé hún kosin.
    Framselja má vald hluthafafundar til ábyrgðaraðila. Breytingar á félagssamþykktum skulu þó bornar undir hluthafafund. Kveða má þar sérstaklega á um form atkvæðagreiðslu á hluthafafundi og hvaða reglur gildi um atkvæðagreiðslur og atkvæðahlutföll, m.a. gera áskilnað um einróma samþykki. Þá skal unnt að halda hluthafafundi ef talið er að samþykktir séu brotnar. Halda skal aðalfund og m.a. samþykkja ársreikning.
    Í félagssamþykktum má einnig kveða sérstaklega á um framsal og veðsetningu hluta, innlausnarskyldu og arðgreiðslur, m.a. tíðni arðgreiðslna, svo og slit félaganna, t.d. um ákveðinn líftíma þeirra.

    c. (161. gr.)
    Hluthafafundur í hlutafélagi getur, með þeim fjölda atkvæða sem krafist er til breytinga á félagssamþykktum, samþykkt að breyta hlutafélagi í samlagshlutafélag. Við breytinguna tekur samlagshlutafélagið við öllum eignum og skuldum hlutafélagsins og þarf ekki samþykki lánardrottna að koma til.
    Tilkynningu um ákvörðun skv. 1. mgr. skal innan tveggja vikna senda öllum skráðum hluthöfum, svo og ábyrgðaraðilum.
    Breyting hlutafélags í samlagshlutafélag telst hafa átt sér stað þegar félagssamþykktum hefur verið breytt á þann veg að kröfum XX. kafla sé fullnægt enda hafi breytingar á samþykktunum verið skráðar og tilkynning þar að lútandi birt í Lögbirtingablaði.
    Þegar breytingin hefur átt sér stað teljast hlutabréf, sem hlutafélag hefur gefið út, ógilt.
    Ef liðin eru fimm ár frá breytingunni án þess að allir réttbærir aðilar hafi tilkynnt sig til skráningar á hlutaskrá í samlagshlutafélaginu getur stjórn samlagshlutafélagsins með auglýsingu í Lögbirtingablaði skorað á aðila að senda slíka tilkynningu innan sex mánaða. Ef fresturinn er liðinn án þess að tilkynning hafi borist getur stjórnin á kostnað viðkomandi hluthafa selt hlutina í hlutafélaginu fyrir milligöngu aðila sem að lögum er heimilt að versla með slíka hluti. Frá söluandvirðinu getur félagið dregið kostnað við auglýsinguna og söluna. Hafi söluandvirðið ekki verið sótt innan fimm ára frá sölu rennur fjárhæðin til félagsins.

    d. (162. gr.)
    Hluthafafundur í samlagshlutafélagi getur, með þeim fjölda atkvæða sem krafist er til breytinga á félagssamþykktum og samþykki ábyrgðaraðila, samþykkt að breyta samlagshlutafélagi í hlutafélag. Ákvæði 6.–8. gr. gilda eftir því sem við á. Framlagning skýrslu og útsending hennar fer þó eftir 4. mgr. 88. gr. Við breytinguna tekur hlutafélagið við öllum eignum og skuldum samlagshlutafélagsins án þess að samþykki lánardrottna þurfi að koma til.
    Tilkynningu um ákvörðun skv. 1. mgr. skal innan tveggja vikna senda öllum skráðum hluthöfum, svo og ábyrgðaraðilum.
    Breyting samlagshlutafélags í hlutafélag telst hafa átt sér stað þegar félagssamþykktum hefur verið breytt á þann veg að það fullnægi kröfum laga þessara enda hafi breytingar á samþykktunum verið skráðar og tilkynning þar að lútandi birt í Lögbirtingablaði. Ábyrgðaraðilar bera þó áfram ábyrgð á skuldbindingum frá því fyrir breytinguna á félaginu.
    Gefa skal út hlutabréf í hlutafélagi áður en ár er liðið frá breytingunni. Óheimilt er að gefa þau út fyrir breytinguna.
    Ef liðin eru fimm ár frá breytingunni án þess að allir réttbærir aðilar hafi sett fram beiðni um að fá hlutabréf sín í hlutafélaginu afhent getur stjórn hlutafélagsins með auglýsingu í Lögbirtingablaði skorað á aðila að vitja hlutabréfanna innan sex mánaða. Þegar fresturinn er liðinn og enginn hefur gefið sig fram getur stjórnin á kostnað viðkomandi hluthafa selt hlutabréfin í hlutafélaginu fyrir milligöngu aðila sem að lögum er heimilt að versla með slík bréf. Frá söluandvirðinu getur félagið dregið kostnað við auglýsinguna og söluna. Hafi söluandvirðið ekki verið sótt innan fimm ára frá sölu rennur fjárhæðin til félagsins.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Meginefni frumvarps þessa, sem samið er í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, er að skýra reglur laga um hlutafélög viðvíkjandi samlagshlutafélögum og veita samlagshlutafélögum, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, frelsi til að víkja frá tilteknum ákvæðum laganna. Jafnframt er tækifærið notað í frumvarpinu til að gera breytingu á ákvæðum um arðgreiðslur.
    Frumvarpið er flutt í framhaldi af vinnu starfshóps sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði og var falið að fjalla um fjármögnun nýsköpunar og gera tillögur sem aukið gætu aðgengi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja að áhættufjármagni. Með skipun starfshópsins var brugðist við ábendingum frá vísinda- og tækniráði og iðnþingi um skort á fjármagni til slíkra fyrirtækja.
    Í vinnu starfshópsins var m.a. tekið mið af framkomnu frumvarpi forsætisráðherra um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. en þar var lagt til að Nýsköpunarsjóður fengi 1.500 millj. kr. á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun nýrra samlagssjóða með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Frumvarpið varð síðan að lögum nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.
    Í niðurstöðu starfshópsins, frá desember 2005, er lagt til að gerðar verði breytingar á lagaákvæðum um samlagshlutafélög þannig að það félagsform nýtist betur en nú er til sameiginlegra fjárfestinga, m.a. í nýsköpun. Breytingarnar séu nauðsynlegar til að auðvelda ólíkum fjárfestum að standa saman að sameiginlegum fjárfestingum, m.a. í nýsköpun. Lagðar eru til breytingar á skattskyldu félaganna, möguleikum lífeyrissjóða til þátttöku í þeim og að gerðar verði tilteknar breytingar á ákvæðum hlutafélagalaga.
    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram af hálfu fjármálaráðherra frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt þar sem lagt er til að samlagshlutafélag teljist ekki sjálfstæður skattaðili nema eftir því sé sérstaklega óskað við skráningu og að kveðið verði skýrar á um það að lífeyrissjóðir séu undanþegnir skattskyldu af hvers konar tekjum af starfsemi sem þeim er heimil. Tillögur þessar eru mikilvægar til að auðvelda aðkomu lífeyrissjóða og annarra fjárfesta, sem undanþegnir eru skatti, að samlagshlutafélagi í fjárfestingarstarfsemi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 31. gr. laganna vegna ábendingar er borist hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Í a-lið er felld niður tilvísun til arðmiða enda munu þeir ekki lengur gerðir að skilyrði fyrir arðgreiðslu.
    Í b-lið er félögum, sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað, veitt heimild til þess að ákvarða, að uppfylltum vissum skilyrðum, að réttindi til arðs miðist við annað tímamark en útborgun arðs. Í umsögn taldi Kauphöll Íslands breytinguna til bóta fyrir þessi félög.

Um 2. gr.

    Ákvæði í dönskum og þó einkum norskum hlutafélagalögum hafa að nokkru leyti verið höfð til hliðsjónar. Í stað 159. gr. laganna er gert ráð fyrir að komi nýr kafli, XX. kafli, sem beri heitið „Samlagshlutafélög“. Meginbreytingin er að gert er ráð fyrir að samlagshlutafélög, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, hafi visst frelsi til að víkja í samþykktum sínum frá þeirri meginreglu um samlagshlutafélög almennt að þau þurfi að fara eftir ákvæðum laga um hlutafélög eftir því sem við á.

Um a-lið (159. gr.).
    Í 1. mgr. kemur fram aðalregla laganna um hlutafélög að því er snertir samlagshlutafélög, þ.e. ákvæði laganna taka til samlagshlutafélaga eftir því sem við á nema kveðið sé á um annað í lögunum. Frávikin koma síðan fram í b-lið greinarinnar, þ.e. fyrirhugaðri 160. gr. laganna.
    Í 2. mgr. eru samlagshlutafélög skilgreind. Þar segir nánar tiltekið:
    Samlagshlutafélag er sú tegund samlagsfélaga þar sem einn eða fleiri félagsmenn (ábyrgðaraðilar) bera beina og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins en aðrir félagsmenn (hluthafar), einn eða fleiri, bera takmarkaða ábyrgð á grundvelli framlaga sem mynda hlutafé í félaginu. Ábyrgðaraðilar geta jafnframt verið hluthafar.
    Samkvæmt framangreindri skilgreiningu er samlagshlutafélag eins konar sambland af sameignarfélagi með ótakmarkaðri ábyrgð og hlutafélagi með takmarkaðri ábyrgð.
    Í frumvarpi til laga sem lagt var fram á 118. löggjafarþingi 1994 og varð að lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, var greint frá samlagsfélögum og samlagshlutafélögum með eftirfarandi hætti:
    „Samlagsfélag er félag þar sem sumir félagsmenn bera beina og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins en aðrir einungis með því fé sem þeir láta af hendi rakna til félagsins samkvæmt félagssamningi. Þeir sem bera aðeins takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins taka venjulega engan þátt í stjórn þess nema svo sé sérstaklega fyrir mælt í félagssamningi.
    Samlagshlutafélag er ein tegund samlagsfélaga þar sem framlög þeirra félagsmanna, sem bera takmarkaða ábyrgð, felst í hlutafjárframlögum þeirra og mynda þau hlutafé í félaginu. Er þá unnt að búa svo um hnútana í félagssamningi að samlagshlutafélag líkist hlutafélagi að öllu leyti nema því að einn eða fleiri bera beina og ótakmarkaða ábyrgð á félagsskuldbindingum. Við þessar aðstæður þykir eðlilegt að gætt sé vissra meginreglna í fyrirhuguðum lögum um einkahlutafélög sem einkum koma fram í III.–VII. og XIII. kafla en að teknu tilliti til þeirra sérreglna sem gilda um samlagsfélagið.“
    Í athugasemdum við 12. gr. laga nr. 39/2003, um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, var skýrt hvers vegna réttara væri að miða við ákvæði laga um hlutafélög fremur en ákvæði laga um einkahlutafélög, sbr. eftirfarandi orðalag:
    „Í greininni er kveðið á um að lög um hlutafélög taki til samlagshlutafélaga eftir því sem við á. Samhliða yrði felld niður 134. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem segir að lögin um einkahlutafélög taki til samlagshlutafélaga eftir því sem við á. Þykir eðlilegra að ákvæði laganna um hlutafélög gildi um þessi félög eftir því sem við á. Samlagshlutafélög hafa ekki verið skráð á Íslandi en að undanförnu hafa komið upp hugmyndir um að stofna öflug samlagshlutafélög á sviði verðbréfastarfsemi. Er þá nauðsynlegt að lögin um hlutafélög gildi fremur en lögin um einkahlutafélög um samlagshlutafélögin þannig að unnt sé að skrá hluti félaganna opinberri skráningu. Breytingar á skattalöggjöf eru væntanlega skilyrði fyrir stofnun slíkra félaga. Verði af slíkum breytingu yrði hlutafélagalöggjöfin ekki stofnun félaganna þrándur í götu. Af ákvæðum greinarinnar leiðir m.a. að sama lágmarkshlutafé þyrfti til að stofna samlagshlutafélag og venjulegt hlutafélag.“
    Í 3. mgr. er kveðið á um það með svipuðum hætti og í 7. mgr. 1. gr. laganna um hlutafélög að samlagshlutafélögum einum sé rétt og skylt að hafa orðið samlagshlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina slhf.
    Ákvæði 4. mgr. áskilja að í samþykktum samlagshlutafélaga skuli vera upplýsingar umfram þær sem almennt eru áskildar í tengslum við hlutafélög. Snerta upplýsingarnar grundvallaratriði um ábyrgðaraðila, hvort hann þurfi að leggja fram hlutafé, og ef svo er, hversu mikið, áhrif hans í málefnum félagsins og þátt hans í skiptingu hagnaðar og taps og loks hvort einhver félagsmanna njóti sérstakra réttinda eða skyldna í félaginu.
    Samkvæmt 5. mgr. skal gætt ákvæða laganna um hlutafélög á grundvelli reglna Evrópska efnahagssvæðisins, m.a. um stofnun og skráningu samlagshlutafélaga, svo og ákvæða annarra laga. Í því sambandi má nefna að á grundvelli 1. félagaréttartilskipunar EB, sem innleidd hefur verið í íslenskan hlutafélagarétt, eru viss ófrávíkjanleg ákvæði varðandi skráningu upplýsinga. Af ákvæðum annarra laga, sem gæta skal, má nefna lög um ársreikninga.
    Samsvarandi ákvæði varðandi reglur um innbyrðis réttarsamband og í 6. mgr. eru í 159. gr. gildandi laga um hlutafélög.

Um b-lið (160. gr.).
    Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að þeim samlagsfélögum, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, sé veitt meira frelsi en öðrum samlagshlutafélögum, þ.e. þau geti með ákvæðum í samþykktum vikið frá ákvæðum laganna um hlutafélög eftir því sem nánar er kveðið á um í greininni. Rökin að baki ákvæði þessu eru þau að í tilteknum félögum, sem stunda ekki eiginlegan atvinnurekstur heldur einungis fjárfestingar í fjármálagerningum, vilja stofnaðilar haga málum með þeim hætti að samið sé í upphafi um fyrirkomulag fjárfestinga til ákveðins tíma. Stjórn fjárfestinga er þá í höndum ábyrgðaraðila og hafa aðrir félagsmenn ekki bein áhrif á starfsemi félagsins nema ábyrgðaraðilinn fari út fyrir samning aðila. Til að gera slíkt fyrirkomulag mögulegt er nauðsynlegt að heimila tiltekin frávik frá ákvæðum hlutafélagalaga.
    Í 2. mgr. kemur fram að ekki sé skylt í samlagshlutafélögum, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, að kjósa stjórn heldur geti ábyrgðaraðili, einn eða fleiri sameiginlega, gegnt hlutverki stjórnar. Þá er heldur ekki skylt eins og almennt er í lögum um hlutafélög að framkvæmdastjóri skuli vera í félögunum heldur getur ábyrgðaraðili gegnt störfum framkvæmdastjóra eða falið öðrum það. Þá er gert ráð fyrir að ábyrgðaraðilinn geti ritað firma félagsins. Sé ábyrgðaraðilinn lögaðili skal tiltekinn einstaklingur koma fram fyrir hönd hans eins og almennt er litið á. Ábyrgðaraðili skal ávallt eiga sæti í stjórn sé hún kosin. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga sér samsvörun í norskum lögum.
    Samkvæmt 3. mgr. má framselja vald hluthafafundar í samlagshlutafélögum, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, til ábyrgðaraðila. Breytingar á félagssamþykktum skal bera undir hluthafafund. Í samþykktunum má kveða sérstaklega á um form atkvæðagreiðslu á hluthafafundi, t.d. um meirihlutaatkvæðagreiðslu, og hvaða reglur gildi um atkvæðagreiðslur og atkvæðahlutföll, m.a. áskilnað um einróma samþykki. Í norskum lögum eru einnig ákvæði um að ábyrgðaraðili geti haft neitunarvald. Þá er gert ráð fyrir að unnt sé að halda hluthafafundi ef talið er að samþykktir séu brotnar. Eðlilegt þykir að aðalfundur sé haldinn í þessum félögum og m.a. samþykktur þar ársreikningur.
    Í 4. mgr. segir að í samþykktum samlagshlutafélaga, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, megi einnig kveða sérstaklega á um framsal og veðsetningu hluta, innlausnarskyldu og arðgreiðslur, m.a. tíðni arðgreiðslna, svo og slit félaganna, t.d. um ákveðinn líftíma þeirra. Er hugsanlegt að vilji standi til þess að inna arðgreiðslur af hendi oftar en almennt gerist. Þá er það einnig vel hugsanlegt að þessi félög séu stofnuð til ákveðins tíma.

Um c-lið (161. gr.).
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir möguleika á að breyta hlutafélagi í samlagshlutafélag. Þarf að samþykkja slíka breytingu með sama fjölda atkvæða og krafist er til breytinga á félagssamþykktum. Í málsgreininni segir jafnframt að samlagshlutafélag taki við öllum eignum og skuldum hlutafélagsins við breytinguna en samþykki lánardrottna þurfi ekki að koma til og er hér byggt á dönskum lögum.
    Ákvæði 2. mgr. gera ráð fyrir sendingu tilkynningar um ákvörðun varðandi breytingu skv. 1. mgr. til skráðra hluthafa, svo og ábyrgðaraðila.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hvenær breyting hlutafélags í samlagshlutafélag teljist hafa átt sér stað.
    Ákvæði 1.–3. mgr. byggjast á 132. gr. laganna um hlutafélög en einnig dönskum lögum nema 2. málsl. 1. mgr. eins og áður segir. Síðan koma til viðbótar ákvæði 4. og 5. mgr. sem byggð eru á 4. og 5. mgr. 132. gr. laganna um hlutafélög.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að hlutabréf, sem hlutafélag hefur gefið út, skuli ógilt eftir að breytingin úr hlutafélagi í samlagshlutafélag hefur átt sér stað.
    Í 5. mgr. eru ákvæði um að réttbærir aðilar skuli innan tiltekins tíma tilkynna sig til skráningar á hlutaskrá í samlagshlutafélaginu.

Um d-lið (162. gr.).
    Í greininni er gert ráð fyrir að hluthafafundur í samlagshlutafélagi geti, með þeim fjölda atkvæða sem krafist er til breytinga á félagssamþykktum og samþykki ábyrgðaraðila, samþykkt að breyta samlagshlutafélagi í hlutafélag. Nánar tiltekin ákvæði laganna gilda í þeim tilvikum eftir því sem við á. Við breytinguna tekur hlutafélagið við öllum eignum og skuldum samlagshlutafélagsins án þess að samþykki lánardrottna þurfi að koma til. Í 3. mgr. er kveðið á um að ábyrgðaraðilar beri áfram ábyrgð á skuldbindingum frá því fyrir breytinguna í félaginu þannig að ótakmarkaða ábyrgðin á þeim skuldbindingum verði ekki takmörkuð við breytinguna.
    Ákvæði 1.–3. mgr. eru byggð á 1. og 2. mgr. 107. gr. laga um einkahlutafélög, svo og dönskum lögum hér að lútandi.
    Auk þess eru í greininni 4. og 5. mgr. sem byggjast 3. og 4. mgr. 107. gr. laga um einkahlutafélög.
    Í 4. mgr. kemur fram að gefa skuli út hlutabréf í hlutafélagi áður en ár er liðið frá breytingunni. Hér kann að verða að taka tillit til sérákvæða í lögum.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að réttbærir aðilar skuli hafa beðið um að fá bréf sín í hlutafélaginu afhent innan ákveðins tíma.

Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir að lög þessi öðlast þegar gildi enda er gert ráð fyrir að aðilar kunni að notfæra sér kosti nýju lagaákvæðanna við fyrsta hentugt tækifæri.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög,
með síðari breytingum (samlagshlutafélög o.fl.).

    Markmiðið með frumvarpinu er að skýra reglur laga um hlutfélög er lúta að samlagshlutafélögum og veita samlagshlutafélögum, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, frelsi til að víkja frá tilteknum ákvæðum laganna. Einnig eru gerðar almennar breytingar á ákvæðum um arðgreiðslur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.