Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1007  —  342. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um umhverfismat áætlana.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti, Salvöru Jónsdóttur frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, Eirík Bogason og Steinunni Atladóttur frá Samorku, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur fyrrverandi starfsmann Skipulagsstofnunar og Guðjón Jónsson og Steinar Friðgeirsson frá Verkfræðingafélagi Íslands. Nefndinni barst auk þess fjöldi umsagna sem almennt voru jákvæðar í garð frumvarpsins.
    Frumvarpið er samið af starfshópi sem var skipaður 6. desember 2002 til að undirbúa lögleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið. Starfshópnum var auk þess falið að taka saman yfirlit yfir áætlanir sem falla undir tilskipunina, hvaða stjórnvöld sinni þeim og á hvaða grundvelli.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að áhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið skuli metin áður en þær eru afgreiddar. Gera skal umhverfismat á tilteknum skipulags- og framkvæmdaáætlunum á vegum stjórnvalda til að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Eitt helsta markmið frumvarpsins er að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða.
    Nú þegar eru í gildi lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt þeim skal meta umhverfisáhrif framkvæmdar áður en leyfi er veitt fyrir henni kunni hún að hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem er hvorki hægt að fyrirbyggja né bæta úr með mótvægisaðgerðum. Nefndin telur rétt að minnast á muninn á þessu tvennu en verði frumvarp þetta að lögum má segja að um tvenns konar umhverfismat verði að ræða. Annars vegar verður um að ræða umhverfismat áætlana samkvæmt þessu frumvarpi en það tekur til almennra ákvarðana um meginstefnu, svo sem skipulagsáætlana sveitarfélaga, samgönguáætlunar og landgræðsluáætlunar. Hins vegar er um að ræða umhverfismat framkvæmda sem kveðið er á um í lögum um mat á umhverfisáhrifum en undir það falla sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir, sbr. 5.–7. gr. laganna og viðauka við lögin. Taka skal skýrt fram að það er hvorki ætlun löggjafans að stuðla að tvíverknaði verði frumvarp þetta að lögum né að flækja stjórnsýslu eða torvelda framkvæmdir. Þvert á móti vonast nefndin til þess að með því að hugað verði með skipulegum hætti að áhrifum framkvæmdar á umhverfið muni það leiða til þess að vinna og kostnaður verði minni á síðari stigum, þ.e. þegar nær dregur framkvæmd verks. Fyrst og fremst er með frumvarpinu stefnt að því að umhverfissjónarmið verði höfð til hliðsjónar eins snemma í ferlinu og mögulegt er.
    Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um kynningu áætlunar og umhverfisskýrslu. Skal almenningi gefinn sex vikna frestur til að kynna sér tillögu að áætlun ásamt umhverfisskýrslu og koma fram með athugasemdir. Nefndin fagnar því að aðgengi almennings sé tryggt með þessum hætti en vill þó taka fram að efni skýrslu þarf að vera sett fram á þann hátt að það sé aðgengilegt almenningi. Almenningur á að geta kynnt sér þá framkvæmd sem er fyrirhuguð með auðveldum hætti án þess að þurfa að leggjast í sérstaka rannsóknarvinnu eða lestur flókinna gagna. Í 3. mgr. sama ákvæðis er kveðið á um að Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og hlutaðeigandi sveitarfélög skuli geta komið með athugasemdir um tillögu að áætlun og umhverfisskýrslu. Er þess jafnframt getið í ákvæðinu að aðrir aðilar eftir því sem við eigi skuli eiga þess kost að koma með athugasemdir. Má þar til dæmis nefna Fornleifavernd ríkisins.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lögð er til breyting á markmiðslýsingu í 1. gr. frumvarpsins þannig að hún orðist svo: „Markmið laga þessara er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Það skal gert með umhverfismati tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana stjórnvalda sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfið.“ Samkvæmt þessari breytingu verður markmiðslýsingin í megindráttum eins og hún er í frumvarpinu og er ekki um efnisbreytingu að ræða. Breytingin felur annars vegar í sér að orðið „veruleg“ í byrjun greinarinnar fellur brott enda kemur fram í lok hennar að einungis áætlanir sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfið skuli metnar. Breytingin er því málfarsleg. Hins vegar er bætt við orðunum „að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða“.
     2.      Lagt er til að í skilgreiningu á hugtakinu framkvæmdaáætlun í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins sé gert skýrara að það eigi við um áætlun stjórnvalds.
     3.      Lagt er til breytt heiti á 3. og 4. gr. frumvarpsins, þ.e. að sú fyrrnefnda nefnist „yfirstjórn“ og sú síðarnefnda „gildissvið“. Sömuleiðis er gerð tillaga um breytta uppröðun á þessum ákvæðum þannig að í lagabálkinum komi greinin um gildissvið á undan greininni um yfirstjórn.
     4.      Lagt er til að við 1. mgr. 3. gr. bætist ákvæði þess efnis að málefni varnarsvæða heyri undir utanríkisráðherra.
     5.      Lagt er til að við 2. mgr. 3. gr. bætist „samkvæmt lögum þessum“ enda gegnir Skipulagsstofnun fleiri hlutverkum samkvæmt öðrum lögum.
     6.      Lagt er til að í 5. gr. komi fram að sá sem beri ábyrgð á umhverfismati áætlunar beri jafnframt kostnað af gerð þess.
     7.      Lagt er til breytt orðalag 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. til að gera setninguna einfaldari og skiljanlegri.
     8.      Lagt er til að í c-lið 2. mgr. 6. gr. verði orðið „einkenni“ tekið út og auk þess er gerð breyting á orðalagi.
     9.      Lagt er til breytt orðalag í fyrri hluta h-liðar 2. mgr. 6. gr.
     10.      Lagt er til að i-lið 2. mgr. 6. gr. verði breytt til að skýra betur inntak ákvæðisins um vöktun.
     11.      Lagt er til að orðinu „stjórnvald“ verði bætt við 1. mgr. 7. gr. til að skýrara sé að frumvarpið eigi aðeins við um áætlanir á vegum stjórnvalda.
     12.      Lagt er til að í 4. mgr. 7. gr. verði breyting á þá leið að þau gögn sem um ræðir verði aðgengileg á heimasíðu Skipulagsstofnunar eða framkvæmdaaðila.
     13.      Lagt er til breytt orðalag í 8. gr.
     14.      Lagt er til breytt orðalag í niðurlagi 2. mgr. 9. gr. Sömuleiðis breytist c-liður sama ákvæðis í samræmi við breytingu á i-lið 2. mgr. 6. gr. um vöktun.
     15.      Lagt er breytt orðalag í inngangsmálslið 10. gr. Sömuleiðis er lagt til breytt orðalag í 5. tölul. b-liðar sama ákvæðis.
     16.      Lögð er til breyting á 2. mgr. 13. gr. um lagaskil þannig að lögin nái til þeirra áætlana sem vinna er hafin við fyrir gildistöku laganna hljóti þær endanlega afgreiðslu eftir 21. júlí 2006.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 23. mars 2006.


Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.Ásta Möller.


Mörður Árnason.


Kjartan Ólafsson.Kolbrún Halldórsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Jón Kr. Óskarsson.