Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1018  —  376. mál.




Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    238. gr. laganna orðast svo:
    Hafi skipstjóri, stýrimaður eða vélstjóri orðið valdur að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi sínu varðar það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Sömu refsingu skal sá hljóta sem reynir að stjórna skipi, stjórnar skipaferðum eða veitir öryggisþjónustu vegna skipaferða og verður valdur að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi.
    Enginn má stjórna eða reyna að stjórna skipi, stjórna skipaferðum eða veita öryggisþjónustu vegna skipaferða, ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- og fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna, vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Brot gegn ákvæði þessu varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Nú er vínandamagn í blóði skipverja eða þeirra sem nánar greinir í 2. mgr. yfir 0,5‰ eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,25 milligrömmum í lítra lofts eða meira og telst hann þá undir áhrifum áfengis og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 2. mgr. Það leysir viðkomandi ekki undan sök þótt hann ætli vínandamagn í blóði sínu minna en hér um ræðir. Nú hefur skipverji eða sá annar sem nánar greinir í 2. mgr. neytt áfengis við eða fyrir þann starfa sem nánar greinir í 2. mgr. þannig að vínandamagn í blóði hækkar eftir að skipstjórn lauk, og skal þá litið svo á sem hið aukna vínandamagn hafi verið í blóði hans við starfann. Mælist ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim í blóði eða þvagi skipverja eða þess annars sem nánar greinir í 2. mgr. telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 2. mgr.
    Skipverja, þeim sem stjórnar skipaferðum eða veitir öryggisþjónustu vegna skipaferða er skylt, að kröfu lögreglu eða Landhelgisgæslu Íslands, að gangast undir rannsókn á öndunar-, munnvatns- eða svitasýni, blóð- eða þvagrannsókn með þeim hætti sem lögregla ákveður þegar ástæða er til að ætla að viðkomandi hafi brotið gegn ákvæðum þessarar greinar. Honum er jafnframt skylt að hlíta kröfu sömu aðila um að láta flytja sig til læknis til rannsóknar, þar á meðal til blóð- og þvagrannsóknar, og að hlíta nauðsynlegri meðferð læknis.
    Skip merkir í þessari grein sérhvert fljótandi far, óháð lengd eða knúningsmáta.