Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 694. máls.

Þskj. 1024  —  694. mál.Frumvarp til laga

um Landhelgisgæslu Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Stjórn Landhelgisgæslu Íslands, starfssvæði og verkefni.
1. gr.
Hlutverk.

    Landhelgisgæsla Íslands sinnir öryggisgæslu og björgun á hafi úti, fer með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum samkvæmt ákvæðum laga þessara, ákvæðum reglugerða á grundvelli þeirra og öðrum lögbundnum fyrirmælum.

2. gr.
Stjórn.

    Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.
    Ráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn. Forstjóri stjórnar daglegum rekstri Landhelgisgæslu Íslands og er ráðherra til ráðgjafar og aðstoðar um allt er lýtur að málefnum hennar.
    Skipurit Landhelgisgæslu Íslands skal staðfest af ráðherra.

3. gr.
Starfssvæði.

    Starfssvæði Landhelgisgæslu Íslands er hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Landhelgisgæsla Íslands sinnir einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld.

4. gr.
Verkefni.

    Verkefni Landhelgisgæslu Íslands eru eftirfarandi:
     1.      Öryggisgæsla á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.
     2.      Löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra.
     3.      Leitar- og björgunarþjónusta við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó.
     4.      Leitar- og björgunarþjónusta við loftför.
     5.      Leitar- og björgunarþjónusta á landi.
     6.      Aðkallandi sjúkraflutningar í samvinnu við aðra björgunaraðila.
     7.      Aðstoð við almannavarnir.
     8.      Aðstoð, þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða náttúruhamfara.
     9.      Eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum.
     10.      Að tilkynna um, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi.
     11.      Sjómælingar, sjókortagerð, útgáfa tilkynninga til sjófarenda, sjávarfallataflna og leiðsögubóka auk annarra rita sem tengjast siglingum.
     12.      Móttaka tilkynninga frá skipum samkvæmt lögum um útlendinga og eftirlit með lögsögumörkum á hafinu.
    Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd einstakra verkefna í reglugerð.

5. gr.
Samningsbundin þjónustuverkefni.

    Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að gera þjónustusamninga, m.a. um eftirtalin verkefni:
     1.      Fiskveiðieftirlit.
     2.      Fjareftirlit með farartækjum á sjó.
     3.      Almennt sjúkraflug og aðstoð við læknisþjónustu.
     4.      Mengunarvarnir og mengunareftirlit á hafinu.
     5.      Sprengjueyðingu og hreinsun skotæfingasvæða.
     6.      Eftirlit með skipum á hafinu og aðstoð við framkvæmd vitamála.
     7.      Rekstur vaktstöðvar siglinga.
     8.      Móttöku og miðlun tilkynninga frá skipum.
     9.      Tolleftirlit.
     10.      Rannsóknir og vísindastörf á hafinu eftir því sem aðstæður leyfa.
    Landhelgisgæslu Íslands er heimilt í samráði við ráðherra að taka að sér ólögbundin verkefni með samningum þegar sérstaklega stendur á.

II. KAFLI
Lögregluvald og valdbeitingarheimildir.
6. gr.
Lögregluvald.

    Eftirtaldir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands fara með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu samkvæmt lögum þessum í efnahagslögsögu Íslands:
     1.      Forstjóri og löglærðir fulltrúar hans.
     2.      Áhafnir skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands.
     3.      Sprengjusérfræðingar.
     4.      Yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga.
    Við löggæslustörf skulu starfsmenn fara eftir lögreglulögum og lögum um meðferð opinberra mála eftir því sem við á.

7. gr.
Skylda til að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands.

    Áhöfnum farartækja á sjó eða hafstöðva er skylt að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands.

8. gr.
Vopnaburður.

    Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem hafa lögregluvald og starfa við löggæslu, þ.m.t. siglingavernd og sprengjueyðingu, hafa heimild til að beita skotvopnum við störf sín samkvæmt reglum sem ráðherra setur.

9. gr.
Rannsókn um borð í skipi og yfirtaka á stjórn skips.

    Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að fara um borð í farartæki á sjó eða hafstöð til rannsóknar ef grunur leikur á um lögbrot og til að sinna lögbundnu eftirliti. Þeim er heimilt að vísa farartækjum til hafnar ef nauðsynlegt er til að ljúka rannsókn máls eða til að binda enda á brotastarfsemi. Þeim er jafnframt heimilt að yfirtaka stjórn skips.
    Handhafar lögregluvalds í skipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands hafa heimild til að banna stjórnanda farartækis að halda til hafnar ef grunur leikur á um brot gegn lögum um siglingavernd og framkvæma öryggisleit í vistarverum og á farþegum skips.

10. gr.
Skylda til að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands.

    Skipstjórum og öðrum sem aðstoð geta veitt er skylt að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands við löggæslustörf og björgun mannslífa þegar þess er óskað ef það er unnt án þess að þeir stofni lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sínum í hættu.

11. gr.
Bann við að tálma Landhelgisgæslu Íslands í störfum sínum.

    Enginn má á nokkurn hátt tálma því að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sinni störfum sínum.

12. gr.
Þjóðaréttur.

    Landhelgisgæsla Íslands skal virða ákvæði alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að þegar erlend skip eða hafstöðvar eiga í hlut.

III. KAFLI
Nánar um verkefni Landhelgisgæslu Íslands.
13. gr.
Björgun og aðstoð við sæfarendur.

    Landhelgisgæsla Íslands stjórnar og ber ábyrgð á leitar- og björgunaraðgerðum á hafinu.
    Landhelgisgæsla Íslands og starfsmenn hennar eiga rétt á björgunarlaunum samkvæmt siglingalögum og loftferðalögum.
    Ráðherra setur reglugerð um stjórnun björgunaraðgerða og samvinnu við aðra björgunaraðila.

14. gr.
Björgun og aðstoð við loftför.

    Landhelgisgæsla Íslands aðstoðar við leit að loftförum sem lenda í flugatvikum, flugslysum eða er saknað yfir sjó. Flugmálastjórn stjórnar leitarstarfi fram til þess að slysstaður finnst en Landhelgisgæsla Íslands tekur ábyrgð á vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu.

15. gr.
Sprengjueyðing.

    Landhelgisgæsla Íslands sér um að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem almenningi getur stafað hætta af bæði til sjós og lands.
    Ráðherra setur reglugerð um starfsemi sprengjusérfræðinga. Í reglugerðinni skal kveðið á um hæfisskilyrði, menntun og starfsreynslu sprengjusérfræðinga. Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar og heimild þeirra til að halda réttindanámskeið í faginu.
    Landhelgisgæsla Íslands getur með samningum tekið að sér sprengjueyðingu og eyðingu hættulegra efna, sem ekki teljast til lögbundinna verkefna stofnunarinnar.

16. gr.
Innflutningur og varsla sprengiefna og skotvopna.

    Landhelgisgæsla Íslands hefur heimild til að flytja inn, geyma og nota sprengiefni og skotvopn vegna starfa handhafa lögregluvalds. Fylgt skal verklagsreglum sem samþykktar eru af ráðherra um skráningu sprengiefnis og skotvopna í eigu stofnunarinnar, geymslu þeirra og notkun.

17. gr.
Sjómælingar.

    Ríkið er eigandi að öllum höfundaréttindum sem Landhelgisgæsla Íslands og Sjómælingar Íslands hafa öðlast. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög.
    Landhelgisgæsla Íslands miðlar upplýsingum og er heimilt að veita aðgang að gögnum á sviði sjómælinga.
    Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að afla sér tekna með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar. Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna, sbr. 1. og 2. mgr., þannig að mætt sé öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.
    Ráðherra setur reglugerð um sjómælingar, sjókorta- og hafnakortagerð og annað efni á sviði sjómælinga sem Landhelgisgæsla Íslands gefur út. Í reglugerðinni skal kveðið á um kröfur um hæfisskilyrði, menntun og starfsreynslu sjómælinga- og sjókortagerðarmanna. Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar og heimild þeirra til að halda réttindanámskeið í faginu.
    Heimilt er að semja við innlend og erlend fyrirtæki og stofnanir um framkvæmd ákveðinna verkefna sjómælinga og stofna hlutafélag um starfsemina.

18. gr.
Fjareftirlit með fiskiskipum.

    Landhelgisgæsla Íslands annast fjareftirlit með íslenskum fiskiskipum og móttekur og miðlar upplýsingum um íslensk og erlend fiskiskip úr fjareftirlitskerfinu í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

19. gr.
Móttaka tilkynninga og miðlun upplýsinga.

    Tilkynningar frá farartækjum á sjó sem Landhelgisgæslu Íslands er falið að taka á móti skulu berast á þar til gerðu eyðublaði. Þar skulu koma fram allar upplýsingar sem stjórnendum farartækja á sjó eða útgerðum þeirra er skylt að veita.
    Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að veita öðrum opinberum stofnunum upplýsingar um farartæki á sjó vegna lögboðins eftirlits þeirra. Einnig er heimilt að veita erlendum ríkjum upplýsingar um farartæki á sjó í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur gert.
    Heimilt er að nýta allar upplýsingar um farartæki á sjó sem berast stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands til björgunarstarfa, fiskveiðieftirlits, löggæslustarfa og annars eftirlits á vegum ríkisins.

IV. KAFLI
Skipulag, stjórn og starfsmenn.
20. gr.
Ráðning starfsliðs.

    Forstjóri ræður aðra starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands og ákveður starfssvið þeirra í samræmi við þarfir stofnunarinnar, sérþekkingu þeirra og réttindi.

21. gr.
Einkennisfatnaður og skilríki handhafa lögregluvalds.

    Við störf sín skulu starfsmenn Landhelgisgæslu Ísland bera einkennisbúninga samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Handhafar lögregluvalds skulu bera á sér sérstök skilríki við framkvæmd starfa sinna. Ráðherra ákveður útlit, efni og notkun skilríkja með reglugerð.

22. gr.
Bann við verkföllum.

    Þeir starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sem sinna löggæslustörfum mega hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.

23. gr.
Bætur vegna líkams- eða munatjóns.

    Ríkissjóður skal bæta starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands, sem áhættusöm störf vinna, líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir við störf sín. Greiða skal bætur fyrir missi framfæranda ef því er að skipta.

24. gr.
Trúnaðarlæknir.

    Starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands skulu gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar samkvæmt fyrirmælum yfirmanns ef þurfa þykir.
    Ráðherra er heimilt að setja reglur um lágmarkskröfur til heilsufars og líkamlegs atgervis starfsmanna sem teljast til starfsgengisskilyrða þeirra.

V. KAFLI
Rekstur skipa og loftfara.
25. gr.
Skip, loftför og önnur farartæki Landhelgisgæslu Íslands.

    Landhelgisgæsla Íslands gerir út skip og rekur loftför auk annarra farartækja sem nauðsynleg eru til gæslu landhelginnar og annarra verkefna stofnunarinnar. Bjóða má út eða stofna hlutafélag um flugrekstur, skiparekstur eða tækniþjónustu Landhelgisgæslu Íslands með skilyrðum sem ráðherra setur, að fengnum tillögum stofnunarinnar. Þá geta tæki verið eign landhelgissjóðs.
    Skip og loftför Landhelgisgæslu Íslands skulu auðkennd með skjaldarmerki Íslands á áberandi stað. Skip skulu einkennd nafni en loftför með nafni og skrásetningareinkennum.
    Ráðherra ákveður með reglugerð lit og önnur einkenni farartækja Landhelgisgæslu Íslands.
    Landhelgisgæsla Íslands skal hafa tilskilin leyfi fyrir þeirri starfsemi sem stunduð er á hverjum tíma og lúta eftirliti Flugmálastjórnar eftir því sem við á.

26. gr.
Leynd yfir ferðum skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands.

    Óheimilt er að greina opinberlega frá ferðum skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands nema með samþykki stofnunarinnar. Einnig er óheimilt með öðrum hætti að veita áhöfnum skipa slíkar upplýsingar í þeim tilgangi að forða þeim frá rannsókn og kæru vegna lögbrots á hafinu.

27. gr.
Landhelgissjóður.

    Í sjóð, er nefnist Landhelgissjóður Íslands, skal renna sektarfé og andvirði upptækra verðmæta vegna brota gegn fiskveiðilöggjöfinni, og enn fremur hlutur Landhelgisgæslu Íslands af björgunarlaunum.
    Fé úr Landhelgissjóði skal varið til að fjármagna kaup eða leigu á skipum, loftförum eða öðrum tækjum til að sinna verkefnum Landhelgisgæslu Íslands.
    Ráðherra getur ákveðið að hluta af árlegum tekjum og vöxtum sjóðsins megi verja til rekstrarútgjalda Landhelgisgæslu Íslands.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
28. gr.
Nánari reglur um framkvæmd laganna.

    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

29. gr.
Refsingar.

    Brot gegn 7., 9., 10., 11., 22. og 26. gr. laga þessara varða eins árs fangelsi eða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

30. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25 22. apríl 1967, með síðari breytingum, og lög um ráðstafanir til varnar því, að skipum sé leiðbeint við ólöglegar fiskveiðar, nr. 83 23. júní 1936, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.    Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um Landhelgisgæslu Íslands Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af lokaritgerð Dagmarar Sigurðardóttur, lögfræðings Landhelgisgæslu Íslands, sem rituð var í meistaranámi í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands og ber heitið „Landhelgisgæsla Íslands, lög um stofnunina og tillögur um breytingar á þeim“.
    Núverandi lög um Landhelgisgæslu Íslands (LHG) eru frá árinu 1967 og á þeim tæpu fjörutíu árum sem liðin eru frá því að þau tóku gildi hefur oftar en einu sinni verið rætt um nauðsyn þess að endurskoða lögin í samræmi við breyttar kröfur. Landhelgisgæslan hefur sinnt mikilvægum verkefnum sínum á grundvelli núgildandi laga með miklum ágætum, ekki síst í tveimur þorskastríðum vegna 50 mílnanna 1972–1973 og 200 mílnanna 1975–1976, en fyrir tæpum 30 árum eða hinn 1. júní 1976 var ritað undir samning Íslands og Bretlands í Ósló um lyktir landhelgisdeilnanna.
    Starfsemi LHG hefur þróast stöðugt síðan án þess að lögum um stofnunina hafi verið breytt. Má þar nefna að eitt af meginverkefnum LHG undanfarin ár hefur verið að sinna fiskveiðieftirliti innan efnahagslögsögunnar. Samt sem áður hefur ekki verið kveðið á um þetta hlutverk í lögum um Landhelgisgæslu Íslands.
    Nú er hafinn undirbúningur að endurnýjun á skipakosti LHG auk kaupa á nýrri eftirlitsflugvél. Þá hafa viðræður við Bandaríkjastjórn um varnarmál leitt til þess að Íslendingar taka að sér leitar- og björgunarstörf, sem hefur verið sinnt af þyrlubjörgunarsveit varnarliðsins.
    Við mat á öryggishagsmunum Íslands og gæslu þeirra hefur í vaxandi mæli verið litið til LHG. Í skýrslu nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar um öryggis- og varnarmál frá 1993 er minnt á að öryggi ríkja sé ekki háð landvörnum eingöngu heldur komi fleiri þættir þar til álita. Þar er vikið að yfirráðum yfir náttúruauðlindum og sagt: „Íslendingar byggja tilveru sína á auðæfum hafsins. Verndun fiskveiðilögsögunnar og fiskistofna er meðal grundvallarhagsmuna þjóðarinnar. Alþjóðleg sókn í fiskistofna hefur aukist svo að þeir eru í hættu. Íslendingar hafa tryggt hag sinn með landhelgisbaráttu og hefur Landhelgisgæslan átt þar stóran hlut á liðnum árum.“ Einnig segir um umhverfisvernd: „Mengun hafsins og mengunarslys, ekki síst hvað kjarnorku snertir, en einnig hvers konar eitrun og úrgangur, notkun og vinnsla olíu og annarra auðæfa á hafsbotni, gætu stórskaðað undirstöður íslensks atvinnulífs. Langt út fyrir 200 mílna efnahagslögsöguna er vernd hafsins gegn öllum þessum hættum mikilsverð gæsla varanlegra öryggishagsmuna, sem tryggja þarf með alþjóðlegum samningum.“ Ljóst er að ekki er unnt að fylgja eftir slíkri gæslu nema með virku eftirliti á vegum LHG.
    Þegar rætt er sérstaklega um varnir landsins segir í skýrslu þessarar nefndar frá 1993: „Öðru hverju hafa orðið umræður um aukinn hlut Íslendinga í vörnum lands síns. Áfram á að fylgja þeirri stefnu að íslenskir aðilar taki að sér þá þætti í störfum varnarliðsins, sem ekki krefjast annarra skuldbindinga en samræmast borgaralegum störfum. Sérstaklega þarf að líta á hlut Landhelgisgæslunnar í eftirlitsstörfum umhverfis landið, en það kom fram í samtölum nefndarinnar, einkum í Brussel, að áhugi er á því að nýta krafta gæslunnar í þágu NATO.“
    Snemma árs 1999 gaf utanríkisráðuneytið út greinargerð um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót. Þar segir, þegar hagsmunum þjóðarinnar er lýst: „Sókn í fiskistofna í heiminum hefur aukist hröðum skrefum, en ofveiði og mengun ógna mjög víða þessari mikilvægu uppsprettu eggjahvítuefna fyrir mannkyn. Svo lengi sem íslenska þjóðin byggir afkomu sína á hafinu, mun því Landhelgisgæslan axla mikla ábyrgð af því að verja þessa auðlind fyrir ásókn annarra þjóða.“
    Í niðurstöðum greinargerðarinnar segir meðal annars um norrænt öryggis- og varnarmálasamstarf: „Kanna þarf möguleika á hagnýtri þátttöku Íslands í norrænum friðargæslu- og björgunaræfingum með aðild Eystrasaltsríkjanna, en slíkar æfingar eiga sér nú stað undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Sérstaklega þyrfti að athuga hvort til greina kæmi að varðskip Landhelgisgæslunnar, eitt eða fleiri, tækju reglulega þátt í slíkum æfingum.“ Þá segir, þegar rætt er um tundurduflaslæðingar: „Brýnt er að Landhelgisgæslan hafi yfir að ráða mannskap og tækjum til að fást við tundurduflaslæðingar, vegna þess hve Íslendingar eru háðir samgöngum á sjó. Með tilkomu nýs varðskips Landhelgisgæslunnar skapast auknir möguleikar á því að útbúa skip og þjálfa áhafnir með þeim hætti að gagn sé að, komi til þess að tundurduflum verði komið fyrir í íslenskri efnahagslögsögu.“
    Hér er efni þessara skýrslna rakið til að minna á að jafnan er minnst á LHG og gildi hennar þegar hugað er að hagsmunum Íslendinga á hafinu, hvort sem litið er til auðlinda eða öryggisgæslu. Fyrir utan það, sem hér hefur verið sagt, mætti vísa til mikils áhuga alþingismanna á því í áranna rás að hlutur LHG sé sem mestur og bestur. Verða dæmi um það ekki rakin hér, enda hæg heimatök hjá þingmönnum að kalla eftir gögnum um það í meðförum málsins á þingi.
    Markmið þess frumvarps sem hér er flutt er að skapa nýja umgjörð um hina mikilvægu og fjölbreyttu starfsemi Landhelgisgæslu Íslands og veita ótvíræðar lagaheimildir til að hún geti þróast áfram í samræmi við nýjar kröfur.
    Í I. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir ákvæðum um stjórn Landhelgisgæslu Íslands, starfssvæði hennar og verkefni. Þar verði meginlínurnar lagðar varðandi starfsemi LHG, starfssvæði stofnunarinnar verði skilgreint skýrar en í núgildandi lögum og sama gildir um verkefni hennar, sbr. 4. og 5. gr. frumvarpsins.
    4. gr. frumvarpsins, um verkefni, svipar að nokkru leyti til 1. gr. núgildandi laga um LHG. Af þeim verkefnum sem ekki eru nefnd í núgildandi lögum en er þegar sinnt hjá stofnuninni má nefna fiskveiðieftirlit, öryggisgæslu á hafinu, leitar- og björgunarþjónustu við loftför, landamæraeftirlit og eftirlit samkvæmt lögum um siglingavernd og ákvæðum sambærilegra laga.
    Önnur verkefni, sem þegar er sinnt hjá LHG, eru fjareftirlit með farartækjum á sjó, mengunarvarnir og mengunareftirlit, sprengjueyðing og hreinsun skotæfingasvæða, rekstur vaktstöðvar siglinga og móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Þar er einnig gert ráð fyrir að LHG sé heimilt að taka að sér ólögbundin verkefni þegar sérstaklega stendur á og er það nýmæli. Nánar er um það fjallað í athugasemdum með ákvæðinu.
    Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um lögregluvald og valdbeitingarheimildir LHG. Þar er leitast við að skýra réttarstöðu handhafa lögregluvalds hjá LHG og þeim starfsmönnum sem fara með lögregluvald er fjölgað. Í því sambandi má nefna að nokkur ákvæði frumvarpsins taka mið af löggæsluhlutverki LHG á hafinu og sækja þau fyrirmynd sína til lögreglulaga.
    Þess má geta að hinn 28. febrúar 2006 var ritað undir samning milli LHG og ríkislögreglustjóra um samstarf stofnananna. Tekur hann til margvíslegra viðfangsefna á sviði löggæslu, leitar- og björgunarmála og almannavarna, en einnig til sameiginlegra æfinga og gagnkvæmrar þjálfunar.
    Þá er í III. kafla frumvarpsins að finna nánari ákvæði um verkefni Landhelgisgæslu Íslands.
    Í IV. kafla frumvarpsins er síðan fjallað um skipulag LHG, stjórn og starfsmenn en þar er m.a. kveðið á um einkennisfatnað, skilríki handhafa lögregluvalds, bann við verkföllum, bætur vegna líkams- eða munatjóns.
    V. kafli frumvarpsins fjallar um rekstur skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands. Lagt er til það nýmæli að heimilað verði að bjóða út eða stofna hlutafélag um flugrekstur, skiparekstur eða tækniþjónustu LHG með skilyrðum sem ráðherra setur. Einnig er fjallað um leynd yfir ferðum skipa og loftfara LHG en nánar er útskýrt hvað í því felst í athugasemdum við einstakar greinar. Þá er tilgreint að LHG skuli hafa leyfi fyrir þeirri starfsemi sem hún stundar hverju sinni og að við slík verkefni lúti stofnunin eftirliti Flugmálastjórnar Íslands. Hér er verið að vísa til verkefna sem ekki falla undir meginhlutverk stofnunarinnar sem ríkisflugrekstraraðila.
    Loks eru í VI. kafla frumvarpsins ýmis ákvæði; um almenna heimild ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna, ákvæði um refsingar fyrir brot gegn lögunum og ákvæði um gildistöku laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein er lykilhlutverk Landhelgisgæslu Íslands tilgreint. Verkefni LHG eru talin upp í 4. og 5. gr. og nánar kveðið á um sum þeirra í III. kafla frumvarpsins. Í 1. gr. núgildandi laga um Landhelgisgæslu Íslands segir að stofnunin skuli hafa varnarþing í Reykjavík en gert er ráð fyrir að því ákvæði verði sleppt hér og stjórnvöldum þannig falin ákvörðun um hvar á landinu hún hafi aðsetur.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stjórn LHG. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði gerð frá gildandi lögum nema í 3. mgr. þar sem segir að skipurit LHG skuli staðfest af ráðherra. Það er í samræmi við framkvæmdina hingað til.

Um 3. gr.

    Hér er kveðið á um starfssvæði LHG. Í núgildandi lögum er eingöngu kveðið á um að LHG fari með löggæsluvald á hafinu innan og utan landhelgi en ekki nánar skilgreint hversu langt út á haf starfssvæði hennar nær. Með greininni er leitast við að skilgreina starfssvæðið nánar en gert er þar.
    Í greininni felst að starfsemi LHG á úthafinu skuli vera samkvæmt reglum þjóðaréttar. Á það m.a. við um eftirlitsverkefni á úthafinu vegna fjölþjóðlegs samstarfs á vettvangi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar (NAFO). LHG fer með fiskveiðieftirlit á svæðum þessara stofnana, bæði með íslenskum og erlendum skipum. Starfssvæði LHG er að öðru leyti almennt hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævi, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið sem nær víða út fyrir 200 sjómílur. Dæmi er um að valdsvið LHG færist út fyrir efnahagslögsöguna og landgrunnið þegar um óslitna eftirför er að ræða á grundvelli 111. gr. Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.
    Tekið er fram að Landhelgisgæsla Íslands geti einnig starfað á landi, til að mynda við sprengjueyðingu í samráði við lögregluna og önnur yfirvöld þegar við á. Ákvæði núgildandi laga um þetta eru ekki skýr og hafa meðal annars valdið þeim misskilningi að LHG sjái eingöngu um sprengjueyðingu úti á hafi eða viðbrögð vegna tundurdufla og annarra sprengifimra hluta sem berast að landi frá sjó.

Um 4. og 5. gr.

    Landhelgisgæslan hefur á að skipa mjög fjölbreyttum tækjabúnaði sem nota má til ýmissa verkefna. Hingað til hafa stofnanir og önnur ráðuneyti óskað eftir atbeina LHG við ýmis verkefni og því er lagt til í frumvarpi þessu að mögulegt verði fyrir stofnunina að gera þjónustusamninga um slík tilfallandi verkefni.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru, eins og segir í almennum athugasemdum hér að framan, talin upp flest þau verkefni sem kveðið er á um í núgildandi lögum um Landhelgisgæslu Íslands. Auk þeirra er gert ráð fyrir nýmælum er lúta að öryggisgæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og ákvæði laga, leitar- og björgunarþjónustu við loftför og eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum.
    Í 2. tölul. 4. gr. og 1. tölul. 5. gr. er fjallað um fiskveiðieftirlit. Eitt af meginverkefnum LHG hefur verið að sinna fiskveiðieftirliti innan efnahagslögsögunnar og það telst til almennrar löggæslu á hafinu. Í 1. tölul. 5. gr. er lagt til að heimilt verði að gera þjónustusamning við sjávarútvegsráðuneytið. Auknar kröfur hafa verið gerðar til eftirlits á úthafinu vegna fjölþjóðlegs samstarfs, t.d. á svæðum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar (NAFO). LHG fer með fiskveiðieftirlit á samningssvæðum þessara stofnana í samræmi við reglur sem þær hafa samþykkt og sér í samstarfi við sjávarútvegsráðuneytið um fjareftirlit með íslenskum fiskiskipum sem þar eru að veiðum. Á sama hátt tekur LHG á móti upplýsingum úr fjareftirlitskerfum erlendra ríkja þegar skip þeirra sigla inn í íslenska lögsögu og hefur eftirlit með þeim. Fjareftirlit með farartækjum á sjó er talið upp sem samningsbundið þjónustuverkefni í 2. tölul. 5. gr.
    Í 3. tölul. 5. gr. er almennt sjúkraflug og aðstoð við læknisþjónustu talin upp sem samningsbundin þjónustuverkefni. LHG hefur sinnt aðkallandi sjúkraflutningum í áratugi. Þar er um að ræða flutning slasaðra frá slysstað bæði á sjó og landi, þ.e. vegna sjóslysa, bílslysa, skíðaslysa, vélsleðaslysa og alls kyns annarra slysa. Þá hefur LHG flutt veika sjómenn í land þegar það hefur verið talið nauðsynlegt. Læknar á landsbyggðinni hafa oft talið heppilegt að óska eftir því að LHG taki að sér flutning sjúklinga því að fullkominn tækjabúnaður er um borð í þyrlum LHG, læknar eru í áhöfn þyrlnanna og þyrlur geta flogið lágflug með sjúklinga í andnauð.
    Í 4. tölul. 5. gr. eru mengunarvarnir og mengunareftirlit á hafinu talin sem samningsbundin þjónustuverkefni LHG. Sama gildir um sprengjueyðingu og hreinsun skotæfingasvæða í 5. tölul. Verkefni þessi, sem meðal annars ná til varnarliðssvæða, eru ekki nefnd í núgildandi lögum en LHG sinnir þeim í reynd. Með því að telja mengunarvarnir upp sem þjónustubundið verkefni er fagráðuneyti á þessu sviði gert kleift að hafa áhrif á umfang eftirlitsins og jafnvel þann búnað sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða til að bregðast við mengun. Almennu mengunareftirliti verður eftir sem áður sinnt sem hluta af almennri löggæslu.
    Í 6. tölul. 5. gr. er fjallað um eftirlit með skipum á hafinu og aðstoð við framkvæmd vitamála. Áhafnir varðskipanna hafa framkvæmt skyndiskoðanir á hafi úti samkvæmt lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Einnig hafa varðskipin séð um að ferja starfsmenn Siglingastofnunar út í vita sem ekki er hægt að nálgast frá landi. Áhafnir varðskipanna hafa einnig aðstoðað við viðhald þeirra.
    Í 7. tölul. 5. gr. er lagt til að rekstur vaktstöðvar siglinga verði flokkaður sem samningsbundið þjónustuverkefni. Nú sér LHG um faglegan rekstur vaktstöðvarinnar samkvæmt þjónustusamningi og brátt verða allir starfsmenn stöðvarinnar starfsmenn LHG. Neyðarlínan sér um fjármál stöðvarinnar að öðru leyti, tæknimál, húsnæðismál o.fl.
    Í 8. tölul. er nefnd móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum. Margs kyns kröfur eru um móttöku slíkra tilkynninga og miðlun og eru þær kröfur frá fleiri en einu ráðuneyti. Stjórnstöð LHG annast móttöku og miðlun tilkynninga frá skipum, bæði íslenskum og erlendum, samkvæmt lögum og reglugerðum á sviði sjávarútvegs, einnig varðandi tollafgreiðslu, Schengen, erlend herskip og margt fleira. Til þess að hægt sé að skipuleggja starfsemi og fjármál stjórnstöðvarinnar, sem rekin er úr vaktstöð siglinga, þarf að gera þjónustusamninga um þessi verkefni og áætla kostnað vegna þeirra.
    Í 9. tölul. 5. gr. er tolleftirlit talið með samningsbundnum þjónustuverkefnum. Til þessa hefur LHG lítið tekið þátt í tolleftirliti þótt heimild sé til þess í tollalögum.
    Í 10. tölul. 5. gr. er fjallað um rannsóknarstörf og vísindastörf á hafinu en LHG hefur tekið að sér slík verkefni. Með því að fella þau störf undir samningsbundin þjónustuverkefni verður tryggt að LHG getur óskað eftir greiðslu fyrir slík verkefni þegar um þau er að ræða. Verkefni á þessu sviði geta ýmist verið fyrir ráðuneyti eða erlend eða innlend fyrirtæki og ræðst hverju sinni hvort stofnunin getur tekið þau að sér.
    Í 2. mgr. 5. gr. segir að LHG sé heimilt í samráði við ráðherra að taka að sér ólögbundin verkefni með samningum þegar sérstaklega stendur á. Hér getur verið um margs konar tilmæli að ræða sem beint er til LHG vegna tækjabúnaðar og sérhæfingar innan stofnunarinnar, t.d. með varðskipum, sjómælingaskipi, þyrlum eða flugvél. Hjá stofnuninni starfar sérhæft starfsfólk og stofnunin á mjög sérhæfðan tækjabúnað. Sem dæmi má nefna þyrlur sem hafa leyfi til yfirflugs yfir sjó. Einnig tæki til sprengjueyðingar, vélmenni og önnur tæki sem nota má í öðrum tilgangi en lögin segja til um, t.d. til að eyða hættulegum efnaúrgangi og sjá um sprengjuverkefni við borholur. Þá hefur LHG haft fjölgeislamæli til umráða sem getur tekið þrívíddarmyndir af sjávarbotninum og getur slíkt tæki haft notagildi til fleiri verkefni en sjómælinga, t.d. til öryggisrannsókna við erlend herskip, leit að skipsflökum og flugvélaflökum og botnrannsóknir í höfnum vegna hafnarframkvæmda. Vegna þessa er mikilvægt að lögin heimili að Landhelgisgæsla Íslands taki að sér ólögbundin verkefni og að heimilt sé að taka gjald fyrir þau. Hér mundi að jafnaði vera um að ræða verkefni sem einkafyrirtæki hafa ekki tækjabúnað eða mannafla til að sinna.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvaða starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands fara með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu. Breytingin felst í því að fleiri starfsmenn en áhafnir skipa og loftfara LHG fá lögregluvald við þessar aðstæður. Forstjórinn, sem yfirmaður löggæslustofnunar, getur þurft að taka ákvarðanir varðandi löggæsluverkefni í efnahagslögsögunni og því er eðlilegt að hann sé handhafi lögregluvalds þegar hann annast eða aðstoðar við löggæslustörf. Sama máli gegnir um löglærða fulltrúa hans sem að löggæslumálum koma og hafa yfirumsjón með kærumálum sem stofnunin sendir frá sér og er það í samræmi við lögreglulög. Einnig er yfirmönnum í stjórnstöð LHG/vaktstöð siglinga fengið lögregluvald þar sem þeir stjórna aðgerðum skipa og loftfara m.a. í lögregluaðgerðum á hafinu. Sprengjusérfræðingar fara einnig með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um skyldu til að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands en sambærilegt ákvæði er í 19. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Bæði eru nefndar áhafnir farartækja á sjó eða hafstöðva. Hafstöð er skilgreind í 2. mgr. 2. gr. laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, sem búnaður, svo sem pallar, leiðslukerfi og önnur mannvirki í efnahagslögsögu og landgrunni Íslands sem notuð eru í kolvetnisstarfsemi. Einnig hvers konar flutningstæki sem nýtt eru til kolvetnisstarfsemi meðan þau liggja við festar.

Um 8. gr.

    Þar sem starfsmenn LHG verða að vera vopnum búnir til að sinna verkefnum sínum er talið nauðsynlegt að kveða nánar á um heimildir til að beita þeim vopnum sem stofnunin hefur og hvaða starfsmenn hafa leyfi til þess. Til þessa hafa starfsmenn LHG farið eftir reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna í þau fáu skipti sem þeir hafa þurft að nota vopn við störf sín. Aðstæður starfsmanna LHG eru hins vegar nokkuð frábrugðnar því sem gerist í landi og því er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um vopnaburð starfsmanna LHG og heimild þeirra til notkunar vopna.
    Í greininni eru tekin af tvímæli um það að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem hafa lögregluvald og starfa við löggæslu, þ.m.t. siglingavernd og sprengjueyðingu, hafi heimild til að beita skotvopnum við störf sín samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur. Lögum samkvæmt eiga starfsmenn LHG að geta tekist á við smyglara, hryðjuverkamenn, mengunarvalda og veiðiþjófa og verða því að vera vopnum búnir. Landhelgisgæsla Íslands hefur að sjálfsögðu heimild til að grípa til annarra vopna en skotvopna til að ná árangri við störf sín, en í landhelgisdeilum vegna útfærslnanna í 50 og 200 sjómílur var klippum, sem klipptu í sundur togvíra á botnvörpum breskra togara, til dæmis beitt með góðum árangri.

Um 9. gr.

    Landhelgisgæslan fer með lögregluvald á hafinu og verður að hafa skýrar heimildir til að fara um borð í skip til rannsóknar ef grunur leikur á um lögbrot eða til að sinna lögbundnu eftirliti, t.d. fiskveiðieftirliti. Einnig til að vísa farartækjum á sjó til hafnar ef nauðsynlegt er til að ljúka rannsókn máls eða binda enda á brotastarfsemi. Í þeim tilgangi getur verið nauðsynlegt fyrir LHG að yfirtaka stjórn skips, þ.e. ef skipstjóri eða annar stjórnandi farartækis á sjó neitar að hlýða fyrirmælum LHG.
    Á sama hátt getur verið nauðsynlegt fyrir LHG að hafa heimild til að banna skipi að halda til hafnar, t.d. ef grunur leikur á um ólögmætt athæfi. Þessu svipar til heimilda sem yfirvöld hafa til að takmarka aðgang að flugvöllum og flugvallarsvæðum, umferð um þau og dvöl loftfara á þeim vegna öryggis, sbr. 70. gr. loftferðalaga, nr. 60/1998.

Um 10. gr.

    Hér er gert ráð fyrir skyldu skipstjóra og annarra til að aðstoða LHG við löggæslustörf og björgun mannslífa þegar þess er óskað ef það er unnt án þess að þeir stofni lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sínum í hættu. Greinin er í samræmi við heimildir lögreglu í 20. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til bann við því að tálma því að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands sinni störfum sínum og er það í samræmi við 21. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.

Um 12. gr.

    Á hafinu gilda margvíslegir alþjóðlegir samningar sem kveða á um heimildir strandríkisins til íhlutunar gagnvart erlendum skipum. Heimildirnar eru mismunandi eftir því á hvaða hafsvæði skipið er statt, t.d. innan landhelgi eða efnahagslögsögu, og einnig eftir því um hvaða brot er að ræða. Nauðsynlegt er að gæta fyllstu varkárni við íhlutun gagnvart erlendum skipum enda fer fánaríkið almennt með lögsögu um borð í því. Þetta liggur ljóst fyrir en talið er nauðsynlegt að vekja athygli á því með þeim hætti sem gert er í greininni líkt og gert er í 2. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.

Um 13. gr.

    Í núgildandi lögum er hlutverk LHG við leitar- og björgunaraðgerðir á hafinu orðað með öðrum hætti en lagt er til í þessu frumvarpi. Þar segir að eitt af markmiðum LHG sé að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska og aðstoða eða bjarga bátum eða skipum, sem kunna að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum á sjó við Ísland, ef þess er óskað. Með orðalagi þessarar greinar er kveðið skýrar á um ábyrgðina og varðandi báta og skip er ekki gert að skilyrði að óskað sé eftir aðstoð, enda getur LHG þurft að grípa inn í án óskar skipstjóra t.d. til að koma í veg fyrir mengunarslys. Kveðið er á um íhlutunarréttinn í 15. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda.
    Hvað varðar björgunarlaun er nýmæli að ekki er kveðið á um skiptingu björgunarlauna að réttri tiltölu miðað við föst mánaðarlaun starfsmanna í áhöfnum heldur lagt til að farið verði eftir skiptareglu 2. mgr. 170. gr. c siglingalaga, nr. 34/1985. Er eðlilegt að í lögum um Landhelgisgæslu Íslands sé tekið mið af siglingalögum um þetta efni.

Um 14. gr.

    Í greininni eru tekin af tvímæli um það að Landhelgisgæsla Íslands er viðbragðsaðili við leit að loftförum sem lenda í flugatvikum, flugslysum eða er saknað yfir sjó.
    Í núgildandi lögum um Landhelgisgæslu Íslands kemur fram að eitt af markmiðum stofnunarinnar er að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska. LHG hefur ávallt talið að sé loftfars saknað eða eigi í vanda yfir hafi skuli stofnunin bregðast við með tækjum sínum. Hér er gert ráð fyrir að Flugmálastjórn stjórni leitarstarfi skv. 132. gr. loftferðalaga, nr. 60/1998, allt þar til slysstaður finnst og sé hann á hafi úti stjórnar LHG björgunarstörfum frá þeirri stundu.

Um 15. gr.

    Samkvæmt 1. gr., f-lið, núgildandi laga er eitt af markmiðum LHG að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum eða almenningi getur stafað hætta af. Hér er í 1. mgr. bætt við orðunum bæði til sjós og lands til að taka af tvímæli um að LHG sinnir þessum verkefnum, hvort sem um er að ræða tundurdufl sem reka til lands af sjó eða lenda í netum sjómanna eða sprengjur í landi.
    Vegna sérhæfingar sprengjusérfræðinga LHG þykir eðlilegt að þeir í hópnum sem til þess hafa réttindi frá erlendum stofnunum, sem viðurkenndar eru innan Atlantshafsbandalagsins, geti kennt nýliðum svo að ekki þurfi undantekningarlaust að senda menn til erlendra herja í slíkt nám. Jafnframt er gert ráð fyrir því að LHG geti gefið út starfsleyfi. LHG hefur sinnt sprengjueyðingu fyrir varnarliðið og heldur á hverju ári fjölþjóðlega æfingu sprengjueyðingarsveita þar sem æfð eru mjög flókin verkefni á sviði sprengjueyðingar. Nýlega samþykkti Atlantshafsbandalagið að styrkja æfinguna til að tryggja framtíð hennar.
    Landhelgisgæslan annast verkefni fyrir einkafyrirtæki þar sem krafist er sprengjusérfræðinga, þ.e. eyðingu hættulegra efna o.fl., og er heimild til þess staðfest með frumvarpinu.

Um 16. gr.

    Í greininni er fjallað um innflutning og vörslu sprengiefna og skotvopna í þágu LHG. Sprengjum er eytt með sprengiefni, þess vegna þarf LHG heimild til að flytja inn, geyma og nota sprengiefni.
    Sprengjueyðingarsveit LHG hefur séð um vopnaþjálfun og umsýslu með vopn og skráningu þeirra hjá LHG og því er í þessari grein kveðið á um heimild til innflutnings skotvopna. Í 3. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, segir að þau gildi ekki um vopn, tæki og efni skv. 1. og 2. gr. laganna sem eru í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa eða erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu. Ráðherra setur um þau sérstakar reglur.

Um 17. gr.

    Sjómælingar og sjókortagerð eru grundvöllur öruggra siglinga í kringum landið og eykst þörfin á nákvæmum sjókortum eftir því sem skip verða stærri og djúpristari.
    Í 17. gr. frumvarpsins eru talin upp helstu atriðin sem taka þarf fram í lögum um starfsemi sjómælingasviðs LHG en síðan er mælt fyrir um heimild ráðherra til reglugerðarsetningar um hana í 3. mgr. Við samningu greinarinnar var höfð hliðsjón af lögum um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, einkum 8., 9. og 10. gr. laganna, enda að mörgu leyti um hliðstæða starfsemi að ræða þótt ólíkar vinnsluaðferðir og forrit séu notuð vegna gjörólíkra aðstæðna á sjó og landi.
    Sjómælingasvið LHG hefur um árabil verið rekið sem deild innan Landhelgisgæslu Íslands. Í núgildandi lögum segir fátt um sjómælingar annað en í 1. gr., e-lið, en þar segir að eitt af markmiðum LHG sé að sjá um sjómælingar og taka þátt í hafrannsóknum, fiskirannsóknum, botnrannsóknum, svo og öðrum vísindastörfum, eftir því sem ákveðið kann að verða hverju sinni. Ekkert er fjallað um útgáfu sjókorta eða annarra gagna sem eru helsta verkefni sjómælingasviðs Landhelgisgæslu Íslands.
    Mikilvægt er að ljóst sé hver á höfundarétt að mælingagögnum og kortum og gera þarf ríkar kröfur til nákvæmni slíkra gagna enda getur ríkið orðið skaðabótaskylt ef skip sekkur eða strandar vegna villu í sjókorti. Nágrannaríki okkar og önnur ríki sem starfa samkvæmt reglum Alþjóðasjómælingastofnunarinnar (IHO) innheimta höfundaréttargjöld af sjómælingagögnum og sjókortum. Sama máli gegnir um Landhelgisgæslu Íslands og er fjallað um höfundarétt ríkisins í 1. mgr. 17. gr. LHG hefur gert samninga um höfundaréttargreiðslur við erlend kortagerðarfyrirtæki sem gefa út rafræn sjókort og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði sjómælinga. Snemma árs 2005 var gerður samningur við Bresku sjómælingarnar um að innheimta höfundaréttargjöld fyrir LHG og er heilmikil hagkvæmni í því. Sjómælingar Íslands, sem deild innan LHG, hafa af þessu nokkrar sértekjur. Gjaldtökuákvæði 3. mgr. 17. gr. er í samræmi við sambærilegt ákvæði frumvarps til laga um landmælingar.
    Sjómælingar og sjókortagerð eru mjög sérhæfð verkefni sem ekki eru kennd hér á landi svo gagn sé að. Sjómælingamenn og sjókortagerðarfólk LHG hefur sótt námskeið erlendis og er hér lögð til sú tilhögun að LHG kenni og gefi út starfsleyfi til þeirra sem starfa við sjómælingar eða sjókortagerð.
    Hugmyndir hafa verið uppi um möguleika á að auka hagkvæmni í starfsemi sjómælinga og því er þeirri leið haldið opinni að semja við innlend og erlend fyrirtæki og stofnanir um framkvæmd ákveðinna verkefna Sjómælinga Íslands í 4. mgr. 17. gr.

Um 18. gr.

    Sjá umfjöllun um 1. og 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Með greininni er LHG gert kleift að einfalda móttöku tilkynninga frá skipum með því að hafa eitt rafrænt tilkynningarform sem dómsmálaráðherra samþykkir. Er það í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 6/2002 frá 18. febrúar 2002, um kröfur til tilkynninga skipa sem sigla inn í höfn eða frá höfn í aðildarlöndum sambandsins, og reglugerð nr. 869/2004, um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Tilgangurinn með reglugerðinni er að einfalda hlutina fyrir skipstjóra sem sigla að eða frá landinu og er einnig gerð krafa um slíka einföldun í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
    Nauðsynlegt er að kveða á um til hvers má nota þær upplýsingar sem aflað er með fjareftirliti og tilkynningum skipa. Skv. 3. og 4. mgr. er heimilt að veita öðrum opinberum stofnunum upplýsingar vegna eftirlits og LHG er heimilt að nýta upplýsingarnar til fiskveiðieftirlits og björgunarstarfa og annars eftirlits á vegum ríkisins.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða núgildandi 4. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands.

Um 21. gr.

    Í 8. gr. núgildandi laga er kveðið á um að starfsmenn LHG skuli bera einkennisbúninga samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur. Hér er því engin breyting gerð á frá fyrri lögum nema hér er orðið reglugerð sett í stað reglna. Einnig er tekið fram að handhafar lögregluvalds skuli bera á sér sérstök skilríki við framkvæmd starfa sinna. Dómsmálaráðherra ákveði útlit, efni og notkun skilríkja með reglugerð. Sams konar regla er í 3. tölul. 13. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 22. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands megi hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun. Lagt er til að verkfallsbannið taki aðeins til þeirra starfsmanna sem sinna löggæslustörfum. Er þetta lagt til í ljósi þess að Landhelgisgæsla Íslands er öryggis- og björgunarstofnun og má alls ekki lamast vegna verkfalla.
    Þá er gert ráð fyrir að núgildandi 9., 10. og 11. gr., um laun og kjör starfsmanna LHG, verði felldar úr gildi með frumvarpi þessu. Hingað til hefur annar samningsaðila, ríkið, verið bundinn af því sem samið hefur verið um af þriðja aðila út frá öðrum rekstrarforsendum en við lýði eru innan ríkisstofnana. Það þykir ekki vera í samræmi við nútímann að hafa slík ákvæði um laun og kjör starfsmanna tiltekinnar stofnunar bundin í lögum. Er því lagt til að þessar greinar falli brott, þannig að í framtíðinni verði samið við viðkomandi stéttarfélög á grundvelli laga nr. 80/1938 eins og önnur stéttarfélög sem þar eiga undir, án beintengingar við kjarasamninga á hinum almenna markaði.

Um 23. gr.

    Í 13. gr. núgildandi laga um Landhelgisgæslu Íslands segir að um tryggingar starfsmanna skuli fara eftir lögum um almannatryggingar og viðkomandi kjarasamningum. Forstjóra skuli heimilt að tryggja sérstaklega þá starfsmenn sem mjög áhættusöm verk eiga að vinna.
    Í samráði við fjármálaráðuneytið hefur Landhelgisgæsla Íslands sagt upp öllum samningum við tryggingafélög um tryggingar fyrir starfsmenn og eru þær nú í eigin áhættu ríkisins. Það er eðlilegt þar sem það er meginreglan hjá ríkinu. Í stað þessa ákvæðis er lagt til sams konar ákvæði og er í lögreglulögunum, en óþarfi er að taka fram að tryggingar starfsmanna skuli fara eftir lögum um almannatryggingar og viðkomandi kjarasamningum eins og kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands.

Um 24. gr.

    Lagt er til að ákvæði um læknisskoðun verði áfram í lögum um Landhelgisgæslu Íslands og að við bætist heimild ráðherra til að gefa út reglur um lágmarkskröfur til heilsufars og líkamlegs atgervis starfsmanna sem teljast til starfsgengisskilyrða þeirra.

Um 25. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er fjallað um útgerð skipa og rekstur loftfara Landhelgisgæslu Íslands.
    Gert er ráð fyrir nýmæli í 1. mgr. greinarinnar um að bjóða megi út eða stofna hlutafélag um flugrekstur, skiparekstur eða tækniþjónustu LHG með skilyrðum sem dómsmálaráðherra setur að höfðu samráði við stofnunina. Æskilegt þykir í samræmi við almenn viðhorf um þróun ríkisrekstrar og sveigjanleika innan hans að setja skýra heimild í lögum hvað þetta atriði varðar. Jafnframt gefur þessi heimild LHG meira svigrúm en ella væri til þess að sinna þeim verkefnum sem henni ber að sinna lögum samkvæmt. Heimildin gefur tækifæri til þess að treysta rekstrargrundvöll Landhelgisgæslu Íslands og nýta tækjabúnað hennar til fjölbreyttari verkefna í framtíðinni án þess þó að til skörunar kæmi á samkeppnismarkaði. Með þessu er stefnt að því markmiði að auka hagkvæmni og hagræðingu í rekstri og um leið að einfalda rekstrargrundvöll starfseminnar.
    Þá er í 4. mgr. lagt til það nýmæli að LHG skuli hafa leyfi fyrir þeirri flugstarfsemi sem haldið er úti hverju sinni og lýtur eftirliti Flugmálastjórnar Íslands þegar við á, enda takmarka loftferðalög ekki lögsögu stofnunarinnar í þeim efnum.
    Undanfarin ár hefur flugdeild LHG unnið að því að auka öryggi flugrekstrarins. Það hefur verið gert með samningu sérstakrar flugrekstrarhandbókar og vottun flugtæknideildar samkvæmt stöðlum Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA).

Um 26. gr.

    Greinin er nýmæli. Nú eru í gildi lög um ráðstafanir til varnar því að skipum sé leiðbeint við ólöglegar fiskveiðar, nr. 83/1936, og á þetta ákvæði að koma í stað þeirra laga en lagt er til að þau verði afnumin, sbr. 30. gr. frumvarpsins.
    Vegna verkefna LHG er nauðsynlegt að ákveðin leynd hvíli yfir ferðum bæði skipa og loftfara LHG og ekki sé greint frá þeim nema með heimild LHG. Landhelgisgæsla Íslands verður að geta metið það hverju sinni hvort og hvenær æskilegt er að segja frá ferðum varðskipa og loftfara stofnunarinnar.

Um 27. gr.

    Í greininni er kveðið á um Landhelgissjóð og hlutverk hans og er ákvæðið efnislega það sama og í núgildandi 17.–19. gr. Aðeins er um orðalagsbreytingar að ræða.

Um 28. gr.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

Um 29. gr.

    Hér er fjallað um refsiheimildir vegna brota gegn eftirtöldum ákvæðum: Um skyldu til að hlýða fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands, sbr. 7. gr. frumvarpsins, um rannsókn um borð í skipi og yfirtöku á stjórn skips, sbr. 9. gr., um skyldu til að aðstoða Landhelgisgæslu Íslands, sbr. 10. gr., banni við að tálma Landhelgisgæslu Íslands í störfum sínum, sbr. 11. gr., banni við að fara í verkfall eða taka þátt í verkfallsboðunum, sbr. 22. gr., og banni við að greina opinberlega frá ferðum skipa og loftfara Landhelgisgæslunnar, sbr. 26. gr. frumvarpsins.

Um 30. gr.

    Í greininni er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 2006 en þann dag á Landhelgisgæsla Íslands 80 ára afmæli. Íslenska ríkið tók við rekstri björgunarskipsins Þórs 1. júlí 1926 af Björgunarfélagi Vestmannaeyja og hefur sá dagur verið valinn sem stofndagur Landhelgisgæslu Íslands. Þá er lagt til að lög um ráðstafanir við því að skipum sé leiðbeint við ólöglegar fiskveiðar, nr. 83/1936, falli niður, enda komi 26. gr. frumvarpsins í stað þeirra laga.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Landhelgisgæslu Íslands.

    Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á lögum um Landhelgisgæslu Íslands til að laga þau að breyttum aðstæðum. Í frumvarpinu eru tilgreind ýmis verkefni sem ekki eru nefnd í núgildandi lögum en er þegar sinnt hjá Landhelgisgæslunni og felur það því ekki í sér neinar teljandi breytingar á starfseminni. Sérstaklega er kveðið á um heimild stofnunarinnar til að gera þjónustusamninga um lögbundin verkefni sín og auk þess lagt til að lögfest verði heimild fyrir stofnunina til þess að semja um að taka að sér ólögbundin verkefni. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að bjóða út eða stofna hlutafélag um flug- og skiparekstur og tækniþjónustu í þágu Landhelgisgæslunnar og að einnig verði heimilt að semja við aðra aðila um framkvæmd sjómælinga eða stofna hlutafélag um þau verkefni. Í frumvarpinu eru ákvæði sem ætlað er að treysta grundvöll fyrir gjaldtöku við sölu á upplýsingum um sjómælingar. Loks má nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að felld verði úr gildi lagaákvæði um að laun og kjör starfsmanna sem vinna á sjó eða í lofti taki mið af samningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði þannig að ríkið gangi framvegis til samninga við viðkomandi stéttarfélög á sama hátt og á við um félög starfsmanna annarra ríkisstofnana.
    Frumvarpið felur í sér heimildir fyrir aukið svigrúm til að þróa rekstrarfyrirkomulag Landhelgisgæslunnar og laga það að aðstæðum á hverjum tíma. Verkefnin verða þó þau sömu og áður og ákvæði frumvarpsins sem slík gefa ekki tilefni til þess að ætla að sérstakar breytingar verði á tekjum eða útgjöldum stofnunarinnar. Gera verður ráð fyrir að slík áform komi fram í árlegu fjárlagafrumvarpi í samræmi við útgjaldaramma dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.