Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 401. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 1037  —  401. mál.
Texti felldur brott.




Nefndarálit



um frv. til l. um Ríkisútvarpið hf.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon hrl., Jón Sveinsson hrl., Pál Magnússon útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, Björgu Evu Erlendsdóttur og Þórdísi Arnljótsdóttur frá Félagi fréttamanna Ríkisútvarpsins, G. Pétur Matthíasson fréttamann, Jóhönnu Margréti Einarsdóttur og Jórunni Sigurðardóttur frá Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, Gunnar Magnússon, Sigrúnu Elíasdóttur og Ólöfu Svavarsdóttur frá Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins, Bergljótu Baldursdóttur frá Útgarði, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Halldóru Friðjónsdóttur og Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins, Davíð Þorláksson frá Viðskiptaráði, Árna Pál Árnason hdl., Gísla Tryggvason frá Talsmanni neytenda, Magnús Ragnarsson frá Skjá einum, Ara Edwald og Dóru Sif Tynes frá 365 ljósvakamiðlum, Margréti Sverrisdóttur og Þorgrím Gestsson frá Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, Arnþrúði Karlsdóttur og Pétur Gunnlaugsson frá Útvarpi Sögu, Sigurjón Högnason frá embætti ríkisskattstjóra, Guðberg Davíðsson frá Félagi kvikmyndagerðamanna, Hjálmtý Heiðdal og Kristínu Atladóttur frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Þröst Ólafsson framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Hrafnkell Orra Egilsson og Sigurð Bjarka Gunnarsson frá Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá útvarpstjóra Ríkisútvarpsins, Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins, Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, Félagi fréttamanna Ríkisútvarpsins, Útgarði, Bandalagi háskólamanna og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, útvarpsréttarnefnd, Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, 365 ljósvakamiðlum, Skjánum, Útvarpi Sögu, Blaðamannafélagi Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands, Talsmanni neytenda, Neytendasamtökunum, Reykjavíkurborg, Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, ríkisskattstjóra, Landssambandi lögreglumanna, ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Íslenskri málstöð, íslenskuskor Háskóla Íslands, Orðabók Háskólans, Landssambandi eldri borgara, Öryrkjabandalagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Höfundaréttarfélagi Íslands, Rithöfundasambandi Íslands, Framleiðendafélaginu SÍK, Félagi kvikmyndagerðarmanna og Bandalagi íslenskra listamanna.
    Með frumvarpinu er lagt til að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og að hlutafélag verði stofnað um rekstur hennar, en það felur í sér breytingu frá stjórnarfrumvarpi sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi. Með frumvarpinu hefur verið tekið tillit til athugasemda erlendra eftirlitsstofnana vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum, en þær lúta fyrst og fremst að breytingum á skilgreiningu á hugtakinu „útvarpsþjónusta í almannaþágu“, sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins, eins og nánar er getið um hér að aftan.
    Við meðferð málsins innan nefndarinnar komu fram athugasemdir sem vörðuðu mikilvægi þess að bæta inn í frumvarpið ákvæði sem hefði það að markmiði að tryggja sjálfstæði ritstjórna fjölmiðla í störfum sínum. Eins og kunnugt er vinnur nefnd á vegum menntamálaráðherra um þessar mundir að samningu frumvarps til laga um fjölmiðla. Samkvæmt upplýsingum sem nefndinni bárust frá ráðuneytinu mun það frumvarp kveða á um almennar reglur um starfsemi fjölmiðla, þ.m.t. um starfsemi Ríkisútvarpsins. Var nefndin upplýst um það á fundi nefndarinnar að í því frumvarpi yrði að finna almennar reglur sem tryggja ættu sjálfstæði ritstjórna ljósvaka- og prentmiðla og tillögur að slíkum reglum voru kynntar nefndarmönnum. Í ljósi þessara upplýsinga og þar sem fyrirhugað frumvarp mun mæla fyrir um almennar reglur um starfsemi fjölmiðla, m.a. um sjálfstæði ritstjórna ljósvaka- og prentmiðla, telur meiri hlutinn ekki tilefni til að setja slík ákvæði inn í sérlög um Ríkisútvarpið hf., sem kveður fyrst og fremst á um breytt rekstrarform stofnunarinnar.
    Á fundum nefndarinnar komu fram ýmsar upplýsingar varðandi núverandi rekstur Ríkisútvarpsins, svo og þær breytingar sem hið nýja frumvarp mun hafa í för með sér. Varðandi virðisaukaskattskil Ríkisútvarpsins hf. kom m.a. fram að við skoðun á talnalegum gögnum um virðisaukaskattskil Ríkisútvarpsins undanfarin ár yrði ekki annað séð en að tekjur af virðisaukaskattskyldri sölu Ríkisútvarpsins hf., annarri en afnotagjöldum, yrðu hærri en aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Þetta þýðir að útskattur hefur verið hærri en innskattur, jafnvel þó að útskattur vegna afnotagjalda hafi ekki verið tekinn með í reikninginn. Ekki verður séð að breytt fjármögnun úr afnotagjöldum yfir í nefskatt breyti neinu í þessu efni. Virðisaukaskattur vegna afnotagjalda Ríkisútvarpsins hefur verið um 350 millj. kr. Á síðasta ári var útskattur af annarri sölu en afnotagjöldum 243,7 millj. kr. á ári en heildarinnskattur 199,8 millj. kr. Það þýðir að skil Ríkisútvarpsins hf. á virðisaukaskatti eftir breytingu (þ.e. án afnotagjalda) verða að jafnaði 43,9 millj. kr. Undanfarin þrjú ár hefur virðisaukaskattskyld velta að frátöldum afnotagjöldum numið 18–20% hærri fjárhæð en nemur þeim kostnaði er innskattur hefur verið reiknaður af. Að mati meiri hlutans er því ljóst að miðað við núverandi stöðu á Ríkisútvarpið hf. rétt á skráningu á grunnskrá virðisaukaskatts, á grundvelli 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Til þess að álitamál vakni upp á næstu árum um hvort Ríkisútvarpið hf. uppfylli áfram skilyrði skráningar á virðisaukaskattsskrá þarf, samkvæmt fyrirliggjandi talnalegum upplýsingum, umtalsverða lækkun tekna af auglýsingum og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni (þ.e. lægri útskatt), og/eða umtalsverða hækkun á kostnaði vegna aðfanga sem bera virðisaukaskatt (þ.e. aukinn innskatt). Ríkisútvarpið hf. mun því hafa nokkurt svigrúm til breytinga í rekstri (t.d. aukinna innkaupa eða lækkunar auglýsingatekna) án þess að það hafi áhrif á rétt hlutafélagsins til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts. Móttaka skattfjár til að standa undir útvarpi í almannaþjónustu skv. 3. gr. frumvarpsins, ásamt tekjum af annarri virðisaukaskattskyldri starfsemi sbr. 4. og 5. gr. frumvarpsins, hefur ekki í för með sér að litið verði svo á að Ríkisútvarpið hf. sé í blandaðri starfsemi í skilningi laga um virðisaukaskatt. Útvarpsþjónusta fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts eins og sviðið er afmarkað í 2. gr. laga nr. 50/1988. Móttaka skattfjár felur ekki í sér blöndun starfsemi og hefur þar af leiðandi ekki í för með sér takmörkun á innskattsrétti.
    Eins og áður segir var með framlagningu frumvarps þessa tekið tillit til athugasemda erlendra eftirlitsstofnana vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum, sem færðar voru fram í tengslum við það stjórnarfrumvarp sem lagt var fram um Ríkisútvarpið sf. á síðasta löggjafarþingi. Við meðferð frumvarpsins var upplýst að fulltrúar menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hefðu átt fund og verið í bréfaskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Þau samskipti hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að meiri hlutinn telur æskilegt að gera breytingar á 3., 4. og 7. gr. frumvarpsins. Breytingarnar leiða til þess að inntak hugtaksins „útvarpsþjónusta í almannaþágu“, sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins, verður þrengt, þar sem lagt er til að þeir þættir sem nefndir eru í 13. og 14. tölul. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins teljist til annarrar starfsemi félagsins samkvæmt 4. gr., en ekki til „útvarpsþjónustu í almannaþágu“ eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Verði breytingin samþykkt felur hún það í sér í framkvæmd að félaginu verður skylt að halda fjárreiðum vegna þeirra töluliða sem að ofan eru greindir, og ekki teldust lengur til „útvarpsþjónustu í almannaþágu“ samkvæmt 3. gr. frumvarpsins, aðskildum frá fjárreiðum rekstrar sem fellur undir 3. gr. þess. Samkvæmt því verður félaginu óheimilt að nota fjármuni frá rekstri sem telst til útvarpsþjónustu í almannaþágu til þess að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi, þar á meðal starfsemi sem teldist vera í samkeppnisrekstri.
    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um samvinnu um dagskrárgerð o.fl. og hefur Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, gert athugasemdir við 2. mgr. ákvæðisins sem heimilar félaginu að leigja öðrum aðilum afnot af tækjabúnaði sínum til útsendingar. Telur stofnunin að fella eigi umrætt ákvæði inn í 4. gr. frumvarpsins um aðra starfsemi félagsins. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið bent á að allt eins megi fella út 7. gr. frumvarpsins, en auk 2. mgr. kveður 1. mgr. á um að félagið skuli kosta kapps um að hafa samvinnu við aðra aðila um dagskrárgerð og útsendingar. Engin laganauðsyn sé að hafa slíkt ákvæði, en félagið verði að gæta þess í framkvæmd að öll sú starfsemi sem fellur fyrir utan almannaþjónustuhlutverk félagsins, verði að vera aðskilin í bókhaldi og reikningsskilum félagsins frá almannaþjónustuhlutverkinu. Meiri hlutinn leggur því til að 7. gr. frumvapsins falli brott.
    Að teknu tilliti til umsagna og annarra athugasemda leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingar, sbr. það sem að framan greinir:
     1.      Að ákvæði 13. og 14. tölul. 3. gr. falli brott.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 4. gr. Í fyrsta lagi að við 4. gr. bætist 2. mgr. svohljóðandi: „Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.“ Í öðru lagi að við 4. gr. bætist 3. mgr. svohljóðandi: „Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að sjá til þess að frumflutt dagskrárefni félagsins verði varðveitt til frambúðar. Er félaginu enn fremur heimilt að hafa til útláns, sölu og dreifingar valið dagskrárefni sem flutt hefur verið, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.“
     3.      Lögð er til sú breyting að 7. gr. falli brott.
     4.      Lagt er til að 2. mgr. 14. gr. verði svohljóðandi: „Með lögum þessum eru felld úr gildi lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, frá og með 1. júlí 2006, að undanteknum eftirtöldum ákvæðum: 12., 13., 14. og 16. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2008, og 15., 17. og 18. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2011. Heiti þeirra laga verður: Lög um útvarpsgjald og innheimtu þess. Skulu lögin gefin út svo breytt með nýjum greinanúmerum.“
    Þær breytingar sem felast í 1.– 3. tölul. eru tilkomnar vegna athugasemda sem fram komu í umsögnum og öðrum gögnum sem bárust á meðan frumvarpið var til meðferðar hjá þinginu. Hvað breytinguna í 4. tölulið varðar þá er talið nauðsynlegt að fella ekki lög nr. 122/2000 úr gildi samhliða því að frumvarp þetta verður að lögum þar sem tíma þarf til að stofna hlutafélagið formlega og annast skráningu þess hjá hlutafélagaskrá. Af þeim sökum er lagt til að í nokkra mánuði, þ.e. frá gildistöku hinna nýju laga til 1. júlí nk., gildi lög nr. 122/2000 og lög um Ríkisútvarpið hf. um starfsemi stofnunarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Alþingi, 29. mars 2006.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Birgir Ármannsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.