Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 1039  —  402. mál.
Texti felldur brott.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Þröst Ólafsson, framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Hrafnkel Orra Egilsson og Sigurð Bjarka Gunnarsson frá starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Pál Magnússon, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, og Stefán Jón Hafstein frá Reykjavíkurborg.
    Umsagnir bárust nefndinni frá stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, Viðskiptaráði Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Íslenskri málstöð og Bandalagi íslenskra listamanna.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið hf. og felur í sér tillögu um niðurfellingu greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og einnig að greiðsluþátttaka Seltjarnarnesbæjar verði felld niður.
    Í kjölfar niðurfellingar greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins er eðlilegt að Ríkisútvarpið eigi ekki lengur fulltrúa í stjórn hljómsveitarinnar, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á verkefnavalsnefnd skv. 7. gr. laganna þannig að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar sé heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveður nánar um skipulag og hlutverk nefndarinnar.
    Meiri hlutinn telur einnig að lagfæra þurfi 4. mgr. 3. gr. laganna er varðar samning milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins um réttindi Ríkisútvarpsins varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar. Ekki verður lengur um að ræða flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar „á móti framlagi útvarpsins“ eins og fram kemur í ákvæðinu þar sem greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins fellur niður og leggur því nefndin til breytingartillögu þess efnis að Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið hf. geri með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar til að tryggja áframhaldandi samstarf. Nefndin hefur fengið þær upplýsingar að vilji sé hjá viðkomandi aðilum til að viðhalda samstarfi um flutning tónlistarefnis hljómsveitarinnar og frekar að auka hann en minnka.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Alþingi, 29. mars 2006.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.Birgir Ármannsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.