Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1041  —  433. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um háskóla.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra, Val Árnason og Hellen M. Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti, Þórð S. Gunnarsson deildarforseta lagadeildar og Þorlák Karlsson deildarforseta viðskiptadeildar frá Háskólanum í Reykjavík, Skúla Skúlason frá Hólaskóla, Þorstein Gunnarsson frá Háskólanum á Akureyri, Hjálmar H. Ragnarsson og Gunnar Jóhann Birgisson frá Listaháskóla Íslands, Kristínu Ingólfsdóttur rektor og Þórð Kristinsson frá Háskóla Íslands og Hauk Loga Karlsson, formann Bandalags íslenskra námsmanna.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Kennaraháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Viðskiptaháskólanum á Bifröst, Hólaskóla, Landbúnaðarháskóla Íslands, Félagi háskólakennara og félagi prófessora við Háskóla Íslands, Bandalagi íslenskra námsmanna, Samtökum atvinnulífsins og vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs.
    Frumvarpið felur í sér rammalöggjöf um háskóla og er afrakstur nefndar sem menntamálaráðherra skipaði í maí 2005 til að endurskoða núgildandi lög nr. 136/1997, um háskóla.
    Í nefndinni komu upp umræður um akademískt frelsi háskólanna og starfsmanna þeirra og hvort tilgreina eigi það sérstaklega í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar er sú að mikilvægt sé að frelsi háskólanna í fræðilegu tilliti sé tryggt gagnvart stjórnvöldum, eigendum háskóla og öðrum utanaðkomandi aðilum, en jafnframt að mikilvægt sé að háskólarnir sjálfir tryggi akademískt (fræðilegt) frelsi þeirra sem við skólana starfa. Mikilvægt sé að skólarnir setji sér þær siðareglur sem kveðið er á um í 2. málsl. 3. mgr. 2. gr. og meiri hlutinn leggur því til breytingartillögu um að háskólar „skuli“ setja sér þær siðareglur. Nefndin fékk þær upplýsingar að nefndin sem vann að samningu frumvarpsins hefði einnig velt fyrir sér tilhögun á fræðilegu frelsi og hefði verið á sömu skoðun, þ.e. að tryggja þurfi þetta frelsi skólanna út á við gagnvart stjórnvöldum, eigendum eða öðrum, en ekki síður hvað varðar stöðu starfsmanna gagnvart yfirvöldum og stjórnendum hvers skóla. Við samningu ákvæðisins var litið til sambærilegra ákvæða í erlendum lögum, einkum í Noregi og Danmörku, og er það álit nefndarinnar að fræðilegt frelsi verði ekki síður tryggt í íslenskri löggjöf með þeim ákvæðum sem er að finna í frumvarpinu. Því telur meiri hlutinn að það sé forsenda viðurkenningar samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr., þar sem fjallað er um að háskóli verði að fullnægja þáttum er varða hlutverk og markmið háskóla, að háskóli setji sér reglur sem tryggja með fullnægjandi hætti það markmið 3. mgr. 2. gr. að háskólar virði í hvívetna sjálfstæði starfsmanna sinna í fræðilegu tilliti. Skóli, sem ekki virðir þetta frelsi, hljóti því ekki viðurkenningu menntamálaráðherra sem háskóli, eða geti átt á hættu að viðurkenning verði afturkölluð, sbr. 4 gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru engin ákvæði er lúta að fötluðum nemendum og en meiri hlutinn telur rétt að tryggja réttarstöðu þeirra betur. Nefndin fékk þær upplýsingar að við samningu frumvarpsins hefði ekki verið rætt hvort tryggja ætti betur að fatlaðir eigi þess kost að stunda nám við háskólana. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu að fatlaðir nemendur verði sérstaklega tilgreindir í f-lið 3. mgr. 3. gr. sem fjallar m.a. um aðstöðu og þjónustu við nemendur. Með framangreindri breytingu er áréttað sérstaklega að tekið verði tilllit til aðstöðu fyrir fatlaða nemendur við mat á því hvort háskóli skuli hljóta viðurkenningu skv. 3. gr.
    Nokkrar ábendingar bárust nefndinni varðandi 9. mgr. 3. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að menntamálaráðherra setji reglur um erlendar þýðingar á heitum þeirra háskóla sem hann veitir viðurkenningu. Ábendingarnar lutu einkum að því að erlendis væri gerður greinarmunur á heitum skóla á háskólastigi í samræmi við eðli þeirra og starfsemi. Meiri hlutinn telur þrátt fyrir framangreindar athugasemdir ekki hægt að breyta þeirri þróun sem orðið hefur hér á landi að margir fagskólar nefni sig háskóla. Meiri hlutinn bendir þó á að í öðrum löndum, t.d. í Danmörku, eru því settar skorður hvaða heiti háskólar kjósa sér á öðrum tungumálum. Þannig geta háskólar t.d. ekki kallað sig „university“ í enskri þýðingu. Miðað er við að hið sama muni gilda hér á landi ef slík nafngift samræmist ekki hlutlægum forsendum sem sérstakar reglur, sem menntamálaráðherra setur samkvæmt frumvarpinu, kveða á um.
    Í nefndinni var rætt um lokamálslið 1. mgr. 12. gr. sem fjallar um að tryggja skuli virka þátttöku starfsmanna og nemenda í innra gæðastarfi háskóla, „eftir því sem við á“. Meiri hlutinn telur að ekki komi nægilega skýrt fram við hvað er átt með orðalaginu „eftir því sem við á“ en nefndin fékk þær upplýsingar að ástæðan fyrir þessum fyrirvara varðandi innra gæðamat sé að ekki sé sjálfgefið að einstakir hópar, svo sem nemendur, kennarar eða aðrir, komi að öllum þáttum í framkvæmd sjálfsmats eða innra gæðamats. Má þar nefna sem dæmi ýmis atriði sem varða fjárhagsmálefni. Að jafnaði er þó æskilegt að þátttaka nemenda, kennara og annarra í framkvæmd innra gæðamats sé sem almennust, og er það í fullu samræmi við Björgvinjar-samþykkt menntamálaráðherra aðildarríkja Bologna-ferlisins frá því í maí 2005.
    Þó nokkur umræða var í nefndinni um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna sem er nýmæli í frumvarpinu og mikilvægi þess að eftirlitið verði reglubundið. Samkvæmt 13. gr. frumvarpsins ákveður menntamálaráðherra hvenær ytra mat á gæðum kennslu og rannsókna fer fram og gerir áætlanir um slíkt mat til þriggja ára. Meiri hlutinn telur að efni og tilgangur frumvarpsins sé að hafa reglubundið eftirlit og það komi nægilega skýrt fram í 13. gr. að það fari fram á þriggja ára fresti. Enn fremur kemur fram að menntamálaráðherra geti ákveðið að láta fara fram sérstakt mat á háskóla eða einstökum einingum hans ef ástæða þykir til. Þá ræddi nefndin um hver ætti að hafa eftirlitið með höndum en í 14. gr. frumvarpsins er tekið fram að menntamálaráðherra geti falið nefnd, stofnun, fyrirtæki eða öðrum til þess bærum aðilum, innlendum eða erlendum, að annast almenna umsýslu með ytra mati. Meiri hlutinn telur þessu eftirliti best komið fyrir hjá sjálfstæðum og óháðum aðilum og að ekki sé tilefni til að setja sérstaka stofnun á fót til sjá um framangreint eftirlit.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar:
     1.      Við upptalningu í 1. mgr. 2. gr., um hlutverk stofnunarinnar, verði því bætt við að skólinn sinni einnig varðveislu þekkingar en ekki eingöngu þekkingarleit eins og nú er gert ráð fyrir í frumvarpinu.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 3. gr. Í fyrsta lagi að orðalag 2. málsl. 3. mgr. verði lagfært þannig að skýrt komi fram að skilyrði sem háskólar skulu fullnægja til að öðlast viðurkenningu komi fram í reglum menntamálaráðherra en þurfi að lúta að þeim þáttum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Í öðru lagi er lögð til breyting á f-lið 3. mgr. sem felur í sér viðbót um aðstöðu fatlaðra nemenda. Með þeirri breytingu er gerður sá áskilnaður að háskóli öðlist ekki viðurkenningu menntamálaráðherra nema hann tryggi aðstöðu til að taka á móti fötluðum nemendum. Í þriðja lagi er lögð til viðbót við 1. málsl. 8. mgr., þess efnis að viðurkenning á háskóla feli í sér staðfestingu á því að starfsemi viðkomandi skóla sé í samræmi við þær reglur sem settar kunna að vera með stoð í lögunum auk þess að vera í samræmi við lögin.
     3.      Lögð er til breyting á 20. gr. frumvarpsins er fjallar um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema. Í stað þess að tilgreina þau atriði sem áfrýjunarnefndin úrskurðar um eins og nú er gert í 2. mgr. telur meiri hlutinn að heppilegra sé að vísa í ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga og taka sérstaklega fram að málum háskólanema verði ekki skotið til nefndarinnar nema fyrir liggi endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemenda. Þó verði nemandanum heimilt að bera undir nefndina hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni. Með framangreindri breytingu er tekinn af allur vafi um málefni áfrýjunarnefndarinnar. Nefndinni bárust ábendingar um að upptalningin í 2. mgr. og málsmeðferð samkvæmt 4. mgr. hefðu valdið vafa í framkvæmd vegna óskýrleika en framangreind ákvæði voru áður í reglum nr. 73/1999, um hlutverk og störf áfrýjunarnefndarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. mars 2006.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Dagný Jónsdóttir.Kjartan Ólafsson.


Birkir J. Jónsson.