Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 714. máls.

Þskj. 1050  —  714. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Úrvinnslugjald sem lagt er á pappa-, pappírs- og plastumbúðir skal standa undir greiðslum við að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem fellur til vegna framangreindra umbúða.

2. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Fjárhæð úrvinnslugjalds vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða skal taka mið af áætlun Úrvinnslusjóðs um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu, sbr. 3. mgr. 3. gr., svo og greiðslur vegna flutninga umbúðaúrgangs innan lands.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. a laganna:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem verða 2. og 3. mgr. og orðast svo:
                  Úrvinnslusjóður ákveður, í samræmi við áætlun sína um að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu, fyrir hvaða tegundir umbúðaúrgangs sem úrvinnslugjald er lagt á, sbr. 3. mgr., hann greiðir.
                  Margnota flutnings- og safnumbúðir sem fluttar eru úr landi til endurnotkunar hjá birgjum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Undanþágan er bundin því skilyrði að innflytjandi lýsi því yfir í aðflutningsskýrslu, með þeim hætti sem tollstjórinn í Reykjavík ákveður, að umbúðirnar verði sannanlega fluttar úr landi til endurnotkunar hjá birgjum og komi ekki til úrvinnslu hér á landi.
     b.      3. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     c.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Pappa-, pappírs- og plastumbúðir í eftirtöldum tollskrárnúmerum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi að því skilyrði uppfylltu að innflytjandi gefi yfirlýsingu í aðflutningsskýrslu, sbr. 3. mgr., um að viðkomandi vara verði sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi.
     d.      Við 4. mgr. bætast eftirfarandi tollskrárnúmer: 3920-1009, 3919-1000.
     e.      Á eftir 4. mgr. bætast nýjar málsgreinar sem verða 7.–10. mgr. og orðast svo:
                  Innlendir framleiðendur greiða ekki úrvinnslugjald vegna gjaldskyldra umbúða sem notaðar eru utan um vörur sem sannanlega eru fluttar úr landi, sbr. 6. mgr.
                  Framleiðendur og innflytjendur skulu við útgáfu reiknings tilgreina með skýrum hætti ef umbúðir eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Kaupandi skal staðfesta með móttökukvittun á viðkomandi reikningi að keyptar umbúðir fari til útflutnings. Endanleg yfirlýsing kaupanda er staðfest við greiðslu reiknings. Kaupandi er ábyrgur, gagnvart innheimtumönnum ríkissjóðs, að umbúðir keyptar án úrvinnslugjalds fari til útflutnings.
                  Skattstjóra er heimilt að gefa út úrvinnslugjaldsskírteini til þeirra er flytja inn umbúðir úr pappír, pappa eða plasti sem seldar eru til þriðja aðila. Forsenda heimildar er að umbúðirnar séu utan um vörur til útflutnings eða til nota utan um vörur er fara á innanlandsmarkað og að umsækjandi hafi atvinnu af innflutningi og sölu úrvinnslugjaldsskyldra umbúða. Skírteinið veitir innflytjanda heimild til að flytja inn umbúðir án úrvinnslugjalds. Sækja þarf um úrvinnslugjaldsskírteini á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
                  Ef handhafi úrvinnslugjaldsskírteinis tekur til eigin nota vörur sem úrvinnslugjald hefur verið fellt niður af á grundvelli skírteinisins skal hann á næsta gjalddaga almenns uppgjörstímabils standa skil á úrvinnslugjaldi vegna þeirra nota.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sín á milli“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: við Úrvinnslusjóð.
     b.      Á eftir 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal umhverfisráðherra staðfesta samninginn.

5. g r .


    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Aðilar sem eru gjaldskyldir skv. 3. tölul. 1. mgr. skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en úrvinnslugjaldsskyld starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem aðili hefur lögheimili.
     b.      Á eftir orðinu „innheimtu“ í 4. mgr. kemur: gjaldskyldu, tilhögun bókhalds.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „30“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 60.
     b.      Á eftir orðinu „skýrsla“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: vegna innlendrar framleiðslu.
     c.      Í stað orðsins „kærufrests“ í 5. málsl. 1. mgr. kemur: gagnaöflunar.
     d.      Í stað greinartölunnar „101“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 118.

7. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
    Úrvinnslusjóði ber að ná á landsvísu tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu.

8. gr.

    Við 21. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Ráðherra skal að fengnum tillögum Úrvinnslusjóðs og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja reglugerð um nánari útfærslu á greiðslu kostnaðar við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, sbr. 2. mgr. 3. gr.
    Ráðherra skal að fengnum tillögum Úrvinnslusjóðs setja reglugerð um hvernig standa skuli að greiðslum til að ná þeim tölulegu markmiðum sem sett eru um endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem fellur til vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða, sbr. 3. mgr. 3. gr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 9. og 10. mgr. 7. gr. a, er varða úrvinnslugjaldsskírteini, öðlast þó gildi 1. júní 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að það verði hlutverk Úrvinnslusjóðs en ekki sveitarfélaga að ná tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu. Einnig eru lagðar til breytingar er varða margnota flutnings- og safnumbúðir, heimild til yfirfærslu ábyrgðar á greiðslu úrvinnslugjaldi frá framleiðanda og innflytjanda til kaupanda, ákvæði um sérstakt úrvinnslugjaldsskírteini auk annarra breytinga er varða m.a. tengsl við ný tollalög.
    Helsta breytingin sem lögð er til í frumvarpi þessu er um breytta verkaskiptingu milli sveitarfélaga og Úrvinnslusjóðs og er byggð á tillögum nefndar sem umhverfisráðherra skipaði. Nefndinni var falið það verkefni að gera tillögur um skýra verka- og kostnaðarskiptingu milli Úrvinnslusjóðs og sveitarfélaga um þær tegundir úrgangs sem falla undir lög um úrvinnslugjald. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Úrvinnslusjóðs og Samtaka atvinnulífsins. Tillögur nefndarinnar byggjast á því sjónarmiði að auka ábyrgð framleiðenda á vörum sínum eftir að þær eru orðnar að úrgangi. Nefndin lagði til að Úrvinnslusjóður hefði það hlutverk að ná tilteknum tölulegum markmiðum um endurvinnslu og endurnýtingu pappa-, pappírs-, og plastumbúðaúrgangs sem til er kominn vegna umbúða sem falla undir lög um úrvinnslugjald. Sjóðnum beri að ná á landsvísu þeim tölulegum markmiðum, sem tilgreind eru í reglugerð um meðhöndlun úrgangs 737/2003, á eins hagkvæman hátt og mögulegt er.
    Þannig var lagt til að sveitarfélögum bæri ekki lengur að ná framangreindum markmiðum hvert á sínu svæði. Sveitarfélög beri eftir sem áður þá skyldu að minnka það magn úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar. Jafnframt þurfa sveitarfélög í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs að gera grein fyrir leiðum til að auka endurnotkun og endurnýtingu úrgangs, svo og förgunarleiðum. Þá var einnig tekið mið af tillögum nefndar sem fjallaði um framkvæmd móttöku á pappa- og plastumbúðum sem berast með söfnunarkerfi sveitarfélaga og starfaði samkvæmt 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög um úrvinnslugjald.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til nokkrar breytingar sem unnar hafa verið í samstarfi við Úrvinnslusjóð, fjármálaráðuneytið, tollstjórann í Reykjavík og ríkisskattstjóra. Tillögur þessar miða að því að bæta og liðka fyrir innheimtu og álagningu á úrvinnslugjaldi, sérstaklega varðandi gjald á pappa-, pappírs- og plastumbúðir og ríkir mikil sátt um þær. Nánar verður fjallað um þær í athugasemdum við einstakar greinar.

Tillögur um breytta ábyrgðarskiptingu.
i. Gildandi löggjöf.

    Lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, fjalla m.a. um ábyrgð sveitarfélaga og lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, m.a. um verkefni Úrvinnslusjóðs. Í lögum um meðhöndlun úrgangs er tekið fram að Umhverfisstofnun skuli gefa út almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs. Í þessari áætlun eiga að koma fram þær kröfur sem settar eru í lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 5. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, eru ákvæði er setja markmið varðandi úrvinnslu lífræns úrgangs, umbúðaúrgangs, úr sér genginna ökutækja og raf- og rafeindatækjaúrgangs. Umhverfisstofnun hefur gefið út landsáætlun sem gildir fyrir árin 2004–2016. Framangreindar kröfur hafa verið settar í landsáætlun varðandi umbúðaúrgang. Sveitarstjórnir skulu semja og staðfesta áætlanir fyrir viðkomandi svæði byggðar á markmiðum landsáætlunar og skal þar koma fram hvernig sveitarfélagið hyggst ná markmiðum landsáætlunar, sbr. 4. mgr. 3. gr. laganna.
    Álagning úrvinnslugjalds samkvæmt lögum um úrvinnslugjald hefur hingað til miðast við kostnað við ráðstöfun flokkaðs úrgangs sem sveitarfélög hafa safnað en ekki við ákveðin markmið um árangur, enda er það sveitarfélaganna lögum samkvæmt að uppfylla skyldur um að ná ákveðnum markmiðum. Úrvinnslusjóði ber að greiða fyrir „meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð“, flutning o.s.frv. vegna þess úrgangs sem ber úrvinnslugjald án tillits til þess hvar á landinu úrgangurinn myndast og hversu miklu er safnað. Helsta vandamál sem upp kemur er að Úrvinnslusjóður verður að greiða fyrir ráðstöfun úrgangsflokka sem úrvinnslugjald er greitt af, án tillits til tölulegra markmiða. Ná verður markmiðum í hverju einstöku sveitarfélagi eða a.m.k. á svæði hverrar svæðisáætlunar. Úrvinnslusjóður verður að greiða fyrir úrvinnslu þó svo söfnun fari yfir þau tölulegu markmið sem sett hafa verið. Í öðrum flokkum úrgangs sem til er kominn vegna vara sem bera úrvinnslugjald, eins og t.d. hjólbarða og vara sem verða að spilliefnum, er gert ráð fyrir að öllum slíkum úrgangi sé safnað og komið í endanlega förgun eða endurnýtingu.
    
ii. Úrgangur þar sem ná þarf tilteknum tölulegum markmiðum.
    Lagt er til nýtt fyrirkomulag varðandi úrgangsflokka þar sem ná á tilteknum tölulegum markmiðum um endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs sem heimilt er að urða og sem tilkominn er vegna vara sem bera úrvinnslugjald. Undir þessa flokka falla pappa-, pappírs- og plastumbúðir sem falla undir 7. gr. a í gildandi lögum og heyrúlluplast, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna. Lagt er til að Úrvinnslusjóður hafi það hlutverk að ná settum tölulegum markmiðum sem fram koma í reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, og að þeim megi ná á landsvísu. Mikilvægt er að Úrvinnslusjóður hafi sveigjanleika til að ná þessum markmiðum á sem hagkvæmastan hátt.
    Framkvæmdin vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða verður nánar útfærð í reglugerð samkvæmt tillögu að nýrri 4. mgr. 21. gr. laganna. Ráðuneytið byggir tillögur sínar á eftirfarandi hugmyndum: Gert er ráð fyrir að Úrvinnslusjóður greiði þjónustuaðilum sem semja við hann tiltekna upphæð fyrir hvert tonn af flokkuðum umbúðaúrgangi, enda liggi fyrir staðfesting frá úrvinnsluaðila um úrvinnslu. Ekki skiptir máli hvort þjónustuaðili sækir úrgang til fyrirtækis eða sveitarfélags. Auk þess greiði Úrvinnslusjóður flutningsþóknun fyrir flutning frá þeim stað þar sem umbúðum er safnað til þess staðar þar endurnýting fer fram eða útflutningur.
    Úrvinnslusjóður getur, ef hann telur þörf á, boðið sveitarfélögum ákveðið gjald fyrir hvert tonn af flokkuðum úrgangi sem kemur frá heimilum. Hér er gert ráð fyrir að gjald það sem Úrvinnslusjóður býður sveitarfélögum sé greitt til að hvetja þau til að safna pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangi frá heimilum. Gert er ráð fyrir að einungis sveitarfélög geti fengið slíka greiðslu þar sem þau bera ábyrgð á og eiga að ákveða fyrirkomulag á söfnun umbúðaúrgangs frá heimilum. Það er síðan sveitarfélaganna að ákveða hvernig slíkri söfnun er háttað, t.d. gæti sveitarfélag boðið slíkt út til einkaaðila.
    Eins og áður segir er gert ráð fyrir að framkvæmdin verði sú að Úrvinnslusjóður greiði þeim sveitarfélögum sem ganga til samninga við sjóðinn ákveðna upphæð fyrir hvert tonn af flokkuðum úrgangi þegar þau hafa lagt fram staðfestingu um móttöku þjónustuaðila á flokkuðum úrgangi. Þannig er gert ráð fyrir að Úrvinnslusjóður greiði ákveðna upphæð án tillits til hvaða þjónustu sveitarfélagið veitir íbúum sínum. Úrvinnslusjóður mun miða gjald sitt við að náð verði þeim árangri sem að er stefnt. Með þessu fyrirkomulagi verður ekki þörf á að skilgreina nákvæmlega í lögum um úrvinnslugjald undir hvaða kostnaðarþáttum úrvinnslugjald þessa úrvinnsluflokks eigi að standa, eins og nú er gert. Gjaldið mun þess í stað taka mið af þeim kostnaði sem Úrvinnslusjóður þarf að leggja í til að ná þeim árangri sem honum ber að ná. Með þessu er ætlað að tryggja Úrvinnslusjóði meira svigrúm til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið, sbr. og 1. og 2. gr. frumvarpsins.
    Dæmi um svipað kerfi og hér er lagt til er í Noregi en fyrirtækið Emballasjeretur AS sér um að koma umbúðaúrgangi úr plasti og samsettum pappírsumbúðum til úrvinnslu. Emballasjeretur AS hefur boðið sveitarfélögum greiðslu sem byggist á útreikningum um þann aukakostnað sem flokkun úrgangs hefur í för með sér fyrir hvert sveitarfélag. Emballasjeretur AS, svo og forveri fyrirtækisins, Plastretur AS, hefur lagt mikla vinnu í að sýna fram á útreikninga þess efnis að með hagkvæmu kerfi gætu sveitarfélög komið vel út fjárhagslega og jafnframt boðið betri þjónustu. Mikilvægt er að Úrvinnslusjóður verði virkur í að koma áleiðis til sveitarfélaga og fyrirtækja hugmyndum um hagkvæmar leiðir til að flokka úrgang til hagsbóta fyrir alla.
    Ráðuneytið telur mikilvægt að taka raunhæf skref í framhaldi af þeim kerfum sem fyrir eru í dag. Móttaka á tilteknum umbúðum hófst 1. mars sl. Eðlilegt er að móttöku á pappa-, pappírs- og plastumbúðum, einkum frá heimilum, verði komið á í nokkrum skrefum. Þegar spilliefnagjald var á sínum tíma lagt á komu vörur sem verða að spilliefnum inn í kerfið í skrefum. Reynsla af því var góð þar sem hægt var að vinna nauðsynlega vinnu í áföngum og kynna þá vel fyrir hlutaðeigandi. Ekki er gert ráð fyrir því að álagningu úrvinnslugjalds á umbúðir verði komið á smám saman heldur er gert ráð fyrir því að allar umbúðir beri strax úrvinnslugjald. Með því að gera þetta á þennan hátt bera þær umbúðir sem auðvelt er að koma í úrvinnslu ekki einar úrvinnslugjald. Mikilvægt er að horfa til þess sem hafið er, nýta það betur og taka markviss og raunhæf skref í framhaldi af því. Því er lagt til í a-lið 3. gr. frumvarpsins að Úrvinnslusjóði verði heimilt að ákveða fyrir endvinnslu og endurnýtingu hvaða umbúðategunda verði greitt. Mikilvægt er að Úrvinnslusjóður hafi þannig ráðrúm til að ákveða hvaða tegundum hagkvæmast sé að safna. Er þetta einnig í samræmi við tillögur nefndar sem falið var að koma með tillögur um skýra verka- og kostnaðarskiptingu milli Úrvinnslusjóðs og sveitarfélaga. Nefndin lagði til að veitt verði tveggja ára aðlögunartímabil þar sem Úrvinnslusjóði og sveitarfélögum verði gefið ráðrúm til að finna hentugustu leiðirnar bæði varðandi hvar úrgangi verði safnað og hvaða úrgangstegundum eigi að safna. Úrvinnslusjóður þarf að hafa tíma til að gera nákvæmar áætlanir um hvort og þá hvað greiðslur eigi að bjóða sveitarfélögum og þjónustuaðilum fyrir flokkaðan úrgang. Þessi tillaga byggist m.a. á því að það gæti dregið úr trúverðuleika kerfisins ef Úrvinnslusjóður þyrfti síðar að lækka greiðslu fyrir flokkaðan pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgang til sveitarfélaga þar sem söfnun væri of mikil. Það er einnig mikilvægt fyrir sveitarfélögin að áætlanargerð þeirra standist vegna kostnaðar þeirra við flokkun og söfnun á þessum úrgangsflokkum. Mikilvægt er að áfram verði haldið með þær aðgerðir til flokkunar samsettra drykkjarvöruumbúða sem nú þegar hefur verið ráðist í. Úrvinnslusjóður verður þó að hafa sveigjanleika varðandi greiðslur vegna þeirra umbúða.

iii. Ábyrgð sveitarfélaga.
    Lagt er til að sveitarfélög beri ekki ábyrgð á að ná markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu á pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangi sem til er komin vegna umbúða sem bera úrvinnslugjald, eins og nú er, heldur verði það hlutverk Úrvinnslusjóðs. Sveitarfélögin hafi áfram fullt sjálfræði um hvers konar leiðir þau vilja fara í að safna flokkuðum úrgangi frá heimilum, t.d. hvort boðið verði upp á að slíkur úrgangur verði sóttur til heimilanna eða sérstakar söfnunarstöðvar notaðar. Sveitarfélögin bera ábyrgð á að kynna sitt kerfi fyrir hagsmunaaðilum og almenningi. Í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, er það skýrt að sveitarfélögum ber að semja og staðfesta svæðisáætlanir þar sem fram kemur hvernig þau hyggjast ná markmiðum landsáætlunar, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Ekki er talin þörf á að taka fram í lögum um meðhöndlun úrgangs að ábyrgð á að ná markmiðum landsáætlunar varðandi endurvinnslu og endurnýtingu fyrir pappa-, pappírs- og plastumbúðir færist frá sveitarfélögunum til Úrvinnslusjóðs, þar sem lagt er til að það sé gert í lögum um úrvinnslugjald, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Almennar lögskýringarreglur leiði til að skýra beri lög um meðhöndlun úrgangs með hliðsjón af lögum um úrvinnslugjald og að fullnægjandi sé að tiltaka þar undanþágu frá þeirri almennu reglu að sveitarfélög beri ábyrgð á að ná fram markmiðum landsáætlunar.
    Tillögur þessar gera ráð fyrir að þegar Úrvinnslusjóður kemur með tilboð til sveitarfélaga um ákveðna upphæð fyrir hvert tonn af flokkuðum úrgangi sem ber úrvinnslugjald verði hvert og eitt sveitarfélag að meta hvort það gengur til samninga við sjóðinn. Lagt er til að nánari útfærsla á þessum atriðum verði sett í reglugerð, sbr. tillögu að nýrri 4. mgr. 21. gr. laganna í 8. gr. frumvarpsins.
    Vert er að ítreka að ekki eru lagðar til neinar breytingar á fyrirkomulagi annarra úrgangsflokka en sem falla undir pappa-, pappírs- og plastumbúðir nema hvað lagt er til að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um þann kostnað sem greiða á vegna meðferðar úrgangs á söfnunarstöð. Það er mat nefndar sem falið var að koma með tillögur um breytta verka- og kostnaðarskiptinu milli sveitarfélaga og Úrvinnslusjóðs að sátt ríki um núverandi kerfi hjá öllum aðilum varðandi þá flokka sem ekki þarf að ná tölulegum markmiðum fyrir og falla undir lög um úrvinnslugjald.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að nýrri 3. mgr. verði bætt við 3. gr. laganna og þar kveðið á um að upphæð úrvinnslugjalds sem lagt sé á pappa-, pappírs- og plastumbúðir skuli standa undir greiðslum við að ná tölulegum markmiðum sem sett eru um endurvinnslu og endurnýtingu þeirra í samræmi við ákvæði reglugerða. Í reglugerð um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003, er kveðið á um þau markmið sem nást eiga hvað varðar m.a. endurvinnslu og endurnýtingu pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs. Ná skal slíkum markmiðum á landsvísu, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Hér er því um að ræða breytingu frá tilhögun varðandi aðra úrgangsflokka en í 2. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um undir hvaða kostnaði úrvinnslugjald skuli standa, sjá einnig athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins. Benda má á að gert er ráð fyrir að Úrvinnslusjóður skili til Umhverfisstofnunar og sveitarfélaga skýrslum um það magn pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem safnast hefur í heild og á einstökum svæðum og sendur er í endurnýtingu og endurvinnslu.

Um 2. gr.


    Lagt er til að fjárhæð álagðs úrvinnslugjalds taki mið af áætlun sjóðsins um þær greiðslur sem sjóðurinn þarf að inna af hendi til þjónustuaðila og sveitarfélaga til að ná markmiðum hans um endurnýtingu og endurvinnslu á umbúðarúrgangi sem ber úrvinnslugjald. Ekki verði því lengur byggt á útreikningum um kostnað eins og um aðra úrgangsflokka sem úrvinnslugjald er lagt á. Úrvinnslusjóður mun því hafa mun meiri sveigjanleika hvað varðar upphæð þess gjalds sem hann þarf að greiða þjónustuaðilum og sveitarfélögum fyrir hvert tonn sem safnast hefur og farið í endurnýtingu eða endurvinnslu. Sjóðurinn mun þurfa að gera sér áætlun um það hvernig hann nái þeim tölulegu markmiðum sem að er stefnt og mun það gjald sem hann býður þjónustuaðilum og sveitarfélögum taka mið af því. Gert er ráð fyrir að nánari útfærslu á þessu ákvæði verði að finna í reglugerð, sbr. nýja 4. mgr. 21. gr. laganna skv. 8. gr. frumvarpsins, og þar verði sett nánari ákvæði um nýtt fyrirkomulag vegna umbúðaúrgangs. Nánari grein er gerð fyrir áætluðu fyrirkomulagi í almennum athugasemdum við frumvarp þetta.

Um 3. gr.


    Í a- lið er lagt til að við bætist tvær nýjar málsgreinar sem verða 2. og 3. mgr. Í fyrri málsgreininni er lagt til að kveðið verði á um heimild Úrvinnslusjóðs til að ákveða fyrir endurvinnslu og endurnýtingu hvaða tegunda pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs verði greitt. Þannig er lagt til að jafnvel þótt gjald hafi verið lagt á allar tegundir pappa-, pappírs- og plastumbúða sé Úrvinnslusjóði heimilt að greiða einungis fyrir þær tegundir umbúðaúrgangs sem sjóðurinn ákveður að eigi að fara í þann farveg. Mikilvægt er fyrir Úrvinnslusjóð að hafa svigrúm til að ákveða hvaða tegundum hagkvæmast sé að safna saman og einnig til að taka upp endurnýtingu og endurvinnslu á pappa-, pappírs- og plastumbúðum í þrepum, sbr. nánari umfjöllun í almennum athugasemdum.
    Lagt er til að í nýrri 3. mgr. verði kveðið á um að ekki skuli greiða úrvinnslugjald vegna margnota flutnings- og safnumbúða sem eru úr pappa-, pappír- og plasti. Hér er um að ræða umbúðir eins og pappakassa sem notaðir eru utan um húsgögn og sendir eru til baka til birgja erlendis. Dæmi um fleiri slíkar vörur eru umbúðir fyrir íblöndunarefni fyrir iðnaðarframleiðslu, t.d. klór, og margnota umbúðir utan um glerflöskur. Undanþágan er bundin því skilyrði að innflytjandi lýsi því yfir í aðflutningsskýrslu, með þeim hætti sem Tollstjórinn í Reykjavík ákveður, að umbúðirnar verði sannanlega fluttar úr landi til endurnotkunar hjá birgjum og komi ekki til úrvinnslu hér á landi.
    Í b-lið er lagt til að málsliður falli á brott sem vegna mistaka var ekki felldur á brott við síðustu breytingar á lögunum.
    Í c-lið er lagt til að kveðið verði á um að innflytjandi gefi yfirlýsingu í aðflutningsskýrslu vöru sem undanþegin er úrvinnslugjaldi um að varan verði með sannanlegum hætti flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi.
    Í d-lið er lagt til að tvö ný tollskrárnúmer bætist við lista sem heimilar að undanþiggja vörur úrvinnslugjaldi að því skilyrði uppfylltu að viðkomandi vara verði sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi. Nýju tollskrárnúmerin sem lagt er til að bætist við eru 3920-1009, sem er strekkifilma, og 3919-1000, sem er límbönd. Mat Úrvinnslusjóðs eftir samráð við hagsmunaaðila er að eðlilegt sé að heimilt sé að þessar umbúðir séu einnig undanþegnar úrvinnslugjaldi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum enda séu þær mikið notaðar utan um vörur til útflutnings.
    Í e-lið er lagt til að við bætist fjórar nýjar málsgreinar sem verða 7.–10. mgr. Lagt er til að í 7. mgr. verði kveðið á um að innlendir framleiðendur greiði ekki úrvinnslugjald vegna gjaldskyldra umbúða sem fara utan um framleiðslu sem flutt er úr landi. Er þessi breyting í samræmi við framkvæmd en að mati ríkisskattstjóra er rétt að kveða skýrt á um þetta í lögum.
    Í nýrri 8. mgr. er lagt til að heimilað verði að færa ábyrgð á greiðslu úrvinnslugjalds frá framleiðanda og innflytjanda til kaupanda. Algengt er að umbúðir séu seldar án úrvinnslugjalds og er í þeim tilvikum rétt að færa ábyrgð á greiðslu úrvinnslugjaldsins til kaupanda enda er erfitt fyrir seljanda að ábyrgjast að umbúðir sem hann selur án úrvinnslugjalds fari í raun úr landi.
    Lagt er til í nýrri í 9. mgr. að skattstjórum verði heimilt að gefa út úrvinnslugjaldsskírteini sem veitir þeim er flytja inn umbúðir, gerðar úr pappa, pappír eða plasti og seldar til þriðja aðila, heimild til að kaupa af innflytjendum og innlendum framleiðendum umbúðir án úrvinnslugjalds. Fyrirmynd úrvinnslugjaldsskírteinis er vörugjaldsskírteini heildsala sem útgefið er af skattstjóra. Þær forsendur eru settar fyrir útgáfu slíkra skírteina að umbúðirnar séu utan um vörur til útflutnings eða til nota utan um vörur er fara á innanlandsmarkað, svo og að umsækjandi hafi atvinnu af þessari starfsemi. Að öðru leyti skal fylgja formi vörugjaldsskírteinis heildsala útgefnu af skattstjóra, að því undanskyldu að úrvinnslugjaldsskírteini skal ekki gefið út tímabundið.
    Í nýrri 10. mgr er lagt til að handhafa úrvinnslugjaldsskírteinis sem tekur til eigin nota vörur sem úrvinnslugjald hefur verið fellt niður af á grundvelli skírteinisins skuli á næsta gjalddaga almenns uppgjörstímabils standa skil á úrvinnslugjaldi vegna þeirra nota.
    Tilgangurinn með að gefa út úrvinnslugjaldsskírteini er að auðveldara verður að rekja innheimtu og skil á úrvinnslugjaldinu, þar sem það er tiltekið sérstaklega á hverjum sölureikningi. Auðveldara verður fyrir fyrirtæki að gera bókhaldslykil, sbr. 23. gr. reglugerðar um úrvinnslugjald, nr. 1124/2005, er heldur utan um innheimtu úrvinnslugjaldsins, sem síðan verður notaður til uppgjörs á úrvinnslugjaldi til skattstjóra. Samfella verður því í útgáfu sölureikninga, skv. 24. gr. reglugerðar um úrvinnslugjald og bókhalds söluaðila umbúða um útgáfu sölureikninga. Fyrirtæki og einstaklingar sem framleiða umbúðir munu gera upp úrvinnslugjald hjá einum aðila í stað tollstjóra og skattstjóra í núverandi kerfi. Innflytjendur umbúða þurfa ekki að hafa þær aðskildar á lager eftir því hvort þær hafa verið fluttar inn undanþegnar úrvinnslugjaldi eða ekki. Fyrirtæki sem flytja inn umbúðir sem eru eingöngu utan um vörur sem fara til útflutnings þurfa ekki að sækja um úrvinnslugjaldsskírteini þar sem það er nú þegar til staðar heimild í lögunum er veita slíkum innflutningi umbúða undanþágu frá greiðslu úrvinnslugjalds.

Um 4. gr.


    Lagt er til í a-lið að 3. mgr. 8. gr. verði breytt á þann veg að tekið verði fram að samningar fyrirtækja og atvinnugreina til að tryggja úrvinnslu úrgangs vegna svartolíu og veiðarfæra úr gerviefnum verði gerðir við Úrvinnslusjóð, enda er það svo í raun hvað varðar þá samninga sem gerðir hafa verið. Hlutaðeigandi fyrirtæki eða atvinnugreinar hafa gert samninga við Úrvinnslusjóð, þó svo að undanfari slíkra samninga sé eðlilega samkomulag þeirra sem eiga aðild að umræddum samningi við Úrvinnslusjóð.
    Í b-lið er lagt til að við bætist að ráðherra staðfesti samning sem gerður hefur verið milli fyrirtækja og atvinnugreina og Úrvinnslusjóðs. Eðlilegt er að gera slíka formkröfu.

Um 5. gr.


    Í a-lið er lögð til leiðrétting í samræmi við hvernig tilkynningarskyldan hefur verið framkvæmd. Það eru einungis þeir sem framleiða gjaldskyldar vörur hér á landi samkvæmt lögunum sem verða að tilkynna starfsemi sína áður en atvinnurekstur þeirra hefst. Innflytjendur vöru greiða úrvinnslugjald hjá tollayfirvöldum og þurfa því ekki að skrá sig hjá skattstjóra.
    Í b-lið er lagt til að við bætist heimild til að um gjaldskyldu og tilhögun bókhalds fari eins og í 12 gr. vörugjaldslaga. Með tilkomu úrvinnslugjaldsskírteinis er rétt að hafa þetta eins og í vörugjaldslögum.

Um 6. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar til samræmis við ný tollalög, nr. 88/2005. Í a-lið er lagt til að frestur til að kæra álagningu gjalds verði 60 dagar en ekki 30 dagar. Í b-lið er lagt til að innsend fullnægjandi skýrsla verði einungis talin kæra vegna innlendrar framleiðslu. Í c-lið er lagt til að í stað orðsins kærufrests komi orðið gagnaöflunar. Að lokum er í d-lið lagt til að tilvísun í tollalög verði færð til samræmis við gildandi lög.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. er lagt til að við bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. 15. gr. þar sem tekið er fram að Úrvinnslusjóði beri að ná tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara eigi í endurnýtingu og endurvinnslu. Kröfur um töluleg markmið er að finna í reglugerð um meðhöndlun úrgangs. Ekki er talin þörf á að taka fram í lögum um meðhöndlun úrgangs að ábyrgð á að ná markmiðum landsáætlunar varðandi endurvinnslu og endurnýtingu fyrir pappa-, pappírs- og plastumbúðir færist frá sveitarfélögunum til Úrvinnslusjóðs þar sem það er gert hér. Almennar lögskýringarreglur leiða til þess að skýra beri lög um meðhöndlun úrgangs með hliðsjón af lögum um úrvinnslugjald og að fullnægjandi sé að tiltaka þar undanþágu frá þeirri almennu reglu að sveitarfélög beri ábyrgð á að ná fram markmiðum landsáætlunar. Um frekari skýringar varðandi ástæður fyrir tillögum um að færa þetta hlutverk frá sveitarfélögunum til Úrvinnslusjóðs vegna umbúðaúrgangs vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 8. gr.


    Lagt er til að ráðherra setji reglugerð sem skilgreini hvað felist í greiðslu fyrir „meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð“. Þannig mun ráðherra í reglugerð t.d. geta sett ákvæði um ákveðna vísitölusöfnunarstöð sem grundvöll útreiknings á kostnaði sem Úrvinnslusjóði beri að greiða sveitarfélögum fyrir „meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð“, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Talið er nauðsynlegt að skýra betur hvaða kostnað Úrvinnslusjóði beri að greiða og hefur nefnd sem falið var að gera tillögur um skýra verka- og kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og Úrvinnslusjóðs m.a. bent á að réttast væri að gera módel fyrir ákveðna vísitölusöfnunarstöð til að nota við útreikninga á greiðslum til sveitarfélaga.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra setji reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um hvernig standa skuli að greiðslum til að ná þeim tölulegu markmiðum sem sett eru um endurnýtingu og endurvinnslu umbúðaúrgangs. Ráðherra mun þannig í reglugerð setja nánari ákvæði til skýringar til samræmis við þær tillögur að framkvæmd sem greint hefur verið frá í almennum athugasemdum.
    

Um 9. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi við birtingu nema ný ákvæði um úrvinnslugjaldsskírteini en lagt er til að þau ákvæði taki gildi 1. júní 2006 enda tekur nokkurn tíma að undirbúa útgáfu þeirra.


Fylgiskjal.


Fj árm álar á ðuneyti,
fj árlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald,
nr. 162/2002, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er í fyrsta lagi að færa ábyrgðina á því að ná tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs, sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu, frá sveitarfélögum til Úrvinnslusjóðs. Jafnframt er kveðið á um að fjárhæð úrvinnslugjalds sem lagt er á þessa vöruflokka skuli taka mið af áætlun Úrvinnslusjóðs um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná framangreindum markmiðum og að tekjur af úrvinnslugjaldi á þessa sömu vöruflokka skuli standa undir kostnaði við að ná þeim markmiðum. Einnig eru lagðar til breytingar er varða undanþágu frá álagningu úrvinnslugjalds á margnota flutnings- og safnumbúðir, heimild til yfirfærslu ábyrgðar á greiðslu úrvinnslugjalds frá framleiðanda og innflutningsaðila til kaupanda auk annarra breytinga til samræmis við ný tollalög.
    Samkvæmt gildandi lögum ber Úrvinnslusjóði að greiða allan kostnað af úrvinnslu flokkaðs pappírs-, pappa- og plastumbúðaúrgangs og undir þeim kostnaði skulu standa tekjur af úrvinnslugjaldi á þessa sömu vöruflokka. Ætla verður að sú breyting, að setja töluleg mörk því magni þessa úrgangs sem tekjur af úrvinnslugjaldi skulu standa undir úrvinnslu á, muni frekar leiða til lækkunar en hækkunar á kostnaði og þar með úrvinnslugjaldi þegar fram í sækir. Fjárhæðir í þessu sambandi eru þó óvissar.