Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 722. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1058  —  722. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um framhaldsskólanám við hæfi fullorðinna nemenda.

Flm.: Anna Kristín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja viðræður við stjórnendur framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu um námstilboð og sérstakan aðbúnað við hæfi fullorðinna nemenda. Markmið viðræðnanna sé að fullorðnum sem hyggja á framhaldsskólanám verði tryggð örugg skólavist og viðeigandi aðstæður til náms.

Greinargerð.


    Samkvæmt nýlegu svari við fyrirspurn til forsætisráðherra um menntun 20–40 ára Íslendinga hafa 28% íbúa höfuðborgarsvæðisins grunnskólapróf sem lokapróf. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið að þessum hópi verði skapaðar aðstæður til að bæta stöðu sína með menntun en þekkt er að því styttri skólagöngu sem einstaklingur á að baki því veikari er staða hans á vinnumarkaði, því lægri meðaltekjur og því verri félagsleg staða almennt. Menntun opnar leið einstaklings að áhugaverðum og betur launuðum störfum. 1 Í fréttum Samtaka atvinnulífsins frá 3. apríl 2003 kemur fram að staða þeirra sem hafi takmarkaða formlega menntun sé veik og líklega eigi hún eftir að versna enn frekar með aukinni alþjóða- og tæknivæðingu samfara almennri kröfu um aukna þekkingu og hæfni. Telja samtökin að til þess að viðhalda þeirri samkeppnisstöðu og aðlögunarhæfni sem íslenskt atvinnulíf búi yfir þurfi að gera stórátak í framboði á fullorðinsfræðslu og starfsmenntun fyrir þessa einstaklinga. Hafa samtökin í félagi við Alþýðusamband Íslands stofnað fræðslumiðstöð atvinnulífsins en markmið hennar er að veita starfsmönnum, sem ekki hafa lokið prófi frá framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Menntun er auk þess mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni að auka efnahagslegan hreyfanleika. Fólk getur fært sig úr neðri þrepum tekjuskiptingarinnar með þekkingu og dugnaði. Hærra menntunarstig er auk þess til þess fallið að minnka ójöfnuð. Þetta stafar af tvennu. Í fyrsta lagi verður velsæld almennri eftir því sem fleiri ganga menntaveginn. Í öðru lagi hækka laun ófaglærðra eftir því sem framboð ófaglærðs starfsfólks minnkar, þ.e. svo lengi sem eftirspurn fyrirtækja eftir vinnuafli helst stöðug. 2 Í haustskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands 2001 var hvatt til aukinnar og almennrar menntunar með menntastyrkjum, auknu framboði og fjölbreytni náms.
    Á höfuðborgarsvæðinu eru fjölmargir framhaldsskólar en enginn þeirra hefur sérhæft sig í að þjóna fullorðnum. Rannsóknir í fullorðinsfræðslu sýna að fullorðnir þurfa oft sérstaka hvatningu til að hefja nám að nýju og stuðning, þeir þurfa sérstakar aðstæður í námsumhverfi, t.d. betri lýsingu heldur en ungt fólk, þeir gera eðlilega ráð fyrir að komið sé fram við þá sem fullorðið fólk en ekki unglinga og þeim finnst betra að hafa félagsskap og stuðning af öðrum fullorðnum í námi. Kennsla fullorðinna er víða orðin viðurkennd sem sérgrein innan kennarastéttarinnar og er meðal annars boðið upp á nám í slíku sem valgrein í Kennaraháskóla Íslands. Fullorðnir þurfa auk þess oft að haga námi sínu með tilliti til heimilisaðstæðna og atvinnu.
    Svíar settu sér það markmið fyrir rúmum áratug að öllum landsmönnum yrði gert kleift að ljúka framhaldsskólaprófi hið minnsta og gerðu sérstakt átak í því skyni. Sú tilraun tókst ákaflega vel enda vörðu Svíar umtalsverðu fjármagni til að ná markmiði sínu. Þar í landi var talið víst að bætt menntun þegnanna mundi skila sér í þjóðarbúið þar sem bein tengsl eru á milli menntunarstigs þjóðar og hagsældar þjóðarbúsins. Ekki er ástæða til að áætla að önnur lögmál gildi um það atriði hér á landi og því ákaflega mikilvægt að fullorðnum sé gert sem auðveldast að sækja sér menntun á framhaldsskólastigi og sá kostur gerður eftirsóknarverður í þeirra augum.

Höfuðborgarsvæðið tilraunasvæði, skapi fyrirmynd.
    Þó að hátt hlutfall íbúa höfuðborgarsvæðisins hafi stutta skólagöngu að baki eru hlutfallslega miklu fleiri íbúa landsbyggðarinnar með sambærilega menntun eða 45% 20–40 ára íbúa. Þörfin er því í raun enn meiri þar. Þingsályktunartillaga þessi gerir þó ráð fyrir að tilraunaverkefni þetta verði unnið á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjöldi framhaldsskóla er og stærri markhópur að höfðatölu á tiltölulega afmörkuðu svæði. Síðan skal reynslan nýtt í öðrum framhaldsskólum landsins.
Neðanmálsgrein: 1
    1Ásgeir Jónsson o.fl. Tekjuskipting á Íslandi, þróun og ákvörðunarvaldar. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. 2001, bls. 39.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Sama rit, bls. 16.