Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 723. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1059  —  723. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um brottfall barna og unglinga úr æskulýðs- og íþróttastarfi.

Flm.: Sigurrós Þorgrímsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller,


Arnbjörg Sveinsdóttir, Kjartan Ólafsson, Guðjón Hjörleifsson.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem kanni brottfall barna og unglinga úr æskulýðs- og íþróttastarfi.
    Nefndin kanni einkum hvort stúlkur hætti frekar í íþróttum á unglingsárum en piltar, hverjar ástæður brottfallsins séu og hvernig hægt sé að sporna við því. Nefndin kanni jafnframt stöðu innflytjenda hvað varðar þessi sömu atriði.


Greinargerð.


    Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að þátttaka ungs fólks í æskulýðs- og íþróttastarfi hefur mikið forvarnagildi og jafnframt uppeldislegt gildi. Skipulagt æskulýðs- og íþróttastarf er stöðugt að verða mikilvægari hluti af þeirri þjónustu sem boðið er upp á í hverju sveitarfélagi. Það er því mjög mikilvægt að stöðugt sé leitað leiða til að fjölga í hópi þeirra ungmenna sem taka þátt í æskulýðs- og íþróttastarfi. Samkvæmt rannsóknum stunda langflest börn einhverja íþróttagrein en á unglingsárunum virðist stór hópur missa áhuga á íþróttum og hætta.
    Brýnt er að rannsaka hvaða ástæður liggja að baki brottfallsins og hvernig hægt sé að sporna við því og reyna að finna leiðir til úrbóta. Jafnframt hafa rannsóknir leitt í ljós að stúlkur virðast frekar hætta í íþróttum á unglingsárum en drengir og er mikilvægt rannsaka hvaða ástæður búa þar að baki.
    Rannsóknir og greining ehf. vann fyrir menntamálaráðuneytið ítarlega rannsókn sem nefnist „Ungt fólk 2004“ og kom skýrsla um hana út í fyrra. Rannsókninni var ætlað að varpa ljósi á lífsstíl og félagslegt umhverfi ungs fólks í framhaldsskólum. Einn af þeim þáttum sem kannaðir voru var þátttaka ungs fólks í íþróttum og tómstundastarfi.
    Þar kemur fram að yfir 70% stúlkna og um 55% pilta í framhaldsskólum æfa ekki íþróttir með íþróttafélögum. Heldur fleiri æfa íþróttir á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Kannað var hvaða áhrif íþróttaiðkun hefði á andlega heilsu nemenda og kom fram að jákvæð tengsl væru á milli íþróttaiðkunnar og góðrar andlegrar heilsu.
    Í rannsókninni kom fram að nokkuð sterkt neikvætt samband virðist vera milli daglegra reykinga og iðkunar íþrótta eða líkamsræktar. Þannig segjast tæplega 27% þeirra sem reykja daglega nær aldrei stunda íþróttir eða líkamsrækt. Aftur á móti segjast 38,1% þeirra sem ekki reykja æfa íþróttir eða stunda líkamsrækt fjórum sinnum í viku eða oftar en sambærilegt hlutfall meðal dagreykingarfólks er 16,4%. Í rannsókninni er tekið fram að þó að um tölfræðilegt samband sé að ræða milli daglegra reykinga og iðkunar íþrótta og/eða líkamsræktar sé ekki þar með sagt að um hreint orsakasamband sé að ræða.
    Á bls. 62 í skýrslunni kemur fram að um 6,6% pilta og 9,5% stúlkna hafa aldrei æft íþróttir með íþróttafélagi. Hins vegar byrjar að síast úr hópi þeirra sem æfa íþróttir frá barnæsku strax undir 13 ára aldri. Langflest þeirra sem hætta að æfa með íþróttafélögum eru á aldrinum 13–15 ára, en um 27% pilta og 34% stúlkna hætta að æfa á þessum aldri.
    Flest þeirra, eða um 56% pilta og 54,1% stúlkna, segjast hafa misst áhugann og þess vegna hætt. Í rannsókninni var ekki kannað frekar hver ástæðan var fyrir því að þau misstu áhugann. Nokkrir báru við tímaleysi og að þeir hafi hætt vegna þess að vinir þeirra hættu.
    Um 31,5% pilta og 28% stúlkna á höfuðborgarsvæðinu taka reglulega þátt í tómstundastarfi en þessi tala er heldur hærri á landsbyggðinni. Flestir þeirra pilta sem taka þátt í tómstundastarfi eru í skáta- og ungliðastarfi björgunarsveitanna. Stúlkur eru í meiri hluta þeirra sem stunda tónlistarnám eða myndlistarnám.
    Félagsmiðstöðvum við grunnskóla hefur fjölgað mjög mikið undanfarin ár en nú eru um 87 félagsmiðstöðvar á öllu landinu innan samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi – Samfés. Þar fer fram mjög fjölbreytt starf og flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Eitt af markmiðum félagsmiðstöðva, og ekki síður íþrótta- og annara æskulýðsfélaga, er að vinna að forvarnastarfi þar sem mikil áhersla er lögð á forvarnir gegn vímuefnum. Jafnframt hefur komið fram í rannsóknum hversu mikilvægu hlutverki starfsmenn gegna í skipulögðu tómstunda- og félagsstarfi unglinga. Þeir gegna lykilhlutverki þegar unglingar leita lausna með vandamál sín. Þeir eru í miklu návígi við börn og unglinga og á milli þeirra myndast oft mikið traust.
    Í rannsóknum hefur komið fram að mikill meiri hluti pilta og stúlkna hefur einhvern tíma æft íþróttir með íþróttafélögum eða stundað annað tómstundastarf. Það er því áhyggjuefni ef stór hópur barna og unglinga hættir í íþróttum eða í öðru tómstundastarfi á einu viðkvæmasta skeiði lífsins. Nauðsynlegt er að kanna þennan þátt betur og jafnframt að koma með tillögur um hvernig mögulegt sé að sporna gegn því.