Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 732. máls.

Þskj. 1068  —  732. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda
vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þar sem í 31., 66., 71. og 83. gr. er kveðið á um alþjóðleg viðskiptafélög skulu þau ákvæði ekki eiga við að því marki sem mismunur á skattgreiðslum alþjóðlegs viðskiptafélags, annars vegar eftir þeim sérákvæðum sem um slík félög gilda samkvæmt lögum nr. 29/1999, um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga, og hins vegar samkvæmt almennum skattalögum, fer yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Fari mismunur á heildarskattgreiðslum yfir þau mörk gilda ákvæði almennra skattalaga um skattskyldu viðkomandi félags, frá því að farið er yfir mörkin.
    Með vísan til 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, ber alþjóðlegu viðskiptafélagi að endurgreiða ríkissjóði ef mismunur á skattgreiðslum félagsins, sbr. 1. mgr., hefur frá útgáfu starfsleyfis félagsins sem alþjóðlegs viðskiptafélags farið yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Það sem til endurgreiðslu kemur samkvæmt þessu ákvæði er sá mismunur sem er yfir mörkunum.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við þegar starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags er alfarið utan gildissviðs EES-samningsins eins og það er skilgreint í bókun 3 við EES-samninginn.
    Skattstjóri skal hafa umsjón með því að ákvæði þessu sé framfylgt. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

2. gr.
Breyting á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga,
með síðari breytingum.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þar sem í b-lið 3. gr. er kveðið á um alþjóðleg viðskiptafélög skal það ákvæði ekki eiga við að því marki sem mismunur á skattgreiðslum alþjóðlegs viðskiptafélags, annars vegar eftir þeim sérákvæðum sem um slík félög gilda samkvæmt lögum nr. 29/1999, um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga, og hins vegar samkvæmt almennum skattalögum, fer yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Fari mismunur á heildarskattgreiðslum yfir þau mörk gilda ákvæði almennra skattalaga um skattskyldu viðkomandi félags, frá því að farið er yfir mörkin.
    Með vísan til 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, ber alþjóðlegu viðskiptafélagi að endurgreiða ríkissjóði ef mismunur á skattgreiðslum félagsins, sbr. 1. mgr., hefur frá útgáfu starfsleyfis félagsins sem alþjóðlegs viðskiptafélags farið yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Það sem til endurgreiðslu kemur samkvæmt þessu ákvæði er sá mismunur sem er yfir mörkunum.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við þegar starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags er alfarið utan gildissviðs EES-samningsins eins og það er skilgreint í bókun 3 við EES-samninginn.
    Skattstjóri skal hafa umsjón með því að ákvæði þessu sé framfylgt. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

3. gr.
Breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þar sem í 3. gr. er kveðið á um alþjóðleg viðskiptafélög skal það ákvæði ekki eiga við að því marki sem mismunur á skattgreiðslum alþjóðlegs viðskiptafélags, annars vegar eftir þeim sérákvæðum sem um slík félög gilda samkvæmt lögum nr. 29/1999, um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga, og hins vegar samkvæmt almennum skattalögum, fer yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Fari mismunur á heildarskattgreiðslum yfir þau mörk gilda ákvæði almennra skattalaga um skattskyldu viðkomandi félags, frá því að farið er yfir mörkin.
    Með vísan til 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, ber alþjóðlegu viðskiptafélagi að endurgreiða ríkissjóði ef mismunur á skattgreiðslum félagsins, sbr. 1. mgr., hefur frá útgáfu starfsleyfis félagsins sem alþjóðlegs viðskiptafélags farið yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Það sem til endurgreiðslu kemur samkvæmt þessu ákvæði er sá mismunur sem er yfir mörkunum.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við þegar starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags er alfarið utan gildissviðs EES-samningsins eins og það er skilgreint í bókun 3 við EES-samninginn.
    Skattstjóri skal hafa umsjón með því að ákvæði þessu sé framfylgt. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar um um framkvæmd þessa ákvæðis.

4. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 25. febrúar 2004 komst Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að þeirri niðurstöðu að það skattahagræði sem alþjóðleg viðskiptafélög njóta hér á landi samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/1999, um breytingu á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga, væri ríkisstyrkur sem ekki samræmdist reglum EES-samningsins og var íslenska ríkinu gert skylt að endurkrefja félögin um veittan styrk. Í framhaldi af ákvörðun ESA áttu sér stað bréfaskipti og fundir milli stofnunarinnar og íslenskra stjórnvalda um hvernig unnt væri að framfylgja þessari ákvörðun, auk þess sem íslensk stjórnvöld tíunduðu margvíslega ágalla á efni hennar og formi.
    Þegar tæpt ár var liðið frá ákvörðun ESA vísaði stofnunin málinu til EFTA-dómstólsins á þeirri forsendu að Ísland hefði ekki gripið til viðeigandi ráðstafana. Hinn 24. nóvember 2005 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði gerst brotlegt gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að fara ekki eftir þeim ákvæðum er fram koma í ákvörðun ESA.
    Í kjölfar dómsins sendi ESA íslenskum stjórnvöldum bréf hinn 1. desember 2005 þar sem ítrekaðar eru fyrri kröfur um að íslensk stjórnvöld framfylgi ákvörðun ESA frá 25. febrúar 2004. Kröfur ESA eru þær að afnema beri umræddar skattaívilnanir í lögum nr. 29/1999 og jafnframt að endurkrefja þá aðstoð sem þegar hefur verið veitt á grundvelli laganna.
    Lög um alþjóðleg viðskiptafélög, nr. 31/1999, falla úr gildi 1. janúar 2008 samkvæmt lögum nr. 133/2003 og eftir 1. mars 2004 voru engin ný starfsleyfi gefin út. Þau félög sem höfðu fengið starfsleyfi fyrir þann tíma mega starfa sem alþjóðleg viðskiptafélög til 1. janúar 2008.
    Samkvæmt ákvörðun ESA ber í fyrsta lagi að tryggja að umrædd starfandi alþjóðleg viðskiptafélög njóti engrar ríkisaðstoðar út gildistíma sólarlagsákvæðis laganna um alþjóðleg viðskiptafélög. Með frumvarpi þessu er lagt til, í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins, að lögfest verði að skattalegar ívilnanir til alþjóðlegs viðskiptafélags, sem er í starfsemi sem fellur undir gildissvið EES-samningsins, megi aldrei fara yfir 100.000 evrur (8,8 millj. kr.) á hverju þriggja ára tímabili. Ef sett verður slíkt de minimis þak á þær skattaívilnanir (þ.e. ríkisaðstoðina) sem alþjóðlegu viðskiptafélögin geta notið, samkvæmt lögum nr. 29/1999, mun það leiða til þess að þegar skattaívilnanirnar fara yfir 100.000 evrur á þriggja ára tímabili ber að skattleggja félagið með sama hætti og önnur fyrirtæki á því tímabili, frá því að farið er yfir markið. Lögfesting slíkrar de minimis reglu felur því í sér nokkra takmörkun á því skattahagræði sem þessi fyrirtæki eiga annars að geta notið samkvæmt lögum nr. 29/1999 allt til ársloka 2007.
    Í öðru lagi ber, samkvæmt ákvörðun ESA, að endurkrefja alþjóðleg viðskiptafélög um greiddan ríkisstyrk frá því að lögin um alþjóðleg viðskiptafélög tóku gildi, á grundvelli útreikninga á skattgreiðslum þeirra eftir almennum skattareglum og þeim sérreglum sem um félögin gilda. Með frumvarpi þessu er lagt til að slík skylda til endurgreiðslu verði lögfest, m.a. með vísan til 3. mgr. 31. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005.
    Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda eru 13 fyrirtæki á skrá hjá þeim sem alþjóðleg viðskiptafélög vegna rekstrarársins 2004. Af þeim skiluðu 11 framtali vegna ársins 2004, en tvö þeirra fengu áætlun. Af þeim 13 fyrirtækjum sem eru á skrá skattyfirvalda stunda sjö umboðsverslun með fisk.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að þær skattaívilnanir sem koma fram í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og varða alþjóðleg viðskiptafélög, verði afnumdar nema að því leyti að heimilt verði eftir sem áður að veita sk. lágmarksaðstoð ( de minimis) sem er að fjárhæð 100.000 evrur til félags á hverju þriggja ára tímabili. Jafnframt er kveðið á um að sú takmörkun eigi ekki við þegar starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags sé alfarið utan gildissviðs EES-samningsins eins og það er skilgreint í bókun 3 við EES-samninginn. Ákvæði frumvarpsins ná jafnt til þess tíma sem eftir er hjá starfsemi þeirra félaga sem hafa starfsleyfi og til þeirrar starfsemi sem þegar hefur átt sér stað, þ.e. kveðið er á um að endurgreiða beri til ríkissjóðs ef mismunur á skattgreiðslum alþjóðlegs viðskiptafélags, annars vegar eftir lögum nr. 29/1999 og hins vegar samkvæmt almennum skattalögum, er meiri en sem nemur 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Við mat á endurgreiðslu eða takmörkun ríkisaðstoðar er ávallt miðað við þá fjárhæð sem til kemur eftir að 100.000 evru de minimis markinu er náð.

Um 2. gr.


    Ákvæðið er sams konar og ákvæði 1. gr. nema það snýr að skattaívilnunum í lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga.

Um 3. gr.


    Ákvæðið er sams konar og ákvæði 1. gr. nema það snýr að skattaívilnunum í lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.

    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins frá 24. nóvember 2005 í máli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn íslenskum stjórnvöldum vegna ákvörðunar ESA frá 25. febrúar 2005 um íslensk lagaákvæði varðandi starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga og álagningu skatta og gjalda á þau. Samkvæmt frumvarpinu verða skattaívilnanir til alþjóðlegra viðskiptafélaga afnumdar nema að því leyti að heimilt verði að veita aðstoð að fjárhæð 100.000 evrur til slíkra félaga á hverju þriggja ára tímabili eða sem svarar til um 8,5 m.kr. á núverandi gengi. Lögfesting slíkrar reglu felur í sér nokkra takmörkun á því skattahagræði sem þessi félög hefðu annars notið til ársloka 2007. Hins vegar er um fá fyrirtæki um að ræða því einungis 13 alþjóðleg viðskiptafélög voru skráð rekstrarárið 2004 og voru umsvif þeirra og hagnaður ekki það mikil að lögfesting breyttra reglna á þessu sviði hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs verði það að lögum.