Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 733. máls.

Þskj. 1069  —  733. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um tekjuskatt ,
nr. 90/2003, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við greinina bætist nýr töluliður, 10. tölul., svohljóðandi: Hraðsendingar: Sendingar sem fluttar eru hingað til lands með flugi, fyrir milligöngu tollmiðlara, í samvinnu við erlend hraðflutningafyrirtæki.
     b.      19. tölul. orðast svo: Tollmiðlari: Lögaðili sem hefur leyfi ráðherra til að koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda.

2. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að afhenda hraðsendingar til notkunar innan lands áður en tollskjöl eru látin tollstjóra í té. Ráðherra ákveður frest til að skila tollskjölum vegna hraðsendinga með reglugerð.

3. gr.

    2. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Við greinina bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
                  Tollmiðlara er heimilt að afhenda hraðsendingu til notkunar innan lands án greiðslu aðflutningsgjalda, enda láti hann tollstjóra í té upplýsingar um verðmæti, tegund og þyngd sendingar og setji tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda. Ráðherra getur heimilað að trygging taki mið af þeim aðflutningsgjöldum sem ætla má að tollmiðlari verði ábyrgur fyrir vegna hraðsendingaþjónustu, í stað þess að trygging sé sett fyrir hverja sendingu.
     b.      2. mgr., er verður 3. mgr., og orðast svo:
                  Ráðherra setur nánari reglur um bráðabirgðatollafgreiðslur og hraðsendingar samkvæmt þessari grein.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Bráðabirgðatollafgreiðslur og hraðsendingar.

5. gr.

    39. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tollumdæmi.

    Landið skiptist í 8 tollumdæmi sem hér segir:
     1.      Suðvesturlandsumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og umdæmi lögreglustjóranna á Akranesi, í Borgarnesi og Stykkishólmi.
     2.      Vestfjarðaumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Ísafirði.
     3.      Norðurlandsumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjóranna á Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík.
     4.      Austurlandsumdæmi nyrðra: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Seyðisfirði.
     5.      Austurlandsumdæmi syðra: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði.
     6.      Suðurlandsumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjóranna á Selfossi og Hvolsvelli.
     7.      Vestmannaeyjaumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum.
     8.      Reykjanesumdæmi: Svæði sem nær yfir umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum.
    Ráðherra getur þó í reglugerð breytt mörkum tollumdæma ef sérstaklega stendur á.

6. gr.

    40. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tollstjórar.

    Tollstjórar eru tollstjórinn í Reykjavík í Suðvesturlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Ísafirði í Vestfjarðaumdæmi, lögreglustjórinn á Akureyri í Norðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Seyðisfirði í Austurlandsumdæmi nyrðra, lögreglustjórinn á Eskifirði í Austurlandsumdæmi syðra, lögreglustjórinn á Selfossi í Suðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum í Vestmannaeyjaumdæmi og lögreglustjórinn á Suðurnesjum í Reykjanesumdæmi.
    Sýslumenn í umdæmi hvers tollstjóra skulu veita allar nauðsynlegar upplýsingar er lúta að tollmeðferð vöru fyrir hönd tollstjóra í því umdæmi. Þeir skulu jafnframt veita tollskjölum viðtöku fyrir hönd tollstjóra.

7. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 61. gr. laganna orðast svo: Slíkt leyfi skal ekki veitt fyrr en aðkomuskýrsla, farmskrá og önnur þau skjöl sem lög og reglur áskilja hafa verið látin tollstjóra í té.

8. gr.

    Fyrirsögn 64. gr. laganna orðast svo: Ferming fars.

9. gr.

    Í stað orðsins „sakborningi“ í síðari málslið 3. mgr. 159. gr. laganna kemur: viðkomandi.

10. gr.

    2. mgr. 167. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnendum fara og farartækja er skylt að stöðva þau þegar tollvörður gefur um það merki.

11. gr.

    3. mgr. 172. gr. laganna orðast svo:
    Tollmiðlari sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til tollyfirvalda eða veitir rangar eða villandi upplýsingar við tollskýrslugerð skal sæta refsingu skv. 1. mgr. ef um er að ræða innflutning en skv. 2. mgr. ef um er að ræða útflutning.

12. gr.

    Nýr töluliður bætist við 1. mgr. 195. gr. laganna, svohljóðandi: Námskeiðsgjald sem skal standa straum af kostnaði Tollskóla ríkisins við námskeiðshald fyrir aðra en tollstarfsmenn.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða 111. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Skattar álagðir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð og hefur tollstjórinn í Reykjavík á hendi innheimtu þeirra í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur en sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum, sbr. þó 2.–4. mgr. þessarar greinar og ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Fjármálaráðherra getur ákveðið í reglugerð að fela öðrum aðila en þeim sem um getur í 1. mgr. innheimtu skatta samkvæmt lögum þessum í tilteknu umdæmi eða umdæmum. Á sama hátt getur ráðherra ákveðið að sami innheimtumaður annist innheimtu í fleiri en einu umdæmi.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007, fyrir utan ákvæði 1.–4. gr. og 7.–12. gr. sem öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara tekur tollstjórinn á Suðurnesjum við réttindum og skyldum gagnvart tollvörðum sem störfuðu hjá tollstjóranum í Keflavík. Þá tekur tollstjórinn í Reykjavík við réttindum og skyldum gagnvart tollvörðum sem störfuðu hjá tollstjóranum í Hafnarfirði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til tollalaga, sem fjármálaráðherra lagði fram til kynningar á 130. löggjafarþingi 2003–2004, var lagt til að tollumdæmum yrði fækkað úr 26 í 9. Rökin fyrir þeirri tillögu voru þau að á undanförnum árum hefðu átt sér stað grundvallarbreytingar á starfsumhverfi tollstjóra sem krefðust síaukinnar sérhæfingar á ýmsum sviðum. Markmið tillögunnar var því að ná fram aukinni sérþekkingu, samhæfingu og sveigjanleika í starfsemi tollyfirvalda á sviði tollheimtu, tollendurskoðunar og tollgæslu.
    Í frumvarpi því sem varð að gildandi tollalögum, nr. 88/2005, var horfið frá hugmyndum um fækkun tollumdæma að svo stöddu vegna þeirrar vinnu sem þá var í gangi um breytta skipan lögreglustjórnar á landsvísu. Í athugasemdum með því frumvarpi var hins vegar tekið fram að ef til breytinga kæmi á skipulagi lögreglustjórnar á landsvísu væri óhjákvæmilegt að taka skipan tollumdæma til endurskoðunar. Í ljósi þess að frumvarp um breytta skipan lögreglustjórnar er nú til meðferðar á Alþingi er talið nauðsynlegt að leggja fram meðfylgjandi frumvarp.
    Í frumvarpi þessu eru því einkum lagðar til breytingar á þeim ákvæðum tollalaga sem fjalla um tollumdæmi og stjórn þeirra. Að auki er í því að finna minni háttar breytingar á nokkrum ákvæðum tollalaga. Þá er lögð til breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, í því skyni að tryggja óbreytta skipan varðandi innheimtumenn ríkissjóðs þó svo að til fækkunar komi á tollumdæmum og þar með á tollstjórum, en samkvæmt gildandi lögum eru tollstjórar jafnframt innheimtumenn ríkissjóðs.
    Við undirbúning frumvarps þessa var farið vandlega yfir tillögur fyrirliggjandi frumvarps um breytta skipan lögreglustjórnar með tilliti til mögulegra breytinga á skipan tollumdæma. Jafnframt var horft til tölulegra upplýsinga um komur skipa og flugvéla og fjölda tollafgreiddra sendinga í hverju tollumdæmi eins og þau eru afmörkuð í dag til þess að mæla umfang tollamála í hverju umdæmi fyrir sig. Þær sýna glögglega að umfangið er mjög misjafnt milli umdæma og í sumum þeirra er það nánast ekki neitt eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Að teknu tilliti til þessara tveggja meginþátta er tillagan sú að tollumdæmi á landinu verði 8 talsins í stað 26 umdæma samkvæmt gildandi lögum.

Tillögur um fækkun tollumdæma úr 26 í 8 (ýmsar kennitölur m.v. árið 2004).

Fjöldi Sérhæfðir tollverðir Skipaafgreiðslur Flugafgreiðslur Aðflutningsskýrslur
1. Suðvesturlandsumdæmi (7)
– tollstjórinn í Reykjavík
58 1.626 2.390 301.620
– Reykjavík 55 859 2.388 257.946
– Hafnarfjörður 3 501 0 42.352
– Kópavogur 0 0 3
– Akranes 31 0 228
– Borgarnes 231 0 1.032
– Búðardalur 0 0 0
– Stykkishólmur 4 2 59
2. Vestfjarðaumdæmi (4)
– tollstjórinn á Ísafirði
1 50 65 292
– Ísafjörður 1 50 65 214
– Bolungarvík 0 0 36
– Hólmavík 0 0 23
– Patreksfjörður 0 0 19
3. Norðurlandsumdæmi (6)
– tollstjórinn á Akureyri
2 235 251 5.332
– Akureyri 2 107 248 4.543
– Sauðárkrókur 1 0 307
– Siglufjörður 52 1 178
– Blönduós 0 0 53
– Húsavík 75 2 237
– Ólafsfjörður 0 0 14
4. Austurlandsumdæmi nyrðra (1)
– tollstjórinn á Seyðisfirði
1 251 40 1.748
– Seyðisfjörður 1 251 40 1.748
5. Austurlandsumdæmi syðra (2)
– tollstjórinn á Eskifirði
2 523 56 1.518
– Eskifjörður 2 452 0 1.402
– Höfn 71 56 116
6. Suðurlandsumdæmi (3)
– tollstjórinn á Selfossi
1 27 0 2.021
– Selfoss 1 27 0 2.018
– Hvolsvöllur 0 0 3
– Vík 0 0 0
7. Vestmannaeyjaumdæmi (1)
– tollstjórinn í Vestmannaeyjum
2 181 1 327
8. Reykjanesumdæmi (2)
– tollstjórinn á Keflavíkurflugvelli
37 173 21.932 77.985
– sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli 35 0 21.932 76.098
– Keflavík 2 173 0 1.887
Samtals 8 tollumdæmi (26) 104 3.066 24.735 390.843
Umræddir 8 tollstjórar fyrir breytingu 99 1.927 24.674 344.296
Hlutfall af heild, % 95,2 62,9 99,8 88,1

    Eins og fram kemur í töflunni er í meginatriðum lagt til að tollumdæmin fylgi afmörkun lykilembætta hjá lögreglunni, þ.e. þeirra embætta þar sem sérstakar rannsóknardeildir lögreglu verða starfræktar, sbr. fram komið frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Þó er gert ráð fyrir að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum gegni áfram hlutverki tollstjóra vegna legu eyjanna þrátt fyrir að ekki sé starfrækt rannsóknardeild við embættið. Jafnframt er lagt til að lögreglustjórinn á Seyðisfirði verði áfram tollstjóri, ekki síst vegna þeirra miklu umsvifa sem þar eru á sviði tollamála, bæði við stóriðjuframkvæmdir eystra og vegna reglubundinna ferjuflutninga til og frá landinu. Þá er gert ráð fyrir að umdæmi tollstjórans á Reykjavík nái yfir umdæmi lögreglustjóranna á Akranesi, Borgarnesi og Stykkishólmi í vestur. Í því sambandi er einkum horft til þess að enginn tollvörður er starfandi á þessu svæði eins og málum er háttað en tollstjórinn í Reykjavík hefur á að skipa öflugu lið tollvarða sem unnt er að samnýta án teljandi hindrana.
    Eins og áður var bent á kalla miklar breytingar í starfsumhverfi tollstjóra á undanförnum árum óhjákvæmilega á fækkun og stækkun tollumdæma. Ein stærsta breytingin felst í rafrænni tollafgreiðslu sem var tekin upp fyrir nokkrum árum. Rafræn tollafgreiðsla felur í sér mikið hagræði fyrir inn- og útflytjendur þar sem þeir geta skilað rafrænum tollskýrslum í gegnum tölvukerfi tollyfirvalda. Afleiðingin af þessu fyrirkomulagi er að dregið hefur úr beinu eftirliti við tollafgreiðslu vöru og byggist tolleftirlit nú að mestu á skipulagðri tollendurskoðun. Tollendurskoðun felur í sér endurskoðun tollafgreiðslna eftir að þær hafa farið fram. Krefst tollendurskoðun aukinnar sérhæfingar tollstarfsmanna, m.a. aukinnar þekkingar á bókhaldi fyrirtækja og er brýnt að fjölga sérhæfðum tollstarfsmönnum á landsbyggðinni. Þá er mikilvægt að úrskurðarvald í tollamálum verði hjá stjórnvaldi sem hefur sérþekkingu á málaflokknum. Eins og málum er nú háttað er í sumum tollumdæmum nánast engin starfsemi á sviði tollamála og sérþekking á þessu sviði því afar takmörkuð.
    Önnur viðamikil breyting í starfsumhverfi tollstjóra er aukin áhersla alþjóðasamfélagsins á varnir gegn hryðjuverkum og útflutningseftirlit í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hryðjuverk. Munu tollstjórar í náinni framtíð þurfa að takast á við viðamikil verkefni á þessu sviði vegna alþjóðaskuldbindinga Íslands. Tollyfirvöldum hefur verið falið veigamikið hlutverk við framkvæmd farmverndar, sem er einn þáttur í siglingavernd er miðar að því að tryggja vernd skipa og hafna. Með farmvernd er átt við fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar farms til að koma í veg fyrir hryðjuverk og aðra ógn sem stafar af ólögmætum aðgerðum. Síaukin áhersla á eftirlit með innflutningi fíkniefna til landsins kallar einnig á styrka stjórn tollgæslu að því leyti.
    Breytt starfsumhverfi kallar á aukna sérhæfingu hjá tollstjórum eins og áður sagði og mikilvægi áhættugreiningar hefur aukist til muna á sama tíma. Tilgangur áhættugreiningar er að finna og takast á við áhættuþætti vegna inn- og útflutnings, t.d. ólöglegan innflutning og undanskot aðflutningsgjalda. Í tollalögum er tollstjóranum í Reykjavík falið að annast skipulag áhættugreiningar á landsvísu en með fækkun og stækkun tollumdæma er talið að skipulag og stjórn þeirrar vinnu hjá einstökum tollstjórum verði markvissari. Þá er mikilvægt að tryggja samræmda túlkun og beitingu réttarreglna um allt land. Með fækkun tollumdæma er hægara um vik að samræma tollframkvæmdina en dæmi eru um að misræmi hafi myndast í tollframkvæmd milli einstakra tollumdæma. Einnig er mikilsvert að auka sveigjanleika í nýtingu mannafla til að auðvelda með skjótum og öruggum hætti tímabundna tilfærslu tollstarfsmanna um landið þegar mæta þarf auknu álagi á einum stað með liðsauka frá öðrum. Samkvæmt framansögðu er tilgangur með fækkun tollumdæma að ná fram frekari sérþekkingu, samhæfingu og sveigjanleika í starfsemi tollyfirvalda á sviði tollheimtu, tollendurskoðunar og tollgæslu.
    Samanburður á skipulagi tollumdæma annars staðar á Norðurlöndum og á Íslandi leiðir í ljós að tollumdæmi hér á landi eru margfalt fleiri en hjá norrænum nágrönnum okkar en þar hefur þróunin síðustu ár verið sú að tollumdæmum hefur verið fækkað verulega. Þá er málafjöldi í hverju tollumdæmi hér á landi að sama skapi margfalt minni. Í Noregi var tollumdæmum fækkað úr 10 í 6 á árinu 2004 og í Svíþjóð var landið allt gert að einu tollumdæmi árið 2004. Í Danmörku eru tollumdæmi 8 og í Finnlandi eru tollumdæmi 5 talsins. Sú breyting sem lögð er til í þessu frumvarpi færir okkur því skrefi nær þeirri þróun sem orðið hefur á norrænum vettvangi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér eru lagðar til minni háttar breytingar á skilgreiningum tollalaga. Annars vegar er ný skilgreining á hugtakinu „hraðsending“. Hugtakið hefur verið skilgreint í reglugerð en rétt þykir að það sé einnig skilgreint í tollalögum. Hins vegar er lítils háttar lagfæring á skilgreiningu hugtaksins „tollmiðlari“. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að skýr heimild til afhendingar hraðsendingar til notkunar innan lands, áður en viðeigandi tollskjöl yfir hana eru látin tollstjóra í té, verði leidd í lög. Þá er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til þess að ákveða skilafrest á tollskjölum yfir hraðsendingar með reglugerð. Eðlilegt þykir að kveðið verði á um þessi atriði með afdráttarlausum hætti í tollalögum og reglugerð.

Um 3. gr.

    Lagt er til að 2. mgr. 28. gr. laganna falli brott þar sem tollstjóranum í Reykjavík er falin ákvörðun um form tollskjala og atriði sem skal tilgreina þar í 4. tölul. 43. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að tollmiðlurum verði heimilt að afhenda hraðsendingu án greiðslu aðflutningsgjalda, enda láti tollmiðlari tollstjóra í té upplýsingar um verðmæti, tegund og þyngd sendingar og setji tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda. Þá er lagt til að heimilt verði að setja tryggingu sem taki mið af þeim aðflutningsgjöldum sem ætla má að tollmiðlari verði ábyrgur fyrir vegna hraðsendingaþjónustu, í stað þess að trygging sé sett fyrir hverja sendingu. Eðlilegt þykir að kveðið verði á um hraðsendingar með skýrum hætti í 36. gr. tollalaga. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 39. gr. tollalaga sem fjallar um afmörkun tollumdæma. Meginbreytingin er sú að tollumdæmum í landinu verði fækkað úr 26 í 8. Fækkun tollumdæma mun þó ekki hafa í för með sér breytingu á fjölda tollhafna enda er mælt fyrir um sérstök skilyrði í 41. gr. tollalaga sem hafnir verða að uppfylla til þess að varða taldar tollhafnir. Hins vegar mun fækkun tollumdæma hafa í för með sér að sérhver tollstjóri mun þjónusta eftir atvikum fleiri tollhafnir án þess þó að það þurfi að koma niður á þjónustunni. Um nánari rökstuðning fyrir þessari breytingu vísast til almennra athugasemda hér að framan.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að eftirtaldir lögreglustjórar verði tollstjórar auk tollstjórans í Reykjavík: lögreglustjórinn á Ísafirði, lögreglustjórinn á Akureyri, lögreglustjórinn á Seyðisfirði, lögreglustjórinn á Eskifirði, lögreglustjórinn á Selfossi, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum og lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli. Um nánari rökstuðning fyrir þessari breytingu er vísað til almennra athugasemda hér að framan.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að sýslumenn í hverju tollumdæmi skuli annast tiltekið fyrirsvar fyrir tollstjóra í því umdæmi. Í því felst að sýslumenn, sem ekki eru tollstjórar, hafa með höndum þjónustuhlutverk gagnvart inn- og útflytjendum og öðrum sem ráðstafa vöru til tollmeðferðar, einkum varðandi móttöku gagna. Þeir munu einnig hafa það hlutverk að veita upplýsingar um atriði er varða tollmeðferð vöru hvort sem er til innflutnings eða útflutnings og verður því engin breyting á þjónustustigi á einstökum stöðum á landinu.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að orðin „látin tollstjóra í té“ verði notuð í stað orðanna „afhent tollstjóra“ þar sem skjöl berast til tollstjóra með rafrænum hætti í stórauknum mæli.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að fyrirsögn 64. gr. verði „Ferming fars“ þar sem það þykir lýsa efni greinarinnar betur en orðin „Brottfararafgreiðsla fars“.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að orðið „viðkomandi“ komi í stað orðsins „sakborningi“ í 2. málsl. 3. mgr. 159. gr. vegna þess að heimildir tollstjóra samkvæmt ákvæðinu lúta ekki eingöngu að sakborningum. Þykir rétt að tryggja öllum sem þurfa að sæta leit á grundvelli 159. gr. þann rétt sem mælt er fyrir um í málsgreininni.

Um 10. gr.

    Í greininni er orðunum „fara og“ bætt inn í 2. mgr. 167. gr. til þess að tryggja samræmi á milli framsetningar heimilda í 2. og 3. mgr. greinarinnar.

Um 11. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 3. mgr. 172. gr. sem fjallar um refsiábyrgð tollmiðlara. Lagt er til að tilgreining lágmarks- og hámarksfjárhæðar sektar verði felld brott í þeim tilvikum þegar tollmiðlari aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf eða veitir rangar eða villandi upplýsingar, af ásetningi eða gáleysi, við tollskýrslugerð við útflutning en í staðinn varði sú háttsemi sektum eftir ákvörðun dómstóla hverju sinni því að jafnaði eru engin gjöld lögð á vöru við útflutning hennar.

Um 12. gr.

    Á vegum Tollskóla ríkisins eru haldin margs konar námskeið fyrir aðra en tollstarfsmenn um ýmis atriði er lúta að samskiptum við tollyfirvöld. Eðlilegt þykir að skólanum verði tryggðar heimildir í tollalögum til þess að krefja þátttakendur um sanngjarnt námskeiðsgjald og skal fjárhæð gjaldsins miðuð við þann kostnað sem hlýst af því að halda námskeiðin.

Um 13. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 1. og 2. gr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til þess að tryggja óbreytta skipan við álagningu og innheimtu skatta í stjórnsýsluumdæmum landsins eins og þau eru ákveðin skv. 2. gr. laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, og reglugerð nr. 57/1992, um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Það þýðir að sýslumenn annast áfram innheimtu skatta ef frá er talinn sýslumaðurinn í Reykjavík en tollstjórinn í Reykjavík annast innheimtu skatta í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir að tollstjórarnir í Reykjavík og á Suðurnesjum taki við aðild ríkisins að starfssambandi tollvarða, sem eru skipaðir eða settir til starfa hjá tollstjórunum í Keflavík og Hafnarfirði. Tollstjórar stækkaðra tollumdæma munu því taka yfir réttindi og skyldur gagnvart hlutaðeigandi tollvörðum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005,
og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum

    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar frumvarps um breytta skipan lögreglustjórnar á landsvísu þar sem lögð er til fækkun á lögregluumdæmum. Líkt og hjá löggæsluembættum hafa orðið ýmsar breytingar á starfsumhverfi tollstjóra sem kalla á fækkun og stækkun umdæma. Tollafgreiðsla er í auknum mæli orðin rafræn, dregið hefur úr beinu eftirliti við afgreiðslu á vörum en aukin áhersla lögð á tollendurskoðun og sérþekkingu tollstarfsmanna á ýmsum sviðum. Helsta breytingin samkvæmt frumvarpi þessu snýr því að skipulagi tollyfirvalda eftir umdæmum en lagt er til að þeim verði fækkað úr 26 í 8 í því skyni að gera yfirstjórnina markvissari á landsvísu. Tollstjórar verða þá einnig átta talsins. Þeir sýslumenn sem ekki gegna hlutverki tollstjóra verða umboðsmenn hans í viðkomandi umdæmi. Eftir sem áður er fyrirhugað að tollafgreiðslustaðir, eftirlit og þjónusta verði með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin ár. Er því ekki ástæða til að ætla að þessi skipulagsbreyting hafi umtalsverð áhrif á rekstrarkostnað tollgæslunnar þegar á heildina er litið. Stærri umdæmi veita meira svigrúm til lengri tíma litið til að hagræða og laga starfsemina betur að breyttum þörfum og forgangsraða þeim fjármunum sem varið er til tollamála hjá fjármálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að ávinningi af slíkri hagræðingu verði varið til að efla og bæta starfsemi tollgæslunnar. Verði frumvarpið að lögum er því ekki fyrirhugað að gera breytingar á framlögum til þessa málaflokks en vera má að síðar komi til einhverra skipulagsbreytinga á grundvelli stærri þjónustusvæða sem muni hafa í för með sér tilflutning á fjárveitingum á milli embætta og ráðuneyta. Kostnaður sýslumannsembætta af tollgæslu er sérgreindur í fjárveitingum og reikningshaldi og á því að liggja ljóst fyrir hvaða fjárheimildir eru fyrir hendi á hverjum stað.
    Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, en fjárheimildir munu færast á milli stofnana og ráðuneyta.