Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 736. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1072  —  736. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á áhrifum rafsegulsviðs farsíma og rafsegulbylgna á mannslíkamann.

Flm.: Drífa Hjartardóttir, Kjartan Ólafsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Sigurrós Þorgrímsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir,
Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að standa fyrir faraldsfræðilegri rannsókn á mögulegum áhrifum rafsegulsviðs farsíma og rafsegulbylgna á mannslíkamann.
    Rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöðum hennar skilað fyrir 1. október 2016.
    Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar strax að henni lokinni.

Greinargerð.


    Flutningsmenn telja mikilvægt nú á tímum ört vaxandi tæknivæðingar að fram fari upplýst umræða um áhrif rafsegulsviðs farsíma og rafsegulbylgna á mannslíkamann og telja að rannsóknir séu mikilvæg forsenda þess. Margs konar búnaður og tæki eins og farsímar byggjast á rafsegulbylgjum og rafsegulsviði og skipar æ ríkari sess í daglegu lífi mannsins hvort sem litið er til heimilis eða vinnustaða.
    Erlendar rannsóknir leiða æ meiri líkur að því að rafsegulsvið hvers konar geti haft alvarleg áhrif á heilsu og líðan fólks. Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á mannslíkamann eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira að umhverfinu til að skoða hvort orsakir sjúkdóma og vanheilsu sé að finna þar, t.d. hvort rafmagnsmannvirki geti valdið heilsutjóni hjá þeim sem búa eða vinna í nágrenni þeirra.
    Í október 2005 kom út skýrsla á vegum breskrar heilbrigðisstofnunar (e. „Health Protection Agency“) þar sem leitast var við að skilgreina rafsegulsóþol og greina það faraldsfræðilega. Niðurstaða skýrslunnar er að rafsegulsóþol sé líkamleg veikindi en ekki andleg eins og talið hafði verið og í henni er viðurkennt að rafsegulsvið farsíma, háspennumastra og tölvuskjáa kunni að valda t.d. ógleði, svima, höfuðverk, hjartsláttartruflunum, minnisleysi og vöðvaverkjum. Breska skýrslan er viðurkenning á nauðsyn þess að rannsaka rafsegulsóþol ekki eingöngu með tilliti til orsaka veikindanna heldur einnig með tilliti til meðhöndlunar og lækninga. Fram kom að rannsóknir Breta muni á næstunni snúast um að lýsa rafsegulsóþoli og skilja það og finna staði sem eru hentugir til að meðhöndla einkennin, en talið er að fjöldi þeirra Breta sem telja sig þjást af óþolinu hafi aukist mjög síðustu ár.
    Flutningsmenn telja vert að skoða nýgengi krabbameins í heila, gláku og annarra augnskemmda hafi aukist síðan notkun farsíma hófst bæði hjá börnum og fullorðnum. Erlendar upplýsingar benda til þess að krabbamein í heila barna sem noti farsíma hafi orðið algegnara.
    Segja má að hér sé um nýja tegund mengunar að ræða, þ.e. rafsegulsmengun, og telja flutningsmenn tímabært að hér á landi verði framkvæmd faraldsfræðileg rannsókn á áhrifum rafsegulsviðs í farsímum og rafsegulbylgna á mannslíkamann. Lagt er til að rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöður hennar kynntar Alþingi eigi síðar en 1. október 2016. Hér á landi eru á margan hátt kjöraðstæður til að gera faraldsfræðilegar rannsóknir á tengslum umhverfisþátta og hugsanlegri krabbameinshættu. Er þetta að þakka nákvæmum lýðskrám sem geyma upplýsingar um búsetu og nýgengi krabbameins og hugsanlegt er að rannsóknin geti verið afturvirk að einhverju leyti.
    Flutningsmenn benda á að slík rannsókn geti farið fram á vegum landlæknisembættisins, hugsanlega í samvinnu við fyrirtæki og opinberar stofnanir svo sem Geislavarnir ríkisins, Vinnueftirlit ríkisins, Löggildingarstofu og Orkustofnun. Þá telja þeir æskilegt að leitað sé samstarfs við stjórnvöld og vísindamenn í öðrum ríkjum, jafnvel þannig að rannsóknin yrði hluti af fjölþjóðlegri rannsókn. Slíkt skyti styrkari stoðum bæði undir fjárhagslegan grundvöll verkefnisins og niðurstöðurnar.